Kafli 18. Tölvuást
1.12.2019 | 22:24
18. kafli
Ég var komin með íbúð í Fellunum um þetta leyti. Ég fékk íbúð hjá Félagbústöðum. Það var mikill léttir að vera komin þangað. Þarna var bæði lægri leiga og fastari búseta. Nú gat ég skipulagt lengra fram í tímann, sem var auðvitað nauðsynlegt til að ná bata. Ég fór og keypti mér notaða tölvu, þar sem ég var búin að frétta að Internetið væri nokkuð skemmtileg afþreying. Ég ætlaði að kynnast netheimum og ferðast um heiminn í gegnum tölvuna. Ég var með börn á leikskólaaldri og mér datt í hug að nota tímann og mennta mig í tölvum, þegar þau voru í leiksskólanum. Vinkona mín Mæja átti heima þarna nálægt og við gátum farið að hittast meira. Ég hafði ekki hitt hana síðan ég henti henni út, daginn sem hún hafði komið til mín til að fá tarotspá. Ég útskýrði þetta loksins fyrir henni og við hlógum að þessu þarna.
Það var orðin léttari á mér brúnin og ég var nokkuð bjartsýn á framhaldið. Ég sagði í gríni að ég ætlaði að gerast nunna, þar sem ég vildi ekki lenda í neinni flækju með krakkana. Ég var ekki meira en fjóra mánuði að læra á allt sem snerist um þessa tölvu. Ég fór ekki í neinn skóla heldur prufaði mig áfram og tölvan hrundi fjórum sinnum, áður en ég áttaði mig á því hvað ég átti að láta í friði og hverju ég mætti eyða. Þetta var nokkuð skemmtilegt fyrirbæri.
Ég uppgötvaði spjallrás sem hét Virtual places og fór að fara inn á hana. Þar hitti ég mann sem var með notendanafnið Tarzanboy og fór að tala við í hann í tíma og ótíma. Hann sagði mér að hann héti Asjad. Þetta var spennandi og virkaði helst eins og blekking geðrofsins. Það var þannig sem ég leit á það og átti ekki von á neinni útkomu úr þessu frekar en annarri blekkingu.
Asjad lagði hart að mér að tala við sig og elti mig uppi um alla netheima. Ég þurfti að breyta notendanafninu sem var fyrst silent-beauty í nafnið Mauney sem ég fann upp með því að breyta nafni dóttur vinkonu minnar Höllu sem var Máney þar sem spjallrásin kannaðist ekki við fyrra nafnið.
Ég vildi halda áfram í þessu spjallforriti en við Asjad týndum hvort öðru. Ég fór að tala við annað fólk, þar sem ég hélt að ég ekki finna hann aftur. Einn daginn sendi hann mér tölvupóst á netfang sem ég hafði víst látið hann fá. Þegar ég las póstinn áttaði ég mig á því að honum var alvara. Ég sagði honum frá nýja notendanafninu mínu og á endanum fundum við hvort annað.
Þegar ég hitti Asjad svo næst í einu spjallherberginu í prógramminu, spurði hann mig strax, hvort ég vildi giftast honum. Það kom flatt upp á mig og ég ætlaði að fara að hlæja. Þegar ég áttaði mig á því að honum var alvara þorði ég ekki að gera það til að móðga hann ekki. Ég sagði honum allt um mín veikindi og hann sagðist vilja hjálpa mér í því. Hann var með það stórt en saklaust hjarta og hann vissi kannski ekki hvað hann var að fara út í. Hann sagði að hann ætlaði að standa í þessu með mér.
Þegar ég sagði við Asjad að ég væri að hugsa um að gerast nunna vegna þess að ég væri hætt að trúa á það að ég gæti verið í sambúð svona tætt, þá spurði hann mig: Hver á að hugsa um þig þegar börnin eru orðin fullorðin? Ég fór að leggja fyrir hann spurningar um hluti sem mig langaði að vita hvernig hann svaraði, til að fá tilfinningu fyrir því hvernig hann hugsaði.
Ég spurði hann um uppeldi á börnum og viðhorf hans til föðurhlutverksins. Hann svaraði mér á skynsamlegan hátt og nefndi það að hann myndi vinna til síðasta blóðdropa til að halda fjölskyldunni uppi. Þegar ég var búin að átta mig á því að þrátt fyrir að hann væri frá Pakistan og múslimi, hefði hann ekki ósvipaðar væntingar til lífsins og ég. Hann var með svipaða hugmynd um skyldur foreldra gagnvart börnunum sínum.
Asjad sagði samt að við yrðum að gifta okkur ef við ætluðu að vera saman og ég yrði að gefa honum loforð. Ég sagði í fyrstu að ég gæti ekki lofað honum þessu. Hann tók það ekki í mál að við myndum hittast nema með það að leiðarljósi, þar sem hann væri hreinn sveinn og hann gæti ekki sofið hjá konu nema hún væri eiginkona hans. Ég var farin að treysta þessum manni og þykja vænt um hann og á endanum gaf ég honum loforð um að giftast honum.
Ég gat ekki hugsað mér að missa af honum, þar sem mér leið vel þegar ég talaði við hann. Hann var af allt öðrum uppruna en ég og við þurftum að læra heilmargt af hvort öðru. Hann virkaði samt á mig sem mjög venjulegur maður og öfgalaus gagnvart trúnni. Ég heyrði á honum að hann var ekki mikið inn í trúmálum og hann sagði mér að þegar móðir hans hefði sent hann í moskuna, hefði hann stungið af til að leika sér í staðinn.
Þetta sannfærði mig um að trúin væri Asjad ekki efst í huga og var það léttir, þar sem ég vildi ekki lenda í neinum öfgum. Hann virtist líka þurfa að fletta öllu upp ef ég spurði hann um trúmál. Ég taldi að hann væri því ósköp svipaður mér gagnvart alvarleika í þessum efnum.
Það leið ekki á löngu, eftir mikið basl varðandi bilun í tölvunni hjá mér í kringum jólin 1997, að Asjad náði tali af mér aftur. Hann var orðinn óþolinmóður gagnvart því að hittast og einn daginn var hann búinn að kaupa miða til Íslands. Ég fékk svolítið sjokk við að heyra það og var ekki alveg tilbúin að fara svona geyst.
Við vorum búin að vera að tala saman upp á dag í fjóra mánuði, en samt var ég ekki viss um hvort ég væri tilbúin að hitta hann. Það var líka vegna þess að ég vissi ekki hvernig faðir barnanna tæki því að ég kæmi með mann inn á heimilið, hvað þá múslima.
Það var allt annað að tala við mann í gegnum tölvuskjá en að hitta hann í persónu. Þegar ég sótti hann upp á völl brá mér svolítið, þar sem mér fannst hann minni en ég bjóst við. Hann aftur á móti var afar sáttur sýndist mér og tók vel á móti krökkunum. Skorri hélt fast í mig en hann var samt til í að tala við hann.
Við keyrðum svo heim til að sýna Asjad hvernig við bjuggum. Þar kyssti hann mig í fyrsta skipti og ég fann að hann var mjög tilfinninganæmur. Við byrjuðum svo hægt og sígandi að kynnast. Þegar fjórir mánuðir voru að verða liðnir, fór lögreglan að hringja í mig og segja mér að hann yrði að fara að yfirgefa landið. Við ákváðum þá að flýta giftingunni til að hann yrði ekki sendur í burt. Mér fannst ég þurfa lengri tíma til að kynnast honum og hann hafði tekið lán úti til að komast til Íslands. Á þeirra mælikvarða var þetta lán eins og 20 mánaða vinna, svo mér þótti það ógerlegt að senda hann til baka og koma kannski aftur. Það væri betra fyrir hann að vinna hér á Íslandi og borga lánið.
Asjad var hreinn sveinn og mátti ekki sofa hjá konu nema ef hann væri giftur, þannig að fjölskylda hans mátti ekki vita að við værum að sofa saman fyrir giftingu. Þau voru alltaf að hringja eða biðja hann um að hringja og spyrja hvenær við myndum gifta okkur. Mér fannst þetta óþarflega mikil ýtni en mér líkaði vel við systur hans og þær reyndu að útskýra fyrir mér siði þeirra og trúarbrögð. Ég sá hann aldrei biðjast fyrir eins og múslimar gera.
Foreldrum mínum stóð ekki á sama um að ég færi að giftast múslima. Þau höfðu áhyggjur af því að ég endaði eins og Soffía Hansen. Ég var dregin til kirkjunnar til að hafa vit fyrir mér. Það voru konur sem sátu og lásu pistil yfir mér að 40% hjónabanda enduðu með skilnaði. Ég spurði þær að því hvort þær ættu ekki að athuga þá hvað kirkjan væri að gera vitlaust. Kannski ætti kirkjan ekkert að vera að gifta fólk sem væri útséð með að ætti sér ekki framtíð. Þau voru kannski að reyna að gera það í þessu tilfelli en við létum ekki segjast.
Ég sagði að þó svo að við værum með ólíka menningarheima, ætti það ekki að þurfa að vera ástæða fyrir því að við gætum ekki verið saman. Faðir minn hafði litla trú á hæfni minni og þá sérstaklega eftir að ég veiktist. Ég vissi að þau héldu að ég væri alltaf veik. Ég var kannski alltaf með undirliggjandi sjúkdóm, en átti ég að hætta að lifa? Ég sagði þeim að mér væri ekki haggað og ég ætlaði að láta þetta ganga í gegn. Ég varð að fylgja tilfinningum mínum. Faðir minn tilkynnti það að hann ætlaði ekki að mæta í giftinguna. Hann hafði ekki einu sinni kynnst þessum manni og hafði engan áhuga á því. Það var sennilega nóg staðfesting fyrir hann að minni dómgreind væri ekki treystandi síðan ég lenti inni á spítala.
Davíð hringdi í mig á svipuðum tíma og hótaði að lemja Asjad. Hann vildi ekki að hann myndi ala upp börnin sín. Hann hringdi oft á þessum tíma og sagði mér að vera viðbúin því að einhvern daginn yrði maðurinn minn skotinn þegar hann væri á gangi í húsasundi. Það myndi engin finna út úr því hver hefði framið verknaðinn. Ég tilkynnti þetta til lögreglu til að þeir myndu hafa skýrslu um þetta samtal. Ég vildi koma í veg fyrir að svona yrði þaggað niður.
Davíð fór þá að hóta því að taka börnin af mér. Ég spurði hvernig hann ætlaði að gera það. Var það bara af því að hann væri með skoðun á þessu eða af því að hann vantreysti þessum manni? Hvað ætlaði hann að vera með í höndunum um það að þessi maður væri hættulegur börnunum hans? Hann hafði sjálfur farið með Sunnu til Bandaríkjana þegar ég var nýkomin af spítala.
Við reyndum allt sem við gátum til að trúa á sjálf okkur og hlusta ekki á fordóma sem beindust að menningu hans og heilsu minni. Það var þó ekki hægt að segja neitt við fólk. Fólkið var með vissar hugmyndir vegna reynslu annarra í þessum málum. Geðsjúkdómur, múslimi, Pakistani (terroristi) og Soffía Hansen. Ekki ég og ekki hann. Það vildu allir vera að stjórnast í okkar málum en tóku það svo ekki í mál að koma í heimsókn og hitta manninn.
Við vorum í sambandi við fjölskyldu hans í gegnum Internetið. Í þessum samtölum töluðu þau annaðhvort ensku eða úrdu sem er tungumál þeirra. Ég skildi að sjálfsögðu ekkert þegar þau töluðu úrdu. Ég vissi ekki hvað fór á milli þeirra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.