Kafli 9. Skrítinn gaur
23.11.2019 | 18:02
Skrítinn gaur
Ég fór að skemmta mér um helgar á þessum tíma. Davíð var farinn að taka krakkana reglulega og þegar það var komin reynsla á það fór ég að skipuleggja helgarnar mínar. Eitt kvöldið ákvað ég að fara með Erlu vinkonu í bæinn í heimsókn til bróður hennar sem bjó þar. Ég var með þeim í smá tíma, en svo vildi ég fara á veitingastaðinn Kaffi Reykjavík en þar hafði ég kynnst honum Frey.
Freyr var upptekinn þetta kvöld en ég ákvað að skemmta mér þrátt fyrir það, þar sem hann var ekki kærasti minn og ég ekki bundin. Móðir mín var á staðnum með vinnufélögum og mig langaði að hitta á hana til að skemmta mér með henni. Vinkona mín ætlaði að vera áfram hjá bróður sínum. Hún sagði mér að fara á undan sér og hún myndi svo koma seinna um kvöldið.
Þegar ég kom á staðinn sá ég að mamma var upptekin að borða með fólkinu, þannig að ég vildi ekki trufla hana strax. Ég ætlaði að hitta á hana þegar þau fengju sér kaffi eftir matinn. Mig langaði að fá mér í glas með henni rétt áður en hún færi heim. Við gætum kannski orðið samferða í leigubíl.Það var fimmtudagur, þannig að það var rólegur hópur að skemmta sér. Ég fór á barinn og keypti mér kokteil og settist innar á staðinn til að bíða. Þar fór ég að tala við einhverjar konur sem sátu við sama borð á meðan ég drap tímann.
Ég tók eftir manni sem horfði stíft í áttina til mín og ég horfðist í augu við hann. Vá, hann er undarlegur, hugsaði ég. Hann var samt sjarmerandi og myndarlegur. Hann starði svo fast á mig að það var óþægilegt. Það stóð yfir aðeins augnablik, en mér fannst það vera heil eilífð.
Ég reyndi að stofna til viðræðna við konurnar en það var eins og að þeim fyndist ég uppáþrengjandi. Ég vildi forðast þessar vandræðalegu aðstæður. Ég stóð því upp til að athuga hvort móðir mín væri búin að borða. Ég fór inn í salinn þar sem maturinn var framreiddur en þá var hópurinn farinn. Ég vonaði þá að vinkona mín liti við til að ná í mig. Ég settist aftur á sama stað. Þá kom til mín kona úr hópi fólksins sem þessi maður sat hjá. Hún talaði ensku, og ég gerði mér þá grein fyrir að þetta hlyti að vera fólk af Keflavíkurflugvelli. Hún sagði við mig: Vini mínum finnst þú mjög aðlaðandi en hann hefur ekki hugrekki til að segja það við þig sjálfur. Ég horfði til hans og hann sat þar og brosti til mín. Ég þakkaði konunni fyrir þessi skilaboð og reyndi að halda áfram að tala við konurnar sem ég hafði verið að tala við.
Það kom að því að þær fóru og ég sat ein eftir. Þá sá ég vini þessa manns standa upp og fara. Ég horfði til hans og hann horfði til baka, en hvorugt okkar þorði að standa upp. Ég hugsaði með mér að hann yrði að koma, annars myndi ég ekki tala við hann. Hann kom ekki. Þá stóð ég upp og fór fram þar sem dansgólfið var. Ég var að reyna að komast að niðurstöðu um hvort ég ætti að fara til hans. Ég ætlaði ekki að þora að hafa frumkvæðið. Ég sá þó að það myndi ekkert verða úr því að við töluðumst við nema ég færi til hans og því lét ég slag standa. Ég stefndi beint í áttina að þeim stað sem hann sat og settist niður og sagði ekkert en starði á hann og beið eftir að hann talaði. Hann stóð upp og sagði: Ég er glaður að sjá þig. Svo settist hann á arminn á stólnum mínum og kynnti sig sem Jeff.
Við fórum að spjalla um allt mögulegt. Jeff spurði mig hvað ég væri að vinna. Ég sagði honum að ég væri atvinnulaus en væri að undirbúa mig fyrir að fara í inntökupróf í Myndlistarskólanum. Ég sagði honum að ef ég næði prófunum, myndi ég fara í skólann um haustið. Honum fannst þetta mjög athyglisvert. Hann sagði mér svo að hann væri að vinna hjá hernum, sem ég átti von á þar sem hann var Ameríkani. Hann sagði mér að þegar hann myndi klára samninginn hjá hernum, ætlaði hann að kaupa sér sveitabýli með fullt af hestum. Já, er það satt? spurði ég. Ég hef rosalegan áhuga á hestum sagði ég. Já, er það? sagði hann. Það er óvenjulegt. Það er ekki mikið um að kvenfólk hafi áhuga á hestum. Nú, er það ekki? spurði ég, en hugsaði á meðan: Ég er ekki ein af þessu venjulega kvenfólki.
Tíminn leið hratt og við þurftum að fara fljótlega. Það átti að fara að loka staðnum. Jeff sagði að vinir hans ætluðu að sækja hann. Hann rétti mér miða með símanúmerinu sínu. Ég rétti honum nafnspjald sem ég var búin að leika mér að búa til í einum af þessum kössum sem eru á endastöðum strætó. Þegar ég rétti honum spjaldið sagði hann: Ó mjög fagmannlegt. Ég sagði á móti: Ég er að reyna og svo glotti ég. Hann keypti handa mér svo rós sem er gengið með í gegnum þessa staði og kyssti mig á kinnina. Vá, nördinn, hugsaði ég. Þá kvöddumst við.
Dagarnir liðu, en ég gat ekki hætt að hugsa um þetta fimmtudagskvöld.
Kvöld eitt bauð vinkona mín mér í mat hjá sér og kærasta sínum. Ég þáði það, þar sem að ég var laus og liðug og gat gert það sem mér sýndist. Ég fór að tala um þetta kvöld við þau og sagði þeim að ég væri með símanúmerið hans. Þau ýttu á mig um kvöldið að hringja í hann, þar sem þau sáu að ég hafði áhuga á þessum manni. Eftir að þau voru búin að telja í mig kjark og ég búin að drekka nokkur rauðvínsglös, tók ég upp tólið.
Skömmu eftir að ég heyrði símann hringja, heyrði ég mjúka og feimnislega rödd hinum megin á línunni. Þegar Jeff áttaði sig á því að þetta væri ég, varð hann allur uppveðraðri og hækkaði róminn og ég fann að hann spenntist upp. Hæ, hvað segir þú? spurði hann. Ég segi allt gott svaraði ég á móti. Við töluðum um ýmislegt en aðallega eitthvað hjákátlegt og sögðum brandara. Þetta var frekar létt símtal og kæruleysislegt. Við ákváðum samt að hittast á sama veitingastaðnum viku seinna.
Dagarnir liðu og ég hlakkaði til að hitta Jeff aftur. Mig langaði að gera eitthvað spennandi í lífinu. Það var kominn tími á að sletta úr klaufunum. Það var búið að vera allt of mikill sársauki og vonbrigði. Ég vildi gleyma fortíðinni.
Það leið ekki á löngu þar til að dagurinn rann upp sem við áttum að hittast. Ég ákvað að fara til vinkonu minnar sem bjó í bænum nálægt þessum veitingastað. Ég reyndi að fá hana til að komast í stuð til að fara á djammið. Hún gat það ekki þar sem hún var með börnin sín, en vinkona hennar gat farið í staðinn. Við ákváðum þá að fara saman, það var alltaf auðveldara að vera með einhverjum. Við drukkum nokkra bjóra til að komast í stuð, spjölluðum og hlógum af ævintýraþránni. Þegar við töldum okkur vera orðnar vel hressar, lögðum við af stað.
Þegar við nálguðumst staðinn, sá ég að Jeff stóð í bakdyrunum að bíða eftir okkur. Hann var mjög flott klæddur og ofboðslega myndarlegur. Mér fannst hann minna mig á prins sem ætlaði að fara með mig í burtu. Ég þurfti að fara inn um aðaldyrnar og hann kom á móti mér. Ég var að reyna að halda kúlinu og horfði í augun á honum, hann brosti sínu breiðasta.
Jeff tók blíðlega utan um mig og kyssti mig á kinnina eins og heiðursmanni sæmir. Vá, enn þær móttökur, hugsaði ég. Ég var ekki vön svona framkomu. Ég sagði: Það eru aldeilis móttökurnar. Samt var ég að reyna að virka kúl, en ég skalf eins og laufblað.
Þegar ég var loksins búin að ná mér niður á jörðina, settumst við niður til að tala saman. Við gátum sko endalaust talað saman. Hann hafði svo mikið að segja. Því meira sem ég kynntist honum, því athyglisverðari og undarlegri varð hann, en samt forvitnilegur.
Jeff talaði um rokk- og þungarokkstónlist. Svo tók hann allt í einu kerti af borðinu og fór að láta kertavaxið leka á handabakið á sér. Það kom kona að borðinu okkar. Hún tók utan um höfuðið á honum og smellti á hann kossi, það var sko ekki mömmukoss. Hann horfði á mig til að reyna að sjá viðbrögð. Ég var frosin í andlitinu. Ég sýndi honum engin viðbrögð. Ég gaf í skyn að þetta snerti mig ekki neitt. Þá sagði hann: Ef ég þekkti þig ekki, myndi ég sennilega fara með henni á bak við hús og taka hana. Ég svaraði: Ekki láta mig stoppa þig, þetta er þitt líf.
Ég var mjög köld inni í mér. Ég var ekki til í að leika einhverja leiki. Ég veit ekki af hverju ég labbaði ekki út þetta kvöld. Mér var alveg sama um allt. Mér var alveg sama ef fólk ætlaði að leika leiki. Leiktu bara þína leiki og borgaðu svo fyrir það seinna, hugsaði ég.
Ég reyndi að ná utan um hugsanir mínar. Jeff kom ekki svona fyrir, hann virkaði rólegur maður en maður gat séð á honum að hann var allur annar að innan. Það var eins og eitthvað vildi komast út. Hann var eins og sprengja að innan. Það var eins og hann væri að reyna að halda inni tilfinningum sem mættu ekki komast út, þar sem hann yrði þá álitinn geðveikur. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað það var, en ég átti eftir að komast að því.
Þegar þarna var komið voru tilfinningar mína kaldar, mér leiddist frekar en annað og var þögul. Ég var særð að innan og hjarta mitt var kalt. Ég hafði verið særð í lífinu og það var ekkert sem gladdi mig. Ég gat opnað örlítið með því að þvinga hugann til að taka þátt, en hjarta mitt fylgdi ekki á eftir. Mér fannst gott að tjá mig í gegnum músík sem ég hlustaði á eða tala um lífið á heimspekilegan hátt. Jeff var einmitt svona líka og einhvern veginn náði hann að halda athygli minni. Ég er listamaður í eðli mínu og verð það alltaf.
Þegar kvöldinu var að ljúka og staðurinn að loka, fórum við heim til mín til að tala saman. Ég var afslappaðri þar, vegna þess að ég gat sparkað af mér skónum og spilað músíkina mína. Ég setti plötu á fóninn. Stundum var hún róleg þegar við þurftum að tala og svo setti ég hressilegri músík á þegar mig langaði að dansa. Ég dansaði eins og í mínum heimi þarna fyrir framan hann á stofugólfinu.
Jeff sagði allt í einu, eins og upp úr þurru: Mig langar að skrifa sögu. Ó, hvers vegna gerir þú það þá ekki? sagði ég og hélt áfram að dansa. Hann byrjaði að slaka á og virtist geta það, þar sem ég var ekkert að sýna honum of mikla athygli. Það var eins og hann gæti þá talað út frá tilfinningum sínum án þess að vera dæmdur.
Ég myndi berjast fyrir ástina mína sagði Jeff allt í einu upp úr þurru. Svo setti hann hendurnar upp í loft eins og hann væri með sverð og skjöld, tilbúinn í baráttu. Hann horfði upp eins og hann væri að ná í orku þaðan. Vá, hvað hann er undarlegur, hugsaði ég. Svo sagði ég á móti: Ég myndi berjast með ástinni minni. Svo velti ég því fyrir mér hvort að orð mín orkuðu tvímælis, hvort ég myndi berjast við hlið ástarinnar eða við hana. Ég held að hjarta mitt myndi berjast við hlið hennar, frekar en við ef ég mætti ráða. Ég vissi það ekki lengur hvað ég meinti.
Þegar Jeff var að tala um þetta fór ég að hugsa. Það væri góð tilfinning að hafa einhvern við hliðina á sér til að berjast áfram. Ég sá fyrir mér tvö ljón vera að berjast við fíl. Fíllinn var svo stór að þetta var hættulegur leikur. Ljónin voru að reyna að drepa fílinn. Hvernig væri það ef ljónynjan myndi passa afkvæmin á meðan karlljónið myndi berjast við fílinn?
Þá sá ég fyrir mér mann vera að klifra upp fjall og með annarri hendinni hélt hann í brúnina fyrir ofan sig en með hinni hélt hann í hönd konunnar á meðan hún togaði börnin með á eftir sér. Á þennan hátt gætu þau komist upp fjallið.
Hvað ef að fíllinn myndi stíga ofan á ljónið og drepa það? Þá yrði ljónynjan alein með afkvæmin og þar yrði of erfitt. Nei, hún varð að berjast með makanum, stundum í lífinu, hún þarf að vera styrkur hans á erfiðum tímum lífsins, þau þurfa að gera þetta saman. Hugur minn er svo myndrænn þegar ég tala um svona heimspekilega hluti
Á þessum tíma í lífinu leið mér eins og konunni sem var að klifra upp fjallið, alein með börnin, það var enginn maður í myndinni. Hvernig ætli það væri ef hann væri þarna líka?
Ég settist niður við hliðina á Jeff þar sem hann lá í sófanum. Ég var annars hugar. Þessi tilfinning sem ég hafði skynjað, nokkrum mínútum áður, olli því að ég varð þögul. Hann spurði mig þessarar spurningar: Hvar er hjartað þitt? Ég svaraði: Ég veit það ekki. Það er einhvers staðar þar sem ég get ekki fundið það. Það er einhvers staðar úti í horni. Ég hafði fleygt því, býst ég við.
Jeff sagði þá við mig: Þú þarft að finna það. Hvers vegna? spurði ég. Hvað hef ég við það að gera? Það veldur mér bara sorg. Svo hristi ég af mér þessa þungu þanka. Hvað er málið? sagði ég. Ætlar þú að fara að sálgreina mig hérna? Hann var nefnilega að vinna við að hjálpa fólki sem hafði lent í tilfinningasorg og áföllum. Einhvers konar ráðgjafi.
Ég setti upp á mig grímuna og sagði Jeff að hætta að tala um sorglega hluti. Vertu hress sagði ég. Við skulum reyna að njóta kvöldsins. Svo lagðist ég ofan á hann til að faðma hann og fór að kyssa hann. Hann hörfaði. Mér brá örlítið en þegar hann sagði að hann væri ekki tilbúinn í þessa hluti, skildi ég það alveg. Við skulum bara kúra sagði ég þá. Svo endaði þetta með því að við fórum í rúmið til að sofa. Hann sagði þá við mig, þar sem hann lá við hliðina á mér og sneri baki í mig: Ekki ganga út frá mér. Ég svaraði á móti: Ég mun ekki gera það.
Ég var ekki viss um hvað þessi beiðni hans þýddi en ég gekk út frá því að að hann meinti að ég gengi ekki út frá vinum mínum. Ég fann allt í einu tárin brjótast fram og ég fékk smávegis ekka sem ég reyndi að fela fyrir honum. Jeff sneri sér við, snerti öxlina á mér og spurði: Hvað er að? Ég svaraði þá: Það verður svo sárt þegar þú ferð. Hann spurði mig þá: Hvernig í ósköpunum á ég að geta það? Ég reyndi að ylja mér við þá hugsun að hann myndi aldrei fara, ég reyndi að njóta þessa andartaks. Ég fann samt að það var ekki allt eins og það hljómaði. Ég vildi samt leyfa mér að lifa í blekkingu þessa nótt. Ég fann fyrir miklum létti við það. Ég fann hjarta mitt fyllast af gleði. Svo sofnaði ég.
Það var eins og hann ætti heiminn
Daginn eftir ætlaði ég að fara að veiða og grilla með vinum mínum. Jeff fylgdi mér til vinkonu minnar þar sem hann virtist ekki vera búinn að ákveða neitt frekar um daginn. Ég hefði kannski átt að bjóða honum með, en mér fannst ég þurfa að fara aðeins í burtu og vera frjáls.
Þegar við vorum að kveðjast fyrir framan húsið hjá vinkonu minni og stóðum í faðmlögum og kysstumst í kveðjuskyni, horfði ég í kringum mig til að aðgæta hvort einhver væri að horfa á. Ég var svolítið feimin við að kyssa á almannafæri. Ég reyndi að flýta mér að kveðja hann, þó svo að ég vildi helst að hann kæmi með mér.
Þegar ég horfði á eftir honum ganga í burtu, tók ég eftir því að það var eitthvað sérstakt við hann. Hann var með lítinn bakpoka á bakinu og gekk með nefið upp í loftið eins og hann væri að skoða allt í kringum sig og mjög fjarrænn en brosandi í leiðinni. Það var eitthvað kæruleysislegt yfirbragð á honum. Það var eins og hann ætti heiminn. Þetta vantaði mig. Hann gekk í burtu án þess að líta til baka og mér fannst eins og hann saknaði einskis.
Ég spurði hann seinna að því af hverju hann liti aldrei til baka þegar hann færi. Hann sagði þá: Ef þú lítur til baka, þá skilur þú hjarta þitt eftir. Mér fannst það svolítið athyglisvert. Kannski á maður bara að halda sína leið.Við fórum að hittast annað slagið eftir þetta. Þar sem hann bjó á Vellinum vorum við samt meira í símasambandi.
Einn daginn sem hann kom í heimsókn, færði hann mér afmæliskort. Ég hafði átt afmæli þarna um sumarið. Í kortinu stóð: Síðan ég kynntist þér hef ég áttað mig á einhverju sem ég hélt að ég væri búinn að gleyma. Ég vissi ekki hvað hann meinti en ég held að miðað við brosið frá honum, þá hlyti það að vera gott.
Jeff átti það til að tala undarlega en samt á skemmtilega óskiljanlegan og heimspekilegan hátt. Hann sagði eitt skipti við mig í símann: Ef þú værir rík myndi ég giftast þér. Hvað meinarðu? spurði ég, Þá sagði hann upp úr þurru: Ég þarfnast blóðs þíns. Ha, hvað meinarðu? spurði ég. Ég fékk ekkert svar við þessu. Það var eins og hann væri að hugsa upphátt en ekki að tala við mig. Jæja, hugsaði ég þá, þú getur fengið það seinna. Ég tók því þannig að hann vildi fá söguna mína. Ég tók því þannig að hann vildi finna fyrir krafti mínum eða geðbrigðum. Ég gat verið frekar skrautleg stundum. Ég gat verið pirruð, reið, köld eða ofboðslega glöð og gefandi, ástríðufull og nærandi en svo gat ég gersamlega lokuð eða verið geðveikislega undarleg. Það er það sem þú þarft kannski er það ekki? Við vorum kannski ekki svo ólík.
Jeff fór að gefa í skyn að hann vildi að samband okkar yrði nánara. Ég sagði að það væri allt í lagi að prófa. Ég efaðist samt í huganum. Hvað var hann að hugsa? Þar sem ég vissi að hann myndi einhvern daginn yfirgefa landið. Það eina sem ég gat fundið var að þetta var farið að reyna á mig. Ég var ekki í neinu jafnvægi til að takast á við tilfinningar. Ég var ekki búin að jafna mig. Ég var farin að missa athyglina á vinnuna og á drauma mína. Það var eins og hann heltæki huga minn. Ef ég var ekki að tala við hann, þá var ég að hugsa um hvað hefði farið á milli okkar í síðasta símtali eða þegar við hittumst.
Ég hætti að nota áfengi á þessum tíma. Þó að ég vildi, þá gat ég það ekki. Það var eins og að það myndi sljóvga huga minn og ég átti nógu erfitt með að skipuleggja hlutina þó ég væri ekki að blanda víni í það. Ég var farin að finna fyrir því að ég gæti ekki verið án þessa manns. Hann virtist hafa þessi segulmögnuðu áhrif á mig. Það var eins og hann hefði svör við þeim spurningum sem ég leitaði að.
Ég held að þörfin fyrir að hafa hann í lífi mínu hafi aðallega verið til að svara þessum spurningum frekar en að elska hann. Í hvert einasta skipti sem við töluðum saman í símann, grét ég mig í svefn. Hann var að opna hjarta mitt og það var að koma fram sá sársauki sem ég hafði falið síðustu ár. Ég var farin að þurfa á honum að halda. Ég þurfti á visku hans að halda til að getað tekist á við það sem var að brjótast fram.
Mér fannst ég alltaf svo ber eftir að við vorum búin að tala saman og mig vantaði brynjuna sem hann var að brjóta niður. Hann gat fengið mig til að njóta lífsins og taka gleði mína aftur, en þegar hann fór þá kom sorgin og minningarnar til baka. Ég hafði ekki stjórn á þeim tilfinningum sem voru inni í mér. Ég var ekki nógu sterk til að takast á við þetta ein. Það hefði verið hægt með því að loka á það, en nú var hann farinn að opna og ég hafði ekki neinar dyr sem lokuðust þegar hann fór.
Í eitt skiptið sem ég hitti hann sagði ég við hann: Ég þarf á heilanum þínum að halda. Ég þarf á þekkingu þinni að halda. Ég var viss um að ef ég væri með heilann á honum, þá þyrfti ég ekki á neinum að halda í þessu lífi nema krökkunum mínum auðvitað. Ég gæti þá hugsað um þau alein. Faðir minn hafði einu sinni haft á orði við hana mömmu: Það virðist eins og Andrea þarfnist einhvers.
Ég þurfti á heila að halda, pabbi, það er það sem ég er búin að leita að.
Ég þurfti athygli og ást, frá föður mínum og að honum fyndist ég geta eitthvað. Ég þurfti hrós, alveg eins og Sigursteinn bróðir minn. Þó svo að ég væri ekki alltaf að gera rétt. Ef ég gerði mistök, þá þurfti ég ekki að heyra að ég væri heimsk og barnaleg eða eins og þú orðaðir það oft, að ég væri alltaf að flækja annan fótinn um hinn. Stundum þegar ég datt og meiddi mig, þurfti ég bara að fá faðmlag frá þér pabbi og heyra þig segja: Ég finn mjög mikið til með þér og mér þykir svo vænt um þig. Kannski líka, ef þú hefðir sagt. Leyfðu mér að lina þjáningar þínar.
Góði Guð, hjálpaðu mér að skilja. Sagði ég í huganum
Líf mitt fór að taka aðra stefnu. Ég var farin að finna fyrir því að ég næði ekki að einbeita mér. Ég var að leita að svari. Ég var að leita að skilningi á því sem var að gerast. Ég neitaði því að hafa aðrar tilfinningar til þessa manns aðrar en að fá svör.
Góði Guð, hjálpaðu mér að skilja, bað ég til hans.
Ég var farin að fá alls konar skilaboð í huganum. Það var eins og einhver væri að tala við mig. Hvað er að gerast Guð? kallaði ég. Hvað er að gerast með mig? Ég get ekki barist við þetta, ég þarf að vera til staðar fyrir börnin. Gerðu það hjálpaðu mér.
Ég var að skrá mig í skólann á þessum tíma og fór í inntökuprófið sem ég stóðst með glans. Ég var ein af 40 sem voru valin úr 200 manna hópi. Þetta er virtur myndlistarskóli sem tekur aðeins þá sem hafa hæfileika. Ég var rosalega stolt af sjálfri mér og var nú búin að sanna það, að ég væri ekki hæfileikalaus. Gleðin tók yfir.
Þegar ég myndi byrja í skólanum vissi ég að þetta yrði erfitt og að ég þyrfti að skipuleggja mig mjög mikið. Þetta yrði eins og að mæta í vinnu klukkan 9-17. Ég þurfti að vera með það á hreinu að koma krökkunum fyrir hjá dagmömmu.
Ég ætlaði að nota tækifærið og sökkva mér í námið en fyrst yrði ég að klára vinnuna á saumastofunni. Ég var að vona að það myndi komast ró á huga minn. Af einhverri ástæðu þurfti Jeff að halda áfram. Ég gat ekki sagt honum að hætta að hafa samband, vegna þess að hann var búinn að vera mér svo góður. Ég vildi ekki særa hann. Ég var líka forvitin hvað kæmi næst. Ég sagði honum að við yrðum að hittast miðað við aðstæður okkar beggja. Ég gat auðvitað ekki stokkið til í hvert skipti sem hann var í fríi. Hann var kannski í Reykjavík og skrapp í sund í Árbæjarlaug, rétt hjá heimilinu mínu og hringdi til að spyrja hvort ég gæti hitt hann. Ég var náttúrulega með ung börn og gat ekki farið frá þeim. Ég held að það hafi pirrað hann svolítið. Það var ekki á dagskránni hjá honum að eiga börn. Hann var frjáls.
Mér fannst ég fara í hringi með hlutina. Mér fannst ég líka vera að upplifa eitthvað sem ég hafði kynnst áður. Það var þessi tilfinning sem er í sumum samböndum: Haltu mér, slepptu mér. Stundum var ég vinkona hans þegar hann hringdi og næsta dag, kærasta. Ég gat aldrei verið viss. Þetta storkaði mér svolítið og ruglaði mig í ríminu
Ég gat ekki áttað mig á því hvorum megin ég ætti að vera. Það var eins og hann væri ekki viss um hvað hann vildi. Ég vildi fullvissu. Kannski átti hann erfitt með að skuldbinda sig, en vildi samt eiga mig. Ég varð pirruð á þessari hegðun, en ég vildi ekki láta hann vita af því, hann virtist hafa gaman af því að heyra reiðina í manni. Það var eins og honum fyndist það spennandi. Ég ætlaði ekki að gera honum það til geðs. Ég lokaði á þessa tilfinningu. Ég ákvað að hugsa bara um hann sem vin til að vera ekki að flækja þetta. Ég átti samt erfitt með það þar sem ég var að verða hrifin af honum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.