Kafli 7. Einstæðir foreldrar

7. kafli

Einstæðir foreldrar

 

Ég fann stað þar sem var heimili fyrir einstæða foreldra. Ég hafði ekkert fengið úr búinu nema kommóðuna og tvö rúm fyrir börnin. Davíð stóð ekki við orð sín með þvottavélina. Ég var einnig með hluta af neysluskuldum sem voru á greiðslukortinu mínu. Nafn mitt var ónýtt og ég átti enga peninga. Ég gat leigt herbergi hjá einstæðum foreldrum sem var eitt svefnherbergi og annað sem var notað fyrir stofu og eldhús. Þá þurfti maður að deila baðherbergi með öðrum konum og börnum þeirra. Annað var ekki í boði. Ég fór á atvinnuleysisskrifstofuna til að skrá mig, svo ég gæti fengið atvinnuleysisbætur og mögulega vinnu.

Atvinnuleysisbætur eru ekki háar og voru aðeins um 70 þúsund krónur á þessum tíma. Meðlag var þá 10 þúsund krónur á barn. Ég borgaði svo 22 .000 krónur í húsaleigu, 20.000 krónur í leikskólagjöld fyrir krakkana og þá voru um 48 þúsund krónur eftir í mat og föt. Verulegur hluti af laununum fór sem sagt í leiksskólagjöld, því börnin þurftu að vera á leikskóla til að maður teldist löglega fær um að ráða sig í vinnu. Þessir peningar voru miklir miðað við það hvað við áttum. Ég borgaði húsaleigu sem var svipuð og á almennum markaði en fékk ekki húsaleigubætur, þar sem ég deildi salerni með öðrum konum.

Það vildi enginn leigja atvinnulausri, einstæðri móður. Það bjóst enginn við að hún myndi borga leiguna. Til að eiga fyrir mat eða föt á börnin þurfti ég að drýgja tekjurnar með því að fara í Mæðrastyrksnefnd. Það voru ekki létt spor. Það vandist samt ótrúlega vel og við fórum líka í kirkjuna til að fá eitthvað hjá þeim.

Á þessum stöðum fengum við líka föt og svo þegar við vorum í stuði fórum við í Rauðakrossbúðina að versla. Það var eins og að fara í tískuvöruverslun og okkur leið eins og við værum að stæla okkur upp. Þar var hægt að finna flotta skó eða úlpur eða kápur og þegar við komum svo heim, vorum við með tískusýningu. Með þessum leiðum tókst okkur að ná endum saman.

Ég fór að telja hverja einustu krónu sem ég þurfti ekki að eyða, mér til tekna og mér tókst að safna fyrir 10 ára gömlu sjónvarpi og fimm ára gömlu stereótæki. Seinna fann ég notaðan sófa sem kostaði lítið. Þetta fór að líkjast heimili. Mér leið að minnsta kosti þannig þegar ég sat á kvöldin með kerti kveikt og fékk mér bjór og hlustaði á plötur. Ég held að krakkarnir hafi ekkert tekið eftir því hvað þetta var fátæklegt. Þau þurftu ekki mikið til að gleðjast enda ennþá svo ung. Ég fann þó fyrir öryggi, vegna þess að það myndi að minnsta kosti enginn koma inn og brjóta rúmið eða selja það eða jafnvel tuska mig til. Ég var í skýjunum. Þetta var lífið og frelsið. Ég átti heimili, ég var frjáls og óháð.

Davíð kallaði þetta skítaholu og hneykslaðist á mér að vera að bjóða börnunum upp á þetta. Ég vissi að það var bara til að reyna að brjóta mig niður og ég ætlaði sko ekki að láta hann komast upp með það. Ég vissi innst inni að þetta yrði ekki alltaf svona. Ég ætlaði að ná lengra í lífinu. Það tæki bara tíma.

Jólin voru að nálgast og ég var alltaf að teikna myndir. Ég spurði föður minn að því hvort hann vildi að ég gæfi honum mynd í jólagjöf, þar sem ég átti ekki mikinn pening. Hann sagði að hann myndi ekki vilja fá svona mynd af dýrum eins og ég var vön að teikna. Mömmu var alveg sama en pabbi sagði að hann hefði ekki áhuga á dýrum. Þegar ég loksins komst að niðurstöðu hvað ég gæti teiknað fyrir hann, ákvað ég að teikna Jesú á krossinum. Ég vildi hafa hann þakklátan þó svo að hann hefði verið krossfestur. Hann átti að sýna fram á æðruleysi þrátt fyrir sársaukann.

Ég taldi að þetta hlyti að falla í góðan jarðveg hjá pabba, þar sem ég myndi gefa honum myndina á aðfangadag. Hann var alltaf svo trúaður á jólunum. Ég var rosalega stressuð, þar sem ég hafði aldrei málað neitt fyrir pabba. Systir mín kom niður eftir til mín á þessum tíma og ég sýndi henni myndina. Ég spurði hana kvíðin hvort hún héldi að honum myndi líka við þetta. Hún sagði að ef hann gerði það ekki, væri hann eitthvað skrítinn. Ég keypti svo ramma í IKEA og setti myndina í. Þetta var mynd sem var í stærð A3 og það er nokkuð vegleg stærð.

Með hverjum deginum sem leið urðu hlutirnir auðveldari. Ég tók öllu með ró. Ég fékk samt ekki vinnu. Ég vildi heldur ekki vinna við það sem væri verr borgað en atvinnuleysisbæturnar. Ég fékk tilboð um vinnu í fiskvinnslu en ég neitaði þar sem ég kunni ekki til verka og það var líka það síðasta sem ég vildi vinna við. Ég var vön að vinna við afgreiðslustörf og sótti ég mest um það.

Ég hætti að fara með krakkana í leikskóla, vegna þess að ég hafði ekki efni á því, þar sem ég ætlaði að reyna að koma okkur betur fyrir því ég vissi að þetta heimili var tímabundið. Það var ekki leyfilegt að vera þarna nema nokkra mánuði. Ég þyrfti að finna íbúð sem fyrst þar sem það voru fleiri á götunni sem biðu eftir plássinu sem ég var í.

Ég gat ekki beðið föður banrana um að hjálpa til vegna þess að mamma hans hafði hringt í mig og beðið mig um að fella niður annað meðlagið. Hún sagði við mig að ég þyrfti að taka þátt í að borga niður skuldirnar sem voru á hennar nafni. Hún sagði að við hefðum stofnað til þeirra saman.

Ég varð gáttuð á þessari beiðni. Ég hafði tekið á mig gjaldþrot og sat uppi með skuld upp á 500 þúsund krónur út af því og svo var ég með vísaskuld. Hann var með þrefalt hærri tekjur en ég og tók 900 þúsund krónur í skuld. Ég sagði að ég ætlaði ekki að bera ábyrgð á honum lengur. Hann væri með miklu hærri laun en ég og gæti alveg klárað það litla sem var eftir af skuldunum. Ég sagði henni að ef hann færi að hugsa, þá gæti hann klórað sig út úr þessu. Þá svaraði hún: „Já, en hann gerir það ekki og nú eru þeir að hóta því að taka íbúðina mína.“ „Já, er það?“ svaraði ég. „Þú vilt sem sagt leggja heimili barnabarna þinna í hættu vegna þessa. Er ekki nóg að eitt heimili fór á hausinn, þarf að láta annað heimili fara sömu leið? Hvar eiga börnin að halla höfði sínu þegar allt hrynur í kringum þau? Ég er búin að fá nóg af þessu. Látið mig bara í friði. Ég þarf næði til að byggja upp öryggi fyrir okkur krakkana.“ Svo kvaddi ég hana.

Ég vissi alveg hvernig þetta var búið að vera. Ég bar mikla virðingu fyrir mömmu hans. Hún hafði gengið í gegnum sína erfiðleika. Hún átti þetta ekki skilið, að þurfa að missa íbúðina sína. Hún var búin að ala upp sín börn. Ég gat bara ekki tekið ábyrgðina á þessu. Það var í höndum sonar hennar að taka ábyrgð á því sem hann hafði lagt á hana. Þessar skuldir komu til bæði fyrir og eftir að ég og hann kynntumst. Ég vissi að hún hafði gefist upp á að tala við hann. Ég varð bara að halda minni orku til að ala upp börnin mín. Þegar ég lagði á og fór niður í mína íbúð var bankað á hurðina. Þar var komin kona sem bjó á efri hæðinni. “Hæ” sagði hún þegar ég opnaði. “Ég mátti bara til með að koma til þín og kynna mig fyrir þér þar sem ég heyrði þig tala í símann.” “Það er aldeilis kraftur í þér kona.” Ég verð að fá að kynnast þér þar sem ég held að þú og ég eigum samleið.” Hún sagðist heita Halla og spurði hvort hún mætti koma í kaffi. Ég samþykkti það og bauð henni inn. 

Það fór vel á með okkur og það var kraftur í þessari konu. Hún átti 2 stelpur og var skilin við manninn sinn fyrir skömmu. Þetta varð til þess að ég og Halla fórum að vera mikið saman og skiptumst á að vera heima hjá henni eða mér. Hún sagði mér að hún væri óvirkur alki sem væri ekki búin að vera í neyslu í 2 ár. Mér leist vel á þessa konu og þótti gaman að umgangast hana. Hún var rosalega góð og þolinmóð við dætur sínar og oft á tíðum sá ég hana föndra með þeim við eldhúsborðið.

 

 

Þegar áramótin 1996 runnu upp flutti Davíð til Reykjavíkur. Hann fór að taka börnin aðra hverja helgi. Til að byrja með þurfti hann vera með þau hjá móður sinni, þar sem hann var ekki kominn með húsnæði. Þegar hann sótti þau var það í fyrsta skiptið sem hann hitti þau eftir að ég yfirgaf hann um haustið, það örlagaríka kvöld.

Hann hellti sér yfir mig í anddyri hússins sem við bjuggum í og sagði að ég væri búin að eyðileggja fyrir honum lífið og sundra fjölskyldunni. Einnig sagði hann að ég hefði gert lítið úr honum með því að klaga hann til lögreglunnar u kanínuna og því sem verra var, að fara í Kvennaathvarfið.

Ég horfði á hann og lét sem ég heyrði ekki hvað hann sagði. Hann varð pirraður á því að þessar yfirlýsingar hans snertu mig ekki. Ég hafði lært það í Kvennaathvarfinu að hlusta ekki á hótanir eða tilraunir til að brjóta mig niður. Ég vissi að ég gat ekki fengið hann til að líta sjálfum sér nær og var hætt að reyna það.

Þegar hann tók börnin um helgar, notfærði ég mér það til að fara að skemmta mér og hitta fólk. Við skemmtum okkur með áfengi og fórum á djammið. Ég var orðin tilfinningalega frosin og vildi ekki hugsa um neitt nema daginn í dag. Á þessum tíma kynntist ég mönnum en hafði ekki áhuga á neinu föstu sambandi og vildi ekki hitta þá aftur daginn eftir.

Það var aðeins einn sem ég hitti oftar. Hann hét Freyr og var giftur, sagði hann mér kvöldið sem við kynntumst. Mér var sama um tilfinningar annarra eftir að ég skildi við Davíð og lét það því ekki á mig fá að hann væri giftur. Ég var í svo mikilli hjartasorg eftir sambandið með Davíð að það skipti mig ekki máli hvernig öðrum leið.

Freyr var stórskorinn í andliti og ekki fríður en samt kynæsandi og klæddist gallajakka. Það fór vel á með okkur og hann kom heim með mér þetta sama kvöld. Þegar heim var komið sagði ég við hann feimnislega að ég byggi ekki flott þar sem ég væri nýskilinn. Honum fannst það allt í lagi og við drukkum bjór þetta kvöld og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar.

Það var þægilegt að vera í kringum Frey og hann gat spilað á gítar sem ég hafði keypt einhvern tímann, þar sem mig langaði að læra á gítar. Það var róandi að hlusta á hann spila. Þegar hann lagði svo gítarinn frá sér og við fórum að kela fann ég fyrir þeirri hlýju sem ég hafði þráð svo lengi. Ég fann samt ekki þær tilfinningar sem maður finnur þegar maður elskar.

Við eyddum heitri kvöldstund í litlu íbúðinni minn sem var samt ekki nema tvö herbergi en létum það ekki trufla okkur. Ég hafði aldrei upplifað svo æðislegt kynlíf og var alveg til í að hitta hann aftur. Við skiptumst á símanúmerum og ég lofaði að ég myndi ekki tala í símann nema hann myndi svara. Ég vissi hvar hann átti heima. Ég ætlaði samt ekki að fara að njósna um hann, þar sem ég vildi ekki eyðileggja neitt fyrir honum. Mér leið það vel í kringum hann og vildi ekki storka örlögunum.

 

 

 

Eina nóttina lá ég á dýnunni minni með börnin í sama herbergi og hugsaði áður en svefninn tók völdin. Ég var búin að finna fyrir einmanaleika síðustu daga. Ég vissi ekki hvar ég átti að finna styrk. Ég sneri mér þá til Guðs og sagði við hann: „Góði Guð, viltu halda utan um mig, mér líður svo illa. Ég veit ekki hvert ég er að stefna, ég þarf bara faðmlag, svo ég geti sofnað.“ Ég sofnaði vært þessa nótt, en mig dreymdi líka undarlegan draum.

 

Draumurinn:

Ég stóð inni á gangi í einhverju húsi. Ég sá mann og konu standa lengra inni á ganginum. Þau stóðu og horfðu á mig og mér fannst að konan horfði á mig með illilegu augnaráði. Maðurinn yppti öxlum eins og hann væri að reyna að segja mér að hann vissi ekki af hverju hún væri svona reið.

Ég vissi auðvitað ekki af hverju hún var það og ég beið bara. Hún gekk til mín og sagði: „Hann hefur aldrei fengið Tangurey.“ Það átti að þýða eitthvað kynferðislegt og einnig snúast í kringum áfengi. Ég vissi ekki hvað þetta þýddi. Hún gekk framhjá mér og fór inn í herbergi þarna í húsinu. Mér leið eins og ég ætti að bíða eftir einhverju. Þessi maður gekk einnig framhjá mér og fór inn í sama herbergið. Maðurinn og annað fólk var inni í herberginu, var að undirbúa eitthvað. Fljótlega kom maðurinn út aftur og hann leiddi mig inn í herbergið. Mér var sagt að leggjast á dýnu sem var brún á litin og svo var önnur dýna með sama lit og hann lagðist á hana með fæturna á móts við fæturna á mér þannig að höfuðin sneru hvort í sína áttina. Þá var mér sagt að fara út úr herberginu og ég átti að bíða inni í næsta herbergi, sem var baðherbergi. Efst á veggnum inni á baðherberginu var loftgat.

Ég gat heyrt raddir fólksins í gegnum þetta gat. Ég gat ekki greint hvað það var að segja. Mér fannst samt að fólkið væri að skipuleggja eitthvað. Skyndilega kom maðurinn aftur og sagði mér að koma. Hann hélt á myndbandi og setti það í myndbandstæki sem var þarna. Svo kveikti hann á sjónvarpinu og ég fór að horfa á myndina. Þegar ég var farin að horfa, sökk ég inn í myndina og ég sá konu standa eins og dansara sem biði eftir að taka sporið. Hún fór svo að dansa eins og hún væri að dansa ballet í gylltu bikiní. Hún dansað eftir hlykkjóttum vegi og snerist í dansinum. Báðum megin vegarins voru hvítir steinar sem var raðað í skipulagða röð. Í hverri beygju sem var á veginum voru lindir. Mér fannst eins og hana langaði að stökkva út í. Hún átti samt ekki að gera það strax.

Þegar hún kom að enda vegarins tók hún undir sig stökk út í lindina. Það myndaðist stór gusa þegar hún skall á vatninu og mér leið eins og ég þyrfti að grípa andann á lofti. Ég varð óttaslegin og hafði áhyggjur af því að hún kæmi ekki upp aftur. Fljótlega kom hún aftur upp í annarri gusu. Hún settist á hvítan stein sem var í miðju lindarinnar og í kringum steininn var kassi eins og skókassi. Þetta var kassi með stórum smartískúlum. Það var líka annað sælgæti í stærra lagi og það var kringlóttur marsipanlakkrís sem af tegundinni „all-sort“. Mér fannst eins og hún væri orðin mjög feit og einnig nakin. Hún leit upp og sveiflaði hárinu aftur. Þegar ég sá andlitið á henni sá ég að þessi kona var ég. Mér fannst ég líta mjög þreytulega út þarna og horfði beint framfyrir mig. Þarna var myndin búin í draumnum. Ég leit á manninn og spurði hann: „Viltu hafa mig svona feita.“ Hann svaraði játandi, alvarlegur í bragði og mér fannst hann vera með blá augu. Mér fannst hann vera segja satt. Þá spurði ég hann: „Verður þetta sýnt í sjónvarpinu?“ Hann svaraði: „Já.“

 

Ég vaknaði við drauminn og fann að þetta þýddi eitthvað gott. Ég lyfti höndunum í átt til himins eins og ég væri að biðja og sagði: „Takk Guð.“ Mér fannst eins og hann væri kominn að hjálpa mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband