Kafli 8. Loksins almennileg íbúð

 8. kafli

Hraunbær

 

Fljótlega eftir kynni mín af Frey frétti ég að vinkona mín væri að fara úr tveggja herbergja íbúð sem hún hafði leigt í Árbænum. Hún bauðst til að tala við leigusalann um það að leigja mér íbúðina. Leigusali samþykkti að ég fengi íbúðina vegna meðmæla vinkonu minnar.

Ég fór að pakka með kvíðablandinni tilhlökkun, þar sem staðurinn sem ég leigði og var fyrir einstæða foreldra hafði hjálpað mér svo mikið við að byggja upp sjálfstraustið sem var ekki síst að þakka samverunni við allar konurnar sem ég kynntist á þessum stað.

Þegar flutningarbíllinn kom og ég gaf honum upp heimilisfangið áttaði ég mig á því að ég var að fara að flytja í næstu blokk við blokkina sem Freyr bjó í. Vá, hugsaði ég, hann heldur sennilega að ég sé að elta hann uppi og heldur að ég sé snarklikkuð. Ég lét það samt ekki á mig fá, þar sem ég þráði að búa á alvöru heimili. Ég þurfti að borga aðeins meira fyrir hana, en vegna þess að ég fékk húsaleigubætur, kom það samt betur út og var ódýrara fyrir vikið.

Lífið var leiðinni upp á við. Það kom ekkert annað til greina. Ég ætlaði að ná okkur upp úr þessari holu sem við höfðum dottið ofan í. Bjartsýnin uppmáluð fluttum við inn. Það var kominn tími til að halda upp á þetta. Það var að renna upp sá tími að allt yrði breytt.

Nú ætlaði ég sko að gefa í og njóta lífsins, byggja upp fyrir framtíðina á þeim hraða sem við gátum. Ég var svo hamingjusöm. Það virtist allt vera að ganga upp. Nú ætlaði ég að stefna áfram og ekkert nema áfram. Þvílíkur kraftur sem fór um mig. Ég dansaði á stofugólfinu þegar ég var búin að koma okkur fyrir. Það var komið vor, vonin vaknaði með bruminu á trjánum.

Þegar ég fór út á svalir þar sem við bjuggum á annarri hæð, sá ég útsýni sem lét mér líða eins og drottningu í ríki sínu. Það var leikvöllur fyrir krakkana fyrir utan, leikskólinn var í fimm mínútna fjarlægð og verslun rétt við blokkina. Hvað gat verið betra en þetta? Ég áttaði mig líka á því að þegar ég var úti á svölum, gat ég séð yfir á svalirnar hjá Frey. Það var svolítið spennandi. Daginn sem ég flutti inn og krakkarnir voru hjá pabba sínum hélt ég svaka innflutningspartí. Á meðan ég var að bíða eftir vinkonunum kveikti ég á kertum í snyrtilegri íbúðinni og setti lag á fóninn. Það heitir „Killing me softly with his song“með Fugees  

 

sem minnti mig óendanlega mikið á Frey

Vinir mínir komu einn af öðrum í partíið og Erla vinkona mín sem vissi að ég var að hitta Frey, hvatti mig til að hringja í hann. Eftir að ég var búin að safna í mig kjarki hringdi ég. Hann sagðist vera upptekinn en gæti hitt mig seinna um kvöldið.

Tilhlökkunin var mikil að eiga von á því að hitta ástmann minn, þar sem ég hafði ekki neinn til að elska. Þótt hann væri giftur skipti það mig ekki máli, þar sem ég ætlaði bara að hugsa um mínar eigin tilfinningar. Mér var sama um tilfinningar annarra. Ég fann ekki fyrir neinni sektarkennd. Ég var búin að eyða orku minni síðustu ár í aðra og ætlaði nú að hugsa aðeins um mig og börnin.

Vinkonurnar streymdu inn ein af annarri. Við skemmtum okkur konunglega þetta kvöld og skruppum svo í bæinn á pöbbarölt. Þegar kvöldið var á enda og kominn tími til heimferðar, fór ég í síma og hringdi í Frey. Hann samþykkti að hitta mig fyrir utan blokkina þegar ég kæmi heim. Ég var eftirvæntingarfull þar sem ég saknaði ástríðufullra kossa hans og faðmlags sem og kynlífsins. Þegar leigubíllinn stoppaði fyrir utan, sá ég mann standa með gítar bíðandi eftir mér. „Hva, á að fara spila?“ spurði ég og brosti. „Já, maður verður að leika sér“ sagði hann.

Þegar inn var komið blandaði ég okkur í glas á meðan hann kom sér fyrir inni í stofu. „Þetta er allt annað“ sagði hann og meinti íbúðina. „Já, ég er rosalega fegin að vera komin hingað“ svaraði ég. Hann byrjaði að spila rólega tónlist á meðan hann horfði á mig og dreypti á glasinu. „Komdu með gítarinn þinn og spilum dúett“ sagði hann. „Ég er ekkert klár að spila“ svaraði ég feimin. Samt stóð ég upp og sótti gítarinn og gítarbók með hljómum og gripum. Ég valdi mér auðvelt lag og spilaði með honum, þar sem við sátum hlið við hlið til að sjá á bókina.

Kvöldið leið hratt, enda var rosalega gaman hjá okkur. Eftir nokkur lög teygði hann sig í áttina að mér, tók utan um höfuðið mér og kyssti mig á blíðlegan hátt. Hann var svo næmur og blíður í öllum hreyfingum og það ólgaði í mér blóðið við þessa snertingu. „Rosalega er ég búin að missa af miklu öll þessi ár, hugsaði ég, eða er ég búin að gleyma hvernig það var á milli okkar Davíðs, þar sem slæmu hlutirnir skyggðu á hina góðu? Það er auðveldara að skilja við mann ef maður er reiður út í hann.

Þessar hugsanir runnu um huga minn á meðan ég naut snertinga Freys. Ef hann bara væri ekki giftur, hugsaði ég en var fljót að ýta þeirri hugsun frá mér, þar sem ég ætlaði ekki að hleypa tilfinningunum upp. Ég ætlaði bara að njóta augnabliksins. Við enduðum svo inni í svefnherbergi og áttum unaðslegar stundir saman. Hann kunni að láta konu líða eins og drottningu, þar sem hann einbeitti sér að mér án þess að ætlast til nokkurs af mér á meðan. Ég reyndi samt að launa honum til baka þar sem ég var svo fullnægð. Svo sofnuðum við í örmum hvors annars. Ég átti ófáar nætur með honum Frey. Mér fannst ég svo heppin að eiga svo góðan elskhuga, þó að það yrði ekkert meira á milli okkar. Ég ætlaði bara að njóta þess á meðan ég gat.

Ég var búin að vera atvinnulaus fram að þessu, en Inga vinkona mín átti foreldra sem áttu saumastofu og hún bauð mér að sækja um vinnu hjá þeim. Ég sagði henni að ég þyrfti að fá laun sem væru að minnsta kosti hærri en atvinnuleysisbæturnar, þar sem ég þyrfti að borga minnst þriðjung í barnapössun til að komast í vinnuna. Það var auðfengið og ég fór að vinna á þessari saumastofu þegar það fór að líða að sumri.

Þegar þarna var komið sögu, sá ég auglýsingu í blaði um að það væri inntökupróf í Mynd- og handíðaskóla Íslands. Það var ekki svo auðvelt að komast í þennan skóla. Ég hafði þó lært eitt og annað í gegnum tíðina í myndlist. Ég hafði alltaf tekið það sem val í framhaldskóla og ég hafði líka verið að hluta til á listabraut á námstímanum. Þar hafði ég lært formfræði og litafræði sem er grunnmenntun í myndlist. Einnig hafði ég nokkuð gott skynbragð á almenna teiknun.

Ég skráði mig í þetta inntökupróf. Fólk í lífi mínu hafði oft hvatt mig til að læra meira í myndlist. Prófið átti að fara fram um haustið og það tók þrjá daga að klára það. Þetta var framtíðarmarkmið en á meðan ætlaði ég að vinna á þessari saumastofu. Ég vissi líka að þetta var frekar sumarstarf en til framtíðar. Ég varð að leysa það einhvern veginn hvernig ég ætlaði að fjármagna námið, þar sem ég gat fengið námslán á öðru árinu en ekki því fyrsta. Mér datt því í hug að fara til Félagsþjónustunnar að sækja um styrk til framfærslu á meðan að ég væri í náminu. Ég fór því til félagsþjónustunnar með von um að þau gætu hjálpað mér fjárhagslega.  Ég panntaði því fund með þeim og tók saman ljósmyndir af öllu því sem ég hafði teiknað í gegnum tíðina til að leggja fram með þessari umsókn. Það átti svo að vera fundur hjá þeim til að fjalla um þessa umsókn og tók það nokkrar vikur að bíða eftir því. Ég gat því undirbúið mig undir prófið í rólegheitunum á meðan. Þegar leið á haustið og ég fékk samþykki frá félagsþjónustunni var það mikill léttir. Nú þurfti ég bara að klára þessa vinnu af og nota sumarið til að byggja upp fallegt heimili og kannski veita börnunum mínum einhvern munað. Þau höfðu ekki notið neinna gæða fram að þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband