Kafli 20 fósturmissir

20. kafli

Sorgin

 

Stuttu eftir þetta varð ég ófrísk og fór að hafa áhyggjur af því að barnið yrði fatlað vegna þess að ég var að taka lyf sem gætu skaðað fóstrið á byrjunarstigi þroska þess. Ég fór því til læknisins míns til að spyrja hann um skaðsemi þessara lyfja og hann sagði mér að eitt af þessum lyfjum gæti skaðað en það væri ekki sannað.

Ég fór þá heim og sagði Asjad það og sagði honum að við yrðum að eyða því, þar sem ég vildi ekki leggja það á barn að vera kannski verulega fatlað. Hann var ekki sammála um að eyða því og sagði að hann væri tilbúinn að eignast það barn sem okkur yrði gefið. Ég gat þó ekki losað mig við þennan ótta og sagði að ég ætlaði að fara í fóstureyðingu án hans samþykkis. Ég taldi mig ábyrga að koma í veg fyrir að skaða barnið ef ég gæti.

Ég pantaði mér tíma hjá félagsráðgjafa á kvennadeild Landspítalans. Ég sagði henni sögu mína og að faðirinn vildi ekki að ég færi í fóstureyðingu. Hún sagði við mig að öll vildum við geta stjórnað lífi okkar. Ef við teldum að því væri ógnað, reyndum við að koma í veg fyrir það. Hún náði að sannfæra mig um að fóstureyðing væri það eina rétta í stöðunni á meðan ég væri að taka þessi lyf. Hún sagði að ég gæti alltaf orðið ófrísk aftur eftir að ég væri hætt á lyfjunum.

Það varð úr að ég fékk tíma í fóstureyðingu. Það var ekki auðvelt í þessari stöðu en þegar ég var að sofna út frá svæfingarlyfinu, sagði ég við Guð: Fyrirgefðu mér, ég er að reyna að gera það rétta. Ég vil bara það sem er barninu fyrir bestu. Ég vissi ekki hvort barnið væri heilbrigt eða skaddað en tók þessa ákvörðun þar sem ég treysti á að hún væri rétt. Þegar ég kom heim þennan dag, var sorg í andliti mannsins míns. Hann var með áhyggjur af því að við værum að brjóta af okkur og Guð myndi refsa okkur. Ég sannfærði hann um að við værum að reyna að vera raunsæ.

Við ákváðum að tala aldrei um þetta aftur en mér finnst þetta skipta máli, þar sem þetta sýnir hvað við mennirnir eigum það til að reyna að stjórna örlögum okkar.

Þegar nokkrir mánuðir voru liðnir og ég var hætt á lyfjunum, ákváðum við að prófa aftur. Það gekk eins og í sögu og allt virtist vera á réttri leið. Ég var kvíðin en samt hlakkaði mig til.

Þegar ég var gengin átta vikur með vott af blettablæðingum fórum við í sund. Ég var ekki vön að fara í sund, en þennan dag fannst mér það vera ágætis hugmynd. Við fórum í Sundhöll Reykjavíkur. Þar er innilaug og það var kalt þennan aprílmorgun. Þegar við vorum komin í laugina, spurði ég Asjad hvort hann vildi fara á stökkbrettið. Hann hristi hausinn glottandi og sagðist ekki þora því. Ég manaði hann að prófa, þar sem ég vissi að það var einstök upplifun.

Ég vissi að 10 metra brettið var svolítið hátt og það þurfti kjark til að stökkva af því ef maður hafði aldrei gert það áður. Asjad sagðist ekki treysta sér til þess og það endaði með því að ég fór sjálf. Ég hélt að hann myndi kannski treysta sér ef ég gerði það. Þegar ég var komin upp og leit niður, sá ég að þetta var svolítið hærra en ég mundi. Ég hugsaði út í það í skamma stund hvort það væri ráðlegt að ég gerði það af því að ég var ófrísk. Ég ýtti þeirri hugsun þó frá mér þar sem ég vildi ekki fara niður án þess að stökkva.

Ég horfði á vatnið fyrir neðan mig og reyndi að sjá fyrir mér hvernig ég ætlaði að lenda. Ég vildi stökkva beint með fæturna á undan. Ég lokaði augunum og dró djúpt andann, þar sem ég hafði gert þetta áður og vissi að maður sekkur nokkra metra við svona hæð og þarf að kafa örlítið. Þegar ég lenti í vatninu fannst mér að eitthvað hefði gerst. Það var eins og eitthvað hefði farið af stað. Ég fann að maginn á mér varð fyrir þrýsting.

Ég horfði flóttalega á manninn minn og hann sá það í andlitinu á mér. Hann spurði mig hvað væri að. Ég sagði við hann: „Það gerðist eitthvað, ég þarf að fara upp úr.“ Þegar ég kom upp úr sá ég að mér blæddi. Ég hljóp niður í kvennaklefann og ætlaði að flýta mér í sturtu og föt. Það voru litlar stelpur sem horfðu á mig óttaslegnar. Þetta minnti mig á upplifun sem ég hafði orðið fyrir sem barn. Ég hafði einmitt verið í þessari sundlaug og séð konu koma hlaupandi þarna niður tröppurnar með blóðið rennandi niður lærin, alveg eins og ég var að lenda í.

Við fórum uppúr lauginni og ég beið nokkra stund úti í bíl eftir þeim þar sem ég hafði skilið Asjad eftir með börnin. Ég sat þögul og sorgmædd. Ég var að hugsa um það, hvort þetta væri refsing vegna þess að ég hefði eytt fóstrinu. Maðurinn minn reyndi að hugga mig með því að kaupa ís fyrir okkur. Hann taldi að ís gæti læknað flest andleg sár.

Þegar við komum heim, fór ég í rúmið og vonaði að ég myndi geta stöðvað blæðinguna með því að taka því rólega. Ég hafði misst fóstur þrisvar sinnum áður og vissi að það var hægt að hægja á blæðingunni með því að slaka á.

Þegar nokkrir dagar voru liðnir og ég var farin að sætta mig við að fóstrið hefði dáið, fann ég að einkennin sem fylgja því að vera ófrísk hurfu ekki. Blæðingin hafði breyst og var að mestu hætt. Ég sagði við manninn minn frá þessari tilfinningu. Hann hélt að ég væri ekki búin að sætta mig við að það hefði farið þennan dag. Ég pantaði tíma á kvennadeild Landspítalans til að láta skoða mig. Á leiðinni niður á spítala bað ég til Guðs um að gefa mér annað tækifæri og lofaði í leiðinni að ég myndi alls ekki eyða því ef það væri einhver möguleiki á að það myndi lifa.

Þegar hjúkrunarkonan var búin að sóna mig sagði hún mér að hún sæi tóman belg. Ég varð sorgmædd og vissi að þá væri þetta búið. Ég sætti mig við það og hugsaði með mér að við gætum alltaf reynt aftur. Þegar ég var í þessum hugsunum, sagði hún við mig að hún sæi annan belg. Hún skoðaði hann og sagði loksins með bros á vör: „Það er hjartsláttur í honum.“ Ég vissi ekki hvort ég væri að heyra rétt og spurði hana: „Var ég þá með tvíbura?“ Hún kinkaði kolli til mín og sagði að ég skyldi fara heim og hvíla mig til að láta blæðinguna stöðvast alveg, svo hún myndi ekki ýta þessu fóstri út.

Ég var í skýjunum þegar ég kom heim. Maðurinn minn tók á móti mér og ætlaði að hugga mig, því hann taldi að ég hefði fengið staðfestingu frá lækninum um að fóstrið væri farið. Ég sagði honum þá fréttirnar og hann varð mjög undrandi en kátur í leiðinni. Hann tók utan um mig og sagði við mig: „Andrea, við eigum að fá annað tækifæri.“ Lífið er ótrúlega hverfult frá einni mínútu til annarrar. Við fórum að undirbúa okkur fyrir þetta nýja líf og ég kom því algjörlega út úr huganum að ég væri að gera vitleysu. Guð hafði svarað því fyrir mig, með þessari leikfléttu.

Um haustið fór ég í tölvu- og skrifstofunám í (NTV). Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum Ég ætlaði að vinna við bókhald eftir fæðingarorlofið. Það var allt að smella saman.

Asjad fór út í byrjun vetrar til að vera hjá systur sinni, þar sem hún var að fara að gifta sig. Hann hafði farið að gráta þegar hann vissi að þau ætluðu að gifta sig, hvort sem hann yrði þar eða ekki. Ég gat ekki horft upp á hann svona brotinn og sagði honum bara að fara.

Ég bjóst við því að þar sem móðir hans var heilsulítil gæti verið gott fyrir hann að vera þar lengur en í mánuð. Ég jafnvel hvatti hann til þess að vera eins lengi og þörf væri á. Ég talaði meira að segja um það að hann gæti fundið sér vinnu í Pakistan, þar sem hann hafði átt erfitt með að finna hana á Íslandi.

Ég var líka farin að gera mér grein fyrir því að skyldur hans gagnvart móður sinni voru meiri en hann hafði gefið í skyn í byrjun. Þegar við vorum að kynnast, spurði ég hann meira að segja hvort hann þyrfti ekki að sinna fjölskyldu sinni. Ég hafði fengið að vita það frá foreldrum mínum að múslimar þyrftu að sjá fyrir fjölskyldunni.

Þar sem Asjad var elstur hefði það átt að vera í hans verkahring að sjá fyrir þeim. Hann hafði sagt mér að bræður sínir tækju það að sér. Það breyttist heldur betur þegar við vorum búin að gifta okkur. Þá fóru þau að biðja um peninga. Ég vissi að hann skuldaði lánið, en þegar við sendum peninga var eins og það færi ekki allur peningurinn í lánið. Mig var mig farið að gruna að þau væru að nota hluta af því til að sjá fyrir fjölskyldunni.

Þar sem ég var öryrki og hann á bótum frá félagsþjónustunni, fannst mér ekki sanngjarnt að við þyrftum að sjá fyrir þeim. Ég tók þá ákvörðun að skilja við hann, þar sem ég vissi ekki hvað hann yrði lengi. Þegar ég sagði honum þetta varð hann sár og reiður. Ég sagði honum að það væri allt í lagi að hann færi, en ég þyrfti að geta hugsað um börnin á meðan og ekki gæti ég verið tekjulaus. Ef við myndum skilja gæti ég fengið barnabætur á meðan. Ég fór svo í bankann til að taka barnabæturnar út svo hann gæti borgað farið. Hann þurfti líka að hafa með sér pening um ófyrirsjáanlegan tíma til að hjálpa mömmu sinni. Hann fór því með þau laun sem hann fékk í svartri vinnu og sagði ég honum að taka það með sér til að lifa á því. Ég vissi að þeir peningar væru meira en það sem þau hefðu í Pakistan.

Ég var því alein með börnin tvö og komin langt á leið. Ég hafði áhyggjur af því að hann skyldi þurfa að fara en ég gat ekki horft upp á það þegar hann grét. Hann hlakkaði mikið til að koma aftur heim og takast á við föðurhlutverkið.Við vorum svo í sambandi á Internetinu á meðan hann var úti.

Ég hafði nóg að gera í skólanum og hafði einnig nóg að gera við að sinna krökkunum. Þegar ég var búin með síðasta prófið fór ég að hafa áhyggjur af því að barnið myndi fæðast aðeins fyrir tímann. Ég sagði Asjad þetta, en hann taldi í mig kjark og taldi líklegt að það myndi fæðast á tilsettum tíma sem var 2. janúar og þá væri hann kominn til baka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband