Kafli 15. Greining

15. kafli

Greining

 

Ég þurfti ekki að bíða lengi. Menn í hvítum sloppum komu inn í herbergið. Þeir stóðu í röð fyrir framan mig og horfðu á mig. Ég fann að þeir voru komnir til að segja mér að það væri komið að því. Einn þeirra, dökkhærður maður, spurði mig: „Andrea, veistu af hverju þú ert hérna?“ Ég svaraði: „Já“ vegna þess að auðvitað vissi ég það. Ég var búin að undirbúa mig undir þetta og ég vissi að þroski minn og hæfileikar voru búnir að ná þeim áfanga að takast á við það hlutverk að bjarga heiminum. Ég átti að koma með Skorra með mér í þetta ferðalag og við vorum að taka við mikilvægu hlutverki sem búið var að leggja á okkar herðar. Dökkhærði maðurinn hélt áfram: „Andrea, þú ert með þunglyndi með Schizophreniskum einkennum.“ Ég horfði á hann og fór svo að skellihlæja. Ég snerist í hring í hláturkasti og datt á rúmið mitt. Þá skaust ótti fram í huga mér sem olli því að hláturinn breyttist í hræðslu.

Ég setti undir mig fæturna og ætlaði að hlaupa í burt. Ég komst ekki lengra þar sem ég skall á rúðunni inni í herberginu. Þá áttaði ég mig á því að ég komst ekki í gegnum glerið. Ég hljóp þá í hina áttina að dyrunum og ætlaði að komast sem lengst í burtu. Einn maðurinn ætlaði að grípa í mig, en dökkhærði maðurinn stoppaði hann á því augnabliki sem ég skaust framhjá þeim. Ég komst fram á gang og hurðin sem hafði verið læst var nú opin. Ég hljóp eins og ég ætti lífið að leysa til að komast undan þessum svikurum. Þegar ég var komin á leiðarenda sá ég borð sem var með tveimur stórum kertum og blómum. Ég vissi að þetta var altari Guðs. Ég beygði mig niður og kraup á kné og bað til Guðs um að hjálpa mér á meðan ég hélt utan um höfuð mér til að verja mig ímynduðum höggum svo engin myndi snerta mig. „Góði Guð! Hjálpaðu mér!“

Ég heyrði allt í einu sagt fyrir aftan mig: „Andrea, komdu hérna og sestu hjá mér.“ Ég leit við og sá ljóshærðan mann sitja á stól. Hann var í hvítum sloppi en mér fannst eins og hann væri ekki hættulegur. „Hvað ertu að fara að gera“? spurði hann. „Ég er að fara að gifta mig“ sagði ég. „Já, er það?“ sagði maðurinn þá. „Hvað heitir maðurinn þinn?“ Ég vildi ekki segja honum allan sannleikann og ég ætlaði ekki að segja honum að hann væri amerískur. Ég svaraði: „Andri.“ „Já“ sagði hann, „það hlýtur að vera gaman.“ Svo spurði hann mig hvort við elskuðum hvort annað og ég svaraði því játandi. Hann sagði mér svo að ég skildi taka því rólega og ég mætti núna fara að fá mér að reykja.

Ég var fegin að fá að skoða mig um og átta mig þessum stað sem ég var komin á. Ég horfði í kringum mig. Það var fólk úti um allt. Ég vissi að þetta fólk var búið að bíða eftir mér. Það var eins misjafnt og það var margt. Ein konan gekk á sama hraða fram og til baka og horfði á mig í hvert skipti sem hún fór framhjá mér. Ég vissi að hún mætti ekki láta mig vita að hún vissi hver ég væri. Önnur kona gekk um hægar og horfði niður á fæturna á sér. Hún lét sem ekkert væri. Það voru karlmenn þarna líka. Sumir voru önnum kafnir við að skoða dúkinn eða hlusta á útvarpið til að virðast önnum kafnir. Sumir virtust vera mjög venjulegir, voru að fá sér kaffi og fóru inn í reykherbergið. Ég ákvað að kíkja þar inn. Ég kveikti mér í sígarettu og lét sem ég þekkti þau ekki og lét sem ég þættist ekki vita af hverju ég væri komin þarna.

Kona í bláum slopp heilsaði mér. Hún var lítil ljóshærð og brosmild, en samt gat ég greint sársauka í andliti hennar. Hún var með mynd sem hún hafði málað og sagði að geimverurnar hefðu sent henni upplýsingar um hvernig liti hún ætti að nota. Þetta voru litir sem voru eins og gull og silfur. Mér fannst að þessi kona gæti hjálpað mér að átta mig á þessum stað.

Konan sagði við mig að það væri svo skrítið að þegar hún væri að sýna fólki þessar myndir sem skyldi það ekki hvað þær væru merkilegar. Ég sagði henni að mér fyndist þær mjög flottar. Mér fannst þær reyndar ekki flottar, ég vildi bara ekki særa hana. Mér fannst þær bara vera klessuverk með upphleyptum málningarslettum sem hefðu enga þýðingu. Hún sagði að hana langaði að mála eina mjög sérstaka mynd handa frænda sinum sem ætti sjö ára afmæli fljótlega.

Konan vissi að ég var búin að vera í myndlist og sagði að hún ætlaði að mála mynd fyrir frænda sinn sem væri 7 ára og spurði mig hvort að ég hefði einhver ráð fyrir hana til að myndin yrði það falleg að honum myndi líka við hana. Ég stakk upp á því að hún myndi mála Andrés önd. Þá spurði hún mig hvernig hún ætti að byrja á því. Ég sagði henni að fá sér Andrésblað og velja sér einhverja mynd í því sem henni fyndist vera skemmtileg. Hún ákvað að gera þetta. Seinna þegar hún kom úr afmælinu, sagði hún við mig að frændi hennar hefði orðið svo ánægður og hann hefði hengt hana upp á vegg og beðið hana um að mála fleiri handa sér.

Ég brosti vegna þess að ég sá hvað hún ljómaði af ánægju. Hún hafði verið svo sorgmædd vegna þess að kærasti hennar hefði kveikt í sér og dáið. Hún hafði ætlað að fylgja honum á sama hátt og þess vegna var hún með ör um allan líkamann. Hún hafði sagt mér að hún sæi eftir þessu vegna þess að örin væru svo ljót og hún gæti ekki náð sér í mann.

Ein kona sat í horninu á herberginu og hellti Cheerios í glas og diet kók yfir. Hún reykti mjög mikið og mér fannst hún vita mjög mikið, hún var svo fjarræn. Þegar ég var búin að reykja tvær sígarettur fór ég aftur inn í herbergi. Ég ætlaði að hvíla mig og reyna að átta mig á þessu húsi. Þegar ég kom þangað kom kona í hvítum sloppi og sagði að hún ætlaði að setja nál í mig. Ég spurði ekki að neinu, þar sem hún sagði að þessi nál ætti að nota til að koma í mig lyfi sem myndi hjálpa mér. Mér fannst að þetta lyf væri nærandi og sennilega betra að byggja sig upp fyrir ferðalagið.

 

Næstu daga þurfti ég að ganga um með þetta vökvastatíf þar sem búið var að tengja poka við nál í hendina á mér. Ég vissi bara að ég átti að hafa þetta með mér alla daginn. Það var allt skipulagt á þessum stað. Morgunmatur, síðan viðtal, hádegismatur, svo eitthvert föndur, síðdegiskaffi og svo var talað saman inni í reykherbergi. Fólk var hlæjandi og talaði hátt, sumir voru að rífast en það var alltaf einhver til að róa hlutina. Ég fylgdist með þessu og reyndi að sameinast og skilja hvað fólk ætlaði að gera þarna. Fólkið fór að reyna að tala við mig. Ég sagði þeim að ég væri að fara í ferðalag og það væri maður sem ætlaði að ná í mig eftir nokkra daga. Þau samglöddust mér mjög mikið.

 

Viðtöl og klínik

Þegar ég var búin að vera þarna í nokkra daga var ég kölluð inn í viðtal hjá dökkhærða manninum. Hann fór að spyrja mig alls konar spurninga um hvernig mér liði þegar ég hlæ, gréti, væri glöð eða reið. Ég svaraði honum að þegar ég hlæ væri ég biluð. Þegar ég gréti væri ég sjúk, þegar ég væri reið væri ég geðveik, þegar ég væri glöð væri allt í lagi. Hann skrifaði þetta allt niður. Ég vissi ekki af hverju hann vildi vita þetta, mér var alveg sama. Hann fór að spyrja mig um hvernig mér liði. Ég sagði að ég hefði áhyggjur af börnunum mínum. Hann sagði þá að þau væru á öruggum stað. Hann sagði að foreldrar mínir væru með þau. Hann sagði mér að ég þyrfti bara að einbeita mér að sjálfri mér núna.

Eftir viðtalið fór ég aftur inn í reykherbergi með þetta viðhengi með mér og fékk mér sígarettu. Ég fór að sýna fólkinu meiri áhuga og það var bara nokkuð skemmtilegt. Þegar ég heyrði að kallað var í hádegismat, stóð ég upp og ætlaði að fara inn í herbergið mitt til að borða. Ég datt þá í gólfið eins og steinpoki. Ég datt á manninn sem var að afgreiða matinn og sennilega hélt hann að ég væri að hrinda honum. Hann sagði samt ekkert en kona og maður komu og hjálpuðu mér á fætur og fóru með mig inn í herbergi. Þá kom önnur kona inn í herbergið og sagði að hún ætlaði að taka úr mér nálina. Hún sagði að ég þyrfti ekki að nota þetta lyf meir. Ég var fegin að losna við þessa nál, hún var farin að meiða mig.

Ég var farin að vera þarna eins og heima hjá mér. Mér leið eins og ég væri svo velkomin. Það voru allir svo góðir við mig. Ég vissi alveg af hverju það var vegna þess að ég var sú útvalda og sonur minn átti að frelsa heiminn. Mér fannst samt fólk ekki taka mikið í það þegar ég var að reyna að segja þeim að ég ætlaði að bjarga þessum heimi. Kannski máttu þau ekki láta mig vita að þau vissu það. Kannski mátti ekki tala um leyndarmálið strax. Ég reyndi að halda því helst fyrir sjálfa mig. Ég vissi að þau myndu hvort sem er ekki trúa fyrr en þau fengu sönnun.

Einn daginn, spurði dökkhærði maðurinn hvort ég væri til í að koma í klíník. Ég vissi ekki hvað það var. Ég spurði hann hvort að það væri sárt en hann neitaði því. Ég var þá rólegri og samþykkti það. Mér var fylgt á niður í húsið í einhvern sal. Þar var ég látin sitja á stól uppi á sviði. Ég sá fullt af fólki í hvítum sloppum á stólum að horfa á mig. Ég vissi að þau voru að fara að læra eitthvað af mér.

Eldri maður sat mér á vinstri hönd og hann sá um að spyrja mig spurninga. „Hvernig líður þér?“ spurði hann. Ég svaraði: „ Mér líður vel.“ „Hvað ert þú að fara að gera og hvað ert þú búin að vera að gera?“ spurði hann. Ég sagði honum að mér væri búið að líða eins og völvu sem sæi fram í tímann. „Já, ok,“ svaraði hann. „Hvað hefur þú séð í framtíðinni?“ „Sonur minn er Jesús og ég á að passa að hann klári hlutverki sitt“ svaraði ég.

Mér fannst svolítið skondið að segja ókunnugu fólki frá þessu, en ég svaraði bara því sem þau spurðu um. Ég var farin að brosa, af því að það var bara gaman að segja frá þessu. Það væri líka gaman að fá að vita hvort þeim fyndist þetta ekki spennandi. „Hvað heldur þú að þú sért að gera hér?“ spurði maðurinn. „Ég er að undirbúa mig fyrir að fara út í heim þar sem maðurinn er að bíða eftir okkur“ svaraði ég. „Hvaða maður?“ spurði hann þá. „Maðurinn sem ég heyri í“, sagði ég þá. Svona hélt hann áfram að spyrja mig um hvernig ég vissi þetta og ég reyndi að segja honum frá því sem ég var búin að upplifa.

Allt í einu spurði einhver úti í sal og ég horfði þangað. Það var dökkhærði maðurinn: „Var það niðurlægjandi fyrir þig þegar þú flosnaðir upp úr skóla.“ Brosið á mér hvarf. Ég horfði ofan í kjöltuna á mér og svaraði svo: „Nei, það var frekar sorglegt.“ Þegar ég var búin að svara varð ég svo hrædd og ég blindaðist þannig að ég fann að ég yrði að flýta mér. Villidýrin voru að koma, þau voru að gera grín að mér. Ég verð að hlaupa, bara hlaupa eitthvað. Ég fann að tárin voru að brjótast fram. Ég verð að flýja.

Ég stökk upp úr stólnum og hljóp út úr salnum. Ég var hrædd um að einhver myndi grípa í mig, en ég komst út og ég sá tröppur. Ég hljóp upp tröppurnar en datt þegar ég var komin hálfa leið og ég fann ekkasogin og hjartað hamast af ótta.

Ég lá þarna og grét, þegar kona kom til mín og lagði höndina á bakið á mér og sagði að þetta væri allt í lagi. Ég spurði hana hvort ég hefði eyðilagt allt. Hún sagði nei, þú eyðilagðir ekki neitt. Hún sagði að ég mætti fara inn í herbergið mitt og það þyrfti ekkert að spyrja mig meir. Ég var fegin. Hún var mér svo góð að ég var svo þakklát.

Þegar ég kom upp, var mér sagt að ég hefði verið flutt í herbergi með ungri stelpu svo ég gæti fengið félagsskap. Ég var alveg sátt við það. Ég þekkti þessa stelpu. Henni leið ekki vel. Hún var alltaf að skera sig. Ég held að hún hafi ekki elskað sig nógu mikið. Ég vissi að ég gæti huggað hana.

Ég sótti ferðaspilarann minn sem faðir minn hafði komið með og setti heyrnatólin á eyrun. Ég fór að hugsa um Jeff. Ég vissi að hann gæti lagað þetta. Ég hlustaði á Celine Dion og setti lagið „Think twice“ á replay.

 

Þannig gat ég séð fyrir mér andlit hans í huganum. Ég sá fyrir mér að hann hefði fengið stöðuhækkun þar sem hann var með yfirmannshúfu. Ég horfði á þessa mynd sem birtist mér og spurði hann: „Er langt þangað til þú kemur?“ Hann svaraði: „Það er ekki svo langt eftir.“

Ég naut þess að horfa á myndina í huga mér og sagði við hann að ég gæti beðið endalaust. Það er hægt að elska í fjarlægð. Það er ekkert erfiðara að elska þannig. Ástin hefur engin landamæri. Hún er takmarkalaus. Þessi músík hjálpaði mér að loka á fólkið sem mér fannst ég vera að fjarlægjast meir og meir. Ég ætlaði bara að einbeita mér að okkur krökkunum og Jeff.


Bloggfærslur 28. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband