Kafli 20 fósturmissir

20. kafli

Sorgin

 

Stuttu eftir þetta varð ég ófrísk og fór að hafa áhyggjur af því að barnið yrði fatlað vegna þess að ég var að taka lyf sem gætu skaðað fóstrið á byrjunarstigi þroska þess. Ég fór því til læknisins míns til að spyrja hann um skaðsemi þessara lyfja og hann sagði mér að eitt af þessum lyfjum gæti skaðað en það væri ekki sannað.

Ég fór þá heim og sagði Asjad það og sagði honum að við yrðum að eyða því, þar sem ég vildi ekki leggja það á barn að vera kannski verulega fatlað. Hann var ekki sammála um að eyða því og sagði að hann væri tilbúinn að eignast það barn sem okkur yrði gefið. Ég gat þó ekki losað mig við þennan ótta og sagði að ég ætlaði að fara í fóstureyðingu án hans samþykkis. Ég taldi mig ábyrga að koma í veg fyrir að skaða barnið ef ég gæti.

Ég pantaði mér tíma hjá félagsráðgjafa á kvennadeild Landspítalans. Ég sagði henni sögu mína og að faðirinn vildi ekki að ég færi í fóstureyðingu. Hún sagði við mig að öll vildum við geta stjórnað lífi okkar. Ef við teldum að því væri ógnað, reyndum við að koma í veg fyrir það. Hún náði að sannfæra mig um að fóstureyðing væri það eina rétta í stöðunni á meðan ég væri að taka þessi lyf. Hún sagði að ég gæti alltaf orðið ófrísk aftur eftir að ég væri hætt á lyfjunum.

Það varð úr að ég fékk tíma í fóstureyðingu. Það var ekki auðvelt í þessari stöðu en þegar ég var að sofna út frá svæfingarlyfinu, sagði ég við Guð: Fyrirgefðu mér, ég er að reyna að gera það rétta. Ég vil bara það sem er barninu fyrir bestu. Ég vissi ekki hvort barnið væri heilbrigt eða skaddað en tók þessa ákvörðun þar sem ég treysti á að hún væri rétt. Þegar ég kom heim þennan dag, var sorg í andliti mannsins míns. Hann var með áhyggjur af því að við værum að brjóta af okkur og Guð myndi refsa okkur. Ég sannfærði hann um að við værum að reyna að vera raunsæ.

Við ákváðum að tala aldrei um þetta aftur en mér finnst þetta skipta máli, þar sem þetta sýnir hvað við mennirnir eigum það til að reyna að stjórna örlögum okkar.

Þegar nokkrir mánuðir voru liðnir og ég var hætt á lyfjunum, ákváðum við að prófa aftur. Það gekk eins og í sögu og allt virtist vera á réttri leið. Ég var kvíðin en samt hlakkaði mig til.

Þegar ég var gengin átta vikur með vott af blettablæðingum fórum við í sund. Ég var ekki vön að fara í sund, en þennan dag fannst mér það vera ágætis hugmynd. Við fórum í Sundhöll Reykjavíkur. Þar er innilaug og það var kalt þennan aprílmorgun. Þegar við vorum komin í laugina, spurði ég Asjad hvort hann vildi fara á stökkbrettið. Hann hristi hausinn glottandi og sagðist ekki þora því. Ég manaði hann að prófa, þar sem ég vissi að það var einstök upplifun.

Ég vissi að 10 metra brettið var svolítið hátt og það þurfti kjark til að stökkva af því ef maður hafði aldrei gert það áður. Asjad sagðist ekki treysta sér til þess og það endaði með því að ég fór sjálf. Ég hélt að hann myndi kannski treysta sér ef ég gerði það. Þegar ég var komin upp og leit niður, sá ég að þetta var svolítið hærra en ég mundi. Ég hugsaði út í það í skamma stund hvort það væri ráðlegt að ég gerði það af því að ég var ófrísk. Ég ýtti þeirri hugsun þó frá mér þar sem ég vildi ekki fara niður án þess að stökkva.

Ég horfði á vatnið fyrir neðan mig og reyndi að sjá fyrir mér hvernig ég ætlaði að lenda. Ég vildi stökkva beint með fæturna á undan. Ég lokaði augunum og dró djúpt andann, þar sem ég hafði gert þetta áður og vissi að maður sekkur nokkra metra við svona hæð og þarf að kafa örlítið. Þegar ég lenti í vatninu fannst mér að eitthvað hefði gerst. Það var eins og eitthvað hefði farið af stað. Ég fann að maginn á mér varð fyrir þrýsting.

Ég horfði flóttalega á manninn minn og hann sá það í andlitinu á mér. Hann spurði mig hvað væri að. Ég sagði við hann: „Það gerðist eitthvað, ég þarf að fara upp úr.“ Þegar ég kom upp úr sá ég að mér blæddi. Ég hljóp niður í kvennaklefann og ætlaði að flýta mér í sturtu og föt. Það voru litlar stelpur sem horfðu á mig óttaslegnar. Þetta minnti mig á upplifun sem ég hafði orðið fyrir sem barn. Ég hafði einmitt verið í þessari sundlaug og séð konu koma hlaupandi þarna niður tröppurnar með blóðið rennandi niður lærin, alveg eins og ég var að lenda í.

Við fórum uppúr lauginni og ég beið nokkra stund úti í bíl eftir þeim þar sem ég hafði skilið Asjad eftir með börnin. Ég sat þögul og sorgmædd. Ég var að hugsa um það, hvort þetta væri refsing vegna þess að ég hefði eytt fóstrinu. Maðurinn minn reyndi að hugga mig með því að kaupa ís fyrir okkur. Hann taldi að ís gæti læknað flest andleg sár.

Þegar við komum heim, fór ég í rúmið og vonaði að ég myndi geta stöðvað blæðinguna með því að taka því rólega. Ég hafði misst fóstur þrisvar sinnum áður og vissi að það var hægt að hægja á blæðingunni með því að slaka á.

Þegar nokkrir dagar voru liðnir og ég var farin að sætta mig við að fóstrið hefði dáið, fann ég að einkennin sem fylgja því að vera ófrísk hurfu ekki. Blæðingin hafði breyst og var að mestu hætt. Ég sagði við manninn minn frá þessari tilfinningu. Hann hélt að ég væri ekki búin að sætta mig við að það hefði farið þennan dag. Ég pantaði tíma á kvennadeild Landspítalans til að láta skoða mig. Á leiðinni niður á spítala bað ég til Guðs um að gefa mér annað tækifæri og lofaði í leiðinni að ég myndi alls ekki eyða því ef það væri einhver möguleiki á að það myndi lifa.

Þegar hjúkrunarkonan var búin að sóna mig sagði hún mér að hún sæi tóman belg. Ég varð sorgmædd og vissi að þá væri þetta búið. Ég sætti mig við það og hugsaði með mér að við gætum alltaf reynt aftur. Þegar ég var í þessum hugsunum, sagði hún við mig að hún sæi annan belg. Hún skoðaði hann og sagði loksins með bros á vör: „Það er hjartsláttur í honum.“ Ég vissi ekki hvort ég væri að heyra rétt og spurði hana: „Var ég þá með tvíbura?“ Hún kinkaði kolli til mín og sagði að ég skyldi fara heim og hvíla mig til að láta blæðinguna stöðvast alveg, svo hún myndi ekki ýta þessu fóstri út.

Ég var í skýjunum þegar ég kom heim. Maðurinn minn tók á móti mér og ætlaði að hugga mig, því hann taldi að ég hefði fengið staðfestingu frá lækninum um að fóstrið væri farið. Ég sagði honum þá fréttirnar og hann varð mjög undrandi en kátur í leiðinni. Hann tók utan um mig og sagði við mig: „Andrea, við eigum að fá annað tækifæri.“ Lífið er ótrúlega hverfult frá einni mínútu til annarrar. Við fórum að undirbúa okkur fyrir þetta nýja líf og ég kom því algjörlega út úr huganum að ég væri að gera vitleysu. Guð hafði svarað því fyrir mig, með þessari leikfléttu.

Um haustið fór ég í tölvu- og skrifstofunám í (NTV). Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum Ég ætlaði að vinna við bókhald eftir fæðingarorlofið. Það var allt að smella saman.

Asjad fór út í byrjun vetrar til að vera hjá systur sinni, þar sem hún var að fara að gifta sig. Hann hafði farið að gráta þegar hann vissi að þau ætluðu að gifta sig, hvort sem hann yrði þar eða ekki. Ég gat ekki horft upp á hann svona brotinn og sagði honum bara að fara.

Ég bjóst við því að þar sem móðir hans var heilsulítil gæti verið gott fyrir hann að vera þar lengur en í mánuð. Ég jafnvel hvatti hann til þess að vera eins lengi og þörf væri á. Ég talaði meira að segja um það að hann gæti fundið sér vinnu í Pakistan, þar sem hann hafði átt erfitt með að finna hana á Íslandi.

Ég var líka farin að gera mér grein fyrir því að skyldur hans gagnvart móður sinni voru meiri en hann hafði gefið í skyn í byrjun. Þegar við vorum að kynnast, spurði ég hann meira að segja hvort hann þyrfti ekki að sinna fjölskyldu sinni. Ég hafði fengið að vita það frá foreldrum mínum að múslimar þyrftu að sjá fyrir fjölskyldunni.

Þar sem Asjad var elstur hefði það átt að vera í hans verkahring að sjá fyrir þeim. Hann hafði sagt mér að bræður sínir tækju það að sér. Það breyttist heldur betur þegar við vorum búin að gifta okkur. Þá fóru þau að biðja um peninga. Ég vissi að hann skuldaði lánið, en þegar við sendum peninga var eins og það færi ekki allur peningurinn í lánið. Mig var mig farið að gruna að þau væru að nota hluta af því til að sjá fyrir fjölskyldunni.

Þar sem ég var öryrki og hann á bótum frá félagsþjónustunni, fannst mér ekki sanngjarnt að við þyrftum að sjá fyrir þeim. Ég tók þá ákvörðun að skilja við hann, þar sem ég vissi ekki hvað hann yrði lengi. Þegar ég sagði honum þetta varð hann sár og reiður. Ég sagði honum að það væri allt í lagi að hann færi, en ég þyrfti að geta hugsað um börnin á meðan og ekki gæti ég verið tekjulaus. Ef við myndum skilja gæti ég fengið barnabætur á meðan. Ég fór svo í bankann til að taka barnabæturnar út svo hann gæti borgað farið. Hann þurfti líka að hafa með sér pening um ófyrirsjáanlegan tíma til að hjálpa mömmu sinni. Hann fór því með þau laun sem hann fékk í svartri vinnu og sagði ég honum að taka það með sér til að lifa á því. Ég vissi að þeir peningar væru meira en það sem þau hefðu í Pakistan.

Ég var því alein með börnin tvö og komin langt á leið. Ég hafði áhyggjur af því að hann skyldi þurfa að fara en ég gat ekki horft upp á það þegar hann grét. Hann hlakkaði mikið til að koma aftur heim og takast á við föðurhlutverkið.Við vorum svo í sambandi á Internetinu á meðan hann var úti.

Ég hafði nóg að gera í skólanum og hafði einnig nóg að gera við að sinna krökkunum. Þegar ég var búin með síðasta prófið fór ég að hafa áhyggjur af því að barnið myndi fæðast aðeins fyrir tímann. Ég sagði Asjad þetta, en hann taldi í mig kjark og taldi líklegt að það myndi fæðast á tilsettum tíma sem var 2. janúar og þá væri hann kominn til baka.


Kafli 19 sjálfsvígstilraun

19.kafli

 

 

Ég fór að taka eftir undarlegum hlutum hjá manninum mínum. Það var til dæmis í eitt skiptið þegar við vorum að sækja krakkana í leikskólann og við vorum að ganga heim. Asjad ætlaði þá að taka í hendina á Skorra, en þar sem hann var svo mikill mömmustrákur togaði hann hendina að sér. Við þetta varð Asjad svo sár. Þegar Sunna sagði við hann: „ Ég skal leiða þig“, togaði hann hendina að sér alveg eins og Skorri hafði gert og mér fannst að hann hegðaði sér alveg eins og fimm ára gamalt barn.

Hann var líka undarlegur á þann hátt að þegar ég var eitthvað pirruð út í hann, kraup hann við fætur mínar eins og hundur til að kyssa þær. Mér fannst þetta mjög óþægilegt og fannst að hann þyrfti að hætta þessu. Ég sagði honum að maður missti bara virðinguna með svona hegðun.

Einu sinni voru svo krakkarnir að rífast í bílnum þegar við vorum að fara út að borða. Asjad reyndi að róa þau en þau hlýddu honum ekki. Þegar ég stöðvaði svo bílinn á umferðarljósum, fór hann út úr bílnum eins og hann væri pirraður. Mér fannst þetta óþarfa viðkvæmni en áttaði mig svo á því að hann væri að reyna að fá krakkana til að hlýða. Hann reiknaði sjálfsagt með að ég myndi segja við krakkana: „Sjáið þið krakkar, hvað þið eruð búin að gera. Nú vill Asjad ekki keyra með okkur lengur að því að þið eruð svo óþekk.“

Mér fannst þetta vera andlegt ofbeldi og ég vildi ekki ala krakkana mína þannig upp. Ég keyrði því í ísbúð og sagði ekkert við þau. Þau áttuðu sig ekki fyrr en við vorum að borða ísinn. Guðrún spurði þá sakleysislega: „Hvar er Asjad?“ Ég sagði þá eins og ekkert hefði í skorist: „Hann fór í göngutúr.“

Asjad notaði oft svona aðferðir til að ná sínu fram. Ef ég var eitthvað að rífast við hann, tók hann kannski upp á því að brjóta geisladiskana sína. Þar sem ég vissi hvað ofbeldi var, ætlaði ég ekki að láta það viðgangast. En þar sem hann gerði mér og börnunum aldrei neitt, sá ég ekki ástæðu til að gera neitt í þessu. Ég hunsaði þessa hegðun bara og bjóst við því að hann myndi hætta þessu að lokum.

Asjad varð samt sár þegar hann sá að þetta hreyfði ekki við mér. Hann bankaði í brjóstið á mér einn daginn og spurði mig: „Hvar er hjartað í þér?“ Hann áttaði sig kannski ekki á því að hjarta mitt var kalt eftir allt ofbeldið með Davíð og ég var þreytt á svoleiðis hegðun. Einnig var ég á jafnvægislyfjum sem ollu því að ég var tilfinningardaufari en undir venjulegum kringumstæðum.

Asjad var samt yndislega góður við krakkana og mig. Ég elskaði hann á vissan hátt, þó að ég væri ekki með sömu tilfinningar til hans og ég hafði verið með til Davíðs. Ég var einnig ennþá með tilfinningar til Jeffs og gat ekki hætt að hugsa um hann, þó ég vissi að ég þyrfti að gleyma honum. Ég vissi að Asjad gæti orðið góður fjölskyldufaðir og ég vissi að það var óhætt að ala krakkana upp með honum. Hann vaknaði oft með þeim á morgnana til að gefa þeim morgunmat. Ég var stundum þung á fætur, þar sem geðlyfin gerðu mig þreytta. Ég efaðist ekki um ást hans til mín.

Ég komst í bréf sem systir hans hafði sent honum. Ég fann það í tölvupóstunum hans. Í því bréfi skrifaði hún á ensku. Þar var hún að spyrja hann um það hvort hann væri að gera rétt. Hún sagði í bréfinu að þegar þau hefðu verið yngri, hefði hann lýst því fyrir sér hvernig konu hann vildi giftast í framtíðinni. Hún sagði í bréfinu að henni fyndist þessi kona sem hann væri að fara að giftast, félli ekki undir þær væntingar sem hann hefði haft og nefndi það að ég væri miklu eldri og ætti börn úr fyrra hjónabandi.

Ég fór í svakalegt kvíðakast við að lesa þetta bréf og fór inn í stofu til að tala við hann. Þegar ég kom þar sem hann sat við tölvuna og vann að verkefnum, sagði ég allt í einu: „Ég veit að þau vilja okkur ekki.“ Hann varð undrandi og spurði hvað ég meinti með því. Ég sagði þá að ég hefði séð þetta bréf. Hann reyndi að sannfæra mig um að ég væri að misskilja þetta allt.

Ég hafði fundið að veikindi mín gátu bankað upp á í kvíðaköstum sem höfðu fylgt mér frá því að ég veiktist. Ég hafði getað haldið þeim niðri ef ég tók lyfin mín og hugsaði jákvætt. Þegar áreitnin varð mjög mikil eins og þarna dugðu lyfin ekki.

Í þetta skiptið fylltist ég ranghugmyndum og sagði að Asjad vildi mig ekki og þau vildu mig ekki. Ég sagði við hann að ég væri ekki heilbrigð og hann væri betur án mín kominn. Þegar hann heyrði þetta kom hann til mín þar sem ég var sest á gólfið í stofunni. Hann ætlaði að taka utan um mig til að sýna mér að ég hefði ekki rétt fyrir mér. Ég stóð þá upp í geðshræringu og hljóp inn í herbergi. Þegar ég leit við og sá að hann elti mig, fannst mér í augnablik að andlitið á honum breyttist. Mér fannst ég sjá Jeff í andlitinu á honum. Ég öskraði af hræðslu og kuðlaði mig saman inni í herbergi.

Ég settist á gólfið þar og hélt fyrir augun. Þegar Asjad ætlaði að taka utan um mig, vildi ég það ekki vegna þess að mér fannst þetta vera Jeff. Ég setti út hægri höndina og sagði honum að fara út úr herberginu og láta mig í friði. Hann varð skelkaður og þorði ekki öðru en að hlýða, þar sem hann vissi um sjúkdóm minn og vissi ekki hvernig hann ætti að takast á við það þegar ég fékk þessi kvíðaköst. Hann sagði að hann ætlaði að fara fram og leyfa mér að jafna mig.

Þegar ég fór að róast fór ég upp í rúm og lagðist þar. Ég ætlaði að hvíla mig. Ég fann fyrir sorg og ég var að reyna að átta mig á því hvaðan þessi sorg kæmi. Þá sá ég allt í einu í huga mér flugvél vera að hrapa. Þetta var bara hugarburður og ég var orðin vön því að hugur minn plataði mig svona annað slagið. Ég horfði samt á þetta og allt í einu fannst mér stór steinn á við bjarg detta í rúmið við hliðina á mér. Mér brá og ég stökk upp úr rúminu og hljóp fram.

Asjad kom þá hlaupandi til mín og spurði mig hvað væri að. Ég sagði honum hvað ég hefði upplifað. Ég sagði honum líka að ég áttaði mig á því að þetta væri ekki raunverulegt. Hann hafði miklar áhyggjur af mér þegar hann sá mig svona. Ég sagði við hann að hann gæti ekki lagað þetta. Ég væri bara svona. Þar sem börnin voru hjá föður sínum þessa helgi gátum við fengist við þetta í friði.

Ég sagði Asjad að ég vildi fara út í bíltúr en hann vildi ekki leyfa mér það, þar sem hann hélt að ég ætlaði að skaða mig eða væri alla vega ekki fær um að keyra í þessu ástandi. Ég varð þá pirruð þar sem ég taldi að í þessu ástandi þyrfti ég að komast eitthvert ein til að hugleiða. Mig langaði bara að keyra um Reykjavík og jafnvel aðeins út fyrir.

Asjad stóð í dyrunum og sagði: „Andrea, ekki fara, reyndu bara að róa þig hérna heima.“ Þessi hindrun og þessir fjötrar fengu mig til að reiðast og finna fyrir innilokunarkennd. Ég hugsaði þá: Ef þú hleypir mér ekki út, get ég farið annars staðar út. Ég fór inn í herbergið en þegar ég vissi að hann væri sestur fyrir framan tölvuna, fór ég inn í eldhús og náði í lyfin mín.

Ég ætlaði að fara út bakdyramegin. Ég ætlaði að losa alla við þess geðveiku konu. Börnin mín gætu búið hjá pabba sínum. Foreldrar mínir gætu þá hætt að hafa áhyggjur, fjölskyldan hans gæti þá fengið hann til baka, eins og þau höfðu svo mörgum sinnum beðið um á meðan þau höfðu grátið á línunni. Ég var vandamálið, ég var sú sem eyðilagði allt, ég var fyrir. Ég réttlætti það sem svo að það væri börnunum mínum fyrir bestu að losna við svona bilaða mömmu. Ég tók inn meirihlutann af lyfjunum eða eins mikið og ég taldi nóg til að láta mig deyja. Ég áttaði mig ekki á því að faðir minn ætti afmæli daginn eftir. Ég fann bara til syfju og ég fann að ég var að lognast út af. Ég sagði í huganum: Guð, ég er að koma, þau þurfa ekki á mér að halda.

Ég vaknaði eftir einhverja klukkutíma og varð mjög vonsvikin að þetta hefði ekki tekist. Ég fann fyrir máttleysi í fótum og höfuðið hringsnerist. Svo þurfti ég að fara á klósettið til að æla. Þegar ég ætlaði að standa upp, hélt ég engu jafnvægi og það var engin leið fyrir mig að komast fram. Þessi lyf sem ég hafði tekið voru flogaveikilyf.

Ég hugsaði með mér: Nú er ég í því ástandi að ég er vöknuð en get ekki gengið og nú þarf ég kannski að fara að láta dæla upp úr mér. Ég datt á gólfið þegar ég ætlaði fram úr. Maðurinn minn kom hlaupandi og horfði á mig. Hann sá að það var ekki allt með felldu. Hann varð skelfingu lostinn þegar hann sá mig í þessu ástandi. Hann hrópaði: „Andrea, hvað er að, hvað gerðist?“

Ég sagði honum það ekki strax, ég skammaðist mín svo mikið. Hann varð svo hræddur, þar sem ég hafði sagt honum frá því hvað hefði gerst síðast þegar ég fór á spítalann. Hann hringdi í mömmu og pabba og þau sögðu honum að hringja á sjúkrabíl. Ég sagði honum að ég vildi ekki fá sjúkrabíl að heimilinu. Ég vildi ekki að nágrannar myndu komast að því að ég væri svona biluð.

Þau ákváðu þá að foreldrar mínir myndu sækja mig heim til okkar og fara með mig heim til sín og fá sjúkrabílinn þangað. Þegar sjúkrabíllinn var kominn og pabbi stóð fyrir framan mig til að kveðja mig, sagði ég: „Fyrirgefðu pabbi, ég var ekki að reyna að særa þig á afmælisdaginn, ekki hætta við að halda upp á afmælið, ég þarf bara að fara að ná mér.“ Hann brosti til mín með sorg í augunum og sagði: „Það er allt í lagi Andrea mín, láttu þá bara hjálpa þér.“

Það tók tvo daga að afeitra líkamann og ég var á hjartadeild þann tíma. Hjartað hafði víst farið á fullt og sjáöldrin verið þanin til hins ítrasta. Ég átti mest í erfiðleikum með að ná að halda jafnvægi. Flogaveikilyfin setja höfuðið á hvolf. Mér leið eins og höfuðið væri lóð sem vildi snúa mér við þannig að fæturnir stæðu upp í loft. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir að vera að leggja þennan sársauka á fjölskyldu mína. Mér fannst ég vera föst í þessum líkama og geta ekki tekið á lífinu með styrk og geta ekki losað þau við þann dóm sem fylgir því að vera geðsjúkur.

Hvernig á ég að lifa án þess að særa fólk ef sjúkdómurinn dregur mig inn í ferli ranghugmynda, sársauka og sorgar sem ég get ekki höndlað eða stjórnað? Þegar ég get ekki sannfært sjálfa mig um að þetta sé allt hugarburður, en tilfinningarnar segja að að mér líði svona. Fyrir hvað get ég þá lifað? Það er skyldan, sem fellst í því að leggja frá sér tilfinningarnar til að geta séð um þá sem eru undir ábyrgð manns. Börnin eru það eina sem maður verður að hugsa um. Börnin þurfa á manni að halda. Ástvinir eru þeir sem ég verð að lifa fyrir. Ég verð að vera sterk fyrir þá. Ég verð að takast á við þessi veikindi fyrir þá.

Þegar ég kom heim sagði Asjad við mig: „Andrea, það er eins og okkur hafi verið gefið annað tækifæri.“ Ég samþykkti það og ég sagði að ég ætlaði að gera allt sem ég gæti til að stjórna ástandinu.


Bloggfærslur 3. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband