Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019

Kafli 17. Bati framundan

17. kafli

Bati framundan

Það var runnið upp árið 1997 og við tók endurhæfing. Ég þurfti að vera nokkurn tíma í sambandi við spítalann. Þeir voru að reyna að átta sig á hvaða lyf myndu henta mér og hvað ekki. Ég hafði fallið langt niður fyrir mörkin í skjaldkirtilshormónum og það var verið að stilla það upp á nýtt. Ég var í svokallaðri dagsinnskrift sem þýddi að ég mátti vera úti á daginn og koma á kvöldin.

Þegar leið á vikurnar tók við annað ferli. Ég þurfti að mæta á daginn og sækja lyf og svo mátti ég sofa heima. Ég hafði hætt í skólanum og ég treysti mér ekki þangað aftur, þó svo að nemendur hefðu komið á spítalann til að hvetja mig til að halda áfram. Skólastjórinn hafði samþykkt að ég mætti halda áfram og svo var verið að segja mér að bestu listamenn í heiminum hefðu allir verið geðveikir.

Ég gat ekki sætt mig við þetta orð og ég gat ekki horfst í augu við að ég væri eitthvað veik. Ég leit á þetta tímabil sem eitthvað sem hefði klikkað eða að teppinu hefði verið kippt undan mér. Ég gat ekki hlustað á það að ég væri með varanlegan geðsjúkdóm. Ég spurði lækninn minn alltaf að því þegar ég fór í viðtal hvort þetta væri ekki misskilningur. Hann sagði að svo væri ekki og ég mætti ekki hætta að taka lyfin ef ég ætlaði að halda jafnvægi.

Hvernig gat ég verið viss um að allt sem ég hefði heyrt og allt sem ég hefði séð væri bara vitleysa? Mér fannst eins og fólk gæti ekki trúað á Guð af því að það væri engin sönnun. Hvernig átti ég að trúa því að lífið væri bara eins og maður sér það þegar maður er á lyfjum en ekki eins og maður sér það án lyfja? Ég hafði aldrei verið í vímuefnum og ég var ekki drykkjumanneskja. Ég hafði alltaf treyst á dómgreind mína. Hvað er það sem gat sannfært mig um að dómgreind mín hefði farið út af sporinu?

Ég fór að fara í viðtöl á Hvítabandinu. Ég kveið því að þurfa að takast á við þetta líf án þess að vera í daglegu sambandi við lækna. Ég kveið því að þurfa að telja lyfin mín í lyfjaboxið. Ég fann að einbeitingin var ekki til staðar. Ég var farin að missa alla trú á dómgreind mína. Hvernig gat ég vitað að ég væri að gera rétt hverju sinni? Hvernig gat ég verið viss um að gleði mín einn daginn væri ekki geðhvörf? Hvernig gat ég verið viss um að reiði mín væri ekki geðhvörf? Hvernig gat ég verið viss um að sorg mín væri ekki geðhvörf?

Þetta var langur og þéttur skógur sem var framundan. Ég sá fólk í misjöfnu ástandi á fundum sem ég sótti. Ég reyndi að hlusta á sögur þess og setja mig í samhengi við þær sögur. Sumar sögurnar fannst mér heimskulegar, of litlar til að gera mál úr. Ég gat samt ekki horfst í augu við það að ég hefði sjálf svipaða sögu að segja.

Móður minni fannst erfitt að horfast í augu við það að ég þyrfti að taka lyf. Hún gat aldrei sætt sig við það að dóttir hennar væri með geðhvörf. Hún vildi frekar finna aðra skýringar, eins og flogaveiki eða vanstarfsemi í skjaldkirtli. Ekki geðhvörf. Fordómar þjóðfélagsins fóru að segja til sín og ég fór að fela sjúkdóminn eins og hann væri smitandi eða hættulegur.

Ég fékk ekki líftryggingu eftir þetta og varð að fara að safna fyrir lífeyrir á annan hátt. Örorkan sem fylgdi þessu og hamlandi traust á sjálfa mig olli því að ég hafði ekki trú á að ég myndi ná þeim bata sem þyrfti til að halda heilsdagsvinnu. Afneitun gagnvart ástandinu gerði hlutina erfiðari, bæði fyrir bata sjúklings og skilning aðstandenda. Vantraust á dómgreind einstaklingsins gerði það að verkum að spurningin um hæfni mína til að sjá um börnin olli hugarangri barnsföður. Allir í kringum mig vissu ekki hvað hefði gerst. Allir í kringum mig voru hræddir við að spyrja. Ég gat kannski ekki útskýrt það strax, því ég vissi það ekki sjálf. Ég vissi bara að ég var hætt að trúa á sjálfa mig. Ég varð bara að treysta á Guð.

Guð var jafn augljós fyrir mér eins og ég var óljós fyrir mér. Ég vildi ekki trúa að geðhvörfin mín væru sannleikur. Ég vildi ekki trúa að ég væri veik. Ég gat ekki viðurkennt að ég væri geðveik. Guð getur bara gefið mér svarið. Ég verð að trúa.

 

Hver dagur er sigur

Ég sótti fundi reglulega og tók lyfin samviskusamlega. Ég ætlaði ekki að taka áhættuna af því að þetta myndi gerast aftur. Ég mátti ekki við því og börnin mín máttu ekki við því, þar sem faðir þeirra var fluttur til Bandaríkjanna og giftur þar. Hann hafði hringt á spítalann nokkrum dögum eftir að ég var lögð inn, til að tilkynna mér að hann væri að fara þangað. Hann tók samt Sunnu út til sín í fjóra mánuði stuttu eftir að ég útskrifaðist. Ég vildi ekki senda Skorra, þar sem hann var svo háður mér og gat ekki verið annars staðar en hjá mér. Ég þurfti að finna nýja íbúð, þar sem íbúðin í Árbænum hafði verið seld.

Bataferli sjúklings með geðsjúkdóm líkist því að manneskja fari út á þunnan ís á vatni og ísinn brotnar undan henni. Þegar manneskjan nær að komast upp úr vatninu og upp á ísinn aftur, þorir hún ekki að stíga of fast niður. Það er misjafnt hvað fólk er lengi að finna styrk íssins og hve þykkur hann er til að byrja með og ganga á venjulegan hátt. Sumir fara of hratt af stað, brjóta ísinn aftur og detta hvað eftir annað ofan í ískalt vatnið. Aðrir reyna að fara hægt og þurfa jafnvel einhvern til að hvetja sig áfram, því óttinn við að sökkva aftur er svo ofarlega í huga.

Það veit enginn sem hefur ekki gengið þennan veg hve þunnur ísinn er hjá hverjum og einum. Það veit aðeins sá sem hefur lent í því. Þegar einstaklingur segir að hann megi ekki stíga fastar til jarðar eða fara sér hraðar, er það vegna þess að þessi einstaklingur er búinn að finna styrkleik undirlagsins hjá sér og hvað hæfir honum.

Þetta er staðreynd sem hver og einn þarf að horfast í augu við til að lenda ekki í þeirri aðstöðu að gefast upp. Ef einstaklingurinn finnur að ísinn er að brotna hvað eftir annað, getur verið að hann leggi árar í bát. Vonin deyr í hjarta hans, sjálfstraustið hverfur, þrekið þverr og hann gefst upp. Það er barátta á hverjum degi við að finna tilgang í því sem virðist vera blekking. Það þarf kjark til að takast á við það og búa til nýja von. Hver dagur er sigur og hver dagur gefur von. Að búa sér til verkefni er nauðsynlegt til að skuldbinda sig til að ljúka þeim. Verkefnaleysi er dauðans alvara.

 


Kafli 16. unbrake my heart

16.kafli

 

„Unbrake my heart“

Þegar ég þurfti að losa um orku fór ég á hlaupabretti sem var inn í föndurherbergi. Ég fann að ef ég púlaði svolítið, hjálpaði það mér að slaka á. Þarna voru konur að föndra fyrir jólin. Þær voru að mála jólasveina og búa til jólaskraut. Þær buðu mér að setjast hjá þeim að skreyta en ég hafði engan áhuga á því. Einn daginn þegar konan sem var að kenna og bauð mér að setjast, ákvað ég þó að teikna mynd. Konunni leist vel á það.

Ég náði mér í tréliti og fór að teikna mynd af jörð sem var öll að hrynja. Það var ljón sem var hlekkjað við eitt húsið. Jörðin var að hrynja allt í kringum það. Það var engin undankomuleið fyrir það. Svo teiknaði ég annað ljón, sem var uppi á einu húsinu. Það var að reyna að komast að hlekkjaða ljóninu en það var ekki svo auðvelt, þar sem öll jörðin var hrunin. Þegar ég var á kafi að teikna þetta bað konan mig um að leyfa sér að sjá. Ég leyfði henni það. Hún sagði þá við mig: „Af hverju að teikna svona sorglegt, af hverju teiknar þú ekki eitthvað fallegt?“

Ég fór þá að horfa í kringum mig. Hvað á ég þá að teikna? Ég fór að hugsa um gamla myndlistarkennarann minn. Hann sagði alltaf: „Til að geta teiknað appelsínu, þurfið þið að vita hvernig appelsínu líður.“ Já, ég verð að teikna appelsínu. Ég verð að teikna svo safaríka appelsínu að öllum langi að borða hana. Kannski er það nógu fallegt.

Ég byrjaði að teikna appelsínuna á sama hátt og mér var kennt að teikna kúlu í skólanum. Ég setti alla skugga og alla birtupunkta á þann stað þar sem þeir áttu að vera. Ég gerði hana eins raunverulega og ég gat. Þegar konan kom aftur til mín að skoða myndina sagði hún: „Þetta er miklu betra.“ Ég vissi það. Ég vissi að það var þetta sem hún vildi. Henni þurfti ekkert að finnast að myndin sem mig langaði að teikna skipti máli. Það var mín mynd.

Þegar ég var á kafi að klára appelsínuna kom ungur læknir og hallaði sér yfir mig og horfði yfir öxlina á mér. Hann spurði mig: „Af hverju ertu að teikna appelsínu?“ Ég svaraði bara alveg eins og ég uplifði að hlutirnir voru: „Vegna þess að ef ég má ekki vera Jesús, ætla ég bara að vera appelsína.“ Hann stóð upp og gekk í burtu. Ég vonaði að ég hefði ekki spælt hann eða sagt eitthvað rangt. Ég stóð svo upp og setti myndina upp í hillu hjá konunni sem sá um föndrið. Ég gaf henni myndina.

Ég vissi að konan vildi ekki sjá þjáningu mína, alveg eins og Davíð þegar ég málaði myndina af ást minni til hans. Ég vissi að hún vildi sjá mig glaða og ánægða. Það er of erfitt að horfa á sársauka fólks. Þess vegna teiknaði ég appelsínu. Ég vissi að læknirinn vildi ekki trúa því að ég væri vendari Jesús, hann vildi ekki horfa á flótta minn frá raunveruleikanum. Ég teiknaði þá það sem þau vildu sjá. Appelsínu. Appelsína er bragðgóð safarík og gefur manni orku. Ef ég var appelsína, var ég raunveruleg. Ef ég var appelsína var ég ekki sorgleg. Ég vissi ekki hvort læknirinn héldi að ég hefði sagt þetta án merkingar. Kannski hélt hann að þetta svar mitt væri hluti af flótta mínum. Hann vissi ekki að þetta svar mitt var hluti af flótta þeirra yfir því sem ég var.

Ég fór þá inn í herbergið mitt og setti á mig heyrnatólin og spilaði lagið „Unbrake my heart“ með Toni Braxton.

Þannig gat ég starað út í myrkrið sem var úti á kvöldin og myrkrið inni í hjartanu á mér þessa daga. Það virtist eins og tómleiki væri að hellast yfir mig. Þegar ég lá í rúminu gat ég kuðlað mig saman og haft þetta lag stanslaust í eyrunum á meðan tárin runnu niður stanslaust án þess að ég væri raunverulega að gráta. Ég leyfði bara sorginni að flæða út. Sorginni að hann væri farinn. Ég fann að ró færðist yfir mig.

Dagarnir voru allir með föstu sniði. Það var morgunmatur, lyf, hádegismatur, lyf, síðdegiskaffi, kvöldmatur, lyf. Stundum var spjallað eftir kvöldmat og ég fór að taka gítarinn minn með mér inn á reyk. Ég spilaði þessi lög sem ég hafði samið og söng fyrir fólkið. Því fannst þetta gaman þó svo að ég kynni ekki að spila einhver óskalög. Þetta var orðinn nokkuð þéttur hópur sem gat skemmt sér.

Það var stelpan sem skar sig, konan í bláa sloppnum, ungur strákur sem skar sig líka, konan með Cheeriosið og diet kókið, maðurinn á tölvunni sem var alltaf að fara í rafmeðferð og maðurinn sem átti konfektmolana en hann var fyrrverandi lögregluþjónn. Svo var þarna maður sem hafði einu sinni kallað í mig inn í herbergi til sín og gefið mér blómavasa og sagði mér að hann héti Aðalsteinn. Hann var mjög myndarlegur en ég átti mann í huga mínum. Það var líka kona þarna sem var með heyrnartæki þar sem hún heyrði nær ekkert var að reyna að lesa varir. Hún virtist vera mjög þung á brún.

Ég var send í einhverja heilamælingu með snúrum sem voru tengdar við tölvu. Ég vissi ekki hvað þeir væru að mæla en ég vissi að þeir hlytu að finna eitthvað merkilegt.

Ég fór að fara í viðtöl hjá dökkhærða manninum og faðir minn mætti mjög oft í þessi viðtöl. Það var alltaf verið að tala um veikindi og ég skildi ekki hver var veikur. Mér fannst að þeir væru að miskilja þetta allt saman.

Ég var spurð hvort ég gerði mér grein fyrir því að ég væri inni á spítala og ég sagði að það gæti verið. Ég var farin að átta mig á því að þetta var einhvers konar stofnun. Það virtust allir vera mjög daufir og stundum fannst mér fólk ekki vera með neinn húmor. Það var talað við sumt fólk eins og börn. „Nei, en hvað þetta er fallegur jólasveinn hjá þér“ og þar fram eftir götunum. Ég fór að nota þrekhjólið sem var þarna reglulega til að ná upp þreki og fannst gott að vera á því þegar ég fann fyrir eirðarleysi. Ég hlustaði þá á músík sem ég var með á diskum.

Einn daginn fannst mér að ég þyrfti að fara út í þéttfallinn snjóinn sem ég sá í gegnum stofugluggann. Ég bað konuna í dyrunum að leyfa mér að fara, þar sem ég væri full af spennu og þyrfti meira púl en á þessu hlaupabretti. Hún fékk leyfi hjá einhverjum og sagði mér loksins að ég mætti fara ef ég kæmi strax aftur. Ég lofaði því. Þegar ég var búin að hlaupa í klofháum snjónum í einhvern tíma, fann ég að þetta var alltof kalt til að gera þetta í venjulegum buxum og strigaskóm. Ég fór því til baka.

Þegar ég kom til baka fór ég að finna fyrir mikilli mæði og það var einsog ég væri að missa máttinn. Þá sá ég mann í hvítum slopp og ég sagði við hann: Heyrðu ég held að ég sé að fá hjartaáfall. Hann svaraði því að ég væri alltof ung til að fá hjartaáfall. Þá fann ég mikinn þrýsting í brjóstinu og datt niður og andaði eins og móður hundur. Ég hristist og skalf þarna á hnjánum. Ég gat ekki slakað á og fólkið var farið að reyna fá mig til að standa á fætur en ég gat ekki staðið. Ég fann bara fyrir þeirri tilfinningu að mig langaði að kreppa mig alla saman og anda eins og ég hefði gengið upp á hátt fjall og ofgert mér. Þau báru mig í rúmið og þar sem rúmið var á hjólum, fór það að hreyfast um allt herbergið á meðan ég hristist og skalf. Þau komu svo með eitthvað sem ég átti að drekka og fékk að vita það seinna að það var largactil. Ég fann að ró færðist yfir mig og ég náði að slaka á. Eftir þetta bættist við bleik tafla í lyfin sem hét rivotil og ég fékk reglulega.

 

Ég var farin að átta mig á því að það var ekki allt með felldu. Ég vissi bara ekki hvað það var. Ég fór inn í reykherbergi og sat þar ein með konunni sem var að borða Cheeriosið og hellti diet kók yfir. Ég sagði upp úr þurru: „Hvers vegna ertu alltaf að borða Cheerios með diet kók“? Hún hafði aldrei talað og aldrei sýnt nein viðbrögð en við þetta öskraði hún eins og það væri einhver að fara að drepa hana.

Ég varð skelfingu lostin. Fólk hljóp til og tvær manneskjur þutu inn í herbergið og reyndu að róa hana. Svo sögðu þau henni að koma og fá lyfin sín. Hún vildi það ekki í fyrstu en þau sögðu henni að hún yrði að gera það. Þá fóru þau með hana og ég stóð þarna eins og illa gerður hlutur og var mjög miður mín að hafa hrætt hana svona.

Ég fór fram og þar hitti ég dökkhærða manninn. Ég sagði við hann: „Þú verður að laga mig, ég þarf að komast út til að hugsa um börnin mín.“ Hann sagði að hann væri að reyna það. Ég spurði hann svo að því hvort hann hefði örugglega tekið blóðprufu til að kanna hvort ég væri nokkuð að taka vímuefni. Ég vissi að mamma var mjög áhyggjufull yfir því að ég væri að taka inn einhver eiturlyf. Hann sagði að hann hefði gert það og það hefði ekkert fundist. Mér létti. Ég lét hann svo fá bókina sem ég hafði skrifað í á þessu tímabili og sem ég hafði sýnt bróður mínum. Ég var að vona að hann gæti áttað sig betur á því hvað væri að gerast. Næst þegar ég talaði við hann spurði hann mig af hverju ég skrifaði bæði á ensku og íslensku í bókina. Ég svaraði: „Vegna þess að ég er ekki viss um hvort Guð talar ensku eða íslensku.“

Það kom nýr maður inn á ganginn. Hann átti að vera með geðklofa var mér sagt. Hann var mjög stór, illilegur í andliti og ég sá að það gæti verið varasamt að abbast upp á þennan mann. Mér var sagt að hann kæmi reglulega en stingi svo alltaf af annað slagið. Mér var sagt að varast hann, þar sem hann gæti þess vegna setið inni í stofu og upp úr þurru farið að runka sér án þess að taka tillit til þess að það væri fólk að horfa á hann. Mér var hætt að lítast á blikuna.

Í eitt skiptið sem ég var inni í reyk, kom heyrnalausa konan inn. Hún horfði á mig reiðilega og rétti mér miða. Á miðanum stóð: „Ég veit að þú ert að tala illa um mig.“ Ég varð undrandi á þessu og hristi höfuðið til að gefa henni til kynna að það væri ekki satt. Þá reif hún í hárið á mér og togaði mig niður í gólf og ætlaði að lúskra á mér. Ég gat ekki losað mig og æpti af kvölum.

Stóri maðurinn með geðklofann var þá þarna viðstaddur. Hann varð reiður og sló hana á eyrun þannig að hún neyddist til að sleppa. Hún æpti og öskraði. Hann kallaði þá öskureiður: „Ég er ekki sökudólgurinn í þessu. Ég er ekki hér til að vernda fólk. Ég tek ekki á mig þessa ábyrgð.“ Ég var honum afar þakklát og sagði við hann að ég myndi segja hvað hefði gerst. Ég sannfærði hann um að ég myndi ekki klaga hann heldur halda uppi vörnum fyrir hann. Ég þakkaði honum fyrir að hafa hjálpað mér. Hann vildi ekki neitt þakklæti, hann vildi bara fá að vera í friði. Ég var farin að finna að ég gat ekki verið alla daga á þessum stað. Þetta var ekki venjulegur staður. Þetta var eins og geðveikrahæli.

Næst þegar ég talaði við dökkhærða manninn spurði ég hvort ég gæti ekki fengið að fara á daginn og sinna syni mínum sem ég vissi að væri heima hjá foreldrum mínum. Ég fékk leyfi eftir nokkra fundi, að sækja hann á daginn og skila honum svo þegar líða tók á kvöld.

 

Þegar þessir dagar tóku við, var það venja hjá mér að eftir hádegismat fór ég að sækja Skorra og ég fór heim til Höllu vinkonu. Það voru fagnaðarfundir þegar við hittum hvor aðra. Ég sagði við hana: „Halla, þetta er eitthvað bilaður staður.“ Ég sagði henni frá fólkinu og hún byrjaði að hlæja. „Já, Andrea, þú ert líka biluð, ekki satt?“ sagði hún. Hún sagði mér reyndar að hún hefði sjálf verið á svona stað einhvern tímann og bauð mig velkomna í hópinn. Ég átti ekki orð. Hvað er að gerast? Ég sem hélt að ég væri með allt á hreinu.

Við eyddum dögunum saman að drekka kaffi og tala um þessa hluti. Við fórum reyndar að taka þátt í lífinu aftur og ég sagði henni upplifun mína á öllu í gegnum þetta ferli. Ég vissi ekki lengur hvað var tálsýn og hvað var sannleikur. Ég verð lengi að fatta hvað kom fyrir, hugsaði ég.

Ég þurfti samt alltaf að mæta á spítalann. Ég var farin að taka með mér málverk upp á spítala sem ég hafði málað í gegnum tíðina og fólk vildi kaupa þau. Ég hafði málað þau þegar ég bjó úti á landi. Ég stillti þeim upp í herberginu mínu. Dökkhærði maðurinn sem ég var farin að átta mig á að væri læknirinn minn, hafði áhuga á því að skoða þessi málverk. Ég sagði honum að það væri allt í lagi. Honum leist vel á eitt málverkið og spurði hvort að hann mætti kaupa það. Hann vildi samt gera við mig viðskiptasamning til fimm ára um að ég mætti endurheimta málverkið ef ég vildi. Ég veit að hann gerði það til að ég myndi hafa tíma til að átta mig á því hvort ég vildi selja það. Pabbi var vitni á þessum fundi og það var allt gert á mjög fagmannlegan hátt. Mér fannst þetta ekki nauðsynlegt, þar sem ég hafði oft selt verkin mín en læknirinn vildi hafa þetta svona.


Kafli 15. Greining

15. kafli

Greining

 

Ég þurfti ekki að bíða lengi. Menn í hvítum sloppum komu inn í herbergið. Þeir stóðu í röð fyrir framan mig og horfðu á mig. Ég fann að þeir voru komnir til að segja mér að það væri komið að því. Einn þeirra, dökkhærður maður, spurði mig: „Andrea, veistu af hverju þú ert hérna?“ Ég svaraði: „Já“ vegna þess að auðvitað vissi ég það. Ég var búin að undirbúa mig undir þetta og ég vissi að þroski minn og hæfileikar voru búnir að ná þeim áfanga að takast á við það hlutverk að bjarga heiminum. Ég átti að koma með Skorra með mér í þetta ferðalag og við vorum að taka við mikilvægu hlutverki sem búið var að leggja á okkar herðar. Dökkhærði maðurinn hélt áfram: „Andrea, þú ert með þunglyndi með Schizophreniskum einkennum.“ Ég horfði á hann og fór svo að skellihlæja. Ég snerist í hring í hláturkasti og datt á rúmið mitt. Þá skaust ótti fram í huga mér sem olli því að hláturinn breyttist í hræðslu.

Ég setti undir mig fæturna og ætlaði að hlaupa í burt. Ég komst ekki lengra þar sem ég skall á rúðunni inni í herberginu. Þá áttaði ég mig á því að ég komst ekki í gegnum glerið. Ég hljóp þá í hina áttina að dyrunum og ætlaði að komast sem lengst í burtu. Einn maðurinn ætlaði að grípa í mig, en dökkhærði maðurinn stoppaði hann á því augnabliki sem ég skaust framhjá þeim. Ég komst fram á gang og hurðin sem hafði verið læst var nú opin. Ég hljóp eins og ég ætti lífið að leysa til að komast undan þessum svikurum. Þegar ég var komin á leiðarenda sá ég borð sem var með tveimur stórum kertum og blómum. Ég vissi að þetta var altari Guðs. Ég beygði mig niður og kraup á kné og bað til Guðs um að hjálpa mér á meðan ég hélt utan um höfuð mér til að verja mig ímynduðum höggum svo engin myndi snerta mig. „Góði Guð! Hjálpaðu mér!“

Ég heyrði allt í einu sagt fyrir aftan mig: „Andrea, komdu hérna og sestu hjá mér.“ Ég leit við og sá ljóshærðan mann sitja á stól. Hann var í hvítum sloppi en mér fannst eins og hann væri ekki hættulegur. „Hvað ertu að fara að gera“? spurði hann. „Ég er að fara að gifta mig“ sagði ég. „Já, er það?“ sagði maðurinn þá. „Hvað heitir maðurinn þinn?“ Ég vildi ekki segja honum allan sannleikann og ég ætlaði ekki að segja honum að hann væri amerískur. Ég svaraði: „Andri.“ „Já“ sagði hann, „það hlýtur að vera gaman.“ Svo spurði hann mig hvort við elskuðum hvort annað og ég svaraði því játandi. Hann sagði mér svo að ég skildi taka því rólega og ég mætti núna fara að fá mér að reykja.

Ég var fegin að fá að skoða mig um og átta mig þessum stað sem ég var komin á. Ég horfði í kringum mig. Það var fólk úti um allt. Ég vissi að þetta fólk var búið að bíða eftir mér. Það var eins misjafnt og það var margt. Ein konan gekk á sama hraða fram og til baka og horfði á mig í hvert skipti sem hún fór framhjá mér. Ég vissi að hún mætti ekki láta mig vita að hún vissi hver ég væri. Önnur kona gekk um hægar og horfði niður á fæturna á sér. Hún lét sem ekkert væri. Það voru karlmenn þarna líka. Sumir voru önnum kafnir við að skoða dúkinn eða hlusta á útvarpið til að virðast önnum kafnir. Sumir virtust vera mjög venjulegir, voru að fá sér kaffi og fóru inn í reykherbergið. Ég ákvað að kíkja þar inn. Ég kveikti mér í sígarettu og lét sem ég þekkti þau ekki og lét sem ég þættist ekki vita af hverju ég væri komin þarna.

Kona í bláum slopp heilsaði mér. Hún var lítil ljóshærð og brosmild, en samt gat ég greint sársauka í andliti hennar. Hún var með mynd sem hún hafði málað og sagði að geimverurnar hefðu sent henni upplýsingar um hvernig liti hún ætti að nota. Þetta voru litir sem voru eins og gull og silfur. Mér fannst að þessi kona gæti hjálpað mér að átta mig á þessum stað.

Konan sagði við mig að það væri svo skrítið að þegar hún væri að sýna fólki þessar myndir sem skyldi það ekki hvað þær væru merkilegar. Ég sagði henni að mér fyndist þær mjög flottar. Mér fannst þær reyndar ekki flottar, ég vildi bara ekki særa hana. Mér fannst þær bara vera klessuverk með upphleyptum málningarslettum sem hefðu enga þýðingu. Hún sagði að hana langaði að mála eina mjög sérstaka mynd handa frænda sinum sem ætti sjö ára afmæli fljótlega.

Konan vissi að ég var búin að vera í myndlist og sagði að hún ætlaði að mála mynd fyrir frænda sinn sem væri 7 ára og spurði mig hvort að ég hefði einhver ráð fyrir hana til að myndin yrði það falleg að honum myndi líka við hana. Ég stakk upp á því að hún myndi mála Andrés önd. Þá spurði hún mig hvernig hún ætti að byrja á því. Ég sagði henni að fá sér Andrésblað og velja sér einhverja mynd í því sem henni fyndist vera skemmtileg. Hún ákvað að gera þetta. Seinna þegar hún kom úr afmælinu, sagði hún við mig að frændi hennar hefði orðið svo ánægður og hann hefði hengt hana upp á vegg og beðið hana um að mála fleiri handa sér.

Ég brosti vegna þess að ég sá hvað hún ljómaði af ánægju. Hún hafði verið svo sorgmædd vegna þess að kærasti hennar hefði kveikt í sér og dáið. Hún hafði ætlað að fylgja honum á sama hátt og þess vegna var hún með ör um allan líkamann. Hún hafði sagt mér að hún sæi eftir þessu vegna þess að örin væru svo ljót og hún gæti ekki náð sér í mann.

Ein kona sat í horninu á herberginu og hellti Cheerios í glas og diet kók yfir. Hún reykti mjög mikið og mér fannst hún vita mjög mikið, hún var svo fjarræn. Þegar ég var búin að reykja tvær sígarettur fór ég aftur inn í herbergi. Ég ætlaði að hvíla mig og reyna að átta mig á þessu húsi. Þegar ég kom þangað kom kona í hvítum sloppi og sagði að hún ætlaði að setja nál í mig. Ég spurði ekki að neinu, þar sem hún sagði að þessi nál ætti að nota til að koma í mig lyfi sem myndi hjálpa mér. Mér fannst að þetta lyf væri nærandi og sennilega betra að byggja sig upp fyrir ferðalagið.

 

Næstu daga þurfti ég að ganga um með þetta vökvastatíf þar sem búið var að tengja poka við nál í hendina á mér. Ég vissi bara að ég átti að hafa þetta með mér alla daginn. Það var allt skipulagt á þessum stað. Morgunmatur, síðan viðtal, hádegismatur, svo eitthvert föndur, síðdegiskaffi og svo var talað saman inni í reykherbergi. Fólk var hlæjandi og talaði hátt, sumir voru að rífast en það var alltaf einhver til að róa hlutina. Ég fylgdist með þessu og reyndi að sameinast og skilja hvað fólk ætlaði að gera þarna. Fólkið fór að reyna að tala við mig. Ég sagði þeim að ég væri að fara í ferðalag og það væri maður sem ætlaði að ná í mig eftir nokkra daga. Þau samglöddust mér mjög mikið.

 

Viðtöl og klínik

Þegar ég var búin að vera þarna í nokkra daga var ég kölluð inn í viðtal hjá dökkhærða manninum. Hann fór að spyrja mig alls konar spurninga um hvernig mér liði þegar ég hlæ, gréti, væri glöð eða reið. Ég svaraði honum að þegar ég hlæ væri ég biluð. Þegar ég gréti væri ég sjúk, þegar ég væri reið væri ég geðveik, þegar ég væri glöð væri allt í lagi. Hann skrifaði þetta allt niður. Ég vissi ekki af hverju hann vildi vita þetta, mér var alveg sama. Hann fór að spyrja mig um hvernig mér liði. Ég sagði að ég hefði áhyggjur af börnunum mínum. Hann sagði þá að þau væru á öruggum stað. Hann sagði að foreldrar mínir væru með þau. Hann sagði mér að ég þyrfti bara að einbeita mér að sjálfri mér núna.

Eftir viðtalið fór ég aftur inn í reykherbergi með þetta viðhengi með mér og fékk mér sígarettu. Ég fór að sýna fólkinu meiri áhuga og það var bara nokkuð skemmtilegt. Þegar ég heyrði að kallað var í hádegismat, stóð ég upp og ætlaði að fara inn í herbergið mitt til að borða. Ég datt þá í gólfið eins og steinpoki. Ég datt á manninn sem var að afgreiða matinn og sennilega hélt hann að ég væri að hrinda honum. Hann sagði samt ekkert en kona og maður komu og hjálpuðu mér á fætur og fóru með mig inn í herbergi. Þá kom önnur kona inn í herbergið og sagði að hún ætlaði að taka úr mér nálina. Hún sagði að ég þyrfti ekki að nota þetta lyf meir. Ég var fegin að losna við þessa nál, hún var farin að meiða mig.

Ég var farin að vera þarna eins og heima hjá mér. Mér leið eins og ég væri svo velkomin. Það voru allir svo góðir við mig. Ég vissi alveg af hverju það var vegna þess að ég var sú útvalda og sonur minn átti að frelsa heiminn. Mér fannst samt fólk ekki taka mikið í það þegar ég var að reyna að segja þeim að ég ætlaði að bjarga þessum heimi. Kannski máttu þau ekki láta mig vita að þau vissu það. Kannski mátti ekki tala um leyndarmálið strax. Ég reyndi að halda því helst fyrir sjálfa mig. Ég vissi að þau myndu hvort sem er ekki trúa fyrr en þau fengu sönnun.

Einn daginn, spurði dökkhærði maðurinn hvort ég væri til í að koma í klíník. Ég vissi ekki hvað það var. Ég spurði hann hvort að það væri sárt en hann neitaði því. Ég var þá rólegri og samþykkti það. Mér var fylgt á niður í húsið í einhvern sal. Þar var ég látin sitja á stól uppi á sviði. Ég sá fullt af fólki í hvítum sloppum á stólum að horfa á mig. Ég vissi að þau voru að fara að læra eitthvað af mér.

Eldri maður sat mér á vinstri hönd og hann sá um að spyrja mig spurninga. „Hvernig líður þér?“ spurði hann. Ég svaraði: „ Mér líður vel.“ „Hvað ert þú að fara að gera og hvað ert þú búin að vera að gera?“ spurði hann. Ég sagði honum að mér væri búið að líða eins og völvu sem sæi fram í tímann. „Já, ok,“ svaraði hann. „Hvað hefur þú séð í framtíðinni?“ „Sonur minn er Jesús og ég á að passa að hann klári hlutverki sitt“ svaraði ég.

Mér fannst svolítið skondið að segja ókunnugu fólki frá þessu, en ég svaraði bara því sem þau spurðu um. Ég var farin að brosa, af því að það var bara gaman að segja frá þessu. Það væri líka gaman að fá að vita hvort þeim fyndist þetta ekki spennandi. „Hvað heldur þú að þú sért að gera hér?“ spurði maðurinn. „Ég er að undirbúa mig fyrir að fara út í heim þar sem maðurinn er að bíða eftir okkur“ svaraði ég. „Hvaða maður?“ spurði hann þá. „Maðurinn sem ég heyri í“, sagði ég þá. Svona hélt hann áfram að spyrja mig um hvernig ég vissi þetta og ég reyndi að segja honum frá því sem ég var búin að upplifa.

Allt í einu spurði einhver úti í sal og ég horfði þangað. Það var dökkhærði maðurinn: „Var það niðurlægjandi fyrir þig þegar þú flosnaðir upp úr skóla.“ Brosið á mér hvarf. Ég horfði ofan í kjöltuna á mér og svaraði svo: „Nei, það var frekar sorglegt.“ Þegar ég var búin að svara varð ég svo hrædd og ég blindaðist þannig að ég fann að ég yrði að flýta mér. Villidýrin voru að koma, þau voru að gera grín að mér. Ég verð að hlaupa, bara hlaupa eitthvað. Ég fann að tárin voru að brjótast fram. Ég verð að flýja.

Ég stökk upp úr stólnum og hljóp út úr salnum. Ég var hrædd um að einhver myndi grípa í mig, en ég komst út og ég sá tröppur. Ég hljóp upp tröppurnar en datt þegar ég var komin hálfa leið og ég fann ekkasogin og hjartað hamast af ótta.

Ég lá þarna og grét, þegar kona kom til mín og lagði höndina á bakið á mér og sagði að þetta væri allt í lagi. Ég spurði hana hvort ég hefði eyðilagt allt. Hún sagði nei, þú eyðilagðir ekki neitt. Hún sagði að ég mætti fara inn í herbergið mitt og það þyrfti ekkert að spyrja mig meir. Ég var fegin. Hún var mér svo góð að ég var svo þakklát.

Þegar ég kom upp, var mér sagt að ég hefði verið flutt í herbergi með ungri stelpu svo ég gæti fengið félagsskap. Ég var alveg sátt við það. Ég þekkti þessa stelpu. Henni leið ekki vel. Hún var alltaf að skera sig. Ég held að hún hafi ekki elskað sig nógu mikið. Ég vissi að ég gæti huggað hana.

Ég sótti ferðaspilarann minn sem faðir minn hafði komið með og setti heyrnatólin á eyrun. Ég fór að hugsa um Jeff. Ég vissi að hann gæti lagað þetta. Ég hlustaði á Celine Dion og setti lagið „Think twice“ á replay.

 

Þannig gat ég séð fyrir mér andlit hans í huganum. Ég sá fyrir mér að hann hefði fengið stöðuhækkun þar sem hann var með yfirmannshúfu. Ég horfði á þessa mynd sem birtist mér og spurði hann: „Er langt þangað til þú kemur?“ Hann svaraði: „Það er ekki svo langt eftir.“

Ég naut þess að horfa á myndina í huga mér og sagði við hann að ég gæti beðið endalaust. Það er hægt að elska í fjarlægð. Það er ekkert erfiðara að elska þannig. Ástin hefur engin landamæri. Hún er takmarkalaus. Þessi músík hjálpaði mér að loka á fólkið sem mér fannst ég vera að fjarlægjast meir og meir. Ég ætlaði bara að einbeita mér að okkur krökkunum og Jeff.


Kafli 14. Endirinn nálgast

14. kafli

Endirinn var að nálgast

 

Ég einbeitti mér að því að gera daglegu hlutina í lífinu eftir þetta. Ég hafði á tilfinningunni að ég bæri einhverjar mikilvægar skyldur á herðunum. Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað, eins og að hjálpa einhverjum Það voru alls konar skilaboð að koma í huga minn og það var erfitt að standa í þessu ein. Ég var farin að vera mjög mikið hjá vinkonu minni. Mér fannst hún skilja mig svo vel. Hún var sú eina sem tók mér eins og ég var. Allir aðrir sögðu við mig að ég væri að verða vitlaus og ætti að hætta að hegða mér svona. Það skildi enginn hvað það skipti mig miklu máli að vita sannleikann. Það var bara eitthvað sem ég fann að ég þyrfti að gera.

Það var helgi á þessum tíma og sat ég og hlustaði á útvarpið í gegnum sjónvarpið. Það var vinsæll poppari í viðtali þennan dag, Bubbi Morthens. Það var verið að auglýsa plötuna hans og taka viðtal við hann á milli þess lögin voru spiluð. Bubbi var að hvetja fólk til að fara í Kringluna. Mér fannst eins og hann væri að senda leynileg skilaboð um að það að það væri mjög merkileg persóna sem yrði í Kringlunni þennan dag. Ég vissi að þessi orð voru töluð til mín.

Ég ákvað að fara niður í Kringlu með krakkana og ég ætlaði á auðmjúkan hátt að sýna þeim þessa merkilegu persónu. Mig langaði að sýna fólkinu þess manneskju sem ætlaði að bjarga heiminum fyrir þau. Ég vildi gefa þeim von um að það væri einhver sem hefði þann mátt. Það var góð tilfinning að vera svona merkilegur. Ég vildi samt vera auðmjúk.

Þegar ég kom í Kringluna, tók ég eftir fólki sem var klætt í slysavarnabúning og var að safna til styrktar þessum félögum. Ég stöðvaði hjá manni og ákvað að kaupa af honum. Hann var með þrjá kosti í boði, annaðhvort penna, nælu eða strokleður merkt félagsskap þeirra. Ég var ekki viss um hvað ég ætti að velja, þar sem ég vissi ekki hvað mundi vera það rétta. Hluturinn kostaði 300 krónur og ég ákvað á endanum að kaupa allar þrjár tegundirnar. Ég gat þá verið örugg um að ég hefði eitthvað af hinu rétta.

Ég sá líka Hjálpræðisherinn vera að safna fyrir sín samtök. Það var eitthvað í huga mér sem sagði að ég ætti ekki að kaupa af þeim. Ég veit ekki af hverju, en mér fannst að hugur minn liti á þessi samtök sem eitthvað sem ég gæti ekki treyst. Ég gekk bara fram hjá konunni í búning Hjálpræðishersins og horfði í augun á henni, eins og ég væri að sýna henni að ég treysti henni ekki.

Því næst fór ég með krakkana á hamborgarastað, sem var í matsalnum og ég ætlaði að gefa þeim að borða til að ég gæti einbeitt mér að hugsunum mínum. Þau voru það ung að það fylgdi þeim galsi sem truflaði huga minn. Mér fannst þetta góð leið til að hafa ofan af fyrir þeim. Þegar ég var búin að panta og var að bíða eftir matnum, fór ég að svipast um í kringum mig.

Mér leið eins og ég væri hlébarði í skóginum og fullt af dýrum væri í kringum mig þarna. Mér fannst ég þurfa að sýna þeim að ég gæti haft ofan af fyrir friðlausu kettlingunum mínum og ég væri fær um að takast á við hvers konar áreitni. Mér leið eins og það væri skepna inni í mér sem ég hefði stjórn á og ég væri sú eina sem væri fær um að leyfa henni að koma út. Það væri merki um styrk ef ég gæti haldið aftur að henni. Ég vildi láta fólkið taka eftir þessu til að það gæti treyst mér. Á meðan ég var að hugsa þetta, tók ég eftir að fólk var farið að horfa á mig. Ég leit á það sem ögrun og ég fylltist ótta um að það ætlaði að gera okkur eitthvað. Ég ákvað loksins að sleppa pöntuninni og sagði krökkunum að við yrðum að fara annað. Ég vildi ekki láta neinn skaða börnin.

Við fórum næst á Hard Rock. Það var búið að skreyta staðinn, því það var verið að halda upp á Halloween þennan dag. Ég fór með krakkana upp og við settumst við eitt borðið. Ég ætlaði að bíða og sjá hvort að þetta væri betri staður. Ég sat á bekk og horfði í kringum mig, íhugul eins og ljón sem væri að leita að bráðinni eða dádýr sem væri með spennt eyrun til að heyra í hættunni. Mér leið eins og þessi staður væri hættulegur. Mér fannst að ég ætti að varast þennan stað. Kannski vegna þess að ég tengdi þennan stað við Ameríku. Þegar ég stóð upp og sagði krökkunum að fylgja mér, fannst mér að ég væri búin að sýna fólkinu að ég vissi nákvæmlega að ég ætti að varast þau. Þá fannst mér að þau myndu ekki þora að gera okkur neitt.

Því næst fór ég í Hagkaup. Ég gekk þar um og skoðaði allt í kringum mig, allt frá fólki að vöru, innréttingum eða öllu sem ég sá. Þegar ég var búin að fara hringinn og komin að leiðarenda búðarinnar, þar sem ég hafði komið inn í fyrstu, tók ég eftir myndum upp á vegg. Ég fór að skoða myndirnar nánar. Þetta voru myndir af deildarstjórum búðarinnar. Mér fannst eins og ég þekkti mann á einni af myndunum. Það sem ég tók eftir var að hann var með gleraugu. Ég setti þetta í samhengi við náunga sem ég þekkti til. Ég vissi að hann var með sjúkdóm sem heitir alnæmi og ég vissi að hann var að eyðileggja sjónina í honum. Mér fannst að ég þyrfti að hafa hann í huga þegar ég bjargaði öllu. Það var eins og ég væri að prógramma minnið hjá mér um alla þá sem ég ætti að frelsa og alla þá sem ég ætti að dæma. Ég var komin með vald til að dæma lifendur og dauða.

Ég fór því næst upp á þriðju hæð. Þegar þangað var komið horfði ég niður. Það var allt fullt af fólki sem gekk framhjá. Það var annaðhvort að fara inn í verslunina eða út úr henni. Það var fólk í rennistiganum. Það var fólk úti um allt. Ég stóð þarna og horfði niður og ég fór að taka eftir því að fólk var farið að horfa upp til mín. Mér fannst að það væri komið til að sjá mig. Ég ætlaði að leyfa því að sjá frelsara sinn. Ég vissi að það þyrfti á því að halda.

Allt í einu fannst mér að ég yrði að forða okkur í burtu. Mér fannst eins og það væru komnar illar sálir á staðinn. Ég vissi að þær væru komnar til að valda okkur skaða. Ég flýtti mér með krakkana niður á bílastæðið. Það var á neðri hæðinni og ég reyndi að koma okkur inn í bílinn sem fyrst. Það voru einhverjir að elta okkur. Við urðum að komast í skjól. Þegar við komum inn í bílinn var mikil umferð og erfitt að komast strax úr stæðinu. Hjartað á mér var farið að hamast af hræðslu. Ég óttaðist að þeir ætluðu að taka af mér börnin. Ég varð að flýta mér til að koma okkur í skjól.

Loksins tókst mér að komast út á hraðbrautina upp í Árbæ. Ég keyrði á 140 km hraða til að þeir myndu ekki ná okkur. Ég varð að nota alla mína hæfileika til að koma okkur heim, heilu á höldnu. Það var hálka úti og þegar ég kom að beygjum vissi ég að ég þyrfti að hægja á mér en samt ekki of mikið, svo þeir sem voru á eftir okkur myndu ekki ná okkur. Ég fór að hugsa til Tryggva bróður míns. Hann hafði kennt mér að keyra í hálku. Hann hafði farið með mig á Rauðavatn og leyft mér að finna hvað gerist ef maður stígur of fast á bensíngjöfina í akstri á ísnum.

Ég einbeitti mér að veginum eins og hlébarði sem horfir á bráðina sem hann ætlar að grípa. Mér fannst ég vera með ofboðslega næmni fyrir akstrinum. Mér fannst ég hafa yfirburða hæfileika til að keyra við þessar aðstæður. Þegar ég var að keyra inn í hverfið, þurfti ég að taka nokkrar beygjur. Ég var búin að hægja töluvert á bílnum til að læðast heim og horfa á öll merki sem gáfu mér skilaboð um hvert ég ætti að stefna eða hvort ég ætti að hinkra. Þessi skilaboð fékk ég frá bílunum. Ef ég sá bláan bíl, þá var í lagi að halda áfram. Ef ég sá rauðan bíl, þá átti ég að fara varlega og bíða. Ef ég sá hvítan bíl sem setti stefnumerkið til vinstri, var hann að gefa mér merki að hann væri búinn að vernda allt fyrir framan mig og öllu væri óhætt. Á þennan hátt tókst mér loksins að koma okkur heim. Ég var yfirveguð þegar ég kom heim. Þetta hafði verið hættulegt en lærdómsríkt fyrir mína kunnáttu sem ég þurfti að hafa í farteskinu.

Ég leyfði börnunum að fara út að leika og ég sagði þeim að fara ekki of langt, þannig að ég gæti séð þau. Ég var að hugsa og hugsa og ég gekk í hringi í íbúðinni til að reyna að hlusta á skilaboðin sem ég var alltaf að fá. Ég þurfti að finna svar, vegna þess að dagurinn var að koma, þegar ég yrði sótt.

Á meðan ég gekk í hringi og hlusta á skilaboðin hringdi síminn. Þetta var Halla vinkona mín. Ég sagði við hana: „Halla, það er eitthvað sérkennilegt að.“ „Nú?“ svaraði hún. „Já, ég er ekki að skilja svolítið. Skorri er alltaf að setja eitthvað dót í vasann minn og ég veit ekki hvað ég á að gera við það.“ „Ó“ sagði hún. Hún sagði mér þá að vera róleg. Hún sagði að hún ætlaði að koma á morgun. Hún sagði að hún væri ekki með barnapössun og hún myndi koma daginn eftir þegar hún væri búin að finna hana. Ég sagði: „Ok, við sjáumst þá á morgun.“

Ég lagði símann á. Ég kallaði fljótlega á krakkana og sagði þeim að koma inn. Ég ætlaði að elda kvöldmat og koma þeim svo í rúmið. Það var léttir fyrir mig vegna þess að þá gæti ég haft kvöldið fyrir mig til að leysa úr þessum gátum. Ég gekk um gólf, drakk kaffi og reykti stanslaust þessa nótt. Ég þurfti að ganga frá ýmsum hlutum í lífi mínu. Tíminn var að koma ...

 

 

Síminn hringdi þá um kvöldið. Það var Jeff. „Hæ“ sagði hann. Ég sagði hæ á móti. Við töluðum saman í smá stund. Mér fannst mjög gott að heyra í honum, þó að ég vissi að hann væri að fara frá Íslandi. Hann hafði sagt mér það fyrir nokkru að það ætti að flytja hann aftur til Bandaríkjanna. Hann var sem sagt búinn með þjónustuna á Íslandi. Ég skildi ekki af hverju hann væri að fara frá mér. Ég spurði hann: „Jeff, hvernig getur þú yfirgefið manneskju sem þú elskar?“ Hann svaraði mér til baka: „Sko, Andrea, til að geta það geymi ég hjarta mitt í boxi.“

Í höfðinu á mér hljómaði þessi setning: „Geymdu hjartað þitt í boxi.“ Ég varð hrædd. Mér fannst eins og hann væri búinn að leika sér að tilfinningum mínum allan þennan tíma. Þetta var svarið sem ég þurfti frá honum. „Ég þarf að fara,“ sagði ég og lagði á. Hann sem hafði sagt að ég þyrfti að geta opnað hjarta mitt á meðan hann var búinn að geyma sitt hjarta í boxi. Hvers konar fífl var hann? Hann er sá mest sjálfselski af þeim öllum. Ég var svo reið og mér fór að verða órótt. Ég verð að hlaupa í felur til að vernda hjarta mitt áður en ég missi virðingu mína. Ég þarf að ná hjarta mínu til baka frá þessum manni. Ég þarf að vernda sjálfa mig.

Ég hélt áfram að ganga um gólf og hlustaði á músík í útvarpinu. Það var alls konar músík í gangi, með alls konar skilaboðum til mín. Ég þarf að sleppa takinu. Ég þarf að sleppa Jeff úr hjarta mínu svo ég geti fengið frið. Ég verð að sætta mig við að hann getur ekki verið áfram á Íslandi. Ég hafði fengið þá tilfinningu í örvæntingu minni að fara með honum út. Hann hafði þá sagt að ég gæti það ekki vegna þess að ég ætti börn. Þegar hugsunin um að skilja þau eftir svo ég gæti verið með honum skaust inn í huga mér, varð ég svo reið og hatrið gagnvart honum svo mikið að hann hefði leitt fram þessar tilfinningar í mér. Þess vegna skellti ég á hann.

 

 

Þegar ég gerði þetta, settist ég í stól og þá fann ég fyrir honum. Manninum sem ég var búin að heyra í allar þessar vikur. Ég fann að hann var þarna hjá mér. Hann var að gefa mér tíma til að sleppa takinu. Hann ætlaði ekki að fara fyrr en ég væri tilbúin. Ég heyrði hann segja: Andrea, ég verð að fara og þú þarft að sleppa mér. Ég reyndi að halla mér að honum, en ég fann að ef ég hallaði mér of nálægt honum fengi ég rafstraum sem gaf til kynna að ég væri að fara á annað svið sem mér var um megn að gera. Ég gæti ekki lifað í þessari tíðni eins og hann kallaði það. Hún var of há fyrir mig. Hún var hluti að öðrum heimi.

Til þess að ég gæti sleppt, lét hann mig finna fyrir því að það væri fólk í kringum hann sem væri að undirbúa hann undir jarðneskan dauða. Mér fannst sárt að finna fyrir þessu en ég vissi að þetta átti að vera svona. Ég treysti honum fullkomlega Mér fannst eins og hann væri uppi í íbúðinni fyrir ofan mig. Mér fannst hann bíða eftir mér. Ég vissi að það var ekki strax en til þess að sannfæra mig, hljóp ég upp á næstu hæð og bankaði á dyrnar. Ég reyndi meira að segja að taka í húninn en það var læst. Ég hringdi á bjöllunni og eftir skamma stund kom fólk til dyra. Það voru allir uppáklæddir í sparifatnað. Ég taldi að það væri vegna þess að þetta væri hátíðleg stund, þar sem við maðurinn ættum að ganga í það heilaga á andlegan hátt. Ég spurði manninn sem kom til dyra, hvort það væri einhver að bíða eftir mér. Hann svaraði því játandi og ég fann þá fyrir fullvissu um að ég væri að skynja þetta rétt. Ég fór aftur niður í íbúðina mína, til að bíða eftir að þessi athöfn ætti sér stað.

Ég settist niður og lét músíkina flæða í gegnum mig. Hún flæddi á taktfastan hátt um herbergið og ég fann hvernig ég flæddi með henni. Ég var farin að skynja að það var einhver á bakvið þetta allt. Ég var að reyna að ná sambandi við hann. Halló, sagði ég lágt. Hvað viltu að ég skilji? Ég heyrði röddina segja: Tíminn er kominn og ferðalag þitt mun halda áfram. Ég þarf að fara og þú munt ekki heyra í mér um tíma. Ég mun koma aftur þegar þú ert fær um að fást við þetta. Ég vissi að ég þyrfti að kveðja hann og ég þyrfti að gera þetta alein í einhvern tíma. Ég var hrædd og óttaslegin, en ég vissi að hann var búinn að undirbúa mig það vel, að ég gæti gert þetta alein. Ég vildi bara eiga þessa kvöldstund með honum í síðasta sinn, elska hann og finna að hann væri hjá mér hugsa um mig og vernda mig. Hann sagði mér að hann myndi sitja á öxl minn sem hrafn til æviloka. Ó, ég treysti þér og ég mun alltaf trúa á þig og ég mun alltaf vita að þú er þarna. Ef ég þarf á þér að halda, haltu bara utan um mig í nótt og leyfðu mér að vera í örmum þínum þangað til ég fer.

Ég lá svona í stólnum og ég gat fundið að heimar okkar voru frábrugðnir hvorum öðrum. Frábrugðnir á þann hátt að við gætum ekki lifað í hvors annars heimi, þó svo að við skildum hvort annað. Það var eins og það væri ekkert slæmt við það. Það var bara að við fæddumst á sitt hvorum staðnum og við tilheyrðum sitt hvorri veröldinni. Ég þurfti að læra miklu meira til að geta lifað í hans heimi.

Hann þurfti að halda áfram í sínu lífi, þar sem ég myndi draga úr honum máttinn og halda aftur að honum. Það eina sem við gátum var að ná sambandi á þennan hátt, í gegnum hugsunina. Ég vissi að hann kom til mín með skilaboð til að undirbúa mig. Undirbúa mig fyrir veröldina sem ég lifði í. Ég vissi að það myndi auðvelda mér að skilja það sem framundan var. Ég vissi að hann gat ekki sagt mér svarið, en hann hafði gefið mér vísbendingu svo ég myndi leita að þeirri leið sem fyrir mér lá í þessu lífi. Ég var að undirbúa mig fyrir það sem koma skildi og ég var afslöppuð yfir því að þegar að því kæmi væri ég tilbúin. Ég vonaði bara að ég myndi halda áfram að trúa á hann og gefast ekki upp eða efast um að hann, þegar ég heyrði ekki í honum lengur. Á þennan hátt náði ég sennilega að sofna í stólnum, vegna þess að ég vaknaði við það að krakkarnir voru að horfa á sjónvarpið. Það var laugardagur og ég þurfti ekki að fara með þau neitt, þennan dag. Ég vissi að það var þessi dagur, sem eitthvað átti að gerast og ég þurfti bara að bíða.

 

Svarið kom ...

Ég leyfði börnunum að fara út að leika sér fyrir hádegi. Ég sagði þeim að fara ekki langt. Ég vildi að þau væru þar sem ég sæi þau. Ég sá að það var ljóshærð stelpa þarna úti að leika sér með þeim. Ég fór út til þeirra til að draga þau á snjóþotunni. Stelpan sem var þarna, var klædd í fjólubláa úlpu. Ég hugsaði um drauma mína og ráðningar á þeim. Fjólublár litur í draumi þýðir vernd. Mér fannst eins og þetta væri hluti af leikritinu. Þessi stelpa sagði að hún væri í heimsókn hjá ömmu sinni. Ég trúði því ekki og trúði því frekar að hún væri þarna út af okkur. Mér fannst hún vera verndarengill. Hún var komin þarna til að passa upp á okkur síðasta spölinn.

Ég fór að líta í kringum mig og sá að fólk var í alls konar lituðum yfirhöfnum. Þessir litir fóru að hafa einhverja þýðingu fyrir mig. Svartur þýddi löggæsla, blár þýddi góður andi, rauður var hættumerki og grænn var vöxtur, hvítur var heilagur andi, appelsínugulur var breyting og gulur merkti veikindi. Ég þurfti að þekkja merkingu hvers litar fyrir sig. Fólkið var að senda mér skilaboð.

Ég gekk um hverfið með krakkana hlæjandi á þotunni og stelpan elti okkur eins og tryggum þegn ber að gera. Það kom að því að ég fann að við ættum að drífa okkur heim. Ég fór að snúa við og stelpan elti okkur alla leið heim. Hún stóð þarna hjá okkur inni í íbúðinni og mér leið vel að hún væri með auga á okkur. Hún var að passa okkur og þetta var allt hluti af leikritinu.

Ég fann að það var eitthvað í aðsigi. Það var eins og mér fyndist að svarið væri að koma til mín. Ég gekk stanslaust um íbúðina á meðan ég einbeitti mér að hugsuninni. Mér fannst eins og einhver væri að koma. Mér fannst að einhver væri að koma með skilaboðin til mín. Ég gekk hring eftir hring og heyrði talað í fjarska. Ég byrjaði að ákalla Guð: Guð ertu þarna? Hvað er gerast núna, Guð, ertu þarna?“ spurði ég. Mér fannst eins og hann væri að segja mér eitthvað. Mér fannst að hann væri að segja mér að tíminn væri kominn.

Ég spurði: Hvenær Guð? Segðu mér það, góði Guð, ég verð að vita það, gefðu mér einhverja tölu. Ég horfði upp til himins í eldhúsglugganum og einbeitti mér að Guði. Ég rétti út hendurnar til að opna fyrir skilaboðin. Ég fann að svarið var að koma. Ég heyrði töluna 2 ... 1 ... 1 … 2 … Ég sagði: Takk, góði Guð. Nú er ég tilbúin, tilbúin fyrir þá að sækja mig.

Ég gekk í hringi og krakkarnir sátu hlæjandi á gólfinu. Þegar ég gekk yfir þau, lyftu þau fótunum upp í hvert skipti sem ég fór framhjá. Kannski til að láta mig ekki detta. Stelpan horfði á þetta allt saman. Mér fannst eins og hún væri að gera skyldu sína og vernda okkur þessa örlagaríku mínútur, rétt fyrir brottför. Þeir voru að koma að sækja okkur. Þeir ætluðu að fara með okkur út í heim. Ég var tilbúin til að fara með skilaboðin og segja öllum. Svo þeir gætu séð sannleikann. Ég gekk um eins og í leiðslu og hlustaði á röddina. Hún hafði sagt mér tölur. Þegar ég var svona djúpt í huganum kallaði dóttir mín á mig: „Mamma, af hverju braustu glasið mitt?“ „Bíddu Sunna“ svaraði ég. „Ég þarf að hlusta.“ „Já, en mamma, þetta var uppáhaldsglasið mitt.“ Hún var farin að gráta og ég reyndi að segja henni að hætta að gráta. Ég hafði ekki rænu á að hugga hana og ég vissi að við værum að fara í ferðalag.

Skyndilega hringdi dyrabjallan. Krakkarnir opnuðu og það var Halla vinkona. Ég var svo ánægð að sjá hana. Mér fannst eins og ég væri búin að bíða, bíða eftir því að hún kæmi inn um dyrnar. Mér fannst að hún léki stórt hlutverk í þessu öllu saman. Ég hélt áfram að ganga um gólf. Hún horfði á mig og sagði: „ Andrea, sestu og fáðu þér sígarettu.“ „Já“ sagði ég og settist niður eitt augnablik tók einn smók, drap svo í henni í öskubakkanum og stóð svo upp aftur og hélt áfram að ganga.

Sunna reyndi að tala við mig, en ég gat ekki svarað henni af neinni skynsemi. Ég var komin langt inn í hugann, svo langt að ég vissi ekki hvar ég var. Mér fannst ég vera að fara. Halla kallaði eitthvað til mín: „ Andrea, hvað er númerið?“ Ég byrjaði að þylja upp eins og heilinn á mér væri tölva að leita að upplýsingum. Ég gat aðeins sagt eitthvað á þessa leið: 1-2-3-4-5 ... Hún sá að þetta var vonlaust. Hún var við símann að reyna að hringja.

Einhver opnaði hurðina og ég hélt að hún væri að fara, þar sem ég var lögst í gólfið. Ég kallaði til hennar: „Halla, ekki fara“ og teygði mig eftir henni. Hún kom hlaupandi til mín og hélt utan um mig og sagði: „Nei, nei, Andrea, ég er ekki að fara. Ég mun vera hjá þér.“ Ég byrjaði að gráta og hún hélt mér í fanginu eins og barni og ég náði að slaka á.

Ég stóð aftur upp og gat rétt gert mér grein fyrir því að það voru tveir lögreglumenn komnir inn í íbúðina. Ég hélt að þeir væru hluti af þessu leikriti. Ég ætlaði að gera grín að þeim og sýna þeim að ég vissi að þeir væru að leika. Ég steig ofan á annan fótinn á öðrum lögreglumanninum og brosti út í annað. Þá gekk ég inn í svefnherbergið mitt og sparkaði í kommóðuna, svo hún datt í sundur.

Þá fór ég aftur inn í stofu og þar féll ég á gólfið. Ég fór að hristast í skjálftakasti og mér fannst eins og líkaminn á mér væri að fá rafstuð. Ég fann svo ótrúlega mikinn sársauka á meðan ég nötraði þarna og beit á jaxlinn og stundi af kvölum. Ég skreið um gólfið eins og ormur og ýtti mér með fótunum lét efri líkamann fylgja með, undir borð, á bak við sófa, aftur undir borð í kringum borðfótinn.

Svona liðaðist ég um óstöðvandi, þangað til að ég var komin upp við vegg í einu horninu á stofunni. Þar lá ég hreyfingarlaus og mér fannst eins og ég væri búin með alla krafta. Mér fannst ég þurfa að stífa höfuðið við vegginn til að halda jafnvægi. Heilinn á mér virtist vera orðinn svo lítill að hann væri ekki stærri en í 10 vikna fóstri.

Sjúkraflutningamenn voru komir á staðinn og ætluðu að gefa mér sprautu. Ég lyfti hendinni upp eins og ég gat og sagði: „Stopp, bíðið, nei, ekki meir. Ég get ekki meir.“ Mér fannst eins og þeir ætluðu að sprauta mig með vítamíni til að pústa mig upp, svo ég myndi halda áfram. Mér fannst að þessir menn væru komnir til að koma mér í gang aftur.

Ég fór allt í einu að finna fyrir því að hugsunin sem hafði ríkt í huga mér allan þenna tíma og alla þessa daga, færi af fullum hraða aftur á bak. Mér fannst ég upplifa hlutina aftur á bak, en með miklu meiri hraða en áður. Líkt og hraðlest sem hefði misst kraftinn upp brekku og rynni nú niður alla brekkuna til baka. Ég lokaði augunum og ég heyrði hlátur í fjarska og köll, sem ég gat ekki greint, hvað þýddu. Mér fannst ég renna í gegnum svart rör og rörið hoppaði og skoppaði í öllum hraðanum. Allar götur og allar áttir sem ég var búin að ganga síðustu daga sá ég renna framhjá á sama hátt nema aftur á bak.

Ég gerði mér ekki grein fyrir að þessi hossingur var vegna þess að ég var komin inn í sjúkrabílinn á leiðinni niður á spítala

Á meðan á þessu stóð, hafði Halla vinkona mín hringt í foreldra mína. Þegar þau komu, voru þau í miklu uppnámi yfir því að ég væri á gólfinu og spurðu Höllu: „Af hverju er naglalakk á gólfinu? Af hverju er glas brotið á gólfinu? Hvað var Andrea að taka inn? Hvað hefur þessi Jeff gert henni? Hver á að hugsa um börnin?“ Þau gengu um alla íbúðina að reyna að átta sig á þessu öllu saman á meðan ég lá úti í horni, máttlaus af sprautunni sem þeir höfðu gefið mér. Halla sagði þeim að hafa ekki áhyggjur af börnunum, hún myndi sjá um þau. Hún sagði þeim að fylgja mér niður á spítala.

Það vissi ég ekki fyrr en seinna þegar mér var sagt frá því.

 

 

 

 

Ég hlýt að hafa sofnað eftir þetta. Þegar ég vaknaði hálfvegis til vitundar, fann ég að ég var inni í einhvers konar herbergi.

 

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvort það væru liðnir margir daga síðan ég datt í gólfið

 

Ég fann að fólk var að koma inn annað slagið. Ég gat ekki hreyft mig, en ég gat skynjað að það var einhver inni í herberginu. Ég sagði upp úr þurru: „I am blue moon.“ Það var karlmannsrödd sem svaraði: „Já, við ætlum að laga það, með lyfjum.“ Ég brosti og sagði: „Þið vitið ekki hvað þið eruð að eiga við.“ Mér fannst nefnilega heilinn á mér vera svo pínulítill og hjartað líka. Ég hafði það á tilfinningunni að ef einhver myndi skella hurðinni of harkalega, fengi ég hjartaáfall.

Ég svaf í gegnum nóttina. Daginn eftir vaknaði ég við það að einhver kona var að nudda á mér fæturna. Það kom upp í hugann á mér það eina sem minnti mig á þetta. „Mamma“ kom fram á varir mínar. Ég var ennþá í þessu annarlega ástandi og þegar konan var farin, stóð ég upp og byrjaði að ganga. Ég varð að ganga, vegna þess að annars gæti ég ekki haldið ró minni. Ég var eirðarlaus og gat engan veginn sest niður og slakað á.

Konan kom aftur inn í herbergið. Hún var að prjóna peysu. Ég gekk í kringum hana og mér fannst að hún væri vörður sem ætti að passa upp á mig svo enginn gæti skaðað mig. Hún sagði við mig: „Ég verð ringluð af þessu labbi þínu.“ Ég svaraði ekki. Ég hélt bara áfram að ganga.

Ég horfði út um gluggann og ég sá alls konar fólk í alls konar fötum ganga framhjá. Fólkið var klætt í alls konar litaðar yfirhafnir til að senda mér skilaboð svo að ég gæti slakað á og verið viss um að það væri að passa upp á mig. Það ætlaði að passa að enginn kæmi inn í húsið sem ég var í. Ég velti þessu fyrir mér um stund. Svo sagði ég við konuna: „Ég þarf að reykja.“ Konan svaraði: „Af hverju að reykja? Það er óhollt.“ „Já“ sagði ég, „ég verð að hætta að reykja. Ég þarf að teikna í staðinn.“

Konan fór þá fram og sótti blað og blýant. Ég settist niður og byrjaði að teikna eitthvað. Ég man ekki hvað það var, en ég man að ég ætlaði mér að gefa henni skilaboð um að ég vissi hvað gengi á. Ég vissi að þeir voru að fara með mig á sérstakan stað, þar sem aðeins hinir útvöldu mættu fara. Mér fannst ég vera svo stór og gáfuð. Mér fannst ég vera sérstök. Mér fannst ég vera verndari frelsarans. Mér fannst að ég vissi svarið sem allir voru að leita að.

 

Þegar konan var farin, fór ég að skoða í kringum mig. Ég fylgdist með fólkinu úti sem var að ganga framhjá húsinu. Ég tók eftir fólki sem var klætt í svarta jakka. Ég vissi að þetta voru löggæslumenn að passa upp á húsið. Ég fann að ég gat verið róleg vegna þess að enginn gæti komið inn til að skaða mig. Ég byrjaði að einbeita mér að komandi verkefni.

Ég sá að hurðin í dyrunum á herberginu var ólæst og ég opnaði. Ég gekk inn í lítinn gang og í enda hans voru aðrar lokaðar dyr. Það var eitthvað á bak við hurðina, en ég mátti ekki fara þar í gegn strax. Á ganginum var baðherbergi á móti mínu herbergi. Þar var annað herbergi og út úr því kom maður annað slagið. Þegar hann sá mig fór hann inn í herbergið og ég vissi að hann gerði það vegna þess að hann vildi ekki trufla mig. Mér fannst hann vera vörður sem ætti að fylgjast með mér.

Ég settist á stól sem var í hinum enda gangsins. Ég tók eftir því að það var planta í blómakeri við hliðina á stólnum mínum og annar stóll hinum megin. Ég sá þrjá konfektmola í beðinu, raðað í kringum plöntuna. Mér fannst að ég ætti að leysa þessa gátu, sem ég taldi snúast um það að velja rétta molann. Ef ég myndi velja rétta molann, myndu þeir vera vissir að ég væri hin útvalda.

Molarnir voru í pappír í mismunandi litum. Einn var rauður, einn grænn og sá þriðji gylltur. Ég var örugg um að ég ætti ekki að velja þann rauða. Það var augljóst og ekki erfitt að leysa. Rauður þýðir hið illa eða djöfulinn og líka hættu. Sá græni vafðist fyrir mér. Hann þýddi vöxt eða þroska og það var einmitt það sem ég vildi ná fram í lífinu.

Þá fór ég að hugsa um að nóttina áður hafði ég fengið á tilfinninguna að ég væri búin að ná þeim þroska sem þyrfti, ég átti bara eftir að setja það í samhengi. Ég hugsaði um þennan gyllta mola og setti hann í samhengi við gyllta hliðið. Þú þarft bara að opna, hafði mig dreymt. Ég hugsaði djúpt hvort ég væri tilbúin að opna. Ég tók tíma í þessa ákvörðun þar sem ég var hrædd um að allt færi á fullt. Ég valdi að lokum þennan gyllta og flýtti mér inn í herbergi. Ég borðaði molann til að staðfesta þessa ákvörðun mína. Nú vissi ég að ég þyrfti bara að bíða. Þeir voru búnir að fá að vita hver hugur minn var og nú þurftu þeir á taka mið af því.


Kafli 13. Glerbúrið

  1. kafli

 

Þá varð mér hugsað til þessa ljóðs einsog ég kallaði það.

„Glerbúrið“


Allir hafa tvær sálir. Ein er mjúk og veik en hin er köld og sterk. Önnur lítur út fyrir að umlykja hina veikari, það gæti það verið Glerbúr. Þegar sú veikari er að horfa í gegnum glerið og sér það sem er að gerast fyrir utan, getur hún gleymt sér. Utan við það er mikið af fólki og þeir virðast vera að skemmta sér.

Rauður reykur liðast um eins og þykk þoka úti um allt. Þokan umlykur fólkið með volgum leyndarmálum. Hraður og stanslaus taktur tónlistarinnar flæðir inn í eyrun og vökul röddin sem virðist koma langt að verður lágværari.

Hlátur frá fólkinu vekur upp tilfinningar um að fara út úr búrinu og sameinast til að hlusta á fólkið tala. Þetta getur verið hættulegt. Villt dýr eru alls staðar að bíða, þau eru að bíða eftir fórnarlambi, bíða eftir fórnarlambi til að fara í burtu með það á þann stað þar sem enginn hefur komið til baka. Músíkin er tælandi og togar í þig að halda áfram. Fólkið freistar þín til að færa þig nær, reykurinn er farinn að verða dreymandi.

Kannski er allt í lagi að fara út, bara örlítið, þú getur alltaf haft augun á búrinu og varast að týna því ekki. Þú tekur í handfangið og opnar, fyrst örlítið og svo aðeins meira. Þú tekur eitt skref, svo tekur þú annað. Skyndilega ertu á meðal fólksins, þetta er ekki svo erfitt, eiginlega er þetta bara gaman. Þú hlærð og dansar við þau.

Reykurinn umlykur þig og lætur þér líða vel. Þú gleymir ótta þínum, þér líður vel. Andlitin á fólkinu birtast og hverfur í senn. Músíkin hækkar og reykurinn þykknar. Hláturinn reynir að yfirgnæfa músíkina. Fólkið umkringir þig og dansar í hring, þú tengist þeim og nærð að sameinast ... Þú lítur snögglega upp og þér bregður.

Augu stara á þig, þau eru ekki blá eða brún eða græn. Þau eru ekki mannleg. Þau eru gul og grimmdarleg og stara bara á þig. Þú frýst í augnablik, en það virðist vera eilífð. Þú reynir að hreyfa fæturna en þeir eru þungir.

Þú reynir að hlaupa en þú getur ekki hlaupið nógu hratt. Þú setur alla þína orku í að flýja, en á baki þínu finnur þú andardráttinn frá skepnunni. Hún færist nær og nær og þú finnur að hún muni ná þér áður en þér tekst að komast inn í búrið. Þú notar síðasta kraftinn í að komast undan. Reykurinn er orðin þykkari, svo þykkur að þú finnur ekki búrið. Þú leitar í örvæntingu að því en það er ekki þarna. Skyndilega finnurðu að klærnar grípa í bakið á þér. Ólýsanlegur sársauki fer um líkama þinn og þú finnur hann inn að beini.

Þú fellur niður og missir meðvitund. Án þess að verða var við það liggur þú þarna alla nóttina. Músíkin hefur hljóðnað, reykurinn er farinn og fólkið líka. Þú vaknar upp stirður og þungur. Þú reynir að hreyfa þig en verkurinn í bakinu nístir þig allan.

Þá færist yfir þig þessi yfirnáttúrulegi ótti og þú leitar með hendinni að dyrum búrsins. Þá finnurðu að það var rétt fyrir framan þig. Þú reynir að draga þig áfram inn í búrið, þú berst við sársaukann og ótti þinn dregur þig áfram. Þér tekst að komast inn í búrið og lokar. Samviska þín nagar þig og þú hatar þig fyrir að fara út. Sárin munu gróa og örin munu styrkja húðina. Það líður samt langur tími, þangað til þú opnar aftur ...

 

 

Draumarnir

Ég fór að rifja upp drauma sem mig hafði dreymt í gegnum tíðina. Það voru þá helst draumar sem ég taldi hafa einhverja þýðingu. Ég fór líka að hugsa um tarotspil sem ég var búin að lesa fyrir vinkonur í saumaklúbbum þegar þær voru að reyna að sjá fram í framtíðina og hvort hinn rétti biði þeirra. Þessir draumar og spil fóru að hafa þýðingu fyrir mig þegar ég sat eitt kvöldið eftir að börnin voru sofnuð. Það var ekki margt skynsamlegt sem kom upp í huga mér, en mér fannst það í þessu ástandi. Ég skrifaði upp nokkra drauma og þýðingu þeirra tarotspila sem komu upp í huga mér þetta kvöld.

 

Mig dreymdi draum þegar ég var 19 ára gömul:

Ég stóð einhvers staðar úti og andleg vera talaði við mig. Einhvers konar engill eða kannski Guð sjálfur. Hann talaði við mig og sagði: Þú þarft að fara til þessara þriggja manna og segja þeim skilaboð áður en þeir deyja, þeir eiga að deyja þegar þeir eru 26 ára. „Ó, hvers konar skilaboð og hvers vegna þurfa þeir að deyja svo ungir? spurði ég. Þú munt vita skilaboðin þegar þú kemur til þeirra. Hafðu ekki áhyggjur af því að þeir deyi svona ungir, þeir munu fæðast í þríburum. Þá sá ég konu í rúmi með þrjú börn, hún var með dökkt sítt hár og sængin var svo hvít og hún hélt á þremur börnum í fanginu. Ég byrjaði að leita að þessum mönnum og fann þá loksins. Tveir sátu en þriðji stóð og það var eins og hann væri að fara í burtu. Ég sagði þeim skilaboðin sem ég vissi einungis í draumnum sjálfum og þeir svöruðu: Ekki vera með þessa vitleysu, nema sá þriðji. Hann sagði ekki neitt. Mér fannst að þetta þýða þrenns konar tímabil eða tímabil sem kom í þremur hlutum. Mér fannst eins og það væri neikvætt í byrjun þar sem þeir myndu deyja og svo kæmi sams konar tímabil sem þýddi eitthvað jákvætt. Einhver þroski eða jafnvel bókstafleg upplifun. Ég hafði misst þrjú fóstur og ég fór að hugsa hvort að ég myndi þá eignast þrjú börn. Ég vissi það ekki á þessum tíma sem mig dreymdi þennan draum, en á þessum tímapunkti sem ég var að hugsa þetta kvöld, vissi ég að ég væri búin að ganga í gegnum reynslu og eignast tvö börn. Ég fór að hugsa hvort að það væri mögulegt að ég myndi öðlast meiri þroska en undir venjulegum kringumstæðum og hvort ég myndi svo eignast þriðja barnið. Hugur minn fór á flug ...

 

 

Tarotspilin ....

Ég fór að ná í tarotspilin mín. Mér fannst ég skilja þau miklu betur eftir að ég lent í þessu ástandi. Mér fannst ég skilja hvert einasta spil á mjög flókin og ítarlegan hátt.

 

 

 

Dauðinn


Hugsanlega mest óttast, hataða og misskilda spilið í tarotspilunum. Dauðinn þýðir breytingu.

Það þýðir venjulega ekki líkamlegann dauða, þó það sé hægt. Það fjallar um umbreytingu, endurnýjun og frelsi frá gömlu mynstri og uppbyggingu.
Flestir spilastokkar sýna þetta spil með beinagrind sem situr hest og lítur út eins og maður í skikkju með ljá. Þegar þú færð þetta spil við lestur, þá þýðir það að þú ert að fara að upplifa breytingar af einhverju tagi. Það er kominn tími til að fara til að sleppa fortíðinni og byrja upp á nýtt.

Þetta er ekki spil af niðurbrjótandi afli, heldur hægfara og náttúrulegri umbreytingu. Þessi breyting verður vegna þess að þú ert búin að stefna í þessa átt í langan tíma. Það er rétt leið til að fara hana eða láta þessa umbreytingu gerast. Breyting er oft hræðandi fyrir okkur, en það er nauðsynlegur og eðlilegur hluti af lífinu.

 

En eftir að ég las lengra ég skildi ég að ég væri að misskilja þetta spil og þýðing þess var að ég þyrfti að öðlast skilning á annan hátt en ég hafði gert hingað til.

Ég sá fyrir mér, sjálfa mig ferðast um hugann í gegnum spilabunkann. Ég fór frá fíflinu yfir í stjörnuna og þaðan til elskendanna, þá yfir í sólina, tunglsins, dauðans og svo sá ég veröldina fyrir framan mig. Ef ég geri þetta rétt, eins og hann sagði að ég þyrfti að gera, áður en ég færi á þennan stað sem ég var að fara. Ég fór að hlusta með athygli og ég ætlaði að leyfa þeim að leiða mig áfram inn í þann skilning sem ég þurfti. Ég þurfti að sleppa takinu á ótta mínum og láta tónlistina flæða, alveg eins og þegar ég dansaði í mínum eigin heimi.

Daginn eftir fór ég í skólann eins og venjulega. Það skeði ekki mikið annað en að ég var enn í þessum hugarheimi að reyna að tengja þetta saman. Ég gat þó einbeitt mér að því að teikna á meðan ég hugsaði.

Eftir skólann fór ég og sótti krakkana í til dagmömmu. Þegar við komum heim var ég ennþá full af hugsunum og ég hlustaði á röddina inni í mér. Ég var eins og ferðalangur sem var að ferðast inn í aðra vídd.

Ég sagði börnunum að fara í útifötin þar sem mér fannst, að til að ná einbeitingu þyrfti ég að ganga um hverfið. Það voru að koma svo mörg skilaboð inn í hugann og það hjálpaði mér að hlusta ef ég gekk. Það var orðið dimmt úti og ég ætlaði að ganga í gegnum nágrennið. Ég tók með mér snjóþotu til að draga þau. Ég gekk á sama hraða, þó svo að það væri hindrun fyrir framan mig, snjór, malbik eða sandur. Mér fannst það sýna mér hvað ég væri ákveðin og sterk. Ef það var enginn snjór þar sem ég gekk, togaði ég bara fastar og æddi yfir malbikið eða stéttina. Ég gekk svona í langan tíma og lífsferill minn rann framhjá af miklum hraða. Ég sá jógúrt dós á jörðinni og mér fannst að ef ég sparkaði í hana gæti ég haft áhrif á framtíðina. Það var eins og allt sem ég gerði hefði áhrif á hvernig ég tækist á við það sem koma skal. Ég horfði á jógúrt dósina í augnablik og sparkaði í hana. Ég vissi að ég var búin að breyta framtíðinni. Þá hélt ég áfram göngu minni.

Ég fór að hugsa um móður mína. Hún var svona, togandi okkur krakkana á snjóþotum út um allt sem hún fór, hvort sem það var bylur eða auð jörðin. Hún gekk áfram og ekkert gat stoppað hana. Ég fékk svarið á þennan hátt og ég áttaði mig á því að ég var að tengjast móður minni: Hesturinn. Ég horfði til baka og dró andann djúpt. Mér leið svo vel, það var svo djúp tilfinning. Þakka þér móðir, fyrir að draga okkur áfram! Manstu mamma, þegar þú varst barn og þú vildir vera góð eins og Jesús? Jæja, ég ætla að færa þér hann.

Þá varð mér hugsað um vagninn í tarotspilunum

Vagninn.


Vagninn eða maðurinn á vagninum er í þessu spili ungur maður sem andlitið ber skýr merki um staðfestu og metnað. Hann er skyldur fíflinu sem er ákafur fyrir nýrri reynslu og ævintýrum, en hann er frábrugðinn fíflinu af því hann er einbeittur og hefur skýr markmið í huga. Hann táknar unglega ástríðu, styrkleika, löngun til að ná árangri og ná góðum markmiðum, án vanþroska fíflsins. Heimur hans er þakinn stjörnum og einkenni hans líkist himneskum mætti og andleg aðstoð vegna hálfmána sem er á öxlum hans og stjörnurnar í kórónu hans. Vagninn táknar ekki aðeins vilja, heldur öruggan og staðfastan árangur af metnaði ökumanns í gegnum undirbúning að ákveðnu markmiði. Jafnvægi af þessum metnaði er táknuð með andliti af manni og líkama af dýri. Svarta veran er neikvæð hlið á metnaðarfullri löngun til að ná markmiði hvað sem það kostar. Hvíta veran táknar jákvæðan þátt af þessari sömu löngun. Tákn vagnsins er þörf fyrir að fagna takmarki og þröngva því með afli? Býst hann við að metnaður þinn sé of ákafur og skaðlegur heilsu annarra þátta í lífi þínu? Hvernig lýsir þessi mynd þinni ytri og innri aðstæðum?

Ég var róleg eftir þetta og fór heim og tók upp þetta spil og kyssti það. Það var sama tilfinning eins og kyssa mömmu mína. Ég setti börnin í rúmið og kyssti þau góða nótt, Mér leið svo vel, mér var svo hlýtt í hjartanu, þetta var svo mikill léttir.

Hvílíkur kvenmaður. Hvílíkur styrkur sem hún hafði. Ég elska þig mamma. Þú gerðir þetta allt, það varst þú.

 

Ég fór til hennar daginn eftir. Hún var að leggja sig eftir næturvakt. Pabbi var vakandi. Ég spurði hvort ég mætti segja henni svolítið. Hann sagði við mig, aðeins ef það er áríðandi. Ég sagði honum að það væri mjög áríðandi. Ég fór inn í herbergið þeirra þar sem hún lá og hún tók eftir mér. Ég beygði mig niður og hvíslaði í eyra hennar, mamma, Skorri er Jesús. Þá fór ég fram og ætlaði að fara en það skaust upp í huga mér ótti að þetta mætti ekki fara lengra. Ég bað pabba um að leyfa mér að segja eitt orð í viðbót. Ég fór inn og beygði mig niður til hennar og hvíslaði aftur í eyra hennar „Mamma ekki segja neinum frá því.“ Hún jánkaði því eins og hún væri á milli svefns og vöku. Mér leið þá betur og taldi öruggt að fara.

Foreldrar mínir fóru að hringja í mig og spyrja mig hvort að það væri ekki allt í lagi með mig. Þau fóru að taka eftir því að, það var ekki allt með felldu.

Einn daginn kom mamma til mín í skólann. Hún ætlaði að láta mig fá nesti. Hún fann mig inni á salerninu. Ég var þá grátandi. Hún spurði hvað væri að. Ég sagði henni að ég gæti ekki sagt henni það. Það væri leyndamál. Ég var nefnilega farin að heyra röddina segja stanslaust við mig: Ekki segja neinum frá leyndarmálinu. Mér fannst eins og ég og maðurinn ættum að halda leyndarmálinu fyrir okkur. Það mátti enginn vita það. Kennarinn og nemendurnir voru farnir að taka eftir því að ég væri farin að hegða mér undarlega. Ef kennarinn sagði okkur að teikna á einhvern hátt, fannst mér ég vita betur og gerði það á þann hátt sem ég taldi réttan. Mér fannst ég hafa meira vit á hlutum. Mér leið eins og ég væri sú fullkomna og enginn gæti vitað hlutina eins vel og ég. Mér leið eins og ég væri að verða óviss um að ég gæti höndlað þetta verkefni sem lá fyrir mér að gera. Mér fannst ekki auðvelt að vera á toppnum og bera þá ábyrgð sem því fylgir. Ég bað Guð oft um að leyfa mér að vera venjuleg, bara einföld móðir sem bæri ábyrgð á tveimur börnum. Mér fannst ég orðin ófær um að gera annað. Ég fann vanmátt minn gagnvart því hlutverki sem röddin var að segja að væri framundan.

 

Eitt skipti vorum við Jeff að tala saman í síma, vorum að tala um drauma okkar. Það sem við vildum fá út úr lífinu. „Mig langar að skrifa bók“ sagði hann, „Mig langar að fara upp á topp á háu fjalli og sitja þar með eina jónu og bíða eftir að fjallið springi í loft upp.“ Það væri toppurinn á hans tilveru. Ég sagði við hann að svona hugsun virkaði eins og hann vildi eyðileggja líf sitt. Hann sagði að svona vildi hann enda líf sitt. Mér þótti vænt um hann og þess vegna skrifaði ég nokkur ljóð handa honum sem ég spilaði fyrir hann á gítarinn einn daginn sem hann kom í heimsókn.

Eitt af þessum ljóðum, hét Fjallið:

 

I ´m going to the mountain

I ´m going to be free

My time is now in place

Im going to the space

 

 

Please don’t try to follow

Your time is not there yet

But when you see your shadow

Remember when we met.

 

I know you have been crying

long before I came.

Nobody is dying

the life will be the same

 

Please don’t try to follow

Your time is not there yet

But when you see your shadow

Remember when we met.

 

 

My journey will continue

Further in the life

And you will find it in you

If you dare to dive.

 

Hann hafði sjálfur safnað lögum á kasettu sem hann hafði gefið mér. Eitt af þeim lögum var Blackstreet - No Diggity

 

 

sem ég spilaði endalaust þegar ég fékk öll skilaboðin. Það róaði mig að hlusta á þessa músík þegar ég fór í þennan trans sem ég var alltaf að detta inn í. Eina nóttina sem ég var að hugsa um Jeff og saknaði hans mikið, fór ég í kvíðaástand þar sem hann var ekki búinn að hafa samband við mig í langan tíma. Ég hringdi í hann, en hann svaraði ekki. Þá ákvað ég í skyndi að keyra til Keflavíkur og banka upp á hjá honum. Ég hafði skrifað bréf sem ég vildi láta hann fá. Þegar ég kom upp á Völl, var ég stoppuð í hliðinu og ég var spurð um passa. Ég sagði að ég væri ekki með hann, en ég þyrfti nauðsynlega að ná í mann sem ég þekkti og grátbað þá um að hleypa mér inn. Þeir sem voru í hliðinu sáu á mér að mér var mikið niðri fyrir. Þeir hleyptu mér því í gegn og sögðu mér að vera fljót. Ég lofaði því og hraðaði mér til hans, þar sem ég þurfti að komast sem fyrst, vegna þess að ég skyldi krakkana eftir. Ég hafði ekki skynbragð á það, hvað ég var að setja þau í mikla hættu. Það eina sem komst að hjá mér var að koma þessu bréfi til hans, þar sem ég vildi segja honum frá tilfinningum mínum. Þegar ég kom að dyrunum og bankaði, þurfti ég ekki að bíða lengi. Jeff kom til dyra og var mjög undrandi að ég væri komin. „Hæ“ sagði hann, „ég var að fara út. „Nú“ svaraði ég, „ertu að fara að skemmta þér?“ „Já, það voru vinkonur mínar sem ég átti von á. Þær ætla að koma með mér á pöbbinn.“ Ég lét mér það í léttu rúmi liggja, þar sem ég vissi að það voru orðnar fjarlægar tilfinningar á milli okkar. Ég vildi láta hann hafa béfið til að segja honum frá tilfinningum mínum þar sem ég vissi að hann myndi einhvern tímann fara af landi brott. Í bréfinu skrifaði ég að þó að hann væri langt í burtu frá mér, myndi ég samt elska hann. Ég gæti elskað hann í fjarlægð. Svo sagði ég honum að ég þyrfti að flýta mér þar sem ég hefði fengið að skjótast inn á Völlinn með því loforði að koma fljótt aftur. Hann fylgdi mér út í bíl og tók utan um mig og sagði mér að fara vel með mig. Ég játaði því og fór svo af stað. Ég þurfti að flýta mér svo ég væri ekki of lengi í burtu frá börnunum.

 

 

Daginn eftir fór ég til mömmu og spurði hana hvort hún gæti komið með mér á spítalann. Ég sagði henni að undanfarið hefði ég þá tilfinningu að ég væri að missa máttin. Ég sagði henni að mér liði stundum þannig á nóttinni þegar ég væri að fara að sofa.

Mér leið eins og líkami minn yrði máttlaus og ég gæti ekki hreyft legg né lið. Ég sagði henni að ég væri hrædd um að hjartað á mér gæfist upp að lokum. Hún samþykkti að koma með mér. Ég sagði við hana á leiðinni: „Mamma, ef það er að líða yfir mig, viltu þá taka við stýrinu?“ Hún varð svolítið óttaslegin en játaði því. Þegar ég var búin að sleppa orðinu leið mér eins og ég væri að líða út af. Ég sagði við mömmu: „Ég verð að fara út í kant. Hún færði sig úr sætinu og settist í bílstjórasætið. Ég fann fyrir máttleysi, en ég var ekki eins hrædd, þar sem mamma var að keyra.

Ég vildi bara að við gætum farið til læknis og látið þá athuga hvað væri að gerast. Ég gat ekki verið svona ef ég ætlaði að sjá um börnin. Þegar við komin á spítalann þurftum við að bíða smá stund. Mér fannst það allt í lagi, þar sem ég var ekki ábyrg fyrir neinu.

Þegar það kom loksins að mér, var ég sett upp á bekk þar sem læknarnir ætluðu að skoða mig. Þeir settu alls konar leiðslur við hjartað og á fingurinn til að mæla súrefnisflæði og hjartslátt. Ég fann að mátturinn fór hægt og rólega úr mér, þangað til að ég leið út af. Mér fannst eins og ég heyrði raddir í fjarska en ég gat ekki greint þær. Þau voru að reyna að kalla á mig, en ég gat ekki svarað. Ég lá bara eins og lömuð og mér fannst ég vera að deyja. Allt í einu tók ég andann á lofti eins og það hefði verið rekinn rýtingur í bakið á mér. Ég settist upp og hjúkrunarkonan sagði að það væri eins og það væri að koma eitthvað illt út úr mér. Ég kallaði: „Jesús er upprisinn!“

Ég var að vonast eftir að þeir hefðu skilið hvað var í gangi. Ég var kölluð inn í viðtalsherbergi eftir þetta þar sem læknir spurði mig ýmissa spurninga.

Hann spurði mig hver væri tilgangur lífsins. Ég svaraði spurningum hans um það á þann hátt að aðalnauðsynin til að lifa, væri að eiga fyrir húsaleigu og sjá um börnin sín og hafa góða vinnu.

Læknirinn sagði við mömmu að ég mætti fara heim með þeim skilyrðum að það yrði einhver með mér um nóttina. Mamma ákvað að vera hjá mér þessa nótt. Þegar við komum heim, töluðum við lengi saman. Hún var að reyna að fá það upp úr mér hvað væri að gerast. Ég sagði henni að lífið væri ekki dans á rósum. Svo talaði ég um ýmsa hluti sem snerust um lífið og tilveruna og sagði henni frá afa mínum, Stefáni. Hún sagði mér að ég talaði eins og trúarleiðtogi. Ég brosti við því, vegna þess að ég vissi að ég var það. Kannski samt svolítið meira en það. Við það fór ég að sofa


Kafli 12. Ég er að verða engill

12. kafli

 

Mamma hennar Ingu kom til mín einn daginn og sagði að vinnu minni væri lokið hjá þeim þar sem þetta væri hvort eð er sumarvinna. Ég vissi ekki hvort þau væru farin að skynja að ég væri eitthvað skrítin. Ég vildi ekki hætta að vinna en ég vissi að skólinn væri byrjaður þannig að það var hvort eð er komin tími til að byrja að einbeita sér að því.

Það gekk vel framan af en ég var ennþá föst í þessum fasa ranghugmynda.


Eitt sinn þegar Davíð hafði tekið börnin um helgina og það var tími til kominn að hann myndi skila þeim til baka, hringdi hann í mig og spurði mig hvort ég gæti komið og náð í þau vegna þess að það væri svo lítið bensín á bílnum hans. Hann þyrfti að komast í vinnuna daginn eftir. Ég sagði já og ég spurði hann hvar hann ætti heima. Hann var alltaf að flytja og ég vissi aldrei nýja heimilisfangið hans. Hann sagði mér það og ég lagði af stað. Þegar ég kom á þær slóðir sem þessi staður var skráður, gat ég ekki fundið húsið. Ég keyrði fram og aftur þangað til ég gafst upp, Hugur minn var undir svo miklu álagi að ég gat ekki einbeitt mér að svona flóknum hlutum. Ég ákvað að fara heim og hringja í hann og segja honum að ég gæti ekki fundið þetta. Ég fékk nánari upplýsingar og ég fór aftur á staðinn. Þegar ég kom þangað, gerðist það sama. Það skipti ekki máli hvað ég keyrði oft í hringi um nágrennið, ég gat með engu móti fundið húsið. Ég hafði ekki rænu á að hringja í næsta söluturni, vegna þess að kvíðinn var að sækja á mig um að ég væri orðin of sein til að nálgast Skorra. Á leiðinni heim byrjaði hjartað í mér að kólna og ég fékk það á tilfinninguna að Skorri myndi deyja. Ég flýtti mér heim og hringdi í Davíð í annað sinn. Ég sagði honum að nú væri ég búin að koma tvisvar og ég gæti bara með engu móti fundið þetta. Ég sagði honum að hann þyrfti að koma sem fyrst með krakkana. Ég var farin að hafa verulegar áhyggjur af Skorra. Hann kom loksins með þau og ég fór með þau inn eins fljótt og ég gat og lokaði á eftir mér. Ég talaði ekkert við pabba þeirra, þar sem ég varð bara að koma þeim í skjól. Þegar ég var komin inn fannst mér að hjartað byrjaði að hlýna aftur og ég gat róast.

 

Daginn eftir fór ég með krakkana til dagmömmu og svo beint í skólann. Ég var farin að mæta seint, vegna svefnleysis en ég tók það ekki mjög nærri mér.

Það gekk ágætlega að leyna þessu fyrir kennaranum og ég teiknaði það sem ég átti að teikna á meðan ég rökræddi við röddina í huganum. Ég hugsaði um það sem hún var búin að segja mér síðustu daga.

 

Eitt sinn í morgunkaffitíma var ég úti á tröppum að reykja og drekka kaffi. Þá heyrði ég röddinn segja við mig: Ekki segja neinum frá leyndamálinu. Ég fór að hlusta á þetta þar sem þetta virtist hljóma aftur og aftur í þessum orðum: Ekki segja frá leyndamálinu. Ég fór að reyna að ná sambandi í huganum og einbeitti mér ákaflega mikið að þessu. Af hverju má ég ekki segja frá leyndarmálinu? spurði ég í lágum hljóðum. Það er vegna þess þið megið bara vita það, svaraði röddin til baka. Mér fannst að hann væri að tala um mig og þennan mann sem væri að koma til mín sem hann var búinn að tala um frá því að ég fór að heyra í honum.

Þegar þetta var búið að standa yfir í þó nokkurn tíma, fékk ég það á tilfinninguna að Guði lægi mikið á hjarta. Ég ákvað að reyna að komast að því með því að fara í bíltúr. Kaffitíminn var að verða búinn en mér fannst þetta skipta meira máli. Ég keyrði um og lét tilfinninguna ráða hvert ég færi. Það dró mig niður á Seltjarnarnes, þar sem ég stoppaði bílinn með þessa ótrúlegu tilfinningu að ég væri að komast að kjarna málsins. Ég horfði á sólaruppkomuna á meðan ég einbeitti mér að Guði. Guð, hvað er að? spurði ég. Þá fannst mér eins og hann væri að gráta. Ég varð mjög stressuð og sagði: Guð, af hverju grætur þú? Hann svaraði mér þá og sagði að hann hefði gert mistök. Ég sagði á móti, Guð, hvernig í ósköpunum átt þú að geta gert mistök? Hann svaraði þá til baka: Ég gerði mistök, þegar ég skapaði manninn. Mér brá rosalega að heyra að Guð væri að kenna sér um að hafa skapað okkur mennina. Hvernig gat það verið? Ég reyndi að hugga hann og sagði við hann: Guð þú gerðir ekki mistök, þegar þú skapaðir okkur mennina. Þú skapaðir okkur í þinni mynd og við fengum hæfileika til að skapa sjálf. Við kunnum bara ekki að fara vel með hæfileika okkar og misnotuðum þá í þágu hins illa. Það var ekki þér að kenna. Þú gafst okkur frelsi vegna þess að það er ást að gefa börnum sínum frelsi. Það er ekki ást að setja þau í fjötra. Við brugðumst þér. Guð, þú mátt ekki kenna þér um mistök okkar mannana.

Þegar ég var farin að finna að hann væri orðin rórri en samt ekki búinn að taka gleði sína að fullu, vissi ég að hann vissi þetta alveg. Hann var bara að reyna að taka ábyrgðina af sínum eigin börnum. Við getum ekki borið ábyrgð á gjörðum barna okkar. Við getum bara reynt að fræða þau nóg um afleiðingar gjörða sinna en það eru þau sem taka skrefið sem mun móta þroska þeirra.

Ég fór aftur upp í skóla og kom seint í tíma. Ég átti að mála litahring þennan dag og átti að koma með liti með mér sem kennarinn var búinn að láta okkur fá nöfnin á. Þegar ég keypti mína liti, taldi ég mig vita betur og keypti liti sem ég hafði notað í andlitsmyndirnar sem ég hafði málað. Ég tók eftir því fljótlega að minn litahringur var allt öðruvísi en hjá hinum nemendunum. Ég skildi ekki af hverju. Ég hélt að ég væri með miklu betri liti, hugsaði ég.

Þetta voru vonbrigði hjá mér. Ég hélt að ég væri hæfari en þetta, hugsaði ég.

Ég reyndi að notast við þessa liti það sem eftir var af þessum tíma, þó að kona við hliðina á mér bauð mér að nota sína.

 

Ég er að verða engill

Þegar kom að hádegishlé, sagði skólastjórinn mér að koma upp á skrifstofu. Hann fór að segja mér að hann tæki eftir því að ég væri búin að mæta illa og svo væri ég farin að hegða mér undarlega í tímum. Ég sagði honum að mér þætti það leitt. Hann spurði mig hvort ég væri í einhverri óreglu. Ég sagði nei, ég bragða ekki áfengi eða vímuefni. Hann sagði mér þá að það væru til samtök sem gætu hjálpað mér.

Ég fór að hugsa um að hann væri sennilega að segja mér frá einhverjum samtökum sem hann væri sjálfur að sækja. Ég fékk það á tilfinninguna að hann væri alkahólisti og hann væri að biðja mig um að hjálpa sér að komast út úr því. Mér fannst að hann skynjaði að ég væri með yfirnáttúrulega hæfileika og að ég gæti frelsað hann. Hann lét mig fá bækling sem á stóð SÁÁ. Ég sagði honum að ég skildi kynna mér þetta. Ég setti bæklinginn í ruslið, þegar ég kom út. Ég hugsaði með mér að ég myndi minnast hans þegar ég þyrfti að velja þá sem voru frelsaðir.

Þegar þessi dagur var á enda, fór ég að ná í krakkana til dagmömmunnar.

Þegar ég gekk inn um dyrnar, spurði konan mig hvort allt væri í lagi.

Ég sagði já og þá fór ég að leita að Skorra. Hann vaknaði upp úr lúr sem hann hafði fengið sér. Hún kallaði til hans og sagði við hann: „Sjáðu hver er hérna.“ Hann leit í kringum sig en skildi ekki hvað gekk á. Ég kallaði nafnið hans en það leit út fyrir að hann heyrði ekki í mér.

Konan reyndi fá hann til að ranka við sér en það var eins og hann væri í einhvers konar dái. Það var eins og hann þekkti mig ekki. Þegar ég tók hann sýndi hann engin svipbrigði. Ég sagði við konuna: „Það er eins og hann þekki mig ekki.“ Hún svaraði því játandi, undrandi á svip. Mér leið eins og ég væri að breytast, mitt eigið barn þekkti mig ekki.

Þegar við komum heim og gengum frá dótinu, kallaði ég nafnið hans aftur. Hann öskraði eins og ljón og það var eins og ég væri ófreskja. Ég leit í spegilinn og mér fannst hárið á mér vera að breyta um lit. Ég hafði það á tilfinningunni að ég væri að breytast í engil með hvítt hár. Ég fór þá að hugsa. Það er ekki skrítið að hann sé hræddur. Ég er að verða engill.

 

Flaug sálin hans út?

Á meðan ég tók til kvöldmatinn, reyndi ég að láta sem ekkert væri. Ég sagði Sunnu að setjast í einn stólinn og svo setti ég Skorra í barnastólinn. Þegar ég var rétt búin að sleppa af honum takinu öskraði hann aftur. Ég spurði: „Hvað er að“? Hann grét og horfði á tána á sér og ég leit þá á hana og tók eftir að það var blóð hjá naglabandinu. Eins og öllum mömmum er eðlilegt, kyssti ég á tána til að hugga hann. Þegar ég ætlaði að snúa mér við, kviknaði ótti í huga mér. Hvað ef ég gerði eitthvað vitlaust? Kannski var ég að blanda saman móðurhlutverkinu og leiðbeinandanum. Hvað ef að annað hvort hlutverkið flæktist fyrir hinu? Ég fór að hugsa á meðan þau borðuðu. Mér fannst ég svo einföld og ég væri ekki hæf í þetta hlutverk. Ég reyndi að finna svarið inni í huga mér. Það var svo löng leið inn í hugann og ég þurfti að grafa langt. Mér fannst allt í einu að ég hefði opnað hliðið fyrir djöflinum. Hann er að stela skynseminni og hæfileikum okkar. Við sem erum þau einu sem getum lagað þetta allt. Ég verð að finna svarið áður en við förum út á morgun. Ég verð að finna leið til að laga þetta. Flaug sálin hans Skorra út þegar ég kyssti á tána á honum? Hvernig get ég náð í hana til baka. Ég verð að hugsa ...

Svo gekk ég um stofugólfið, strjúkandi hárið taktfast með hægri hendi, eins og ég væri að nudda höfuðið í leiðinni. Hvað ef ég kyssi varir hans aftur til að setja sálina í hann aftur. Ég þarf að reyna, hugsaði ég. Ég kláraði að gefa þeim að borða og kom þeim svo í háttinn.

Þar sem börnin voru nú sofnuð, gekk ég að rúminu hans Skorra og kyssti hann á varirnar. Ég fór þá aftur inn í stofu og reyndi að finna út í huga mér hvort þessu væri þá bjargað. Var þetta leiðin til að koma sálinni á sinn stað? Ég hugsaði og hugsaði..... Ég var komin með hausverk af því að hugsa svona mikið. Ég lokaði augunum og bað til Guðs. Góði, Guð er ég á réttri leið? Gerðu það, segðu mér hvernig ég á að leysa þetta. Hugurinn á mér fór fram og til baka í ferlinu til að reyna að skilja. Hugsunin flaug um eins og leðurblökur þegar þær sjá ljós. Ég var ofboðslega rugluð á þessu. Þegar ég kyssti tána á honum, fór sál hans inn í varirnar á mér. Þegar ég kyssti hann á varirnar fór hún aftur í varirnar á honum. Hvað ef einhver kyssir hann á morgun og sálin fer inn í þá manneskju og svo mun sú persóna kyssa einhvern annan og sálin fer þangað? Hvernig á ég þá að finna hana aftur? Hvað get ég gert Guð? Hvernig get ég falið sálina á honum, hvert get ég sett sálina hans á öruggan stað? Ég fór aftur til Skorra og kyssti hann aftur. Ég get að minnsta kosti geymt hana inni í mér á meðan ég finn lausnina. Ég þarf bara að vera viss um að kyssa engan á meðan. Ég þarf að hugsa ...

Allt í einu kom svarið. Ég var leitandi ... Ég kyssti á honum tána og sálin fór inn í mig, þá kyssti ég á honum varirnar og sálin fór inn í varirnar á honum. Ég fór svo aftur og kyssti hann og sálin fór inn í mig. Hvernig get ég komið henni aftur niður í tána? Ég hugsaði stíft ...

Ég fæ röddina í gegnum gat efst uppi á höfðinu á mér. Það þýðir að sálin á mér er efst uppi í höfðinu á mér. Ég þarf þá að kyssa hann á höfuðið og ná henni niður í tána. Ég þarf að banka hann í höfuðið. Ég bankaði í höfuðið á honum þegar við komum úr skólanum í dag þegar krakkarnir voru að rífast. Þannig datt hún niður í tána. Ég fór inn í herbergi til þeirra aftur og kyssti Skorra á höfuðið, svo bankaði ég laust á hausinn á honum til að láta hana fara niður í tána. Skorri vaknaði þá og fór að gráta þegar ég sló á hausinn. Ég var fljót til og kyssti hann á höfuðið. Ó, aumingja Skorri, hvað er mamma að gera? ... Ó, Guð hvað gerði ég nú? Hvað á ég að gera núna? ... Ó, góði Guð, segðu mér það ...

Hugsanirnar þutu um og það var eins og ég væri í keppni við tímann um að leysa þessa þraut. Ég varð að finna lausn á þessu fljótlega áður en allt er ónýtt. Ég leitaði í huganum á mér. Ég þarf að kyssa hann aftur á höfuðið svo þarf ég að slá aftur í hausinn til þess að sálin fari niður í tána þar sem enginn getur fundið hana. Ég má bara ekki kyssa hann aftur ef hann vaknar og fer að gráta, annars endar það alveg eins.. Ég gerði þetta og sem betur fer, vaknaði hann ekki í þetta skipti. Nú gat ég slakað á.

Ég fór inn í stofu og hallaði mér aftur.

 

 

Ég hef áttað mig á þessu!

Ég leyfði huganum að fljóta. Draumar sem mig hafði dreymt fyrir löngu síðan, byrjuðu að koma upp í hugann á mér. Ég byrjaði að tengja þá við þessar hugsanir.

Kannski er ég Jesús, kannski er ég sá sem verður að laga þetta allt. Kannski þarf ég að vera hann þangað til Skorri tekur við. Kannski þarf ég að læra svo ég geti kennt Skorra verk hans. Já, eins og Davíð sagði alltaf: „Andrea, þú ert sú sem hefur hæfileikana og menntun. Ég treysti á þig til að sjá um að kenna börnum.“ Já, ég verð að læra og ég þarf að læra þetta fljótt, ég þarf að læra um hann. Hvað þarf ég að læra?

Davíð sagði einu sinni: „Andrea! Ef þú lærir á mig, þá verður allt í lagi.“ Já, ég verð að læra og ég veit um þann sem getur kennt mér það. Hann heitir Sigursteinn. Hann er bróðir minn, hann er dýrið og hann kenndi mér að berjast við dýrið, því að það var annað dýr og það var stjórnsamur faðir minn. Sigursteinn sagði við mig einu sinni: „Andrea, mundu, ef þú hefur ekkert rökrétt að segja, ekki tala.“ Hann hafði rétt fyrir sér. Ég hef síðan reynt að kenna huga mínum þetta og reynt að læra hvernig ég á að fá fólk til að hlusta. Hlustið á það sem ég ætla að segja, vegna þess að ég hef helling að segja, að ég er að springa.

Sigursteinn kenndi mér annað, þegar ég var að reyna að fá föður minn til að hlusta. Hann sagði: „Andrea, þegar þú hefur á tilfinningunni að þú sért að tala við vegg, láttu það ógert. Vertu ekki að eyða tilfinningum þínum og tíma í þann sem lætur þér líða illa.“ Ég hef áttað mig á þessu og ég veit það í dag.

En bróðir, veistu hvað? Kannski vill einhver annar hlusta, það eru ekki allir eins og pabbi það er líka til fólk sem vill hlusta, við þurfum bara að finna það.

Talaðu við það, bróðir, það gæti verið einhver þarna úti sem vill hlusta á þig. Gerðu það bróðir, þú ert svo fullur af visku, láttu þau heyra það.

 

Gefðu dýrinu lausann tauminn, bróðir!

 

Hlustaðu á þetta, bróðir:

 

Once I was a child

I was walking in the wild

wishing all this people

could try to be more mild.

 

everybody shouting

and nobody did care

that maybe someone out there

is someone who would dare.

 

Tell me are you hungry

do you need to find a way

to raise your hopes to heaven

or just leave and walk away.

 

I can tell you one thing

and that is all I know

that if you never try it

nothing will ever grow.

 

Put your heads together

and take your neighbours hand

at least you can with friendship

begin to grow this land.

 


 

Þú kenndir mér þetta bróðir, af því við vorum mjög samrýmd, öll systkinin og við spjölluðum mikið um lífið og við könnuðum mjög vel, hvernig við ættum að takast á við það.

Við þurftum að lifa af. Vegna þess að heimurinn er fullur af skepnum sem eru að reyna að éta okkur. Bróðir, hvers vegna segja þeir í Biblíunni að tungumálið verði afbakað og löndin muni tala ólík tungumál? Það er bara þannig að við höfum öll okkar eigin leið til að koma tilfinningum okkar í orð og við þurfum að finna leið til að koma þeim í þau orð svo að aðrir skilji þær. Þetta er erfiður hæfileiki, við höfum tilhneigingu til að reyna að koma sjónamiðum okkar á framfæri. Það eru bara misjöfn sjónarmið sem fólk hefur. Við þurfum að læra á þeirra tilfinningar.

Þegar ég var í hjónabandinu með Davíð þurfti ég að læra á hans sjónarmið. Við töluðum sama tungumálið en við vorum með ólíkar skoðanir til lífsins.

Hvar getum við fundið bókina sem er um það sem er raunverulega satt, bókina sem var skrifuð af honum?
Ég hef verið að leita að sannleikanum í langan tíma. Ég kallaði á hann í mörg ár. Þegar ég fann að ég væri svo nálægt honum fór ég að efast um hvort ég væri fær um þetta.

Hvernig getur það verið? Ég kalla mig sjálfa, kristna manneskju, en veit ég hvað það þýðir þegar ég hugsa um það? Er ég alveg viss um að ég muni vera fær um þessa trú? Er ég tilbúin að forðast freistingar og lífa samkvæmt trúnni?

Okkur finnst alltaf, að við getum beðið Guð um hjálp. Hvenær ætlum við að „gefa honum“ hjarta okkar? Eins og þeir segja: „Það er betra að gefa en þiggja.“ Hvað meina þeir með því? Hefur þú einhvern tímann fengið þá tilfinningu að þegar þú gefur einhverjum sem þú elskar gjöf, að þér líði betur en ef þú þiggur eitthvað frá sömu manneskju? Þú færð tilfinningu til að gefa til baka. Hvers vegna er það? Er það sektarkennd? Ég heyrði röddina segja: Þú þarft að borga syndir þínar til baka. Hvað þýðir þetta? Að ég þurfi að borga syndir mínar til baka? Hvernig get ég gert það? Hvernig borgar maður syndir sína til baka? Hvernig getum við gert upp reikningana, áður en við fáum aflausn og fyrirgefningu til að lifa betra lífi? Hvar getum við fundið dýpstu syndir okkar. Vitum við hvað synd er? Guð ég þarf hjálp þína í þessu. Segðu mér syndir mínar, svo ég get borgað þær til baka!

Ég flýtti mér að leita að öllum reikningunum mínum. Ég ætlaði að fara í bankann til að borga þá alla áður en ég færi. Kannski fengi ég ekki tækifæri til að fara í bankann seinna. Ég ætlaði að borga þá áður en ég færi á þann stað sem leið mín lá. Ég vissi, að ég var að fara í ferðalag. Ferðalag sem ég var kosin til að fara í. Ég vissi hver var ein af syndum mínum. Ég hef ekki gætt að hjarta mínu, ég hef verið að misnota hjartað mitt. Ég man þegar ég skrifaði þér bréf Jeff: 

 

Í bréfinu stóð þetta:


Hann tók hjarta mitt, hann tók nafnið mitt og hann drap dýrið mitt. Síðar í bréfinu skrifaði ég: Ég hef áttaði mig á því hverju ég hafði gleymt, þakka þér fyrir að sýna mér það. Ég mun ganga ein með börnin mín og hjarta mitt og ég lofa þér að ég mun hugsa vel um það núna. Heldurðu að ég hafi gert það?

 

 

Er rifrildið, á milli Guðs og djöfulsins?

Ég fór að setja þetta í samhengi við það sem ég var búin að hugsa þessa daga og vikur. Þetta er einmitt það sem við erum búin að gera gagnvart Guði. Við tókum hjarta hans, við tókum nafnið hans, við drápum dýrin hans. Seinna var ég að hugsa um að þetta er einmitt það sem Guð hefur gert fyrir okkur.

Hver er það sem fær þig til að missa sjálfsvirðinguna? Hvað er sjálfsvirðing? Nafnið þitt? Hver tekur nafnið manns? Er það einhver sem er sama um þig? Hvernig missum við ástina okkar? Er það þegar hún fer á bak við þig? Hver eru dýrin þín? Eru það börnin þín? Hver drepur dýrin þín? Er það einhver sem vill ekki að þú hafir aðra skoðun en hann? Eða sá sem vill særa þig? Er það einhver sem elskar þig af eigingirni, einhver sem getur ekki horfst í augu við að þeir missa þig?

Hvar ætlum við að enda? Í drullunni, eins og snákurinn? Ég get sagt þér eitt. Ég ét drullu. Ég veit ekki af hverju, kannski vegna þess að ég var búin til af drullu? Eða var það mold? Er það ekki það sama? Kannski geri ég það vegna þess að ég er að minna mig á, að þar muni ég enda.

Hvernig getum við haldið virðingu hans? Með því að hlusta á það sem hann hefur að segja og virða það, trúa því, samþykja það og hætta að efast. Hvernig getum við haldið ást hans? Með því að segja honum sannleikann, fylgja orðum hans og snúa aldrei við honum baki.

Er barnið okkar hjartað okkar? Er það ástríða okkar og líkami okkar? Faðir, Sonur og Heilagur andi er samsetning af Guði. Hvernig missum við trúna á Guði?Þegar faðirinn svíkur okkur. Hver er sonurinn?

Hvar byrjaði þetta þá? Kom eggið á undan hænunni? Byrjaði þetta í hvellinum stóra? Byrjaði þetta með þróun? Gerði Guð þetta allt?

Svona flugu hugsanir í gegnum hugann og ég réði ekki við neitt.

 

Tunglið

Tunglið var alltaf að birtast mér í tarotspilunum.Þegar við upplifum svona ofsafengnar tilfinningar, er erfitt að trúa því að við munum nokkurn tímann upplifa samhljóm og frið innra með okkur.

Ég var farin að sjá þetta spil koma aftur og aftur fyrir sjónir mínar, eins og það vildi segja mér eitthvað. Það var eins og að hundarnir eða úlfarnir á myndunum væru að góla á tunglið til að það myndi ekki detta niður á jörðina. Mér fannst eins og það þýddi að ég þyrfti að hafa hraðan á. Mér fannst að krabbinn sem var að koma upp úr vatninu væri hið illa í lífinu að ná tökum á manni ef maður sló slöku við. Þetta var eins og keppni um að öðlast visku áður en maður myndi sökkva inn í svartnættið. Stundum leiddi ég hugann að því hvort að þessi krabbi væri bókstaflegur og þýddi að ég yrði að flýta mér að finna svarið áður en ég myndi deyja af völdum krabbameins. Það var ekki augljóst fyrir mér.

Það flugu minningar í gegnum hugann og ég fór að hugsa um hvað ég hafði haft fyrir stafni í gegnum lífið.  


Kafli 11. Ringulreið

11. kafli

Ringulreið

           

Ég var farin að finna fyrir miklu álagi á huga minn og líf mitt. Einhvern veginn voru hugsanirnar að reyna að komast út úr þessu ástandi. Ég var líka að reyna að einbeita mér að skólanum og að hugsa um börnin. Ég tók ekki eftir því í byrjun en mér var farið að finnast ég vera að breytast. Fólk sagði að ég talaði eins og prestur eða einhver persóna sem þau þekktu ekki. Ég vissi ekki af hverju. Ég bað á hverju kvöldi til Guðs. Ég bað hann um að hjálpa mér: Góði Guð, ég bið þig að hjálpa mér að gera skyldu mína, svo ég geti hugsað um börnin mín.

Á þessum tíma kom Freyr í heimsókn, þar sem honum fannst svo langt síðan að við hittumst. Ég sagði honum þá frá Jeff og sagði honum að ég væri farin að finna tilfinningar til þessa manns. Freyr var ekkert ánægður með það, en skildi það svo sem vel að hann átti ekkert tilkall til mín. Ég sagði honum að ég gæti ekki verið að hitta hann á meðan, þar sem ég vildi vera Jeff trú. Hann sagði þá við mig að ef það breytist seinna, þá mætti ég endilega láta hann vita, þar sem honum líkaði vel við mig. Ég lofaði honum því og leyfði honum að kyssa mig bless.

Á þessum sama tíma hafði ég þörf fyrir ástúð frá einhverjum og í hvert skipti sem ég sýndi börnunum athygli og gaf þeim af mér, sem var að verða alltaf minna og minna, gat ég ekki endurhlaðið þá orku. Ég þráði faðmlag og umhyggju. Það var samt bara í huganum. Það mátti enginn vita það. Það mátti enginn vita hvað ég var viðkvæm. Ég vildi sko alls ekki að Jeff vissi það. Það var nefnilega einmitt það sem hann vildi. Ég ætlaði að sýna þeim öllum að ég væri fullkomin og að ég gæti gert þetta allt ein.

Ég varð þögulli með hverjum deginum. Ég var farin að lokast inni í huga mér. Ég var farin að heyra raddir og mér fannst eins og einhver væri að leiðbeina mér á einhverja braut. Ég kallaði í huganum: Guð, ert þetta þú? Ætlar þú að sjá um allt? Hvað get ég gert Guð, hvað er að koma fyrir mig? Gerðu það, ég bið þig Guð, segðu mér það. Gerðu það, sendu einhvern til mín til að hjálpa mér. Ég get ekki gert þetta alein. Góði Guð, ég er svo reið, ég er svo særð, hvernig get ég hugsað um börnin ef ég get ekki einu sinni höndlað mótlæti? Ó, Guð, grét ég. Ég sem hélt að ég væri laus þegar ég yfirgaf Davíð. Ég sem hélt að ég gæti einbeitt mér að þessu þegar ég væri komin með næði til að hugsa, án þess að hafa allar áhyggjurnar, sem voru á þeim tíma.

Mig byrjaði að dreyma alls konar drauma. Þetta voru furðulegir draumar og ég fór að trúa á þá eins og þeir væru einhvers konar vegvísar. Hvernig var annað hægt þegar ég sá ekki lengur hvernig ég ætti að takast á við það sem var framundan?

Eitt kvöldið fann ég fyrir undarlegum kvíða þegar börnin voru sofnuð.Ég var mjög áhyggjufull. Myndi strætisvagn keyra á mig áður en ég kæmist í öruggt skjól? Hvernig gat ég stoppað þennan hraða? Hvernig gat ég náð mér niður úr skýjunum og haldið mér á jörðinni? Ég sveif um eins og flugdreki og ég óttaðist að ef línan myndi slitna, þá myndi ég fljúga út í buskann. Var ég að klikkast? Hvar voru börnin mín? Hvar var maðurinn minn sem ætlaði að standa í þessu með mér?

Ég þuldi, Guð, gerðu það, taktu mig. Góði Guð, gerðu það, hjálpaðu okkur, við erum svo alein, við erum í svo mikilli hættu. Ó, Guð vertu hjá okkur, gerðu það, ekki fara, þú ert sá eini sem ég treysti, þú ert sá eini sem getur sagt mér svarið.

 

 

Ég mun fylgja þér hvert sem þú leiðir okkur

 

Hugsanir mínar voru eins og í draumi. Það kom til okkar maður langt að. Hann var eins og riddari með fullt af fólki í kringum sig og ætlaði að ná í okkur á þyrlunni sinni. Þá fór ég að rökræða við hugann, þar sem fullt af hugsunum flugu í gegnum hann. Hvað mun Davíð gera? Maðurinn mun gefa honum það sem hann þráir, fékk ég þá á tilfinninguna. Þessi maður mun samt reyna að taka annað barnið, kom upp í huga minn. Ég reyndi að spyrja hugann: Hver ætlar að taka annað barnið, Davíð eða þessi maður? Þessar hugsanir rugluðu mig í ríminu. 

Einhver þarf að deyja, heyrði ég karlmannsrödd segja. Hver á að deyja? spurði ég. Eru það foreldrar mínir? Börnin mín? Nei, Guð, sagði ég hrædd, ekki láta það gerast, taktu mig frekar.

Hver á að deyja? spurði ég í örvæntingu. Guð, hver? Er það bróðir minn? Hann er andlega vanheill. Mun hann drepa sig? Eða, Jeff? Er hann með eitthvað í höfðinu? Hann er alltaf að kvarta um höfuðverk. Er hann með eitthvað inni í höfðinu sem dregur hann til dauða? Eða Davíð? Mun maðurinn drepa hann? Nei, góði Guð, ekki láta það gerast, börnin særast svo mikið. Ég get fyrirgefið honum, ef það bjargar lífi hans. Gerðu það, segðu honum að ég sé ekkert svo reið. Hjálpaður mér að fyrirgefa honum, bara ekki gera neitt við föður þeirra. Hann mun hvort eð er vera óhamingjusamur það sem eftir er af lífinu fyrir að hafa misst okkur. Hann á ekki skilið að deyja fyrir það. Mun þessi maður drepa sjálfan sig? Nei góði Guð ekki láta það gerast, ég elska hann, ekki taka hann frá mér.

Þá heyrði ég í sömu rödd: Hafðu ekki áhyggjur, ég þarf að deyja til að þið getið lifað. En af hverju? spurði ég. Vegna þess að þannig á það að vera. Ég mun vera verndari þinn það sem eftir er lífs þíns og ég mun sitja á öxl þinni og fylgjast með þér. Nei, hvernig er það hægt? spurði ég þá. Hafðu ekki áhyggjur, svaraði röddin aftur. Ég mun koma til baka í formi barns í maga þínum og þú munt sjá mig í augum þess. Nei, ég vil það ekki, sagði ég. Ég vil þig! Ekki þig sem barn. Það á að vera svoleiðis, það er búið að ákveða það, sagði röddin. Hver ákveður það? spurði ég. Það er leiðtogi minn. Hvers konar leiðtogi er það? sagði ég þá. Um hvað snýst þessi veröld eiginlega, þegar tvær manneskjur hittast en fá svo ekki að vera saman? Hver er svona ósanngjarn? Góði Guð, hvernig getur þú leyft þessu að gerast? Svona rökræddi ég við röddina á meðan ég gekk um gólf.

Þá heyrði ég þessa rödd tala: Þú hefur verið valin fyrir okkur. Valin vegna þess að þú ert búin að vera að leita að sannleikanum. Þessi maður sem mun koma til þín er hreinn. Hann hefur haldið sér hreinum fyrir þessa stund vegna þess að hann er heill. Hann hefur verið að leita að hinni einu sönnu, þeirri sem við veljum fyrir hann, vegna þess að hann trúir á okkur. Á meðanvið völdum, beið hann þolinmóður og hann mun koma til þín.

Hvernig getur þú gert þetta, góði Guð? Þú þekkir mig, þú veist hvernig lífi ég hef lifað, þú veist að ég er ekki nógu góð í svona starf. Láttu mig um það, svaraði hann. Ó, góði Guð, ég treysti á þig, sagði ég þá undirgefinni röddu. Hvernig undirbý ég mig fyrir þetta starf? Láttu okkur um það, heyrði ég sagt á móti.

 

Þá fór ég í rúmið

 

Mér leið eins og andi minn eða sál mín væru að yfirgefa mig. Ég varð hrædd. Guð, hvað er þetta? Hvað er að gerast? Ég get ekki dáið núna, börnin eru sofandi við hliðina á mér. Hver mun vera hjá þeim þegar þau komast að því að ég vakna ekki aftur? Ég er hrædd. Guð, hjálpaðu okkur, fyrirgefðu mér þegar ég hef beðið þig um að taka mig til þín, en núna, ég get ekki yfirgefið þau. Gerðu það.

Ég fann fyrir því að líkami minn var að kólna upp. Það var eins og að það byrjaði í fótunum og fikraði sig svo ofar. Mér leið eins og þetta væri tilfinningin þegar fólk deyr í svefni og vaknar ekki aftur og engin útskýring af hverju. Ég fann líkamann kólna meir og meir undir sænginni. Ég gat ekki hreyft mig og mér fannst að ég væri að yfirgefa alla. Ég myndi bara sofna og ekki vakna upp aftur. Góði Guð, hjálpaðu mér, hvíslaði ég í huganum. Hugsaðu um þau fyrir mig. Hugsaðu um alla ástvini og ættingja og segðu þeim að ég elski þau. Segðu þeim að allt verði í lagi. Góði Guð, passaðu upp á þau. Guð ég set þau í hendurnar á þér. Ég veit að þú munt sjá um þau. Leyfðu mér þá að fara.

 

Mér fannst sem hugur minn væri heltekinn af einhverjum

 

Ég var næstum því sofnuð þegar ég byrjaði að finna fyrir nokkrum höndum sem nudduðu migog snertu mig um allan líkama. Mér fannst eins og það væri hnífur að skera mig upp og að það væri verið að laga gamla áverka sem ég hefði orðið fyrir í æsku. Síðan fannst mér eins og ég fyndi fyrir áverkum hans, mannsins sem ég var búin að heyra í og heyra um.

Ég fann fyrir miklum sársauka í hægra fæti, eins og að hann hefði brotnað einhvern tímann. Ég var viss um að þetta væri sársauki frá honum. Mér fannst eins og ég væri inni í tveimur líkömum. Einn sem tilheyrði honum og svo mínum eigin. Mér fannst eins og verið væri að laga alla þessa áverka. Þá byrjuðu hendurnar að nudda mig við brjóstið og mér fannst eins og þær færu inn í líkama minn og nuddað á mér hjartað.

Ég vissi einhvern veginn að það var til að hjálpa mér en ekki honum vegna þess að hjartað í mér var orðið kalt. Mér hafði liðið eins og að ég væri að gefast upp, en þegar þetta var gert var eins og ég fengi styrk minn aftur. Það var eins og það væri verið að lækna á mér líkamann. Loksins gat ég sofnað. Ég hafði ekki sofið vel í marga daga.

Þegar ég vaknaði fann ég fyrir sársauka í brjóstholinu. Mér leið eins og ég væri með harðsperrur í hjartanu. Ég var hrædd yfir því sem hafði gerst kvöldið áður. Ég var líka hrædd yfir því sem röddin hafði sagt. Röddin sagði að hann væri hreinn og hann væri búinn að bíða eftir þessu alla sína ævi. Hvernig gat ég verið viss um að ég væri sú rétta? Ja, eins og röddin sagði, þetta er ekki fyrir manninn, heldur þau.

Ég fór fram í stofu og þegar ég kom þangað, sá ég veru í glugganum. Það var eins og bjartur bjarmi umlykti hana. Ég féll á á gólfið og gat ekki horft á hana. Ég grúfði mig niður líkt og múslimar gera þegar þeir eru að biðja til Guðs. Mér leið eins og ég ætti ekki að sjá þetta og þetta hræddi mig. Ég bað til Guðs að fyrirgefa mér. Mér leið eins og Jesús væri að birtast mér. Þegar ég gat lokins staðið upp, fann ég til í hjartanu. Mér fannst ég þurfa að ganga um gólf til að róa mig. Mér fannst eins og hugur minn væri heltekinn af einhverjum og fannst ég ekki hafa stjórn á honum sjálf.

Ég þurfti að fara með krakkana í dagvistun. Ég fór svo aftur heim. Það var alltof mikið gera. Ég þurfti að skilja svo margt. Ég bjó til kaffi og náði í sígaretturnar. Ég settist inn í stofu og reyndi að hugsa. Ég strauk hárið á meðan ég ruggaði mér í takt við einbeitinguna sem ég var að reyna að ná til að heyra í röddinni. Ég gat ekki gert það öðruvísi og það var eina leiðin til að róa hugann. Þetta var eina sem ég var búin að vera að gera allan þennan tíma síðan þetta byrjaði. Hvernig átti ég að geta hugsað þegar það var ekkert í huga mér sem vissi um þessa hluti? Ég varð að fara niður í kjallara og sækja Biblíuna. Ég gæti kannski fundið svarið þar áður en ég færi í skólann.

 

Ég stóð fyrir framan gyllt hlið

 

Fyrir löngu síðan hafði mig dreymt draum. Ég stóð fyrir framan gyllt hlið, það eina sem ég þurfti að gera var að opna!

 

Ég fór að skilja margt í Biblíunni. Það var eins og ég væri búin að lifa á þann hátt. Ég las lengra. Þeir töluðu um hliðið og hliðvörðinn, manninn sem væri sá eini sem gæti opnað hliðið. Mun maðurinn sem ég á að hitta geta gert það? Er hann sá sem getur opnað hliðið mitt? Ég fór svo í vinnuna en gat ómögulega einbeitt mér að vinnunni þar sem þessar hugsanir toguðu í mig.

Þegar þarna var komið fékk ég rosalega þörf fyrir að tala við bróður minn. Það var eins og röddin væri föst inni í höfðinu á mér og mér fannst þessi aðili sem talaði vera stöðugt að reyna að ná sambandi við mig og heyrði ég hann segja: Farðu og segðu bróður þínum. Ég heyrði þetta stanslaust þennan dag á meðan ég var að sauma. Ég var líka önnum kafin við að berjast við efasemdir mínar. Röddin sagði þá bara með enn meiri ákafa: Farðu og segðu bróður þínum! Ég vissi að það gat aðeins annar bróðir minn komið til greina, þar sem hann hafði á köflum verið að tala um svona sérkennilega hluti.

Ég fór til vinnuveitanda míns og spurði hvort ég mætti fara. Hann var ekki á því í fyrstu en þegar ég sagði honum að það væri mjög mikilvægt, samþykkti hann það loksins.

Ég hafði verið að skrifa erfðaskrá síðustu daga, vegna þess að ég var stanslaust með tilfinningu um að ég væri að fara að deyja og vildi sýna bróður mínum hana. Ég var svo hrædd um að ég myndi deyja áður en mér tækist að koma henni í hendurnar á honum. Ég ætlaði að arfleiða hann að þessari bók til að hann myndi halda hlutverkinu áfram.

Ég kom að heimili hans og bankaði upp á. Hann var sem betur fer heima og ég sagði honum að ég yrði að fá hann til að kíkja á svolítið heima hjá mér. Hann vildi ekki koma með mér í fyrstu og ég reyndi að finna í huga mér hvað ég gæti gert til að sannfæra hann. Það sem kom upp í huga mér var að fleygja mér í fangið á honum og segja: „Ég elska þig.“ Svo kyssti ég hann á kinnina. Hann varð mjög utan við sig og samþykkti loksins að fylgja mér.

Þegar við komum heim til mín, gaf ég honum kaffi og rétti honum bókina. Hann las og sagði svo brosandi: „Við erum svipaðir fuglar.“ „Já, það held ég“ sagði ég brosandi. Ég var svo hamingjusöm að mig langaði að kyssa hann aftur. Ég gerði það samt ekki. Ég var bara fegin að hann skildi loksins verkefnið. Við töluðum um þetta í nokkra stund en svo keyrði ég hann aftur heim sín. Ég fór svo aftur heim og tók mér frí þennan dag. Það sem eftir var dags reyndi ég að einbeita mér að röddinni og hugsaði um allt sem hún hafði sagt mér. Þegar ég sótti krakkana svo í dagvistun, gerði ég þau tilbúin fyrir kvöldmat og kom þeim snemma í rúmið.

 

 

 

Ég las í Biblíunni þetta kvöld um hóruna. Hver er hóran? Er það kona sem selur líkama sinn? Er það slæm kona? Ég hafði aldrei gert það, en ég hafði samt ekki verið hrein og að bíða eins og þessi maður. Hvað er ég þá? Er ég hóran eða er ég hrein, hvað er hreint í Biblíunni? Er ég þarna einhvers staðar á milli? Hvernig stendur þá á því að ég geti verið verðug í þetta verkefni, fyrir þennan leiðtoga. Ég hugsaði mjög stíft.

Þá hlustaði ég og ég heyrði orðið. Hóran er manneskja sem vill gera öðrum til geðs. Já, getur það verið venjuleg kona? Hóran er sú sem vill gera það sem hún trúir á. Það skiptir ekki máli, hve lágt hún þarf að leggjast. Vegna þess að þegar fólk beygir sig fyrir einhverjum, lærir það að beygja sig fyrir Guði. Þetta er það sem við verðum að læra ef við viljum finna veginn til hans.

Nei, við erum alltof stolt til að beygja okkur, ef við beyjum okkur þá missum við stoltið. Hvað er stolt? Er það eitthvað sem þú lærir í hernum? Er það vísbending um sjálfsvirðingu? Nei, stolt er eitthvað sem kemur í veg fyrir heilbrigða sjálfsvirðingu, af trúnni og væntumþykju á hverri einustu manneskju eða veru sem lifir í þessari veröld. Ef við getum ekki borið virðingu fyrir nágrannanum eða hundinum hans og ketti, hvernig ætlum við þá að bera virðingu fyrir skaparanum? Hvernig getum við borið virðingu fyrir sjálfum okkur, ef við getum ekki borið virðingu fyrir skaparanum, sem við vitum að er hinn eini sanni Guð.

Við berum virðingu fyrir honum með því að fylgja draumum okkar Guð vildi að fólk færi eftir þeirri götu sem liggur fyrir framan það, hvernig sem hún liggur. Sú gata mun á endanum leiða þig inn á þá réttu braut, sem við köllum sannleikann. Ef við stoppum og lítum til baka, veikjumst við á meðan við erum að leita að því sem við skildum eftir. Ef við aftur á móti höldum áfram, eigum við möguleika á að finna réttu leiðina sem er í áttina að sannleikanum. Jafnvel hóran þarf að finna sína leið til hans.

.

Allt sem við gerum og allir sem við mætum á leiðinni tilheyra þessum þroska. Þegar við nálgumst sannleikann, þá erum við að ná þeim þroska sem þarf til að lifa í þessum heimi af æðruleysi. Ef við lítum til baka og staðnæmumst, gleymum við hvert markmiðið er. Ef við höldum áfram og trúum því að sú gata sem við erum á sé sú sem var valin fyrir okkur, þá er meiri möguleiki á að komast á áfangastað. En við þurfum líka vegvísi sem er hjartað í okkur. Það er sá náttúrulegi vegvísir sem við fengum.

Svona hélt hugur minn áfram að hugleiða hina ýmsu hluti sem komu upp í hugann og var ég að reyna að fá einhvern skilning á þessum hröðu hugsunum sem þutu í gegnum hugann.

 

 

 

Betlarinn

 

Það er annar hluti í Biblíunni sem ég las. Hann er um betlarann. Hann situr á kantinum við götuna sem þú gengur framhjá. Hann biður þig auðmjúkur: Kæri herra, getur þú gefið mér aur? Þú ferð með hendina í vasann og réttir honum þær fáu krónur sem þú þurftir ekki í stöðumælinn þennan dag. Hann er svo þakklátur að hann kyssir á þér fæturna, þar sem að hann getur kannski keypt hveiti til að baka brauð fyrir börnin sín. Þú ert stoltur af því að hafa gefið eitthvað af þér, ferð svo inn í stórmarkaðinn og kaupir sjö poka af mat, þar sem börnin þín og kona bíða eftir þér svo þau geti eldað eitthvað í kvöldmatinn.

Hvar er krónan þín Jeff! Þú níski maður sem rígheldur í veskið sitt, sagði ég í huganum. Nei, þú þarft að sýna betlaranum meiri virðingu ef þú hefur hjarta.Mundu þetta Jeff, þú kenndir mér þetta, þegar ég stóð upp og við vorum að reyna allt til að sýna hvert öðru meiri virðingu. Það entist ekki lengi hjá þér, þú hættir of fljótt.Ég gafst ekki upp en þú dróst þig til baka.

 

 

Þegar þarna var komið fór ég að hugsa um alla foreldra sem áttu börn. Mér fannst ég þurfa að segja þeim þessa hluti. Ég heyrði það koma fram í huga mér og þetta var eins og heimsspekilegar rökræður. Biblían nægði ekki svo ég fór að lesa tarotspilin mín. Ég var að reyna að tengja þau við allar þær manngerðir sem eru til í heiminum. Ég var eiginlega að leita að því hver ég var af þessum persónum.

Hver gaf þér það sem þú hefur starfið, peningana, húsið, fjölskylduna? Gerðir þú þetta á eigin spýtur eða sá atvinnurekandi þinn aumur á þér vegna þess að þú þurftir á þessari vinnu að halda eða var það vegna þess að hann sá hæfileika þína sem þú hafðir fyrir starfið?

Þurftir þú að biðja hann um starfið eða seldir þú honum hæfileika þína? Ertu betlarinn eða hóran? Þurftir þú að beygja þig og þakka honum fyrir eða settir þú verðmiða á vinnu þína? Ertu stoltur af því sem þú ert að gera? Fannst þér að þú hefðir blekkt yfirmann þinn?

Ef svo er, kannski ertu þá þjófurinn. Þjófurinn fer um og stelur hjörtum mannana. Hann setur hjörtun í safnið sitt. Þegar hann þarf ekki lengur á þeim að halda, hendir hann þeim frá sér. Hann getur alltaf stolið fleiri hjörtum og gert þetta allt sitt líf. Hah, Jeff, þú færð sko ekki að stela mínu hjarta, það er á hreinu. Ég mun vinna mig til baka, ég hef gert það áður. Það tók mig sjö ár. Með þig mun það taka mun skemmri tíma. Vegna þess að þú er svo mikið „Fífl“.  Þá var mér hugsað til fíflsins í Tarotspilunum. Hann ferðast með bakpoka á bakinu og gengur út í lífið áhyggjulaus. Hefur þú lesið um fíflið í tarotspilunum? Fíflið stendur fyrir nýja reynslu, hvatvísi, forvitni og sakleysi. Fíflið er ungur maður og oftast með bakpoka á bakinu á ferðalagi sem dregur hann stundum fram af bjarginu.

Fíflið hefur trú og traust á alheiminum. Það veit að það verður séð fyrir því og að hlutir munu bjargast einhvern veginn. Það ber traust til alheimsins. Þetta spil segir að þú sért tilbúin til að takast á við heiminn. Þú vilt skoða allan heiminn og uppgötva alla leyndardóma hans. Þú ert það opin fyrir nýjungum og nýjum hugmyndum.

 

 

Ég var orðin innblásin af vangaveltum um hvort ég væri að ala börnin mín upp í ótta að ég fór að skoða sjálfa mig sem foreldri, persónu og manneskju. Ég fór að tala við Jeff í huganum, þar sem ég hafði ekki heyrt í honum í einhvern tíma. Og vitnaði í bréf sem ég hafði látið hann hafa sem ég hafði skrifað honum síðast þegar hann kom.

Ég er móðirin. Ég er tréð og börnin mín eru ávextir mínir. Hver sem reynir að eyðileggja það … MUN SJÁ HJARTA MITT! Þú hefur gengið inn í eldinn og hreyft við ró minni. Eins og ég skrifaði þér einu sinni: Ef þú kennir mér ró þína þá mun ég sýna þér eldinn.

Hvað munum við gera þegar foreldrar okkar eru farnir? Munum við vera sorgmædd eða reyna að lifa við það? Vonandi getum við þá gert þetta upp á eigin spýtur... En við foreldrar? Finnum við fyrir virðingu þegar barnið eltir okkur hvert sem við förum, hvernig sem við gerum hlutina? Hvað erum við þá að reyna? Leika Guð? Fyrir framan barn?

Í fyrsta skipti sem við hittumst Jeff og þú varst að segja mér að opna hjarta mitt, þá spurði ég þig: „Hvar er sakleysi mitt?“ Ég grét þegar ég spurði þig að þessu. Þú sagðir, að það sýndi, þroska. Jæja hérna er barnið þitt, fullþroskað. Hvað gerir barnið þegar það áttar sig á því að foreldrunum líði illa eða séu að gráta? Reynir það ekki að láta okkur líða betur? Hvers vegna gerir það það? Vegna þess að það elskar okkur. Vegna þess að það finnur til sársauka. Vegna þess að það finnur fyrir öryggisleysi ef við erum ekki heilbrigð eða ef okkur líður illa. Það verður óöruggt um að við getum hugsað um það. Það reynir þá að byggja okkur upp til að við getum haldið áfram að hugsa um þau.

Ég var niðursokkin með eigin hugsunum þegar tveggja ára sonur minn kom með hitalækkandi stíl til að laga hitann, því hann var farin að átta sig á því að ekki væri allt með felldu. Ég fór á klósettið þegar hann kom með stílinn og tók við honum án þess að hika og stakk honum í rassinn án þess að hugsa, þar sem að ég taldi að Skorri vissi hvað væri að. Þegar ég var búin að gera þetta fann ég að allt fór á fullt í huganum. Mér fannst eins og sálin í mér færi í gegnum líkamann og niður í klósettið. Ég leit niður í klósettið og sá að mér var farið að blæða. Guð hvað gerði ég nú? Ég varð skelfingu lostin að hafa eyðilagt allt. Hann hafði sagt að ég myndi eignast annað barn. Var ég að eyðileggja það nú með þessum stíl? Fór barnið út þegar ég setti stílinn upp? Ég setti bindi í buxurnar mínar og klæddi mig. Ég gekk þá um gólf og hugsaði á meðan ég strauk á mér hárið í gríð og erg: Drap ég barnið? Guð, drap ég barnið? Hann svaraði ekki og ég fór upp í rúm til að hugsa þetta betur. Þá sá ég fyrir mér að Jeff hafði verið búinn að segja mér að hann gæti ekki eignast börn. Hvernig gat ég þá verið ófrísk? Var þetta barn getið af heilögum anda? Guð, er ég búin að eyðileggja það? Ég varð svo stressuð að hafa verið svona kærulaus. Kannski er Skorri ekki nógu gamall til að vita hvernig á að gera hlutina strax. Kannski verður hann að þroskast betur. Ég má ekki fara að láta hann taka við hlutverkinu strax. Ég verð að hafa stjórn á þessu á meðan.

 

 

 

Ég fór að hugsa um Guð

 

Getur verið að Guð þurfi á okkar hughreystingu að halda? Getur verið að hann þurfi að finna fyrir ást okkar svo hann geti haft trú á okkur? Hann er sterkur, það vitum við. Hann þarf að sjá það, að hann sé að gera þetta af einhverri ástæðu. Þurfum við ekki öll að hafa ástæðu til að lifa? Getum við gert þetta alein í langan tíma? Hvers vegna reynum við ekki að byggja hvert annað upp í staðinn fyrir að brjóta hvort annað niður, hvers vegna fáum við ekki Guð til að brosa? Kannski munum við einhvern tímann sjá það bros á himnum. Í þessum töluðu orðum horfði ég upp til himins af svölunum og sá tvær rákir á himni. Þær leituðu upp eins og himnastigi.

Þessar spurningar voru endalaust að koma inn í huga minn. Þær komu með svo miklum hraða og allar ofan í hvora aðra og ég gat aðeins beðið til Guðs um að halda mér á lífi, svo ég gæti haldið þessu áfram.

Ég var að missa máttinn, suma daga og líkami minn varð stundum svo máttlaus að ég gat mig hvergi hreyft. Mér leið eins og ég væri að fara inn í einhverja veröld sem var ekki á mínu valdi að skilja. Mér fannst ég sjá sýnir sem höfðu allar skýringar en samt erfitt að setja í samhengi við það sem ég var að upplifa. Mér leið eins og ég væri að gægjast inn um dyr sem mér var ekki leyfilegt að sjá. Það var himneskt að horfa á það sem þar var. Ég var að verða hrædd um að mér yrði refsað fyrir að kíkja þar inn. Ég heyrði samt alltaf röddina segja mér að halda áfram að fikra mig í áttina að þessu og að ég myndi höndla þetta. Þetta virkaði eins og ég væri að horfa inn í framtíð, nútíð og fortíð. Ég var ekki viss um hvort væri hvað. Samt vissi ég að maðurinn væri í framtíðinni.

Ég sá þá Guð í annarri sýn og mér fannst hann vera gamall maður með skegg. Hann stóð þarna eins og konungur. Til að geta séð þetta þurfti ég að fljúga til himins. Þegar ég var svona fljúgandi í sýninni, sá ég líka veru sem stóð með útbreiddan faðminn. Ég sá að þessi vera var stór og yfirgnæfi yfir heiminn. Veran var klædd í hvítann kirtil, með sítt svart hár. Mér fannst að þetta gæti verið Jesú. Ég sá mikinn fjölda fólks koma þarna að rótum fjalls þar sem þessi vera stóð. Ég reyndi að komast nær þessari veru til að sjá framan í hana. Þegar ég var komin þar sem ég gat séð framan í hana sá ég að þetta var kona. Ég var mjög undrandi. Ég spurði Guð að því hvort þetta væri mögulegt. Hann kinkaði kolli og var greinilega mjög stoltur. Þá sá ég einhvers konar mosku þar sem fólk streymdi að og fór inn um dyr sem var eins og svört kónguló.

Svo sá ég Jesú í eitt skipti í einni sýninni og mér fannst hann var hraustur og heilbrigður og tilbúinn til að hjálpa okkur fólkinu á jörðinni og var þá með rauð augu. Ég skildi það ekki þá, en ég skildi það seinna þegar annað koma fram. Okkur stóð til boða að taka bara við honum. Mannfólkið afþakkaði eða trúði ekki og það endaði með því að hann datt niður til helvítis. Mér fannst við hafa gert herfileg mistök. Mér fannst að við höfðum ekki hlustað. Mér fannst að við höfðum ekki tekið tækifærið á þeim tíma sem okkur bauðst það.

Í eitt skiptið sem ég var að reyna að fá manninn sem ég var að tala við, til að trúa því að við myndum taka við Jesú, þá gaf hann mér tækifæri á því. Þegar ég var að reyna að toga hann upp frá helvíti, sá ég margar hendur og óttaslegið fólk rétta hendur sínar upp um opið á jörðinni og reyna að komast með honum. Það hafði rifnað gat á jörðina þar sem ég fann Jesú. Ég varð að flýta mér til að holan lokaðist ekki áður en mér tækist það. Það voru nokkrir sem sluppu upp á meðan en það gerði ekkert til. Það eina sem skipti máli var að koma honum upp á himininn sem fyrst. Ég tók eftir því að augun í honum voru orðin ljósblá og spurði þá manninn að því, hverju það sætti. Það var mjög fallegt en þegar ég spurði hann að því af hverju það væri, sagði hann mér að hann væri blindur. Við höfðum hafnað honum og hann hafði skaðast á því. Ég hugsaði til þess hvað við værum vantrúuð og var reið út í mannkynið en ég var fegin að það var ekki verra. Jesús þurfti ekki augu til að leiðbeina okkur. Ég var fegin að hann var á lífi. Hann sá með hjartanu.

Ég hafði það á tilfinningunni að það væri barist í kringum mig um tiltekna visku og að það væri einhver að reyna að eyðileggja allt og sprengja það í loft upp.

Ég heyrði hljóð sem var eins og almannavarnalúður og allir áttu að finna skjól til að fela sig, því stríðið var að hefjast.

Ég sá tígrisdýr berjast við ljón og ég var að velta því fyrir mér hvort myndi vinna. Ég var ekki viss um hvort það myndi verða og ég var ekki viss um hvort dýrið var gott eða vont. Mér fannst að dýrin færu að elta mig og þegar tígrisdýrið var að ná mér, sleikti það kinnina á mér og breyttist í fíl. Mér fannst að það þýddi vinur.

Hver eru þessi dýr? hugsaði ég. Er það Davíð og Jeff eða kannski maðurinn sem ég heyrði í? Ég gekk í hringi og hugsaði. Ég var að reyna að halda mér vakandi. Ég var orðin hrædd um að sofna vegna þess að ég hélt að ég myndi fá þessa tilfinningu að lífið væri að fjara úr mér eins og áður hafði komið fyrir. Líkaminn kólnaði og það eina sem gat sagt mér að ég væri á lífi var að höfuðið var ennþá heitt og ég var ennþá að hugsa.

Ég var orðin svo uppgefin að ég sagði við Guð: Ég get þetta ekki lengur. Ég þarf að láta þig taka við. Hvað sem kemur fyrir mig, munt þú sjá um. Ég setti allar áhyggjur mínar í hans hendur vegna þess að mér fannst hann sá eini sem gæti séð um þetta.

Þegar ég gerði það, varð allt brjálað. Ég flaut inn í einhvers konar hringiðu sem ég vissi ekki hvað var. Ég treysti á hann og leyfði þessu að hafa sinn gang. Ég hélt lífinu áfram, ég vaknaði upp á hverjum morgni, sama þótt ég hefði ekki sofið mikið um nóttina. Ég þurfti að fara með börnin til dagmömmu og síðan í skólann. Það var ekki auðvelt að halda þessu gangandi en ég reyndi að skipta mér í tvo heila með því að láta annan heilann hugsa um veraldlegar þarfir barnanna en hinn heilann sjá um að lifa í þessum heimi. Það eina sem ég fann að ég gat ekki gert var að sinna tilfinningum barnanna, ég gat bara hugsað um veraldlegar þarfir þeirra og öryggi.

Ég fór að fá það á tilfinninguna að Skorri sonur minn væri Jesús. Ég virti hann svo mikið og hann var sá sem ég átti að vernda sem mest og reyna að gera öllum ljóst að þeir mættu ekki snerta hann. Ég virti dóttir mína Sunnu líka en hún varð boðberi frá djöflinum og djöfullinn var faðir þeirra.

            Ég var farin að verða svo hrædd. Ég var hrædd um að þegar faðir þeirra tæki þau um helgar myndi Skorri verða svo veikur að hann gæti ekki lifað það af. En það var skylda mín að láta þau fara, það var hluti af prófinu fyrir þau til að þroskast svo að þau myndu sjá muninn á hinu illa og góða í lífi þeirra áður en allt myndi springa.

Þegar þau komu til baka hafði ég á tilfinningunni að ég þyrfti að ná styrk Skorra fram aftur með hið góða og reyna að bæla það vonda sem hafði náð að nærast í Sunnu þennan stutta tíma sem þau voru í burtu.

            Ég fylgdi tilfinningum mínum í þessu og ég barðist ekki á móti því vegna þess að ég treysti á það að Guð myndi ekki draga mig út í það sem ég réði ekki við. Ég reyndi að finna jafnvægi á milli þeirra og ef Sunna sýndi reiði reyndi ég að hemja reiðina í henni til að brjóta ekki Skorra niður. Ef Skorri var að gráta reyndi ég að þjóna honum þannig að hann myndi róast, það var skylda mín að halda þeim í jafnvægi og Skorri var styrkur minn og viska. Hann var öryggi mitt framar öllu. Ég reyndi að vernda börnin eins mikið og ég gat og mér leið eins og djöfullinn væri að reyna að komast inn á heimilið okkar. Þarna var heilinn á mér farinn að fá skilaboð um allar hugsanlegar leiðir til að koma í veg fyrir að ég myndi gera eitthvað rangt. Það skipti sköpum á hvaða tíma og í hvaða reglu ég gerði það. Ef ég gerði eitthvað vitlaust myndi ég missa sjónar á jafnvæginu sem ég var búin að ná fram í lífi okkar barnanna.

Ég fór að fylgjast með þeim álengdar og var að reyna að greina hvernig það héldist þetta jafnvægi sem átti að ríkja á milli þeirra. Ef ég sá að það var að myndast spenna á milli þeirra og þau færu að rífast, gekk ég strax á milli áður en það myndi verða stríð.

Ég var einhvers konar andlegur boðberi sem þekkti svörin vegna þessa að ég fékk þau alltaf í gegnum röddina þegar ég bað um svar. Ef ég fór með þau út að ganga, varð ég að vera mjög varkár að enginn með slæmar hugsanir myndi ganga á milli þeirra, vegna þess að það myndi raska því jafnvægi sem ég var búin að koma á. Skorri myndi þá veikjast og Sunnu myndi styrkjast. Það varð þá of mikill greinamunur á þeim og ég varð að ná því til baka. Þau máttu bæði lifa en ég varð að halda þeim í jafnvægi. Sunna var kennari minn hvernig ég ætti að takast á við það slæma en Skorri var sá sem ég átti að vernda og þroska, þangað til að hann gæti tekið við. Þá myndi Sunna losna við skyldu sína og fá að lifa afslöppuð sem eftir var af ævi hennar. Ef ég fjarlægðist sannleikann fann ég fyrir því að hjartað í mér kólnaði. Ef ég nálgaðist hann aftur, fann ég fyrir því að hjartað hitnaði. Líkami minn var farin að tala við mig, á einhvern hátt. Ef ég gerði eitthvað vitlaust, fannst mér eins og hníf væri stungið í síðuna á mér.

Ég þurfti því að róa mig og koma mér í jafnvægi yfir nóttina, þegar börnin voru sofnuð. Ég gat þá slakað á hugsunum mínum og leiðst inn í einhvers konar íhugun, þar sem ég sveif. Þetta var eina leiðin fyrir mig til að hvílast, vegna þess að ég var hætt að geta sofið heila nótt og yfirleitt ekki nema háftíma blundur sem ég fékk. Ég fann fyrir orku eftir svoleiðis svefn og hafði meiri kraft.


Kafli 10. Reykjavíkurferð

10.kafli

 

Jeff ætlaði að koma til Reykjavíkur með vinum sínum og við ætluðum að fara að skoða borgina. Ég var sennilega leiðsögumaður að einhverju leyti, þar sem ég þekkti borgina eins og handabakið á mér. Við fórum á marga staði sem teljast merkilegir og áhugaverðir. Við fórum t.d. í Perluna til að fá okkur kaffi.

Vinir hans voru par sem var mjög ástfangið en ég og hann vorum einhvers konar par sem var að kynnast. Hann og hinn maðurinn voru að sýna karlmennsku sína fyrir okkur kvenmönnunum, annaðhvort með bröndurum eða með mikilmennsku. Hinn maðurinn sem við getum kallað, John (þar sem hann var líka Ameríkani) var reyndar voða góður við konuna sína. Á hótelinu sem þau ætluðu að gista þessa helgi var hann t.d að greiða á henni hárið. Ég hafði aldrei séð karlmann gera þetta og mér fannst þetta lýsa því hvað honum þætti vænt um hana. Jeff var að gantast með þetta og gefa í skyn að hann myndi gera þetta við mig ef við værum kærustupar. Haha sagði ég, yeah right.

Við fórum loksins í Hallgrímskirkju, upp í turn til að horfa á útsýnið. Það var svolítið kalt þar sem það var farið að líða á haustið. Mér fannst þetta vera allt í lagi en þau voru frá Ameríku og fannst kuldinn vera frekar mikill. Karlarnir höfðu orð á því á þann hátt að það ætti að vera fyndið. Þeir sögðu t.d. að það frysi undan manni í þessum kulda. Ég varð að botna þetta þar sem ég er alltaf í samkeppni og sagði: „Ég er ekki með neitt sem getur frosið undan mér.“ Þeir hlógu sig vitlausa vegna þessarar athugasemdar. Mér fannst eins og mér hefði tekist að vinna þennan orðaleik og fékk tilfinningu að ég væri ósigrandi. Það var kannski vegna þess að á þessum tíma var ég í sífelldri baráttu við sjálfsöryggi mitt. Mér fannst eins og ég þyrfti að sanna að ég væri með vit í hausnum.

Þetta var líka að aukast á þessum tíma, þar sem ég var að vakna til vitundar. Ég var líka komin í baráttu við minn eiginn huga. Það var komið eitthvert rót á hann. Ég vissi bara ekki út af hverju.

Við fórum loksins á kaffihús neðar í bænum þar sem ég hafði hitt hann í fyrsta skipti. Þegar hitt parið var að kela eða faðmast eins og ástföngnu fólki er tamt og við vorum að bíða eftir kaffinu, hallaði Jeff sér að mér og hvíslaði: „Ég elska þig.“ Ég brosti og þessi orð yljuðu mér, en á svipstundu hvíslaði hann aftur: „ Ekki láta það stíga þér til höfuðs.“ Brosið hvarf eins snöggt og það hafði birst. Ég fölnaði og fann kaldan svita brjótast fram á andliti mér. Það er hægt að valda ólíkum tilfinningum með orðum á nokkrum sekúndum. Fólk áttar sig ekki alltaf á því.

Ég stóð upp eins og ég ætlaði að fara á klósettið, þar sem ég fann að tárin voru farin að leita fram. Ég ætlaði ekki að láta þau sjá mig tárast. Þegar ég kom niður á baðherbergi tók ég eftir því að þar voru ungar stelpur að snyrta sig sem ég taldi að væru módel sem voru að fara að sýna föt á þessu kaffihúsi. Ég átti auðvelt með að taka mig saman í andlitinu og sneri við.

Þegar ég kom til baka sagði ég við Jeff. Það er fullt af kvenfólki niðri, rosalega fallegar. Sennilega módelsamtökin. Hann sagði þá með glotti: „Ó, ég verð að skoða þær.“ Hann stóð upp og fór niður að salerninu, hann kom samt skömmu seinna og sagði: „Vá, ég gat ekki þolað þetta lengur en fimm sekúndur.“ Ég var frosin eftir þessa atrennu. Ég gat ekki litið framhjá þessu. Það var mjög auðvelt að særa mig, en það var ekki auðvelt að hugga mig.

Vinir hans spurðu hvort við ættum að halda áfram að skoða okkur um í Reykjavík. Þar sem þau ætluðu að vera næturlangt, sagði ég að ég þyrfti að fara að koma mér heim til að taka á móti börnunum. Ég sagðist geta keyrt Jeff heim áður. Ég vildi vera í kringum hann en samt var ég honum reið. Ég held að þau hafi tekið eftir því þegar við vorum að keyra að bílnum mínum. John horfði að minnsta kosti í spegilinn þegar hann var að keyra og mér fannst hann taka eftir því hvernig mér leið. Hann sagði samt ekkert. Jeff sat með glott á andliti eins og hann hefði ekki gert neitt. Ég var reið og mig langaði að öskra á hann. Mig langaði að berja hann í klessu. Ég beit á jaxlinn til að þagga niður reiðina. Þegar við komum að bílnum mínum, þakkaði ég fyrir mig og sagði með bros á vör að ég hefði haft gaman að þessum degi. Þau hlógu og ég dreif mig inn í bíl og beið eftir að Jeff kvaddi þau. Djöfulsins asni er hann, hugsaði ég.

Ég var þögul í langan tíma á meðan ég keyrði. Ég horfði stíft á veginn til að þurfa ekki að hugsa um þetta. Þegar við vorum búin að keyra í 15 mínútur, setti Jeff hendina á hnéð á mér. Ég leit á hann í smástund og sagði svo stíf: „Þetta gæti verið hættulegt.“ Hann dró að sér hendina en glottið á andlitinu á honum var þarna ennþá. Ég var að springa úr reiði. Mig langaði að stöðva bílinn og henda honum út, en ég sat á mér. Hann setti hendina aftur á hnéð á mér. Ég var þögul um stund en sagði svo: „To make a man hungry, you have got to take away his food.“ Hann hætti að brosa og dró hendina til baka.

Jeff fór þá að segja við mig að ég væri búin að gefa honum svo mikið. Ég sagði þá: „Já, ég er búin að gefa þér margt og það er kannski kominn tími til að hætta því.“ „Nei, ekki gera það“ sagði hann. „Þú verður bara að sjá það“ sagði ég þá á móti. Við töluðum ekki mikið meira eftir þetta. Hann var að reyna að fá mig til að brosa og á endanum var ég farin að ná mér af reiðinni. Ég vildi bara klára að keyra hann og drífa mig svo heim.

Þegar við komum að blokkinni sem hann bjó í, beið ég eftir að hann færi út. Hann kyssti mig á kinnina eins og alltaf en í þetta skipti reyndi ég að taka því með köldu hjarta. Ég sagði: „Ekki gleyma töskunni þinni.“ Hann sagði á móti með öryggi: „Það geri ég aldrei.“ Þegar hann var kominn út, lyfti hann upp hendinni og veifaði. Ég horfði á hann köldu augnaráði og spólaði af stað. Ég tók mér samt tíma í að horfa í baksýnisspegilinn og tók þá eftir að hann horfði á eftir mér. Mér var hlátur í huga. Ég hafði sýnt honum eina hlið á skapinu sem ég var með. Mér fannst að hann hefði verið óvarkár með sína eigin hugsjón þegar hann horfði á eftir mér.

 

Jeff, ekki skilja hjarta þitt eftir.

 


Kafli 9. Skrítinn gaur

9.Kafli

Skrítinn gaur

 

 

Ég fór að skemmta mér um helgar á þessum tíma. Davíð var farinn að taka krakkana reglulega og þegar það var komin reynsla á það fór ég að skipuleggja helgarnar mínar. Eitt kvöldið ákvað ég að fara með Erlu vinkonu í bæinn í heimsókn til bróður hennar sem bjó þar. Ég var með þeim í smá tíma, en svo vildi ég fara á veitingastaðinn Kaffi Reykjavík en þar hafði ég kynnst honum Frey.

Freyr var upptekinn þetta kvöld en ég ákvað að skemmta mér þrátt fyrir það, þar sem hann var ekki kærasti minn og ég ekki bundin. Móðir mín var á staðnum með vinnufélögum og mig langaði að hitta á hana til að skemmta mér með henni. Vinkona mín ætlaði að vera áfram hjá bróður sínum. Hún sagði mér að fara á undan sér og hún myndi svo koma seinna um kvöldið.

Þegar ég kom á staðinn sá ég að mamma var upptekin að borða með fólkinu, þannig að ég vildi ekki trufla hana strax. Ég ætlaði að hitta á hana þegar þau fengju sér kaffi eftir matinn. Mig langaði að fá mér í glas með henni rétt áður en hún færi heim. Við gætum kannski orðið samferða í leigubíl.Það var fimmtudagur, þannig að það var rólegur hópur að skemmta sér. Ég fór á barinn og keypti mér kokteil og settist innar á staðinn til að bíða. Þar fór ég að tala við einhverjar konur sem sátu við sama borð á meðan ég drap tímann.

Ég tók eftir manni sem horfði stíft í áttina til mín og ég horfðist í augu við hann. Vá, hann er undarlegur, hugsaði ég. Hann var samt sjarmerandi og myndarlegur. Hann starði svo fast á mig að það var óþægilegt. Það stóð yfir aðeins augnablik, en mér fannst það vera heil eilífð.

Ég reyndi að stofna til viðræðna við konurnar en það var eins og að þeim fyndist ég uppáþrengjandi. Ég vildi forðast þessar vandræðalegu aðstæður. Ég stóð því upp til að athuga hvort móðir mín væri búin að borða. Ég fór inn í salinn þar sem maturinn var framreiddur en þá var hópurinn farinn. Ég vonaði þá að vinkona mín liti við til að ná í mig. Ég settist aftur á sama stað. Þá kom til mín kona úr hópi fólksins sem þessi maður sat hjá. Hún talaði ensku, og ég gerði mér þá grein fyrir að þetta hlyti að vera fólk af Keflavíkurflugvelli. Hún sagði við mig: „Vini mínum finnst þú mjög aðlaðandi en hann hefur ekki hugrekki til að segja það við þig sjálfur.“ Ég horfði til hans og hann sat þar og brosti til mín. Ég þakkaði konunni fyrir þessi skilaboð og reyndi að halda áfram að tala við konurnar sem ég hafði verið að tala við.

Það kom að því að þær fóru og ég sat ein eftir. Þá sá ég vini þessa manns standa upp og fara. Ég horfði til hans og hann horfði til baka, en hvorugt okkar þorði að standa upp. Ég hugsaði með mér að hann yrði að koma, annars myndi ég ekki tala við hann. Hann kom ekki. Þá stóð ég upp og fór fram þar sem dansgólfið var. Ég var að reyna að komast að niðurstöðu um hvort ég ætti að fara til hans. Ég ætlaði ekki að þora að hafa frumkvæðið. Ég sá þó að það myndi ekkert verða úr því að við töluðumst við nema ég færi til hans og því lét ég slag standa. Ég stefndi beint í áttina að þeim stað sem hann sat og settist niður og sagði ekkert en starði á hann og beið eftir að hann talaði. Hann stóð upp og sagði: „Ég er glaður að sjá þig.“ Svo settist hann á arminn á stólnum mínum og kynnti sig sem Jeff.

Við fórum að spjalla um allt mögulegt. Jeff spurði mig hvað ég væri að vinna. Ég sagði honum að ég væri atvinnulaus en væri að undirbúa mig fyrir að fara í inntökupróf í Myndlistarskólanum. Ég sagði honum að ef ég næði prófunum, myndi ég fara í skólann um haustið. Honum fannst þetta mjög athyglisvert. Hann sagði mér svo að hann væri að vinna hjá hernum, sem ég átti von á þar sem hann var Ameríkani. Hann sagði mér að þegar hann myndi klára samninginn hjá hernum, ætlaði hann að kaupa sér sveitabýli með fullt af hestum. „Já, er það satt?“ spurði ég. „Ég hef rosalegan áhuga á hestum“ sagði ég. „Já, er það?“ sagði hann. „Það er óvenjulegt. Það er ekki mikið um að kvenfólk hafi áhuga á hestum.“ „Nú, er það ekki?“ spurði ég, en hugsaði á meðan: Ég er ekki ein af þessu venjulega kvenfólki.

Tíminn leið hratt og við þurftum að fara fljótlega. Það átti að fara að loka staðnum. Jeff sagði að vinir hans ætluðu að sækja hann. Hann rétti mér miða með símanúmerinu sínu. Ég rétti honum nafnspjald sem ég var búin að leika mér að búa til í einum af þessum kössum sem eru á endastöðum strætó. Þegar ég rétti honum spjaldið sagði hann: „Ó mjög fagmannlegt.“ Ég sagði á móti: „Ég er að reyna“ og svo glotti ég. Hann keypti handa mér svo rós sem er gengið með í gegnum þessa staði og kyssti mig á kinnina. Vá, nördinn, hugsaði ég. Þá kvöddumst við.

Dagarnir liðu, en ég gat ekki hætt að hugsa um þetta fimmtudagskvöld.

Kvöld eitt bauð vinkona mín mér í mat hjá sér og kærasta sínum. Ég þáði það, þar sem að ég var laus og liðug og gat gert það sem mér sýndist. Ég fór að tala um þetta kvöld við þau og sagði þeim að ég væri með símanúmerið hans. Þau ýttu á mig um kvöldið að hringja í hann, þar sem þau sáu að ég hafði áhuga á þessum manni. Eftir að þau voru búin að telja í mig kjark og ég búin að drekka nokkur rauðvínsglös, tók ég upp tólið.

Skömmu eftir að ég heyrði símann hringja, heyrði ég mjúka og feimnislega rödd hinum megin á línunni. Þegar Jeff áttaði sig á því að þetta væri ég, varð hann allur uppveðraðri og hækkaði róminn og ég fann að hann spenntist upp. „Hæ, hvað segir þú?“ spurði hann. „Ég segi allt gott“ svaraði ég á móti. Við töluðum um ýmislegt en aðallega eitthvað hjákátlegt og sögðum brandara. Þetta var frekar létt símtal og kæruleysislegt. Við ákváðum samt að hittast á sama veitingastaðnum viku seinna.

Dagarnir liðu og ég hlakkaði til að hitta Jeff aftur. Mig langaði að gera eitthvað spennandi í lífinu. Það var kominn tími á að sletta úr klaufunum. Það var búið að vera allt of mikill sársauki og vonbrigði. Ég vildi gleyma fortíðinni.

Það leið ekki á löngu þar til að dagurinn rann upp sem við áttum að hittast. Ég ákvað að fara til vinkonu minnar sem bjó í bænum nálægt þessum veitingastað. Ég reyndi að fá hana til að komast í stuð til að fara á djammið. Hún gat það ekki þar sem hún var með börnin sín, en vinkona hennar gat farið í staðinn. Við ákváðum þá að fara saman, það var alltaf auðveldara að vera með einhverjum. Við drukkum nokkra bjóra til að komast í stuð, spjölluðum og hlógum af ævintýraþránni. Þegar við töldum okkur vera orðnar vel hressar, lögðum við af stað.

Þegar við nálguðumst staðinn, sá ég að Jeff stóð í bakdyrunum að bíða eftir okkur. Hann var mjög flott klæddur og ofboðslega myndarlegur. Mér fannst hann minna mig á prins sem ætlaði að fara með mig í burtu. Ég þurfti að fara inn um aðaldyrnar og hann kom á móti mér. Ég var að reyna að halda kúlinu og horfði í augun á honum, hann brosti sínu breiðasta.

Jeff tók blíðlega utan um mig og kyssti mig á kinnina eins og heiðursmanni sæmir. Vá, enn þær móttökur, hugsaði ég. Ég var ekki vön svona framkomu. Ég sagði: „Það eru aldeilis móttökurnar.“ Samt var ég að reyna að virka kúl, en ég skalf eins og laufblað.

Þegar ég var loksins búin að ná mér niður á jörðina, settumst við niður til að tala saman. Við gátum sko endalaust talað saman. Hann hafði svo mikið að segja. Því meira sem ég kynntist honum, því athyglisverðari og undarlegri varð hann, en samt forvitnilegur.

Jeff talaði um rokk- og þungarokkstónlist. Svo tók hann allt í einu kerti af borðinu og fór að láta kertavaxið leka á handabakið á sér. Það kom kona að borðinu okkar. Hún tók utan um höfuðið á honum og smellti á hann kossi, það var sko ekki mömmukoss. Hann horfði á mig til að reyna að sjá viðbrögð. Ég var frosin í andlitinu. Ég sýndi honum engin viðbrögð. Ég gaf í skyn að þetta snerti mig ekki neitt. Þá sagði hann: „Ef ég þekkti þig ekki, myndi ég sennilega fara með henni á bak við hús og taka hana.“ Ég svaraði: „Ekki láta mig stoppa þig, þetta er þitt líf.“

Ég var mjög köld inni í mér. Ég var ekki til í að leika einhverja leiki. Ég veit ekki af hverju ég labbaði ekki út þetta kvöld. Mér var alveg sama um allt. Mér var alveg sama ef fólk ætlaði að leika leiki. Leiktu bara þína leiki og borgaðu svo fyrir það seinna, hugsaði ég.

Ég reyndi að ná utan um hugsanir mínar. Jeff kom ekki svona fyrir, hann virkaði rólegur maður en maður gat séð á honum að hann var allur annar að innan. Það var eins og eitthvað vildi komast út. Hann var eins og sprengja að innan. Það var eins og hann væri að reyna að halda inni tilfinningum sem mættu ekki komast út, þar sem hann yrði þá álitinn geðveikur. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað það var, en ég átti eftir að komast að því.

Þegar þarna var komið voru tilfinningar mína kaldar, mér leiddist frekar en annað og var þögul. Ég var særð að innan og hjarta mitt var kalt. Ég hafði verið særð í lífinu og það var ekkert sem gladdi mig. Ég gat opnað örlítið með því að þvinga hugann til að taka þátt, en hjarta mitt fylgdi ekki á eftir. Mér fannst gott að tjá mig í gegnum músík sem ég hlustaði á eða tala um lífið á heimspekilegan hátt. Jeff var einmitt svona líka og einhvern veginn náði hann að halda athygli minni. Ég er listamaður í eðli mínu og verð það alltaf.

Þegar kvöldinu var að ljúka og staðurinn að loka, fórum við heim til mín til að tala saman. Ég var afslappaðri þar, vegna þess að ég gat sparkað af mér skónum og spilað músíkina mína. Ég setti plötu á fóninn. Stundum var hún róleg þegar við þurftum að tala og svo setti ég hressilegri músík á þegar mig langaði að dansa. Ég dansaði eins og í mínum heimi þarna fyrir framan hann á stofugólfinu.

Jeff sagði allt í einu, eins og upp úr þurru: „Mig langar að skrifa sögu.“ „Ó, hvers vegna gerir þú það þá ekki?“ sagði ég og hélt áfram að dansa. Hann byrjaði að slaka á og virtist geta það, þar sem ég var ekkert að sýna honum of mikla athygli. Það var eins og hann gæti þá talað út frá tilfinningum sínum án þess að vera dæmdur.

„Ég myndi berjast fyrir ástina mína“ sagði Jeff allt í einu upp úr þurru. Svo setti hann hendurnar upp í loft eins og hann væri með sverð og skjöld, tilbúinn í baráttu. Hann horfði upp eins og hann væri að ná í orku þaðan. Vá, hvað hann er undarlegur, hugsaði ég. Svo sagði ég á móti: „Ég myndi berjast með ástinni minni.“ Svo velti ég því fyrir mér hvort að orð mín orkuðu tvímælis, hvort ég myndi berjast við hlið ástarinnar eða við hana. Ég held að hjarta mitt myndi berjast við hlið hennar, frekar en við ef ég mætti ráða. Ég vissi það ekki lengur hvað ég meinti.

Þegar Jeff var að tala um þetta fór ég að hugsa. Það væri góð tilfinning að hafa einhvern við hliðina á sér til að berjast áfram. Ég sá fyrir mér tvö ljón vera að berjast við fíl. Fíllinn var svo stór að þetta var hættulegur leikur. Ljónin voru að reyna að drepa fílinn. Hvernig væri það ef ljónynjan myndi passa afkvæmin á meðan karlljónið myndi berjast við fílinn?

Þá sá ég fyrir mér mann vera að klifra upp fjall og með annarri hendinni hélt hann í brúnina fyrir ofan sig en með hinni hélt hann í hönd konunnar á meðan hún togaði börnin með á eftir sér. Á þennan hátt gætu þau komist upp fjallið.

Hvað ef að fíllinn myndi stíga ofan á ljónið og drepa það? Þá yrði ljónynjan alein með afkvæmin og þar yrði of erfitt. Nei, hún varð að berjast með makanum, stundum í lífinu, hún þarf að vera styrkur hans á erfiðum tímum lífsins, þau þurfa að gera þetta saman. Hugur minn er svo myndrænn þegar ég tala um svona heimspekilega hluti

Á þessum tíma í lífinu leið mér eins og konunni sem var að klifra upp fjallið, alein með börnin, það var enginn maður í myndinni. Hvernig ætli það væri ef hann væri þarna líka?

Ég settist niður við hliðina á Jeff þar sem hann lá í sófanum. Ég var annars hugar. Þessi tilfinning sem ég hafði skynjað, nokkrum mínútum áður, olli því að ég varð þögul. Hann spurði mig þessarar spurningar: „Hvar er hjartað þitt?“ Ég svaraði: „Ég veit það ekki. Það er einhvers staðar þar sem ég get ekki fundið það. Það er einhvers staðar úti í horni.“ Ég hafði fleygt því, býst ég við.

Jeff sagði þá við mig: „Þú þarft að finna það.“ „Hvers vegna?“ spurði ég. „Hvað hef ég við það að gera? Það veldur mér bara sorg.“ Svo hristi ég af mér þessa þungu þanka. „Hvað er málið?“ sagði ég. „Ætlar þú að fara að sálgreina mig hérna?“ Hann var nefnilega að vinna við að hjálpa fólki sem hafði lent í tilfinningasorg og áföllum. Einhvers konar ráðgjafi.

Ég setti upp á mig grímuna og sagði Jeff að hætta að tala um sorglega hluti. „Vertu hress“ sagði ég. „Við skulum reyna að njóta kvöldsins.“ Svo lagðist ég ofan á hann til að faðma hann og fór að kyssa hann. Hann hörfaði. Mér brá örlítið en þegar hann sagði að hann væri ekki tilbúinn í þessa hluti, skildi ég það alveg. „Við skulum bara kúra“ sagði ég þá. Svo endaði þetta með því að við fórum í rúmið til að sofa. Hann sagði þá við mig, þar sem hann lá við hliðina á mér og sneri baki í mig: „ Ekki ganga út frá mér.“ Ég svaraði á móti: „Ég mun ekki gera það.“

Ég var ekki viss um hvað þessi beiðni hans þýddi en ég gekk út frá því að að hann meinti að ég gengi ekki út frá vinum mínum. Ég fann allt í einu tárin brjótast fram og ég fékk smávegis ekka sem ég reyndi að fela fyrir honum. Jeff sneri sér við, snerti öxlina á mér og spurði: „Hvað er að?“ Ég svaraði þá: „Það verður svo sárt þegar þú ferð.“ Hann spurði mig þá: „Hvernig í ósköpunum á ég að geta það?“ Ég reyndi að ylja mér við þá hugsun að hann myndi aldrei fara, ég reyndi að njóta þessa andartaks. Ég fann samt að það var ekki allt eins og það hljómaði. Ég vildi samt leyfa mér að lifa í blekkingu þessa nótt. Ég fann fyrir miklum létti við það. Ég fann hjarta mitt fyllast af gleði. Svo sofnaði ég.

 

Það var eins og hann ætti heiminn

Daginn eftir ætlaði ég að fara að veiða og grilla með vinum mínum. Jeff fylgdi mér til vinkonu minnar þar sem hann virtist ekki vera búinn að ákveða neitt frekar um daginn. Ég hefði kannski átt að bjóða honum með, en mér fannst ég þurfa að fara aðeins í burtu og vera frjáls.

Þegar við vorum að kveðjast fyrir framan húsið hjá vinkonu minni og stóðum í faðmlögum og kysstumst í kveðjuskyni, horfði ég í kringum mig til að aðgæta hvort einhver væri að horfa á. Ég var svolítið feimin við að kyssa á almannafæri. Ég reyndi að flýta mér að kveðja hann, þó svo að ég vildi helst að hann kæmi með mér.

Þegar ég horfði á eftir honum ganga í burtu, tók ég eftir því að það var eitthvað sérstakt við hann. Hann var með lítinn bakpoka á bakinu og gekk með nefið upp í loftið eins og hann væri að skoða allt í kringum sig og mjög fjarrænn en brosandi í leiðinni. Það var eitthvað kæruleysislegt yfirbragð á honum. Það var eins og hann ætti heiminn. Þetta vantaði mig. Hann gekk í burtu án þess að líta til baka og mér fannst eins og hann saknaði einskis.

Ég spurði hann seinna að því af hverju hann liti aldrei til baka þegar hann færi. Hann sagði þá: „Ef þú lítur til baka, þá skilur þú hjarta þitt eftir.“ Mér fannst það svolítið athyglisvert. Kannski á maður bara að halda sína leið.Við fórum að hittast annað slagið eftir þetta. Þar sem hann bjó á Vellinum vorum við samt meira í símasambandi.

Einn daginn sem hann kom í heimsókn, færði hann mér afmæliskort. Ég hafði átt afmæli þarna um sumarið. Í kortinu stóð: „Síðan ég kynntist þér hef ég áttað mig á einhverju sem ég hélt að ég væri búinn að gleyma.“ Ég vissi ekki hvað hann meinti en ég held að miðað við brosið frá honum, þá hlyti það að vera gott.

 

Jeff átti það til að tala undarlega en samt á skemmtilega óskiljanlegan og heimspekilegan hátt. Hann sagði eitt skipti við mig í símann: „Ef þú værir rík myndi ég giftast þér.“ „Hvað meinarðu?“ spurði ég, Þá sagði hann upp úr þurru: „Ég þarfnast blóðs þíns.“ „Ha, hvað meinarðu?“ spurði ég. Ég fékk ekkert svar við þessu. Það var eins og hann væri að hugsa upphátt en ekki að tala við mig. Jæja, hugsaði ég þá, þú getur fengið það seinna. Ég tók því þannig að hann vildi fá söguna mína. Ég tók því þannig að hann vildi finna fyrir krafti mínum eða geðbrigðum. Ég gat verið frekar skrautleg stundum. Ég gat verið pirruð, reið, köld eða ofboðslega glöð og gefandi, ástríðufull og nærandi en svo gat ég gersamlega lokuð eða verið geðveikislega undarleg. Það er það sem þú þarft kannski „er það ekki“? Við vorum kannski ekki svo ólík.

Jeff fór að gefa í skyn að hann vildi að samband okkar yrði nánara. Ég sagði að það væri allt í lagi að prófa. Ég efaðist samt í huganum. Hvað var hann að hugsa? Þar sem ég vissi að hann myndi einhvern daginn yfirgefa landið.  Það eina sem ég gat fundið var að þetta var farið að reyna á mig. Ég var ekki í neinu jafnvægi til að takast á við tilfinningar. Ég var ekki búin að jafna mig. Ég var farin að missa athyglina á vinnuna og á drauma mína. Það var eins og hann heltæki huga minn. Ef ég var ekki að tala við hann, þá var ég að hugsa um hvað hefði farið á milli okkar í síðasta símtali eða þegar við hittumst.

Ég hætti að nota áfengi á þessum tíma. Þó að ég vildi, þá gat ég það ekki. Það var eins og að það myndi sljóvga huga minn og ég átti nógu erfitt með að skipuleggja hlutina þó ég væri ekki að blanda víni í það. Ég var farin að finna fyrir því að ég gæti ekki verið án þessa manns. Hann virtist hafa þessi segulmögnuðu áhrif á mig. Það var eins og hann hefði svör við þeim spurningum sem ég leitaði að.

Ég held að þörfin fyrir að hafa hann í lífi mínu hafi aðallega verið til að svara þessum spurningum frekar en að elska hann. Í hvert einasta skipti sem við töluðum saman í símann, grét ég mig í svefn. Hann var að opna hjarta mitt og það var að koma fram sá sársauki sem ég hafði falið síðustu ár. Ég var farin að þurfa á honum að halda. Ég þurfti á visku hans að halda til að getað tekist á við það sem var að brjótast fram.

Mér fannst ég alltaf svo ber eftir að við vorum búin að tala saman og mig vantaði brynjuna sem hann var að brjóta niður. Hann gat fengið mig til að njóta lífsins og taka gleði mína aftur, en þegar hann fór þá kom sorgin og minningarnar til baka. Ég hafði ekki stjórn á þeim tilfinningum sem voru inni í mér. Ég var ekki nógu sterk til að takast á við þetta ein. Það hefði verið hægt með því að loka á það, en nú var hann farinn að opna og ég hafði ekki neinar dyr sem lokuðust þegar hann fór.

Í eitt skiptið sem ég hitti hann sagði ég við hann: „Ég þarf á heilanum þínum að halda. Ég þarf á þekkingu þinni að halda.“ Ég var viss um að ef ég væri með heilann á honum, þá þyrfti ég ekki á neinum að halda í þessu lífi nema krökkunum mínum auðvitað. Ég gæti þá hugsað um þau alein. Faðir minn hafði einu sinni haft á orði við hana mömmu: „Það virðist eins og Andrea þarfnist einhvers.“

 

Ég þurfti á heila að halda, pabbi, það er það sem ég er búin að leita að.

 

Ég þurfti athygli og ást, frá föður mínum og að honum fyndist ég geta eitthvað. Ég þurfti hrós, alveg eins og Sigursteinn bróðir minn. Þó svo að ég væri ekki alltaf að gera rétt. Ef ég gerði mistök, þá þurfti ég ekki að heyra að ég væri heimsk og barnaleg eða eins og þú orðaðir það oft, að ég væri alltaf að flækja annan fótinn um hinn. Stundum þegar ég datt og meiddi mig, þurfti ég bara að fá faðmlag frá þér pabbi og heyra þig segja: „Ég finn mjög mikið til með þér og mér þykir svo vænt um þig. Kannski líka, ef þú hefðir sagt. „Leyfðu mér að lina þjáningar þínar.“

 

Góði Guð, hjálpaðu mér að skilja. Sagði ég í huganum

Líf mitt fór að taka aðra stefnu. Ég var farin að finna fyrir því að ég næði ekki að einbeita mér. Ég var að leita að svari. Ég var að leita að skilningi á því sem var að gerast. Ég neitaði því að hafa aðrar tilfinningar til þessa manns aðrar en að fá svör.

 

Góði Guð, hjálpaðu mér að skilja, bað ég til hans.

 

Ég var farin að fá alls konar skilaboð í huganum. Það var eins og einhver væri að tala við mig. Hvað er að gerast Guð? kallaði ég. Hvað er að gerast með mig? Ég get ekki barist við þetta, ég þarf að vera til staðar fyrir börnin. Gerðu það hjálpaðu mér.

 

 

Ég var að skrá mig í skólann á þessum tíma og fór í inntökuprófið sem ég stóðst með glans. Ég var ein af 40 sem voru valin úr 200 manna hópi. Þetta er virtur myndlistarskóli sem tekur aðeins þá sem hafa hæfileika. Ég var rosalega stolt af sjálfri mér og var nú búin að sanna það, að ég væri ekki hæfileikalaus. Gleðin tók yfir.

Þegar ég myndi byrja í skólanum vissi ég að þetta yrði erfitt og að ég þyrfti að skipuleggja mig mjög mikið. Þetta yrði eins og að mæta í vinnu klukkan 9-17. Ég þurfti að vera með það á hreinu að koma krökkunum fyrir hjá dagmömmu.

Ég ætlaði að nota tækifærið og sökkva mér í námið en fyrst yrði ég að klára vinnuna á saumastofunni. Ég var að vona að það myndi komast ró á huga minn. Af einhverri ástæðu þurfti Jeff að halda áfram. Ég gat ekki sagt honum að hætta að hafa samband, vegna þess að hann var búinn að vera mér svo góður. Ég vildi ekki særa hann. Ég var líka forvitin hvað kæmi næst. Ég sagði honum að við yrðum að hittast miðað við aðstæður okkar beggja. Ég gat auðvitað ekki stokkið til í hvert skipti sem hann var í fríi. Hann var kannski í Reykjavík og skrapp í sund í Árbæjarlaug, rétt hjá heimilinu mínu og hringdi til að spyrja hvort ég gæti hitt hann. Ég var náttúrulega með ung börn og gat ekki farið frá þeim. Ég held að það hafi pirrað hann svolítið. Það var ekki á dagskránni hjá honum að eiga börn. Hann var frjáls.

Mér fannst ég fara í hringi með hlutina. Mér fannst ég líka vera að upplifa eitthvað sem ég hafði kynnst áður. Það var þessi tilfinning sem er í sumum samböndum: „Haltu mér, slepptu mér.“ Stundum var ég vinkona hans þegar hann hringdi og næsta dag, kærasta. Ég gat aldrei verið viss. Þetta storkaði mér svolítið og ruglaði mig í ríminu

Ég gat ekki áttað mig á því hvorum megin ég ætti að vera. Það var eins og hann væri ekki viss um hvað hann vildi. Ég vildi fullvissu. Kannski átti hann erfitt með að skuldbinda sig, en vildi samt eiga mig. Ég varð pirruð á þessari hegðun, en ég vildi ekki láta hann vita af því, hann virtist hafa gaman af því að heyra reiðina í manni. Það var eins og honum fyndist það spennandi. Ég ætlaði ekki að gera honum það til geðs. Ég lokaði á þessa tilfinningu. Ég ákvað að hugsa bara um hann sem vin til að vera ekki að flækja þetta.  Ég átti samt erfitt með það þar sem ég var að verða hrifin af honum.


Kafli 8. Loksins almennileg íbúð

 8. kafli

Hraunbær

 

Fljótlega eftir kynni mín af Frey frétti ég að vinkona mín væri að fara úr tveggja herbergja íbúð sem hún hafði leigt í Árbænum. Hún bauðst til að tala við leigusalann um það að leigja mér íbúðina. Leigusali samþykkti að ég fengi íbúðina vegna meðmæla vinkonu minnar.

Ég fór að pakka með kvíðablandinni tilhlökkun, þar sem staðurinn sem ég leigði og var fyrir einstæða foreldra hafði hjálpað mér svo mikið við að byggja upp sjálfstraustið sem var ekki síst að þakka samverunni við allar konurnar sem ég kynntist á þessum stað.

Þegar flutningarbíllinn kom og ég gaf honum upp heimilisfangið áttaði ég mig á því að ég var að fara að flytja í næstu blokk við blokkina sem Freyr bjó í. Vá, hugsaði ég, hann heldur sennilega að ég sé að elta hann uppi og heldur að ég sé snarklikkuð. Ég lét það samt ekki á mig fá, þar sem ég þráði að búa á alvöru heimili. Ég þurfti að borga aðeins meira fyrir hana, en vegna þess að ég fékk húsaleigubætur, kom það samt betur út og var ódýrara fyrir vikið.

Lífið var leiðinni upp á við. Það kom ekkert annað til greina. Ég ætlaði að ná okkur upp úr þessari holu sem við höfðum dottið ofan í. Bjartsýnin uppmáluð fluttum við inn. Það var kominn tími til að halda upp á þetta. Það var að renna upp sá tími að allt yrði breytt.

Nú ætlaði ég sko að gefa í og njóta lífsins, byggja upp fyrir framtíðina á þeim hraða sem við gátum. Ég var svo hamingjusöm. Það virtist allt vera að ganga upp. Nú ætlaði ég að stefna áfram og ekkert nema áfram. Þvílíkur kraftur sem fór um mig. Ég dansaði á stofugólfinu þegar ég var búin að koma okkur fyrir. Það var komið vor, vonin vaknaði með bruminu á trjánum.

Þegar ég fór út á svalir þar sem við bjuggum á annarri hæð, sá ég útsýni sem lét mér líða eins og drottningu í ríki sínu. Það var leikvöllur fyrir krakkana fyrir utan, leikskólinn var í fimm mínútna fjarlægð og verslun rétt við blokkina. Hvað gat verið betra en þetta? Ég áttaði mig líka á því að þegar ég var úti á svölum, gat ég séð yfir á svalirnar hjá Frey. Það var svolítið spennandi. Daginn sem ég flutti inn og krakkarnir voru hjá pabba sínum hélt ég svaka innflutningspartí. Á meðan ég var að bíða eftir vinkonunum kveikti ég á kertum í snyrtilegri íbúðinni og setti lag á fóninn. Það heitir „Killing me softly with his song“með Fugees  

 

sem minnti mig óendanlega mikið á Frey

Vinir mínir komu einn af öðrum í partíið og Erla vinkona mín sem vissi að ég var að hitta Frey, hvatti mig til að hringja í hann. Eftir að ég var búin að safna í mig kjarki hringdi ég. Hann sagðist vera upptekinn en gæti hitt mig seinna um kvöldið.

Tilhlökkunin var mikil að eiga von á því að hitta ástmann minn, þar sem ég hafði ekki neinn til að elska. Þótt hann væri giftur skipti það mig ekki máli, þar sem ég ætlaði bara að hugsa um mínar eigin tilfinningar. Mér var sama um tilfinningar annarra. Ég fann ekki fyrir neinni sektarkennd. Ég var búin að eyða orku minni síðustu ár í aðra og ætlaði nú að hugsa aðeins um mig og börnin.

Vinkonurnar streymdu inn ein af annarri. Við skemmtum okkur konunglega þetta kvöld og skruppum svo í bæinn á pöbbarölt. Þegar kvöldið var á enda og kominn tími til heimferðar, fór ég í síma og hringdi í Frey. Hann samþykkti að hitta mig fyrir utan blokkina þegar ég kæmi heim. Ég var eftirvæntingarfull þar sem ég saknaði ástríðufullra kossa hans og faðmlags sem og kynlífsins. Þegar leigubíllinn stoppaði fyrir utan, sá ég mann standa með gítar bíðandi eftir mér. „Hva, á að fara spila?“ spurði ég og brosti. „Já, maður verður að leika sér“ sagði hann.

Þegar inn var komið blandaði ég okkur í glas á meðan hann kom sér fyrir inni í stofu. „Þetta er allt annað“ sagði hann og meinti íbúðina. „Já, ég er rosalega fegin að vera komin hingað“ svaraði ég. Hann byrjaði að spila rólega tónlist á meðan hann horfði á mig og dreypti á glasinu. „Komdu með gítarinn þinn og spilum dúett“ sagði hann. „Ég er ekkert klár að spila“ svaraði ég feimin. Samt stóð ég upp og sótti gítarinn og gítarbók með hljómum og gripum. Ég valdi mér auðvelt lag og spilaði með honum, þar sem við sátum hlið við hlið til að sjá á bókina.

Kvöldið leið hratt, enda var rosalega gaman hjá okkur. Eftir nokkur lög teygði hann sig í áttina að mér, tók utan um höfuðið mér og kyssti mig á blíðlegan hátt. Hann var svo næmur og blíður í öllum hreyfingum og það ólgaði í mér blóðið við þessa snertingu. „Rosalega er ég búin að missa af miklu öll þessi ár, hugsaði ég, eða er ég búin að gleyma hvernig það var á milli okkar Davíðs, þar sem slæmu hlutirnir skyggðu á hina góðu? Það er auðveldara að skilja við mann ef maður er reiður út í hann.

Þessar hugsanir runnu um huga minn á meðan ég naut snertinga Freys. Ef hann bara væri ekki giftur, hugsaði ég en var fljót að ýta þeirri hugsun frá mér, þar sem ég ætlaði ekki að hleypa tilfinningunum upp. Ég ætlaði bara að njóta augnabliksins. Við enduðum svo inni í svefnherbergi og áttum unaðslegar stundir saman. Hann kunni að láta konu líða eins og drottningu, þar sem hann einbeitti sér að mér án þess að ætlast til nokkurs af mér á meðan. Ég reyndi samt að launa honum til baka þar sem ég var svo fullnægð. Svo sofnuðum við í örmum hvors annars. Ég átti ófáar nætur með honum Frey. Mér fannst ég svo heppin að eiga svo góðan elskhuga, þó að það yrði ekkert meira á milli okkar. Ég ætlaði bara að njóta þess á meðan ég gat.

Ég var búin að vera atvinnulaus fram að þessu, en Inga vinkona mín átti foreldra sem áttu saumastofu og hún bauð mér að sækja um vinnu hjá þeim. Ég sagði henni að ég þyrfti að fá laun sem væru að minnsta kosti hærri en atvinnuleysisbæturnar, þar sem ég þyrfti að borga minnst þriðjung í barnapössun til að komast í vinnuna. Það var auðfengið og ég fór að vinna á þessari saumastofu þegar það fór að líða að sumri.

Þegar þarna var komið sögu, sá ég auglýsingu í blaði um að það væri inntökupróf í Mynd- og handíðaskóla Íslands. Það var ekki svo auðvelt að komast í þennan skóla. Ég hafði þó lært eitt og annað í gegnum tíðina í myndlist. Ég hafði alltaf tekið það sem val í framhaldskóla og ég hafði líka verið að hluta til á listabraut á námstímanum. Þar hafði ég lært formfræði og litafræði sem er grunnmenntun í myndlist. Einnig hafði ég nokkuð gott skynbragð á almenna teiknun.

Ég skráði mig í þetta inntökupróf. Fólk í lífi mínu hafði oft hvatt mig til að læra meira í myndlist. Prófið átti að fara fram um haustið og það tók þrjá daga að klára það. Þetta var framtíðarmarkmið en á meðan ætlaði ég að vinna á þessari saumastofu. Ég vissi líka að þetta var frekar sumarstarf en til framtíðar. Ég varð að leysa það einhvern veginn hvernig ég ætlaði að fjármagna námið, þar sem ég gat fengið námslán á öðru árinu en ekki því fyrsta. Mér datt því í hug að fara til Félagsþjónustunnar að sækja um styrk til framfærslu á meðan að ég væri í náminu. Ég fór því til félagsþjónustunnar með von um að þau gætu hjálpað mér fjárhagslega.  Ég panntaði því fund með þeim og tók saman ljósmyndir af öllu því sem ég hafði teiknað í gegnum tíðina til að leggja fram með þessari umsókn. Það átti svo að vera fundur hjá þeim til að fjalla um þessa umsókn og tók það nokkrar vikur að bíða eftir því. Ég gat því undirbúið mig undir prófið í rólegheitunum á meðan. Þegar leið á haustið og ég fékk samþykki frá félagsþjónustunni var það mikill léttir. Nú þurfti ég bara að klára þessa vinnu af og nota sumarið til að byggja upp fallegt heimili og kannski veita börnunum mínum einhvern munað. Þau höfðu ekki notið neinna gæða fram að þessu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband