Kafli 2. Þegar ástin bankar upp á

2. kafli Þegar ástin bankar upp á

Ég kynntist Davíð á bar í Hollywood, þar sem ég var að vinna með skólanum á meðan ég var að reyna að klára stúdentinn.

Fyrsta kvöldið sem ég sá hann var hann dauðadrukkinn og vinir hans voru að hjálpa honum í leigubíl.

Þegar ég gekk frá fyrir framan barinn tók ég eftir veski sem hafði gleymst og þegar ég opnaði það mundi ég eftir honum frá því um kvöldið. Ég vissi að ef ég léti veskið í tapað fundið væri ekki víst að hann myndi eftir því að hafa verið þarna á þessum stað, miðað við ástandið á honum þetta kvöld.

Ég fór því með veskið heim og ætlaði að reyna að hafa uppi á honum sjálf. Þetta var kúnninn minn og mér fannst nauðsynlegt að hugsa um mína viðskiptavini. Daginn eftir hringdi ég í öll þau símanúmer sem voru í blokkinni þar sem hann var skráður til heimilis. Það var ekki fyrr en ég var búin að hringja í fjögur númer að það svaraði kona sem sagðist vera móðir hans og bætti því við að hann gisti alltaf hjá henni þegar hann væri í bænum.Ég gaf henni upp heimilisfangið mitt svo hann gæti komið að sækja veskið.

Þegar dyrabjöllunni var hringt heima var ég á klósettinu, svo mamma afhenti þessum ókunnuga manni veskið sitt. Ég rétt sá grilla í hann þegar hann labbaði í burtu og gat því ekki heilsað upp á hann.

Næstu helgi á eftir var ég að vinna eins og venjulega. Davíð kom þá á barinn til mín til að þakka mér fyrir að hafa bjargað veskinu hans. Ég roðnaði niður í tær og bað hann afsökunar á því að hafa ekki talað við hann þegar hann kom að sækja það.

Þegar líða tók á kvöldið kom hann aftur á barinn til mín og spurði hvort hann mætti ekki bjóða mér út að borða í þakklætisskyni. Ég virti hann þá almennilega fyrir mér og sá að hann var ekki drukkinn í þetta skipti. Mér leist ágætlega á hann, þáði því boðið og lét hann hafa símanúmerið mitt svo hann gæti hringt í mig. Ég átti að vera að vinna alla þessa helgi, svo ég sagði honum að það þyrfti að vera næstu helgi, því þá væri ég í fríi.

Þar með var það ákveðið og hann fór og sást ekki meira þetta kvöld.

Vikan leið hratt þar sem ég þurfti að vinna mikið í verkefnum fyrir skólann og ég vildi ná að klára það allt, svo ég gæti fyllilega notið helgarinnar.

Þegar nær dró helginni fór ég að efast um að Davíð myndi hringja og var farin að undirbúa mig fyrir að fara á djammið með stelpunum í staðinn. Þegar ég var á fullu að mála mig hringdi loksins síminn. Hæ!“sagði hressileg karlmannsrödd í símann.“ Hæ svaraði ég feimin á móti. Ég er búinn að panta borð á Sjanghæ fyrir okkur í kvöld.“Já, er það?“ Er það í lagi?“? Já“ rumdi ég aumingjalega upp úr mér. Ég eiginlega þekki ekki þann stað“ bætti ég við. Þetta er besti tælenski staðurinn í bænum“ sagði hann þá sposkur. Já, ok“ svaraði ég þá hikandi. Ég er bara til í allt“ sagði ég svo aftur, aðeins öruggari með mig. Ég fer ekki oft út að borða, þannig að allt kemur til greina.“Frábært!“ sagði hann þá og bætti við: Ég sæki þig eftir hálftíma.“

Þegar hann kom stuttu síðar, settist ég inn í bíl til hans, feiminn en vel til höfð. Ég ætlaði mér svo sannarlega að ganga í augun á honum þetta kvöld. Veitingastaðurinn var greinilega flottur. Það voru dúkar á borðum og þjónn sem kom með matseðil og vínseðil fyrir Davíð að skoða. Drekkur þú rauðvín?“ spurði hann. Ég hef aldrei gert það“ svaraði ég,en ég gæti hugsað mér hvítvín!“

Þannig byrjaði dásamlega notalegt kvöld, fyrsta stefnumótið.

Davíð var blíður og sýndi öllum tillitssemi og virðingu, ólíkt föður mínum. Hann og pabbi voru reyndar að mörgu leyti eins og svart og hvítt. Davíð var ljóshærður, bláeygður og virkaði mjög föðurlegur í útliti. Mér leið vel með honum, en á sama tíma var ég óörugg og fannst ég vera svo óttalega barnaleg og óreynd, þar sem ég var 23 ára þetta árið en hann að verða þrítugur. Við gátum samt spjallað um allt á milli himins og jarðar á meðan við biðum eftir matnum. Það var gott að tala við hann. Þegar maturinn kom og ég smakkaði hann fann ég að þetta var mjög vandaður matur. Ég hafði aldrei borðað svona góðan mat. Davíð hafði greinilega vit á því hvernig velja ætti góðan veitingastað og mér fannst hann vera svo veraldarvanur, þegar hann var búinn að segja mér hvað hann væri búinn gera í gegnum lífið.

Ég bjó ennþá heima, en hér var kominn maður með mikla lífsreynslu. Hann hafði alist upp við erfiðar aðstæður sem höfðu valdið því að hann fór að heiman aðeins 16 ára gamlan. Ég fann til með honum og hugsaði með mér að þó að ég hefði alist upp á ströngu heimili, væri það ekki sambærilegt við það sem hann hefði upplifað. Stjúpfaðir hans var slæmur með víni og barði mömmu hans þegar fauk í hann. Margir í fjölskyldu hans áttu erfitt með vín og voru að mestu ómenntað verkafólk, eins og hann orðaði það. Það sem heillaði mig einstaklega mikið við hann, var hvað hann var með ákveðnar skoðanir á því hvað hann vildi í lífinu. Það var margt sem hann vildi gera og ég fann að hann var með marga drauma um framtíðina, sem mér fannst svakalega spennandi.

Þegar þessu kvöldi var lokið, dró hann upp óútfyllta ávísun sem hann sagði að systir hans hefði lánað honum, þar sem hann væri ekki með ávísanahefti sjálfur. Þessa ávísun notaði hann til að borga fyrir matinn. Hann keyrði mig svo heim og kyssti mig bless á planinu fyrir framan húsið. Ég fann fyrir blíðu í kossi hans og hvað þessi maður var tilfinninganæmur. Mér leið virkilega vel í nálægð hans og hann var ólíkur pabba mínum og það var það sem ég heillaðist af honum. Mér fannst að ég væri búin að finna draumaprinsinn sem myndi vernda mig og sýna mér þá virðingu sem ég þráði.

Við hittumst oftar næstu vikurnar og eyddum meiri tíma saman. Stundum gisti hann heima hjá mér, en ég vildi samt ekki sofa hjá honum strax. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri lauslát. Hann tók því mjög vel og var ekkert að ýta á mig. Þegar ég lét loks slag standa, áttum við ástríðufulla og yndislega nótt saman. Hann spurði mig eftir á, hvort þetta þýddi að við værum þá par. Ég kinkaði þá kolli, feimin að tjá mig frekar um það.

Tíminn leið og þegar skólinn var búinn fór ég að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera um sumarið. Davíð sagði þá við mig að ég gæti flutt til sín, sem mér fannst frábær hugmynd og sló til. Ég saknaði hans líka svo mikið þegar ég gat ekki hitt hann og var farið að líða eins og ég elskaði hann. Kannski gerði hann það líka.

Það var stórt skref fyrir unga stúlku eins og mig að flytja að heiman í fyrsta skipti, en mér fannst ég vera í nokkuð góðum höndum hjá honum.

Þetta var lítill staður fyrir vestan sem heitir Stykkishólmurog er vinalegt bæjarfélag. Fólkið á staðnum var meira eða minna uppalið á þessum stað og tók okkur ungu Reykvíkingunum vel. Davíð þekkti alla í plássinu mjög vel og var vinsæll á meðal fólksins vegna góðmennskunnar sem hann sýndi fólkinu. Ég var ung og feimin, en mér fannst hann sýna mér mikla virðingu fyrir það sem ég var. Honum fannst ég vera af fáguðu fólki. Faðir minn var mjög strangur og stjórnsamur, óblíður og kaldur, en það orkaði á Davíð sem traustvekjandi ímynd hins fullkomna föður. Sjálfur átti hann föður sem var einn af rónunum á götum Reykjavíkur og faðir minn var svo langt frá því að vera sambærilegur. Ég var ósammála honum um þessa hluti, þar sem ég taldi að hann væri ekki búinn að kynnast þeim ströngu reglum sem faðir minn hélt uppi, en ég vissi að hann myndi sjá það seinna.

Þó svo að ég virti föður minn fyrir margt, var leit mín á þessum tíma allt önnur en hans. Pabbi lagði alltaf ofuráherslu á að maður ætti að mennta sig og verða eitthvað. Það sem ég vildi í lífinu var hins vegar fyrst og fremst ást og umhyggja og öruggt heimilislíf. Þetta gat pabbi aldrei skilið.

Davíð gaf mér von um að karlmenn gætu verið blíðir og að ég væri búin að finna það öryggi sem ég leitaði að. Ég fékk vinnu í bakaríinu þar sem Davíð var verkstjóri og pakkaði kökum á meðan hann bakaði. Hann vaknaði klukkan fjögur á næturnar til að byrja baksturinn, en ég þurfti ekki að fara fyrr en klukkan sjö. Hann kom heim á hverjum einasta morgni og vakti mig með kossi og mér leið eins og drottningu í höndunum á honum. Það var þægilegt að vera í nálægð hans og mér leið vel að geta unnið á sama stað og hann, þannig að ég gæti verið nærri honum allan daginn.

Hann sagði samt við mig að þó að hann væri kærasti minn, ætti ég ekki að búast við því að ég fengi sérstaka meðhöndlun í vinnunni. Auðvitað ekki“ sagði ég þá. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri löt til vinnu. Þegar við vorum búin að vinna í mánuð sagði Davíð mér að hann ætti inni sumarfrí og að stelpan sem vann með honum við baksturinn gæti séð um bakaríið á meðan við færum í frí. Ferðalaginu var heitið til systur hans að Hólum í Flókalundi, þar sem við gistum í tvo daga. Þar nutum við friðarins í sveitinni og Gunnhildur systir hans gerði vel við okkur í mat og drykk.

Áfram var förinni heitið að heimsækja aðra systur hans á Reykjanesi, en einnig að skoða bakarí sem hann hafði einu sinni átt. Það var gaman að ferðast svona með honum og mér leið vel að vera ástfangin af manninum sem ég ætlaði að eyða ævininni með. Ég gjóaði augunum til hann þegar hann var að keyra vegna þess að mér fannst hann svo myndarlegur og ég trúði því varla að þessi lífsreyndi maður væri kærastinn minn. Þessi ferð var vel þess virði að keyra alla þessa firði og hlykki sem Vestfirðirnir eru og mér fannst gaman að hitta báðar systurnar. Þær voru hvor annarri vinalegri og mér fannst yndislegt að vera samþykkt af fjölskyldu hans, sem konan hans Davíðs. Ég tók sérstaklega eftir því þegar við vorum í heimsókn á þessum báðum stöðum, hvað hann var barngóður, þar sem systur hans áttu báðar börn. Ég hafði ekkert annað að miða við en föður minn. Davíð var svo sannarlega með vinninginn í þeim efnum hvað varðaði ást og umhyggju.

Allt ferðalagið tók um tvær vikur, þar sem við vorum á Reykjanesi í viku svo hann gæti sýnt mér allt sem hann hafði verið að gera þegar hann bjó þar fimm árum áður. Þegar þessu ferðalagi var lokið fórum við aftur heim á Stykkishólm, þar sem við áttum von á Alfreð frænda hans.

Hann ætlaði að gista hjá okkur í tvo daga. Sumarfríið okkar var búið, en Alfreð kom samt þar sem hann ætlaði að slaka á í fríinu sínu. Hann kom á föstudegi og það var gott því við áttum þá frí og gátum því notið kvöldsins með honum. Við elduðum dýrindismáltíð; piparsteik með bakaðri kartöflu. Þetta var yndislegur maður og Davíð átti góðan félaga í honum, þar sem hann hafði eiginlega alist upp í kringum hann. Hann kom með áfengi úr Reykjavík og bauð okkur í glas og þeir félagar töluðu um gamla tíma á meðan ég hlustaði.

Mér fannst gaman að hlusta á þá rifja upp skemmtilega hluti sem þeir höfðu lent í, en þeir voru líka að rifja upp hluti sem voru ekki eins skemmtilegir, eins og það hvað faðir hans Davíðs væri mikill aumingi, drykkfelldur og óskammfeilinn og hugsaði bara um sína eigin hagsmuni. Hann var víst búinn að fara í margar meðferðir vegna drykkjunnar, en féll alltaf jafnóðum.

Þegar leið á kvöldið tók ég eftir því að Davíð var orðinn nokkuð drukkinn og ólíkur sjálfum sér. Mér fannst það svolítið stuðandi, þar sem ég hafði aldrei séð hann svona. Samt vildi ég líta á þetta sem einsdæmi, þar sem frændi hans var kominn. Oft getur maður opnað sig meira þegar maður með fólki sem manni þykir vænt um. Við fórum að ræða þrítugsafmælið hans Davíðs sem átti að halda upp á í kringum verslunarmannahelgina. Félögunu fannst það góð hugmynd að bjóða fólki í Skorradal, tjalda þar saman og grilla góðan mat. Þeir töluðu um að það væri sniðugt að búa til landa til að geta átt nóg af víni handa öllum gestunum. Þetta var allt undirbúið þetta kvöld og skipulagt hvernig væri best að standa að þessu.

Þegar leið að verslunarmannahelginni ætlaði kaupfélagsstjórinn ekki að hleypa mér í frí, því það var vanalega mikið álag þessa helgi og vantaði fólk til vinnu. Ég sótti það fast og sagði honum að það væri ekki skylda að vinna þessa helgi frekar en aðrar helgar. Þar sem ég vissi um rétt minn varðandi verkalýðssamninga, gafst hann upp og leyfði mér að fara.

Við komum svo í Skorradal með allt sem þurfti til helgarinnar, tjald, svefnpoka, mat og helling af víni. Þangað voru komnir ættingjar frá báðum leggjum og það virtist ætla að vera töluverð veisla úr þessu.

Tjaldbúðir okkar voru þéttsetnar og hægt að rölta á milli tjalda með sjússinn sinn, spjalla, hlægja og syngja. Við Davíð og Alfreð vorum að grilla læri, grafið í jörð, en það hafði ég lært í Bandaríkjunum þegar settar voru upp veglegar barbecueveislur. Lærið eldaðist hægt og nörtuðum við í annað á meðan við biðum. Þegar líða tók á veisluna, tók ég eftir því að Davíð var orðinn nokkuð hífaður. Hann kom til mín inn í tjald þar sem ég var að stússast og var þungbúinn á svip.

Hann spurði mig pirraður: Hefur þú sofið hjá svertingjum? Hvað meinarðu? sagði ég. Ég vil bara fá að vita það, sagði hann nokkuð æstari. Nei, ég hef ekki gert það, svaraði ég. Hvað er vinkona þín þá að ljúga? spurði hann þá. Ég sagði honum að það kæmi honum ekki við hvað ég hefði gert í fortíðinni, áður en hann kom inn í myndina. Hann varð þá mjög reiður, stóð upp og labbaði burt. Þetta varð til þess að veislan varð stirðari, þar sem afmælisbarnið var í fýlu.

Ég lét það ekki á mig fá en settist samt hjá foreldrum mínum til að njóta verndar þeirra og öryggis, þar sem mér leist ekki á reiðina í Davíð. Þegar ég sagði þeim þetta, spurðu þau hvort það væri ekki hægt að laga þetta með því að sættast. Mér fannst ólíklegt að það yrði nokkuð úr því þetta kvöld, þar sem Davíð var farin að draga sig út úr hópnum og lét ekki sjá sig. Þegar líða tók á nóttina og Davíð var ennþá í fýlu, labbaði ég til hans til að athuga stemninguna. Hann var með snúð og ég sagði við hann að ef hann gæti ekki sætt sig við að ég ætti mér fortíð, gæti ég farið með foreldrum mínum heim daginn eftir. Hann hummaði bara eitthvað óskiljanlegt, svo ég gekk í burt og fór að sofa. Þegar ég hafði sofið í svona klukkutíma, fann ég í gegnum svefninn að Davíð kom inn í tjaldið og tók utan um mig. Hann hafði þá séð að sér og tók ég því sem samþykki að hann vildi ekki að ég færi með pabba og mömmu í bæinn. Þetta endaði þá nokkuð vel, en ég fann að það var greinilega sumt sem pirraði Davíð sem snerti fortíð mína og taldi vissara að vera ekkert segja honum frá mínu lífi. 


Kafli 1. Æskan

1. kafli Æskan

Ég átti ekki marga vini. Einu vinir mínir voru Tryggvi bróðir minn, Halldóra systir mín og nokkrir krakkar í hverfinu. Ég var að mestu einfari þegar við fluttum upp í Efra-Breiðholt. Þá var náttúran í Elliðaárdalnum aðaldvalarstaður minn, sérstaklega á sumrin.

Þá daga sem ég gekk niður að Elliðaá til að skoða hreiður sem ég var að fylgjast með, staldraði ég gjarnan við þegar hestamenn riðu framhjá á tölti og sá hvað þeir geisluðu af gleði, sitjandi á fákum sínum brosandi út að eyrum. Ég óskaði þess svo heitt að geta eignast einn af þessum hestum. Bara ef pabbi og mamma gætu nú leyft mér að kaupa hest, hugsaði ég með mér. Ég held samt að þau hafi ekki viljað það, þar sem ég var of ung til að borga það sem þyrfti til að hugsa um hest. Ég lofaði sjálfri mér að ég myndi kaupa mér hest einn daginn. Ég meira að segja bað, með tárin í augunum, til Guðs um að hjálpa mér að láta þann draum rætast. Ég hélt að ef ég myndi gráta myndi hann hjálpa mér að eignast hann frekar, því ef ég gréti, þá væri það af öllu hjarta. Ég fékk ekkert svar frá Guði og stundum efaðist ég um að hann væri til, samt vildi ég trúa því, þar sem annars hefði ég ekki þennan styrk sem mig vantaði. Ég bað líka Guð um annað. Það var að sýna mér hvernig ég gæti lagað rifrildið heima.

Pabbi vann myrkranna á milli til að borga niður húsið og mamma var í skóla í Fjölbraut í Breiðholti á þessum árum til að taka stúdentinn, en ætlaði svo í áframhaldandi háskólanám. Það var alltaf svo mikið að gera hjá henni í þessu námi og pabbi bannaði okkur að trufla hana svo hún gæti lært. Henni gekk vel í náminu í framhaldsskóla og fékk fjölda verðlauna. Svo þegar hún fór í sjúkraþjálfann í Háskólanum féll hún, en það var verulega strembið nám. Pabbi keypti þá plötu handa henni með laginu Fallinn“ með hljómsveitinni Tívolí. Þetta fannst mér vera til þess eins að lítillækka mömmu og niðurlægja hana, því hún tók þennan gálgahúmor í pabba mjög nærri sér. Hún lét þetta samt ekki brjóta sig niður og uppfyllti draum sinn um menntun og fór í hjúkrun, sem hún náði með glans.

Pabbi sá mest um að tukta okkur til en fór þó oft með okkur á skíði þegar tími gafst til. Mamma sá um að taka til nestið og þá fékk ég brauð með spægipylsu og kakó í fyrsta sinn. Í skíðaferðum verður maður svangur eins og úlfur eftir að vera búinn að djöflast í brekkunum.

Það var mikið álag á pabba og það virtist eins og það væri aldrei neitt nógu gott fyrir hann. Mér fannst stundum að við krakkarnir værum fyrir honum. Ég spurði hann meira að segja af því af hverju hann hefði eignast börn og hann sagðist ekki vita það. Hann var alltaf að skamma okkur fyrir eitthvað. Annaðhvort var það smjörið sem við gleymdum á borðinu eða þá að við brutum glas. Það fór sérstaklega í taugarnar á honum hvað ég var matvönd. Ég gat ómögulega borðað kartöflur og sérstaklega ekki þegar ég var búin að sitja við borðið í hálftíma á meðan ég var að reyna að mana mig til að borða þær. Ég einfaldlega kúgaðist við það að borða þessa slepjulegu kartöflur. Pabbi elskaði þær aftur á móti og skildi ekki af hverju ég þyrfti að vera með þetta vesen í sambandi við það. Hann rak mig eitt sinn út fyrir að vilja ekki borða kartöflur og þá sat ég úti og grét á meðan ég skammaðist mín fyrir að vera svona mikill aumingi en ég var samt reið út í pabba. Stelpa í hverfinu, sem hét Sólveig og varð seinna vinkona mín, gekk framhjá þegar ég sat þarna grátandi. Hún spurði mig af hverju ég væri svona leið. Þegar ég sagði henni það, fannst henni skrítið að faðir minn væri svona strangur. Það var í fyrsta skipti sem ég áttaði mig á því að það var ekki eðlilegt að taka svona harkalega á hlutunum. Ég var bara orðin svo vön því og þekkti ekkert annað.

Eitt sinn var pabbi úti í glugga á efri stofunni að skjóta á ketti með loftriffli, þar sem hann þoldi ekki kettina í hverfinu. Sigursteinn bróðir var þá að gefa fuglunum að borða, þar sem það var vetur og verulega kalt. Þá datt pabba í hug að vera fyndinn og skaut í lærið á honum. Hann hló svo hrossahlátri þegar Sigursteinn kipptist við. Haglið fór ekki í gegnum skinnið en ég stóð á meðan og fylgdist með til að reyna að átta mig á því hvort þetta væri eðlileg hegðun. Ég var kannski ekki nema 10 ára og hafði ekki vit á því. Ég hafði áhyggjur af því hvort Steini hefði meitt sig.

Pabbi öskraði gjarnan á okkur og sagði að við værum heimsk eða vitlaus ef við gerðum eitthvað sem honum féll ekki. Mér fannst ég líka frekar heimsk. Þar sem mér gekk illa í skóla og þegar ég var 14 ára féll ég í flestum fögum, nema myndlist og íþróttum.

Ég blandaði ekki geði við skólafélaga, vegna þess að ég hafði ekki kjark til þess að kynnast þeim. Svo bjóst ég við því að þau myndu taka eftir því hvað ég væri vitlaus.

Ég átti aðallega Tryggva bróður sem félaga, en átti ekki samleið með eldri bróður mínum, Sigursteini. Hann fór reyndar í taugarnar á mér. Hann var til dæmis alltaf að kryfja matinn þegar maður var að borða og svo mátti maður ekki smjatta við borðið eða anda þegar við vorum að spila Matador.

Við Tryggvi aftur á móti gerðum ýmislegt sem mamma og pabbi vissu ekki af. Við fórum oft út á nóttunni til að vafra um göturnar og stundum reyndum við að stela einhverju í þessum göngutúrum. Nótt eina fyrir páska þegar við vorum að labba hjá Hólunum, sáum við bíl sem var ólæstur og það var heil kippa af líters sprite inni í bílnum. Tryggvi stakk upp á því að taka þetta en hætti svo við. Ég hélt nú ekki. Tryggvi mátti ekki halda að ég væri aumingi eða heigull, þannig að ég opnaði bílinn, hrifsaði kippuna út og hljóp á eftir honum. Hann kallaði á mig að ég væri brjáluð og svo hlupum við eins og fætur toguðu heim og drukkum gos alla páskana. Ég var ekki vön að gera þetta en ég gerði allt til að ganga í augun á Tryggva.

Tryggvi var reyndar vandræðastrákur og skýringin var sennilega sú að hann var í uppreisnarham gegn pabba. Hann varð oft fyrir barðinu á honum. Eitt lítið dæmi var þegar Tryggvi var eitt sinn að lesa Moggann við eldhúsborðið á meðan mamma var að leggja á borð. Þá sagði pabbi: Hættu að lesa við borðið þegar mamma þín er að koma með matinn.“ Tryggvi hlýddi auðvitað, því annars yrði tekið í hann. Þegar mamma var næst að elda matinn var pabbi að lesa blaðið við borðið og þá datt upp úr Tryggva; Er ekki bannað að lesa blaðið við borðið þegar mamma er að koma með matinn?“ Pabbi sló hann þá utan undir fyrir að vera með þessa afskiptasemi, en Tryggvi stóð þá upp reiður og labbaði inn í herbergið sitt. Hann fékk ekkert að borða það kvöldið. Það var ósjaldan sem Tryggvi lenti í svona rimmu við pabba, enda var hann með munninn fyrir neðan nefið. Mömmu leiddist svona hegðun hjá feðgunum, en sagði ekkert þar sem hún vildi ekki bæta á bálið.

Pabbi stjórnaði okkur með heraga og þegar mamma var að reyna að blíðka ástandið sagði pabbi að það þýddi ekkert að vera með neitt vol og væl. Það þarf að kenna krökkunum að heimurinn er ekki auðveldur.“ Ég spurði Guð að því næst þegar ég labbaði niður í Elliðaárdal, hvort það væri ekki hægt að laga þennan heim með því að gera það öll saman. Hann svaraði mér engu og þá spurði ég hann hvort hann gæti ekki tekið mig til sín, þar sem mig langaði ekki að lifa í svona vondum heimi.

Ég fór að finna fyrir þessum þungum hugsunum þegar líða tók á grunnskólann. Ég las allar bækur sem ég fann um yfirnáttúrulega hluti, til dæmis Nostradamus og Draumráðningar. Ég byrjaði að leika mér að spá í tarotspil, en ég hafði heyrt að ef maður gæti spáð í spil væru það einmitt slík spil sem virkuðu. Kenningin um pólskipti heilluðu mig, en ég vonaði að norðurpóllin myndi falla niður á miðbaug þannig að við Íslendingar myndum loksins búa í heitu löndunum. Þessi flótti frá raunveruleikanum var leið fyrir mig til að losna við þann sársauka sem ég fann í hjarta mér.

Í eitt skiptið þegar ég var með Tryggva bróður, kærustunni hans og vin í bíltúr, ákváðu þeir félagarnir að ræna bíl. Við stelpurnar biðum í bílnum á meðan þeir voru að þessari iðju, þar sem okkur fannst þetta ekki sniðugt. Þeir voru lengi í burtu og það endaði með því að við sofnuðum í bílnum hans Tryggva og vöknuðum við það að löggan bankaði á rúðuna. Þegar við skrúfuðum niður rúðuna spurði löggan okkur hvort við þekktum Tryggva og Ólaf. Við játuðum því og þá vorum við beðnar um að koma með þeim niður á lögreglustöð, þar sem srákarnir höfðu verið handteknir og við áttum að bera vitni.

Kærastan hans Tryggva var hágrátandi á meðan ég var að hugsa hvernig ég ætti að ljúga okkur út úr þessu. Þegar ég hitti Tryggva á lögreglustöðinni hvíslaði hann að mér: "Óli keyrði ekki.“ Ég kinkaði kolli og vissi þá að ég ætti ekki að segja frá því að hann hefði keyrt, þar sem hann var í glasi, enda hafði ég ekki séð það. Við vorum svo yfirheyrðar og ég hélt mig við þá sögu sem ég vissi að ég ætti að gera, að Tryggvi hefði keyrt bílinn og Óli verið farþegi. Seinna þurfti samt að kalla okkur aftur á stöðina í aðra yfirheyrslu þar sem þeir voru ekki sáttir við vitnisburðinn. Þá sagði Tryggvi mér að segja sannleikann að Óli hefði keyrt þetta kvöld. Þetta var stutt yfirheyrsla þegar ég talaði við lögregluna í annað sinn þar sem það fyrst sem ég sagði þegar ég var sest í stólinn fyrir framan lögregluna sem tók skýrsluna að Friðbert hefði keyrt. Hann sagði þá að ég mætti fara.

Lögreglan hafði víst sagt við pabba þegar á þessu stóð að svona gutta þyrfti að berja. Pabbi var ekki vanur á láta segja sér fyrir verkum og notaði því aðra taktík í þetta skipti. Hann keypti í staðinn bílinn sem strákarnir höfðu rænt af manninum og sá lét þá málið niður falla. Tryggvi fékk svo að borga hverja krónu til baka með blaðburði og bæta þannig fyrir brot sitt. Ég sá því aðra hlið á pabba í þetta sinn og hugsaði með mér að þetta hefði hann átt að gera fyrr. Hann gat sem sagt notað uppbyggilega aðferð í uppeldi, ef hann bara gaf sér tíma til þess.

Ég byrjaði að drekka áfengi 17 ára gömul þegar ég var að vinna í Ölgerðinni. Þar kynntist ég stelpu sem hét Anna og ég hékk mikið með henni. Foreldrar hennar drukku mikið og voru fráskyldir og ég fann að þetta var allt öðruvísi heimur en sá sem ég kom frá. Ég var í uppreisnarham, þar sem ég þoldi ekki stjórnsemina í pabba og mig langaði að komast í burtu.

Anna var í dópi og foreldrum mínum leist ekkert á það að ég væri með henni, þar sem þau grunaði að ég væri komin í slæman félagskap. Hann var það líka, en ég var ánægð vegna þess að Anna var fyrsta alvöru vinkona mín. Það togaðist ýmislegt á hjá mér, þar sem ég var bæði í uppreisn gagnvart heraga heimilisins, en ég vildi líka halda áfram námi. Anna var komin af óregluheimili þar sem hún var yngst, ásamt tvíburabróður sínum og henni leið ekki vel á heimilinu. Hún var því alltaf að stinga af og eitt kvöldið gerði ég það líka. Ég var á flækingi með henni í þrjá daga, þar sem við sváfum bara þar sem okkur var boðið. Þetta ævintýri endaði samt á því að ég og önnur stelpa húkkuðum far á Flúðir með Önnu uppdópaða í eftirdragi og skildum hana eftir á meðferðarheimili sem var þar.

Eftir þetta hætti ég að umgangast hana og fór aftur að einbeita mér að skólanum, þar sem þetta var ekki heimur sem mig langaði að vera í. Þegar ég hugsa til baka var þetta eiginlega svartasti heimur sem ég hef lent í. Ég fann að ég var ekki eins og systkini mín. Þau gátu lært og einbeitt sér á meðan ég var með hugann úti um allar trissur. Ég vildi samt reyna að ná stúdentinum. Ég var alltaf að flosna upp úr skóla en byrjaði svo aftur eftir einhvern tíma, þannig að námið sóttist seint.

Ég var líka búin að vera að flýja heimilið frá því að ég var 11 ára og fór því í sveit. Fyrsta árið mitt passaði ég barn sem var hrætt við dýr, þannig að það hentaði mér illa. Ég sóttist eftir að komast í alvöru sveit með dýrum og heyskap. Þar sem ég var meira fyrir hesta en kýr hefði ég átt að reyna að komast á þannig býli, en það voru bara fá hrossabú á þessum árum, þar sem mjólkurbú þóttu betri tekjulind. Önundur, maðurinn hennar Helgu systur hennar mömmu, var reyndar með hrossabú og fór í það að flytja íslenska hestinn út og kynna hann fyrir erlendum ferðamönnum sem komu til Íslands. Ég fór oft til þeirra í heimsókn en það varð aldrei sveitardvöl að ráði, þar sem þau voru með vinnufólk frá Þýskalandi.

Þegar ég var 19 ára ákvað pabbi að bjóða mér til útlanda. Við höfðum öll fjölskyldan farið til Norðurlandanna þegar við krakkarnir vorum litlir og átti ég góðar minningar þaðan. Systkini mín höfðu svo öll farið í ferðalög á unglingsárunum, nema ég. Ég var svo sem ekkert að sækjast eftir því þar sem mér leið ekki vel að vera ein með pabba. Ég kunni ekki að umgangast hann og ég hræddist reiðiköstin hans. Ég sagði því við pabba að ég færi aðeins ef mamma mætti koma með, enda fannst mér tími til kominn að hún fengi að ferðast, þar sem hún hafði aðeins einu sinni farið til útlanda. Það varð úr að við fórum þrjú til Þýskalands, þaðan alla leið til Austurríkis og í gegnum Frakkland til baka.

Þessi ferð var undraverð og við byrjuðum í Luxembourg og keyrðum í gegnum Trier. Þar voru fjallshryggir út um allt og vínekrunar teygðu sig svo langt sem augað eygði. Ég keypti mér disk með Phil Collins og spilaði hann allan tímann á meðan við keyrðum um þessa draumaveröld.

Það voru kastalar úti um allt og ég tók sérstaklega eftir því hvað Þjóðverjar borðuðu veglegar máltíðir og ég gat aldrei klárað af disknum mínum. Ég ákvað því að panta mér bara skinkusamloku næst þegar við borðuðum. Ég fékk mér bjór í fyrsta skipti, en á þessum tíma var hann ekki til á Íslandi. Okkur fannst það öllum voðalega flott.

Mamma sá um að segja pabba hvaða leið við ættum að fara og var með kortið. Þegar leið á ferðalagið tók ég eftir því að pabbi var eitthvað farinn að byrsta sig við mömmu. Ég fylgdist vel með henni og tók eftir því að hún var eitthvað óróleg og sneri kortinu á alla kanta. Ég tók af mér heyrnatólin og heyrði þá pabba vera að skammast eitthvað í henni og hann spurði hvort hún væri ekki háskólagengin og ætti þá að kunna jafn ómerkilegan hlut og að lesa kort. Mamma varð alltaf órólegri því oftar sem pabbi lét skammirnar dynja á henni og ég sá að henni leið illa. Ég tók af mér beltið og hallaði mér nær og fór að rýna í kortið til að sjá að hverju þau voru að leita. Á meðan æstist pabbi meir og meir og kippti á endanum í stýrið þannig að bíllinn rásaði á hraðbrautinni, á meðan hann öskraði: Á ég ekki bara að keyra hérna út af!?“ Ég varð logandi hrædd, þar sem ég sveiflaðist í bílnum og öskraði á hann að stoppa bílinn úti í kanti. Þegar hann gerði það loksins, fór ég út úr bílnum og öskraði á hann að ef hann ætlaði að keyra svona, og jafnvel drepa okkur öll, ætlaði ég ekki að keyra meira með honum.

Við stóðum þarna dágóða stund. Ég var öskureið út í pabba að hann gæti stjórnast með líf okkar endalaust. Ég var líka pirruð út í mömmu að hún sagði honum ekki að fara til fjandans. Hann þurfti aldrei að taka afleiðingum gjörða sinna. Mig langaði að henda pabba út í skurð og við mamma myndum halda ferð okkar áfram. Við fórum svo að skoða kortið á ný.

Ég var reið, pirruð og ennþá með kvíðahnút í maganum þar til þau fundu loksins það sem þau voru að leita að. Þá settumst við öll inn í bílinn og keyrðum að tjaldsvæði sem var þar rétt hjá. Þegar þangað var komið, sáum við fullt af rútum og ákváðum að ganga aðeins um til að skoða hvað væri að gerast. Við áttuðum okkur fljótt á því að við vorum lent í miðri uppskeruhátíð vínekrubænda. Þarna gátum við gengið á milli húsa og fengið að smakka hverja tegundina af hvítvíni á fætur annarri, sem var alls ekki amaleg vinkilbeygja í daginn. Þegar við vorum búin að smakka nokkrar vel valdar tegundir, var farin að hífast upp í okkur gleðin, öll urðum við aftur vinir og kvöldið endaði í óvæntri hamingju.

Þegar við komum heim frá Þýskalandi hélt ég áfram með skólann og fór á djammið með Halldóru systur og vinkonum hennar, sem urðu svo vinkonur mínar líka.

Ég var þá að vinna í sjoppu með Sólveig vinkonu og vorum við að hugleiða hvað við ætluðum að gera í sambandi við það að ferðast. Okkur langaði að ferðast meira og Sólveig hafði aldrei farið til útlanda, þannig að ég sökkti mér í það að finna leið til þess. Ég sá þá auglýsingu í blaði þar sem var verið að óska eftir Íslendingum til að vinna á hóteli í Sognefjord í Noregi. Við skelltum okkur í það eftir að Sólveigu tókst loks að fá föður sinn til að samþykkja að hún mætti fara. Þetta ferðalag var ævintýralegt og við vorum í þrjá mánuði úti. Við ferðuðumst mikið um Noreg og kynntumst fullt af Íslendingum og Norðmönnum. Þar lærðum við norsku, þar sem við þurftum á því að halda til að fá að vinna í kaffiteríunni á hótelinu. Við Íslendingarnir vorum miklu duglegri að vinna en norsku stelpurnar sem unnu þarna. Við vorum endalaust að biðja um aukavinnu til að hífa tekjurnar upp. Við gátum þetta á meðan Íslendingarnir voru ekki allir komnir, en þegar þeir komu þurftum við að skera vinnutímann niður í sex klukkustundir á dag. Það voru bara reglur í Noregi.

Þessi ferð var æðisleg en þar sem ég hafði ferðast mikið og farið oft í sveit í æsku, var þetta ennþá meira ævintýri fyrir Sólveigu.

Eftir þetta ferðalag fann ég fyrir þungum þönkum á ný. Ég var eitthvað niðurdregin og við stelpurnar vorum farnar að djamma mikið.

Eitt kvöldið þegar ég var heima hjá Sólveigu vinkonu með Erla, Halldóra og Ingu ætlaði ég að fara að sofa. Mér datt þá í hug að taka inn asperínlyf sem ég fann inni í eldhússkáp. Ég innbyrti allt sem var í glasinu og lagðist svo til svefns í herberginu hennar Sollu. Ég vaknaði svo við það að Solla var að rífa mig á fætur til að reka mig úr rúminu. Þar sem ég átti heima mjög stutt frá, gekk ég heim og ætlaði að leggjast til svefns. Það var þá kominn dagur og mamma sá að það var eitthvað að mér. Hún hætti ekki fyrr en ég sagði henni hvað ég hefði verið að taka inn og þegar ég sagði henni það hringdu þau á sjúkrabíl. Þegar ég kom inn í hann datt ég út. Það var farið með mig niður á bráðavakt og dælt upp úr mér. Ég var látin drekka kol og það var ógeðsleg upplifun.

Eftir þetta var ég send til geðlæknis. Það gekk ekki betur en svo að ég vildi ekki fara aftur, þar sem hann sagði við mig að hann ætlaði ekki að láta mig fá nein lyf. Það var eins og hann héldi að ég væri dópisti. Ég fór bara til hans af því að ég var send þangað.

Ég náði mér svo upp úr þessu sjálf með því að ýta því bara frá mér, eins og ég var vön að gera í mótlæti. Ég komst aftur í gírinn og hélt áfram í skólanum og vann með þar sem ég þurfti að eiga fyrir sígarettum.

Þegar leið á sumarið 1986 langaði mig aftur að fara burt. Þessi stanslausi flótti frá heimilinu var leið fyrir mig til að hvíla mig á erfiðleikunum heima. Ég ákvað að fara til Bandaríkjana sem au-pair, að vinna við að passa fimm krakka og þrífa. Pabbi hafði miklar áhyggjur af því að ég færi svona langt, en ég gat sannfært hann að ég myndi búa inni á heimili hjá góðu fólki. Þessi tími var mjög skemmtilegur. Þetta var í eyðimörkinni í Arizona. Það að vera með gras í garðinum þýddi að fólk var vel efnað. Þetta fólk sem ég vann hjá var líka vel efnað og átti fyrirtæki sem leigði út íbúðir. Ég var oft send til að þrífa þessar íbúðir þegar var verið að skipta um leigjendur.

Ég vann rosalega mikið á þessum tíma og tók sjaldan frí. Þegar Lára, íslenska konan sem hafði haft milligöngu um að útvega mér starfið, sá álagið sem ég var undir, ákvað hún að fara með mig á pöbb til að leyfa mér að lyfta mér upp. Fram að því hafði ég bara unnið mikið og aðeins farið á hjóli í skemmtiferðir á sunnudögum. Ég hjólaði þá um um hverfið og fór í yfirbyggðar verslanir eins og Kringluna, sem voru að kölluð Mall. Þegar ég fór með Láru á pöbb, uppgvötvaði ég að ég gæti kynnst fleira fólki með því að sækja pöbbana. Ég var nefnilega ekki eins og fólkið sem ég vann fyrir, sem var að fara í kirkju og svoleiðis.

Fólkið var svolítið hrætt um mig að vera að fara svona ein á nóttunni, en ég var sjálfbjarga og ég áttaði mig á því að við Íslendingar erum sjálfstæðari en Ameríkanar. Meira að segja fannst mér frekar undarlegt að dóttir ömmunnar í fjölskyldunni byggi ennþá heima, þó að hún væri orðin 26 ára. Það var ekki hefðin á Íslandi og pabbi var meira að segja búinn að segja mér að ég þyrfti að fara að hugleiða það að flytja að heiman frá 18 ára aldri.

Þegar ég fór að stunda pöbbana kynntist ég strákum. Ég fór meira að segja með nokkrum strákum á sjóskíði á eitthvert vatn þarna í nágrenninu. Maður var náttúrulega að drekka og skemmta sér. Fólkið sem ég vann fyrir og þá sérstaklega ömmunni leist ekki á blikuna þegar ég var að koma heim undir morgunn á sunnudegi. Þetta var samt svo eðlilegt fyrir mér að ég lét það ekki á mig fá. Amman meira að segja sagði mér að passa mig að verða ekki ólétt. Ég var auðvitað búin að vera á pillunni frá því ég var 18 ára og byrjaði með kærastanum mínum á þeim tíma. Ég sagði henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, en fannst það svolítið fyndið að hún var að ráðleggja mér eitthvað svoleiðis. Þau voru bara ekki vön því að stúlka hegðaði sér svona. Þetta var ævintýri sem ég gleymi seint.

Það var gaman að vera í Bandaríkjunum og upplifa stemninguna sem er í kringum Bandaríkjamenn. Þetta ferðalag olli því að ég leit Bandaríkin öðrum augum. Ég hafði upplifað þau áður í gegnum amerískar bíómyndir, sem gefa manni rómantíska hugmynd um þau. Í staðinn sá ég að þetta var bara fólk eins og við nema barnalegra.

En ég sá náttúrulega aðeins smáhluta af því, þar sem ég var einangruð við Phoenix.

Þegar ég kom svo frá Bandaríkjunum, hélt ég áfram að reyna við skólann. Það gekk hægt eins og venjulega, þar sem ég gat ekki tekið mörg fög. Ég fór að vinna í Hampiðjunni. Þetta var ekki vinnustaður sem ég vildi ílengjast á. Það var þrúgandi loft í verksmiðjunni en ég gerði það til að eiga fyrir fötum og því sem ég þurfti í skólann.

Ég vann þarna í ár en þá fór ég í kvöldskóla þar sem ég var einhvers konar öldungur miðað við hina krakkana. Ég fór þá að vinna á Hótel Borg og vann við að strauja dúka. Mér gekk vel í skólanum þann veturinn, þar sem gömlu konurnar í þvottahúsinu höfðu róandi áhrif á mig og mér tókst að lesa á meðan ég var að vinna og svo þegar það kom matarhlé vann ég í reikningsverkefnum. Ég man einstaklega vel eftir því þegar ég var að lesa Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness og fékk 10 í einkunn í prófinu á þeirri bók. Ég var afskaplega upp með mér þar sem ég var ekki vön því að fá svo háa einkunn.

Eftir þetta fór ég að vinna í Hollywood sem barþjónn og skráði mig í skólann aftur og þá í dagskóla, þar sem ég gat þá tekið fleiri fög. Ég ætlaði að klára hann hvað sem tautaði og raulaði.


Sá Þakkláti

Sá þakkláti


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband