Kafli 19 sjálfsvígstilraun

19.kafli

 

 

Ég fór að taka eftir undarlegum hlutum hjá manninum mínum. Það var til dæmis í eitt skiptið þegar við vorum að sækja krakkana í leikskólann og við vorum að ganga heim. Asjad ætlaði þá að taka í hendina á Skorra, en þar sem hann var svo mikill mömmustrákur togaði hann hendina að sér. Við þetta varð Asjad svo sár. Þegar Sunna sagði við hann: „ Ég skal leiða þig“, togaði hann hendina að sér alveg eins og Skorri hafði gert og mér fannst að hann hegðaði sér alveg eins og fimm ára gamalt barn.

Hann var líka undarlegur á þann hátt að þegar ég var eitthvað pirruð út í hann, kraup hann við fætur mínar eins og hundur til að kyssa þær. Mér fannst þetta mjög óþægilegt og fannst að hann þyrfti að hætta þessu. Ég sagði honum að maður missti bara virðinguna með svona hegðun.

Einu sinni voru svo krakkarnir að rífast í bílnum þegar við vorum að fara út að borða. Asjad reyndi að róa þau en þau hlýddu honum ekki. Þegar ég stöðvaði svo bílinn á umferðarljósum, fór hann út úr bílnum eins og hann væri pirraður. Mér fannst þetta óþarfa viðkvæmni en áttaði mig svo á því að hann væri að reyna að fá krakkana til að hlýða. Hann reiknaði sjálfsagt með að ég myndi segja við krakkana: „Sjáið þið krakkar, hvað þið eruð búin að gera. Nú vill Asjad ekki keyra með okkur lengur að því að þið eruð svo óþekk.“

Mér fannst þetta vera andlegt ofbeldi og ég vildi ekki ala krakkana mína þannig upp. Ég keyrði því í ísbúð og sagði ekkert við þau. Þau áttuðu sig ekki fyrr en við vorum að borða ísinn. Guðrún spurði þá sakleysislega: „Hvar er Asjad?“ Ég sagði þá eins og ekkert hefði í skorist: „Hann fór í göngutúr.“

Asjad notaði oft svona aðferðir til að ná sínu fram. Ef ég var eitthvað að rífast við hann, tók hann kannski upp á því að brjóta geisladiskana sína. Þar sem ég vissi hvað ofbeldi var, ætlaði ég ekki að láta það viðgangast. En þar sem hann gerði mér og börnunum aldrei neitt, sá ég ekki ástæðu til að gera neitt í þessu. Ég hunsaði þessa hegðun bara og bjóst við því að hann myndi hætta þessu að lokum.

Asjad varð samt sár þegar hann sá að þetta hreyfði ekki við mér. Hann bankaði í brjóstið á mér einn daginn og spurði mig: „Hvar er hjartað í þér?“ Hann áttaði sig kannski ekki á því að hjarta mitt var kalt eftir allt ofbeldið með Davíð og ég var þreytt á svoleiðis hegðun. Einnig var ég á jafnvægislyfjum sem ollu því að ég var tilfinningardaufari en undir venjulegum kringumstæðum.

Asjad var samt yndislega góður við krakkana og mig. Ég elskaði hann á vissan hátt, þó að ég væri ekki með sömu tilfinningar til hans og ég hafði verið með til Davíðs. Ég var einnig ennþá með tilfinningar til Jeffs og gat ekki hætt að hugsa um hann, þó ég vissi að ég þyrfti að gleyma honum. Ég vissi að Asjad gæti orðið góður fjölskyldufaðir og ég vissi að það var óhætt að ala krakkana upp með honum. Hann vaknaði oft með þeim á morgnana til að gefa þeim morgunmat. Ég var stundum þung á fætur, þar sem geðlyfin gerðu mig þreytta. Ég efaðist ekki um ást hans til mín.

Ég komst í bréf sem systir hans hafði sent honum. Ég fann það í tölvupóstunum hans. Í því bréfi skrifaði hún á ensku. Þar var hún að spyrja hann um það hvort hann væri að gera rétt. Hún sagði í bréfinu að þegar þau hefðu verið yngri, hefði hann lýst því fyrir sér hvernig konu hann vildi giftast í framtíðinni. Hún sagði í bréfinu að henni fyndist þessi kona sem hann væri að fara að giftast, félli ekki undir þær væntingar sem hann hefði haft og nefndi það að ég væri miklu eldri og ætti börn úr fyrra hjónabandi.

Ég fór í svakalegt kvíðakast við að lesa þetta bréf og fór inn í stofu til að tala við hann. Þegar ég kom þar sem hann sat við tölvuna og vann að verkefnum, sagði ég allt í einu: „Ég veit að þau vilja okkur ekki.“ Hann varð undrandi og spurði hvað ég meinti með því. Ég sagði þá að ég hefði séð þetta bréf. Hann reyndi að sannfæra mig um að ég væri að misskilja þetta allt.

Ég hafði fundið að veikindi mín gátu bankað upp á í kvíðaköstum sem höfðu fylgt mér frá því að ég veiktist. Ég hafði getað haldið þeim niðri ef ég tók lyfin mín og hugsaði jákvætt. Þegar áreitnin varð mjög mikil eins og þarna dugðu lyfin ekki.

Í þetta skiptið fylltist ég ranghugmyndum og sagði að Asjad vildi mig ekki og þau vildu mig ekki. Ég sagði við hann að ég væri ekki heilbrigð og hann væri betur án mín kominn. Þegar hann heyrði þetta kom hann til mín þar sem ég var sest á gólfið í stofunni. Hann ætlaði að taka utan um mig til að sýna mér að ég hefði ekki rétt fyrir mér. Ég stóð þá upp í geðshræringu og hljóp inn í herbergi. Þegar ég leit við og sá að hann elti mig, fannst mér í augnablik að andlitið á honum breyttist. Mér fannst ég sjá Jeff í andlitinu á honum. Ég öskraði af hræðslu og kuðlaði mig saman inni í herbergi.

Ég settist á gólfið þar og hélt fyrir augun. Þegar Asjad ætlaði að taka utan um mig, vildi ég það ekki vegna þess að mér fannst þetta vera Jeff. Ég setti út hægri höndina og sagði honum að fara út úr herberginu og láta mig í friði. Hann varð skelkaður og þorði ekki öðru en að hlýða, þar sem hann vissi um sjúkdóm minn og vissi ekki hvernig hann ætti að takast á við það þegar ég fékk þessi kvíðaköst. Hann sagði að hann ætlaði að fara fram og leyfa mér að jafna mig.

Þegar ég fór að róast fór ég upp í rúm og lagðist þar. Ég ætlaði að hvíla mig. Ég fann fyrir sorg og ég var að reyna að átta mig á því hvaðan þessi sorg kæmi. Þá sá ég allt í einu í huga mér flugvél vera að hrapa. Þetta var bara hugarburður og ég var orðin vön því að hugur minn plataði mig svona annað slagið. Ég horfði samt á þetta og allt í einu fannst mér stór steinn á við bjarg detta í rúmið við hliðina á mér. Mér brá og ég stökk upp úr rúminu og hljóp fram.

Asjad kom þá hlaupandi til mín og spurði mig hvað væri að. Ég sagði honum hvað ég hefði upplifað. Ég sagði honum líka að ég áttaði mig á því að þetta væri ekki raunverulegt. Hann hafði miklar áhyggjur af mér þegar hann sá mig svona. Ég sagði við hann að hann gæti ekki lagað þetta. Ég væri bara svona. Þar sem börnin voru hjá föður sínum þessa helgi gátum við fengist við þetta í friði.

Ég sagði Asjad að ég vildi fara út í bíltúr en hann vildi ekki leyfa mér það, þar sem hann hélt að ég ætlaði að skaða mig eða væri alla vega ekki fær um að keyra í þessu ástandi. Ég varð þá pirruð þar sem ég taldi að í þessu ástandi þyrfti ég að komast eitthvert ein til að hugleiða. Mig langaði bara að keyra um Reykjavík og jafnvel aðeins út fyrir.

Asjad stóð í dyrunum og sagði: „Andrea, ekki fara, reyndu bara að róa þig hérna heima.“ Þessi hindrun og þessir fjötrar fengu mig til að reiðast og finna fyrir innilokunarkennd. Ég hugsaði þá: Ef þú hleypir mér ekki út, get ég farið annars staðar út. Ég fór inn í herbergið en þegar ég vissi að hann væri sestur fyrir framan tölvuna, fór ég inn í eldhús og náði í lyfin mín.

Ég ætlaði að fara út bakdyramegin. Ég ætlaði að losa alla við þess geðveiku konu. Börnin mín gætu búið hjá pabba sínum. Foreldrar mínir gætu þá hætt að hafa áhyggjur, fjölskyldan hans gæti þá fengið hann til baka, eins og þau höfðu svo mörgum sinnum beðið um á meðan þau höfðu grátið á línunni. Ég var vandamálið, ég var sú sem eyðilagði allt, ég var fyrir. Ég réttlætti það sem svo að það væri börnunum mínum fyrir bestu að losna við svona bilaða mömmu. Ég tók inn meirihlutann af lyfjunum eða eins mikið og ég taldi nóg til að láta mig deyja. Ég áttaði mig ekki á því að faðir minn ætti afmæli daginn eftir. Ég fann bara til syfju og ég fann að ég var að lognast út af. Ég sagði í huganum: Guð, ég er að koma, þau þurfa ekki á mér að halda.

Ég vaknaði eftir einhverja klukkutíma og varð mjög vonsvikin að þetta hefði ekki tekist. Ég fann fyrir máttleysi í fótum og höfuðið hringsnerist. Svo þurfti ég að fara á klósettið til að æla. Þegar ég ætlaði að standa upp, hélt ég engu jafnvægi og það var engin leið fyrir mig að komast fram. Þessi lyf sem ég hafði tekið voru flogaveikilyf.

Ég hugsaði með mér: Nú er ég í því ástandi að ég er vöknuð en get ekki gengið og nú þarf ég kannski að fara að láta dæla upp úr mér. Ég datt á gólfið þegar ég ætlaði fram úr. Maðurinn minn kom hlaupandi og horfði á mig. Hann sá að það var ekki allt með felldu. Hann varð skelfingu lostinn þegar hann sá mig í þessu ástandi. Hann hrópaði: „Andrea, hvað er að, hvað gerðist?“

Ég sagði honum það ekki strax, ég skammaðist mín svo mikið. Hann varð svo hræddur, þar sem ég hafði sagt honum frá því hvað hefði gerst síðast þegar ég fór á spítalann. Hann hringdi í mömmu og pabba og þau sögðu honum að hringja á sjúkrabíl. Ég sagði honum að ég vildi ekki fá sjúkrabíl að heimilinu. Ég vildi ekki að nágrannar myndu komast að því að ég væri svona biluð.

Þau ákváðu þá að foreldrar mínir myndu sækja mig heim til okkar og fara með mig heim til sín og fá sjúkrabílinn þangað. Þegar sjúkrabíllinn var kominn og pabbi stóð fyrir framan mig til að kveðja mig, sagði ég: „Fyrirgefðu pabbi, ég var ekki að reyna að særa þig á afmælisdaginn, ekki hætta við að halda upp á afmælið, ég þarf bara að fara að ná mér.“ Hann brosti til mín með sorg í augunum og sagði: „Það er allt í lagi Andrea mín, láttu þá bara hjálpa þér.“

Það tók tvo daga að afeitra líkamann og ég var á hjartadeild þann tíma. Hjartað hafði víst farið á fullt og sjáöldrin verið þanin til hins ítrasta. Ég átti mest í erfiðleikum með að ná að halda jafnvægi. Flogaveikilyfin setja höfuðið á hvolf. Mér leið eins og höfuðið væri lóð sem vildi snúa mér við þannig að fæturnir stæðu upp í loft. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir að vera að leggja þennan sársauka á fjölskyldu mína. Mér fannst ég vera föst í þessum líkama og geta ekki tekið á lífinu með styrk og geta ekki losað þau við þann dóm sem fylgir því að vera geðsjúkur.

Hvernig á ég að lifa án þess að særa fólk ef sjúkdómurinn dregur mig inn í ferli ranghugmynda, sársauka og sorgar sem ég get ekki höndlað eða stjórnað? Þegar ég get ekki sannfært sjálfa mig um að þetta sé allt hugarburður, en tilfinningarnar segja að að mér líði svona. Fyrir hvað get ég þá lifað? Það er skyldan, sem fellst í því að leggja frá sér tilfinningarnar til að geta séð um þá sem eru undir ábyrgð manns. Börnin eru það eina sem maður verður að hugsa um. Börnin þurfa á manni að halda. Ástvinir eru þeir sem ég verð að lifa fyrir. Ég verð að vera sterk fyrir þá. Ég verð að takast á við þessi veikindi fyrir þá.

Þegar ég kom heim sagði Asjad við mig: „Andrea, það er eins og okkur hafi verið gefið annað tækifæri.“ Ég samþykkti það og ég sagði að ég ætlaði að gera allt sem ég gæti til að stjórna ástandinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband