Kafli 2. Þegar ástin bankar upp á

2. kafli Þegar ástin bankar upp á

Ég kynntist Davíð á bar í Hollywood, þar sem ég var að vinna með skólanum á meðan ég var að reyna að klára stúdentinn.

Fyrsta kvöldið sem ég sá hann var hann dauðadrukkinn og vinir hans voru að hjálpa honum í leigubíl.

Þegar ég gekk frá fyrir framan barinn tók ég eftir veski sem hafði gleymst og þegar ég opnaði það mundi ég eftir honum frá því um kvöldið. Ég vissi að ef ég léti veskið í tapað fundið væri ekki víst að hann myndi eftir því að hafa verið þarna á þessum stað, miðað við ástandið á honum þetta kvöld.

Ég fór því með veskið heim og ætlaði að reyna að hafa uppi á honum sjálf. Þetta var kúnninn minn og mér fannst nauðsynlegt að hugsa um mína viðskiptavini. Daginn eftir hringdi ég í öll þau símanúmer sem voru í blokkinni þar sem hann var skráður til heimilis. Það var ekki fyrr en ég var búin að hringja í fjögur númer að það svaraði kona sem sagðist vera móðir hans og bætti því við að hann gisti alltaf hjá henni þegar hann væri í bænum.Ég gaf henni upp heimilisfangið mitt svo hann gæti komið að sækja veskið.

Þegar dyrabjöllunni var hringt heima var ég á klósettinu, svo mamma afhenti þessum ókunnuga manni veskið sitt. Ég rétt sá grilla í hann þegar hann labbaði í burtu og gat því ekki heilsað upp á hann.

Næstu helgi á eftir var ég að vinna eins og venjulega. Davíð kom þá á barinn til mín til að þakka mér fyrir að hafa bjargað veskinu hans. Ég roðnaði niður í tær og bað hann afsökunar á því að hafa ekki talað við hann þegar hann kom að sækja það.

Þegar líða tók á kvöldið kom hann aftur á barinn til mín og spurði hvort hann mætti ekki bjóða mér út að borða í þakklætisskyni. Ég virti hann þá almennilega fyrir mér og sá að hann var ekki drukkinn í þetta skipti. Mér leist ágætlega á hann, þáði því boðið og lét hann hafa símanúmerið mitt svo hann gæti hringt í mig. Ég átti að vera að vinna alla þessa helgi, svo ég sagði honum að það þyrfti að vera næstu helgi, því þá væri ég í fríi.

Þar með var það ákveðið og hann fór og sást ekki meira þetta kvöld.

Vikan leið hratt þar sem ég þurfti að vinna mikið í verkefnum fyrir skólann og ég vildi ná að klára það allt, svo ég gæti fyllilega notið helgarinnar.

Þegar nær dró helginni fór ég að efast um að Davíð myndi hringja og var farin að undirbúa mig fyrir að fara á djammið með stelpunum í staðinn. Þegar ég var á fullu að mála mig hringdi loksins síminn. Hæ!“sagði hressileg karlmannsrödd í símann.“ Hæ svaraði ég feimin á móti. Ég er búinn að panta borð á Sjanghæ fyrir okkur í kvöld.“Já, er það?“ Er það í lagi?“? Já“ rumdi ég aumingjalega upp úr mér. Ég eiginlega þekki ekki þann stað“ bætti ég við. Þetta er besti tælenski staðurinn í bænum“ sagði hann þá sposkur. Já, ok“ svaraði ég þá hikandi. Ég er bara til í allt“ sagði ég svo aftur, aðeins öruggari með mig. Ég fer ekki oft út að borða, þannig að allt kemur til greina.“Frábært!“ sagði hann þá og bætti við: Ég sæki þig eftir hálftíma.“

Þegar hann kom stuttu síðar, settist ég inn í bíl til hans, feiminn en vel til höfð. Ég ætlaði mér svo sannarlega að ganga í augun á honum þetta kvöld. Veitingastaðurinn var greinilega flottur. Það voru dúkar á borðum og þjónn sem kom með matseðil og vínseðil fyrir Davíð að skoða. Drekkur þú rauðvín?“ spurði hann. Ég hef aldrei gert það“ svaraði ég,en ég gæti hugsað mér hvítvín!“

Þannig byrjaði dásamlega notalegt kvöld, fyrsta stefnumótið.

Davíð var blíður og sýndi öllum tillitssemi og virðingu, ólíkt föður mínum. Hann og pabbi voru reyndar að mörgu leyti eins og svart og hvítt. Davíð var ljóshærður, bláeygður og virkaði mjög föðurlegur í útliti. Mér leið vel með honum, en á sama tíma var ég óörugg og fannst ég vera svo óttalega barnaleg og óreynd, þar sem ég var 23 ára þetta árið en hann að verða þrítugur. Við gátum samt spjallað um allt á milli himins og jarðar á meðan við biðum eftir matnum. Það var gott að tala við hann. Þegar maturinn kom og ég smakkaði hann fann ég að þetta var mjög vandaður matur. Ég hafði aldrei borðað svona góðan mat. Davíð hafði greinilega vit á því hvernig velja ætti góðan veitingastað og mér fannst hann vera svo veraldarvanur, þegar hann var búinn að segja mér hvað hann væri búinn gera í gegnum lífið.

Ég bjó ennþá heima, en hér var kominn maður með mikla lífsreynslu. Hann hafði alist upp við erfiðar aðstæður sem höfðu valdið því að hann fór að heiman aðeins 16 ára gamlan. Ég fann til með honum og hugsaði með mér að þó að ég hefði alist upp á ströngu heimili, væri það ekki sambærilegt við það sem hann hefði upplifað. Stjúpfaðir hans var slæmur með víni og barði mömmu hans þegar fauk í hann. Margir í fjölskyldu hans áttu erfitt með vín og voru að mestu ómenntað verkafólk, eins og hann orðaði það. Það sem heillaði mig einstaklega mikið við hann, var hvað hann var með ákveðnar skoðanir á því hvað hann vildi í lífinu. Það var margt sem hann vildi gera og ég fann að hann var með marga drauma um framtíðina, sem mér fannst svakalega spennandi.

Þegar þessu kvöldi var lokið, dró hann upp óútfyllta ávísun sem hann sagði að systir hans hefði lánað honum, þar sem hann væri ekki með ávísanahefti sjálfur. Þessa ávísun notaði hann til að borga fyrir matinn. Hann keyrði mig svo heim og kyssti mig bless á planinu fyrir framan húsið. Ég fann fyrir blíðu í kossi hans og hvað þessi maður var tilfinninganæmur. Mér leið virkilega vel í nálægð hans og hann var ólíkur pabba mínum og það var það sem ég heillaðist af honum. Mér fannst að ég væri búin að finna draumaprinsinn sem myndi vernda mig og sýna mér þá virðingu sem ég þráði.

Við hittumst oftar næstu vikurnar og eyddum meiri tíma saman. Stundum gisti hann heima hjá mér, en ég vildi samt ekki sofa hjá honum strax. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri lauslát. Hann tók því mjög vel og var ekkert að ýta á mig. Þegar ég lét loks slag standa, áttum við ástríðufulla og yndislega nótt saman. Hann spurði mig eftir á, hvort þetta þýddi að við værum þá par. Ég kinkaði þá kolli, feimin að tjá mig frekar um það.

Tíminn leið og þegar skólinn var búinn fór ég að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera um sumarið. Davíð sagði þá við mig að ég gæti flutt til sín, sem mér fannst frábær hugmynd og sló til. Ég saknaði hans líka svo mikið þegar ég gat ekki hitt hann og var farið að líða eins og ég elskaði hann. Kannski gerði hann það líka.

Það var stórt skref fyrir unga stúlku eins og mig að flytja að heiman í fyrsta skipti, en mér fannst ég vera í nokkuð góðum höndum hjá honum.

Þetta var lítill staður fyrir vestan sem heitir Stykkishólmurog er vinalegt bæjarfélag. Fólkið á staðnum var meira eða minna uppalið á þessum stað og tók okkur ungu Reykvíkingunum vel. Davíð þekkti alla í plássinu mjög vel og var vinsæll á meðal fólksins vegna góðmennskunnar sem hann sýndi fólkinu. Ég var ung og feimin, en mér fannst hann sýna mér mikla virðingu fyrir það sem ég var. Honum fannst ég vera af fáguðu fólki. Faðir minn var mjög strangur og stjórnsamur, óblíður og kaldur, en það orkaði á Davíð sem traustvekjandi ímynd hins fullkomna föður. Sjálfur átti hann föður sem var einn af rónunum á götum Reykjavíkur og faðir minn var svo langt frá því að vera sambærilegur. Ég var ósammála honum um þessa hluti, þar sem ég taldi að hann væri ekki búinn að kynnast þeim ströngu reglum sem faðir minn hélt uppi, en ég vissi að hann myndi sjá það seinna.

Þó svo að ég virti föður minn fyrir margt, var leit mín á þessum tíma allt önnur en hans. Pabbi lagði alltaf ofuráherslu á að maður ætti að mennta sig og verða eitthvað. Það sem ég vildi í lífinu var hins vegar fyrst og fremst ást og umhyggja og öruggt heimilislíf. Þetta gat pabbi aldrei skilið.

Davíð gaf mér von um að karlmenn gætu verið blíðir og að ég væri búin að finna það öryggi sem ég leitaði að. Ég fékk vinnu í bakaríinu þar sem Davíð var verkstjóri og pakkaði kökum á meðan hann bakaði. Hann vaknaði klukkan fjögur á næturnar til að byrja baksturinn, en ég þurfti ekki að fara fyrr en klukkan sjö. Hann kom heim á hverjum einasta morgni og vakti mig með kossi og mér leið eins og drottningu í höndunum á honum. Það var þægilegt að vera í nálægð hans og mér leið vel að geta unnið á sama stað og hann, þannig að ég gæti verið nærri honum allan daginn.

Hann sagði samt við mig að þó að hann væri kærasti minn, ætti ég ekki að búast við því að ég fengi sérstaka meðhöndlun í vinnunni. Auðvitað ekki“ sagði ég þá. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri löt til vinnu. Þegar við vorum búin að vinna í mánuð sagði Davíð mér að hann ætti inni sumarfrí og að stelpan sem vann með honum við baksturinn gæti séð um bakaríið á meðan við færum í frí. Ferðalaginu var heitið til systur hans að Hólum í Flókalundi, þar sem við gistum í tvo daga. Þar nutum við friðarins í sveitinni og Gunnhildur systir hans gerði vel við okkur í mat og drykk.

Áfram var förinni heitið að heimsækja aðra systur hans á Reykjanesi, en einnig að skoða bakarí sem hann hafði einu sinni átt. Það var gaman að ferðast svona með honum og mér leið vel að vera ástfangin af manninum sem ég ætlaði að eyða ævininni með. Ég gjóaði augunum til hann þegar hann var að keyra vegna þess að mér fannst hann svo myndarlegur og ég trúði því varla að þessi lífsreyndi maður væri kærastinn minn. Þessi ferð var vel þess virði að keyra alla þessa firði og hlykki sem Vestfirðirnir eru og mér fannst gaman að hitta báðar systurnar. Þær voru hvor annarri vinalegri og mér fannst yndislegt að vera samþykkt af fjölskyldu hans, sem konan hans Davíðs. Ég tók sérstaklega eftir því þegar við vorum í heimsókn á þessum báðum stöðum, hvað hann var barngóður, þar sem systur hans áttu báðar börn. Ég hafði ekkert annað að miða við en föður minn. Davíð var svo sannarlega með vinninginn í þeim efnum hvað varðaði ást og umhyggju.

Allt ferðalagið tók um tvær vikur, þar sem við vorum á Reykjanesi í viku svo hann gæti sýnt mér allt sem hann hafði verið að gera þegar hann bjó þar fimm árum áður. Þegar þessu ferðalagi var lokið fórum við aftur heim á Stykkishólm, þar sem við áttum von á Alfreð frænda hans.

Hann ætlaði að gista hjá okkur í tvo daga. Sumarfríið okkar var búið, en Alfreð kom samt þar sem hann ætlaði að slaka á í fríinu sínu. Hann kom á föstudegi og það var gott því við áttum þá frí og gátum því notið kvöldsins með honum. Við elduðum dýrindismáltíð; piparsteik með bakaðri kartöflu. Þetta var yndislegur maður og Davíð átti góðan félaga í honum, þar sem hann hafði eiginlega alist upp í kringum hann. Hann kom með áfengi úr Reykjavík og bauð okkur í glas og þeir félagar töluðu um gamla tíma á meðan ég hlustaði.

Mér fannst gaman að hlusta á þá rifja upp skemmtilega hluti sem þeir höfðu lent í, en þeir voru líka að rifja upp hluti sem voru ekki eins skemmtilegir, eins og það hvað faðir hans Davíðs væri mikill aumingi, drykkfelldur og óskammfeilinn og hugsaði bara um sína eigin hagsmuni. Hann var víst búinn að fara í margar meðferðir vegna drykkjunnar, en féll alltaf jafnóðum.

Þegar leið á kvöldið tók ég eftir því að Davíð var orðinn nokkuð drukkinn og ólíkur sjálfum sér. Mér fannst það svolítið stuðandi, þar sem ég hafði aldrei séð hann svona. Samt vildi ég líta á þetta sem einsdæmi, þar sem frændi hans var kominn. Oft getur maður opnað sig meira þegar maður með fólki sem manni þykir vænt um. Við fórum að ræða þrítugsafmælið hans Davíðs sem átti að halda upp á í kringum verslunarmannahelgina. Félögunu fannst það góð hugmynd að bjóða fólki í Skorradal, tjalda þar saman og grilla góðan mat. Þeir töluðu um að það væri sniðugt að búa til landa til að geta átt nóg af víni handa öllum gestunum. Þetta var allt undirbúið þetta kvöld og skipulagt hvernig væri best að standa að þessu.

Þegar leið að verslunarmannahelginni ætlaði kaupfélagsstjórinn ekki að hleypa mér í frí, því það var vanalega mikið álag þessa helgi og vantaði fólk til vinnu. Ég sótti það fast og sagði honum að það væri ekki skylda að vinna þessa helgi frekar en aðrar helgar. Þar sem ég vissi um rétt minn varðandi verkalýðssamninga, gafst hann upp og leyfði mér að fara.

Við komum svo í Skorradal með allt sem þurfti til helgarinnar, tjald, svefnpoka, mat og helling af víni. Þangað voru komnir ættingjar frá báðum leggjum og það virtist ætla að vera töluverð veisla úr þessu.

Tjaldbúðir okkar voru þéttsetnar og hægt að rölta á milli tjalda með sjússinn sinn, spjalla, hlægja og syngja. Við Davíð og Alfreð vorum að grilla læri, grafið í jörð, en það hafði ég lært í Bandaríkjunum þegar settar voru upp veglegar barbecueveislur. Lærið eldaðist hægt og nörtuðum við í annað á meðan við biðum. Þegar líða tók á veisluna, tók ég eftir því að Davíð var orðinn nokkuð hífaður. Hann kom til mín inn í tjald þar sem ég var að stússast og var þungbúinn á svip.

Hann spurði mig pirraður: Hefur þú sofið hjá svertingjum? Hvað meinarðu? sagði ég. Ég vil bara fá að vita það, sagði hann nokkuð æstari. Nei, ég hef ekki gert það, svaraði ég. Hvað er vinkona þín þá að ljúga? spurði hann þá. Ég sagði honum að það kæmi honum ekki við hvað ég hefði gert í fortíðinni, áður en hann kom inn í myndina. Hann varð þá mjög reiður, stóð upp og labbaði burt. Þetta varð til þess að veislan varð stirðari, þar sem afmælisbarnið var í fýlu.

Ég lét það ekki á mig fá en settist samt hjá foreldrum mínum til að njóta verndar þeirra og öryggis, þar sem mér leist ekki á reiðina í Davíð. Þegar ég sagði þeim þetta, spurðu þau hvort það væri ekki hægt að laga þetta með því að sættast. Mér fannst ólíklegt að það yrði nokkuð úr því þetta kvöld, þar sem Davíð var farin að draga sig út úr hópnum og lét ekki sjá sig. Þegar líða tók á nóttina og Davíð var ennþá í fýlu, labbaði ég til hans til að athuga stemninguna. Hann var með snúð og ég sagði við hann að ef hann gæti ekki sætt sig við að ég ætti mér fortíð, gæti ég farið með foreldrum mínum heim daginn eftir. Hann hummaði bara eitthvað óskiljanlegt, svo ég gekk í burt og fór að sofa. Þegar ég hafði sofið í svona klukkutíma, fann ég í gegnum svefninn að Davíð kom inn í tjaldið og tók utan um mig. Hann hafði þá séð að sér og tók ég því sem samþykki að hann vildi ekki að ég færi með pabba og mömmu í bæinn. Þetta endaði þá nokkuð vel, en ég fann að það var greinilega sumt sem pirraði Davíð sem snerti fortíð mína og taldi vissara að vera ekkert segja honum frá mínu lífi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband