Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019

Kafli 7. Einstæðir foreldrar

7. kafli

Einstæðir foreldrar

 

Ég fann stað þar sem var heimili fyrir einstæða foreldra. Ég hafði ekkert fengið úr búinu nema kommóðuna og tvö rúm fyrir börnin. Davíð stóð ekki við orð sín með þvottavélina. Ég var einnig með hluta af neysluskuldum sem voru á greiðslukortinu mínu. Nafn mitt var ónýtt og ég átti enga peninga. Ég gat leigt herbergi hjá einstæðum foreldrum sem var eitt svefnherbergi og annað sem var notað fyrir stofu og eldhús. Þá þurfti maður að deila baðherbergi með öðrum konum og börnum þeirra. Annað var ekki í boði. Ég fór á atvinnuleysisskrifstofuna til að skrá mig, svo ég gæti fengið atvinnuleysisbætur og mögulega vinnu.

Atvinnuleysisbætur eru ekki háar og voru aðeins um 70 þúsund krónur á þessum tíma. Meðlag var þá 10 þúsund krónur á barn. Ég borgaði svo 22 .000 krónur í húsaleigu, 20.000 krónur í leikskólagjöld fyrir krakkana og þá voru um 48 þúsund krónur eftir í mat og föt. Verulegur hluti af laununum fór sem sagt í leiksskólagjöld, því börnin þurftu að vera á leikskóla til að maður teldist löglega fær um að ráða sig í vinnu. Þessir peningar voru miklir miðað við það hvað við áttum. Ég borgaði húsaleigu sem var svipuð og á almennum markaði en fékk ekki húsaleigubætur, þar sem ég deildi salerni með öðrum konum.

Það vildi enginn leigja atvinnulausri, einstæðri móður. Það bjóst enginn við að hún myndi borga leiguna. Til að eiga fyrir mat eða föt á börnin þurfti ég að drýgja tekjurnar með því að fara í Mæðrastyrksnefnd. Það voru ekki létt spor. Það vandist samt ótrúlega vel og við fórum líka í kirkjuna til að fá eitthvað hjá þeim.

Á þessum stöðum fengum við líka föt og svo þegar við vorum í stuði fórum við í Rauðakrossbúðina að versla. Það var eins og að fara í tískuvöruverslun og okkur leið eins og við værum að stæla okkur upp. Þar var hægt að finna flotta skó eða úlpur eða kápur og þegar við komum svo heim, vorum við með tískusýningu. Með þessum leiðum tókst okkur að ná endum saman.

Ég fór að telja hverja einustu krónu sem ég þurfti ekki að eyða, mér til tekna og mér tókst að safna fyrir 10 ára gömlu sjónvarpi og fimm ára gömlu stereótæki. Seinna fann ég notaðan sófa sem kostaði lítið. Þetta fór að líkjast heimili. Mér leið að minnsta kosti þannig þegar ég sat á kvöldin með kerti kveikt og fékk mér bjór og hlustaði á plötur. Ég held að krakkarnir hafi ekkert tekið eftir því hvað þetta var fátæklegt. Þau þurftu ekki mikið til að gleðjast enda ennþá svo ung. Ég fann þó fyrir öryggi, vegna þess að það myndi að minnsta kosti enginn koma inn og brjóta rúmið eða selja það eða jafnvel tuska mig til. Ég var í skýjunum. Þetta var lífið og frelsið. Ég átti heimili, ég var frjáls og óháð.

Davíð kallaði þetta skítaholu og hneykslaðist á mér að vera að bjóða börnunum upp á þetta. Ég vissi að það var bara til að reyna að brjóta mig niður og ég ætlaði sko ekki að láta hann komast upp með það. Ég vissi innst inni að þetta yrði ekki alltaf svona. Ég ætlaði að ná lengra í lífinu. Það tæki bara tíma.

Jólin voru að nálgast og ég var alltaf að teikna myndir. Ég spurði föður minn að því hvort hann vildi að ég gæfi honum mynd í jólagjöf, þar sem ég átti ekki mikinn pening. Hann sagði að hann myndi ekki vilja fá svona mynd af dýrum eins og ég var vön að teikna. Mömmu var alveg sama en pabbi sagði að hann hefði ekki áhuga á dýrum. Þegar ég loksins komst að niðurstöðu hvað ég gæti teiknað fyrir hann, ákvað ég að teikna Jesú á krossinum. Ég vildi hafa hann þakklátan þó svo að hann hefði verið krossfestur. Hann átti að sýna fram á æðruleysi þrátt fyrir sársaukann.

Ég taldi að þetta hlyti að falla í góðan jarðveg hjá pabba, þar sem ég myndi gefa honum myndina á aðfangadag. Hann var alltaf svo trúaður á jólunum. Ég var rosalega stressuð, þar sem ég hafði aldrei málað neitt fyrir pabba. Systir mín kom niður eftir til mín á þessum tíma og ég sýndi henni myndina. Ég spurði hana kvíðin hvort hún héldi að honum myndi líka við þetta. Hún sagði að ef hann gerði það ekki, væri hann eitthvað skrítinn. Ég keypti svo ramma í IKEA og setti myndina í. Þetta var mynd sem var í stærð A3 og það er nokkuð vegleg stærð.

Með hverjum deginum sem leið urðu hlutirnir auðveldari. Ég tók öllu með ró. Ég fékk samt ekki vinnu. Ég vildi heldur ekki vinna við það sem væri verr borgað en atvinnuleysisbæturnar. Ég fékk tilboð um vinnu í fiskvinnslu en ég neitaði þar sem ég kunni ekki til verka og það var líka það síðasta sem ég vildi vinna við. Ég var vön að vinna við afgreiðslustörf og sótti ég mest um það.

Ég hætti að fara með krakkana í leikskóla, vegna þess að ég hafði ekki efni á því, þar sem ég ætlaði að reyna að koma okkur betur fyrir því ég vissi að þetta heimili var tímabundið. Það var ekki leyfilegt að vera þarna nema nokkra mánuði. Ég þyrfti að finna íbúð sem fyrst þar sem það voru fleiri á götunni sem biðu eftir plássinu sem ég var í.

Ég gat ekki beðið föður banrana um að hjálpa til vegna þess að mamma hans hafði hringt í mig og beðið mig um að fella niður annað meðlagið. Hún sagði við mig að ég þyrfti að taka þátt í að borga niður skuldirnar sem voru á hennar nafni. Hún sagði að við hefðum stofnað til þeirra saman.

Ég varð gáttuð á þessari beiðni. Ég hafði tekið á mig gjaldþrot og sat uppi með skuld upp á 500 þúsund krónur út af því og svo var ég með vísaskuld. Hann var með þrefalt hærri tekjur en ég og tók 900 þúsund krónur í skuld. Ég sagði að ég ætlaði ekki að bera ábyrgð á honum lengur. Hann væri með miklu hærri laun en ég og gæti alveg klárað það litla sem var eftir af skuldunum. Ég sagði henni að ef hann færi að hugsa, þá gæti hann klórað sig út úr þessu. Þá svaraði hún: „Já, en hann gerir það ekki og nú eru þeir að hóta því að taka íbúðina mína.“ „Já, er það?“ svaraði ég. „Þú vilt sem sagt leggja heimili barnabarna þinna í hættu vegna þessa. Er ekki nóg að eitt heimili fór á hausinn, þarf að láta annað heimili fara sömu leið? Hvar eiga börnin að halla höfði sínu þegar allt hrynur í kringum þau? Ég er búin að fá nóg af þessu. Látið mig bara í friði. Ég þarf næði til að byggja upp öryggi fyrir okkur krakkana.“ Svo kvaddi ég hana.

Ég vissi alveg hvernig þetta var búið að vera. Ég bar mikla virðingu fyrir mömmu hans. Hún hafði gengið í gegnum sína erfiðleika. Hún átti þetta ekki skilið, að þurfa að missa íbúðina sína. Hún var búin að ala upp sín börn. Ég gat bara ekki tekið ábyrgðina á þessu. Það var í höndum sonar hennar að taka ábyrgð á því sem hann hafði lagt á hana. Þessar skuldir komu til bæði fyrir og eftir að ég og hann kynntumst. Ég vissi að hún hafði gefist upp á að tala við hann. Ég varð bara að halda minni orku til að ala upp börnin mín. Þegar ég lagði á og fór niður í mína íbúð var bankað á hurðina. Þar var komin kona sem bjó á efri hæðinni. “Hæ” sagði hún þegar ég opnaði. “Ég mátti bara til með að koma til þín og kynna mig fyrir þér þar sem ég heyrði þig tala í símann.” “Það er aldeilis kraftur í þér kona.” Ég verð að fá að kynnast þér þar sem ég held að þú og ég eigum samleið.” Hún sagðist heita Halla og spurði hvort hún mætti koma í kaffi. Ég samþykkti það og bauð henni inn. 

Það fór vel á með okkur og það var kraftur í þessari konu. Hún átti 2 stelpur og var skilin við manninn sinn fyrir skömmu. Þetta varð til þess að ég og Halla fórum að vera mikið saman og skiptumst á að vera heima hjá henni eða mér. Hún sagði mér að hún væri óvirkur alki sem væri ekki búin að vera í neyslu í 2 ár. Mér leist vel á þessa konu og þótti gaman að umgangast hana. Hún var rosalega góð og þolinmóð við dætur sínar og oft á tíðum sá ég hana föndra með þeim við eldhúsborðið.

 

 

Þegar áramótin 1996 runnu upp flutti Davíð til Reykjavíkur. Hann fór að taka börnin aðra hverja helgi. Til að byrja með þurfti hann vera með þau hjá móður sinni, þar sem hann var ekki kominn með húsnæði. Þegar hann sótti þau var það í fyrsta skiptið sem hann hitti þau eftir að ég yfirgaf hann um haustið, það örlagaríka kvöld.

Hann hellti sér yfir mig í anddyri hússins sem við bjuggum í og sagði að ég væri búin að eyðileggja fyrir honum lífið og sundra fjölskyldunni. Einnig sagði hann að ég hefði gert lítið úr honum með því að klaga hann til lögreglunnar u kanínuna og því sem verra var, að fara í Kvennaathvarfið.

Ég horfði á hann og lét sem ég heyrði ekki hvað hann sagði. Hann varð pirraður á því að þessar yfirlýsingar hans snertu mig ekki. Ég hafði lært það í Kvennaathvarfinu að hlusta ekki á hótanir eða tilraunir til að brjóta mig niður. Ég vissi að ég gat ekki fengið hann til að líta sjálfum sér nær og var hætt að reyna það.

Þegar hann tók börnin um helgar, notfærði ég mér það til að fara að skemmta mér og hitta fólk. Við skemmtum okkur með áfengi og fórum á djammið. Ég var orðin tilfinningalega frosin og vildi ekki hugsa um neitt nema daginn í dag. Á þessum tíma kynntist ég mönnum en hafði ekki áhuga á neinu föstu sambandi og vildi ekki hitta þá aftur daginn eftir.

Það var aðeins einn sem ég hitti oftar. Hann hét Freyr og var giftur, sagði hann mér kvöldið sem við kynntumst. Mér var sama um tilfinningar annarra eftir að ég skildi við Davíð og lét það því ekki á mig fá að hann væri giftur. Ég var í svo mikilli hjartasorg eftir sambandið með Davíð að það skipti mig ekki máli hvernig öðrum leið.

Freyr var stórskorinn í andliti og ekki fríður en samt kynæsandi og klæddist gallajakka. Það fór vel á með okkur og hann kom heim með mér þetta sama kvöld. Þegar heim var komið sagði ég við hann feimnislega að ég byggi ekki flott þar sem ég væri nýskilinn. Honum fannst það allt í lagi og við drukkum bjór þetta kvöld og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar.

Það var þægilegt að vera í kringum Frey og hann gat spilað á gítar sem ég hafði keypt einhvern tímann, þar sem mig langaði að læra á gítar. Það var róandi að hlusta á hann spila. Þegar hann lagði svo gítarinn frá sér og við fórum að kela fann ég fyrir þeirri hlýju sem ég hafði þráð svo lengi. Ég fann samt ekki þær tilfinningar sem maður finnur þegar maður elskar.

Við eyddum heitri kvöldstund í litlu íbúðinni minn sem var samt ekki nema tvö herbergi en létum það ekki trufla okkur. Ég hafði aldrei upplifað svo æðislegt kynlíf og var alveg til í að hitta hann aftur. Við skiptumst á símanúmerum og ég lofaði að ég myndi ekki tala í símann nema hann myndi svara. Ég vissi hvar hann átti heima. Ég ætlaði samt ekki að fara að njósna um hann, þar sem ég vildi ekki eyðileggja neitt fyrir honum. Mér leið það vel í kringum hann og vildi ekki storka örlögunum.

 

 

 

Eina nóttina lá ég á dýnunni minni með börnin í sama herbergi og hugsaði áður en svefninn tók völdin. Ég var búin að finna fyrir einmanaleika síðustu daga. Ég vissi ekki hvar ég átti að finna styrk. Ég sneri mér þá til Guðs og sagði við hann: „Góði Guð, viltu halda utan um mig, mér líður svo illa. Ég veit ekki hvert ég er að stefna, ég þarf bara faðmlag, svo ég geti sofnað.“ Ég sofnaði vært þessa nótt, en mig dreymdi líka undarlegan draum.

 

Draumurinn:

Ég stóð inni á gangi í einhverju húsi. Ég sá mann og konu standa lengra inni á ganginum. Þau stóðu og horfðu á mig og mér fannst að konan horfði á mig með illilegu augnaráði. Maðurinn yppti öxlum eins og hann væri að reyna að segja mér að hann vissi ekki af hverju hún væri svona reið.

Ég vissi auðvitað ekki af hverju hún var það og ég beið bara. Hún gekk til mín og sagði: „Hann hefur aldrei fengið Tangurey.“ Það átti að þýða eitthvað kynferðislegt og einnig snúast í kringum áfengi. Ég vissi ekki hvað þetta þýddi. Hún gekk framhjá mér og fór inn í herbergi þarna í húsinu. Mér leið eins og ég ætti að bíða eftir einhverju. Þessi maður gekk einnig framhjá mér og fór inn í sama herbergið. Maðurinn og annað fólk var inni í herberginu, var að undirbúa eitthvað. Fljótlega kom maðurinn út aftur og hann leiddi mig inn í herbergið. Mér var sagt að leggjast á dýnu sem var brún á litin og svo var önnur dýna með sama lit og hann lagðist á hana með fæturna á móts við fæturna á mér þannig að höfuðin sneru hvort í sína áttina. Þá var mér sagt að fara út úr herberginu og ég átti að bíða inni í næsta herbergi, sem var baðherbergi. Efst á veggnum inni á baðherberginu var loftgat.

Ég gat heyrt raddir fólksins í gegnum þetta gat. Ég gat ekki greint hvað það var að segja. Mér fannst samt að fólkið væri að skipuleggja eitthvað. Skyndilega kom maðurinn aftur og sagði mér að koma. Hann hélt á myndbandi og setti það í myndbandstæki sem var þarna. Svo kveikti hann á sjónvarpinu og ég fór að horfa á myndina. Þegar ég var farin að horfa, sökk ég inn í myndina og ég sá konu standa eins og dansara sem biði eftir að taka sporið. Hún fór svo að dansa eins og hún væri að dansa ballet í gylltu bikiní. Hún dansað eftir hlykkjóttum vegi og snerist í dansinum. Báðum megin vegarins voru hvítir steinar sem var raðað í skipulagða röð. Í hverri beygju sem var á veginum voru lindir. Mér fannst eins og hana langaði að stökkva út í. Hún átti samt ekki að gera það strax.

Þegar hún kom að enda vegarins tók hún undir sig stökk út í lindina. Það myndaðist stór gusa þegar hún skall á vatninu og mér leið eins og ég þyrfti að grípa andann á lofti. Ég varð óttaslegin og hafði áhyggjur af því að hún kæmi ekki upp aftur. Fljótlega kom hún aftur upp í annarri gusu. Hún settist á hvítan stein sem var í miðju lindarinnar og í kringum steininn var kassi eins og skókassi. Þetta var kassi með stórum smartískúlum. Það var líka annað sælgæti í stærra lagi og það var kringlóttur marsipanlakkrís sem af tegundinni „all-sort“. Mér fannst eins og hún væri orðin mjög feit og einnig nakin. Hún leit upp og sveiflaði hárinu aftur. Þegar ég sá andlitið á henni sá ég að þessi kona var ég. Mér fannst ég líta mjög þreytulega út þarna og horfði beint framfyrir mig. Þarna var myndin búin í draumnum. Ég leit á manninn og spurði hann: „Viltu hafa mig svona feita.“ Hann svaraði játandi, alvarlegur í bragði og mér fannst hann vera með blá augu. Mér fannst hann vera segja satt. Þá spurði ég hann: „Verður þetta sýnt í sjónvarpinu?“ Hann svaraði: „Já.“

 

Ég vaknaði við drauminn og fann að þetta þýddi eitthvað gott. Ég lyfti höndunum í átt til himins eins og ég væri að biðja og sagði: „Takk Guð.“ Mér fannst eins og hann væri kominn að hjálpa mér.


Kafli 6. Kvennaathvarfið

6. kafli

Kvennaathvarfið

 

Þegar ég kom í Kvennaathvarfið þetta haust 1995 og krakkarnir tveggja og þriggja ára, var tekið á móti okkur með mikilli virðingu. Þær sögðu mér að sækja allt í bílinn. Þá var mér sýnt herbergið sem við fengjum að gista í. Það var ekki stórt en það var notalegt og traustvekjandi. Ég var spurð þegar ég kom. „Til hvers ert þú komin í Kvennaathvarfið?“ „Til að jarða hjónabandið.“ Svaraði ég.

Ég fór í kynnisferð um húsið til að átta mig á öllum herbergjum og skipulagningu innan athvarfsins. Krakkarnir fóru með lærðum uppeldisráðgjöfum inn í annað herbergi til að hafa ofan af fyrir þeim á meðan mér var sagt frá öllum reglum og dagskrá. Þar var mér sagt að ég þyrfti að taka mér frí frá öllu áreiti og ná mér niður á jörðina. Þær sögðu mér að krakkarnir gætu farið í svokallaðan leikskóla á daginn þannig að ég gæti unnið að því að byggja upp framhaldið.

Ég spurði hvort ég gæti þá farið að finna mér vinnu. Konan sem var að sýna mér húsið, horfði á mig undrandi. „Til hvers þarftu vinnu?“ spurði hún. „Ja, við eigum enga peninga“ sagði ég og ég þarf að vinna til að framfleyta okkur. Hún svaraði að það þyrfti að bíða um tíma og láta þær um að hafa áhyggjur af því. Svo gekk hún brosandi í burtu. Ég stóð þarna og velti fyrir mér hvað væri svona broslegt, þar sem ég taldi að við þyrftum að halda áfram baráttu okkar til að koma okkur upp heimili fyrir framtíðina.

Við fórum alltaf í viðtöl á þriðjudagskvöldum. Það var verið að ræða tilfinningar og hvernig líf okkar hefði verið í sambúð við ofbeldismanninn. Við lærðum að við værum stundum að gefa röng skilaboð með hegðun okkar. Okkur var kenndur einn mikilvægur hlutur og það var hvað meðvirkni er.

Meðvirkni kemur út á svo margan hátt. Það er líklegast að við höfum sjálfar verið meðvirkar en einnig ættingjar sem hafa ekki skilið hvernig ástandið er búið að vera. Við höfum sagt við ofbeldismanninn: „Ekki vera vondur við mig, það særir mig.“ Í leiðinni höfum við gefið skilaboð með því að láta þetta yfir okkur ganga: „Þú mátt samt halda áfram, þetta var ekki svo slæmt.“ Það var vegna þess að við fórum ekki út úr ástandinu.

Við virtumst allar vera giftar sama manninum. Hann gat verið, læknir, lögfræðingur, bakari eða uppfinningamaður. Það sem þeir áttu sameiginlegt var að þeir höfðu sagt eitthvað niðurbrjótandi eða jafnvel barið okkur. Það voru misjafnar sögur en tilfinningin var sú sama. Við vorum hræddar, niðurlægðar, óánægðar með okkur og búnar að missa virðinguna.

Það var vinátta á meðal kvennanna og við gátum allar séð okkur sjálfar í hver annarri. Ef síminn hringdi og ein konan fór í símann, vissum við að hún var búin að tala við hann þegar hún kom grátandi til baka. Það gat líka verið að hún hefði verið búin að tala við ættingja hans. Þeir vissu ekki hvernig hlutirnir voru. Þeir sögðu okkur að við yrðum að fara heim til að laga hjónabandið.

Sem betur fer voru þarna konur sem unnu við það að styðja okkur. Forstöðukonan var einstaklega góð og skilningsrík. Hún var geðhjúkrunarfræðingur og tók okkur oft í viðtal til að fara yfir stöðuna. Það var eins og þær væru með fullkomið kerfi fyrir okkur til að svara fyrir okkur.

Þetta var aðferð sem kallast sjálfsvarnarkerfi. Við fundum að ef við notuðum þessa aðferð, myndaðist hjúpur utan um okkur sem virkaði þannig að öll ljót orð og allar ásakanir, skipanir eða jafnvel grátur mannanna skoppaði af okkur eins og vatni væri hellt á gæs. Þetta var ný upplifun fyrir okkur. Við áttum erfiðast með að nota þetta kerfi ef viðkomandi sagði eitthvað fallegt, vegna þess að við þráðum að heyra eitthvað fallegt frá honum. Það var eins og afsökunarbeiðni hans virkaði eins og 100 rauðar rósir. Ef við fórum til baka gat hann brotið rósirnar. Hann virtist alltaf finna aðrar rósir til að gefa okkur. Hann faldi sig stundum í skottinu á bílnum til að hlusta á hvernig hann ætti að ná okkur til baka.

Það var engin hóra þarna inni, ljót, feit eða vitlaus. Við vorum allar gáfaðar, skynsamar, fallegar og með erfiða reynslu að baki. Það sem við tókum sérstaklega eftir, var að börnin okkar voru örugg. Þau hlupu ekki lengur inn í herbergi ef einhver var að tala hærra en venjulega. Þau voru að leika sér saman. Þau máttu fara í ísskápinn ef þau voru svöng, þau skiptu loksins máli og það var hlustað á þau. Það þurfti stundum að sannfæra þau mörgum sinnum um að hann kæmist ekki inn. Þau söknuðu samt pabba síns. Það var kannski í þau skipti sem þau vissu að hann var ekki að drekka. Hann þurfti ekkert alltaf að drekka til að verða reiður. Það voru einhver hljóð eða þögn sem þau voru búin að læra að þýddi eitthvað hættulegt.

Matartímarnir voru skemmtilegir. Það fengu allir að borða á sama tíma. Það máttu allir borða þó svo að þeir hefðu ekki klárað heimalærdóminn. Það var bara hægt að gera það eftir matinn. Það var hlegið og sagðar sögur af upplifunum við matarborðið og gert grín að því hvað viðkomandi hafði verið vitlaus. Þegar þessar sömu sögur voru sagðar í grúppum á þriðjudögum voru þær sagðar á alvarlegri hátt. Flestar fóru þá að gráta. Hláturinn virtist vera brynja sem við vorum búnar að koma okkur upp. Hláturinn hjálpaði til við að komast út úr sársaukanum.

Þarna var herbergi með fullt af fötum. Við máttum fara inn í þetta herbergi og velja föt á börnin og okkur sjálfar án þess að borga. Það kostaði ekkert þarna inni. Við áttum líka enga peninga. Við höfðum bara flúið með það sem við gátum borið eða þær flíkur sem við náðum að klæða okkur í áður en við hlupum út. Börnin voru kannski í náttfötunum þegar þau komu.

Við kunnum ekki að taka við þessum gjöfum, þar sem við héldum að ef við sýndum einhver viðbrögð yrði sagt: „Nei, ég var bara að skrökva.“ Okkur fannst við ekki eiga þetta skilið. Það virtist eins og öll sú vinna sem við vorum vanar að leggja fram til að mega kaupa okkur buxur eða peysu, væri óþörf þarna inni. Þessi föt höfðu komið frá fyrirtækjum eða almennum borgurum sem gáfu þau til styrktar einstæðum mæðrum. Við héldum að það hlytu að vera einhverjar aðrar sem ættu að fá þessar gjafir. Okkur fannst þessir aðilar vera englar. Þeir hlutu að vera það vegna þess að þeir voru ekki að biðja um neitt til baka.

Konurnar voru allar eins og systur, mæður eða góðar vinkonur. Börnin virtust eignast fullt af systkinum. Þau gátu talað saman og skildu hvort annað. Þau vissu hvað hljóðin þýddu, þegar hurð var skellt eða diskar brotnir. Þau skildu stundum ekki af hverju það gerðist aldrei á þessu stað. Þau héldu að það væri eitthvað að þessu húsi. Þau spurðu mömmur sínar: „Hvenær kemur pabbi heim“ eða „Hvenær kemur löggan?“ Það var gott að sitja niðri í setustofu vitandi að börnin væru sofnuð og yrðu ekki vakin um nóttina. Það tók nokkra daga að læra að sofna með þeim. Við héldum að við þyrftum að vaka til að vera tilbúnar ef það yrðu læti.

Jólin voru einstök. Á Þorláksmessukvöld fór enginn til að drekka sig fullan og koma heim seint um nóttina til að brjóta eitthvað eða henda jólasteikinni út eða var svo fullur að þegar aðfangadagur rann upp gæti hann ekki borðað jólamatinn vegna þess að hann ældi honum jafnóðum útaf þynnku. Jólin voru eins og mig hafði dreymt um, hátíðleg og spennandi. Við skildum loksins af hverju börnin biðu eftir þeim. Börnin höfðu aldrei fengið svona margar jólagjafir. Það voru sungin jólalög sem maður hafði heyrt í útvarpinu. Jólaljósin höfðu aðra þýðingu á þessum stað. Þau þýddu gleði og ljós Jesú en ekki skilaboð til ímyndaðs elskhuga sem ein kvennanna hafði verið ásökuð fyrir þegar hún bjó með manninum. Við vissum að draumaprinsinn væri þarna úti, við höfðum bara ekki fundið hann ennþá.

Ég fékk bók hjá þeim sem ég átti að nota til að skrifa minningar í. Ég átti að skrifa mig út úr því sem ég hafði upplifað. Hugur minn var tómur og þegar ég opnaði bókina, mundi ég ekkert nema þessi orð: „Hann drap kanínuna.“ Mér fannst það ekki segja nóg. Það kom ekkert í hugann og þegar ég fór af þessum stað var bókin mín tóm.

Ég hafði lokað á tilfinningar mínar svo lengi og ég gat með engu móti rótað því upp aftur.

Það var ein kona sem ég kynntist og tengdist mest á þessum stað og við vorum mikið saman. Hún hét María og kölluð Mæja. Hún átti þrjú börn með manni sem var geðveikur og sögur hennar af því hvað hann hafði gert voru rosalegar. Þessi kona var taugahrúga og átti erfitt með að fara í Kringluna, þar sem hún óttaðist að hitta hann þar. Hann hafði meira að segja falið sig eitt skiptið í skottinu á bílnum hennar þegar hún fór með annarri konu í bæinn. Því komst hún ekki að því fyrr en hann sagði henni það seinna. Hún kenndi mér á allt sem hét Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar. Hún kenndi mér ótal margar leiðir til að nálgast peninga. Mæja varð góð vinkona mín og þegar ég fór með þessa visku út í lífið kom það sér vel.

Það var erfitt að fara af þessum stað. Við óttuðumst að lífið gæti ekki verið svona annars staðar. Við þurftum langan tíma til að fara með þessa vitneskju út í lífið og skapa þessar aðstæður sjálfar. Við höfðum samt alltaf hvor aðra til að heimsækja og styrkja ef vonin væri að veikjast.

Þarna var ég í sjö vikur og lærði margt. Ég lærði hvernig ég var búin að leyfa manninum mínum að koma fram við mig og eytt tíma í eitthvað sem skildi ekkert eftir nema sársauka. Auðvitað lærði ég líka mjög mikilvæga hluti. Það að maður á að fara varlega með líf sitt og að maður getur notið lífsins betur ef maður er ekki endalaust að eyða tíma sínum í að láta annarra manna drauma rætast, en tryði á sína eigin drauma og reyndi að koma þeim í verk. Draumar mínir snerust um það á þessum tíma að koma okkur áfram í lífinu. Vinna að einhverju uppbyggilegu.


Kafli 5. Kanínan

5. kafli

Kanínan

 

Þetta kvöld fór hann út. Þegar hann var búinn að vera það lengi að það fór að nálgast miðnætti, vissi ég að eitthvað væri að. Ég hringdi í systur mína og sagði henni að ég héldi að hann væri dottinn í það. Hún sagði mér að vera róleg, þetta væri sennilega vitleysa. Ég vissi samt að vegna ástandsins, væri ekki allt með felldu.

Þegar tíminn leið enn frekar, var ég farin að óttast. Ég hringdi í vinkonu mína og hún sagði mér að bíða og sjá til. Þegar það fór að líða fram yfir miðnætti var ég orðin svo stressuð og ég var að vonast eftir því að hann kæmi ekkert þessa nótt.

Þegar ég var að tala við vinkonu mína, heyrði ég rjálað við dyrnar. „Hann er að koma“ sagði ég lágt. Hún sagði mér að róa mig og láta hann ekki finna það að ég væri í uppnámi. Davíð kom til mín, tók af mér símann og sagði mér að hætta að kvarta við vini mína. Ég byrjaði að skjálfa. Ég fór inn í eldhús á meðan hann var að tala við vinkonu mína og ég vonaði að hún gæti róað hann.

Ég fékk mér kaffi, en það var á mörkunum að ég gæti haldið á bollanum. Svo heyrði ég að hann var að hringja í föður minn. Hann var byrjaður að tala við hann á þennan heimskulega hátt sem ég kannaðist við: „Þú er geðveikur eins og dóttir þín og þú gafst mér ónýta eiginkonu, sem ég þarf að eiga við núna.“

Þetta kom mér ekki á óvart. Ég fann bara til með föður mínum, að þurfa að hafa áhyggjur af mér og krökkunum þessa nótt. Mig langaði að hlaupa út, en börnin voru sofandi og ég vildi ekki skilja þau eftir hjá honum. Loksins, kallaði hann í mig og sagði að vinkona mín væri að hringja aftur.

Vinkona mín sagði mér að vera rólega og fyrir alla muni ekki æsa hann upp eða vera neikvæð við hann. Hún sagði mér að gera þetta fyrir sig í þetta eina skipti. Þegar ég var að hlusta á hana, var hann byrjaður að toga af mér giftingarhringinn. Ég varð hrædd, um að ef hann myndi ekki ná honum af, þá myndi hann toga þangað til hann bryti á mér puttann. Ég bað hann um að leyfa mér að losa hringinn. Hann leyfði það og ég afhenti honum hann.

Ég hafði fyrr um kvöldið leyft kanínunni, sem við áttum sem gæludýr, að hlaupa um stofuna til að fá hreyfingu. Þegar þarna var komið, byrjaði Davíð að elta hana. Hún hljóp undir sófa til að fela sig. Hann tók sófann og kastaði honum upp að vegg, þannig að það koma gat á vegginn, svo elti hann hana áfram þangað til að hann náði henni.

Ég sagði við vinkonu mína eins lágt og ég gat: „Ég held að hann sé að fara að kála henni.“ Hún sagði: „Andrea, þú ert alltof áhyggjufull.“ Ég svaraði því þá bara: „Við verðum að sjá til.“ Hún reyndi að róa mig og segja mér að hann hlyti að fara með hana í búrið.

Ég jánkaði því hálf vantrúuð, en vonaði að hún hefði rétt fyrir sér.

Hún sagði mér loksins að bíða eftir því að hann róaðist. Hún sagði mér svo að hringja í sig eftir klukkutíma til að láta hana vita hvernig hefði farið. Ég lofaði því.

Þegar ég var búin að leggja á, kom Davíð í blautri og blóðugri skyrtunni til mín. Hann horfði á mig með glotti og spurði svo: „Veistu hvað ég var að gera?“ Ég sat þögul. Ég þorði ekki að hugsa um það. Það var ekki tímabært. Það eina sem ég var að reyna að gera, var að láta þessa nótt líða og bíða eftir því að hann þreyttist.

Davíð byrjaði að taka föt barnanna upp úr kommóðunni. Hann horfði á þau og sagði svo við mig: “Ætlar þú virkilega að láta börnin mín ganga í þessu?“ Hvers konar móðir ertu?“ Þá henti hann flík út um gluggann og tók næstu flík og fussaði. Svona endurtók hann aftur og aftur, þar til honum datt eitthvað annað í hug.

Davíð fór að leita að lyklunum að bílnum. Hann hristi mig og spurði hvar þeir væru. Ég setti upp sakleysissvip og sagðist ekki vita það. Ég ætlaði ekki að láta hann fá það eina sem ég hefði til að komast í burtu. „En ef þú vilt vita það Davíð, ég faldi þá í sokkunum mínum.“ Hann sagði mér að fara að bera út í bíl svo ég gæti farið um morguninn. Klukkan var 3:30 að morgni og ég spurði hvort það gæti ekki beðið til morguns. „Nei!“ öskraði hann, „gerðu það núna og vertu fljót!“

Ég byrjaði hægt og rólega að bera út í bíl, það sem ég taldi að ég þyrfti á að halda. Ég var að vona að hann færi fljótlega að sofa. Ég notaði svo tækifærið til að fela mig í kjallaranum. Ég ætlaði ekki að svara ef hann kallaði, svo hann héldi að ég væri stungin af. Ég sat hljóð á bakvið kassa og reyndi að halda niðri í mér andanum til að heyra hvað væri að gerast á efri hæðinni.

Ég þurfti ekki að bíða lengi. Ég heyrði að Davíð datt inn í herbergið sem við höfðum sofið í. Ég vissi að dóttir mín svaf þar þessa nótt á dýnunni okkar. Ég fylltist viðbjóði vegna þess að hún þyrfti að anda að sér áfengislykt alla nóttina. Allt í einu heyrði ég hann ryðjast fram enn á ný og inn á klósett, þar sem hann ældi og ældi svo ég hélt að hann myndi kafna. Hann ruddist svo aftur í rúmið og síðan varð allt hljótt.

Ég var í undarlegu hugarástandi. Ég gat ekki hugsað. Ég stóð loksins upp eftir langa bið og fór út vegna þess að ég ætlaði að finna einhverjar vísbendingar um hvað hann hefði gert við kanínuna. Fljótlega sá ég grilla í blóð á götunni í rökkrinu. Ég reyndi að rekja slóðina í myrkrinu. Hún lá út í fjöru sem var fyrir neðan götuna. Ég klöngraðist niður í fjöruna til athuga hvort ég fyndi hana. Þá sá ég hana. Hún lá eins og tuskudýr með hausinn hálf beygðan. Ég þorði ekki nær. Ég var svo hrædd um að sjá eitthvað sem ég gæti aldrei þurrkað út úr minninu. Ég var hrædd um að tapa siðferði tilfinninga minna.

Ég stóð þarna í myrkrinu á götunni fyrir framan húsið. Það var milt kvöld og það bærðist ekki hár á höfði. Myrkrið umlukti mig á meðan ég hugsaði: Hvernig líður mér, hvað á ég að gera? Hvernig líður manneskju sem sér svona? Á hún að gráta? Verður hún reið og hleypur hún inn til að berja hann? Hlær maður? Eða frýs maður?

„Frjósa“, út af hverju? Hvað gerðist eiginlega? Hver er ég? Hvers vegna geri ég ekkert? Af hverju stend ég bara hérna og hugsa: HVERNIG ég á að taka á þessu?

Hvar er hjartað mitt, Guð? Gleymdi ég því einhvers staðar? Ég er þó ánægð að ég finn eitthvað. Ég er ánægð að þetta er í fyrsta skipti sem ég get sannað að ég sé ekki að ljúga. Ég þarf bara hringja í lögregluna og biðja hana að koma hingað til að taka skýrslu. Þá get ég sannað að ég hafi ekki logið þessu.

Af hverju þarf ég sönnun? Vegna þess að ég er farin að efast um mínar eigin tilfinningar. Vegna þess að ég er bara geðveik. Vegna þess að ég er bara að þykjast. Ég þarf annað fólk til að segja mér hvernig mér líður. Ég veit ekki hvernig mér líður sjálfri. Ég veit ekki hvort ég hef rétt fyrir mér.

Ég fór inn til að hringja í lögregluna. Ég hringdi og sagði þeim frá nóttinni. Þeir spurðu hvort hann væri sofnaður og ég svaraði játandi. „Jæja, þá getur þetta beðið til morguns.“ „En getið þið ekki komið og athugað hvort ég sé að segja sannleikann um kanínuna?“ spurði ég. „Það er óþarfi, við getum gert það á morgun“ svöruðu þeir.

Þeir komu aldrei og þeir gerðu aldrei neitt í þessu máli, nema kalla hann í viðtal og hann laug því að við hefðum bæði ákveðið að lóga henni, vegna þess að krakkarnir væru að fara illa með hana.

Þeir trúðu sögu Davíðs. Ég var svo heimsk að halda að ein kanína gæti sannað að hann væri ofbeldismaður. Kannski ætlaði hann að elda hana í matinn, hver veit. Jæja, gleymið því bara. Ég ætla bara að reyna að sofna ...

Daginn eftir …

 

Dóttir mín vakti mig tveimur klukkutímum seinna ...

Þegar ég kom inn í eldhús var Davíð þar með vinnufélaga sínum. Hann átti að vinna þennan dag og búa til brúðkaupstertu. Ótrúlegt hvað hann gat alltaf mætt í vinnuna eftir fyllerí. Hann var að hita kaffi áður en hann færi. Ég fékk mér bolla en talaði ekkert við hann og fór inn í stofuna með kaffið.

Ég var bara að bíða eftir því að hann færi svo ég gæti tekið dótið okkar og farið.

Þegar Davíð skellti útidyrahurðinni, fór ég og klæddi krakkana í föt og dreif þau út í bíl og tók svo kommóðuna með mér. „Hvert erum við að fara mamma?“ spurðu krakkarnir. Við ætlum að fara að heimsækja afa og ömmu“ svaraði ég. „Vei“ heyrði ég fyrir aftan mig í bílnum.

Ég kom við á bensínstöðinni og fyllti bílinn, keypti karton af sígarettum, tveggja lítra pepsí og þrjú prins póló í nesti. Ég vissi að ég yrði peningalaus næstu dagana og það var um að gera að nýta sér tækifærið. Ég skrifaði þetta allt á reikninginn hans Davíð og keyrði af stað. Ég ætlaði að koma við hjá Tryggva bróður mínum í leiðinni. Þá gæti ég tekið pásu og fengið smá hughreystingu, í leiðinni.

Faðir minn vissi af því að ég væri á leiðinni og við vorum í sambandi allan tímann. Þegar ég kom til bróður míns, sagði hann við mig: „ Þú þarft að fara að hugsa Andrea. Þú þarft líka að fara að framkvæma.“ Þetta er orðið stanslaust. Ég samþykkti það og ég vissi að ég var ekkert búin að hugsa. Ég hafði bara látið tilfinningarnar stjórna mér.

Bróðir minn sagði mér að ég þyrfti að fara að hugsa um velferð barna minna og sjálfs míns. Hann sagði að ég þyrfti að koma okkur út úr þessu. Ég sagði honum að það væri einmitt það sem ég væri að fara að gera. „Já, en þú ert búin að segja það svo oft að það eru allir hættir að trúa þér.“ Ég sagði honum að ég þyrfti bara að sýna honum fram á það. Ég gæti ekkert sannfært neinn lengur um hvað ég myndi gera. Ég hafði alltaf sagt að þetta væri í síðasta sinn en samt alltaf farið til baka.

Það trúir mér enginn fyrr en þeir fá sönnun. Það þurfa allir að fá sönnun, ef þeir eiga að geta treyst. Alveg eins og með mig. Það vilja allir sönnun til að geta trúað á fólk, trúað á hæfileika fólks, á sannleikann og trúna sjálfa. Það er bara hægt að sýna fram á það í verki, ekki í orðum. Orð eru aðeins það sem þú lest í bókum og bókin getur innihaldið lygi alveg eins og hugurinn. Hvernig getum við trúað ef við getum ekki trúað orðinu?

Það verður að vera augljóst. Alveg eins og ég hef alltaf sagt. Ég verð að sjá það greinilega.

Þegar ég fór frá bróður mínum, lá leið mín til Reykjavíkur. Ég vildi koma við hjá foreldrum mínum þar sem Erla vinkona mín var búin að vera í sambandi við þau alla nóttina. Þau biðu eftir mér til að fullvissa sig um að við værum óhult. Ég staldraði við hjá þeim rétt áður en leið mín lá í Kvennaathvarfið. Ég ætlaði að fara þangað til að greiða úr þessum erfiðleikum. Ég vissi ekki hvað biði mín þar. Ég vissi ekki hvort ég yrði lokuð inni í einhvern tíma, en ég þurfti að taka áhættuna. Ég þurfti á hjálp að halda til að ná mér út úr þessu.


Kafli 4. sjúk ást

4. kafli

Sjúk ást

Einn af þessum dögum var ég eirðarlaus vegna þess að ég hugsaði alla daga og nætur um hann og fór fyrir framan heimilið hans og stóð í frosti og snjó að vetri til, til að bíða eftir honum koma heim. Eftir tvo tíma sá ég þá koma með leigubíl. Þeir voru fullir og leiddu tvær konur inn í íbúðina, vinur hans var giftur og ég var nýhætt með Davíð. Ég var að vonast til að hann myndi kannski sakna mín svolítið.

Þetta kvöld fór ég að njósna um hann, því ég varð að fá að vita hvað hann var að gera þegar ég var ekki með honum. Ég var orðin sjúk af ást og ég gat ekki stjórnað þessu og ætlaði bara að láta þetta þróast á sinn hátt og ég var viss um að ég myndi sigrast á þessu með tímanum og losna við tilfinningar mínar gagnvart honum.

Ég var farin að skjálfa úr kulda þar sem ég stóð fyrir utan húsið og beið eftir að þau færu inn. Ég held að ég hafi verið búinn að standa þarna í meira en tvo klukkutíma áður en þau komu. Þegar ég horfði í gegnum gluggann og var að reyna að sjá hvað þau væru að gera, sá ég hann kyssa eina konuna. Ég stóð þarna og var að vona að nú myndi ég að lokum sigrast á þessum hálfvita. Þá var eins og ég vaknaði upp og ég sagði við sjálfa mig: Hvað ertu að gera? Ég var að frjósa úr kulda og skalf eins og lauf. En auðvitað beið ég þar til ég var viss um að ekkert annað hefði gerst og að konurnar væru farnar.

Ég fór aftur heim til foreldra minna og vaknaði daginn eftir með fjörutíu stiga hita og gat ekkert borðað. Ég missti þrjú kíló á fjórum dögum. Mér var alveg sama. Reyndar var ég ánægð með það hvernig líkami minn var að veslast upp með degi hverjum. Mér fannst ekkert skipta máli lengur. Ég þráði bara Davíð. Ég þráði að hann væri góður við mig.

Fljótlega varð ég að fara sem vitni fyrir Davíð vegna þess að hann hafði lamið lögreglumann í einu af fylliríunum og ég var vitni að því. Eftir vitnisburðinn, spurði Davíð mig hvort ég gæti komið með honum á kaffihús til að ræða málin. Ég samþykkti það og við fundum stað, þar sem við gátum talað saman í næði. Hann sagði að hann sæi eftir öllu saman og að hann langaði til að bæta mér þetta upp. Ég sagði honum að hann þyrfti að hætta að drekka og ég sagði honum að ég vissi að hann hefði hitt aðra konu eftir að við hættum saman. Hann sagði mér að það væri bara vegna þess að hann hefði saknað mín svo mikið og að hann væri að reyna að dreifa huganum. Ég trúði honum og við tókum aftur saman.

Hann sagði mér fljótlega að hann vildi breyta til í lífi sínu. Hann ætlaði að sækja um starf í Ástralíu og hann myndi senda eftir mér, þegar hann hefði fundið vinnu og íbúð. Hann sagði mér að selja allt dótið okkar svo ég yrði tilbúin til að fara þegar hann myndi segja mér að koma. Ég var eins og kálfur á leið í sláturhúsið, saklaus og auðtrúa í blindni eftir allan þennan tíma. Þá sagði ég upp starfinu mínu, en ég þurfti að vinna af mér uppsagnarfrest sem var tveir mánuðir. Það þýddi að ég hafði nægan tíma til að selja dótið. Fyrst seldi ég rúmið, síðan sjónvarpið, þá myndbandstækið og að lokum sat ég á gólfinu í tómri íbúðinni og beið eftir kallinu. Ég var að vinna í því að selja bílinn minn sem ég hafði keypt fyrir alla peningana mína. Mér tókst loksins að selja hann og gat þá borgað farið fyrir Davíð til Ástralíu. Þegar hann bað mig um að senda pening til að hann gæti borðað, sendi ég honum þann aur sem ég hafði aflögu. Ég beið í mánuð eftir því að hann segði mér að hoppa upp í vél og koma til hans. Peningarnir voru að verða búnir og hann var orðinn áhyggjufullur. Ég reyndi að róa hann og telja í hann kjark en hann tilkynnti mér loksins að hann væri að koma heim. „Af hverju?“ spurði ég. „Þetta er ekki að ganga“ sagði hann, „ég er ekki nógu góður að tala ensku og ég er búinn að vera hér í einn mánuð að leita og ég fæ enga vinnu.“ Ég sagði honum þá að koma bara heim og við gætum byrjað upp á nýtt.

Þegar ég var að bíða eftir að ég gæti sótt hann á flugvöllinn, setti ég læri í ofninn og lagði á borð með dúk og öllu tilheyrandi. Ég opnaði rauðvínsflösku til að leyfa henni að anda á meðan ég keyrði til Keflavíkur. Þar sem ég misreiknaði tímann sem það tæki að keyra út á flugvöll, kom ég 15 mínútum of seint og vélin var lent þegar ég kom. Hann var pirraður og sagði að það væri augljóst að mér þætti ekkert vænt um hann. Ég bað hann afsökunar og sagði að ég væri að elda heima og ég ætlaði að koma honum á óvart. „Þér mun líka það vel, skal ég segja þér“ sagði ég glöð í bragði.

Þegar við komum heim, var kvöldmaturinn tilbúinn og ég þjónaði honum með rauðvíni og öllu tilheyrandi. Mig langaði að gleðja hann og hughreysta. Hann smakkaði á kjötinu og sagði svo að hann væri ekki svangur. Hann spurði hvort það væri ekki í lagi að hann færi að sofa. Ég játaði því auðvitað en var frekar svekkt að hann væri ekki ánægður með allt þetta sem ég var búin að leggja á mig. Svo sat ég hljóð við nánast ósnert matarborðið. Mér fannst hann ekki taka tillit til þess að þetta var líka búið að vera erfitt fyrir mig. Á meðan hann gat leikið sér í Ástralíu var ég hér í tómri íbúð og þegar ég vissi að hann var á leiðinni heim hafði ég fengið mér svartan kettling til að knúsa, þar sem ég var svo einmana.

Við reyndum að gleyma þessu ævintýri í langan tíma. Hann sagði að hann skammaðist sín svo mikið og vildi ekki ræða það.Tíminn leið og ég sótti um vinnu hjá fyrri atvinnurekanda og fékk vinnu en samt var búið að ráða í það starfi sem ég hafði unnið áður og mér þótti leiðinlegt að missa það. Við fluttum fljótlega eftir þetta í leit að nýju lífi að reyna að borga reikningana og það sem hafði bæst við eftir þetta ævintýri.

Skuldirnar voru orðnar rosalega miklar eða um þrjár milljónir króna. Stór hluti skuldanna var á nafni móður hans og mannsins sem hafði hjálpað okkur að stofna fyrirtækið. Ég var gjaldþrota, þannig að þeir gátu ekki rukkað mig. Davíð sagði að ég væri heppin því nú gæti engin gengið á mig þar sem ég væri ekki borgunarhæf. Ég leit svolítið öðruvísi á þetta. Ég vildi borga skuldirnar mínar og ég var niðurlægð út af þessu öllu saman og gröm yfir því að hann héldi alltaf að það væri hægt að fyrirgefa endalaust. Það var það kannski vegna þess að þegar maður er jafn vitlaus og ég, var allt mögulegt.

Þegar við vorum búin að vera saman á þennan hátt, með rifrildi og átökum í fjögur ár, varð ég loksins ófrísk. Ég hlakkaði mjög mikið til að eignast þetta barn. Mér tækist þá loksins að gera hann hamingjusaman. Hann langaði í stelpu en mér var alveg sama, svo framalega sem við myndum eignast heilbrigt barn. Ég bað til Guðs um að það yrði stelpa. Ég vonaði að Davíð myndi hætta að drekka þegar barnið væri loksins komið.

Alla meðgönguna hélt hann áfram að drekka, annaðhvort fór hann á pöbb eða drakk heima. Ég var alltaf hrædd um að hann yrði pirraður og reiður og reyndi að gera sem minnst í því að reita hann til reiði. Ég reyndi bara að þegja yfir drykkjunni en á endanum var þögnin nóg til að gera hann reiðan.

Ég vissi ekki hvað ég átti að gera við þennan mann. Hvað gat ég gert til að hann myndi taka ábyrgð á sínum skapgerðaköstum með víni? Hann var alltaf yndislegur þegar hann var edrú, kannski svolítið þunglyndur en þegar hann drakk var eins og hann skipti um ham.

Þegar stúlkan fæddist vorum við róleg og nutum þess í þrjá mánuði. Við nutum þessa nýja hlutverks. Við fengum íbúð í fallegu húsi við Skeiðarvog. Þar sem við vorum par með ungt barn var okkur treyst fyrir íbúðinni og greinilegt að við vorum ungt fólk í hreiðurgerð.

Það voru samt ekki liðnir nema um þrír mánuðir frá því að barnið var orðið hluti af okkar daglegu lífi þegar vinur Davíðs fór að hringja í hann til að fá hann með sér á pöbb. Ég hafði skipulagt að fara eina helgina á laugadegi með vinkonum mínum vegna þess að ég hafði ekkert gert í rúmt ár á meðan ég gekk með barnið og það var á brjósti í þrjá mánuði. Hann ákvað því að fara með vini sínum á föstudeginum. Ég var því ein heima það kvöld og bað hann að fara varlega með peningana þar sem við áttum bara fimm þúsund krónur og það voru tíu daga eftir af mánuðinum. Ég þurfti líka einhvern pening með mér, daginn eftir. Hann lofaði að fara varlega.

Þegar Davíð kom heim um nóttina var hann mjög drukkinn og það voru aðeins um fimmtán hundruð krónur eftir af peningunum. Við áttum sem sagt að lifa á þessu næstu tíu daga og svo átti ég að geta skemmt mér með vinkonum mínum líka. Ég var með barnið okkar grátandi í fanginu og var frekar pirruð þegar ég fór að inna hann eftir því hvernig þetta ætti að duga. Þá sagði hann að þetta væri leikur hjá mér til að láta hann fá samviskubit. „Þú ert bara ósanngjarnt fífl“ hreytti ég þá í hann.

Ég fór upp í herbergi með barnið til að það yrði ekki fyrir í þessum átökum og settist á rúmið. Þá kom Davíð aðvífandi og sló mig utan undir. Ég varð hrædd, lagði stelpuna í rúmið og stökk svo á móti honum til að koma honum út úr herberginu. Ég komst ekki lengra en að dyrunum þar sem hann náði að ýta mér niður og halda mér fastri. Ég reyndi að berjast á móti en hann var sterkari. Þá reyndi ég að sparka á milli fóta á honum þar sem allir höfðu sagt mér að það virkaði. Hann efldist bara við það og varð miklu reiðari. Hann lagðist ofan á mig með olnbogann á hálsinum á mér og ég fann að ég gat varla andað. Þegar svo var komið náði ég að kýla í klofið á honum og þá herti hann takið Ég gat varla talað og varð hrædd og í þetta skipti varð ég hræddari en nokkurn tímann áður. Ég bað hann um að leyfa mér að lifa. Þá átti ég við það að ég vildi fá að lifa eðlilegu lífi. Ég átti ekki von á að hann ætlaði að kála mér en mér fannst að honum var alveg sama um mig. Hann hugsaði bara um að láta mig finna fyrir því hvað hann hefði mikla stjórn á mér og ég trúði því virkilega að hann ætlaði að ganga frá mér.

Svo fann ég sorgina færast yfir mig. Ég fann svo mikla sorg vegna litlu stúlkunnar í rúminu sem vissi ekki hvernig foreldrar hennar væru. Mig langaði að flýja burtu með hana.  Hann losaði takið og ég lá á gólfinu þegar hann fór niður. Ég fann að eitthvað hafði breyst eftir þetta kvöld, þessa nótt dó eitthvað inni í mér.

Daginn eftir gat ég varla talað. Ég horfði út um gluggann, tómum augum og var döpur þegar ég var í eldhúsinu að gefa barninu að borða. Davíð lá á stofugólfinu á meðan og ég heyrði ef hann bærði á sér. Ég var hrædd um að hann gæti vaknað en ég var líka reið. Ég var viss um hvað ég vildi gera. Þetta var það sem fyllti hjá mér mælinn. Ég ætlaði að henda honum út þegar hann vaknaði. Það yrði í fyrsta skipti sem hann færi. Í þetta skiptið varð ég að hugsa um barnið. Það var ekki hægt að henda mér út með ungabarn.

Þegar Davíð vaknaði byrjaði hann að taka saman fötin sín og fór síðan út. Hann vissi upp á sig sökina og það var greinilegt að hann mundi eftir kvöldinu. Ég hringdi niður í Kvennaathvarf til að tala við þær og að minnsta kosti heyra hvað þær myndu ráðleggja mér. Þær spurðu mig að því hvort ég væri ákveðin í að skilja við hann. Þær buðu mér að koma og sögðu að það væri alltaf opið hjá þeim fyrir okkur. Síðan buðu þær mér að koma í viðtal þegar þær heyrðu það á mér að ég væri ekki viss um að ég vildi koma og gista hjá þeim. Þær sögðu mér ýmislegt um hvað ofbeldi væri og hvernig það gæti aukist. Ég vissi það svo sem, þar sem við vorum búin að vera sundur og saman í fjögur ár. Ég sagði við þær að hann væri hvort eð er farin og gæti þess vegna ekkert gert mér lengur. Þær hvöttu mig eindregið að koma í viðtal daginn eftir og koma að sjá hvernig húsið hjá þeim væri. Það samþykktir ég og lagði svo á. Við áttum svo góðar stundir í íbúðinni, ég og dóttir mín sem átti eftir að fá nafn. Ég vildi skíra hana í höfuðið á ömmunum í báðum ættum.

Davíð hringdi eftir viku og sagði að hann sæi svo eftir þessu. Hann gæti ekki hugsað sér lífið án okkar og spurði hvort við gætum ekki lagað þetta. Eftir langa umhugsun og sannfæringakraft hans samþykkti ég að fyrirgefa. Ég hélt það væri betra að reyna að halda fjölskyldunni saman en sagði honum samt að það hefði eitthvað dáið inni í mér þessa nótt og ég gæti ekki lagað það. Hann sagði að það væri allt í lagi þó ég hefði ekki sömu tilfinningar til hans eins og áður, það væri eðlilegt. Ég vissi ekki hvað það var sem dó.

Hann fékk svo tilboð um vinnu við að stjórna bakaríi á Vopnafirði og við gátum fengið íbúð með vinnunni. Þetta var besta lausnin til að komast út úr mestu skuldunum. Við urðum að fara að borga þær niður til að mamma hans myndi ekki missa íbúðina sína sem var veðsett fyrir lífeyrissjóðsláninu. Við pöntuðum stóran gám fyrir búslóðina og það tók okkur ekki nema tvo daga að flytja.

Vopnafjörður var fámennur staður og varla manneskja á ferð. Ég gekk með barnavagninn um göturnar á meðan ég var í fæðingarorlofi og kom oft við upp í bakaríi til að kíkja á Davíð og leyfa honum að knúsa dóttur sína. Hún var augasteinninn hans og hann kallaði hana prinsessuna sína.

Það var engin áfengisverslun á Vopnafirði og lítið um drykkju þessa mánuði sem við vorum að aðlagast. Ég fór að finna fyrir einmanaleika og sorg eftir allt sem á undan var gengið. Mig langaði ekki að búa þarna með honum og ákvað að fara í bæinn. Hann hélt að það væri vegna þess að ég vildi ekki búa svona afskekkt, þar sem ég væri úr borginni. Ég mátti ekki fá bílinn til að keyra í næsta bæjarfélag og ég hafði ekki mikið við að vera þá daga sem ég var heimavinnandi. Ég vildi bara ekki búa með honum lengur. Tilfinningar mínar voru svo breyttar, Ég fann ekki til sömu þráhyggju og áður, þar sem tilfinningar mínar voru farnar að snúa að barninu.

Þegar ég kom til Reykjavíkur fann ég mér litla íbúð. Svo fór ég að leita að húsgögnum þar sem ég hafði ekkert tekið með mér. Ég þurfti að finna allt til heimilisins. Þó hafði ég ekki mikla peninga þar sem ég var atvinnulaus. Við lifðum því á því litla sem ég fékk í atvinnuleysisbætur og höfðum það bara þokkalegt.

Það liðu ekki nema nokkrir mánuðir þangað til að Davíð fór að hringja í mig. Hann sagði mér að hann hefði talað við hjónabandsráðgjafa og leitað sér ráða. Það fannst mér nokkuð ólíkt honum en kannski var hann að reyna að breytast. Hann sagði mér að hann myndi gera allt til að ég tæki við honum aftur og að ég mætti ráða hvernig það yrði. Ég sagðist ekki hafa áhuga, en hann gafst ekki upp. Hann bað mig um að leyfa honum að koma að tala við mig um jólin og ég þyrfti ekki að ákveða neitt. Hann sagði að hann ætlaði ekki að beita mig þrýstingi. Ég samþykkti að hitta hann og heyra hvað hann hefði að segja. Þar sem hann var ennþá úti á landi, gat hann ekki komið fyrr en hann væri kominn í jólafrí.

Davíð kom eftir miðnætti á Þorláksmessu og spurði hvort ég gæti talað við hann. Hann sagðist ekki vilja fara til mömmu sinnar svona seint. Ég sagði honum að hann þyrfti þá að sofa í sófanum. Ég vildi ekki að hann teldi sér trú um að ég tæki við honum aftur. Ég hlustaði á hvað hann hafði að segja áður en ég fór í rúmið.

Hann sagði að hann vildi ekki beita mig þrýstingi og ég mætti segja nei eða já, svo rétti hann mér lítinn kassa. Þegar ég opnaði hann, sá ég að í honum voru tveir hringar. Ég tók þá upp og sá að það var skrifað inn í þá „þinn Davíð“ og „þín Andrea“. Mér brá. Hvað var hann að gera? Hann sagðist ekki ætla að beita mig þrýstingi. Hvað var þetta þá? Mér leið eins og ég væri króuð af úti í horni. Hvað get ég sagt, þegar hann er búinn að láta grafa svarið í hringa? Hann sagði mér að það skipti ekki máli hvert svarið yrði. Hann myndi taka því hvort sem það væri já eða nei. Ég sagði honum að ég gæti ekki svarað þessu. Hann sagði að það væri allt í lagi, ég mætti geyma hringana og hugsa málið. Hann myndi bara sofa heima hjá mömmu sinni um jólin og það væri nógur tími til að hugsa. Ég samþykkti það og fór svo að sofa þessa nótt.

Það gekk samt erfilega að sofna, vitandi það að Davíð væri í stofunni. Mér fannst eins og hann væri að þrengja sér upp á mig með því að biðja mig um að fá að gista. Þar sem ég var búin að búa til þetta litla heimili og naut þess að vera þarna ein með dóttur minni. Samt var alltaf þessi tilfinning að ef hann myndi lagast að þá vildi ég vera hluti af því. Ég var svo hrædd um að ef hann myndi á endanum hætta að drekka og tæki sig saman í andlitinu, gæti ég ekki hugsað mér að önnur kona fengi að njóta þess.

Daginn eftir fór Davíð með stelpuna til mömmu sinnar í heimsókn. Hann var þar allan daginn. Um kvöldið þegar hann átti að skila henni, hringdi hann og spurði hvort ég vildi koma með honum að borða. Ég samþykkti það og við fórum á rólegan veitingastað. Þetta var í fyrsta skipt sem hann fékk sér ekki bjór með matnum. Það var eins gott. Ef hann hefði byrjað á einum, hvað veit maður hve margir þeir hefðu orðið. Eftir matinn fengum við okkur kaffi og töluðum saman.

Við töluðum mest um það sem honum lá á hjarta. Hann sagði að hann vildi gera allt til að laga sambandið, ef ég gæti fundið það í hjarta mér að ná fjölskyldunni saman. Hugur minn fór á fulla ferð við að reyna að átta sig á aðstæðum en ég gaf Davíð heldur ekkert svar í þetta skipti. Hann ætlaði að vera um það bil tvær vikur fyrir sunnan í kringum jólin og ég var ekkert að flýta mér að taka ákvörðun.

Þegar ég kom heim til mín og horfði á allt sem ég var búin að byggja upp, fannst mér að ég hefði það bara ágætt og að engin ástæða væri til að breyta því. Ég treysti ekki loforðum hans. Ég var að eldast og þroskast og vissi hvað ég vildi. Það kæmi ekki til greina að búa með honum ef hann drykki. Þegar ég var búin að hugsa fram og til baka, hvort ég fyndi einhverjar tilfinningar til hans, um það sem hann var búinn að segja síðustu daga og hvernig hann var búinn að hegða sér, fór ég að hugsa um kosti og galla þess að taka saman aftur. Það var samt niðurstaðan að mér fannst þetta líta allt mjög vel út og að það væri spennandi að láta reyna á alvöru hjónaband. Hann var mjög sannfærandi um vilja sinn. Ég vissi líka að hann saknaði barnsins síns og mér fannst það skemmtileg tilhugsun ef allt yrði eins og það ætti að vera í hamingjusamri fjölskyldu. Þá var það einmitt það sem ég vildi. Óskin um hamingjusama fjölskyldu varð yfirsterkari. Ég samþykkti því að taka þetta skref, enn og aftur.

Áður en ég tók þessa ákvörðun setti ég það skilyrði að hann hætti að drekka, annars myndi ég pakka niður sama daginn og ég sæi hann fá sér einn sopa. Ég sagði honum að ég ætti erfitt með að treysta honum eftir allt sem á undan væri gengið og hann yrði að gefa mér tíma til að geta treyst upp á nýtt. Hann samþykkti það og ég lét það gott heita.

Það var úr að við fluttum til baka á Vopnafjörð og Davíð taldi að ég yrði ekki lengi að finna vinnu á staðnum. Hann sagði meira að segja að ég gæti fengið vinnu í bakaríinu. Allt leit svo vel út og við vorum með mikla drauma um betra líf. Davíð var hættur að drekka, skuldirnar fóru lækkandi og framundan virtust bjartari tímar. Við höfðum lifað frekar miklu sultarlífi fram að þessu og maturinn oftast verið kjöthakk eða brauð með áleggi. Nú gátum við fengið okkur læri annað slagið eða kótelettur, jafnvel steik. Stuttu síðar varð ég ólétt af öðru barninu og Davíð veitti mér heilmikinn stuðning með það. Davíð fór meira að segja að stinga upp kartöflugarðinn til að rækta kartöflur. Ég var stolt tilvonandi eiginkona en við ætluðum að gifta okkur þegar barnið yrði skírt.

Þetta var afslappaður tími og það endaði með því að ég gleymdi öllum mínum áhyggjum. Ég var ennþá hrædd um að ég ætti ekki að eiga þetta barn. Ég kveið fyrir því að barnið tæki athygli mína frá henni Sunnu og ég vildi ekki skapa fleiri vandamál og varð mjög þunglynd yfir því að ég væri ekki að bjóða barnið velkomið í heiminn. Ég sagði hjúkrunarkonunni frá þessum áhyggjum mínum og hún varð mjög hissa. Þá var ég farin að verða þreyttari en ég hefði nokkurn tímann verið og ég vissi ekki af hverju. Ég gat sofið í 24 klukkustundir ef ég fékk tækifæri til. Ég mætti til vinnu klukkan átta á morgnana og kom heim klukkan sjö á kvöldin, þar sem ég var að vinna bæði í bakaríinu og í mötuneytinu í fiskvinnslustöðinni. Davíð sótti því dóttur okkar til dagmömmu og þegar ég kom heim og eldaði mat var ég komin upp í rúm strax og ég var búin að borða. Ég gat því lítið sinnt stelpunni og var bara sem rotuð.

Davíð varð mjög þreyttur á þessu og sagði mér að fara til læknis. Þá sagði ég honum að þetta væri örugglega af því að ég væri ólétt og að þessu myndi linna þegar barnið kæmi í heiminn. Ég reyndi að halda mér vakandi en heimilisstörfin lentu að mestu leyti á Davíð. Loksins var kominn tími fyrir mig til að fara til Reykjavíkur til að eiga barnið. Á Þórshöfn voru ekki þau tæki og tól sem þurftu að vera til staðar ef eitthvað kæmi fyrir í fæðingunni. Ég var ég fegin því að fara til Reykjavíkur, þar sem ég var orðin þreytt. Ég var rúmar tvær vikur hjá foreldrum mínum þar sem ég kom fyrr til Reykjavíkur ef barnið skyldi fæðast fyrir tímann. Sunna hafði fæðst fyrir tímann og ég átti því allt eins von á því að það gæti gerst í þetta skipti líka.

Barnið kom loksins í heiminn og reyndist vera strákur. Við héldum að frændi minn gæti skírt hann þar sem hann var prestur. Ég elskaði þennan frænda minn mjög mikið og var stolt að hugsa til þess að hann gæti skírt son minn rétt eins og hann skírði mig. Þegar við komum í heimsókn til pabba og mömmu, sparkaði Davíð í rennuna á húsinu þeirra og pabbi varð var við það og varð öskureiður og byrsti sig pirraður sem varð eins og bensín á eld á hann Davíð þar sem stutt var í reiðina hjá honum gagnvart föður mínum.  Hann þoldi nefnilega ekki föður minn síðan hann hafði komið með ítrekunina á láninu sem pabbi tók fyrir okkur á sínum tíma þegar við gátum ekki borgað fyrir virðisaukann. Þetta varð til þess að Davíð sprakk og sagði við mig að hér myndi hann ekki vera áfram.  Við fórum því til Þórshafnar fyrr heldur en við ætluðum og hættum við að láta frænda minn skíra.

Þrír mánuðir liðu og við vissum að við urðum að gefa stráknum nafn. Á sama tíma ákváðum við að gifta okkur því það gæti orðið of dýrt að gera það síðar. Frændi minn var farinn til Spánar svo við þurftum að finna annan prest. Ég fann þann sem fermdi mig og giftingardagurinn var ákveðinn. Ég kom öllu í kring með veisluna fyrir utan kökurnar.

Það skiptir kannski ekki miklu máli í dag en ég vil samt nefna það að í nokkur skipti fyrir giftingu sagði Davíð að hann vildi hætta við allt saman og var það yfirleitt útaf einhverjum litlum rifrildum sem komu upp, hvort sem það væri útaf því að maturinn væri vondur eða heimilið skítugt. Þetta var mjög pirrandi og óþægilegt, vegna þess að ég vissi ekki hvar ég hafði hann. Hann sagði það meira að segja viku fyrir giftingu. Þar sem ég var búin að bjóða öllum í giftingu ætlaði ég að standa við það hvað sem tautaði og raulaði. Ekki veit ég hvernig alkahólismi virkar en ég var farin að taka eftir því að þegar við fórum að versla, tók Davíð alltaf eina malt í búðinni og drakk hana hratt á meðan við versluðum. Ég velti því fyrir mér hvort hann saknaði bjórsins.

Þegar við komum til Reykjavíkur fyrir giftinguna dó elskulega amma mín. Ég var svo sorgmædd. Ég vildi hafa hana í giftingunni og hún var líka búin að kaupa sér kjól fyrir hana. Nóttina fyrir giftingu gat ég ekki sofið einhverra hluta vegna og fór inn í stofu. Þar sat ég og horfði fram fyrir mig eins og einhver væri að tala við mig. Allt í einu datt mér ljóð í hug um ömmu mína og skrifaði það niður. Það var mjög einlægt ljóð um minningar mínar með henni og ég var hissa á því hversu djúpt það snerti mig þegar ég las það aftur. Þá gat ég sofnað. Ég spurði mömmu mína hvort ég mætti lesa það í giftingunni af því ég vildi muna eftir henni á þeim tíma. Hún sagði auðvitað já og ég las ljóðið fyrir framan alla og sagði þeim að í minningu ömmu minnar vildi ég hafa hana með okkur á þessum degi.

Seinna sagði Davíð mér að ég væri bara að sýnast til að fá athygli. Ég varð mjög særð því mér fannst þetta vera virðingarleysi gagnvart ömmu minni. Hann sagði að allt gamalt fólk dæi og að við ættum ekki að sjá eftir því. Ég svarði honum með því að segja: „Fyrirgefðu að ég skuli hafa þessar tilfinningar en ég elskaði ömmu mína sama hversu gömul hún var.“ Stundir með henni voru á meðal bestu minninga úr æsku minni og lífi. Því miður gat ég ekki heimsótt hana á hennar síðustu dögum, þar sem hlutir í lífi mínu fóru á þann hátt að ég var bara svo upptekin. Þessi tími leið eins og aðrir. Við snérum aftur heim til að halda áfram að sinna skyldum okkar. Ég gat lagt eitthvað til heimilisins, vegna þess að ég fékk fæðingarorlof, sem kom sér vel þar sem við vorum að drukkna í reikningum. Ég gerði líka annað til að ná í pening. Ég bað innilega til Guðs um að leiðbeina mér hvernig ég gæti búið til meiri pening. Ég sagði: „Góði Guð, viltu gera svo vel að gefa mér styrk til að finna leið út úr þessu. Gerðu það Guð, þú þarft ekki að gera það auðvelt fyrir mig, bara eitthvað, ég þarf að finna leið.“

Það kom inn í huga minn að mála andlitsmyndir, þó að ég hefði aldrei gert neitt slíkt. Ég hafði bara málað dýramyndir og landslagsmyndir, en aldrei andlit. Ég þurfti ekki að bíða lengi eftir að ég setti upp auglýsingu í kaupfélaginu á Þórshöfn. Fólk var mjög áhugasamt um að fá andlitsmyndir af ættingjum og börnum. Ég málaði þegar ég hefði átt að sofa eða eftir miðnætti.

Davíð var ekki mjög ánægður með að ég væri vakandi svona langt fram eftir. Hann varð þó sáttari þegar hann sá að þetta skapaði pening. Það var ekki mikið, en það var gott að vita að maður ætti von á smá aurum til að bjarga sér. Davíð montaði sig mikið við fólk þegar það var að dást að myndunum. Hann var aðallega montinn af því að segja að konan hans hefði gert þetta.

Krakkarnir sprungu út. Það var furðulegt að sjá hvað svona litla hjálparvana einstaklingar voru allt í einu farnir að hlaupa um og maður hafði ekki við þeim.

Fljótlega fengum við tilboð um að skipta um íbúð. Það var vel þegið, þar sem við vorum með tvö börn. Þetta var miklu betri íbúð og okkur fannst framtíðin bera betri tíma í skauti sér.

Ég fór að finna fyrir mikilli þreytu og máttleysi. Ég var alltaf að fara til læknis til að athuga hvað væri að hrjá mig, en hann fann ekkert að mér. Ég fann verk í öxlinni en læknirinn var ekki með tæki til þess að taka röntgenmynd af henni. Það endaði með því að hann sendi mig til gigtarsérfræðings í Reykjavík.

Davíð kom til Reykjavíkur til að hugsa um börnin með mér á meðan ég væri að fara til lækna. Eina helgina þegar ég var að bíða eftir niðurstöðum, sagðist hann ætla að fara með frænda sínum austur í sumarbústað. Þetta var bústaður sem tveir frændur hans voru að byggja. Hann sagði mér að koma á Selfoss daginn eftir með krakkana og hann myndi sækja okkur.

Læknirinn sendi mig í alls konar blóðprufur og á endanum komst hann að því að ég væri með verulega vanvirkan skjaldkirtil. Hann lét mig á lyf sem er til að bæta manni upp það hormónatap sem maður verður fyrir. Allir sögðu mér að hafa ekki áhyggjur þar sem þetta herjaði á margar konur.

Þennan föstudag fór ég til Selfoss með krökkunum til að hitta Davíð. Hann hafði talað um að hitta okkur í söluturni þarna á staðnum um hádegið. Ég beið þar með krökkunum til klukkan 16. Ég vissi ekki nákvæmlega hvar þessi sumarbústaður var, en tók séns á að panta leigubíl og freista þess að bílstjórinn gæti hjálpað mér að finna hann. Sem betur fer vissi hann um sumarbústaðabyggð þar nálægt. Þegar við vorum komin á þær slóðir fór ég að kannast við mig og fann bústaðinn.

Ég borgaði bílinn og fór með krakkana inn í bústaðinn. Það virtist enginn vera þar við fyrstu sýn, en þegar ég kíkti inn í herbergi, voru frændurnir þar steinsofandi eftir fyllirí næturinnar. Ég var nokkuð pirruð og spurði Davíð hvernig stæði á því að hann hefði ekki sótt okkur. Hann varð þá reiður og sagði mér að vera ekki með þennan hávaða. Þegar hann drullaði sér loksins fram úr til að heilsa krökkunum, sagði ég honum frá niðurstöðunum frá lækninum. Það eina sem hann sagði þá var: „Ég ætla að vona að þú verðir ekki ein af þessum konum sem er alltaf veik.“ Vá hugsaði ég, takk fyrir umhyggjuna.

Það liðu um það bil sex mánuðir þar til Davíð fékk tilboð um aðra vinnu. Hann var alltaf góður í því að næla sér í vinnu. Þessi vinna var í öðrum landshluta eða Borgarnesi nánar tiltekið. Við vorum búin að vera um það bil þrjú ár á Vopnafirði og okkur fannst tími til kominn að færa okkur nær Reykjavík. Það voru lægri laun í þessari vinnu og við þurftum að borga hærri húsaleigu. Okkur fannst það samt vera þess virði, þar sem við vorum langt komin með að borga skuldirnar. Það var ágætt að vera ekki nema þrjá klukkutíma til Reykjavíkur í staðinn fyrir níu.

Ég fékk vinnu í bakaríinu sem Davíð vann í og einnig í áfengisversluninni á staðnum. Nú óttaðist ég að úr því að auðveldara var að nálgast áfengi, væri meiri möguleiki á því að hann félli. Ég taldi mér trú um að auðveldara væri að fylgjast með þar sem ég væri að vinna í áfengisversluninni.

Mér leið miklu betur á þessum stað, þar sem hann var þéttbýlari og þar voru verslanir að borð við Krónuna. Þar var í rauninni allt til alls og þetta var vinsæll ferðamannastaður. Í eitt skiptið sem ég var að vinna í áfengisversluninni kom Davíð inn. Ég spurði: „Á að fá sér?“ Hann sagði þá að hann væri að kaupa handa vini sínum. Það var svo sem auðvitað. Ég ætlaði ekki að fara að stressa mig neitt á þessu, þar sem hann réði því hvað hann gerði á meðan það bitnaði ekki á mér og börnunum.

Davíð byrjaði á því að fá sér sex bjóra á föstudegi og afsökun hans var að þetta væru bara nokkrir bjórar. Hann sagði að það væri eingöngu til að slaka á og að hann gæti stjórnað drykkjunni auðveldlega. Ég hafði ekki áhyggjur vegna þess að hann var orðinn frekar pirraður síðustu mánuði og oft fannst mér að það væri betra ef hann fengi sér bjór. Það var auðveldast að vera ekkert að velta því fyrir sér.

Af einhverjum orsökum fór ég að verða niðurdregnari með hverjum deginum. Ég var einnig frekar köld gagnvart ástandinu og vissi að tilfinningar mínar gagnvart Davíð voru að fjara út. Það var meira að segja ekki einu sinni áhugi fyrir kynlífi lengur af minni hálfu. Þá fannst mér stór hluti vera farinn úr hjónabandinu. Einn daginn hringdi ég í móður mína og varð að orði: „Mamma, annaðhvort fer ég frá honum, enda á spítala eða fer niður í kjallara og hengi mig.“ Mér leið greinilega þannig að ég vildi komast í burtu. Hún sagði mér að hugsa þetta til enda.

Þegar við rifumst síðan í næsta skipti og Davíð bað um skilnað, eins og alltaf eftir rifrildi, sagði ég loksins: „Ok, skiljum. Komdu bara með pappírana og ég skal skrifa undir.“ Hann varð mjög sposkur á svip, eins og hann hefði unnið þenna rifrildi. Hann vissi ekki hvað ég var að hugsa. Það gerðist ekkert í vikutíma. Þegar sú vika leið, sagði hann einn daginn: „Eigum við að fara til Noregs?“ Ég spurði hann þá: „Eigum við að skilja í Noregi?“ „Nei“ hváði hann við. „Nú, ertu hættur við að skilja?“ Hann varð vandræðalegur í framan. „Nei, auðvitað ekki.“

Ég beið eftir pappírunum en þeir komu aldrei. Þá pantaði ég tíma hjá lögfræðingi til að ganga frá pappírum um skilnað. Davíð samþykkti að ég fengi þvottavélina úr búinu, þar sem ég yrði með börnin. Við skrifuðum svo undir og ég fór að leita að íbúð í blöðunum. Ég færði mig í herbergi sem var á efri hæðinni á meðan. Hann sagði að ég gæti verið í viku til að finna íbúð og ég ætlaði sko ekki að sóa tímanum.

Það var stirt andrúmsloftið og það leið ekki á löngu þar til það sauð upp úr. Hann spurði mig á hverjum degi, hvenær ég ætlaði að fara. Ég sagði honum að ég myndi gera það þegar ég fyndi íbúð. Hann var að verða óþolinmóður og sagði að hann gæti ekki verið nálægt mér. Ég var hætt að kvarta, þar sem mér leið eins og gesti hjá honum. Hann sagði einn föstudaginn að ef ég færi ekki fljótlega, myndi hann henda mér út. Ég hringdi í félag einstæðra foreldra til að athuga hvort þeir væru með íbúð. Það var sex vikna biðlisti og ég gat ekki beðið svo lengi. Ég varð að finna aðra leið. Loksins hringdi ég í Kvennaathvarfið og þær sögðu að ég hefði leyfi til að koma. Ég ákvað að fara eftir nokkra daga þangað og fór að gera mig tilbúna. Þá skeði það ...


Kafli 3. Lífið tekur aðra stefnu

3. kafli

Lífið tekur aðra stefnu

 

Í lok ágúst þetta árið stefndi ég til Reykjavíkur, þar sem ég ætlaði að halda áfram með skólann. Ég fékk vinnu í verslun sem verslunarstjóri og Inga vinkona fékk vinnu á sama stað við afgreiðslu. Mér gekk ekki vel með bókhaldið, þar sem ég hafði aldrei unnið við slíkt áður og var oft skömmuð fyrir að kassinn stemmdi ekki við strimilinn. Ég var því fegin þegar Davíð tilkynnti mér það að við hefðum fengið tilboð um að fjárfesta í bakaríi. Þar gæti ég tekið mínar eigin ákvarðanir og passað upp á pappíra fyrir okkar eigin hagsmuni.

Það var vinur Davíðs úr bakstrinum sem hafði samband við hann og bauð honum að gerast eigandi að sínu eigin bakarí. Þessi maður ætlaði að leigja honum húsnæði í Álftaneshverfi undir þessa starfsemi og fyrsta árið yrði leigulaust. Ef hann tæki þessu boði þýddi það að ég þyrfti að hætta í vinnunni sem ég var í.

Við keyptum notuð tæki af seljanda bakarísins sem voru sett á léttar greiðslur til tveggja ára. Davíð var sama um peninga, en honum fannst gott að láta sér líða vel og hafði marga drauma. Hann sá í þessu tækifæri til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði í eigin atvinnugrein. Hann sagðist þó ekkert skynbragð hafa á peningamál og vildi að þau yrðu í mínum höndum. Við leigðum herbergi úti í bæ til að byrja með, á meðan við vorum að bíða eftir varanlegra húsnæði. Þetta var ógeðslegur staður, þar sem við þurftum að deila baðherbergi með öðru fólki og flestir sem leigðu þarna voru geðsjúkir eða dópistar. Davíð dreymdi um fullt af börnum, hús, seglskútu og vildi helst sigla um heimsins höf og búa á skútunni. Hann vildi líka eiga sitt eigið fyrirtæki, þar sem hann vildi ekki vinna undir stjórn annarra. Það var afar erfitt að sjá þetta allt fara saman, án þess að eiga fullt af peningum, búandi á stað eins og þessum.

Áætlanirnar um bakaríið litu allar rosalega vel út og allt hljómaði að minnsta kosti framkvæmanlegt þegar hann lýsti því. Það eina sem setti okkur fótinn fyrir dyrnar var að nafnið hans var á svörtum lista alls staðar. Hann var hvergi metinn lánshæfur. Ég elskaði hann og þess vegna gat ég ekki horft upp á draumana hans deyja. Ég skrifaði því upp á fyrirtækið með nafninu mínu. Hann sagði að ef maður skráði fyrirtæki sem hlutafélag væri ekki hægt að ganga á einstaklinga ef eitthvað kæmi upp á og því væri þetta fullkomlega öruggt. Við fengum fyrirtækið samþykkt og frændi hans ábyrgðist reksturinn, með meistararéttindunum sínum. Ég var skráð fyrir 51% í fyrirtækinu, en hin 49% skiptust jafnt á milli bróður hans, systur og frænda, sem og bróður míns. Það þýddi að ég var með stærstan hlut og þar af leiðandi gat ég tekið allar ákvarðanir eða öllu heldur Davíð. Við vorum svo blönk að bróðir hans þurfti að lána okkur 5.000 krónur fyrir skiptimynt í kassann fyrsta daginn. Bakaríið var svo opnað með pompi og prakt, við fengum heillaóskir og margir gáfu okkur blóm í tilefni dagsins.

Þetta var erfitt verkefni. Við þurftum að byrja að vinna klukkan fjögur á næturna og unnum þangað til sjö á kvöldin alla daga vikunnar. Við ætluðum að vera ein að vinna fyrsta árið til að hafa sem minnstan launakostnað. Þegar við vorum búin að vinna svona í sex mánuði, sáum við okkur ekki fært að gera það áfram vegna álags. Við réðum systur Davíðs til að vinna á móti okkur. Þetta stytti vinnudaginn töluvert, en við gátum þá bæði farið heim um tvöleitið. Við fengum íbúð fyrir ofan bakaríið, þannig að það var stutt í vinnuna og við losnuðum úr þessum ógeðslegu híbýlum sem við höfðum verið í áður.

Eitt sem við gerðum mikið af á þessum tíma var að láta okkur líða vel um helgar, sem einhvers konar verðlaun, þar sem við unnum það mikið. Þetta voru veglegar helgarferðir á dýra matsölustaði, þar sem við drukkum vín og borðuðum dýrindismat. Við vorum ástfangin og bjartsýn á að nú værum við á góðri leið í lífinu. Hann talaði um að eignast börn og ég samþykkti það, þar sem við elskuðum hvort annað. Það er gjarnan þannig með ástfangið fólk að það vill eignast afsprengi til að fullkomna ást sína. Við vissum að við myndum eignast fallegustu börn í heimi! Þessar bollaleggingar voru daglegt brauð þegar við unnum og þegar við vorum að skemmta okkur.

Ég varð ófrísk fljótlega en það vildi svo illa til að ég missti fóstrið á áttundu viku. Það var sárt að upplifa það, en ég talaði þó við lækni sem sannfærði mig um að þetta væri ekki óalgengt og sennilega hefði eitthvað verið að barninu. Hann ráðlagði okkur að prófa aftur eftir nokkra mánuði. Þegar við gerðum það og ég varð ófrísk á ný, skeði það sama og enn og aftur í annað og líka þriðja skipti. Davíð var þarna orðinn rúmlega þrítugur og varð hann smám saman vonlítill um það að hann myndi nokkurn tímann eignast börn. Ég fór þá í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og hann sagðist ekki finna neitt sem skýrði endurtekin fósturlát. Ég þyrfti bara að minnka álagið í kringum mig og reyna svo aftur þegar ég væri betur í stakk búin til að takast á við meðgöngu.

Ég hef alltaf notað listsköpun mikið til þess að takast á við erfiðleika og þá sérstaklega myndlist. Ég málaði því mikið á þessum tíma, enda álagið mikið í kring um bakaríið og sorgin út af fósturlátunum bætti enn meira ofan á það. Davíð sýndi listsköpuninni hjá mér alltaf áhuga og bað mig um að mála fyrir sig málverk af ást minni til hans. Ég gerði það að sjálfsögðu.

Myndin var af konu sem sat á sviði, reif út úr sér hjartað og rétti það fram handa þeim sem vildi þiggja. Hún var nakin en hafði silkislæðu fyrir skýlu, bláa á litinn. Það var tjald á myndinni eins og í leikhúsi sem þýddi að hún gat dregið fyrir. Blóðið af hjarta hennar lak niður handlegginn þar sem hún hélt hjartanu uppi, en blóðið táknaði sársaukann sem fylgir því að gefa ást sína takmarkalaust. Davíð þótti myndin ljót. Mér sárnaði það mjög, enda átti þessi mynd að tákna að ást mín til hans væri takmarkalaus, að ég elskaði hann það mikið að ég gæfi honum hjartað úr mér.

Á þessum tíma vorum við líka að skemmta okkur mikið. Ég sagði þá við Davíð að við þyrftum að fara að minnka þessar skemmtanaferðir, þar sem ég mætti ekki vera að drekka vín þegar ég væri að reyna að verða ólétt. Hann var alls ekki á því hvað hann varðaði og sagði að ég þyrfti ekkert að koma með og að hann þyrfti ekki að hætta að drekka, þar sem hann væri ekki að ganga með barnið. Mér fannst það nokkuð tillitslaust af honum að geta ekki staðið við hliðina á mér í þessu og leið eins og ég væri ein að reyna að eignast þetta barn.

Ofan á allt annað, fór líka að halla undan fæti við að borga skuldir á þessum tíma. Ég taldi að það væri út af skemmtanalífinu, þar sem ég var búin að reikna þann kostnað sem fór í það og fann út að við ættum auðveldlega að geta borgað af skuldum, ef við værum ekki að eyða peningunum í veitingastaði og drykkjuskap. Ég hætti því að fara með út á lífið, þar sem ég vildi ekki vera sú sem stæði að því að eyða peningum. Þegar okkur fór að ganga illa að borga húsaleigu sagði ég stopp, en Davíð tók ekki í mál að hætta að fara út á lífið. Ég skipti því um vinnu og yfirgaf bakaríið og fór að vinna í Miklagarði við Sundahöfn og ætlaði að nota þá peninga í húsaleiguna. Mottóið hans Davíðs var alltaf að við ættum skilið að lyfta okkur upp um helgar og við vorum því á öndverðum meiði um forgangsröðunina.

Við fórum að rífast mikið á þessum tíma. Yfirleitt byrjuðu rifrildin út af afbrýðissemi í Davíð, í kjölfar drykkju, tillitsleysis í garð míns og daðurs við aðrar konur eða peningamál, hvort sem það var að borga af lánunum á vélunum eða lífeyrisjóðsláns sem Davíð hafði fengið mömmu sína til að taka þegar hann var með bakaríið á Reykjanesi. Við gátum svo sæst á ástríðufullan hátt þegar reiðin var runnin af okkur báðum.

Áramótin 1989 vorum við að skemmta okkur með vinum hans Davíðs, Kolbeins og Júlíönnu. Þau áttu tvö fósturbörn og eina stelpu saman. Þegar partíið stóð sem hæst og það var farið að nálgast miðnætti, langaði mig að fara að hitta vinkonur mínar. Davíð fannst það ekki sniðugt og sagði að það kæmi ekki til greina að ég færi. Ég varð hissa þar sem ég vissi ekki betur en að honum líkaði vel við þær. Þegar ég ýtti á að fara, sagði hann við mig að ég væri vanþakklát ef ég færi, svo ég sagði við hann að hann gæti komið seinna að hitta okkur.

Þegar ég var komin í skóna stóð Davíð í dyrunum og byrjaði að ögra mér, sagði mér að slá hann. Þetta kom flatt upp á mig og ég sagði við hann að það kæmi ekki til greina að ég færi að slá hann. „Ef ég er svona mikið fífl, sláðu mig þá“ endurtók hann, svolítið ýtnari, „sláðu mig!“ Hann endurtók þetta aftur og aftur og það endaði með því að ég sló hann. Ég vissi ekki fyrr en ég flaug út um dyrnar og hann tuskaði mig til í æsingi, þangað til fötin mín rifnuðu utan af mér. Ég reif mig lausa og hljóp út í myrkrið.

Þessir vinir hans áttu heima í Kópavogi og ég labbaði alla leið frá þeim og upp í Breiðholt. Mamma og pabbi tóku á móti mér og það var augljóst að þeim var brugðið að sjá útganginn á mér. Pabbi sagði ekki mikið, en mamma var ævinlega undirgefin og meðvirk og sagði við mig að fara að tala við Davíð daginn eftir og segja honum að ef hann gæti sleppt því að gera svona, þá gæti ég fyrirgefið honum.

Ég var ekki nema 23 ára gömul og vissi ekki hvað meðvirkni var á þeim tíma eða að þetta væru sennilega ekki skynsamlegustu viðbrögðin við svona ofbeldi. Ég fór því til hans um morguninn og fann hann sofandi með andlitið upp að veggnum. Ég sá að hann rumskaði þegar ég kom inn, svo ég sagði; „Davíð, ef þú getur sleppt því að gera svona, get ég fyrirgefið þér.“ Hann sneri sér þá við og faðmaði mig og við kysstumst í sátt og hann lofaði því að gera þetta aldrei aftur.

Þessi uppákoma var ekkert annað en undanfari þess sem koma skyldi en það vissi ég ekki þá. Ég vonaði að þetta væri aðeins tilviljun vegna álagsins sem það olli honum að sjá um bakaríið einn og sorginni yfir að ekkert gekk að verða ólétt. Það fór þó fljótlega að bera á vandamálum við að greiða skuldirnar og virðisaukaskattinn vegna bakarísins.

Við fengum bókara með okkur í lið og hann setti okkur stífar reglur um bókhaldið á rekstrinum. Þvert á ráðleggingar bókarans, tók Davíð peninga úr kassanum til að fara á djammið. Ég var með prókúru á heftinu og neitaði að láta hann fá ávísanir. Bókarinn var búinn að segja okkur að þetta væri algjörlega bannað ef fyrirtækið ætti að njóta velgengni. Davíð gat ekki sleppt því að fara á pöbbinn og fór því sínar eigin leiðir í þessum málum. Þar sem ég var ung og óreynd sá ég ekki hvert þetta stefndi og þar sem ég var farin að vinna annars staðar, tók ég ekki jafn vel eftir bókhaldinu og áður. Ég var gjörsamlega búin að missa þolinmæðina á því að geta látið reksturinn ganga upp, þar sem allar ráðleggingar bókarans fóru inn um annað eyrað á Davíð og út um hitt. Hann var tekinn við bókhaldinu sjálfur og það var ekki betra en svo að hann var með allar kvittanir í poka og gerði svo upp mánaðarlega.

Hann var hættur að vilja hafa mig með þegar hann fór út að skemmta sér. Hann sagði jafnvel að ég væri leiðinleg með víni og að vinir hans vildu ekki að við værum saman, þar sem við enduðum á því að rífast í hvert skipti.

Ég var einstaklega lítil í mér og kenndi mér um þetta allt saman, en þar sem ég var með sífelldar áhyggjur af því að fyrirtækið næði ekki að standast þetta hirðuleysi, vissi ég ekki hvernig ég ætti að snúa mér í þessu. Ég reyndi samt að róa mig yfir þessu og lét hann um bókhaldið til að samband okkar færi ekki út um þúfur.

Ég elskaði Davíð og hann elskaði mig, það var ekki vandamálið. Við vorum ekki sammála um hvernig ætti að sinna peningamálum, en ef ég lokaði augunum fyrir því, leit þetta betur út. Ég hætti því að skipta mér af fyrirtækjarekstrinum, en ég var samt mjög afbrýðisöm þegar hann var að fara á pöbbarölt með Kolbeini og treysti honum einhverra hluta vegna ekki fyrir því að vera mér trúr. Ég vonaði það alltaf, en stundum elti ég hann á pöbbinn, bara til að vera viss. Ég var sár út í hann, en á sama tíma full af skömm fyrir að vera svona leiðinleg. Af hverju gat ég ekki slakað á eins og þau? Af hverju var ég alltaf með þetta samviskubit? Ástin á Davíð var svo mikil að sársaukinn varð enn meiri að við gætum ekki átt fallegt og friðsamlegt heimili.

Á þessum tíma hætti ég í skólanum vegna þess að þegar ég fór í hann á kvöldin fór Davíð að drekka á miðvikudögum og afsökun hans var að honum leiddist að vera einn heima þegar ég væri í skólanum. Metnaður minn til að klára skólann var minni en metnaður minn til að hann væri hamingjusamur. Einnig hætti ég að umgangast vinkonur mínar, eins og að fara í saumklúbb, þar sem ég hafði stanslausar áhyggjur að þá myndi hann fara að drekka. Það var eins og ég væri að reyna að stjórna drykkjunni með því að vera nógu mikið í kringum hann. Auðvitað var ég hrædd við ofbeldið en ég var sérstaklega hætt að þola þessa drykkju í honum. Samt áttaði ég mig ekki á hvað þetta var orðið sjúklegt.

Einn daginn sem ég fékk útborgað keypti ég leðurjakka handa Davíð og þar sem hann var ekki heima fór ég að leita að honum af því að mig hlakkaði svo til að sjá hvað hann yrði glaður. Ég fann hann á pöbb í Ármúlanum við hliðina á Hótel Íslandi. Hann var þar með Kolbeini vini sínum og þegar ég birtist og afhenti honum jakkann, ljómaði hann af gleði yfir því hvað hann ætti góða kærustu. Hann fór í jakkann og var rosalega mikill töffari í honum og hrópaði yfir pöbbinn: „Sjáið hvað ég á æðislega kærustu!“ Mér fannst hann elska mig svo mikið við þetta að allir erfiðleikar hurfu eins og dögg fyrir sólu, að minnsta kosti þetta kvöld.

Ég sá reikningana hrannast upp. Ég sá peningana fara í veitingastaði og vín allar helgar og reikningarnir komu inn einn af öðrum. Lögfræðingar voru hringjandi og bankandi á hurðina oftar og oftar og á endanum sagði Davíð mér að segja þeim að hann væri ekki heima. Fyrirtækið var á mínu nafni og þeir vildu að ég tæki ábyrgðina. Mamma hans var ábyrg fyrir mörgu í fyrirtækinu og hún hringdi í mig til að biðja mig um að tala við hann, vegna þess að þegar hún reyndi það, varð hann reiður og sagði henni að halda kjafti. Hún var því hrædd við hann.

Þá datt Davíð og Kolbeini í hug að stofna veisluþjónustu. Hún var hugsuð á þann hátt að kirkjur með jarðafarir og einstaklingar með fermingarveislur, gátu pantað sér smurbrauð og kökur í veisluna. Þeir vinirnir létu prenta bækling sem var rosalega vandaður og fengu ljósmyndastofu til taka að sér að taka myndir af kökum og snittum sem þeir framleiddu. Ég stóð á hliðarlínunni, þar sem samband okkar stóð á völtum fótum og þetta var draumaverkefni þeirra vina. Þeir keyptu svo bíl sem var sprautaður í skærum litum til að tákna fjölbreytni.

Helgina sem þeir settu þessa þjónustu af stað, urðu pantanir svo rosalega margar, þar sem það voru ekki til aðrar svona veisluþjónustur. Þetta var eiginlega brautryðjandastarf. Það hrúguðust inn pantanir og bíllinn hafði ekki undan að keyra út svo það þurfti að fá leigubíla til að bjarga málunum. Það var verulega kostnaðarsamt en samt sem áður tókst þeim að selja fyrir sexhundruð þúsund krónur yfir eina helgi. Þá var mánaðarinnkoman í bakaríið um þrjúhundruð þúsund krónur að vetri til en sjöhundruð þúsund krónur á sumrin þegar ferðamenn sóttu staðinn.

Þetta voru auðvitað rosalegar fréttir þessa fyrstu helgi og þeir töldu sig vel stadda og hafa dottið í lukkupottinn. Auðvitað var haldið upp á þetta þegar þeir lokuðu og þeir hrundu í það. Mér fór að finnast, að það væri möguleiki að borga skuldirnar sem voru um tvær milljónir króna. Þegar líða tók á, sá ég samt að flottræfilshátturinn á vinunum varð meiri eftir því sem meiri peningar komu í kassann. Ég hélt samt áfram að vinna í Miklagarði, þar sem launin þar voru einu peningarnir sem ég gat stjórnað og ég vildi ekki að við myndum missa heimilið. Ég fann til ábyrgðar að fá manninn minn til að átta sig á því að þetta væri farið að ganga út í öfgar. Þá sagði hann mér bara að þegja og láta sig í friði. Á sama tíma var ég að reyna að þóknast honum og gleðja hann. Ég var að leita að lausn. Hvernig gæti ég búið til pening til að borga þessa reikninga?

Það var ósjaldan að ég var að reyna að fá Davíð til að borga reikningana eða mömmu sinni og þá átti hann það til að koma heim eftir fyllerí og annaðhvort henda öllu út úr eldhússkápunum eða brjóta rúmið sem ég svaf í. Í eitt skiptið henti hann mér meira að segja út á gang í nærbuxunum einum fata. Ég tók oft á móti, en þegar ég gerði það endaði ég gjarnan með glóðarauga. Ég réttlætti það fyrir mér þannig að hann gerði þetta bara þegar hann væri í glasi. Þess á milli var hann yndislegur.

Pabbi minn var farinn að átta sig á ástandinu og vildi tala við hann. Það var sérstaklega þegar ég kom til þeirra eftir eitt svona skiptið og bað um að fá að gista. Ég vildi ekki að pabbi talaði við hann, þar sem ég vissi að Davíð þoldi ekki pabba og ég óttaðist að ofbeldið yrði verra ef pabbi blandaðist í málið. Pabbi hafði tekið lán fyrir okkur til að borga virðisaukaskattinn og þegar það féll á gjalddaga, kom pabbi mjög pirraður og skellti ítrekuninni á borðið fyrir framan Davíð og sagði að svona vildi hann ekki sjá aftur. Davíð var mjög ergilegur út af þessu og sagði við mig að pabbi minn væri klikkaður. Mér fundust þetta eðlileg viðbrögð hjá föður mínum. Ég vildi borga skuldirnar mínar en þorði ekki að standa með pabba, þar sem ég vissi að þá myndi Davíð ásaka mig fyrir að vera á móti sér.

            Eftir að við vorum búin að vera sundur og saman vegna ósamlyndis, var mér sagt af frænku hans að hann væri búinn að halda framhjá mér. Hún sagði mér það eina helgina þegar Davíð hafði hent í mig vodkapela og farið án mín með vinum sínum í sumarbústaðinn, vegna þess að ég væri svo leiðinleg. Ég hafði hent pelanum í hann til baka og sagt honum að drekka hann sjálfur. Ég vissi að þetta var eina af aðferðum hans til að réttlæta enn eitt fylleríið að ég væri drekka heima. Þegar frænka hans varð vitni að þessari hegðun hans, gat hún ekki þagað yfir þessu með framhjáhaldið þegar hann var farinn. Hún bað mig þó innilega að segja honum ekki frá að hún hefði sagt mér þetta. Ég gaf henni loforð um það sem ég vissi að ég gæti kannski ekki staðið við en það voru þá ekkert hundrað í hættunni. Hann myndi aldrei gera henni neitt.

Vitneskjan um framhjáhaldið var svo sár og ég varð svo reið að ég fann þann sársauka inn að beini. Mér varð óglatt og ég gat ekki borðað. Ég var líka farin að horast mjög mikið á þessum tíma en tók ekki eftir því sjálf. Fólk var farið að spyrja mig af hverju ég væri svona grönn. Sumir héldu að ég væri með anorexíu eða jafnvel krabbamein.

Þegar hann var farinn í bústaðinn, tók ég myndina sem ég málaði fyrir hann, skar hana í tætlur, skar hjartað í marga búta, braut rammann og henti henni út í horn.

Frænkan reyndi allan föstudaginn að fá mig með sér út að skemmta okkur, svo ég gæti leitt hugann frá þessu. Það var ekki fyrr en á laugardag að ég sló til. Það var um það leyti sem Davíð birtist óvænt heima, kominn úr bústaðnum. Þegar hann sá að ég var að fara út að djamma, sagði hann að ég gæti gleymt því að koma heim það kvöld ef ég færi. Þar sem ég vissi þá allt um framhjáhaldið sagði ég við hann að mér væri alveg sama.

Við frænkan skemmtum okkur konunglega og með beisku brosi reyndi ég að gleyma því sem ég hafði komist að. Það er ekki svo auðvelt þegar maður er kominn í glas. Við enduðum í partíi þessa nótt og ég var í eldhússumræðum við eldri mann sem hafði heyrt í mér þegar ég kallaði um allan bæinn: „Karlmenn eru ASNAR!“ Honum fannst að hann verða að gefa eitthvað af sér.

Við spjölluðum alla nóttina á meðan aðrir drengir í partíinu voru að reyna að toga mig inn í stofu til að dansa og skemmta mér. Við töluðum um framhjáhöld og fyllirí og hjónabönd sem færu í vaskinn við svona líferni. Hann sagði mér sögu af sér og sinni fyrrverandi, þar sem hann hefði verið sökudólgurinn. Þau höfðu farið til einhvers sálfræðings og hann hefði hjálpað þeim báðum, án þess að það hefði endilega bjargað hjónabandinu. Hann vildi borga fyrir mig tíma hjá þessum sálfræðing og hann lofaði að hann myndi aðeins hringja í mig tvisvar. Fyrst til að segja mér hvenær ég ætti að mæta og næst til að vita hvort ég hefði farið. Ég samþykkti á endanum að fara og spurði hann hvað hann héti. Hann svaraði: „ Ég heiti Ingólfur og kallaður Jón.“ –„ Jæja, Jón kallinn, þakka þér fyrir tímann og hjálpina, ég gleymi þér aldrei.“ Þetta var svona verndarengill sem maður hittir kannski einu sinni á lífsleiðinni.

Ég fór ekki heim þetta kvöld og fór til mömmu og pabba til að fá að gista einsog venjulega þegar við Davíð vorum, upp á kant við hvort annað. Þar ætlaði ég að vera og reyna að koma mér út úr þessu sambandi.

Ég fór í þetta viðtal og þrjú til viðbótar. Það nýttist mér vel og þessi sálfræðingur sagði við mig þegar ég var að kvarta yfir einmanaleika í öllu þessu ástandi: „Við fæðumst ein og við deyjum ein. Hvað er að því að vera einn, einhvern tímann á lífsleiðinni?“ Þegar viðtölin voru yfirstaðin hafði ég komist að niðurstöðu. Ég áttaði mig á því að ef ég væri með villtan fugl úr náttúrunni og setti hann inn í búr, þá myndi hann veslast upp og deyja á endanum. Ég ákvað að sleppa þessum fugli sem ég bjó með, hægt og rólega þegar við værum bæði tilbúin, og leyfa honum að fá frelsi sitt.

Ég gat samt ekki farið frá Davíð nema í viku, þar sem ég elskaði hann svo mikið að ég gat ekki borðað án þess að vera með honum. Ég gekk á hann viku eftir þetta og bar upp á hann framhjáhaldið. Hann reyndi að ljúga sig út úr þessu, en þegar ég benti honum á staðreyndir sem frænka hans hafði sagt mér, viðurkenndi hann það loksins. Þegar hann bað mig afsökunar og kom með einhverjar fáránlega afsökun um að hann hafi verið svo einmana féll ég í faðm hans og gat þá borðað. Ég fékk mér egg og beikon og borðaði eins og úlfur, þar sem ég var ekki búin að hafa neina lyst í viku.

Mér fannst að ég væri föst í hlekkjum ástarinnar og gæti ekki farið frá honum, þó ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri ekki hollt samband. Ég þurfti fyrst að brjóta niður allar tilfinningar gagnvart honum áður en ég gæti farið. Systir mín spurði mig af hverju ég færi ekki. Þá sagði ég við hana: „Fyrst verð ég að drepa tilfinningar mínar.“ Henni fannst það sorglegt.

Eftir þetta reyndi ég að gleyma en sársaukinn var stöðugur. Það var allt traust farið og þegar þarna var komið við sögu, var fyrirtækið orðið mjög illa statt og reikningarnir hrönnuðust upp og það stefndi í það sem ég hræddist mest. Gjaldþrot var framundan og þegar ég frétti að því var ekki afstýrt hrundi veröld mín. Þó að Davíð hafði sagt mér að það væri ekki hægt að ganga á mig eina, var það vitleysa.  Þar sem eignaskiptasamningur lá ekki inni þýddi það að ég ein bar ábyrgð á fyrirtækinu. Þetta var mikið áfall fyrir mig og veröld mín hrundi. Ég skammaðist mín svo mikið og var svo sár út í sjálfa mig. Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat maðurinn minn gert mér þetta? Hvernig gat hann verið svona vitlaus og haldið að það væri hægt að komast hjá þessu? Við slitum samvistum og ég flutti til pabba og mömmu skömmu eftir þetta, þar sem ég þurfti tíma til að hugsa.

Ég fór í bankann og tók út skyldusparnaðinn til að kaupa mér bíl. Það var gamall bíll en ég átti hann og það skipti máli, skuldlaus og nógu ódýr til að enginn nennti að taka veð í honum. Þetta var tjónabíll og bróðir minn Tryggvi hjálpaði mér að laga hann. Ég var að reyna að vera bjartsýn og byrja upp á nýtt en á sama tíma gat ég ómögulega hætt að hugsa um Davíð.


Kafli 2. Þegar ástin bankar upp á

2. kafli Þegar ástin bankar upp á

Ég kynntist Davíð á bar í Hollywood, þar sem ég var að vinna með skólanum á meðan ég var að reyna að klára stúdentinn.

Fyrsta kvöldið sem ég sá hann var hann dauðadrukkinn og vinir hans voru að hjálpa honum í leigubíl.

Þegar ég gekk frá fyrir framan barinn tók ég eftir veski sem hafði gleymst og þegar ég opnaði það mundi ég eftir honum frá því um kvöldið. Ég vissi að ef ég léti veskið í tapað fundið væri ekki víst að hann myndi eftir því að hafa verið þarna á þessum stað, miðað við ástandið á honum þetta kvöld.

Ég fór því með veskið heim og ætlaði að reyna að hafa uppi á honum sjálf. Þetta var kúnninn minn og mér fannst nauðsynlegt að hugsa um mína viðskiptavini. Daginn eftir hringdi ég í öll þau símanúmer sem voru í blokkinni þar sem hann var skráður til heimilis. Það var ekki fyrr en ég var búin að hringja í fjögur númer að það svaraði kona sem sagðist vera móðir hans og bætti því við að hann gisti alltaf hjá henni þegar hann væri í bænum.Ég gaf henni upp heimilisfangið mitt svo hann gæti komið að sækja veskið.

Þegar dyrabjöllunni var hringt heima var ég á klósettinu, svo mamma afhenti þessum ókunnuga manni veskið sitt. Ég rétt sá grilla í hann þegar hann labbaði í burtu og gat því ekki heilsað upp á hann.

Næstu helgi á eftir var ég að vinna eins og venjulega. Davíð kom þá á barinn til mín til að þakka mér fyrir að hafa bjargað veskinu hans. Ég roðnaði niður í tær og bað hann afsökunar á því að hafa ekki talað við hann þegar hann kom að sækja það.

Þegar líða tók á kvöldið kom hann aftur á barinn til mín og spurði hvort hann mætti ekki bjóða mér út að borða í þakklætisskyni. Ég virti hann þá almennilega fyrir mér og sá að hann var ekki drukkinn í þetta skipti. Mér leist ágætlega á hann, þáði því boðið og lét hann hafa símanúmerið mitt svo hann gæti hringt í mig. Ég átti að vera að vinna alla þessa helgi, svo ég sagði honum að það þyrfti að vera næstu helgi, því þá væri ég í fríi.

Þar með var það ákveðið og hann fór og sást ekki meira þetta kvöld.

Vikan leið hratt þar sem ég þurfti að vinna mikið í verkefnum fyrir skólann og ég vildi ná að klára það allt, svo ég gæti fyllilega notið helgarinnar.

Þegar nær dró helginni fór ég að efast um að Davíð myndi hringja og var farin að undirbúa mig fyrir að fara á djammið með stelpunum í staðinn. Þegar ég var á fullu að mála mig hringdi loksins síminn. Hæ!“sagði hressileg karlmannsrödd í símann.“ Hæ svaraði ég feimin á móti. Ég er búinn að panta borð á Sjanghæ fyrir okkur í kvöld.“Já, er það?“ Er það í lagi?“? Já“ rumdi ég aumingjalega upp úr mér. Ég eiginlega þekki ekki þann stað“ bætti ég við. Þetta er besti tælenski staðurinn í bænum“ sagði hann þá sposkur. Já, ok“ svaraði ég þá hikandi. Ég er bara til í allt“ sagði ég svo aftur, aðeins öruggari með mig. Ég fer ekki oft út að borða, þannig að allt kemur til greina.“Frábært!“ sagði hann þá og bætti við: Ég sæki þig eftir hálftíma.“

Þegar hann kom stuttu síðar, settist ég inn í bíl til hans, feiminn en vel til höfð. Ég ætlaði mér svo sannarlega að ganga í augun á honum þetta kvöld. Veitingastaðurinn var greinilega flottur. Það voru dúkar á borðum og þjónn sem kom með matseðil og vínseðil fyrir Davíð að skoða. Drekkur þú rauðvín?“ spurði hann. Ég hef aldrei gert það“ svaraði ég,en ég gæti hugsað mér hvítvín!“

Þannig byrjaði dásamlega notalegt kvöld, fyrsta stefnumótið.

Davíð var blíður og sýndi öllum tillitssemi og virðingu, ólíkt föður mínum. Hann og pabbi voru reyndar að mörgu leyti eins og svart og hvítt. Davíð var ljóshærður, bláeygður og virkaði mjög föðurlegur í útliti. Mér leið vel með honum, en á sama tíma var ég óörugg og fannst ég vera svo óttalega barnaleg og óreynd, þar sem ég var 23 ára þetta árið en hann að verða þrítugur. Við gátum samt spjallað um allt á milli himins og jarðar á meðan við biðum eftir matnum. Það var gott að tala við hann. Þegar maturinn kom og ég smakkaði hann fann ég að þetta var mjög vandaður matur. Ég hafði aldrei borðað svona góðan mat. Davíð hafði greinilega vit á því hvernig velja ætti góðan veitingastað og mér fannst hann vera svo veraldarvanur, þegar hann var búinn að segja mér hvað hann væri búinn gera í gegnum lífið.

Ég bjó ennþá heima, en hér var kominn maður með mikla lífsreynslu. Hann hafði alist upp við erfiðar aðstæður sem höfðu valdið því að hann fór að heiman aðeins 16 ára gamlan. Ég fann til með honum og hugsaði með mér að þó að ég hefði alist upp á ströngu heimili, væri það ekki sambærilegt við það sem hann hefði upplifað. Stjúpfaðir hans var slæmur með víni og barði mömmu hans þegar fauk í hann. Margir í fjölskyldu hans áttu erfitt með vín og voru að mestu ómenntað verkafólk, eins og hann orðaði það. Það sem heillaði mig einstaklega mikið við hann, var hvað hann var með ákveðnar skoðanir á því hvað hann vildi í lífinu. Það var margt sem hann vildi gera og ég fann að hann var með marga drauma um framtíðina, sem mér fannst svakalega spennandi.

Þegar þessu kvöldi var lokið, dró hann upp óútfyllta ávísun sem hann sagði að systir hans hefði lánað honum, þar sem hann væri ekki með ávísanahefti sjálfur. Þessa ávísun notaði hann til að borga fyrir matinn. Hann keyrði mig svo heim og kyssti mig bless á planinu fyrir framan húsið. Ég fann fyrir blíðu í kossi hans og hvað þessi maður var tilfinninganæmur. Mér leið virkilega vel í nálægð hans og hann var ólíkur pabba mínum og það var það sem ég heillaðist af honum. Mér fannst að ég væri búin að finna draumaprinsinn sem myndi vernda mig og sýna mér þá virðingu sem ég þráði.

Við hittumst oftar næstu vikurnar og eyddum meiri tíma saman. Stundum gisti hann heima hjá mér, en ég vildi samt ekki sofa hjá honum strax. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri lauslát. Hann tók því mjög vel og var ekkert að ýta á mig. Þegar ég lét loks slag standa, áttum við ástríðufulla og yndislega nótt saman. Hann spurði mig eftir á, hvort þetta þýddi að við værum þá par. Ég kinkaði þá kolli, feimin að tjá mig frekar um það.

Tíminn leið og þegar skólinn var búinn fór ég að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera um sumarið. Davíð sagði þá við mig að ég gæti flutt til sín, sem mér fannst frábær hugmynd og sló til. Ég saknaði hans líka svo mikið þegar ég gat ekki hitt hann og var farið að líða eins og ég elskaði hann. Kannski gerði hann það líka.

Það var stórt skref fyrir unga stúlku eins og mig að flytja að heiman í fyrsta skipti, en mér fannst ég vera í nokkuð góðum höndum hjá honum.

Þetta var lítill staður fyrir vestan sem heitir Stykkishólmurog er vinalegt bæjarfélag. Fólkið á staðnum var meira eða minna uppalið á þessum stað og tók okkur ungu Reykvíkingunum vel. Davíð þekkti alla í plássinu mjög vel og var vinsæll á meðal fólksins vegna góðmennskunnar sem hann sýndi fólkinu. Ég var ung og feimin, en mér fannst hann sýna mér mikla virðingu fyrir það sem ég var. Honum fannst ég vera af fáguðu fólki. Faðir minn var mjög strangur og stjórnsamur, óblíður og kaldur, en það orkaði á Davíð sem traustvekjandi ímynd hins fullkomna föður. Sjálfur átti hann föður sem var einn af rónunum á götum Reykjavíkur og faðir minn var svo langt frá því að vera sambærilegur. Ég var ósammála honum um þessa hluti, þar sem ég taldi að hann væri ekki búinn að kynnast þeim ströngu reglum sem faðir minn hélt uppi, en ég vissi að hann myndi sjá það seinna.

Þó svo að ég virti föður minn fyrir margt, var leit mín á þessum tíma allt önnur en hans. Pabbi lagði alltaf ofuráherslu á að maður ætti að mennta sig og verða eitthvað. Það sem ég vildi í lífinu var hins vegar fyrst og fremst ást og umhyggja og öruggt heimilislíf. Þetta gat pabbi aldrei skilið.

Davíð gaf mér von um að karlmenn gætu verið blíðir og að ég væri búin að finna það öryggi sem ég leitaði að. Ég fékk vinnu í bakaríinu þar sem Davíð var verkstjóri og pakkaði kökum á meðan hann bakaði. Hann vaknaði klukkan fjögur á næturnar til að byrja baksturinn, en ég þurfti ekki að fara fyrr en klukkan sjö. Hann kom heim á hverjum einasta morgni og vakti mig með kossi og mér leið eins og drottningu í höndunum á honum. Það var þægilegt að vera í nálægð hans og mér leið vel að geta unnið á sama stað og hann, þannig að ég gæti verið nærri honum allan daginn.

Hann sagði samt við mig að þó að hann væri kærasti minn, ætti ég ekki að búast við því að ég fengi sérstaka meðhöndlun í vinnunni. Auðvitað ekki“ sagði ég þá. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri löt til vinnu. Þegar við vorum búin að vinna í mánuð sagði Davíð mér að hann ætti inni sumarfrí og að stelpan sem vann með honum við baksturinn gæti séð um bakaríið á meðan við færum í frí. Ferðalaginu var heitið til systur hans að Hólum í Flókalundi, þar sem við gistum í tvo daga. Þar nutum við friðarins í sveitinni og Gunnhildur systir hans gerði vel við okkur í mat og drykk.

Áfram var förinni heitið að heimsækja aðra systur hans á Reykjanesi, en einnig að skoða bakarí sem hann hafði einu sinni átt. Það var gaman að ferðast svona með honum og mér leið vel að vera ástfangin af manninum sem ég ætlaði að eyða ævininni með. Ég gjóaði augunum til hann þegar hann var að keyra vegna þess að mér fannst hann svo myndarlegur og ég trúði því varla að þessi lífsreyndi maður væri kærastinn minn. Þessi ferð var vel þess virði að keyra alla þessa firði og hlykki sem Vestfirðirnir eru og mér fannst gaman að hitta báðar systurnar. Þær voru hvor annarri vinalegri og mér fannst yndislegt að vera samþykkt af fjölskyldu hans, sem konan hans Davíðs. Ég tók sérstaklega eftir því þegar við vorum í heimsókn á þessum báðum stöðum, hvað hann var barngóður, þar sem systur hans áttu báðar börn. Ég hafði ekkert annað að miða við en föður minn. Davíð var svo sannarlega með vinninginn í þeim efnum hvað varðaði ást og umhyggju.

Allt ferðalagið tók um tvær vikur, þar sem við vorum á Reykjanesi í viku svo hann gæti sýnt mér allt sem hann hafði verið að gera þegar hann bjó þar fimm árum áður. Þegar þessu ferðalagi var lokið fórum við aftur heim á Stykkishólm, þar sem við áttum von á Alfreð frænda hans.

Hann ætlaði að gista hjá okkur í tvo daga. Sumarfríið okkar var búið, en Alfreð kom samt þar sem hann ætlaði að slaka á í fríinu sínu. Hann kom á föstudegi og það var gott því við áttum þá frí og gátum því notið kvöldsins með honum. Við elduðum dýrindismáltíð; piparsteik með bakaðri kartöflu. Þetta var yndislegur maður og Davíð átti góðan félaga í honum, þar sem hann hafði eiginlega alist upp í kringum hann. Hann kom með áfengi úr Reykjavík og bauð okkur í glas og þeir félagar töluðu um gamla tíma á meðan ég hlustaði.

Mér fannst gaman að hlusta á þá rifja upp skemmtilega hluti sem þeir höfðu lent í, en þeir voru líka að rifja upp hluti sem voru ekki eins skemmtilegir, eins og það hvað faðir hans Davíðs væri mikill aumingi, drykkfelldur og óskammfeilinn og hugsaði bara um sína eigin hagsmuni. Hann var víst búinn að fara í margar meðferðir vegna drykkjunnar, en féll alltaf jafnóðum.

Þegar leið á kvöldið tók ég eftir því að Davíð var orðinn nokkuð drukkinn og ólíkur sjálfum sér. Mér fannst það svolítið stuðandi, þar sem ég hafði aldrei séð hann svona. Samt vildi ég líta á þetta sem einsdæmi, þar sem frændi hans var kominn. Oft getur maður opnað sig meira þegar maður með fólki sem manni þykir vænt um. Við fórum að ræða þrítugsafmælið hans Davíðs sem átti að halda upp á í kringum verslunarmannahelgina. Félögunu fannst það góð hugmynd að bjóða fólki í Skorradal, tjalda þar saman og grilla góðan mat. Þeir töluðu um að það væri sniðugt að búa til landa til að geta átt nóg af víni handa öllum gestunum. Þetta var allt undirbúið þetta kvöld og skipulagt hvernig væri best að standa að þessu.

Þegar leið að verslunarmannahelginni ætlaði kaupfélagsstjórinn ekki að hleypa mér í frí, því það var vanalega mikið álag þessa helgi og vantaði fólk til vinnu. Ég sótti það fast og sagði honum að það væri ekki skylda að vinna þessa helgi frekar en aðrar helgar. Þar sem ég vissi um rétt minn varðandi verkalýðssamninga, gafst hann upp og leyfði mér að fara.

Við komum svo í Skorradal með allt sem þurfti til helgarinnar, tjald, svefnpoka, mat og helling af víni. Þangað voru komnir ættingjar frá báðum leggjum og það virtist ætla að vera töluverð veisla úr þessu.

Tjaldbúðir okkar voru þéttsetnar og hægt að rölta á milli tjalda með sjússinn sinn, spjalla, hlægja og syngja. Við Davíð og Alfreð vorum að grilla læri, grafið í jörð, en það hafði ég lært í Bandaríkjunum þegar settar voru upp veglegar barbecueveislur. Lærið eldaðist hægt og nörtuðum við í annað á meðan við biðum. Þegar líða tók á veisluna, tók ég eftir því að Davíð var orðinn nokkuð hífaður. Hann kom til mín inn í tjald þar sem ég var að stússast og var þungbúinn á svip.

Hann spurði mig pirraður: Hefur þú sofið hjá svertingjum? Hvað meinarðu? sagði ég. Ég vil bara fá að vita það, sagði hann nokkuð æstari. Nei, ég hef ekki gert það, svaraði ég. Hvað er vinkona þín þá að ljúga? spurði hann þá. Ég sagði honum að það kæmi honum ekki við hvað ég hefði gert í fortíðinni, áður en hann kom inn í myndina. Hann varð þá mjög reiður, stóð upp og labbaði burt. Þetta varð til þess að veislan varð stirðari, þar sem afmælisbarnið var í fýlu.

Ég lét það ekki á mig fá en settist samt hjá foreldrum mínum til að njóta verndar þeirra og öryggis, þar sem mér leist ekki á reiðina í Davíð. Þegar ég sagði þeim þetta, spurðu þau hvort það væri ekki hægt að laga þetta með því að sættast. Mér fannst ólíklegt að það yrði nokkuð úr því þetta kvöld, þar sem Davíð var farin að draga sig út úr hópnum og lét ekki sjá sig. Þegar líða tók á nóttina og Davíð var ennþá í fýlu, labbaði ég til hans til að athuga stemninguna. Hann var með snúð og ég sagði við hann að ef hann gæti ekki sætt sig við að ég ætti mér fortíð, gæti ég farið með foreldrum mínum heim daginn eftir. Hann hummaði bara eitthvað óskiljanlegt, svo ég gekk í burt og fór að sofa. Þegar ég hafði sofið í svona klukkutíma, fann ég í gegnum svefninn að Davíð kom inn í tjaldið og tók utan um mig. Hann hafði þá séð að sér og tók ég því sem samþykki að hann vildi ekki að ég færi með pabba og mömmu í bæinn. Þetta endaði þá nokkuð vel, en ég fann að það var greinilega sumt sem pirraði Davíð sem snerti fortíð mína og taldi vissara að vera ekkert segja honum frá mínu lífi. 


Kafli 1. Æskan

1. kafli Æskan

Ég átti ekki marga vini. Einu vinir mínir voru Tryggvi bróðir minn, Halldóra systir mín og nokkrir krakkar í hverfinu. Ég var að mestu einfari þegar við fluttum upp í Efra-Breiðholt. Þá var náttúran í Elliðaárdalnum aðaldvalarstaður minn, sérstaklega á sumrin.

Þá daga sem ég gekk niður að Elliðaá til að skoða hreiður sem ég var að fylgjast með, staldraði ég gjarnan við þegar hestamenn riðu framhjá á tölti og sá hvað þeir geisluðu af gleði, sitjandi á fákum sínum brosandi út að eyrum. Ég óskaði þess svo heitt að geta eignast einn af þessum hestum. Bara ef pabbi og mamma gætu nú leyft mér að kaupa hest, hugsaði ég með mér. Ég held samt að þau hafi ekki viljað það, þar sem ég var of ung til að borga það sem þyrfti til að hugsa um hest. Ég lofaði sjálfri mér að ég myndi kaupa mér hest einn daginn. Ég meira að segja bað, með tárin í augunum, til Guðs um að hjálpa mér að láta þann draum rætast. Ég hélt að ef ég myndi gráta myndi hann hjálpa mér að eignast hann frekar, því ef ég gréti, þá væri það af öllu hjarta. Ég fékk ekkert svar frá Guði og stundum efaðist ég um að hann væri til, samt vildi ég trúa því, þar sem annars hefði ég ekki þennan styrk sem mig vantaði. Ég bað líka Guð um annað. Það var að sýna mér hvernig ég gæti lagað rifrildið heima.

Pabbi vann myrkranna á milli til að borga niður húsið og mamma var í skóla í Fjölbraut í Breiðholti á þessum árum til að taka stúdentinn, en ætlaði svo í áframhaldandi háskólanám. Það var alltaf svo mikið að gera hjá henni í þessu námi og pabbi bannaði okkur að trufla hana svo hún gæti lært. Henni gekk vel í náminu í framhaldsskóla og fékk fjölda verðlauna. Svo þegar hún fór í sjúkraþjálfann í Háskólanum féll hún, en það var verulega strembið nám. Pabbi keypti þá plötu handa henni með laginu Fallinn“ með hljómsveitinni Tívolí. Þetta fannst mér vera til þess eins að lítillækka mömmu og niðurlægja hana, því hún tók þennan gálgahúmor í pabba mjög nærri sér. Hún lét þetta samt ekki brjóta sig niður og uppfyllti draum sinn um menntun og fór í hjúkrun, sem hún náði með glans.

Pabbi sá mest um að tukta okkur til en fór þó oft með okkur á skíði þegar tími gafst til. Mamma sá um að taka til nestið og þá fékk ég brauð með spægipylsu og kakó í fyrsta sinn. Í skíðaferðum verður maður svangur eins og úlfur eftir að vera búinn að djöflast í brekkunum.

Það var mikið álag á pabba og það virtist eins og það væri aldrei neitt nógu gott fyrir hann. Mér fannst stundum að við krakkarnir værum fyrir honum. Ég spurði hann meira að segja af því af hverju hann hefði eignast börn og hann sagðist ekki vita það. Hann var alltaf að skamma okkur fyrir eitthvað. Annaðhvort var það smjörið sem við gleymdum á borðinu eða þá að við brutum glas. Það fór sérstaklega í taugarnar á honum hvað ég var matvönd. Ég gat ómögulega borðað kartöflur og sérstaklega ekki þegar ég var búin að sitja við borðið í hálftíma á meðan ég var að reyna að mana mig til að borða þær. Ég einfaldlega kúgaðist við það að borða þessa slepjulegu kartöflur. Pabbi elskaði þær aftur á móti og skildi ekki af hverju ég þyrfti að vera með þetta vesen í sambandi við það. Hann rak mig eitt sinn út fyrir að vilja ekki borða kartöflur og þá sat ég úti og grét á meðan ég skammaðist mín fyrir að vera svona mikill aumingi en ég var samt reið út í pabba. Stelpa í hverfinu, sem hét Sólveig og varð seinna vinkona mín, gekk framhjá þegar ég sat þarna grátandi. Hún spurði mig af hverju ég væri svona leið. Þegar ég sagði henni það, fannst henni skrítið að faðir minn væri svona strangur. Það var í fyrsta skipti sem ég áttaði mig á því að það var ekki eðlilegt að taka svona harkalega á hlutunum. Ég var bara orðin svo vön því og þekkti ekkert annað.

Eitt sinn var pabbi úti í glugga á efri stofunni að skjóta á ketti með loftriffli, þar sem hann þoldi ekki kettina í hverfinu. Sigursteinn bróðir var þá að gefa fuglunum að borða, þar sem það var vetur og verulega kalt. Þá datt pabba í hug að vera fyndinn og skaut í lærið á honum. Hann hló svo hrossahlátri þegar Sigursteinn kipptist við. Haglið fór ekki í gegnum skinnið en ég stóð á meðan og fylgdist með til að reyna að átta mig á því hvort þetta væri eðlileg hegðun. Ég var kannski ekki nema 10 ára og hafði ekki vit á því. Ég hafði áhyggjur af því hvort Steini hefði meitt sig.

Pabbi öskraði gjarnan á okkur og sagði að við værum heimsk eða vitlaus ef við gerðum eitthvað sem honum féll ekki. Mér fannst ég líka frekar heimsk. Þar sem mér gekk illa í skóla og þegar ég var 14 ára féll ég í flestum fögum, nema myndlist og íþróttum.

Ég blandaði ekki geði við skólafélaga, vegna þess að ég hafði ekki kjark til þess að kynnast þeim. Svo bjóst ég við því að þau myndu taka eftir því hvað ég væri vitlaus.

Ég átti aðallega Tryggva bróður sem félaga, en átti ekki samleið með eldri bróður mínum, Sigursteini. Hann fór reyndar í taugarnar á mér. Hann var til dæmis alltaf að kryfja matinn þegar maður var að borða og svo mátti maður ekki smjatta við borðið eða anda þegar við vorum að spila Matador.

Við Tryggvi aftur á móti gerðum ýmislegt sem mamma og pabbi vissu ekki af. Við fórum oft út á nóttunni til að vafra um göturnar og stundum reyndum við að stela einhverju í þessum göngutúrum. Nótt eina fyrir páska þegar við vorum að labba hjá Hólunum, sáum við bíl sem var ólæstur og það var heil kippa af líters sprite inni í bílnum. Tryggvi stakk upp á því að taka þetta en hætti svo við. Ég hélt nú ekki. Tryggvi mátti ekki halda að ég væri aumingi eða heigull, þannig að ég opnaði bílinn, hrifsaði kippuna út og hljóp á eftir honum. Hann kallaði á mig að ég væri brjáluð og svo hlupum við eins og fætur toguðu heim og drukkum gos alla páskana. Ég var ekki vön að gera þetta en ég gerði allt til að ganga í augun á Tryggva.

Tryggvi var reyndar vandræðastrákur og skýringin var sennilega sú að hann var í uppreisnarham gegn pabba. Hann varð oft fyrir barðinu á honum. Eitt lítið dæmi var þegar Tryggvi var eitt sinn að lesa Moggann við eldhúsborðið á meðan mamma var að leggja á borð. Þá sagði pabbi: Hættu að lesa við borðið þegar mamma þín er að koma með matinn.“ Tryggvi hlýddi auðvitað, því annars yrði tekið í hann. Þegar mamma var næst að elda matinn var pabbi að lesa blaðið við borðið og þá datt upp úr Tryggva; Er ekki bannað að lesa blaðið við borðið þegar mamma er að koma með matinn?“ Pabbi sló hann þá utan undir fyrir að vera með þessa afskiptasemi, en Tryggvi stóð þá upp reiður og labbaði inn í herbergið sitt. Hann fékk ekkert að borða það kvöldið. Það var ósjaldan sem Tryggvi lenti í svona rimmu við pabba, enda var hann með munninn fyrir neðan nefið. Mömmu leiddist svona hegðun hjá feðgunum, en sagði ekkert þar sem hún vildi ekki bæta á bálið.

Pabbi stjórnaði okkur með heraga og þegar mamma var að reyna að blíðka ástandið sagði pabbi að það þýddi ekkert að vera með neitt vol og væl. Það þarf að kenna krökkunum að heimurinn er ekki auðveldur.“ Ég spurði Guð að því næst þegar ég labbaði niður í Elliðaárdal, hvort það væri ekki hægt að laga þennan heim með því að gera það öll saman. Hann svaraði mér engu og þá spurði ég hann hvort hann gæti ekki tekið mig til sín, þar sem mig langaði ekki að lifa í svona vondum heimi.

Ég fór að finna fyrir þessum þungum hugsunum þegar líða tók á grunnskólann. Ég las allar bækur sem ég fann um yfirnáttúrulega hluti, til dæmis Nostradamus og Draumráðningar. Ég byrjaði að leika mér að spá í tarotspil, en ég hafði heyrt að ef maður gæti spáð í spil væru það einmitt slík spil sem virkuðu. Kenningin um pólskipti heilluðu mig, en ég vonaði að norðurpóllin myndi falla niður á miðbaug þannig að við Íslendingar myndum loksins búa í heitu löndunum. Þessi flótti frá raunveruleikanum var leið fyrir mig til að losna við þann sársauka sem ég fann í hjarta mér.

Í eitt skiptið þegar ég var með Tryggva bróður, kærustunni hans og vin í bíltúr, ákváðu þeir félagarnir að ræna bíl. Við stelpurnar biðum í bílnum á meðan þeir voru að þessari iðju, þar sem okkur fannst þetta ekki sniðugt. Þeir voru lengi í burtu og það endaði með því að við sofnuðum í bílnum hans Tryggva og vöknuðum við það að löggan bankaði á rúðuna. Þegar við skrúfuðum niður rúðuna spurði löggan okkur hvort við þekktum Tryggva og Ólaf. Við játuðum því og þá vorum við beðnar um að koma með þeim niður á lögreglustöð, þar sem srákarnir höfðu verið handteknir og við áttum að bera vitni.

Kærastan hans Tryggva var hágrátandi á meðan ég var að hugsa hvernig ég ætti að ljúga okkur út úr þessu. Þegar ég hitti Tryggva á lögreglustöðinni hvíslaði hann að mér: "Óli keyrði ekki.“ Ég kinkaði kolli og vissi þá að ég ætti ekki að segja frá því að hann hefði keyrt, þar sem hann var í glasi, enda hafði ég ekki séð það. Við vorum svo yfirheyrðar og ég hélt mig við þá sögu sem ég vissi að ég ætti að gera, að Tryggvi hefði keyrt bílinn og Óli verið farþegi. Seinna þurfti samt að kalla okkur aftur á stöðina í aðra yfirheyrslu þar sem þeir voru ekki sáttir við vitnisburðinn. Þá sagði Tryggvi mér að segja sannleikann að Óli hefði keyrt þetta kvöld. Þetta var stutt yfirheyrsla þegar ég talaði við lögregluna í annað sinn þar sem það fyrst sem ég sagði þegar ég var sest í stólinn fyrir framan lögregluna sem tók skýrsluna að Friðbert hefði keyrt. Hann sagði þá að ég mætti fara.

Lögreglan hafði víst sagt við pabba þegar á þessu stóð að svona gutta þyrfti að berja. Pabbi var ekki vanur á láta segja sér fyrir verkum og notaði því aðra taktík í þetta skipti. Hann keypti í staðinn bílinn sem strákarnir höfðu rænt af manninum og sá lét þá málið niður falla. Tryggvi fékk svo að borga hverja krónu til baka með blaðburði og bæta þannig fyrir brot sitt. Ég sá því aðra hlið á pabba í þetta sinn og hugsaði með mér að þetta hefði hann átt að gera fyrr. Hann gat sem sagt notað uppbyggilega aðferð í uppeldi, ef hann bara gaf sér tíma til þess.

Ég byrjaði að drekka áfengi 17 ára gömul þegar ég var að vinna í Ölgerðinni. Þar kynntist ég stelpu sem hét Anna og ég hékk mikið með henni. Foreldrar hennar drukku mikið og voru fráskyldir og ég fann að þetta var allt öðruvísi heimur en sá sem ég kom frá. Ég var í uppreisnarham, þar sem ég þoldi ekki stjórnsemina í pabba og mig langaði að komast í burtu.

Anna var í dópi og foreldrum mínum leist ekkert á það að ég væri með henni, þar sem þau grunaði að ég væri komin í slæman félagskap. Hann var það líka, en ég var ánægð vegna þess að Anna var fyrsta alvöru vinkona mín. Það togaðist ýmislegt á hjá mér, þar sem ég var bæði í uppreisn gagnvart heraga heimilisins, en ég vildi líka halda áfram námi. Anna var komin af óregluheimili þar sem hún var yngst, ásamt tvíburabróður sínum og henni leið ekki vel á heimilinu. Hún var því alltaf að stinga af og eitt kvöldið gerði ég það líka. Ég var á flækingi með henni í þrjá daga, þar sem við sváfum bara þar sem okkur var boðið. Þetta ævintýri endaði samt á því að ég og önnur stelpa húkkuðum far á Flúðir með Önnu uppdópaða í eftirdragi og skildum hana eftir á meðferðarheimili sem var þar.

Eftir þetta hætti ég að umgangast hana og fór aftur að einbeita mér að skólanum, þar sem þetta var ekki heimur sem mig langaði að vera í. Þegar ég hugsa til baka var þetta eiginlega svartasti heimur sem ég hef lent í. Ég fann að ég var ekki eins og systkini mín. Þau gátu lært og einbeitt sér á meðan ég var með hugann úti um allar trissur. Ég vildi samt reyna að ná stúdentinum. Ég var alltaf að flosna upp úr skóla en byrjaði svo aftur eftir einhvern tíma, þannig að námið sóttist seint.

Ég var líka búin að vera að flýja heimilið frá því að ég var 11 ára og fór því í sveit. Fyrsta árið mitt passaði ég barn sem var hrætt við dýr, þannig að það hentaði mér illa. Ég sóttist eftir að komast í alvöru sveit með dýrum og heyskap. Þar sem ég var meira fyrir hesta en kýr hefði ég átt að reyna að komast á þannig býli, en það voru bara fá hrossabú á þessum árum, þar sem mjólkurbú þóttu betri tekjulind. Önundur, maðurinn hennar Helgu systur hennar mömmu, var reyndar með hrossabú og fór í það að flytja íslenska hestinn út og kynna hann fyrir erlendum ferðamönnum sem komu til Íslands. Ég fór oft til þeirra í heimsókn en það varð aldrei sveitardvöl að ráði, þar sem þau voru með vinnufólk frá Þýskalandi.

Þegar ég var 19 ára ákvað pabbi að bjóða mér til útlanda. Við höfðum öll fjölskyldan farið til Norðurlandanna þegar við krakkarnir vorum litlir og átti ég góðar minningar þaðan. Systkini mín höfðu svo öll farið í ferðalög á unglingsárunum, nema ég. Ég var svo sem ekkert að sækjast eftir því þar sem mér leið ekki vel að vera ein með pabba. Ég kunni ekki að umgangast hann og ég hræddist reiðiköstin hans. Ég sagði því við pabba að ég færi aðeins ef mamma mætti koma með, enda fannst mér tími til kominn að hún fengi að ferðast, þar sem hún hafði aðeins einu sinni farið til útlanda. Það varð úr að við fórum þrjú til Þýskalands, þaðan alla leið til Austurríkis og í gegnum Frakkland til baka.

Þessi ferð var undraverð og við byrjuðum í Luxembourg og keyrðum í gegnum Trier. Þar voru fjallshryggir út um allt og vínekrunar teygðu sig svo langt sem augað eygði. Ég keypti mér disk með Phil Collins og spilaði hann allan tímann á meðan við keyrðum um þessa draumaveröld.

Það voru kastalar úti um allt og ég tók sérstaklega eftir því hvað Þjóðverjar borðuðu veglegar máltíðir og ég gat aldrei klárað af disknum mínum. Ég ákvað því að panta mér bara skinkusamloku næst þegar við borðuðum. Ég fékk mér bjór í fyrsta skipti, en á þessum tíma var hann ekki til á Íslandi. Okkur fannst það öllum voðalega flott.

Mamma sá um að segja pabba hvaða leið við ættum að fara og var með kortið. Þegar leið á ferðalagið tók ég eftir því að pabbi var eitthvað farinn að byrsta sig við mömmu. Ég fylgdist vel með henni og tók eftir því að hún var eitthvað óróleg og sneri kortinu á alla kanta. Ég tók af mér heyrnatólin og heyrði þá pabba vera að skammast eitthvað í henni og hann spurði hvort hún væri ekki háskólagengin og ætti þá að kunna jafn ómerkilegan hlut og að lesa kort. Mamma varð alltaf órólegri því oftar sem pabbi lét skammirnar dynja á henni og ég sá að henni leið illa. Ég tók af mér beltið og hallaði mér nær og fór að rýna í kortið til að sjá að hverju þau voru að leita. Á meðan æstist pabbi meir og meir og kippti á endanum í stýrið þannig að bíllinn rásaði á hraðbrautinni, á meðan hann öskraði: Á ég ekki bara að keyra hérna út af!?“ Ég varð logandi hrædd, þar sem ég sveiflaðist í bílnum og öskraði á hann að stoppa bílinn úti í kanti. Þegar hann gerði það loksins, fór ég út úr bílnum og öskraði á hann að ef hann ætlaði að keyra svona, og jafnvel drepa okkur öll, ætlaði ég ekki að keyra meira með honum.

Við stóðum þarna dágóða stund. Ég var öskureið út í pabba að hann gæti stjórnast með líf okkar endalaust. Ég var líka pirruð út í mömmu að hún sagði honum ekki að fara til fjandans. Hann þurfti aldrei að taka afleiðingum gjörða sinna. Mig langaði að henda pabba út í skurð og við mamma myndum halda ferð okkar áfram. Við fórum svo að skoða kortið á ný.

Ég var reið, pirruð og ennþá með kvíðahnút í maganum þar til þau fundu loksins það sem þau voru að leita að. Þá settumst við öll inn í bílinn og keyrðum að tjaldsvæði sem var þar rétt hjá. Þegar þangað var komið, sáum við fullt af rútum og ákváðum að ganga aðeins um til að skoða hvað væri að gerast. Við áttuðum okkur fljótt á því að við vorum lent í miðri uppskeruhátíð vínekrubænda. Þarna gátum við gengið á milli húsa og fengið að smakka hverja tegundina af hvítvíni á fætur annarri, sem var alls ekki amaleg vinkilbeygja í daginn. Þegar við vorum búin að smakka nokkrar vel valdar tegundir, var farin að hífast upp í okkur gleðin, öll urðum við aftur vinir og kvöldið endaði í óvæntri hamingju.

Þegar við komum heim frá Þýskalandi hélt ég áfram með skólann og fór á djammið með Halldóru systur og vinkonum hennar, sem urðu svo vinkonur mínar líka.

Ég var þá að vinna í sjoppu með Sólveig vinkonu og vorum við að hugleiða hvað við ætluðum að gera í sambandi við það að ferðast. Okkur langaði að ferðast meira og Sólveig hafði aldrei farið til útlanda, þannig að ég sökkti mér í það að finna leið til þess. Ég sá þá auglýsingu í blaði þar sem var verið að óska eftir Íslendingum til að vinna á hóteli í Sognefjord í Noregi. Við skelltum okkur í það eftir að Sólveigu tókst loks að fá föður sinn til að samþykkja að hún mætti fara. Þetta ferðalag var ævintýralegt og við vorum í þrjá mánuði úti. Við ferðuðumst mikið um Noreg og kynntumst fullt af Íslendingum og Norðmönnum. Þar lærðum við norsku, þar sem við þurftum á því að halda til að fá að vinna í kaffiteríunni á hótelinu. Við Íslendingarnir vorum miklu duglegri að vinna en norsku stelpurnar sem unnu þarna. Við vorum endalaust að biðja um aukavinnu til að hífa tekjurnar upp. Við gátum þetta á meðan Íslendingarnir voru ekki allir komnir, en þegar þeir komu þurftum við að skera vinnutímann niður í sex klukkustundir á dag. Það voru bara reglur í Noregi.

Þessi ferð var æðisleg en þar sem ég hafði ferðast mikið og farið oft í sveit í æsku, var þetta ennþá meira ævintýri fyrir Sólveigu.

Eftir þetta ferðalag fann ég fyrir þungum þönkum á ný. Ég var eitthvað niðurdregin og við stelpurnar vorum farnar að djamma mikið.

Eitt kvöldið þegar ég var heima hjá Sólveigu vinkonu með Erla, Halldóra og Ingu ætlaði ég að fara að sofa. Mér datt þá í hug að taka inn asperínlyf sem ég fann inni í eldhússkáp. Ég innbyrti allt sem var í glasinu og lagðist svo til svefns í herberginu hennar Sollu. Ég vaknaði svo við það að Solla var að rífa mig á fætur til að reka mig úr rúminu. Þar sem ég átti heima mjög stutt frá, gekk ég heim og ætlaði að leggjast til svefns. Það var þá kominn dagur og mamma sá að það var eitthvað að mér. Hún hætti ekki fyrr en ég sagði henni hvað ég hefði verið að taka inn og þegar ég sagði henni það hringdu þau á sjúkrabíl. Þegar ég kom inn í hann datt ég út. Það var farið með mig niður á bráðavakt og dælt upp úr mér. Ég var látin drekka kol og það var ógeðsleg upplifun.

Eftir þetta var ég send til geðlæknis. Það gekk ekki betur en svo að ég vildi ekki fara aftur, þar sem hann sagði við mig að hann ætlaði ekki að láta mig fá nein lyf. Það var eins og hann héldi að ég væri dópisti. Ég fór bara til hans af því að ég var send þangað.

Ég náði mér svo upp úr þessu sjálf með því að ýta því bara frá mér, eins og ég var vön að gera í mótlæti. Ég komst aftur í gírinn og hélt áfram í skólanum og vann með þar sem ég þurfti að eiga fyrir sígarettum.

Þegar leið á sumarið 1986 langaði mig aftur að fara burt. Þessi stanslausi flótti frá heimilinu var leið fyrir mig til að hvíla mig á erfiðleikunum heima. Ég ákvað að fara til Bandaríkjana sem au-pair, að vinna við að passa fimm krakka og þrífa. Pabbi hafði miklar áhyggjur af því að ég færi svona langt, en ég gat sannfært hann að ég myndi búa inni á heimili hjá góðu fólki. Þessi tími var mjög skemmtilegur. Þetta var í eyðimörkinni í Arizona. Það að vera með gras í garðinum þýddi að fólk var vel efnað. Þetta fólk sem ég vann hjá var líka vel efnað og átti fyrirtæki sem leigði út íbúðir. Ég var oft send til að þrífa þessar íbúðir þegar var verið að skipta um leigjendur.

Ég vann rosalega mikið á þessum tíma og tók sjaldan frí. Þegar Lára, íslenska konan sem hafði haft milligöngu um að útvega mér starfið, sá álagið sem ég var undir, ákvað hún að fara með mig á pöbb til að leyfa mér að lyfta mér upp. Fram að því hafði ég bara unnið mikið og aðeins farið á hjóli í skemmtiferðir á sunnudögum. Ég hjólaði þá um um hverfið og fór í yfirbyggðar verslanir eins og Kringluna, sem voru að kölluð Mall. Þegar ég fór með Láru á pöbb, uppgvötvaði ég að ég gæti kynnst fleira fólki með því að sækja pöbbana. Ég var nefnilega ekki eins og fólkið sem ég vann fyrir, sem var að fara í kirkju og svoleiðis.

Fólkið var svolítið hrætt um mig að vera að fara svona ein á nóttunni, en ég var sjálfbjarga og ég áttaði mig á því að við Íslendingar erum sjálfstæðari en Ameríkanar. Meira að segja fannst mér frekar undarlegt að dóttir ömmunnar í fjölskyldunni byggi ennþá heima, þó að hún væri orðin 26 ára. Það var ekki hefðin á Íslandi og pabbi var meira að segja búinn að segja mér að ég þyrfti að fara að hugleiða það að flytja að heiman frá 18 ára aldri.

Þegar ég fór að stunda pöbbana kynntist ég strákum. Ég fór meira að segja með nokkrum strákum á sjóskíði á eitthvert vatn þarna í nágrenninu. Maður var náttúrulega að drekka og skemmta sér. Fólkið sem ég vann fyrir og þá sérstaklega ömmunni leist ekki á blikuna þegar ég var að koma heim undir morgunn á sunnudegi. Þetta var samt svo eðlilegt fyrir mér að ég lét það ekki á mig fá. Amman meira að segja sagði mér að passa mig að verða ekki ólétt. Ég var auðvitað búin að vera á pillunni frá því ég var 18 ára og byrjaði með kærastanum mínum á þeim tíma. Ég sagði henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, en fannst það svolítið fyndið að hún var að ráðleggja mér eitthvað svoleiðis. Þau voru bara ekki vön því að stúlka hegðaði sér svona. Þetta var ævintýri sem ég gleymi seint.

Það var gaman að vera í Bandaríkjunum og upplifa stemninguna sem er í kringum Bandaríkjamenn. Þetta ferðalag olli því að ég leit Bandaríkin öðrum augum. Ég hafði upplifað þau áður í gegnum amerískar bíómyndir, sem gefa manni rómantíska hugmynd um þau. Í staðinn sá ég að þetta var bara fólk eins og við nema barnalegra.

En ég sá náttúrulega aðeins smáhluta af því, þar sem ég var einangruð við Phoenix.

Þegar ég kom svo frá Bandaríkjunum, hélt ég áfram að reyna við skólann. Það gekk hægt eins og venjulega, þar sem ég gat ekki tekið mörg fög. Ég fór að vinna í Hampiðjunni. Þetta var ekki vinnustaður sem ég vildi ílengjast á. Það var þrúgandi loft í verksmiðjunni en ég gerði það til að eiga fyrir fötum og því sem ég þurfti í skólann.

Ég vann þarna í ár en þá fór ég í kvöldskóla þar sem ég var einhvers konar öldungur miðað við hina krakkana. Ég fór þá að vinna á Hótel Borg og vann við að strauja dúka. Mér gekk vel í skólanum þann veturinn, þar sem gömlu konurnar í þvottahúsinu höfðu róandi áhrif á mig og mér tókst að lesa á meðan ég var að vinna og svo þegar það kom matarhlé vann ég í reikningsverkefnum. Ég man einstaklega vel eftir því þegar ég var að lesa Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness og fékk 10 í einkunn í prófinu á þeirri bók. Ég var afskaplega upp með mér þar sem ég var ekki vön því að fá svo háa einkunn.

Eftir þetta fór ég að vinna í Hollywood sem barþjónn og skráði mig í skólann aftur og þá í dagskóla, þar sem ég gat þá tekið fleiri fög. Ég ætlaði að klára hann hvað sem tautaði og raulaði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband