Kafli 8. Loksins almennileg íbúð

 8. kafli

Hraunbær

 

Fljótlega eftir kynni mín af Frey frétti ég að vinkona mín væri að fara úr tveggja herbergja íbúð sem hún hafði leigt í Árbænum. Hún bauðst til að tala við leigusalann um það að leigja mér íbúðina. Leigusali samþykkti að ég fengi íbúðina vegna meðmæla vinkonu minnar.

Ég fór að pakka með kvíðablandinni tilhlökkun, þar sem staðurinn sem ég leigði og var fyrir einstæða foreldra hafði hjálpað mér svo mikið við að byggja upp sjálfstraustið sem var ekki síst að þakka samverunni við allar konurnar sem ég kynntist á þessum stað.

Þegar flutningarbíllinn kom og ég gaf honum upp heimilisfangið áttaði ég mig á því að ég var að fara að flytja í næstu blokk við blokkina sem Freyr bjó í. Vá, hugsaði ég, hann heldur sennilega að ég sé að elta hann uppi og heldur að ég sé snarklikkuð. Ég lét það samt ekki á mig fá, þar sem ég þráði að búa á alvöru heimili. Ég þurfti að borga aðeins meira fyrir hana, en vegna þess að ég fékk húsaleigubætur, kom það samt betur út og var ódýrara fyrir vikið.

Lífið var leiðinni upp á við. Það kom ekkert annað til greina. Ég ætlaði að ná okkur upp úr þessari holu sem við höfðum dottið ofan í. Bjartsýnin uppmáluð fluttum við inn. Það var kominn tími til að halda upp á þetta. Það var að renna upp sá tími að allt yrði breytt.

Nú ætlaði ég sko að gefa í og njóta lífsins, byggja upp fyrir framtíðina á þeim hraða sem við gátum. Ég var svo hamingjusöm. Það virtist allt vera að ganga upp. Nú ætlaði ég að stefna áfram og ekkert nema áfram. Þvílíkur kraftur sem fór um mig. Ég dansaði á stofugólfinu þegar ég var búin að koma okkur fyrir. Það var komið vor, vonin vaknaði með bruminu á trjánum.

Þegar ég fór út á svalir þar sem við bjuggum á annarri hæð, sá ég útsýni sem lét mér líða eins og drottningu í ríki sínu. Það var leikvöllur fyrir krakkana fyrir utan, leikskólinn var í fimm mínútna fjarlægð og verslun rétt við blokkina. Hvað gat verið betra en þetta? Ég áttaði mig líka á því að þegar ég var úti á svölum, gat ég séð yfir á svalirnar hjá Frey. Það var svolítið spennandi. Daginn sem ég flutti inn og krakkarnir voru hjá pabba sínum hélt ég svaka innflutningspartí. Á meðan ég var að bíða eftir vinkonunum kveikti ég á kertum í snyrtilegri íbúðinni og setti lag á fóninn. Það heitir „Killing me softly with his song“með Fugees  

 

sem minnti mig óendanlega mikið á Frey

Vinir mínir komu einn af öðrum í partíið og Erla vinkona mín sem vissi að ég var að hitta Frey, hvatti mig til að hringja í hann. Eftir að ég var búin að safna í mig kjarki hringdi ég. Hann sagðist vera upptekinn en gæti hitt mig seinna um kvöldið.

Tilhlökkunin var mikil að eiga von á því að hitta ástmann minn, þar sem ég hafði ekki neinn til að elska. Þótt hann væri giftur skipti það mig ekki máli, þar sem ég ætlaði bara að hugsa um mínar eigin tilfinningar. Mér var sama um tilfinningar annarra. Ég fann ekki fyrir neinni sektarkennd. Ég var búin að eyða orku minni síðustu ár í aðra og ætlaði nú að hugsa aðeins um mig og börnin.

Vinkonurnar streymdu inn ein af annarri. Við skemmtum okkur konunglega þetta kvöld og skruppum svo í bæinn á pöbbarölt. Þegar kvöldið var á enda og kominn tími til heimferðar, fór ég í síma og hringdi í Frey. Hann samþykkti að hitta mig fyrir utan blokkina þegar ég kæmi heim. Ég var eftirvæntingarfull þar sem ég saknaði ástríðufullra kossa hans og faðmlags sem og kynlífsins. Þegar leigubíllinn stoppaði fyrir utan, sá ég mann standa með gítar bíðandi eftir mér. „Hva, á að fara spila?“ spurði ég og brosti. „Já, maður verður að leika sér“ sagði hann.

Þegar inn var komið blandaði ég okkur í glas á meðan hann kom sér fyrir inni í stofu. „Þetta er allt annað“ sagði hann og meinti íbúðina. „Já, ég er rosalega fegin að vera komin hingað“ svaraði ég. Hann byrjaði að spila rólega tónlist á meðan hann horfði á mig og dreypti á glasinu. „Komdu með gítarinn þinn og spilum dúett“ sagði hann. „Ég er ekkert klár að spila“ svaraði ég feimin. Samt stóð ég upp og sótti gítarinn og gítarbók með hljómum og gripum. Ég valdi mér auðvelt lag og spilaði með honum, þar sem við sátum hlið við hlið til að sjá á bókina.

Kvöldið leið hratt, enda var rosalega gaman hjá okkur. Eftir nokkur lög teygði hann sig í áttina að mér, tók utan um höfuðið mér og kyssti mig á blíðlegan hátt. Hann var svo næmur og blíður í öllum hreyfingum og það ólgaði í mér blóðið við þessa snertingu. „Rosalega er ég búin að missa af miklu öll þessi ár, hugsaði ég, eða er ég búin að gleyma hvernig það var á milli okkar Davíðs, þar sem slæmu hlutirnir skyggðu á hina góðu? Það er auðveldara að skilja við mann ef maður er reiður út í hann.

Þessar hugsanir runnu um huga minn á meðan ég naut snertinga Freys. Ef hann bara væri ekki giftur, hugsaði ég en var fljót að ýta þeirri hugsun frá mér, þar sem ég ætlaði ekki að hleypa tilfinningunum upp. Ég ætlaði bara að njóta augnabliksins. Við enduðum svo inni í svefnherbergi og áttum unaðslegar stundir saman. Hann kunni að láta konu líða eins og drottningu, þar sem hann einbeitti sér að mér án þess að ætlast til nokkurs af mér á meðan. Ég reyndi samt að launa honum til baka þar sem ég var svo fullnægð. Svo sofnuðum við í örmum hvors annars. Ég átti ófáar nætur með honum Frey. Mér fannst ég svo heppin að eiga svo góðan elskhuga, þó að það yrði ekkert meira á milli okkar. Ég ætlaði bara að njóta þess á meðan ég gat.

Ég var búin að vera atvinnulaus fram að þessu, en Inga vinkona mín átti foreldra sem áttu saumastofu og hún bauð mér að sækja um vinnu hjá þeim. Ég sagði henni að ég þyrfti að fá laun sem væru að minnsta kosti hærri en atvinnuleysisbæturnar, þar sem ég þyrfti að borga minnst þriðjung í barnapössun til að komast í vinnuna. Það var auðfengið og ég fór að vinna á þessari saumastofu þegar það fór að líða að sumri.

Þegar þarna var komið sögu, sá ég auglýsingu í blaði um að það væri inntökupróf í Mynd- og handíðaskóla Íslands. Það var ekki svo auðvelt að komast í þennan skóla. Ég hafði þó lært eitt og annað í gegnum tíðina í myndlist. Ég hafði alltaf tekið það sem val í framhaldskóla og ég hafði líka verið að hluta til á listabraut á námstímanum. Þar hafði ég lært formfræði og litafræði sem er grunnmenntun í myndlist. Einnig hafði ég nokkuð gott skynbragð á almenna teiknun.

Ég skráði mig í þetta inntökupróf. Fólk í lífi mínu hafði oft hvatt mig til að læra meira í myndlist. Prófið átti að fara fram um haustið og það tók þrjá daga að klára það. Þetta var framtíðarmarkmið en á meðan ætlaði ég að vinna á þessari saumastofu. Ég vissi líka að þetta var frekar sumarstarf en til framtíðar. Ég varð að leysa það einhvern veginn hvernig ég ætlaði að fjármagna námið, þar sem ég gat fengið námslán á öðru árinu en ekki því fyrsta. Mér datt því í hug að fara til Félagsþjónustunnar að sækja um styrk til framfærslu á meðan að ég væri í náminu. Ég fór því til félagsþjónustunnar með von um að þau gætu hjálpað mér fjárhagslega.  Ég panntaði því fund með þeim og tók saman ljósmyndir af öllu því sem ég hafði teiknað í gegnum tíðina til að leggja fram með þessari umsókn. Það átti svo að vera fundur hjá þeim til að fjalla um þessa umsókn og tók það nokkrar vikur að bíða eftir því. Ég gat því undirbúið mig undir prófið í rólegheitunum á meðan. Þegar leið á haustið og ég fékk samþykki frá félagsþjónustunni var það mikill léttir. Nú þurfti ég bara að klára þessa vinnu af og nota sumarið til að byggja upp fallegt heimili og kannski veita börnunum mínum einhvern munað. Þau höfðu ekki notið neinna gæða fram að þessu.


Kafli 7. Einstæðir foreldrar

7. kafli

Einstæðir foreldrar

 

Ég fann stað þar sem var heimili fyrir einstæða foreldra. Ég hafði ekkert fengið úr búinu nema kommóðuna og tvö rúm fyrir börnin. Davíð stóð ekki við orð sín með þvottavélina. Ég var einnig með hluta af neysluskuldum sem voru á greiðslukortinu mínu. Nafn mitt var ónýtt og ég átti enga peninga. Ég gat leigt herbergi hjá einstæðum foreldrum sem var eitt svefnherbergi og annað sem var notað fyrir stofu og eldhús. Þá þurfti maður að deila baðherbergi með öðrum konum og börnum þeirra. Annað var ekki í boði. Ég fór á atvinnuleysisskrifstofuna til að skrá mig, svo ég gæti fengið atvinnuleysisbætur og mögulega vinnu.

Atvinnuleysisbætur eru ekki háar og voru aðeins um 70 þúsund krónur á þessum tíma. Meðlag var þá 10 þúsund krónur á barn. Ég borgaði svo 22 .000 krónur í húsaleigu, 20.000 krónur í leikskólagjöld fyrir krakkana og þá voru um 48 þúsund krónur eftir í mat og föt. Verulegur hluti af laununum fór sem sagt í leiksskólagjöld, því börnin þurftu að vera á leikskóla til að maður teldist löglega fær um að ráða sig í vinnu. Þessir peningar voru miklir miðað við það hvað við áttum. Ég borgaði húsaleigu sem var svipuð og á almennum markaði en fékk ekki húsaleigubætur, þar sem ég deildi salerni með öðrum konum.

Það vildi enginn leigja atvinnulausri, einstæðri móður. Það bjóst enginn við að hún myndi borga leiguna. Til að eiga fyrir mat eða föt á börnin þurfti ég að drýgja tekjurnar með því að fara í Mæðrastyrksnefnd. Það voru ekki létt spor. Það vandist samt ótrúlega vel og við fórum líka í kirkjuna til að fá eitthvað hjá þeim.

Á þessum stöðum fengum við líka föt og svo þegar við vorum í stuði fórum við í Rauðakrossbúðina að versla. Það var eins og að fara í tískuvöruverslun og okkur leið eins og við værum að stæla okkur upp. Þar var hægt að finna flotta skó eða úlpur eða kápur og þegar við komum svo heim, vorum við með tískusýningu. Með þessum leiðum tókst okkur að ná endum saman.

Ég fór að telja hverja einustu krónu sem ég þurfti ekki að eyða, mér til tekna og mér tókst að safna fyrir 10 ára gömlu sjónvarpi og fimm ára gömlu stereótæki. Seinna fann ég notaðan sófa sem kostaði lítið. Þetta fór að líkjast heimili. Mér leið að minnsta kosti þannig þegar ég sat á kvöldin með kerti kveikt og fékk mér bjór og hlustaði á plötur. Ég held að krakkarnir hafi ekkert tekið eftir því hvað þetta var fátæklegt. Þau þurftu ekki mikið til að gleðjast enda ennþá svo ung. Ég fann þó fyrir öryggi, vegna þess að það myndi að minnsta kosti enginn koma inn og brjóta rúmið eða selja það eða jafnvel tuska mig til. Ég var í skýjunum. Þetta var lífið og frelsið. Ég átti heimili, ég var frjáls og óháð.

Davíð kallaði þetta skítaholu og hneykslaðist á mér að vera að bjóða börnunum upp á þetta. Ég vissi að það var bara til að reyna að brjóta mig niður og ég ætlaði sko ekki að láta hann komast upp með það. Ég vissi innst inni að þetta yrði ekki alltaf svona. Ég ætlaði að ná lengra í lífinu. Það tæki bara tíma.

Jólin voru að nálgast og ég var alltaf að teikna myndir. Ég spurði föður minn að því hvort hann vildi að ég gæfi honum mynd í jólagjöf, þar sem ég átti ekki mikinn pening. Hann sagði að hann myndi ekki vilja fá svona mynd af dýrum eins og ég var vön að teikna. Mömmu var alveg sama en pabbi sagði að hann hefði ekki áhuga á dýrum. Þegar ég loksins komst að niðurstöðu hvað ég gæti teiknað fyrir hann, ákvað ég að teikna Jesú á krossinum. Ég vildi hafa hann þakklátan þó svo að hann hefði verið krossfestur. Hann átti að sýna fram á æðruleysi þrátt fyrir sársaukann.

Ég taldi að þetta hlyti að falla í góðan jarðveg hjá pabba, þar sem ég myndi gefa honum myndina á aðfangadag. Hann var alltaf svo trúaður á jólunum. Ég var rosalega stressuð, þar sem ég hafði aldrei málað neitt fyrir pabba. Systir mín kom niður eftir til mín á þessum tíma og ég sýndi henni myndina. Ég spurði hana kvíðin hvort hún héldi að honum myndi líka við þetta. Hún sagði að ef hann gerði það ekki, væri hann eitthvað skrítinn. Ég keypti svo ramma í IKEA og setti myndina í. Þetta var mynd sem var í stærð A3 og það er nokkuð vegleg stærð.

Með hverjum deginum sem leið urðu hlutirnir auðveldari. Ég tók öllu með ró. Ég fékk samt ekki vinnu. Ég vildi heldur ekki vinna við það sem væri verr borgað en atvinnuleysisbæturnar. Ég fékk tilboð um vinnu í fiskvinnslu en ég neitaði þar sem ég kunni ekki til verka og það var líka það síðasta sem ég vildi vinna við. Ég var vön að vinna við afgreiðslustörf og sótti ég mest um það.

Ég hætti að fara með krakkana í leikskóla, vegna þess að ég hafði ekki efni á því, þar sem ég ætlaði að reyna að koma okkur betur fyrir því ég vissi að þetta heimili var tímabundið. Það var ekki leyfilegt að vera þarna nema nokkra mánuði. Ég þyrfti að finna íbúð sem fyrst þar sem það voru fleiri á götunni sem biðu eftir plássinu sem ég var í.

Ég gat ekki beðið föður banrana um að hjálpa til vegna þess að mamma hans hafði hringt í mig og beðið mig um að fella niður annað meðlagið. Hún sagði við mig að ég þyrfti að taka þátt í að borga niður skuldirnar sem voru á hennar nafni. Hún sagði að við hefðum stofnað til þeirra saman.

Ég varð gáttuð á þessari beiðni. Ég hafði tekið á mig gjaldþrot og sat uppi með skuld upp á 500 þúsund krónur út af því og svo var ég með vísaskuld. Hann var með þrefalt hærri tekjur en ég og tók 900 þúsund krónur í skuld. Ég sagði að ég ætlaði ekki að bera ábyrgð á honum lengur. Hann væri með miklu hærri laun en ég og gæti alveg klárað það litla sem var eftir af skuldunum. Ég sagði henni að ef hann færi að hugsa, þá gæti hann klórað sig út úr þessu. Þá svaraði hún: „Já, en hann gerir það ekki og nú eru þeir að hóta því að taka íbúðina mína.“ „Já, er það?“ svaraði ég. „Þú vilt sem sagt leggja heimili barnabarna þinna í hættu vegna þessa. Er ekki nóg að eitt heimili fór á hausinn, þarf að láta annað heimili fara sömu leið? Hvar eiga börnin að halla höfði sínu þegar allt hrynur í kringum þau? Ég er búin að fá nóg af þessu. Látið mig bara í friði. Ég þarf næði til að byggja upp öryggi fyrir okkur krakkana.“ Svo kvaddi ég hana.

Ég vissi alveg hvernig þetta var búið að vera. Ég bar mikla virðingu fyrir mömmu hans. Hún hafði gengið í gegnum sína erfiðleika. Hún átti þetta ekki skilið, að þurfa að missa íbúðina sína. Hún var búin að ala upp sín börn. Ég gat bara ekki tekið ábyrgðina á þessu. Það var í höndum sonar hennar að taka ábyrgð á því sem hann hafði lagt á hana. Þessar skuldir komu til bæði fyrir og eftir að ég og hann kynntumst. Ég vissi að hún hafði gefist upp á að tala við hann. Ég varð bara að halda minni orku til að ala upp börnin mín. Þegar ég lagði á og fór niður í mína íbúð var bankað á hurðina. Þar var komin kona sem bjó á efri hæðinni. “Hæ” sagði hún þegar ég opnaði. “Ég mátti bara til með að koma til þín og kynna mig fyrir þér þar sem ég heyrði þig tala í símann.” “Það er aldeilis kraftur í þér kona.” Ég verð að fá að kynnast þér þar sem ég held að þú og ég eigum samleið.” Hún sagðist heita Halla og spurði hvort hún mætti koma í kaffi. Ég samþykkti það og bauð henni inn. 

Það fór vel á með okkur og það var kraftur í þessari konu. Hún átti 2 stelpur og var skilin við manninn sinn fyrir skömmu. Þetta varð til þess að ég og Halla fórum að vera mikið saman og skiptumst á að vera heima hjá henni eða mér. Hún sagði mér að hún væri óvirkur alki sem væri ekki búin að vera í neyslu í 2 ár. Mér leist vel á þessa konu og þótti gaman að umgangast hana. Hún var rosalega góð og þolinmóð við dætur sínar og oft á tíðum sá ég hana föndra með þeim við eldhúsborðið.

 

 

Þegar áramótin 1996 runnu upp flutti Davíð til Reykjavíkur. Hann fór að taka börnin aðra hverja helgi. Til að byrja með þurfti hann vera með þau hjá móður sinni, þar sem hann var ekki kominn með húsnæði. Þegar hann sótti þau var það í fyrsta skiptið sem hann hitti þau eftir að ég yfirgaf hann um haustið, það örlagaríka kvöld.

Hann hellti sér yfir mig í anddyri hússins sem við bjuggum í og sagði að ég væri búin að eyðileggja fyrir honum lífið og sundra fjölskyldunni. Einnig sagði hann að ég hefði gert lítið úr honum með því að klaga hann til lögreglunnar u kanínuna og því sem verra var, að fara í Kvennaathvarfið.

Ég horfði á hann og lét sem ég heyrði ekki hvað hann sagði. Hann varð pirraður á því að þessar yfirlýsingar hans snertu mig ekki. Ég hafði lært það í Kvennaathvarfinu að hlusta ekki á hótanir eða tilraunir til að brjóta mig niður. Ég vissi að ég gat ekki fengið hann til að líta sjálfum sér nær og var hætt að reyna það.

Þegar hann tók börnin um helgar, notfærði ég mér það til að fara að skemmta mér og hitta fólk. Við skemmtum okkur með áfengi og fórum á djammið. Ég var orðin tilfinningalega frosin og vildi ekki hugsa um neitt nema daginn í dag. Á þessum tíma kynntist ég mönnum en hafði ekki áhuga á neinu föstu sambandi og vildi ekki hitta þá aftur daginn eftir.

Það var aðeins einn sem ég hitti oftar. Hann hét Freyr og var giftur, sagði hann mér kvöldið sem við kynntumst. Mér var sama um tilfinningar annarra eftir að ég skildi við Davíð og lét það því ekki á mig fá að hann væri giftur. Ég var í svo mikilli hjartasorg eftir sambandið með Davíð að það skipti mig ekki máli hvernig öðrum leið.

Freyr var stórskorinn í andliti og ekki fríður en samt kynæsandi og klæddist gallajakka. Það fór vel á með okkur og hann kom heim með mér þetta sama kvöld. Þegar heim var komið sagði ég við hann feimnislega að ég byggi ekki flott þar sem ég væri nýskilinn. Honum fannst það allt í lagi og við drukkum bjór þetta kvöld og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar.

Það var þægilegt að vera í kringum Frey og hann gat spilað á gítar sem ég hafði keypt einhvern tímann, þar sem mig langaði að læra á gítar. Það var róandi að hlusta á hann spila. Þegar hann lagði svo gítarinn frá sér og við fórum að kela fann ég fyrir þeirri hlýju sem ég hafði þráð svo lengi. Ég fann samt ekki þær tilfinningar sem maður finnur þegar maður elskar.

Við eyddum heitri kvöldstund í litlu íbúðinni minn sem var samt ekki nema tvö herbergi en létum það ekki trufla okkur. Ég hafði aldrei upplifað svo æðislegt kynlíf og var alveg til í að hitta hann aftur. Við skiptumst á símanúmerum og ég lofaði að ég myndi ekki tala í símann nema hann myndi svara. Ég vissi hvar hann átti heima. Ég ætlaði samt ekki að fara að njósna um hann, þar sem ég vildi ekki eyðileggja neitt fyrir honum. Mér leið það vel í kringum hann og vildi ekki storka örlögunum.

 

 

 

Eina nóttina lá ég á dýnunni minni með börnin í sama herbergi og hugsaði áður en svefninn tók völdin. Ég var búin að finna fyrir einmanaleika síðustu daga. Ég vissi ekki hvar ég átti að finna styrk. Ég sneri mér þá til Guðs og sagði við hann: „Góði Guð, viltu halda utan um mig, mér líður svo illa. Ég veit ekki hvert ég er að stefna, ég þarf bara faðmlag, svo ég geti sofnað.“ Ég sofnaði vært þessa nótt, en mig dreymdi líka undarlegan draum.

 

Draumurinn:

Ég stóð inni á gangi í einhverju húsi. Ég sá mann og konu standa lengra inni á ganginum. Þau stóðu og horfðu á mig og mér fannst að konan horfði á mig með illilegu augnaráði. Maðurinn yppti öxlum eins og hann væri að reyna að segja mér að hann vissi ekki af hverju hún væri svona reið.

Ég vissi auðvitað ekki af hverju hún var það og ég beið bara. Hún gekk til mín og sagði: „Hann hefur aldrei fengið Tangurey.“ Það átti að þýða eitthvað kynferðislegt og einnig snúast í kringum áfengi. Ég vissi ekki hvað þetta þýddi. Hún gekk framhjá mér og fór inn í herbergi þarna í húsinu. Mér leið eins og ég ætti að bíða eftir einhverju. Þessi maður gekk einnig framhjá mér og fór inn í sama herbergið. Maðurinn og annað fólk var inni í herberginu, var að undirbúa eitthvað. Fljótlega kom maðurinn út aftur og hann leiddi mig inn í herbergið. Mér var sagt að leggjast á dýnu sem var brún á litin og svo var önnur dýna með sama lit og hann lagðist á hana með fæturna á móts við fæturna á mér þannig að höfuðin sneru hvort í sína áttina. Þá var mér sagt að fara út úr herberginu og ég átti að bíða inni í næsta herbergi, sem var baðherbergi. Efst á veggnum inni á baðherberginu var loftgat.

Ég gat heyrt raddir fólksins í gegnum þetta gat. Ég gat ekki greint hvað það var að segja. Mér fannst samt að fólkið væri að skipuleggja eitthvað. Skyndilega kom maðurinn aftur og sagði mér að koma. Hann hélt á myndbandi og setti það í myndbandstæki sem var þarna. Svo kveikti hann á sjónvarpinu og ég fór að horfa á myndina. Þegar ég var farin að horfa, sökk ég inn í myndina og ég sá konu standa eins og dansara sem biði eftir að taka sporið. Hún fór svo að dansa eins og hún væri að dansa ballet í gylltu bikiní. Hún dansað eftir hlykkjóttum vegi og snerist í dansinum. Báðum megin vegarins voru hvítir steinar sem var raðað í skipulagða röð. Í hverri beygju sem var á veginum voru lindir. Mér fannst eins og hana langaði að stökkva út í. Hún átti samt ekki að gera það strax.

Þegar hún kom að enda vegarins tók hún undir sig stökk út í lindina. Það myndaðist stór gusa þegar hún skall á vatninu og mér leið eins og ég þyrfti að grípa andann á lofti. Ég varð óttaslegin og hafði áhyggjur af því að hún kæmi ekki upp aftur. Fljótlega kom hún aftur upp í annarri gusu. Hún settist á hvítan stein sem var í miðju lindarinnar og í kringum steininn var kassi eins og skókassi. Þetta var kassi með stórum smartískúlum. Það var líka annað sælgæti í stærra lagi og það var kringlóttur marsipanlakkrís sem af tegundinni „all-sort“. Mér fannst eins og hún væri orðin mjög feit og einnig nakin. Hún leit upp og sveiflaði hárinu aftur. Þegar ég sá andlitið á henni sá ég að þessi kona var ég. Mér fannst ég líta mjög þreytulega út þarna og horfði beint framfyrir mig. Þarna var myndin búin í draumnum. Ég leit á manninn og spurði hann: „Viltu hafa mig svona feita.“ Hann svaraði játandi, alvarlegur í bragði og mér fannst hann vera með blá augu. Mér fannst hann vera segja satt. Þá spurði ég hann: „Verður þetta sýnt í sjónvarpinu?“ Hann svaraði: „Já.“

 

Ég vaknaði við drauminn og fann að þetta þýddi eitthvað gott. Ég lyfti höndunum í átt til himins eins og ég væri að biðja og sagði: „Takk Guð.“ Mér fannst eins og hann væri kominn að hjálpa mér.


Kafli 6. Kvennaathvarfið

6. kafli

Kvennaathvarfið

 

Þegar ég kom í Kvennaathvarfið þetta haust 1995 og krakkarnir tveggja og þriggja ára, var tekið á móti okkur með mikilli virðingu. Þær sögðu mér að sækja allt í bílinn. Þá var mér sýnt herbergið sem við fengjum að gista í. Það var ekki stórt en það var notalegt og traustvekjandi. Ég var spurð þegar ég kom. „Til hvers ert þú komin í Kvennaathvarfið?“ „Til að jarða hjónabandið.“ Svaraði ég.

Ég fór í kynnisferð um húsið til að átta mig á öllum herbergjum og skipulagningu innan athvarfsins. Krakkarnir fóru með lærðum uppeldisráðgjöfum inn í annað herbergi til að hafa ofan af fyrir þeim á meðan mér var sagt frá öllum reglum og dagskrá. Þar var mér sagt að ég þyrfti að taka mér frí frá öllu áreiti og ná mér niður á jörðina. Þær sögðu mér að krakkarnir gætu farið í svokallaðan leikskóla á daginn þannig að ég gæti unnið að því að byggja upp framhaldið.

Ég spurði hvort ég gæti þá farið að finna mér vinnu. Konan sem var að sýna mér húsið, horfði á mig undrandi. „Til hvers þarftu vinnu?“ spurði hún. „Ja, við eigum enga peninga“ sagði ég og ég þarf að vinna til að framfleyta okkur. Hún svaraði að það þyrfti að bíða um tíma og láta þær um að hafa áhyggjur af því. Svo gekk hún brosandi í burtu. Ég stóð þarna og velti fyrir mér hvað væri svona broslegt, þar sem ég taldi að við þyrftum að halda áfram baráttu okkar til að koma okkur upp heimili fyrir framtíðina.

Við fórum alltaf í viðtöl á þriðjudagskvöldum. Það var verið að ræða tilfinningar og hvernig líf okkar hefði verið í sambúð við ofbeldismanninn. Við lærðum að við værum stundum að gefa röng skilaboð með hegðun okkar. Okkur var kenndur einn mikilvægur hlutur og það var hvað meðvirkni er.

Meðvirkni kemur út á svo margan hátt. Það er líklegast að við höfum sjálfar verið meðvirkar en einnig ættingjar sem hafa ekki skilið hvernig ástandið er búið að vera. Við höfum sagt við ofbeldismanninn: „Ekki vera vondur við mig, það særir mig.“ Í leiðinni höfum við gefið skilaboð með því að láta þetta yfir okkur ganga: „Þú mátt samt halda áfram, þetta var ekki svo slæmt.“ Það var vegna þess að við fórum ekki út úr ástandinu.

Við virtumst allar vera giftar sama manninum. Hann gat verið, læknir, lögfræðingur, bakari eða uppfinningamaður. Það sem þeir áttu sameiginlegt var að þeir höfðu sagt eitthvað niðurbrjótandi eða jafnvel barið okkur. Það voru misjafnar sögur en tilfinningin var sú sama. Við vorum hræddar, niðurlægðar, óánægðar með okkur og búnar að missa virðinguna.

Það var vinátta á meðal kvennanna og við gátum allar séð okkur sjálfar í hver annarri. Ef síminn hringdi og ein konan fór í símann, vissum við að hún var búin að tala við hann þegar hún kom grátandi til baka. Það gat líka verið að hún hefði verið búin að tala við ættingja hans. Þeir vissu ekki hvernig hlutirnir voru. Þeir sögðu okkur að við yrðum að fara heim til að laga hjónabandið.

Sem betur fer voru þarna konur sem unnu við það að styðja okkur. Forstöðukonan var einstaklega góð og skilningsrík. Hún var geðhjúkrunarfræðingur og tók okkur oft í viðtal til að fara yfir stöðuna. Það var eins og þær væru með fullkomið kerfi fyrir okkur til að svara fyrir okkur.

Þetta var aðferð sem kallast sjálfsvarnarkerfi. Við fundum að ef við notuðum þessa aðferð, myndaðist hjúpur utan um okkur sem virkaði þannig að öll ljót orð og allar ásakanir, skipanir eða jafnvel grátur mannanna skoppaði af okkur eins og vatni væri hellt á gæs. Þetta var ný upplifun fyrir okkur. Við áttum erfiðast með að nota þetta kerfi ef viðkomandi sagði eitthvað fallegt, vegna þess að við þráðum að heyra eitthvað fallegt frá honum. Það var eins og afsökunarbeiðni hans virkaði eins og 100 rauðar rósir. Ef við fórum til baka gat hann brotið rósirnar. Hann virtist alltaf finna aðrar rósir til að gefa okkur. Hann faldi sig stundum í skottinu á bílnum til að hlusta á hvernig hann ætti að ná okkur til baka.

Það var engin hóra þarna inni, ljót, feit eða vitlaus. Við vorum allar gáfaðar, skynsamar, fallegar og með erfiða reynslu að baki. Það sem við tókum sérstaklega eftir, var að börnin okkar voru örugg. Þau hlupu ekki lengur inn í herbergi ef einhver var að tala hærra en venjulega. Þau voru að leika sér saman. Þau máttu fara í ísskápinn ef þau voru svöng, þau skiptu loksins máli og það var hlustað á þau. Það þurfti stundum að sannfæra þau mörgum sinnum um að hann kæmist ekki inn. Þau söknuðu samt pabba síns. Það var kannski í þau skipti sem þau vissu að hann var ekki að drekka. Hann þurfti ekkert alltaf að drekka til að verða reiður. Það voru einhver hljóð eða þögn sem þau voru búin að læra að þýddi eitthvað hættulegt.

Matartímarnir voru skemmtilegir. Það fengu allir að borða á sama tíma. Það máttu allir borða þó svo að þeir hefðu ekki klárað heimalærdóminn. Það var bara hægt að gera það eftir matinn. Það var hlegið og sagðar sögur af upplifunum við matarborðið og gert grín að því hvað viðkomandi hafði verið vitlaus. Þegar þessar sömu sögur voru sagðar í grúppum á þriðjudögum voru þær sagðar á alvarlegri hátt. Flestar fóru þá að gráta. Hláturinn virtist vera brynja sem við vorum búnar að koma okkur upp. Hláturinn hjálpaði til við að komast út úr sársaukanum.

Þarna var herbergi með fullt af fötum. Við máttum fara inn í þetta herbergi og velja föt á börnin og okkur sjálfar án þess að borga. Það kostaði ekkert þarna inni. Við áttum líka enga peninga. Við höfðum bara flúið með það sem við gátum borið eða þær flíkur sem við náðum að klæða okkur í áður en við hlupum út. Börnin voru kannski í náttfötunum þegar þau komu.

Við kunnum ekki að taka við þessum gjöfum, þar sem við héldum að ef við sýndum einhver viðbrögð yrði sagt: „Nei, ég var bara að skrökva.“ Okkur fannst við ekki eiga þetta skilið. Það virtist eins og öll sú vinna sem við vorum vanar að leggja fram til að mega kaupa okkur buxur eða peysu, væri óþörf þarna inni. Þessi föt höfðu komið frá fyrirtækjum eða almennum borgurum sem gáfu þau til styrktar einstæðum mæðrum. Við héldum að það hlytu að vera einhverjar aðrar sem ættu að fá þessar gjafir. Okkur fannst þessir aðilar vera englar. Þeir hlutu að vera það vegna þess að þeir voru ekki að biðja um neitt til baka.

Konurnar voru allar eins og systur, mæður eða góðar vinkonur. Börnin virtust eignast fullt af systkinum. Þau gátu talað saman og skildu hvort annað. Þau vissu hvað hljóðin þýddu, þegar hurð var skellt eða diskar brotnir. Þau skildu stundum ekki af hverju það gerðist aldrei á þessu stað. Þau héldu að það væri eitthvað að þessu húsi. Þau spurðu mömmur sínar: „Hvenær kemur pabbi heim“ eða „Hvenær kemur löggan?“ Það var gott að sitja niðri í setustofu vitandi að börnin væru sofnuð og yrðu ekki vakin um nóttina. Það tók nokkra daga að læra að sofna með þeim. Við héldum að við þyrftum að vaka til að vera tilbúnar ef það yrðu læti.

Jólin voru einstök. Á Þorláksmessukvöld fór enginn til að drekka sig fullan og koma heim seint um nóttina til að brjóta eitthvað eða henda jólasteikinni út eða var svo fullur að þegar aðfangadagur rann upp gæti hann ekki borðað jólamatinn vegna þess að hann ældi honum jafnóðum útaf þynnku. Jólin voru eins og mig hafði dreymt um, hátíðleg og spennandi. Við skildum loksins af hverju börnin biðu eftir þeim. Börnin höfðu aldrei fengið svona margar jólagjafir. Það voru sungin jólalög sem maður hafði heyrt í útvarpinu. Jólaljósin höfðu aðra þýðingu á þessum stað. Þau þýddu gleði og ljós Jesú en ekki skilaboð til ímyndaðs elskhuga sem ein kvennanna hafði verið ásökuð fyrir þegar hún bjó með manninum. Við vissum að draumaprinsinn væri þarna úti, við höfðum bara ekki fundið hann ennþá.

Ég fékk bók hjá þeim sem ég átti að nota til að skrifa minningar í. Ég átti að skrifa mig út úr því sem ég hafði upplifað. Hugur minn var tómur og þegar ég opnaði bókina, mundi ég ekkert nema þessi orð: „Hann drap kanínuna.“ Mér fannst það ekki segja nóg. Það kom ekkert í hugann og þegar ég fór af þessum stað var bókin mín tóm.

Ég hafði lokað á tilfinningar mínar svo lengi og ég gat með engu móti rótað því upp aftur.

Það var ein kona sem ég kynntist og tengdist mest á þessum stað og við vorum mikið saman. Hún hét María og kölluð Mæja. Hún átti þrjú börn með manni sem var geðveikur og sögur hennar af því hvað hann hafði gert voru rosalegar. Þessi kona var taugahrúga og átti erfitt með að fara í Kringluna, þar sem hún óttaðist að hitta hann þar. Hann hafði meira að segja falið sig eitt skiptið í skottinu á bílnum hennar þegar hún fór með annarri konu í bæinn. Því komst hún ekki að því fyrr en hann sagði henni það seinna. Hún kenndi mér á allt sem hét Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar. Hún kenndi mér ótal margar leiðir til að nálgast peninga. Mæja varð góð vinkona mín og þegar ég fór með þessa visku út í lífið kom það sér vel.

Það var erfitt að fara af þessum stað. Við óttuðumst að lífið gæti ekki verið svona annars staðar. Við þurftum langan tíma til að fara með þessa vitneskju út í lífið og skapa þessar aðstæður sjálfar. Við höfðum samt alltaf hvor aðra til að heimsækja og styrkja ef vonin væri að veikjast.

Þarna var ég í sjö vikur og lærði margt. Ég lærði hvernig ég var búin að leyfa manninum mínum að koma fram við mig og eytt tíma í eitthvað sem skildi ekkert eftir nema sársauka. Auðvitað lærði ég líka mjög mikilvæga hluti. Það að maður á að fara varlega með líf sitt og að maður getur notið lífsins betur ef maður er ekki endalaust að eyða tíma sínum í að láta annarra manna drauma rætast, en tryði á sína eigin drauma og reyndi að koma þeim í verk. Draumar mínir snerust um það á þessum tíma að koma okkur áfram í lífinu. Vinna að einhverju uppbyggilegu.


Bloggfærslur 21. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband