Kafli 10. Reykjavíkurferð

10.kafli

 

Jeff ætlaði að koma til Reykjavíkur með vinum sínum og við ætluðum að fara að skoða borgina. Ég var sennilega leiðsögumaður að einhverju leyti, þar sem ég þekkti borgina eins og handabakið á mér. Við fórum á marga staði sem teljast merkilegir og áhugaverðir. Við fórum t.d. í Perluna til að fá okkur kaffi.

Vinir hans voru par sem var mjög ástfangið en ég og hann vorum einhvers konar par sem var að kynnast. Hann og hinn maðurinn voru að sýna karlmennsku sína fyrir okkur kvenmönnunum, annaðhvort með bröndurum eða með mikilmennsku. Hinn maðurinn sem við getum kallað, John (þar sem hann var líka Ameríkani) var reyndar voða góður við konuna sína. Á hótelinu sem þau ætluðu að gista þessa helgi var hann t.d að greiða á henni hárið. Ég hafði aldrei séð karlmann gera þetta og mér fannst þetta lýsa því hvað honum þætti vænt um hana. Jeff var að gantast með þetta og gefa í skyn að hann myndi gera þetta við mig ef við værum kærustupar. Haha sagði ég, yeah right.

Við fórum loksins í Hallgrímskirkju, upp í turn til að horfa á útsýnið. Það var svolítið kalt þar sem það var farið að líða á haustið. Mér fannst þetta vera allt í lagi en þau voru frá Ameríku og fannst kuldinn vera frekar mikill. Karlarnir höfðu orð á því á þann hátt að það ætti að vera fyndið. Þeir sögðu t.d. að það frysi undan manni í þessum kulda. Ég varð að botna þetta þar sem ég er alltaf í samkeppni og sagði: „Ég er ekki með neitt sem getur frosið undan mér.“ Þeir hlógu sig vitlausa vegna þessarar athugasemdar. Mér fannst eins og mér hefði tekist að vinna þennan orðaleik og fékk tilfinningu að ég væri ósigrandi. Það var kannski vegna þess að á þessum tíma var ég í sífelldri baráttu við sjálfsöryggi mitt. Mér fannst eins og ég þyrfti að sanna að ég væri með vit í hausnum.

Þetta var líka að aukast á þessum tíma, þar sem ég var að vakna til vitundar. Ég var líka komin í baráttu við minn eiginn huga. Það var komið eitthvert rót á hann. Ég vissi bara ekki út af hverju.

Við fórum loksins á kaffihús neðar í bænum þar sem ég hafði hitt hann í fyrsta skipti. Þegar hitt parið var að kela eða faðmast eins og ástföngnu fólki er tamt og við vorum að bíða eftir kaffinu, hallaði Jeff sér að mér og hvíslaði: „Ég elska þig.“ Ég brosti og þessi orð yljuðu mér, en á svipstundu hvíslaði hann aftur: „ Ekki láta það stíga þér til höfuðs.“ Brosið hvarf eins snöggt og það hafði birst. Ég fölnaði og fann kaldan svita brjótast fram á andliti mér. Það er hægt að valda ólíkum tilfinningum með orðum á nokkrum sekúndum. Fólk áttar sig ekki alltaf á því.

Ég stóð upp eins og ég ætlaði að fara á klósettið, þar sem ég fann að tárin voru farin að leita fram. Ég ætlaði ekki að láta þau sjá mig tárast. Þegar ég kom niður á baðherbergi tók ég eftir því að þar voru ungar stelpur að snyrta sig sem ég taldi að væru módel sem voru að fara að sýna föt á þessu kaffihúsi. Ég átti auðvelt með að taka mig saman í andlitinu og sneri við.

Þegar ég kom til baka sagði ég við Jeff. Það er fullt af kvenfólki niðri, rosalega fallegar. Sennilega módelsamtökin. Hann sagði þá með glotti: „Ó, ég verð að skoða þær.“ Hann stóð upp og fór niður að salerninu, hann kom samt skömmu seinna og sagði: „Vá, ég gat ekki þolað þetta lengur en fimm sekúndur.“ Ég var frosin eftir þessa atrennu. Ég gat ekki litið framhjá þessu. Það var mjög auðvelt að særa mig, en það var ekki auðvelt að hugga mig.

Vinir hans spurðu hvort við ættum að halda áfram að skoða okkur um í Reykjavík. Þar sem þau ætluðu að vera næturlangt, sagði ég að ég þyrfti að fara að koma mér heim til að taka á móti börnunum. Ég sagðist geta keyrt Jeff heim áður. Ég vildi vera í kringum hann en samt var ég honum reið. Ég held að þau hafi tekið eftir því þegar við vorum að keyra að bílnum mínum. John horfði að minnsta kosti í spegilinn þegar hann var að keyra og mér fannst hann taka eftir því hvernig mér leið. Hann sagði samt ekkert. Jeff sat með glott á andliti eins og hann hefði ekki gert neitt. Ég var reið og mig langaði að öskra á hann. Mig langaði að berja hann í klessu. Ég beit á jaxlinn til að þagga niður reiðina. Þegar við komum að bílnum mínum, þakkaði ég fyrir mig og sagði með bros á vör að ég hefði haft gaman að þessum degi. Þau hlógu og ég dreif mig inn í bíl og beið eftir að Jeff kvaddi þau. Djöfulsins asni er hann, hugsaði ég.

Ég var þögul í langan tíma á meðan ég keyrði. Ég horfði stíft á veginn til að þurfa ekki að hugsa um þetta. Þegar við vorum búin að keyra í 15 mínútur, setti Jeff hendina á hnéð á mér. Ég leit á hann í smástund og sagði svo stíf: „Þetta gæti verið hættulegt.“ Hann dró að sér hendina en glottið á andlitinu á honum var þarna ennþá. Ég var að springa úr reiði. Mig langaði að stöðva bílinn og henda honum út, en ég sat á mér. Hann setti hendina aftur á hnéð á mér. Ég var þögul um stund en sagði svo: „To make a man hungry, you have got to take away his food.“ Hann hætti að brosa og dró hendina til baka.

Jeff fór þá að segja við mig að ég væri búin að gefa honum svo mikið. Ég sagði þá: „Já, ég er búin að gefa þér margt og það er kannski kominn tími til að hætta því.“ „Nei, ekki gera það“ sagði hann. „Þú verður bara að sjá það“ sagði ég þá á móti. Við töluðum ekki mikið meira eftir þetta. Hann var að reyna að fá mig til að brosa og á endanum var ég farin að ná mér af reiðinni. Ég vildi bara klára að keyra hann og drífa mig svo heim.

Þegar við komum að blokkinni sem hann bjó í, beið ég eftir að hann færi út. Hann kyssti mig á kinnina eins og alltaf en í þetta skipti reyndi ég að taka því með köldu hjarta. Ég sagði: „Ekki gleyma töskunni þinni.“ Hann sagði á móti með öryggi: „Það geri ég aldrei.“ Þegar hann var kominn út, lyfti hann upp hendinni og veifaði. Ég horfði á hann köldu augnaráði og spólaði af stað. Ég tók mér samt tíma í að horfa í baksýnisspegilinn og tók þá eftir að hann horfði á eftir mér. Mér var hlátur í huga. Ég hafði sýnt honum eina hlið á skapinu sem ég var með. Mér fannst að hann hefði verið óvarkár með sína eigin hugsjón þegar hann horfði á eftir mér.

 

Jeff, ekki skilja hjarta þitt eftir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband