Kafli 16. unbrake my heart

16.kafli

 

„Unbrake my heart“

Þegar ég þurfti að losa um orku fór ég á hlaupabretti sem var inn í föndurherbergi. Ég fann að ef ég púlaði svolítið, hjálpaði það mér að slaka á. Þarna voru konur að föndra fyrir jólin. Þær voru að mála jólasveina og búa til jólaskraut. Þær buðu mér að setjast hjá þeim að skreyta en ég hafði engan áhuga á því. Einn daginn þegar konan sem var að kenna og bauð mér að setjast, ákvað ég þó að teikna mynd. Konunni leist vel á það.

Ég náði mér í tréliti og fór að teikna mynd af jörð sem var öll að hrynja. Það var ljón sem var hlekkjað við eitt húsið. Jörðin var að hrynja allt í kringum það. Það var engin undankomuleið fyrir það. Svo teiknaði ég annað ljón, sem var uppi á einu húsinu. Það var að reyna að komast að hlekkjaða ljóninu en það var ekki svo auðvelt, þar sem öll jörðin var hrunin. Þegar ég var á kafi að teikna þetta bað konan mig um að leyfa sér að sjá. Ég leyfði henni það. Hún sagði þá við mig: „Af hverju að teikna svona sorglegt, af hverju teiknar þú ekki eitthvað fallegt?“

Ég fór þá að horfa í kringum mig. Hvað á ég þá að teikna? Ég fór að hugsa um gamla myndlistarkennarann minn. Hann sagði alltaf: „Til að geta teiknað appelsínu, þurfið þið að vita hvernig appelsínu líður.“ Já, ég verð að teikna appelsínu. Ég verð að teikna svo safaríka appelsínu að öllum langi að borða hana. Kannski er það nógu fallegt.

Ég byrjaði að teikna appelsínuna á sama hátt og mér var kennt að teikna kúlu í skólanum. Ég setti alla skugga og alla birtupunkta á þann stað þar sem þeir áttu að vera. Ég gerði hana eins raunverulega og ég gat. Þegar konan kom aftur til mín að skoða myndina sagði hún: „Þetta er miklu betra.“ Ég vissi það. Ég vissi að það var þetta sem hún vildi. Henni þurfti ekkert að finnast að myndin sem mig langaði að teikna skipti máli. Það var mín mynd.

Þegar ég var á kafi að klára appelsínuna kom ungur læknir og hallaði sér yfir mig og horfði yfir öxlina á mér. Hann spurði mig: „Af hverju ertu að teikna appelsínu?“ Ég svaraði bara alveg eins og ég uplifði að hlutirnir voru: „Vegna þess að ef ég má ekki vera Jesús, ætla ég bara að vera appelsína.“ Hann stóð upp og gekk í burtu. Ég vonaði að ég hefði ekki spælt hann eða sagt eitthvað rangt. Ég stóð svo upp og setti myndina upp í hillu hjá konunni sem sá um föndrið. Ég gaf henni myndina.

Ég vissi að konan vildi ekki sjá þjáningu mína, alveg eins og Davíð þegar ég málaði myndina af ást minni til hans. Ég vissi að hún vildi sjá mig glaða og ánægða. Það er of erfitt að horfa á sársauka fólks. Þess vegna teiknaði ég appelsínu. Ég vissi að læknirinn vildi ekki trúa því að ég væri vendari Jesús, hann vildi ekki horfa á flótta minn frá raunveruleikanum. Ég teiknaði þá það sem þau vildu sjá. Appelsínu. Appelsína er bragðgóð safarík og gefur manni orku. Ef ég var appelsína, var ég raunveruleg. Ef ég var appelsína var ég ekki sorgleg. Ég vissi ekki hvort læknirinn héldi að ég hefði sagt þetta án merkingar. Kannski hélt hann að þetta svar mitt væri hluti af flótta mínum. Hann vissi ekki að þetta svar mitt var hluti af flótta þeirra yfir því sem ég var.

Ég fór þá inn í herbergið mitt og setti á mig heyrnatólin og spilaði lagið „Unbrake my heart“ með Toni Braxton.

Þannig gat ég starað út í myrkrið sem var úti á kvöldin og myrkrið inni í hjartanu á mér þessa daga. Það virtist eins og tómleiki væri að hellast yfir mig. Þegar ég lá í rúminu gat ég kuðlað mig saman og haft þetta lag stanslaust í eyrunum á meðan tárin runnu niður stanslaust án þess að ég væri raunverulega að gráta. Ég leyfði bara sorginni að flæða út. Sorginni að hann væri farinn. Ég fann að ró færðist yfir mig.

Dagarnir voru allir með föstu sniði. Það var morgunmatur, lyf, hádegismatur, lyf, síðdegiskaffi, kvöldmatur, lyf. Stundum var spjallað eftir kvöldmat og ég fór að taka gítarinn minn með mér inn á reyk. Ég spilaði þessi lög sem ég hafði samið og söng fyrir fólkið. Því fannst þetta gaman þó svo að ég kynni ekki að spila einhver óskalög. Þetta var orðinn nokkuð þéttur hópur sem gat skemmt sér.

Það var stelpan sem skar sig, konan í bláa sloppnum, ungur strákur sem skar sig líka, konan með Cheeriosið og diet kókið, maðurinn á tölvunni sem var alltaf að fara í rafmeðferð og maðurinn sem átti konfektmolana en hann var fyrrverandi lögregluþjónn. Svo var þarna maður sem hafði einu sinni kallað í mig inn í herbergi til sín og gefið mér blómavasa og sagði mér að hann héti Aðalsteinn. Hann var mjög myndarlegur en ég átti mann í huga mínum. Það var líka kona þarna sem var með heyrnartæki þar sem hún heyrði nær ekkert var að reyna að lesa varir. Hún virtist vera mjög þung á brún.

Ég var send í einhverja heilamælingu með snúrum sem voru tengdar við tölvu. Ég vissi ekki hvað þeir væru að mæla en ég vissi að þeir hlytu að finna eitthvað merkilegt.

Ég fór að fara í viðtöl hjá dökkhærða manninum og faðir minn mætti mjög oft í þessi viðtöl. Það var alltaf verið að tala um veikindi og ég skildi ekki hver var veikur. Mér fannst að þeir væru að miskilja þetta allt saman.

Ég var spurð hvort ég gerði mér grein fyrir því að ég væri inni á spítala og ég sagði að það gæti verið. Ég var farin að átta mig á því að þetta var einhvers konar stofnun. Það virtust allir vera mjög daufir og stundum fannst mér fólk ekki vera með neinn húmor. Það var talað við sumt fólk eins og börn. „Nei, en hvað þetta er fallegur jólasveinn hjá þér“ og þar fram eftir götunum. Ég fór að nota þrekhjólið sem var þarna reglulega til að ná upp þreki og fannst gott að vera á því þegar ég fann fyrir eirðarleysi. Ég hlustaði þá á músík sem ég var með á diskum.

Einn daginn fannst mér að ég þyrfti að fara út í þéttfallinn snjóinn sem ég sá í gegnum stofugluggann. Ég bað konuna í dyrunum að leyfa mér að fara, þar sem ég væri full af spennu og þyrfti meira púl en á þessu hlaupabretti. Hún fékk leyfi hjá einhverjum og sagði mér loksins að ég mætti fara ef ég kæmi strax aftur. Ég lofaði því. Þegar ég var búin að hlaupa í klofháum snjónum í einhvern tíma, fann ég að þetta var alltof kalt til að gera þetta í venjulegum buxum og strigaskóm. Ég fór því til baka.

Þegar ég kom til baka fór ég að finna fyrir mikilli mæði og það var einsog ég væri að missa máttinn. Þá sá ég mann í hvítum slopp og ég sagði við hann: Heyrðu ég held að ég sé að fá hjartaáfall. Hann svaraði því að ég væri alltof ung til að fá hjartaáfall. Þá fann ég mikinn þrýsting í brjóstinu og datt niður og andaði eins og móður hundur. Ég hristist og skalf þarna á hnjánum. Ég gat ekki slakað á og fólkið var farið að reyna fá mig til að standa á fætur en ég gat ekki staðið. Ég fann bara fyrir þeirri tilfinningu að mig langaði að kreppa mig alla saman og anda eins og ég hefði gengið upp á hátt fjall og ofgert mér. Þau báru mig í rúmið og þar sem rúmið var á hjólum, fór það að hreyfast um allt herbergið á meðan ég hristist og skalf. Þau komu svo með eitthvað sem ég átti að drekka og fékk að vita það seinna að það var largactil. Ég fann að ró færðist yfir mig og ég náði að slaka á. Eftir þetta bættist við bleik tafla í lyfin sem hét rivotil og ég fékk reglulega.

 

Ég var farin að átta mig á því að það var ekki allt með felldu. Ég vissi bara ekki hvað það var. Ég fór inn í reykherbergi og sat þar ein með konunni sem var að borða Cheeriosið og hellti diet kók yfir. Ég sagði upp úr þurru: „Hvers vegna ertu alltaf að borða Cheerios með diet kók“? Hún hafði aldrei talað og aldrei sýnt nein viðbrögð en við þetta öskraði hún eins og það væri einhver að fara að drepa hana.

Ég varð skelfingu lostin. Fólk hljóp til og tvær manneskjur þutu inn í herbergið og reyndu að róa hana. Svo sögðu þau henni að koma og fá lyfin sín. Hún vildi það ekki í fyrstu en þau sögðu henni að hún yrði að gera það. Þá fóru þau með hana og ég stóð þarna eins og illa gerður hlutur og var mjög miður mín að hafa hrætt hana svona.

Ég fór fram og þar hitti ég dökkhærða manninn. Ég sagði við hann: „Þú verður að laga mig, ég þarf að komast út til að hugsa um börnin mín.“ Hann sagði að hann væri að reyna það. Ég spurði hann svo að því hvort hann hefði örugglega tekið blóðprufu til að kanna hvort ég væri nokkuð að taka vímuefni. Ég vissi að mamma var mjög áhyggjufull yfir því að ég væri að taka inn einhver eiturlyf. Hann sagði að hann hefði gert það og það hefði ekkert fundist. Mér létti. Ég lét hann svo fá bókina sem ég hafði skrifað í á þessu tímabili og sem ég hafði sýnt bróður mínum. Ég var að vona að hann gæti áttað sig betur á því hvað væri að gerast. Næst þegar ég talaði við hann spurði hann mig af hverju ég skrifaði bæði á ensku og íslensku í bókina. Ég svaraði: „Vegna þess að ég er ekki viss um hvort Guð talar ensku eða íslensku.“

Það kom nýr maður inn á ganginn. Hann átti að vera með geðklofa var mér sagt. Hann var mjög stór, illilegur í andliti og ég sá að það gæti verið varasamt að abbast upp á þennan mann. Mér var sagt að hann kæmi reglulega en stingi svo alltaf af annað slagið. Mér var sagt að varast hann, þar sem hann gæti þess vegna setið inni í stofu og upp úr þurru farið að runka sér án þess að taka tillit til þess að það væri fólk að horfa á hann. Mér var hætt að lítast á blikuna.

Í eitt skiptið sem ég var inni í reyk, kom heyrnalausa konan inn. Hún horfði á mig reiðilega og rétti mér miða. Á miðanum stóð: „Ég veit að þú ert að tala illa um mig.“ Ég varð undrandi á þessu og hristi höfuðið til að gefa henni til kynna að það væri ekki satt. Þá reif hún í hárið á mér og togaði mig niður í gólf og ætlaði að lúskra á mér. Ég gat ekki losað mig og æpti af kvölum.

Stóri maðurinn með geðklofann var þá þarna viðstaddur. Hann varð reiður og sló hana á eyrun þannig að hún neyddist til að sleppa. Hún æpti og öskraði. Hann kallaði þá öskureiður: „Ég er ekki sökudólgurinn í þessu. Ég er ekki hér til að vernda fólk. Ég tek ekki á mig þessa ábyrgð.“ Ég var honum afar þakklát og sagði við hann að ég myndi segja hvað hefði gerst. Ég sannfærði hann um að ég myndi ekki klaga hann heldur halda uppi vörnum fyrir hann. Ég þakkaði honum fyrir að hafa hjálpað mér. Hann vildi ekki neitt þakklæti, hann vildi bara fá að vera í friði. Ég var farin að finna að ég gat ekki verið alla daga á þessum stað. Þetta var ekki venjulegur staður. Þetta var eins og geðveikrahæli.

Næst þegar ég talaði við dökkhærða manninn spurði ég hvort ég gæti ekki fengið að fara á daginn og sinna syni mínum sem ég vissi að væri heima hjá foreldrum mínum. Ég fékk leyfi eftir nokkra fundi, að sækja hann á daginn og skila honum svo þegar líða tók á kvöld.

 

Þegar þessir dagar tóku við, var það venja hjá mér að eftir hádegismat fór ég að sækja Skorra og ég fór heim til Höllu vinkonu. Það voru fagnaðarfundir þegar við hittum hvor aðra. Ég sagði við hana: „Halla, þetta er eitthvað bilaður staður.“ Ég sagði henni frá fólkinu og hún byrjaði að hlæja. „Já, Andrea, þú ert líka biluð, ekki satt?“ sagði hún. Hún sagði mér reyndar að hún hefði sjálf verið á svona stað einhvern tímann og bauð mig velkomna í hópinn. Ég átti ekki orð. Hvað er að gerast? Ég sem hélt að ég væri með allt á hreinu.

Við eyddum dögunum saman að drekka kaffi og tala um þessa hluti. Við fórum reyndar að taka þátt í lífinu aftur og ég sagði henni upplifun mína á öllu í gegnum þetta ferli. Ég vissi ekki lengur hvað var tálsýn og hvað var sannleikur. Ég verð lengi að fatta hvað kom fyrir, hugsaði ég.

Ég þurfti samt alltaf að mæta á spítalann. Ég var farin að taka með mér málverk upp á spítala sem ég hafði málað í gegnum tíðina og fólk vildi kaupa þau. Ég hafði málað þau þegar ég bjó úti á landi. Ég stillti þeim upp í herberginu mínu. Dökkhærði maðurinn sem ég var farin að átta mig á að væri læknirinn minn, hafði áhuga á því að skoða þessi málverk. Ég sagði honum að það væri allt í lagi. Honum leist vel á eitt málverkið og spurði hvort að hann mætti kaupa það. Hann vildi samt gera við mig viðskiptasamning til fimm ára um að ég mætti endurheimta málverkið ef ég vildi. Ég veit að hann gerði það til að ég myndi hafa tíma til að átta mig á því hvort ég vildi selja það. Pabbi var vitni á þessum fundi og það var allt gert á mjög fagmannlegan hátt. Mér fannst þetta ekki nauðsynlegt, þar sem ég hafði oft selt verkin mín en læknirinn vildi hafa þetta svona.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband