Kafli 5. Kanínan

5. kafli

Kanínan

 

Þetta kvöld fór hann út. Þegar hann var búinn að vera það lengi að það fór að nálgast miðnætti, vissi ég að eitthvað væri að. Ég hringdi í systur mína og sagði henni að ég héldi að hann væri dottinn í það. Hún sagði mér að vera róleg, þetta væri sennilega vitleysa. Ég vissi samt að vegna ástandsins, væri ekki allt með felldu.

Þegar tíminn leið enn frekar, var ég farin að óttast. Ég hringdi í vinkonu mína og hún sagði mér að bíða og sjá til. Þegar það fór að líða fram yfir miðnætti var ég orðin svo stressuð og ég var að vonast eftir því að hann kæmi ekkert þessa nótt.

Þegar ég var að tala við vinkonu mína, heyrði ég rjálað við dyrnar. „Hann er að koma“ sagði ég lágt. Hún sagði mér að róa mig og láta hann ekki finna það að ég væri í uppnámi. Davíð kom til mín, tók af mér símann og sagði mér að hætta að kvarta við vini mína. Ég byrjaði að skjálfa. Ég fór inn í eldhús á meðan hann var að tala við vinkonu mína og ég vonaði að hún gæti róað hann.

Ég fékk mér kaffi, en það var á mörkunum að ég gæti haldið á bollanum. Svo heyrði ég að hann var að hringja í föður minn. Hann var byrjaður að tala við hann á þennan heimskulega hátt sem ég kannaðist við: „Þú er geðveikur eins og dóttir þín og þú gafst mér ónýta eiginkonu, sem ég þarf að eiga við núna.“

Þetta kom mér ekki á óvart. Ég fann bara til með föður mínum, að þurfa að hafa áhyggjur af mér og krökkunum þessa nótt. Mig langaði að hlaupa út, en börnin voru sofandi og ég vildi ekki skilja þau eftir hjá honum. Loksins, kallaði hann í mig og sagði að vinkona mín væri að hringja aftur.

Vinkona mín sagði mér að vera rólega og fyrir alla muni ekki æsa hann upp eða vera neikvæð við hann. Hún sagði mér að gera þetta fyrir sig í þetta eina skipti. Þegar ég var að hlusta á hana, var hann byrjaður að toga af mér giftingarhringinn. Ég varð hrædd, um að ef hann myndi ekki ná honum af, þá myndi hann toga þangað til hann bryti á mér puttann. Ég bað hann um að leyfa mér að losa hringinn. Hann leyfði það og ég afhenti honum hann.

Ég hafði fyrr um kvöldið leyft kanínunni, sem við áttum sem gæludýr, að hlaupa um stofuna til að fá hreyfingu. Þegar þarna var komið, byrjaði Davíð að elta hana. Hún hljóp undir sófa til að fela sig. Hann tók sófann og kastaði honum upp að vegg, þannig að það koma gat á vegginn, svo elti hann hana áfram þangað til að hann náði henni.

Ég sagði við vinkonu mína eins lágt og ég gat: „Ég held að hann sé að fara að kála henni.“ Hún sagði: „Andrea, þú ert alltof áhyggjufull.“ Ég svaraði því þá bara: „Við verðum að sjá til.“ Hún reyndi að róa mig og segja mér að hann hlyti að fara með hana í búrið.

Ég jánkaði því hálf vantrúuð, en vonaði að hún hefði rétt fyrir sér.

Hún sagði mér loksins að bíða eftir því að hann róaðist. Hún sagði mér svo að hringja í sig eftir klukkutíma til að láta hana vita hvernig hefði farið. Ég lofaði því.

Þegar ég var búin að leggja á, kom Davíð í blautri og blóðugri skyrtunni til mín. Hann horfði á mig með glotti og spurði svo: „Veistu hvað ég var að gera?“ Ég sat þögul. Ég þorði ekki að hugsa um það. Það var ekki tímabært. Það eina sem ég var að reyna að gera, var að láta þessa nótt líða og bíða eftir því að hann þreyttist.

Davíð byrjaði að taka föt barnanna upp úr kommóðunni. Hann horfði á þau og sagði svo við mig: “Ætlar þú virkilega að láta börnin mín ganga í þessu?“ Hvers konar móðir ertu?“ Þá henti hann flík út um gluggann og tók næstu flík og fussaði. Svona endurtók hann aftur og aftur, þar til honum datt eitthvað annað í hug.

Davíð fór að leita að lyklunum að bílnum. Hann hristi mig og spurði hvar þeir væru. Ég setti upp sakleysissvip og sagðist ekki vita það. Ég ætlaði ekki að láta hann fá það eina sem ég hefði til að komast í burtu. „En ef þú vilt vita það Davíð, ég faldi þá í sokkunum mínum.“ Hann sagði mér að fara að bera út í bíl svo ég gæti farið um morguninn. Klukkan var 3:30 að morgni og ég spurði hvort það gæti ekki beðið til morguns. „Nei!“ öskraði hann, „gerðu það núna og vertu fljót!“

Ég byrjaði hægt og rólega að bera út í bíl, það sem ég taldi að ég þyrfti á að halda. Ég var að vona að hann færi fljótlega að sofa. Ég notaði svo tækifærið til að fela mig í kjallaranum. Ég ætlaði ekki að svara ef hann kallaði, svo hann héldi að ég væri stungin af. Ég sat hljóð á bakvið kassa og reyndi að halda niðri í mér andanum til að heyra hvað væri að gerast á efri hæðinni.

Ég þurfti ekki að bíða lengi. Ég heyrði að Davíð datt inn í herbergið sem við höfðum sofið í. Ég vissi að dóttir mín svaf þar þessa nótt á dýnunni okkar. Ég fylltist viðbjóði vegna þess að hún þyrfti að anda að sér áfengislykt alla nóttina. Allt í einu heyrði ég hann ryðjast fram enn á ný og inn á klósett, þar sem hann ældi og ældi svo ég hélt að hann myndi kafna. Hann ruddist svo aftur í rúmið og síðan varð allt hljótt.

Ég var í undarlegu hugarástandi. Ég gat ekki hugsað. Ég stóð loksins upp eftir langa bið og fór út vegna þess að ég ætlaði að finna einhverjar vísbendingar um hvað hann hefði gert við kanínuna. Fljótlega sá ég grilla í blóð á götunni í rökkrinu. Ég reyndi að rekja slóðina í myrkrinu. Hún lá út í fjöru sem var fyrir neðan götuna. Ég klöngraðist niður í fjöruna til athuga hvort ég fyndi hana. Þá sá ég hana. Hún lá eins og tuskudýr með hausinn hálf beygðan. Ég þorði ekki nær. Ég var svo hrædd um að sjá eitthvað sem ég gæti aldrei þurrkað út úr minninu. Ég var hrædd um að tapa siðferði tilfinninga minna.

Ég stóð þarna í myrkrinu á götunni fyrir framan húsið. Það var milt kvöld og það bærðist ekki hár á höfði. Myrkrið umlukti mig á meðan ég hugsaði: Hvernig líður mér, hvað á ég að gera? Hvernig líður manneskju sem sér svona? Á hún að gráta? Verður hún reið og hleypur hún inn til að berja hann? Hlær maður? Eða frýs maður?

„Frjósa“, út af hverju? Hvað gerðist eiginlega? Hver er ég? Hvers vegna geri ég ekkert? Af hverju stend ég bara hérna og hugsa: HVERNIG ég á að taka á þessu?

Hvar er hjartað mitt, Guð? Gleymdi ég því einhvers staðar? Ég er þó ánægð að ég finn eitthvað. Ég er ánægð að þetta er í fyrsta skipti sem ég get sannað að ég sé ekki að ljúga. Ég þarf bara hringja í lögregluna og biðja hana að koma hingað til að taka skýrslu. Þá get ég sannað að ég hafi ekki logið þessu.

Af hverju þarf ég sönnun? Vegna þess að ég er farin að efast um mínar eigin tilfinningar. Vegna þess að ég er bara geðveik. Vegna þess að ég er bara að þykjast. Ég þarf annað fólk til að segja mér hvernig mér líður. Ég veit ekki hvernig mér líður sjálfri. Ég veit ekki hvort ég hef rétt fyrir mér.

Ég fór inn til að hringja í lögregluna. Ég hringdi og sagði þeim frá nóttinni. Þeir spurðu hvort hann væri sofnaður og ég svaraði játandi. „Jæja, þá getur þetta beðið til morguns.“ „En getið þið ekki komið og athugað hvort ég sé að segja sannleikann um kanínuna?“ spurði ég. „Það er óþarfi, við getum gert það á morgun“ svöruðu þeir.

Þeir komu aldrei og þeir gerðu aldrei neitt í þessu máli, nema kalla hann í viðtal og hann laug því að við hefðum bæði ákveðið að lóga henni, vegna þess að krakkarnir væru að fara illa með hana.

Þeir trúðu sögu Davíðs. Ég var svo heimsk að halda að ein kanína gæti sannað að hann væri ofbeldismaður. Kannski ætlaði hann að elda hana í matinn, hver veit. Jæja, gleymið því bara. Ég ætla bara að reyna að sofna ...

Daginn eftir …

 

Dóttir mín vakti mig tveimur klukkutímum seinna ...

Þegar ég kom inn í eldhús var Davíð þar með vinnufélaga sínum. Hann átti að vinna þennan dag og búa til brúðkaupstertu. Ótrúlegt hvað hann gat alltaf mætt í vinnuna eftir fyllerí. Hann var að hita kaffi áður en hann færi. Ég fékk mér bolla en talaði ekkert við hann og fór inn í stofuna með kaffið.

Ég var bara að bíða eftir því að hann færi svo ég gæti tekið dótið okkar og farið.

Þegar Davíð skellti útidyrahurðinni, fór ég og klæddi krakkana í föt og dreif þau út í bíl og tók svo kommóðuna með mér. „Hvert erum við að fara mamma?“ spurðu krakkarnir. Við ætlum að fara að heimsækja afa og ömmu“ svaraði ég. „Vei“ heyrði ég fyrir aftan mig í bílnum.

Ég kom við á bensínstöðinni og fyllti bílinn, keypti karton af sígarettum, tveggja lítra pepsí og þrjú prins póló í nesti. Ég vissi að ég yrði peningalaus næstu dagana og það var um að gera að nýta sér tækifærið. Ég skrifaði þetta allt á reikninginn hans Davíð og keyrði af stað. Ég ætlaði að koma við hjá Tryggva bróður mínum í leiðinni. Þá gæti ég tekið pásu og fengið smá hughreystingu, í leiðinni.

Faðir minn vissi af því að ég væri á leiðinni og við vorum í sambandi allan tímann. Þegar ég kom til bróður míns, sagði hann við mig: „ Þú þarft að fara að hugsa Andrea. Þú þarft líka að fara að framkvæma.“ Þetta er orðið stanslaust. Ég samþykkti það og ég vissi að ég var ekkert búin að hugsa. Ég hafði bara látið tilfinningarnar stjórna mér.

Bróðir minn sagði mér að ég þyrfti að fara að hugsa um velferð barna minna og sjálfs míns. Hann sagði að ég þyrfti að koma okkur út úr þessu. Ég sagði honum að það væri einmitt það sem ég væri að fara að gera. „Já, en þú ert búin að segja það svo oft að það eru allir hættir að trúa þér.“ Ég sagði honum að ég þyrfti bara að sýna honum fram á það. Ég gæti ekkert sannfært neinn lengur um hvað ég myndi gera. Ég hafði alltaf sagt að þetta væri í síðasta sinn en samt alltaf farið til baka.

Það trúir mér enginn fyrr en þeir fá sönnun. Það þurfa allir að fá sönnun, ef þeir eiga að geta treyst. Alveg eins og með mig. Það vilja allir sönnun til að geta trúað á fólk, trúað á hæfileika fólks, á sannleikann og trúna sjálfa. Það er bara hægt að sýna fram á það í verki, ekki í orðum. Orð eru aðeins það sem þú lest í bókum og bókin getur innihaldið lygi alveg eins og hugurinn. Hvernig getum við trúað ef við getum ekki trúað orðinu?

Það verður að vera augljóst. Alveg eins og ég hef alltaf sagt. Ég verð að sjá það greinilega.

Þegar ég fór frá bróður mínum, lá leið mín til Reykjavíkur. Ég vildi koma við hjá foreldrum mínum þar sem Erla vinkona mín var búin að vera í sambandi við þau alla nóttina. Þau biðu eftir mér til að fullvissa sig um að við værum óhult. Ég staldraði við hjá þeim rétt áður en leið mín lá í Kvennaathvarfið. Ég ætlaði að fara þangað til að greiða úr þessum erfiðleikum. Ég vissi ekki hvað biði mín þar. Ég vissi ekki hvort ég yrði lokuð inni í einhvern tíma, en ég þurfti að taka áhættuna. Ég þurfti á hjálp að halda til að ná mér út úr þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband