Kafli 4. sjúk ást
19.11.2019 | 10:52
4. kafli
Einn af þessum dögum var ég eirðarlaus vegna þess að ég hugsaði alla daga og nætur um hann og fór fyrir framan heimilið hans og stóð í frosti og snjó að vetri til, til að bíða eftir honum koma heim. Eftir tvo tíma sá ég þá koma með leigubíl. Þeir voru fullir og leiddu tvær konur inn í íbúðina, vinur hans var giftur og ég var nýhætt með Davíð. Ég var að vonast til að hann myndi kannski sakna mín svolítið.
Þetta kvöld fór ég að njósna um hann, því ég varð að fá að vita hvað hann var að gera þegar ég var ekki með honum. Ég var orðin sjúk af ást og ég gat ekki stjórnað þessu og ætlaði bara að láta þetta þróast á sinn hátt og ég var viss um að ég myndi sigrast á þessu með tímanum og losna við tilfinningar mínar gagnvart honum.
Ég var farin að skjálfa úr kulda þar sem ég stóð fyrir utan húsið og beið eftir að þau færu inn. Ég held að ég hafi verið búinn að standa þarna í meira en tvo klukkutíma áður en þau komu. Þegar ég horfði í gegnum gluggann og var að reyna að sjá hvað þau væru að gera, sá ég hann kyssa eina konuna. Ég stóð þarna og var að vona að nú myndi ég að lokum sigrast á þessum hálfvita. Þá var eins og ég vaknaði upp og ég sagði við sjálfa mig: Hvað ertu að gera? Ég var að frjósa úr kulda og skalf eins og lauf. En auðvitað beið ég þar til ég var viss um að ekkert annað hefði gerst og að konurnar væru farnar.
Ég fór aftur heim til foreldra minna og vaknaði daginn eftir með fjörutíu stiga hita og gat ekkert borðað. Ég missti þrjú kíló á fjórum dögum. Mér var alveg sama. Reyndar var ég ánægð með það hvernig líkami minn var að veslast upp með degi hverjum. Mér fannst ekkert skipta máli lengur. Ég þráði bara Davíð. Ég þráði að hann væri góður við mig.
Fljótlega varð ég að fara sem vitni fyrir Davíð vegna þess að hann hafði lamið lögreglumann í einu af fylliríunum og ég var vitni að því. Eftir vitnisburðinn, spurði Davíð mig hvort ég gæti komið með honum á kaffihús til að ræða málin. Ég samþykkti það og við fundum stað, þar sem við gátum talað saman í næði. Hann sagði að hann sæi eftir öllu saman og að hann langaði til að bæta mér þetta upp. Ég sagði honum að hann þyrfti að hætta að drekka og ég sagði honum að ég vissi að hann hefði hitt aðra konu eftir að við hættum saman. Hann sagði mér að það væri bara vegna þess að hann hefði saknað mín svo mikið og að hann væri að reyna að dreifa huganum. Ég trúði honum og við tókum aftur saman.
Hann sagði mér fljótlega að hann vildi breyta til í lífi sínu. Hann ætlaði að sækja um starf í Ástralíu og hann myndi senda eftir mér, þegar hann hefði fundið vinnu og íbúð. Hann sagði mér að selja allt dótið okkar svo ég yrði tilbúin til að fara þegar hann myndi segja mér að koma. Ég var eins og kálfur á leið í sláturhúsið, saklaus og auðtrúa í blindni eftir allan þennan tíma. Þá sagði ég upp starfinu mínu, en ég þurfti að vinna af mér uppsagnarfrest sem var tveir mánuðir. Það þýddi að ég hafði nægan tíma til að selja dótið. Fyrst seldi ég rúmið, síðan sjónvarpið, þá myndbandstækið og að lokum sat ég á gólfinu í tómri íbúðinni og beið eftir kallinu. Ég var að vinna í því að selja bílinn minn sem ég hafði keypt fyrir alla peningana mína. Mér tókst loksins að selja hann og gat þá borgað farið fyrir Davíð til Ástralíu. Þegar hann bað mig um að senda pening til að hann gæti borðað, sendi ég honum þann aur sem ég hafði aflögu. Ég beið í mánuð eftir því að hann segði mér að hoppa upp í vél og koma til hans. Peningarnir voru að verða búnir og hann var orðinn áhyggjufullur. Ég reyndi að róa hann og telja í hann kjark en hann tilkynnti mér loksins að hann væri að koma heim. Af hverju? spurði ég. Þetta er ekki að ganga sagði hann, ég er ekki nógu góður að tala ensku og ég er búinn að vera hér í einn mánuð að leita og ég fæ enga vinnu. Ég sagði honum þá að koma bara heim og við gætum byrjað upp á nýtt.
Þegar ég var að bíða eftir að ég gæti sótt hann á flugvöllinn, setti ég læri í ofninn og lagði á borð með dúk og öllu tilheyrandi. Ég opnaði rauðvínsflösku til að leyfa henni að anda á meðan ég keyrði til Keflavíkur. Þar sem ég misreiknaði tímann sem það tæki að keyra út á flugvöll, kom ég 15 mínútum of seint og vélin var lent þegar ég kom. Hann var pirraður og sagði að það væri augljóst að mér þætti ekkert vænt um hann. Ég bað hann afsökunar og sagði að ég væri að elda heima og ég ætlaði að koma honum á óvart. Þér mun líka það vel, skal ég segja þér sagði ég glöð í bragði.
Þegar við komum heim, var kvöldmaturinn tilbúinn og ég þjónaði honum með rauðvíni og öllu tilheyrandi. Mig langaði að gleðja hann og hughreysta. Hann smakkaði á kjötinu og sagði svo að hann væri ekki svangur. Hann spurði hvort það væri ekki í lagi að hann færi að sofa. Ég játaði því auðvitað en var frekar svekkt að hann væri ekki ánægður með allt þetta sem ég var búin að leggja á mig. Svo sat ég hljóð við nánast ósnert matarborðið. Mér fannst hann ekki taka tillit til þess að þetta var líka búið að vera erfitt fyrir mig. Á meðan hann gat leikið sér í Ástralíu var ég hér í tómri íbúð og þegar ég vissi að hann var á leiðinni heim hafði ég fengið mér svartan kettling til að knúsa, þar sem ég var svo einmana.
Við reyndum að gleyma þessu ævintýri í langan tíma. Hann sagði að hann skammaðist sín svo mikið og vildi ekki ræða það.Tíminn leið og ég sótti um vinnu hjá fyrri atvinnurekanda og fékk vinnu en samt var búið að ráða í það starfi sem ég hafði unnið áður og mér þótti leiðinlegt að missa það. Við fluttum fljótlega eftir þetta í leit að nýju lífi að reyna að borga reikningana og það sem hafði bæst við eftir þetta ævintýri.
Skuldirnar voru orðnar rosalega miklar eða um þrjár milljónir króna. Stór hluti skuldanna var á nafni móður hans og mannsins sem hafði hjálpað okkur að stofna fyrirtækið. Ég var gjaldþrota, þannig að þeir gátu ekki rukkað mig. Davíð sagði að ég væri heppin því nú gæti engin gengið á mig þar sem ég væri ekki borgunarhæf. Ég leit svolítið öðruvísi á þetta. Ég vildi borga skuldirnar mínar og ég var niðurlægð út af þessu öllu saman og gröm yfir því að hann héldi alltaf að það væri hægt að fyrirgefa endalaust. Það var það kannski vegna þess að þegar maður er jafn vitlaus og ég, var allt mögulegt.
Þegar við vorum búin að vera saman á þennan hátt, með rifrildi og átökum í fjögur ár, varð ég loksins ófrísk. Ég hlakkaði mjög mikið til að eignast þetta barn. Mér tækist þá loksins að gera hann hamingjusaman. Hann langaði í stelpu en mér var alveg sama, svo framalega sem við myndum eignast heilbrigt barn. Ég bað til Guðs um að það yrði stelpa. Ég vonaði að Davíð myndi hætta að drekka þegar barnið væri loksins komið.
Alla meðgönguna hélt hann áfram að drekka, annaðhvort fór hann á pöbb eða drakk heima. Ég var alltaf hrædd um að hann yrði pirraður og reiður og reyndi að gera sem minnst í því að reita hann til reiði. Ég reyndi bara að þegja yfir drykkjunni en á endanum var þögnin nóg til að gera hann reiðan.
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera við þennan mann. Hvað gat ég gert til að hann myndi taka ábyrgð á sínum skapgerðaköstum með víni? Hann var alltaf yndislegur þegar hann var edrú, kannski svolítið þunglyndur en þegar hann drakk var eins og hann skipti um ham.
Þegar stúlkan fæddist vorum við róleg og nutum þess í þrjá mánuði. Við nutum þessa nýja hlutverks. Við fengum íbúð í fallegu húsi við Skeiðarvog. Þar sem við vorum par með ungt barn var okkur treyst fyrir íbúðinni og greinilegt að við vorum ungt fólk í hreiðurgerð.
Það voru samt ekki liðnir nema um þrír mánuðir frá því að barnið var orðið hluti af okkar daglegu lífi þegar vinur Davíðs fór að hringja í hann til að fá hann með sér á pöbb. Ég hafði skipulagt að fara eina helgina á laugadegi með vinkonum mínum vegna þess að ég hafði ekkert gert í rúmt ár á meðan ég gekk með barnið og það var á brjósti í þrjá mánuði. Hann ákvað því að fara með vini sínum á föstudeginum. Ég var því ein heima það kvöld og bað hann að fara varlega með peningana þar sem við áttum bara fimm þúsund krónur og það voru tíu daga eftir af mánuðinum. Ég þurfti líka einhvern pening með mér, daginn eftir. Hann lofaði að fara varlega.
Þegar Davíð kom heim um nóttina var hann mjög drukkinn og það voru aðeins um fimmtán hundruð krónur eftir af peningunum. Við áttum sem sagt að lifa á þessu næstu tíu daga og svo átti ég að geta skemmt mér með vinkonum mínum líka. Ég var með barnið okkar grátandi í fanginu og var frekar pirruð þegar ég fór að inna hann eftir því hvernig þetta ætti að duga. Þá sagði hann að þetta væri leikur hjá mér til að láta hann fá samviskubit. Þú ert bara ósanngjarnt fífl hreytti ég þá í hann.
Ég fór upp í herbergi með barnið til að það yrði ekki fyrir í þessum átökum og settist á rúmið. Þá kom Davíð aðvífandi og sló mig utan undir. Ég varð hrædd, lagði stelpuna í rúmið og stökk svo á móti honum til að koma honum út úr herberginu. Ég komst ekki lengra en að dyrunum þar sem hann náði að ýta mér niður og halda mér fastri. Ég reyndi að berjast á móti en hann var sterkari. Þá reyndi ég að sparka á milli fóta á honum þar sem allir höfðu sagt mér að það virkaði. Hann efldist bara við það og varð miklu reiðari. Hann lagðist ofan á mig með olnbogann á hálsinum á mér og ég fann að ég gat varla andað. Þegar svo var komið náði ég að kýla í klofið á honum og þá herti hann takið Ég gat varla talað og varð hrædd og í þetta skipti varð ég hræddari en nokkurn tímann áður. Ég bað hann um að leyfa mér að lifa. Þá átti ég við það að ég vildi fá að lifa eðlilegu lífi. Ég átti ekki von á að hann ætlaði að kála mér en mér fannst að honum var alveg sama um mig. Hann hugsaði bara um að láta mig finna fyrir því hvað hann hefði mikla stjórn á mér og ég trúði því virkilega að hann ætlaði að ganga frá mér.
Svo fann ég sorgina færast yfir mig. Ég fann svo mikla sorg vegna litlu stúlkunnar í rúminu sem vissi ekki hvernig foreldrar hennar væru. Mig langaði að flýja burtu með hana. Hann losaði takið og ég lá á gólfinu þegar hann fór niður. Ég fann að eitthvað hafði breyst eftir þetta kvöld, þessa nótt dó eitthvað inni í mér.
Daginn eftir gat ég varla talað. Ég horfði út um gluggann, tómum augum og var döpur þegar ég var í eldhúsinu að gefa barninu að borða. Davíð lá á stofugólfinu á meðan og ég heyrði ef hann bærði á sér. Ég var hrædd um að hann gæti vaknað en ég var líka reið. Ég var viss um hvað ég vildi gera. Þetta var það sem fyllti hjá mér mælinn. Ég ætlaði að henda honum út þegar hann vaknaði. Það yrði í fyrsta skipti sem hann færi. Í þetta skiptið varð ég að hugsa um barnið. Það var ekki hægt að henda mér út með ungabarn.
Þegar Davíð vaknaði byrjaði hann að taka saman fötin sín og fór síðan út. Hann vissi upp á sig sökina og það var greinilegt að hann mundi eftir kvöldinu. Ég hringdi niður í Kvennaathvarf til að tala við þær og að minnsta kosti heyra hvað þær myndu ráðleggja mér. Þær spurðu mig að því hvort ég væri ákveðin í að skilja við hann. Þær buðu mér að koma og sögðu að það væri alltaf opið hjá þeim fyrir okkur. Síðan buðu þær mér að koma í viðtal þegar þær heyrðu það á mér að ég væri ekki viss um að ég vildi koma og gista hjá þeim. Þær sögðu mér ýmislegt um hvað ofbeldi væri og hvernig það gæti aukist. Ég vissi það svo sem, þar sem við vorum búin að vera sundur og saman í fjögur ár. Ég sagði við þær að hann væri hvort eð er farin og gæti þess vegna ekkert gert mér lengur. Þær hvöttu mig eindregið að koma í viðtal daginn eftir og koma að sjá hvernig húsið hjá þeim væri. Það samþykktir ég og lagði svo á. Við áttum svo góðar stundir í íbúðinni, ég og dóttir mín sem átti eftir að fá nafn. Ég vildi skíra hana í höfuðið á ömmunum í báðum ættum.
Davíð hringdi eftir viku og sagði að hann sæi svo eftir þessu. Hann gæti ekki hugsað sér lífið án okkar og spurði hvort við gætum ekki lagað þetta. Eftir langa umhugsun og sannfæringakraft hans samþykkti ég að fyrirgefa. Ég hélt það væri betra að reyna að halda fjölskyldunni saman en sagði honum samt að það hefði eitthvað dáið inni í mér þessa nótt og ég gæti ekki lagað það. Hann sagði að það væri allt í lagi þó ég hefði ekki sömu tilfinningar til hans eins og áður, það væri eðlilegt. Ég vissi ekki hvað það var sem dó.
Hann fékk svo tilboð um vinnu við að stjórna bakaríi á Vopnafirði og við gátum fengið íbúð með vinnunni. Þetta var besta lausnin til að komast út úr mestu skuldunum. Við urðum að fara að borga þær niður til að mamma hans myndi ekki missa íbúðina sína sem var veðsett fyrir lífeyrissjóðsláninu. Við pöntuðum stóran gám fyrir búslóðina og það tók okkur ekki nema tvo daga að flytja.
Vopnafjörður var fámennur staður og varla manneskja á ferð. Ég gekk með barnavagninn um göturnar á meðan ég var í fæðingarorlofi og kom oft við upp í bakaríi til að kíkja á Davíð og leyfa honum að knúsa dóttur sína. Hún var augasteinninn hans og hann kallaði hana prinsessuna sína.
Það var engin áfengisverslun á Vopnafirði og lítið um drykkju þessa mánuði sem við vorum að aðlagast. Ég fór að finna fyrir einmanaleika og sorg eftir allt sem á undan var gengið. Mig langaði ekki að búa þarna með honum og ákvað að fara í bæinn. Hann hélt að það væri vegna þess að ég vildi ekki búa svona afskekkt, þar sem ég væri úr borginni. Ég mátti ekki fá bílinn til að keyra í næsta bæjarfélag og ég hafði ekki mikið við að vera þá daga sem ég var heimavinnandi. Ég vildi bara ekki búa með honum lengur. Tilfinningar mínar voru svo breyttar, Ég fann ekki til sömu þráhyggju og áður, þar sem tilfinningar mínar voru farnar að snúa að barninu.
Þegar ég kom til Reykjavíkur fann ég mér litla íbúð. Svo fór ég að leita að húsgögnum þar sem ég hafði ekkert tekið með mér. Ég þurfti að finna allt til heimilisins. Þó hafði ég ekki mikla peninga þar sem ég var atvinnulaus. Við lifðum því á því litla sem ég fékk í atvinnuleysisbætur og höfðum það bara þokkalegt.
Það liðu ekki nema nokkrir mánuðir þangað til að Davíð fór að hringja í mig. Hann sagði mér að hann hefði talað við hjónabandsráðgjafa og leitað sér ráða. Það fannst mér nokkuð ólíkt honum en kannski var hann að reyna að breytast. Hann sagði mér að hann myndi gera allt til að ég tæki við honum aftur og að ég mætti ráða hvernig það yrði. Ég sagðist ekki hafa áhuga, en hann gafst ekki upp. Hann bað mig um að leyfa honum að koma að tala við mig um jólin og ég þyrfti ekki að ákveða neitt. Hann sagði að hann ætlaði ekki að beita mig þrýstingi. Ég samþykkti að hitta hann og heyra hvað hann hefði að segja. Þar sem hann var ennþá úti á landi, gat hann ekki komið fyrr en hann væri kominn í jólafrí.
Davíð kom eftir miðnætti á Þorláksmessu og spurði hvort ég gæti talað við hann. Hann sagðist ekki vilja fara til mömmu sinnar svona seint. Ég sagði honum að hann þyrfti þá að sofa í sófanum. Ég vildi ekki að hann teldi sér trú um að ég tæki við honum aftur. Ég hlustaði á hvað hann hafði að segja áður en ég fór í rúmið.
Hann sagði að hann vildi ekki beita mig þrýstingi og ég mætti segja nei eða já, svo rétti hann mér lítinn kassa. Þegar ég opnaði hann, sá ég að í honum voru tveir hringar. Ég tók þá upp og sá að það var skrifað inn í þá þinn Davíð og þín Andrea. Mér brá. Hvað var hann að gera? Hann sagðist ekki ætla að beita mig þrýstingi. Hvað var þetta þá? Mér leið eins og ég væri króuð af úti í horni. Hvað get ég sagt, þegar hann er búinn að láta grafa svarið í hringa? Hann sagði mér að það skipti ekki máli hvert svarið yrði. Hann myndi taka því hvort sem það væri já eða nei. Ég sagði honum að ég gæti ekki svarað þessu. Hann sagði að það væri allt í lagi, ég mætti geyma hringana og hugsa málið. Hann myndi bara sofa heima hjá mömmu sinni um jólin og það væri nógur tími til að hugsa. Ég samþykkti það og fór svo að sofa þessa nótt.
Það gekk samt erfilega að sofna, vitandi það að Davíð væri í stofunni. Mér fannst eins og hann væri að þrengja sér upp á mig með því að biðja mig um að fá að gista. Þar sem ég var búin að búa til þetta litla heimili og naut þess að vera þarna ein með dóttur minni. Samt var alltaf þessi tilfinning að ef hann myndi lagast að þá vildi ég vera hluti af því. Ég var svo hrædd um að ef hann myndi á endanum hætta að drekka og tæki sig saman í andlitinu, gæti ég ekki hugsað mér að önnur kona fengi að njóta þess.
Daginn eftir fór Davíð með stelpuna til mömmu sinnar í heimsókn. Hann var þar allan daginn. Um kvöldið þegar hann átti að skila henni, hringdi hann og spurði hvort ég vildi koma með honum að borða. Ég samþykkti það og við fórum á rólegan veitingastað. Þetta var í fyrsta skipt sem hann fékk sér ekki bjór með matnum. Það var eins gott. Ef hann hefði byrjað á einum, hvað veit maður hve margir þeir hefðu orðið. Eftir matinn fengum við okkur kaffi og töluðum saman.
Við töluðum mest um það sem honum lá á hjarta. Hann sagði að hann vildi gera allt til að laga sambandið, ef ég gæti fundið það í hjarta mér að ná fjölskyldunni saman. Hugur minn fór á fulla ferð við að reyna að átta sig á aðstæðum en ég gaf Davíð heldur ekkert svar í þetta skipti. Hann ætlaði að vera um það bil tvær vikur fyrir sunnan í kringum jólin og ég var ekkert að flýta mér að taka ákvörðun.
Þegar ég kom heim til mín og horfði á allt sem ég var búin að byggja upp, fannst mér að ég hefði það bara ágætt og að engin ástæða væri til að breyta því. Ég treysti ekki loforðum hans. Ég var að eldast og þroskast og vissi hvað ég vildi. Það kæmi ekki til greina að búa með honum ef hann drykki. Þegar ég var búin að hugsa fram og til baka, hvort ég fyndi einhverjar tilfinningar til hans, um það sem hann var búinn að segja síðustu daga og hvernig hann var búinn að hegða sér, fór ég að hugsa um kosti og galla þess að taka saman aftur. Það var samt niðurstaðan að mér fannst þetta líta allt mjög vel út og að það væri spennandi að láta reyna á alvöru hjónaband. Hann var mjög sannfærandi um vilja sinn. Ég vissi líka að hann saknaði barnsins síns og mér fannst það skemmtileg tilhugsun ef allt yrði eins og það ætti að vera í hamingjusamri fjölskyldu. Þá var það einmitt það sem ég vildi. Óskin um hamingjusama fjölskyldu varð yfirsterkari. Ég samþykkti því að taka þetta skref, enn og aftur.
Áður en ég tók þessa ákvörðun setti ég það skilyrði að hann hætti að drekka, annars myndi ég pakka niður sama daginn og ég sæi hann fá sér einn sopa. Ég sagði honum að ég ætti erfitt með að treysta honum eftir allt sem á undan væri gengið og hann yrði að gefa mér tíma til að geta treyst upp á nýtt. Hann samþykkti það og ég lét það gott heita.
Það var úr að við fluttum til baka á Vopnafjörð og Davíð taldi að ég yrði ekki lengi að finna vinnu á staðnum. Hann sagði meira að segja að ég gæti fengið vinnu í bakaríinu. Allt leit svo vel út og við vorum með mikla drauma um betra líf. Davíð var hættur að drekka, skuldirnar fóru lækkandi og framundan virtust bjartari tímar. Við höfðum lifað frekar miklu sultarlífi fram að þessu og maturinn oftast verið kjöthakk eða brauð með áleggi. Nú gátum við fengið okkur læri annað slagið eða kótelettur, jafnvel steik. Stuttu síðar varð ég ólétt af öðru barninu og Davíð veitti mér heilmikinn stuðning með það. Davíð fór meira að segja að stinga upp kartöflugarðinn til að rækta kartöflur. Ég var stolt tilvonandi eiginkona en við ætluðum að gifta okkur þegar barnið yrði skírt.
Þetta var afslappaður tími og það endaði með því að ég gleymdi öllum mínum áhyggjum. Ég var ennþá hrædd um að ég ætti ekki að eiga þetta barn. Ég kveið fyrir því að barnið tæki athygli mína frá henni Sunnu og ég vildi ekki skapa fleiri vandamál og varð mjög þunglynd yfir því að ég væri ekki að bjóða barnið velkomið í heiminn. Ég sagði hjúkrunarkonunni frá þessum áhyggjum mínum og hún varð mjög hissa. Þá var ég farin að verða þreyttari en ég hefði nokkurn tímann verið og ég vissi ekki af hverju. Ég gat sofið í 24 klukkustundir ef ég fékk tækifæri til. Ég mætti til vinnu klukkan átta á morgnana og kom heim klukkan sjö á kvöldin, þar sem ég var að vinna bæði í bakaríinu og í mötuneytinu í fiskvinnslustöðinni. Davíð sótti því dóttur okkar til dagmömmu og þegar ég kom heim og eldaði mat var ég komin upp í rúm strax og ég var búin að borða. Ég gat því lítið sinnt stelpunni og var bara sem rotuð.
Davíð varð mjög þreyttur á þessu og sagði mér að fara til læknis. Þá sagði ég honum að þetta væri örugglega af því að ég væri ólétt og að þessu myndi linna þegar barnið kæmi í heiminn. Ég reyndi að halda mér vakandi en heimilisstörfin lentu að mestu leyti á Davíð. Loksins var kominn tími fyrir mig til að fara til Reykjavíkur til að eiga barnið. Á Þórshöfn voru ekki þau tæki og tól sem þurftu að vera til staðar ef eitthvað kæmi fyrir í fæðingunni. Ég var ég fegin því að fara til Reykjavíkur, þar sem ég var orðin þreytt. Ég var rúmar tvær vikur hjá foreldrum mínum þar sem ég kom fyrr til Reykjavíkur ef barnið skyldi fæðast fyrir tímann. Sunna hafði fæðst fyrir tímann og ég átti því allt eins von á því að það gæti gerst í þetta skipti líka.
Barnið kom loksins í heiminn og reyndist vera strákur. Við héldum að frændi minn gæti skírt hann þar sem hann var prestur. Ég elskaði þennan frænda minn mjög mikið og var stolt að hugsa til þess að hann gæti skírt son minn rétt eins og hann skírði mig. Þegar við komum í heimsókn til pabba og mömmu, sparkaði Davíð í rennuna á húsinu þeirra og pabbi varð var við það og varð öskureiður og byrsti sig pirraður sem varð eins og bensín á eld á hann Davíð þar sem stutt var í reiðina hjá honum gagnvart föður mínum. Hann þoldi nefnilega ekki föður minn síðan hann hafði komið með ítrekunina á láninu sem pabbi tók fyrir okkur á sínum tíma þegar við gátum ekki borgað fyrir virðisaukann. Þetta varð til þess að Davíð sprakk og sagði við mig að hér myndi hann ekki vera áfram. Við fórum því til Þórshafnar fyrr heldur en við ætluðum og hættum við að láta frænda minn skíra.
Þrír mánuðir liðu og við vissum að við urðum að gefa stráknum nafn. Á sama tíma ákváðum við að gifta okkur því það gæti orðið of dýrt að gera það síðar. Frændi minn var farinn til Spánar svo við þurftum að finna annan prest. Ég fann þann sem fermdi mig og giftingardagurinn var ákveðinn. Ég kom öllu í kring með veisluna fyrir utan kökurnar.
Það skiptir kannski ekki miklu máli í dag en ég vil samt nefna það að í nokkur skipti fyrir giftingu sagði Davíð að hann vildi hætta við allt saman og var það yfirleitt útaf einhverjum litlum rifrildum sem komu upp, hvort sem það væri útaf því að maturinn væri vondur eða heimilið skítugt. Þetta var mjög pirrandi og óþægilegt, vegna þess að ég vissi ekki hvar ég hafði hann. Hann sagði það meira að segja viku fyrir giftingu. Þar sem ég var búin að bjóða öllum í giftingu ætlaði ég að standa við það hvað sem tautaði og raulaði. Ekki veit ég hvernig alkahólismi virkar en ég var farin að taka eftir því að þegar við fórum að versla, tók Davíð alltaf eina malt í búðinni og drakk hana hratt á meðan við versluðum. Ég velti því fyrir mér hvort hann saknaði bjórsins.
Þegar við komum til Reykjavíkur fyrir giftinguna dó elskulega amma mín. Ég var svo sorgmædd. Ég vildi hafa hana í giftingunni og hún var líka búin að kaupa sér kjól fyrir hana. Nóttina fyrir giftingu gat ég ekki sofið einhverra hluta vegna og fór inn í stofu. Þar sat ég og horfði fram fyrir mig eins og einhver væri að tala við mig. Allt í einu datt mér ljóð í hug um ömmu mína og skrifaði það niður. Það var mjög einlægt ljóð um minningar mínar með henni og ég var hissa á því hversu djúpt það snerti mig þegar ég las það aftur. Þá gat ég sofnað. Ég spurði mömmu mína hvort ég mætti lesa það í giftingunni af því ég vildi muna eftir henni á þeim tíma. Hún sagði auðvitað já og ég las ljóðið fyrir framan alla og sagði þeim að í minningu ömmu minnar vildi ég hafa hana með okkur á þessum degi.
Seinna sagði Davíð mér að ég væri bara að sýnast til að fá athygli. Ég varð mjög særð því mér fannst þetta vera virðingarleysi gagnvart ömmu minni. Hann sagði að allt gamalt fólk dæi og að við ættum ekki að sjá eftir því. Ég svarði honum með því að segja: Fyrirgefðu að ég skuli hafa þessar tilfinningar en ég elskaði ömmu mína sama hversu gömul hún var. Stundir með henni voru á meðal bestu minninga úr æsku minni og lífi. Því miður gat ég ekki heimsótt hana á hennar síðustu dögum, þar sem hlutir í lífi mínu fóru á þann hátt að ég var bara svo upptekin. Þessi tími leið eins og aðrir. Við snérum aftur heim til að halda áfram að sinna skyldum okkar. Ég gat lagt eitthvað til heimilisins, vegna þess að ég fékk fæðingarorlof, sem kom sér vel þar sem við vorum að drukkna í reikningum. Ég gerði líka annað til að ná í pening. Ég bað innilega til Guðs um að leiðbeina mér hvernig ég gæti búið til meiri pening. Ég sagði: Góði Guð, viltu gera svo vel að gefa mér styrk til að finna leið út úr þessu. Gerðu það Guð, þú þarft ekki að gera það auðvelt fyrir mig, bara eitthvað, ég þarf að finna leið.
Það kom inn í huga minn að mála andlitsmyndir, þó að ég hefði aldrei gert neitt slíkt. Ég hafði bara málað dýramyndir og landslagsmyndir, en aldrei andlit. Ég þurfti ekki að bíða lengi eftir að ég setti upp auglýsingu í kaupfélaginu á Þórshöfn. Fólk var mjög áhugasamt um að fá andlitsmyndir af ættingjum og börnum. Ég málaði þegar ég hefði átt að sofa eða eftir miðnætti.
Davíð var ekki mjög ánægður með að ég væri vakandi svona langt fram eftir. Hann varð þó sáttari þegar hann sá að þetta skapaði pening. Það var ekki mikið, en það var gott að vita að maður ætti von á smá aurum til að bjarga sér. Davíð montaði sig mikið við fólk þegar það var að dást að myndunum. Hann var aðallega montinn af því að segja að konan hans hefði gert þetta.
Krakkarnir sprungu út. Það var furðulegt að sjá hvað svona litla hjálparvana einstaklingar voru allt í einu farnir að hlaupa um og maður hafði ekki við þeim.
Fljótlega fengum við tilboð um að skipta um íbúð. Það var vel þegið, þar sem við vorum með tvö börn. Þetta var miklu betri íbúð og okkur fannst framtíðin bera betri tíma í skauti sér.
Ég fór að finna fyrir mikilli þreytu og máttleysi. Ég var alltaf að fara til læknis til að athuga hvað væri að hrjá mig, en hann fann ekkert að mér. Ég fann verk í öxlinni en læknirinn var ekki með tæki til þess að taka röntgenmynd af henni. Það endaði með því að hann sendi mig til gigtarsérfræðings í Reykjavík.
Davíð kom til Reykjavíkur til að hugsa um börnin með mér á meðan ég væri að fara til lækna. Eina helgina þegar ég var að bíða eftir niðurstöðum, sagðist hann ætla að fara með frænda sínum austur í sumarbústað. Þetta var bústaður sem tveir frændur hans voru að byggja. Hann sagði mér að koma á Selfoss daginn eftir með krakkana og hann myndi sækja okkur.
Læknirinn sendi mig í alls konar blóðprufur og á endanum komst hann að því að ég væri með verulega vanvirkan skjaldkirtil. Hann lét mig á lyf sem er til að bæta manni upp það hormónatap sem maður verður fyrir. Allir sögðu mér að hafa ekki áhyggjur þar sem þetta herjaði á margar konur.
Þennan föstudag fór ég til Selfoss með krökkunum til að hitta Davíð. Hann hafði talað um að hitta okkur í söluturni þarna á staðnum um hádegið. Ég beið þar með krökkunum til klukkan 16. Ég vissi ekki nákvæmlega hvar þessi sumarbústaður var, en tók séns á að panta leigubíl og freista þess að bílstjórinn gæti hjálpað mér að finna hann. Sem betur fer vissi hann um sumarbústaðabyggð þar nálægt. Þegar við vorum komin á þær slóðir fór ég að kannast við mig og fann bústaðinn.
Ég borgaði bílinn og fór með krakkana inn í bústaðinn. Það virtist enginn vera þar við fyrstu sýn, en þegar ég kíkti inn í herbergi, voru frændurnir þar steinsofandi eftir fyllirí næturinnar. Ég var nokkuð pirruð og spurði Davíð hvernig stæði á því að hann hefði ekki sótt okkur. Hann varð þá reiður og sagði mér að vera ekki með þennan hávaða. Þegar hann drullaði sér loksins fram úr til að heilsa krökkunum, sagði ég honum frá niðurstöðunum frá lækninum. Það eina sem hann sagði þá var: Ég ætla að vona að þú verðir ekki ein af þessum konum sem er alltaf veik. Vá hugsaði ég, takk fyrir umhyggjuna.
Það liðu um það bil sex mánuðir þar til Davíð fékk tilboð um aðra vinnu. Hann var alltaf góður í því að næla sér í vinnu. Þessi vinna var í öðrum landshluta eða Borgarnesi nánar tiltekið. Við vorum búin að vera um það bil þrjú ár á Vopnafirði og okkur fannst tími til kominn að færa okkur nær Reykjavík. Það voru lægri laun í þessari vinnu og við þurftum að borga hærri húsaleigu. Okkur fannst það samt vera þess virði, þar sem við vorum langt komin með að borga skuldirnar. Það var ágætt að vera ekki nema þrjá klukkutíma til Reykjavíkur í staðinn fyrir níu.
Ég fékk vinnu í bakaríinu sem Davíð vann í og einnig í áfengisversluninni á staðnum. Nú óttaðist ég að úr því að auðveldara var að nálgast áfengi, væri meiri möguleiki á því að hann félli. Ég taldi mér trú um að auðveldara væri að fylgjast með þar sem ég væri að vinna í áfengisversluninni.
Mér leið miklu betur á þessum stað, þar sem hann var þéttbýlari og þar voru verslanir að borð við Krónuna. Þar var í rauninni allt til alls og þetta var vinsæll ferðamannastaður. Í eitt skiptið sem ég var að vinna í áfengisversluninni kom Davíð inn. Ég spurði: Á að fá sér? Hann sagði þá að hann væri að kaupa handa vini sínum. Það var svo sem auðvitað. Ég ætlaði ekki að fara að stressa mig neitt á þessu, þar sem hann réði því hvað hann gerði á meðan það bitnaði ekki á mér og börnunum.
Davíð byrjaði á því að fá sér sex bjóra á föstudegi og afsökun hans var að þetta væru bara nokkrir bjórar. Hann sagði að það væri eingöngu til að slaka á og að hann gæti stjórnað drykkjunni auðveldlega. Ég hafði ekki áhyggjur vegna þess að hann var orðinn frekar pirraður síðustu mánuði og oft fannst mér að það væri betra ef hann fengi sér bjór. Það var auðveldast að vera ekkert að velta því fyrir sér.
Af einhverjum orsökum fór ég að verða niðurdregnari með hverjum deginum. Ég var einnig frekar köld gagnvart ástandinu og vissi að tilfinningar mínar gagnvart Davíð voru að fjara út. Það var meira að segja ekki einu sinni áhugi fyrir kynlífi lengur af minni hálfu. Þá fannst mér stór hluti vera farinn úr hjónabandinu. Einn daginn hringdi ég í móður mína og varð að orði: Mamma, annaðhvort fer ég frá honum, enda á spítala eða fer niður í kjallara og hengi mig. Mér leið greinilega þannig að ég vildi komast í burtu. Hún sagði mér að hugsa þetta til enda.
Þegar við rifumst síðan í næsta skipti og Davíð bað um skilnað, eins og alltaf eftir rifrildi, sagði ég loksins: Ok, skiljum. Komdu bara með pappírana og ég skal skrifa undir. Hann varð mjög sposkur á svip, eins og hann hefði unnið þenna rifrildi. Hann vissi ekki hvað ég var að hugsa. Það gerðist ekkert í vikutíma. Þegar sú vika leið, sagði hann einn daginn: Eigum við að fara til Noregs? Ég spurði hann þá: Eigum við að skilja í Noregi? Nei hváði hann við. Nú, ertu hættur við að skilja? Hann varð vandræðalegur í framan. Nei, auðvitað ekki.
Ég beið eftir pappírunum en þeir komu aldrei. Þá pantaði ég tíma hjá lögfræðingi til að ganga frá pappírum um skilnað. Davíð samþykkti að ég fengi þvottavélina úr búinu, þar sem ég yrði með börnin. Við skrifuðum svo undir og ég fór að leita að íbúð í blöðunum. Ég færði mig í herbergi sem var á efri hæðinni á meðan. Hann sagði að ég gæti verið í viku til að finna íbúð og ég ætlaði sko ekki að sóa tímanum.
Það var stirt andrúmsloftið og það leið ekki á löngu þar til það sauð upp úr. Hann spurði mig á hverjum degi, hvenær ég ætlaði að fara. Ég sagði honum að ég myndi gera það þegar ég fyndi íbúð. Hann var að verða óþolinmóður og sagði að hann gæti ekki verið nálægt mér. Ég var hætt að kvarta, þar sem mér leið eins og gesti hjá honum. Hann sagði einn föstudaginn að ef ég færi ekki fljótlega, myndi hann henda mér út. Ég hringdi í félag einstæðra foreldra til að athuga hvort þeir væru með íbúð. Það var sex vikna biðlisti og ég gat ekki beðið svo lengi. Ég varð að finna aðra leið. Loksins hringdi ég í Kvennaathvarfið og þær sögðu að ég hefði leyfi til að koma. Ég ákvað að fara eftir nokkra daga þangað og fór að gera mig tilbúna. Þá skeði það ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.