Kafli 6. Kvennaathvarfið

6. kafli

Kvennaathvarfið

 

Þegar ég kom í Kvennaathvarfið þetta haust 1995 og krakkarnir tveggja og þriggja ára, var tekið á móti okkur með mikilli virðingu. Þær sögðu mér að sækja allt í bílinn. Þá var mér sýnt herbergið sem við fengjum að gista í. Það var ekki stórt en það var notalegt og traustvekjandi. Ég var spurð þegar ég kom. „Til hvers ert þú komin í Kvennaathvarfið?“ „Til að jarða hjónabandið.“ Svaraði ég.

Ég fór í kynnisferð um húsið til að átta mig á öllum herbergjum og skipulagningu innan athvarfsins. Krakkarnir fóru með lærðum uppeldisráðgjöfum inn í annað herbergi til að hafa ofan af fyrir þeim á meðan mér var sagt frá öllum reglum og dagskrá. Þar var mér sagt að ég þyrfti að taka mér frí frá öllu áreiti og ná mér niður á jörðina. Þær sögðu mér að krakkarnir gætu farið í svokallaðan leikskóla á daginn þannig að ég gæti unnið að því að byggja upp framhaldið.

Ég spurði hvort ég gæti þá farið að finna mér vinnu. Konan sem var að sýna mér húsið, horfði á mig undrandi. „Til hvers þarftu vinnu?“ spurði hún. „Ja, við eigum enga peninga“ sagði ég og ég þarf að vinna til að framfleyta okkur. Hún svaraði að það þyrfti að bíða um tíma og láta þær um að hafa áhyggjur af því. Svo gekk hún brosandi í burtu. Ég stóð þarna og velti fyrir mér hvað væri svona broslegt, þar sem ég taldi að við þyrftum að halda áfram baráttu okkar til að koma okkur upp heimili fyrir framtíðina.

Við fórum alltaf í viðtöl á þriðjudagskvöldum. Það var verið að ræða tilfinningar og hvernig líf okkar hefði verið í sambúð við ofbeldismanninn. Við lærðum að við værum stundum að gefa röng skilaboð með hegðun okkar. Okkur var kenndur einn mikilvægur hlutur og það var hvað meðvirkni er.

Meðvirkni kemur út á svo margan hátt. Það er líklegast að við höfum sjálfar verið meðvirkar en einnig ættingjar sem hafa ekki skilið hvernig ástandið er búið að vera. Við höfum sagt við ofbeldismanninn: „Ekki vera vondur við mig, það særir mig.“ Í leiðinni höfum við gefið skilaboð með því að láta þetta yfir okkur ganga: „Þú mátt samt halda áfram, þetta var ekki svo slæmt.“ Það var vegna þess að við fórum ekki út úr ástandinu.

Við virtumst allar vera giftar sama manninum. Hann gat verið, læknir, lögfræðingur, bakari eða uppfinningamaður. Það sem þeir áttu sameiginlegt var að þeir höfðu sagt eitthvað niðurbrjótandi eða jafnvel barið okkur. Það voru misjafnar sögur en tilfinningin var sú sama. Við vorum hræddar, niðurlægðar, óánægðar með okkur og búnar að missa virðinguna.

Það var vinátta á meðal kvennanna og við gátum allar séð okkur sjálfar í hver annarri. Ef síminn hringdi og ein konan fór í símann, vissum við að hún var búin að tala við hann þegar hún kom grátandi til baka. Það gat líka verið að hún hefði verið búin að tala við ættingja hans. Þeir vissu ekki hvernig hlutirnir voru. Þeir sögðu okkur að við yrðum að fara heim til að laga hjónabandið.

Sem betur fer voru þarna konur sem unnu við það að styðja okkur. Forstöðukonan var einstaklega góð og skilningsrík. Hún var geðhjúkrunarfræðingur og tók okkur oft í viðtal til að fara yfir stöðuna. Það var eins og þær væru með fullkomið kerfi fyrir okkur til að svara fyrir okkur.

Þetta var aðferð sem kallast sjálfsvarnarkerfi. Við fundum að ef við notuðum þessa aðferð, myndaðist hjúpur utan um okkur sem virkaði þannig að öll ljót orð og allar ásakanir, skipanir eða jafnvel grátur mannanna skoppaði af okkur eins og vatni væri hellt á gæs. Þetta var ný upplifun fyrir okkur. Við áttum erfiðast með að nota þetta kerfi ef viðkomandi sagði eitthvað fallegt, vegna þess að við þráðum að heyra eitthvað fallegt frá honum. Það var eins og afsökunarbeiðni hans virkaði eins og 100 rauðar rósir. Ef við fórum til baka gat hann brotið rósirnar. Hann virtist alltaf finna aðrar rósir til að gefa okkur. Hann faldi sig stundum í skottinu á bílnum til að hlusta á hvernig hann ætti að ná okkur til baka.

Það var engin hóra þarna inni, ljót, feit eða vitlaus. Við vorum allar gáfaðar, skynsamar, fallegar og með erfiða reynslu að baki. Það sem við tókum sérstaklega eftir, var að börnin okkar voru örugg. Þau hlupu ekki lengur inn í herbergi ef einhver var að tala hærra en venjulega. Þau voru að leika sér saman. Þau máttu fara í ísskápinn ef þau voru svöng, þau skiptu loksins máli og það var hlustað á þau. Það þurfti stundum að sannfæra þau mörgum sinnum um að hann kæmist ekki inn. Þau söknuðu samt pabba síns. Það var kannski í þau skipti sem þau vissu að hann var ekki að drekka. Hann þurfti ekkert alltaf að drekka til að verða reiður. Það voru einhver hljóð eða þögn sem þau voru búin að læra að þýddi eitthvað hættulegt.

Matartímarnir voru skemmtilegir. Það fengu allir að borða á sama tíma. Það máttu allir borða þó svo að þeir hefðu ekki klárað heimalærdóminn. Það var bara hægt að gera það eftir matinn. Það var hlegið og sagðar sögur af upplifunum við matarborðið og gert grín að því hvað viðkomandi hafði verið vitlaus. Þegar þessar sömu sögur voru sagðar í grúppum á þriðjudögum voru þær sagðar á alvarlegri hátt. Flestar fóru þá að gráta. Hláturinn virtist vera brynja sem við vorum búnar að koma okkur upp. Hláturinn hjálpaði til við að komast út úr sársaukanum.

Þarna var herbergi með fullt af fötum. Við máttum fara inn í þetta herbergi og velja föt á börnin og okkur sjálfar án þess að borga. Það kostaði ekkert þarna inni. Við áttum líka enga peninga. Við höfðum bara flúið með það sem við gátum borið eða þær flíkur sem við náðum að klæða okkur í áður en við hlupum út. Börnin voru kannski í náttfötunum þegar þau komu.

Við kunnum ekki að taka við þessum gjöfum, þar sem við héldum að ef við sýndum einhver viðbrögð yrði sagt: „Nei, ég var bara að skrökva.“ Okkur fannst við ekki eiga þetta skilið. Það virtist eins og öll sú vinna sem við vorum vanar að leggja fram til að mega kaupa okkur buxur eða peysu, væri óþörf þarna inni. Þessi föt höfðu komið frá fyrirtækjum eða almennum borgurum sem gáfu þau til styrktar einstæðum mæðrum. Við héldum að það hlytu að vera einhverjar aðrar sem ættu að fá þessar gjafir. Okkur fannst þessir aðilar vera englar. Þeir hlutu að vera það vegna þess að þeir voru ekki að biðja um neitt til baka.

Konurnar voru allar eins og systur, mæður eða góðar vinkonur. Börnin virtust eignast fullt af systkinum. Þau gátu talað saman og skildu hvort annað. Þau vissu hvað hljóðin þýddu, þegar hurð var skellt eða diskar brotnir. Þau skildu stundum ekki af hverju það gerðist aldrei á þessu stað. Þau héldu að það væri eitthvað að þessu húsi. Þau spurðu mömmur sínar: „Hvenær kemur pabbi heim“ eða „Hvenær kemur löggan?“ Það var gott að sitja niðri í setustofu vitandi að börnin væru sofnuð og yrðu ekki vakin um nóttina. Það tók nokkra daga að læra að sofna með þeim. Við héldum að við þyrftum að vaka til að vera tilbúnar ef það yrðu læti.

Jólin voru einstök. Á Þorláksmessukvöld fór enginn til að drekka sig fullan og koma heim seint um nóttina til að brjóta eitthvað eða henda jólasteikinni út eða var svo fullur að þegar aðfangadagur rann upp gæti hann ekki borðað jólamatinn vegna þess að hann ældi honum jafnóðum útaf þynnku. Jólin voru eins og mig hafði dreymt um, hátíðleg og spennandi. Við skildum loksins af hverju börnin biðu eftir þeim. Börnin höfðu aldrei fengið svona margar jólagjafir. Það voru sungin jólalög sem maður hafði heyrt í útvarpinu. Jólaljósin höfðu aðra þýðingu á þessum stað. Þau þýddu gleði og ljós Jesú en ekki skilaboð til ímyndaðs elskhuga sem ein kvennanna hafði verið ásökuð fyrir þegar hún bjó með manninum. Við vissum að draumaprinsinn væri þarna úti, við höfðum bara ekki fundið hann ennþá.

Ég fékk bók hjá þeim sem ég átti að nota til að skrifa minningar í. Ég átti að skrifa mig út úr því sem ég hafði upplifað. Hugur minn var tómur og þegar ég opnaði bókina, mundi ég ekkert nema þessi orð: „Hann drap kanínuna.“ Mér fannst það ekki segja nóg. Það kom ekkert í hugann og þegar ég fór af þessum stað var bókin mín tóm.

Ég hafði lokað á tilfinningar mínar svo lengi og ég gat með engu móti rótað því upp aftur.

Það var ein kona sem ég kynntist og tengdist mest á þessum stað og við vorum mikið saman. Hún hét María og kölluð Mæja. Hún átti þrjú börn með manni sem var geðveikur og sögur hennar af því hvað hann hafði gert voru rosalegar. Þessi kona var taugahrúga og átti erfitt með að fara í Kringluna, þar sem hún óttaðist að hitta hann þar. Hann hafði meira að segja falið sig eitt skiptið í skottinu á bílnum hennar þegar hún fór með annarri konu í bæinn. Því komst hún ekki að því fyrr en hann sagði henni það seinna. Hún kenndi mér á allt sem hét Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar. Hún kenndi mér ótal margar leiðir til að nálgast peninga. Mæja varð góð vinkona mín og þegar ég fór með þessa visku út í lífið kom það sér vel.

Það var erfitt að fara af þessum stað. Við óttuðumst að lífið gæti ekki verið svona annars staðar. Við þurftum langan tíma til að fara með þessa vitneskju út í lífið og skapa þessar aðstæður sjálfar. Við höfðum samt alltaf hvor aðra til að heimsækja og styrkja ef vonin væri að veikjast.

Þarna var ég í sjö vikur og lærði margt. Ég lærði hvernig ég var búin að leyfa manninum mínum að koma fram við mig og eytt tíma í eitthvað sem skildi ekkert eftir nema sársauka. Auðvitað lærði ég líka mjög mikilvæga hluti. Það að maður á að fara varlega með líf sitt og að maður getur notið lífsins betur ef maður er ekki endalaust að eyða tíma sínum í að láta annarra manna drauma rætast, en tryði á sína eigin drauma og reyndi að koma þeim í verk. Draumar mínir snerust um það á þessum tíma að koma okkur áfram í lífinu. Vinna að einhverju uppbyggilegu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband