Kafli 17. Bati framundan

17. kafli

Bati framundan

Það var runnið upp árið 1997 og við tók endurhæfing. Ég þurfti að vera nokkurn tíma í sambandi við spítalann. Þeir voru að reyna að átta sig á hvaða lyf myndu henta mér og hvað ekki. Ég hafði fallið langt niður fyrir mörkin í skjaldkirtilshormónum og það var verið að stilla það upp á nýtt. Ég var í svokallaðri dagsinnskrift sem þýddi að ég mátti vera úti á daginn og koma á kvöldin.

Þegar leið á vikurnar tók við annað ferli. Ég þurfti að mæta á daginn og sækja lyf og svo mátti ég sofa heima. Ég hafði hætt í skólanum og ég treysti mér ekki þangað aftur, þó svo að nemendur hefðu komið á spítalann til að hvetja mig til að halda áfram. Skólastjórinn hafði samþykkt að ég mætti halda áfram og svo var verið að segja mér að bestu listamenn í heiminum hefðu allir verið geðveikir.

Ég gat ekki sætt mig við þetta orð og ég gat ekki horfst í augu við að ég væri eitthvað veik. Ég leit á þetta tímabil sem eitthvað sem hefði klikkað eða að teppinu hefði verið kippt undan mér. Ég gat ekki hlustað á það að ég væri með varanlegan geðsjúkdóm. Ég spurði lækninn minn alltaf að því þegar ég fór í viðtal hvort þetta væri ekki misskilningur. Hann sagði að svo væri ekki og ég mætti ekki hætta að taka lyfin ef ég ætlaði að halda jafnvægi.

Hvernig gat ég verið viss um að allt sem ég hefði heyrt og allt sem ég hefði séð væri bara vitleysa? Mér fannst eins og fólk gæti ekki trúað á Guð af því að það væri engin sönnun. Hvernig átti ég að trúa því að lífið væri bara eins og maður sér það þegar maður er á lyfjum en ekki eins og maður sér það án lyfja? Ég hafði aldrei verið í vímuefnum og ég var ekki drykkjumanneskja. Ég hafði alltaf treyst á dómgreind mína. Hvað er það sem gat sannfært mig um að dómgreind mín hefði farið út af sporinu?

Ég fór að fara í viðtöl á Hvítabandinu. Ég kveið því að þurfa að takast á við þetta líf án þess að vera í daglegu sambandi við lækna. Ég kveið því að þurfa að telja lyfin mín í lyfjaboxið. Ég fann að einbeitingin var ekki til staðar. Ég var farin að missa alla trú á dómgreind mína. Hvernig gat ég vitað að ég væri að gera rétt hverju sinni? Hvernig gat ég verið viss um að gleði mín einn daginn væri ekki geðhvörf? Hvernig gat ég verið viss um að reiði mín væri ekki geðhvörf? Hvernig gat ég verið viss um að sorg mín væri ekki geðhvörf?

Þetta var langur og þéttur skógur sem var framundan. Ég sá fólk í misjöfnu ástandi á fundum sem ég sótti. Ég reyndi að hlusta á sögur þess og setja mig í samhengi við þær sögur. Sumar sögurnar fannst mér heimskulegar, of litlar til að gera mál úr. Ég gat samt ekki horfst í augu við það að ég hefði sjálf svipaða sögu að segja.

Móður minni fannst erfitt að horfast í augu við það að ég þyrfti að taka lyf. Hún gat aldrei sætt sig við það að dóttir hennar væri með geðhvörf. Hún vildi frekar finna aðra skýringar, eins og flogaveiki eða vanstarfsemi í skjaldkirtli. Ekki geðhvörf. Fordómar þjóðfélagsins fóru að segja til sín og ég fór að fela sjúkdóminn eins og hann væri smitandi eða hættulegur.

Ég fékk ekki líftryggingu eftir þetta og varð að fara að safna fyrir lífeyrir á annan hátt. Örorkan sem fylgdi þessu og hamlandi traust á sjálfa mig olli því að ég hafði ekki trú á að ég myndi ná þeim bata sem þyrfti til að halda heilsdagsvinnu. Afneitun gagnvart ástandinu gerði hlutina erfiðari, bæði fyrir bata sjúklings og skilning aðstandenda. Vantraust á dómgreind einstaklingsins gerði það að verkum að spurningin um hæfni mína til að sjá um börnin olli hugarangri barnsföður. Allir í kringum mig vissu ekki hvað hefði gerst. Allir í kringum mig voru hræddir við að spyrja. Ég gat kannski ekki útskýrt það strax, því ég vissi það ekki sjálf. Ég vissi bara að ég var hætt að trúa á sjálfa mig. Ég varð bara að treysta á Guð.

Guð var jafn augljós fyrir mér eins og ég var óljós fyrir mér. Ég vildi ekki trúa að geðhvörfin mín væru sannleikur. Ég vildi ekki trúa að ég væri veik. Ég gat ekki viðurkennt að ég væri geðveik. Guð getur bara gefið mér svarið. Ég verð að trúa.

 

Hver dagur er sigur

Ég sótti fundi reglulega og tók lyfin samviskusamlega. Ég ætlaði ekki að taka áhættuna af því að þetta myndi gerast aftur. Ég mátti ekki við því og börnin mín máttu ekki við því, þar sem faðir þeirra var fluttur til Bandaríkjanna og giftur þar. Hann hafði hringt á spítalann nokkrum dögum eftir að ég var lögð inn, til að tilkynna mér að hann væri að fara þangað. Hann tók samt Sunnu út til sín í fjóra mánuði stuttu eftir að ég útskrifaðist. Ég vildi ekki senda Skorra, þar sem hann var svo háður mér og gat ekki verið annars staðar en hjá mér. Ég þurfti að finna nýja íbúð, þar sem íbúðin í Árbænum hafði verið seld.

Bataferli sjúklings með geðsjúkdóm líkist því að manneskja fari út á þunnan ís á vatni og ísinn brotnar undan henni. Þegar manneskjan nær að komast upp úr vatninu og upp á ísinn aftur, þorir hún ekki að stíga of fast niður. Það er misjafnt hvað fólk er lengi að finna styrk íssins og hve þykkur hann er til að byrja með og ganga á venjulegan hátt. Sumir fara of hratt af stað, brjóta ísinn aftur og detta hvað eftir annað ofan í ískalt vatnið. Aðrir reyna að fara hægt og þurfa jafnvel einhvern til að hvetja sig áfram, því óttinn við að sökkva aftur er svo ofarlega í huga.

Það veit enginn sem hefur ekki gengið þennan veg hve þunnur ísinn er hjá hverjum og einum. Það veit aðeins sá sem hefur lent í því. Þegar einstaklingur segir að hann megi ekki stíga fastar til jarðar eða fara sér hraðar, er það vegna þess að þessi einstaklingur er búinn að finna styrkleik undirlagsins hjá sér og hvað hæfir honum.

Þetta er staðreynd sem hver og einn þarf að horfast í augu við til að lenda ekki í þeirri aðstöðu að gefast upp. Ef einstaklingurinn finnur að ísinn er að brotna hvað eftir annað, getur verið að hann leggi árar í bát. Vonin deyr í hjarta hans, sjálfstraustið hverfur, þrekið þverr og hann gefst upp. Það er barátta á hverjum degi við að finna tilgang í því sem virðist vera blekking. Það þarf kjark til að takast á við það og búa til nýja von. Hver dagur er sigur og hver dagur gefur von. Að búa sér til verkefni er nauðsynlegt til að skuldbinda sig til að ljúka þeim. Verkefnaleysi er dauðans alvara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband