Kafli 13. Glerbúrið

  1. kafli

 

Þá varð mér hugsað til þessa ljóðs einsog ég kallaði það.

„Glerbúrið“


Allir hafa tvær sálir. Ein er mjúk og veik en hin er köld og sterk. Önnur lítur út fyrir að umlykja hina veikari, það gæti það verið Glerbúr. Þegar sú veikari er að horfa í gegnum glerið og sér það sem er að gerast fyrir utan, getur hún gleymt sér. Utan við það er mikið af fólki og þeir virðast vera að skemmta sér.

Rauður reykur liðast um eins og þykk þoka úti um allt. Þokan umlykur fólkið með volgum leyndarmálum. Hraður og stanslaus taktur tónlistarinnar flæðir inn í eyrun og vökul röddin sem virðist koma langt að verður lágværari.

Hlátur frá fólkinu vekur upp tilfinningar um að fara út úr búrinu og sameinast til að hlusta á fólkið tala. Þetta getur verið hættulegt. Villt dýr eru alls staðar að bíða, þau eru að bíða eftir fórnarlambi, bíða eftir fórnarlambi til að fara í burtu með það á þann stað þar sem enginn hefur komið til baka. Músíkin er tælandi og togar í þig að halda áfram. Fólkið freistar þín til að færa þig nær, reykurinn er farinn að verða dreymandi.

Kannski er allt í lagi að fara út, bara örlítið, þú getur alltaf haft augun á búrinu og varast að týna því ekki. Þú tekur í handfangið og opnar, fyrst örlítið og svo aðeins meira. Þú tekur eitt skref, svo tekur þú annað. Skyndilega ertu á meðal fólksins, þetta er ekki svo erfitt, eiginlega er þetta bara gaman. Þú hlærð og dansar við þau.

Reykurinn umlykur þig og lætur þér líða vel. Þú gleymir ótta þínum, þér líður vel. Andlitin á fólkinu birtast og hverfur í senn. Músíkin hækkar og reykurinn þykknar. Hláturinn reynir að yfirgnæfa músíkina. Fólkið umkringir þig og dansar í hring, þú tengist þeim og nærð að sameinast ... Þú lítur snögglega upp og þér bregður.

Augu stara á þig, þau eru ekki blá eða brún eða græn. Þau eru ekki mannleg. Þau eru gul og grimmdarleg og stara bara á þig. Þú frýst í augnablik, en það virðist vera eilífð. Þú reynir að hreyfa fæturna en þeir eru þungir.

Þú reynir að hlaupa en þú getur ekki hlaupið nógu hratt. Þú setur alla þína orku í að flýja, en á baki þínu finnur þú andardráttinn frá skepnunni. Hún færist nær og nær og þú finnur að hún muni ná þér áður en þér tekst að komast inn í búrið. Þú notar síðasta kraftinn í að komast undan. Reykurinn er orðin þykkari, svo þykkur að þú finnur ekki búrið. Þú leitar í örvæntingu að því en það er ekki þarna. Skyndilega finnurðu að klærnar grípa í bakið á þér. Ólýsanlegur sársauki fer um líkama þinn og þú finnur hann inn að beini.

Þú fellur niður og missir meðvitund. Án þess að verða var við það liggur þú þarna alla nóttina. Músíkin hefur hljóðnað, reykurinn er farinn og fólkið líka. Þú vaknar upp stirður og þungur. Þú reynir að hreyfa þig en verkurinn í bakinu nístir þig allan.

Þá færist yfir þig þessi yfirnáttúrulegi ótti og þú leitar með hendinni að dyrum búrsins. Þá finnurðu að það var rétt fyrir framan þig. Þú reynir að draga þig áfram inn í búrið, þú berst við sársaukann og ótti þinn dregur þig áfram. Þér tekst að komast inn í búrið og lokar. Samviska þín nagar þig og þú hatar þig fyrir að fara út. Sárin munu gróa og örin munu styrkja húðina. Það líður samt langur tími, þangað til þú opnar aftur ...

 

 

Draumarnir

Ég fór að rifja upp drauma sem mig hafði dreymt í gegnum tíðina. Það voru þá helst draumar sem ég taldi hafa einhverja þýðingu. Ég fór líka að hugsa um tarotspil sem ég var búin að lesa fyrir vinkonur í saumaklúbbum þegar þær voru að reyna að sjá fram í framtíðina og hvort hinn rétti biði þeirra. Þessir draumar og spil fóru að hafa þýðingu fyrir mig þegar ég sat eitt kvöldið eftir að börnin voru sofnuð. Það var ekki margt skynsamlegt sem kom upp í huga mér, en mér fannst það í þessu ástandi. Ég skrifaði upp nokkra drauma og þýðingu þeirra tarotspila sem komu upp í huga mér þetta kvöld.

 

Mig dreymdi draum þegar ég var 19 ára gömul:

Ég stóð einhvers staðar úti og andleg vera talaði við mig. Einhvers konar engill eða kannski Guð sjálfur. Hann talaði við mig og sagði: Þú þarft að fara til þessara þriggja manna og segja þeim skilaboð áður en þeir deyja, þeir eiga að deyja þegar þeir eru 26 ára. „Ó, hvers konar skilaboð og hvers vegna þurfa þeir að deyja svo ungir? spurði ég. Þú munt vita skilaboðin þegar þú kemur til þeirra. Hafðu ekki áhyggjur af því að þeir deyi svona ungir, þeir munu fæðast í þríburum. Þá sá ég konu í rúmi með þrjú börn, hún var með dökkt sítt hár og sængin var svo hvít og hún hélt á þremur börnum í fanginu. Ég byrjaði að leita að þessum mönnum og fann þá loksins. Tveir sátu en þriðji stóð og það var eins og hann væri að fara í burtu. Ég sagði þeim skilaboðin sem ég vissi einungis í draumnum sjálfum og þeir svöruðu: Ekki vera með þessa vitleysu, nema sá þriðji. Hann sagði ekki neitt. Mér fannst að þetta þýða þrenns konar tímabil eða tímabil sem kom í þremur hlutum. Mér fannst eins og það væri neikvætt í byrjun þar sem þeir myndu deyja og svo kæmi sams konar tímabil sem þýddi eitthvað jákvætt. Einhver þroski eða jafnvel bókstafleg upplifun. Ég hafði misst þrjú fóstur og ég fór að hugsa hvort að ég myndi þá eignast þrjú börn. Ég vissi það ekki á þessum tíma sem mig dreymdi þennan draum, en á þessum tímapunkti sem ég var að hugsa þetta kvöld, vissi ég að ég væri búin að ganga í gegnum reynslu og eignast tvö börn. Ég fór að hugsa hvort að það væri mögulegt að ég myndi öðlast meiri þroska en undir venjulegum kringumstæðum og hvort ég myndi svo eignast þriðja barnið. Hugur minn fór á flug ...

 

 

Tarotspilin ....

Ég fór að ná í tarotspilin mín. Mér fannst ég skilja þau miklu betur eftir að ég lent í þessu ástandi. Mér fannst ég skilja hvert einasta spil á mjög flókin og ítarlegan hátt.

 

 

 

Dauðinn


Hugsanlega mest óttast, hataða og misskilda spilið í tarotspilunum. Dauðinn þýðir breytingu.

Það þýðir venjulega ekki líkamlegann dauða, þó það sé hægt. Það fjallar um umbreytingu, endurnýjun og frelsi frá gömlu mynstri og uppbyggingu.
Flestir spilastokkar sýna þetta spil með beinagrind sem situr hest og lítur út eins og maður í skikkju með ljá. Þegar þú færð þetta spil við lestur, þá þýðir það að þú ert að fara að upplifa breytingar af einhverju tagi. Það er kominn tími til að fara til að sleppa fortíðinni og byrja upp á nýtt.

Þetta er ekki spil af niðurbrjótandi afli, heldur hægfara og náttúrulegri umbreytingu. Þessi breyting verður vegna þess að þú ert búin að stefna í þessa átt í langan tíma. Það er rétt leið til að fara hana eða láta þessa umbreytingu gerast. Breyting er oft hræðandi fyrir okkur, en það er nauðsynlegur og eðlilegur hluti af lífinu.

 

En eftir að ég las lengra ég skildi ég að ég væri að misskilja þetta spil og þýðing þess var að ég þyrfti að öðlast skilning á annan hátt en ég hafði gert hingað til.

Ég sá fyrir mér, sjálfa mig ferðast um hugann í gegnum spilabunkann. Ég fór frá fíflinu yfir í stjörnuna og þaðan til elskendanna, þá yfir í sólina, tunglsins, dauðans og svo sá ég veröldina fyrir framan mig. Ef ég geri þetta rétt, eins og hann sagði að ég þyrfti að gera, áður en ég færi á þennan stað sem ég var að fara. Ég fór að hlusta með athygli og ég ætlaði að leyfa þeim að leiða mig áfram inn í þann skilning sem ég þurfti. Ég þurfti að sleppa takinu á ótta mínum og láta tónlistina flæða, alveg eins og þegar ég dansaði í mínum eigin heimi.

Daginn eftir fór ég í skólann eins og venjulega. Það skeði ekki mikið annað en að ég var enn í þessum hugarheimi að reyna að tengja þetta saman. Ég gat þó einbeitt mér að því að teikna á meðan ég hugsaði.

Eftir skólann fór ég og sótti krakkana í til dagmömmu. Þegar við komum heim var ég ennþá full af hugsunum og ég hlustaði á röddina inni í mér. Ég var eins og ferðalangur sem var að ferðast inn í aðra vídd.

Ég sagði börnunum að fara í útifötin þar sem mér fannst, að til að ná einbeitingu þyrfti ég að ganga um hverfið. Það voru að koma svo mörg skilaboð inn í hugann og það hjálpaði mér að hlusta ef ég gekk. Það var orðið dimmt úti og ég ætlaði að ganga í gegnum nágrennið. Ég tók með mér snjóþotu til að draga þau. Ég gekk á sama hraða, þó svo að það væri hindrun fyrir framan mig, snjór, malbik eða sandur. Mér fannst það sýna mér hvað ég væri ákveðin og sterk. Ef það var enginn snjór þar sem ég gekk, togaði ég bara fastar og æddi yfir malbikið eða stéttina. Ég gekk svona í langan tíma og lífsferill minn rann framhjá af miklum hraða. Ég sá jógúrt dós á jörðinni og mér fannst að ef ég sparkaði í hana gæti ég haft áhrif á framtíðina. Það var eins og allt sem ég gerði hefði áhrif á hvernig ég tækist á við það sem koma skal. Ég horfði á jógúrt dósina í augnablik og sparkaði í hana. Ég vissi að ég var búin að breyta framtíðinni. Þá hélt ég áfram göngu minni.

Ég fór að hugsa um móður mína. Hún var svona, togandi okkur krakkana á snjóþotum út um allt sem hún fór, hvort sem það var bylur eða auð jörðin. Hún gekk áfram og ekkert gat stoppað hana. Ég fékk svarið á þennan hátt og ég áttaði mig á því að ég var að tengjast móður minni: Hesturinn. Ég horfði til baka og dró andann djúpt. Mér leið svo vel, það var svo djúp tilfinning. Þakka þér móðir, fyrir að draga okkur áfram! Manstu mamma, þegar þú varst barn og þú vildir vera góð eins og Jesús? Jæja, ég ætla að færa þér hann.

Þá varð mér hugsað um vagninn í tarotspilunum

Vagninn.


Vagninn eða maðurinn á vagninum er í þessu spili ungur maður sem andlitið ber skýr merki um staðfestu og metnað. Hann er skyldur fíflinu sem er ákafur fyrir nýrri reynslu og ævintýrum, en hann er frábrugðinn fíflinu af því hann er einbeittur og hefur skýr markmið í huga. Hann táknar unglega ástríðu, styrkleika, löngun til að ná árangri og ná góðum markmiðum, án vanþroska fíflsins. Heimur hans er þakinn stjörnum og einkenni hans líkist himneskum mætti og andleg aðstoð vegna hálfmána sem er á öxlum hans og stjörnurnar í kórónu hans. Vagninn táknar ekki aðeins vilja, heldur öruggan og staðfastan árangur af metnaði ökumanns í gegnum undirbúning að ákveðnu markmiði. Jafnvægi af þessum metnaði er táknuð með andliti af manni og líkama af dýri. Svarta veran er neikvæð hlið á metnaðarfullri löngun til að ná markmiði hvað sem það kostar. Hvíta veran táknar jákvæðan þátt af þessari sömu löngun. Tákn vagnsins er þörf fyrir að fagna takmarki og þröngva því með afli? Býst hann við að metnaður þinn sé of ákafur og skaðlegur heilsu annarra þátta í lífi þínu? Hvernig lýsir þessi mynd þinni ytri og innri aðstæðum?

Ég var róleg eftir þetta og fór heim og tók upp þetta spil og kyssti það. Það var sama tilfinning eins og kyssa mömmu mína. Ég setti börnin í rúmið og kyssti þau góða nótt, Mér leið svo vel, mér var svo hlýtt í hjartanu, þetta var svo mikill léttir.

Hvílíkur kvenmaður. Hvílíkur styrkur sem hún hafði. Ég elska þig mamma. Þú gerðir þetta allt, það varst þú.

 

Ég fór til hennar daginn eftir. Hún var að leggja sig eftir næturvakt. Pabbi var vakandi. Ég spurði hvort ég mætti segja henni svolítið. Hann sagði við mig, aðeins ef það er áríðandi. Ég sagði honum að það væri mjög áríðandi. Ég fór inn í herbergið þeirra þar sem hún lá og hún tók eftir mér. Ég beygði mig niður og hvíslaði í eyra hennar, mamma, Skorri er Jesús. Þá fór ég fram og ætlaði að fara en það skaust upp í huga mér ótti að þetta mætti ekki fara lengra. Ég bað pabba um að leyfa mér að segja eitt orð í viðbót. Ég fór inn og beygði mig niður til hennar og hvíslaði aftur í eyra hennar „Mamma ekki segja neinum frá því.“ Hún jánkaði því eins og hún væri á milli svefns og vöku. Mér leið þá betur og taldi öruggt að fara.

Foreldrar mínir fóru að hringja í mig og spyrja mig hvort að það væri ekki allt í lagi með mig. Þau fóru að taka eftir því að, það var ekki allt með felldu.

Einn daginn kom mamma til mín í skólann. Hún ætlaði að láta mig fá nesti. Hún fann mig inni á salerninu. Ég var þá grátandi. Hún spurði hvað væri að. Ég sagði henni að ég gæti ekki sagt henni það. Það væri leyndamál. Ég var nefnilega farin að heyra röddina segja stanslaust við mig: Ekki segja neinum frá leyndarmálinu. Mér fannst eins og ég og maðurinn ættum að halda leyndarmálinu fyrir okkur. Það mátti enginn vita það. Kennarinn og nemendurnir voru farnir að taka eftir því að ég væri farin að hegða mér undarlega. Ef kennarinn sagði okkur að teikna á einhvern hátt, fannst mér ég vita betur og gerði það á þann hátt sem ég taldi réttan. Mér fannst ég hafa meira vit á hlutum. Mér leið eins og ég væri sú fullkomna og enginn gæti vitað hlutina eins vel og ég. Mér leið eins og ég væri að verða óviss um að ég gæti höndlað þetta verkefni sem lá fyrir mér að gera. Mér fannst ekki auðvelt að vera á toppnum og bera þá ábyrgð sem því fylgir. Ég bað Guð oft um að leyfa mér að vera venjuleg, bara einföld móðir sem bæri ábyrgð á tveimur börnum. Mér fannst ég orðin ófær um að gera annað. Ég fann vanmátt minn gagnvart því hlutverki sem röddin var að segja að væri framundan.

 

Eitt skipti vorum við Jeff að tala saman í síma, vorum að tala um drauma okkar. Það sem við vildum fá út úr lífinu. „Mig langar að skrifa bók“ sagði hann, „Mig langar að fara upp á topp á háu fjalli og sitja þar með eina jónu og bíða eftir að fjallið springi í loft upp.“ Það væri toppurinn á hans tilveru. Ég sagði við hann að svona hugsun virkaði eins og hann vildi eyðileggja líf sitt. Hann sagði að svona vildi hann enda líf sitt. Mér þótti vænt um hann og þess vegna skrifaði ég nokkur ljóð handa honum sem ég spilaði fyrir hann á gítarinn einn daginn sem hann kom í heimsókn.

Eitt af þessum ljóðum, hét Fjallið:

 

I ´m going to the mountain

I ´m going to be free

My time is now in place

Im going to the space

 

 

Please don’t try to follow

Your time is not there yet

But when you see your shadow

Remember when we met.

 

I know you have been crying

long before I came.

Nobody is dying

the life will be the same

 

Please don’t try to follow

Your time is not there yet

But when you see your shadow

Remember when we met.

 

 

My journey will continue

Further in the life

And you will find it in you

If you dare to dive.

 

Hann hafði sjálfur safnað lögum á kasettu sem hann hafði gefið mér. Eitt af þeim lögum var Blackstreet - No Diggity

 

 

sem ég spilaði endalaust þegar ég fékk öll skilaboðin. Það róaði mig að hlusta á þessa músík þegar ég fór í þennan trans sem ég var alltaf að detta inn í. Eina nóttina sem ég var að hugsa um Jeff og saknaði hans mikið, fór ég í kvíðaástand þar sem hann var ekki búinn að hafa samband við mig í langan tíma. Ég hringdi í hann, en hann svaraði ekki. Þá ákvað ég í skyndi að keyra til Keflavíkur og banka upp á hjá honum. Ég hafði skrifað bréf sem ég vildi láta hann fá. Þegar ég kom upp á Völl, var ég stoppuð í hliðinu og ég var spurð um passa. Ég sagði að ég væri ekki með hann, en ég þyrfti nauðsynlega að ná í mann sem ég þekkti og grátbað þá um að hleypa mér inn. Þeir sem voru í hliðinu sáu á mér að mér var mikið niðri fyrir. Þeir hleyptu mér því í gegn og sögðu mér að vera fljót. Ég lofaði því og hraðaði mér til hans, þar sem ég þurfti að komast sem fyrst, vegna þess að ég skyldi krakkana eftir. Ég hafði ekki skynbragð á það, hvað ég var að setja þau í mikla hættu. Það eina sem komst að hjá mér var að koma þessu bréfi til hans, þar sem ég vildi segja honum frá tilfinningum mínum. Þegar ég kom að dyrunum og bankaði, þurfti ég ekki að bíða lengi. Jeff kom til dyra og var mjög undrandi að ég væri komin. „Hæ“ sagði hann, „ég var að fara út. „Nú“ svaraði ég, „ertu að fara að skemmta þér?“ „Já, það voru vinkonur mínar sem ég átti von á. Þær ætla að koma með mér á pöbbinn.“ Ég lét mér það í léttu rúmi liggja, þar sem ég vissi að það voru orðnar fjarlægar tilfinningar á milli okkar. Ég vildi láta hann hafa béfið til að segja honum frá tilfinningum mínum þar sem ég vissi að hann myndi einhvern tímann fara af landi brott. Í bréfinu skrifaði ég að þó að hann væri langt í burtu frá mér, myndi ég samt elska hann. Ég gæti elskað hann í fjarlægð. Svo sagði ég honum að ég þyrfti að flýta mér þar sem ég hefði fengið að skjótast inn á Völlinn með því loforði að koma fljótt aftur. Hann fylgdi mér út í bíl og tók utan um mig og sagði mér að fara vel með mig. Ég játaði því og fór svo af stað. Ég þurfti að flýta mér svo ég væri ekki of lengi í burtu frá börnunum.

 

 

Daginn eftir fór ég til mömmu og spurði hana hvort hún gæti komið með mér á spítalann. Ég sagði henni að undanfarið hefði ég þá tilfinningu að ég væri að missa máttin. Ég sagði henni að mér liði stundum þannig á nóttinni þegar ég væri að fara að sofa.

Mér leið eins og líkami minn yrði máttlaus og ég gæti ekki hreyft legg né lið. Ég sagði henni að ég væri hrædd um að hjartað á mér gæfist upp að lokum. Hún samþykkti að koma með mér. Ég sagði við hana á leiðinni: „Mamma, ef það er að líða yfir mig, viltu þá taka við stýrinu?“ Hún varð svolítið óttaslegin en játaði því. Þegar ég var búin að sleppa orðinu leið mér eins og ég væri að líða út af. Ég sagði við mömmu: „Ég verð að fara út í kant. Hún færði sig úr sætinu og settist í bílstjórasætið. Ég fann fyrir máttleysi, en ég var ekki eins hrædd, þar sem mamma var að keyra.

Ég vildi bara að við gætum farið til læknis og látið þá athuga hvað væri að gerast. Ég gat ekki verið svona ef ég ætlaði að sjá um börnin. Þegar við komin á spítalann þurftum við að bíða smá stund. Mér fannst það allt í lagi, þar sem ég var ekki ábyrg fyrir neinu.

Þegar það kom loksins að mér, var ég sett upp á bekk þar sem læknarnir ætluðu að skoða mig. Þeir settu alls konar leiðslur við hjartað og á fingurinn til að mæla súrefnisflæði og hjartslátt. Ég fann að mátturinn fór hægt og rólega úr mér, þangað til að ég leið út af. Mér fannst eins og ég heyrði raddir í fjarska en ég gat ekki greint þær. Þau voru að reyna að kalla á mig, en ég gat ekki svarað. Ég lá bara eins og lömuð og mér fannst ég vera að deyja. Allt í einu tók ég andann á lofti eins og það hefði verið rekinn rýtingur í bakið á mér. Ég settist upp og hjúkrunarkonan sagði að það væri eins og það væri að koma eitthvað illt út úr mér. Ég kallaði: „Jesús er upprisinn!“

Ég var að vonast eftir að þeir hefðu skilið hvað var í gangi. Ég var kölluð inn í viðtalsherbergi eftir þetta þar sem læknir spurði mig ýmissa spurninga.

Hann spurði mig hver væri tilgangur lífsins. Ég svaraði spurningum hans um það á þann hátt að aðalnauðsynin til að lifa, væri að eiga fyrir húsaleigu og sjá um börnin sín og hafa góða vinnu.

Læknirinn sagði við mömmu að ég mætti fara heim með þeim skilyrðum að það yrði einhver með mér um nóttina. Mamma ákvað að vera hjá mér þessa nótt. Þegar við komum heim, töluðum við lengi saman. Hún var að reyna að fá það upp úr mér hvað væri að gerast. Ég sagði henni að lífið væri ekki dans á rósum. Svo talaði ég um ýmsa hluti sem snerust um lífið og tilveruna og sagði henni frá afa mínum, Stefáni. Hún sagði mér að ég talaði eins og trúarleiðtogi. Ég brosti við því, vegna þess að ég vissi að ég var það. Kannski samt svolítið meira en það. Við það fór ég að sofa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband