Kafli 11. Ringulreið

11. kafli

Ringulreið

           

Ég var farin að finna fyrir miklu álagi á huga minn og líf mitt. Einhvern veginn voru hugsanirnar að reyna að komast út úr þessu ástandi. Ég var líka að reyna að einbeita mér að skólanum og að hugsa um börnin. Ég tók ekki eftir því í byrjun en mér var farið að finnast ég vera að breytast. Fólk sagði að ég talaði eins og prestur eða einhver persóna sem þau þekktu ekki. Ég vissi ekki af hverju. Ég bað á hverju kvöldi til Guðs. Ég bað hann um að hjálpa mér: Góði Guð, ég bið þig að hjálpa mér að gera skyldu mína, svo ég geti hugsað um börnin mín.

Á þessum tíma kom Freyr í heimsókn, þar sem honum fannst svo langt síðan að við hittumst. Ég sagði honum þá frá Jeff og sagði honum að ég væri farin að finna tilfinningar til þessa manns. Freyr var ekkert ánægður með það, en skildi það svo sem vel að hann átti ekkert tilkall til mín. Ég sagði honum að ég gæti ekki verið að hitta hann á meðan, þar sem ég vildi vera Jeff trú. Hann sagði þá við mig að ef það breytist seinna, þá mætti ég endilega láta hann vita, þar sem honum líkaði vel við mig. Ég lofaði honum því og leyfði honum að kyssa mig bless.

Á þessum sama tíma hafði ég þörf fyrir ástúð frá einhverjum og í hvert skipti sem ég sýndi börnunum athygli og gaf þeim af mér, sem var að verða alltaf minna og minna, gat ég ekki endurhlaðið þá orku. Ég þráði faðmlag og umhyggju. Það var samt bara í huganum. Það mátti enginn vita það. Það mátti enginn vita hvað ég var viðkvæm. Ég vildi sko alls ekki að Jeff vissi það. Það var nefnilega einmitt það sem hann vildi. Ég ætlaði að sýna þeim öllum að ég væri fullkomin og að ég gæti gert þetta allt ein.

Ég varð þögulli með hverjum deginum. Ég var farin að lokast inni í huga mér. Ég var farin að heyra raddir og mér fannst eins og einhver væri að leiðbeina mér á einhverja braut. Ég kallaði í huganum: Guð, ert þetta þú? Ætlar þú að sjá um allt? Hvað get ég gert Guð, hvað er að koma fyrir mig? Gerðu það, ég bið þig Guð, segðu mér það. Gerðu það, sendu einhvern til mín til að hjálpa mér. Ég get ekki gert þetta alein. Góði Guð, ég er svo reið, ég er svo særð, hvernig get ég hugsað um börnin ef ég get ekki einu sinni höndlað mótlæti? Ó, Guð, grét ég. Ég sem hélt að ég væri laus þegar ég yfirgaf Davíð. Ég sem hélt að ég gæti einbeitt mér að þessu þegar ég væri komin með næði til að hugsa, án þess að hafa allar áhyggjurnar, sem voru á þeim tíma.

Mig byrjaði að dreyma alls konar drauma. Þetta voru furðulegir draumar og ég fór að trúa á þá eins og þeir væru einhvers konar vegvísar. Hvernig var annað hægt þegar ég sá ekki lengur hvernig ég ætti að takast á við það sem var framundan?

Eitt kvöldið fann ég fyrir undarlegum kvíða þegar börnin voru sofnuð.Ég var mjög áhyggjufull. Myndi strætisvagn keyra á mig áður en ég kæmist í öruggt skjól? Hvernig gat ég stoppað þennan hraða? Hvernig gat ég náð mér niður úr skýjunum og haldið mér á jörðinni? Ég sveif um eins og flugdreki og ég óttaðist að ef línan myndi slitna, þá myndi ég fljúga út í buskann. Var ég að klikkast? Hvar voru börnin mín? Hvar var maðurinn minn sem ætlaði að standa í þessu með mér?

Ég þuldi, Guð, gerðu það, taktu mig. Góði Guð, gerðu það, hjálpaðu okkur, við erum svo alein, við erum í svo mikilli hættu. Ó, Guð vertu hjá okkur, gerðu það, ekki fara, þú ert sá eini sem ég treysti, þú ert sá eini sem getur sagt mér svarið.

 

 

Ég mun fylgja þér hvert sem þú leiðir okkur

 

Hugsanir mínar voru eins og í draumi. Það kom til okkar maður langt að. Hann var eins og riddari með fullt af fólki í kringum sig og ætlaði að ná í okkur á þyrlunni sinni. Þá fór ég að rökræða við hugann, þar sem fullt af hugsunum flugu í gegnum hann. Hvað mun Davíð gera? Maðurinn mun gefa honum það sem hann þráir, fékk ég þá á tilfinninguna. Þessi maður mun samt reyna að taka annað barnið, kom upp í huga minn. Ég reyndi að spyrja hugann: Hver ætlar að taka annað barnið, Davíð eða þessi maður? Þessar hugsanir rugluðu mig í ríminu. 

Einhver þarf að deyja, heyrði ég karlmannsrödd segja. Hver á að deyja? spurði ég. Eru það foreldrar mínir? Börnin mín? Nei, Guð, sagði ég hrædd, ekki láta það gerast, taktu mig frekar.

Hver á að deyja? spurði ég í örvæntingu. Guð, hver? Er það bróðir minn? Hann er andlega vanheill. Mun hann drepa sig? Eða, Jeff? Er hann með eitthvað í höfðinu? Hann er alltaf að kvarta um höfuðverk. Er hann með eitthvað inni í höfðinu sem dregur hann til dauða? Eða Davíð? Mun maðurinn drepa hann? Nei, góði Guð, ekki láta það gerast, börnin særast svo mikið. Ég get fyrirgefið honum, ef það bjargar lífi hans. Gerðu það, segðu honum að ég sé ekkert svo reið. Hjálpaður mér að fyrirgefa honum, bara ekki gera neitt við föður þeirra. Hann mun hvort eð er vera óhamingjusamur það sem eftir er af lífinu fyrir að hafa misst okkur. Hann á ekki skilið að deyja fyrir það. Mun þessi maður drepa sjálfan sig? Nei góði Guð ekki láta það gerast, ég elska hann, ekki taka hann frá mér.

Þá heyrði ég í sömu rödd: Hafðu ekki áhyggjur, ég þarf að deyja til að þið getið lifað. En af hverju? spurði ég. Vegna þess að þannig á það að vera. Ég mun vera verndari þinn það sem eftir er lífs þíns og ég mun sitja á öxl þinni og fylgjast með þér. Nei, hvernig er það hægt? spurði ég þá. Hafðu ekki áhyggjur, svaraði röddin aftur. Ég mun koma til baka í formi barns í maga þínum og þú munt sjá mig í augum þess. Nei, ég vil það ekki, sagði ég. Ég vil þig! Ekki þig sem barn. Það á að vera svoleiðis, það er búið að ákveða það, sagði röddin. Hver ákveður það? spurði ég. Það er leiðtogi minn. Hvers konar leiðtogi er það? sagði ég þá. Um hvað snýst þessi veröld eiginlega, þegar tvær manneskjur hittast en fá svo ekki að vera saman? Hver er svona ósanngjarn? Góði Guð, hvernig getur þú leyft þessu að gerast? Svona rökræddi ég við röddina á meðan ég gekk um gólf.

Þá heyrði ég þessa rödd tala: Þú hefur verið valin fyrir okkur. Valin vegna þess að þú ert búin að vera að leita að sannleikanum. Þessi maður sem mun koma til þín er hreinn. Hann hefur haldið sér hreinum fyrir þessa stund vegna þess að hann er heill. Hann hefur verið að leita að hinni einu sönnu, þeirri sem við veljum fyrir hann, vegna þess að hann trúir á okkur. Á meðanvið völdum, beið hann þolinmóður og hann mun koma til þín.

Hvernig getur þú gert þetta, góði Guð? Þú þekkir mig, þú veist hvernig lífi ég hef lifað, þú veist að ég er ekki nógu góð í svona starf. Láttu mig um það, svaraði hann. Ó, góði Guð, ég treysti á þig, sagði ég þá undirgefinni röddu. Hvernig undirbý ég mig fyrir þetta starf? Láttu okkur um það, heyrði ég sagt á móti.

 

Þá fór ég í rúmið

 

Mér leið eins og andi minn eða sál mín væru að yfirgefa mig. Ég varð hrædd. Guð, hvað er þetta? Hvað er að gerast? Ég get ekki dáið núna, börnin eru sofandi við hliðina á mér. Hver mun vera hjá þeim þegar þau komast að því að ég vakna ekki aftur? Ég er hrædd. Guð, hjálpaðu okkur, fyrirgefðu mér þegar ég hef beðið þig um að taka mig til þín, en núna, ég get ekki yfirgefið þau. Gerðu það.

Ég fann fyrir því að líkami minn var að kólna upp. Það var eins og að það byrjaði í fótunum og fikraði sig svo ofar. Mér leið eins og þetta væri tilfinningin þegar fólk deyr í svefni og vaknar ekki aftur og engin útskýring af hverju. Ég fann líkamann kólna meir og meir undir sænginni. Ég gat ekki hreyft mig og mér fannst að ég væri að yfirgefa alla. Ég myndi bara sofna og ekki vakna upp aftur. Góði Guð, hjálpaðu mér, hvíslaði ég í huganum. Hugsaðu um þau fyrir mig. Hugsaðu um alla ástvini og ættingja og segðu þeim að ég elski þau. Segðu þeim að allt verði í lagi. Góði Guð, passaðu upp á þau. Guð ég set þau í hendurnar á þér. Ég veit að þú munt sjá um þau. Leyfðu mér þá að fara.

 

Mér fannst sem hugur minn væri heltekinn af einhverjum

 

Ég var næstum því sofnuð þegar ég byrjaði að finna fyrir nokkrum höndum sem nudduðu migog snertu mig um allan líkama. Mér fannst eins og það væri hnífur að skera mig upp og að það væri verið að laga gamla áverka sem ég hefði orðið fyrir í æsku. Síðan fannst mér eins og ég fyndi fyrir áverkum hans, mannsins sem ég var búin að heyra í og heyra um.

Ég fann fyrir miklum sársauka í hægra fæti, eins og að hann hefði brotnað einhvern tímann. Ég var viss um að þetta væri sársauki frá honum. Mér fannst eins og ég væri inni í tveimur líkömum. Einn sem tilheyrði honum og svo mínum eigin. Mér fannst eins og verið væri að laga alla þessa áverka. Þá byrjuðu hendurnar að nudda mig við brjóstið og mér fannst eins og þær færu inn í líkama minn og nuddað á mér hjartað.

Ég vissi einhvern veginn að það var til að hjálpa mér en ekki honum vegna þess að hjartað í mér var orðið kalt. Mér hafði liðið eins og að ég væri að gefast upp, en þegar þetta var gert var eins og ég fengi styrk minn aftur. Það var eins og það væri verið að lækna á mér líkamann. Loksins gat ég sofnað. Ég hafði ekki sofið vel í marga daga.

Þegar ég vaknaði fann ég fyrir sársauka í brjóstholinu. Mér leið eins og ég væri með harðsperrur í hjartanu. Ég var hrædd yfir því sem hafði gerst kvöldið áður. Ég var líka hrædd yfir því sem röddin hafði sagt. Röddin sagði að hann væri hreinn og hann væri búinn að bíða eftir þessu alla sína ævi. Hvernig gat ég verið viss um að ég væri sú rétta? Ja, eins og röddin sagði, þetta er ekki fyrir manninn, heldur þau.

Ég fór fram í stofu og þegar ég kom þangað, sá ég veru í glugganum. Það var eins og bjartur bjarmi umlykti hana. Ég féll á á gólfið og gat ekki horft á hana. Ég grúfði mig niður líkt og múslimar gera þegar þeir eru að biðja til Guðs. Mér leið eins og ég ætti ekki að sjá þetta og þetta hræddi mig. Ég bað til Guðs að fyrirgefa mér. Mér leið eins og Jesús væri að birtast mér. Þegar ég gat lokins staðið upp, fann ég til í hjartanu. Mér fannst ég þurfa að ganga um gólf til að róa mig. Mér fannst eins og hugur minn væri heltekinn af einhverjum og fannst ég ekki hafa stjórn á honum sjálf.

Ég þurfti að fara með krakkana í dagvistun. Ég fór svo aftur heim. Það var alltof mikið gera. Ég þurfti að skilja svo margt. Ég bjó til kaffi og náði í sígaretturnar. Ég settist inn í stofu og reyndi að hugsa. Ég strauk hárið á meðan ég ruggaði mér í takt við einbeitinguna sem ég var að reyna að ná til að heyra í röddinni. Ég gat ekki gert það öðruvísi og það var eina leiðin til að róa hugann. Þetta var eina sem ég var búin að vera að gera allan þennan tíma síðan þetta byrjaði. Hvernig átti ég að geta hugsað þegar það var ekkert í huga mér sem vissi um þessa hluti? Ég varð að fara niður í kjallara og sækja Biblíuna. Ég gæti kannski fundið svarið þar áður en ég færi í skólann.

 

Ég stóð fyrir framan gyllt hlið

 

Fyrir löngu síðan hafði mig dreymt draum. Ég stóð fyrir framan gyllt hlið, það eina sem ég þurfti að gera var að opna!

 

Ég fór að skilja margt í Biblíunni. Það var eins og ég væri búin að lifa á þann hátt. Ég las lengra. Þeir töluðu um hliðið og hliðvörðinn, manninn sem væri sá eini sem gæti opnað hliðið. Mun maðurinn sem ég á að hitta geta gert það? Er hann sá sem getur opnað hliðið mitt? Ég fór svo í vinnuna en gat ómögulega einbeitt mér að vinnunni þar sem þessar hugsanir toguðu í mig.

Þegar þarna var komið fékk ég rosalega þörf fyrir að tala við bróður minn. Það var eins og röddin væri föst inni í höfðinu á mér og mér fannst þessi aðili sem talaði vera stöðugt að reyna að ná sambandi við mig og heyrði ég hann segja: Farðu og segðu bróður þínum. Ég heyrði þetta stanslaust þennan dag á meðan ég var að sauma. Ég var líka önnum kafin við að berjast við efasemdir mínar. Röddin sagði þá bara með enn meiri ákafa: Farðu og segðu bróður þínum! Ég vissi að það gat aðeins annar bróðir minn komið til greina, þar sem hann hafði á köflum verið að tala um svona sérkennilega hluti.

Ég fór til vinnuveitanda míns og spurði hvort ég mætti fara. Hann var ekki á því í fyrstu en þegar ég sagði honum að það væri mjög mikilvægt, samþykkti hann það loksins.

Ég hafði verið að skrifa erfðaskrá síðustu daga, vegna þess að ég var stanslaust með tilfinningu um að ég væri að fara að deyja og vildi sýna bróður mínum hana. Ég var svo hrædd um að ég myndi deyja áður en mér tækist að koma henni í hendurnar á honum. Ég ætlaði að arfleiða hann að þessari bók til að hann myndi halda hlutverkinu áfram.

Ég kom að heimili hans og bankaði upp á. Hann var sem betur fer heima og ég sagði honum að ég yrði að fá hann til að kíkja á svolítið heima hjá mér. Hann vildi ekki koma með mér í fyrstu og ég reyndi að finna í huga mér hvað ég gæti gert til að sannfæra hann. Það sem kom upp í huga mér var að fleygja mér í fangið á honum og segja: „Ég elska þig.“ Svo kyssti ég hann á kinnina. Hann varð mjög utan við sig og samþykkti loksins að fylgja mér.

Þegar við komum heim til mín, gaf ég honum kaffi og rétti honum bókina. Hann las og sagði svo brosandi: „Við erum svipaðir fuglar.“ „Já, það held ég“ sagði ég brosandi. Ég var svo hamingjusöm að mig langaði að kyssa hann aftur. Ég gerði það samt ekki. Ég var bara fegin að hann skildi loksins verkefnið. Við töluðum um þetta í nokkra stund en svo keyrði ég hann aftur heim sín. Ég fór svo aftur heim og tók mér frí þennan dag. Það sem eftir var dags reyndi ég að einbeita mér að röddinni og hugsaði um allt sem hún hafði sagt mér. Þegar ég sótti krakkana svo í dagvistun, gerði ég þau tilbúin fyrir kvöldmat og kom þeim snemma í rúmið.

 

 

 

Ég las í Biblíunni þetta kvöld um hóruna. Hver er hóran? Er það kona sem selur líkama sinn? Er það slæm kona? Ég hafði aldrei gert það, en ég hafði samt ekki verið hrein og að bíða eins og þessi maður. Hvað er ég þá? Er ég hóran eða er ég hrein, hvað er hreint í Biblíunni? Er ég þarna einhvers staðar á milli? Hvernig stendur þá á því að ég geti verið verðug í þetta verkefni, fyrir þennan leiðtoga. Ég hugsaði mjög stíft.

Þá hlustaði ég og ég heyrði orðið. Hóran er manneskja sem vill gera öðrum til geðs. Já, getur það verið venjuleg kona? Hóran er sú sem vill gera það sem hún trúir á. Það skiptir ekki máli, hve lágt hún þarf að leggjast. Vegna þess að þegar fólk beygir sig fyrir einhverjum, lærir það að beygja sig fyrir Guði. Þetta er það sem við verðum að læra ef við viljum finna veginn til hans.

Nei, við erum alltof stolt til að beygja okkur, ef við beyjum okkur þá missum við stoltið. Hvað er stolt? Er það eitthvað sem þú lærir í hernum? Er það vísbending um sjálfsvirðingu? Nei, stolt er eitthvað sem kemur í veg fyrir heilbrigða sjálfsvirðingu, af trúnni og væntumþykju á hverri einustu manneskju eða veru sem lifir í þessari veröld. Ef við getum ekki borið virðingu fyrir nágrannanum eða hundinum hans og ketti, hvernig ætlum við þá að bera virðingu fyrir skaparanum? Hvernig getum við borið virðingu fyrir sjálfum okkur, ef við getum ekki borið virðingu fyrir skaparanum, sem við vitum að er hinn eini sanni Guð.

Við berum virðingu fyrir honum með því að fylgja draumum okkar Guð vildi að fólk færi eftir þeirri götu sem liggur fyrir framan það, hvernig sem hún liggur. Sú gata mun á endanum leiða þig inn á þá réttu braut, sem við köllum sannleikann. Ef við stoppum og lítum til baka, veikjumst við á meðan við erum að leita að því sem við skildum eftir. Ef við aftur á móti höldum áfram, eigum við möguleika á að finna réttu leiðina sem er í áttina að sannleikanum. Jafnvel hóran þarf að finna sína leið til hans.

.

Allt sem við gerum og allir sem við mætum á leiðinni tilheyra þessum þroska. Þegar við nálgumst sannleikann, þá erum við að ná þeim þroska sem þarf til að lifa í þessum heimi af æðruleysi. Ef við lítum til baka og staðnæmumst, gleymum við hvert markmiðið er. Ef við höldum áfram og trúum því að sú gata sem við erum á sé sú sem var valin fyrir okkur, þá er meiri möguleiki á að komast á áfangastað. En við þurfum líka vegvísi sem er hjartað í okkur. Það er sá náttúrulegi vegvísir sem við fengum.

Svona hélt hugur minn áfram að hugleiða hina ýmsu hluti sem komu upp í hugann og var ég að reyna að fá einhvern skilning á þessum hröðu hugsunum sem þutu í gegnum hugann.

 

 

 

Betlarinn

 

Það er annar hluti í Biblíunni sem ég las. Hann er um betlarann. Hann situr á kantinum við götuna sem þú gengur framhjá. Hann biður þig auðmjúkur: Kæri herra, getur þú gefið mér aur? Þú ferð með hendina í vasann og réttir honum þær fáu krónur sem þú þurftir ekki í stöðumælinn þennan dag. Hann er svo þakklátur að hann kyssir á þér fæturna, þar sem að hann getur kannski keypt hveiti til að baka brauð fyrir börnin sín. Þú ert stoltur af því að hafa gefið eitthvað af þér, ferð svo inn í stórmarkaðinn og kaupir sjö poka af mat, þar sem börnin þín og kona bíða eftir þér svo þau geti eldað eitthvað í kvöldmatinn.

Hvar er krónan þín Jeff! Þú níski maður sem rígheldur í veskið sitt, sagði ég í huganum. Nei, þú þarft að sýna betlaranum meiri virðingu ef þú hefur hjarta.Mundu þetta Jeff, þú kenndir mér þetta, þegar ég stóð upp og við vorum að reyna allt til að sýna hvert öðru meiri virðingu. Það entist ekki lengi hjá þér, þú hættir of fljótt.Ég gafst ekki upp en þú dróst þig til baka.

 

 

Þegar þarna var komið fór ég að hugsa um alla foreldra sem áttu börn. Mér fannst ég þurfa að segja þeim þessa hluti. Ég heyrði það koma fram í huga mér og þetta var eins og heimsspekilegar rökræður. Biblían nægði ekki svo ég fór að lesa tarotspilin mín. Ég var að reyna að tengja þau við allar þær manngerðir sem eru til í heiminum. Ég var eiginlega að leita að því hver ég var af þessum persónum.

Hver gaf þér það sem þú hefur starfið, peningana, húsið, fjölskylduna? Gerðir þú þetta á eigin spýtur eða sá atvinnurekandi þinn aumur á þér vegna þess að þú þurftir á þessari vinnu að halda eða var það vegna þess að hann sá hæfileika þína sem þú hafðir fyrir starfið?

Þurftir þú að biðja hann um starfið eða seldir þú honum hæfileika þína? Ertu betlarinn eða hóran? Þurftir þú að beygja þig og þakka honum fyrir eða settir þú verðmiða á vinnu þína? Ertu stoltur af því sem þú ert að gera? Fannst þér að þú hefðir blekkt yfirmann þinn?

Ef svo er, kannski ertu þá þjófurinn. Þjófurinn fer um og stelur hjörtum mannana. Hann setur hjörtun í safnið sitt. Þegar hann þarf ekki lengur á þeim að halda, hendir hann þeim frá sér. Hann getur alltaf stolið fleiri hjörtum og gert þetta allt sitt líf. Hah, Jeff, þú færð sko ekki að stela mínu hjarta, það er á hreinu. Ég mun vinna mig til baka, ég hef gert það áður. Það tók mig sjö ár. Með þig mun það taka mun skemmri tíma. Vegna þess að þú er svo mikið „Fífl“.  Þá var mér hugsað til fíflsins í Tarotspilunum. Hann ferðast með bakpoka á bakinu og gengur út í lífið áhyggjulaus. Hefur þú lesið um fíflið í tarotspilunum? Fíflið stendur fyrir nýja reynslu, hvatvísi, forvitni og sakleysi. Fíflið er ungur maður og oftast með bakpoka á bakinu á ferðalagi sem dregur hann stundum fram af bjarginu.

Fíflið hefur trú og traust á alheiminum. Það veit að það verður séð fyrir því og að hlutir munu bjargast einhvern veginn. Það ber traust til alheimsins. Þetta spil segir að þú sért tilbúin til að takast á við heiminn. Þú vilt skoða allan heiminn og uppgötva alla leyndardóma hans. Þú ert það opin fyrir nýjungum og nýjum hugmyndum.

 

 

Ég var orðin innblásin af vangaveltum um hvort ég væri að ala börnin mín upp í ótta að ég fór að skoða sjálfa mig sem foreldri, persónu og manneskju. Ég fór að tala við Jeff í huganum, þar sem ég hafði ekki heyrt í honum í einhvern tíma. Og vitnaði í bréf sem ég hafði látið hann hafa sem ég hafði skrifað honum síðast þegar hann kom.

Ég er móðirin. Ég er tréð og börnin mín eru ávextir mínir. Hver sem reynir að eyðileggja það … MUN SJÁ HJARTA MITT! Þú hefur gengið inn í eldinn og hreyft við ró minni. Eins og ég skrifaði þér einu sinni: Ef þú kennir mér ró þína þá mun ég sýna þér eldinn.

Hvað munum við gera þegar foreldrar okkar eru farnir? Munum við vera sorgmædd eða reyna að lifa við það? Vonandi getum við þá gert þetta upp á eigin spýtur... En við foreldrar? Finnum við fyrir virðingu þegar barnið eltir okkur hvert sem við förum, hvernig sem við gerum hlutina? Hvað erum við þá að reyna? Leika Guð? Fyrir framan barn?

Í fyrsta skipti sem við hittumst Jeff og þú varst að segja mér að opna hjarta mitt, þá spurði ég þig: „Hvar er sakleysi mitt?“ Ég grét þegar ég spurði þig að þessu. Þú sagðir, að það sýndi, þroska. Jæja hérna er barnið þitt, fullþroskað. Hvað gerir barnið þegar það áttar sig á því að foreldrunum líði illa eða séu að gráta? Reynir það ekki að láta okkur líða betur? Hvers vegna gerir það það? Vegna þess að það elskar okkur. Vegna þess að það finnur til sársauka. Vegna þess að það finnur fyrir öryggisleysi ef við erum ekki heilbrigð eða ef okkur líður illa. Það verður óöruggt um að við getum hugsað um það. Það reynir þá að byggja okkur upp til að við getum haldið áfram að hugsa um þau.

Ég var niðursokkin með eigin hugsunum þegar tveggja ára sonur minn kom með hitalækkandi stíl til að laga hitann, því hann var farin að átta sig á því að ekki væri allt með felldu. Ég fór á klósettið þegar hann kom með stílinn og tók við honum án þess að hika og stakk honum í rassinn án þess að hugsa, þar sem að ég taldi að Skorri vissi hvað væri að. Þegar ég var búin að gera þetta fann ég að allt fór á fullt í huganum. Mér fannst eins og sálin í mér færi í gegnum líkamann og niður í klósettið. Ég leit niður í klósettið og sá að mér var farið að blæða. Guð hvað gerði ég nú? Ég varð skelfingu lostin að hafa eyðilagt allt. Hann hafði sagt að ég myndi eignast annað barn. Var ég að eyðileggja það nú með þessum stíl? Fór barnið út þegar ég setti stílinn upp? Ég setti bindi í buxurnar mínar og klæddi mig. Ég gekk þá um gólf og hugsaði á meðan ég strauk á mér hárið í gríð og erg: Drap ég barnið? Guð, drap ég barnið? Hann svaraði ekki og ég fór upp í rúm til að hugsa þetta betur. Þá sá ég fyrir mér að Jeff hafði verið búinn að segja mér að hann gæti ekki eignast börn. Hvernig gat ég þá verið ófrísk? Var þetta barn getið af heilögum anda? Guð, er ég búin að eyðileggja það? Ég varð svo stressuð að hafa verið svona kærulaus. Kannski er Skorri ekki nógu gamall til að vita hvernig á að gera hlutina strax. Kannski verður hann að þroskast betur. Ég má ekki fara að láta hann taka við hlutverkinu strax. Ég verð að hafa stjórn á þessu á meðan.

 

 

 

Ég fór að hugsa um Guð

 

Getur verið að Guð þurfi á okkar hughreystingu að halda? Getur verið að hann þurfi að finna fyrir ást okkar svo hann geti haft trú á okkur? Hann er sterkur, það vitum við. Hann þarf að sjá það, að hann sé að gera þetta af einhverri ástæðu. Þurfum við ekki öll að hafa ástæðu til að lifa? Getum við gert þetta alein í langan tíma? Hvers vegna reynum við ekki að byggja hvert annað upp í staðinn fyrir að brjóta hvort annað niður, hvers vegna fáum við ekki Guð til að brosa? Kannski munum við einhvern tímann sjá það bros á himnum. Í þessum töluðu orðum horfði ég upp til himins af svölunum og sá tvær rákir á himni. Þær leituðu upp eins og himnastigi.

Þessar spurningar voru endalaust að koma inn í huga minn. Þær komu með svo miklum hraða og allar ofan í hvora aðra og ég gat aðeins beðið til Guðs um að halda mér á lífi, svo ég gæti haldið þessu áfram.

Ég var að missa máttinn, suma daga og líkami minn varð stundum svo máttlaus að ég gat mig hvergi hreyft. Mér leið eins og ég væri að fara inn í einhverja veröld sem var ekki á mínu valdi að skilja. Mér fannst ég sjá sýnir sem höfðu allar skýringar en samt erfitt að setja í samhengi við það sem ég var að upplifa. Mér leið eins og ég væri að gægjast inn um dyr sem mér var ekki leyfilegt að sjá. Það var himneskt að horfa á það sem þar var. Ég var að verða hrædd um að mér yrði refsað fyrir að kíkja þar inn. Ég heyrði samt alltaf röddina segja mér að halda áfram að fikra mig í áttina að þessu og að ég myndi höndla þetta. Þetta virkaði eins og ég væri að horfa inn í framtíð, nútíð og fortíð. Ég var ekki viss um hvort væri hvað. Samt vissi ég að maðurinn væri í framtíðinni.

Ég sá þá Guð í annarri sýn og mér fannst hann vera gamall maður með skegg. Hann stóð þarna eins og konungur. Til að geta séð þetta þurfti ég að fljúga til himins. Þegar ég var svona fljúgandi í sýninni, sá ég líka veru sem stóð með útbreiddan faðminn. Ég sá að þessi vera var stór og yfirgnæfi yfir heiminn. Veran var klædd í hvítann kirtil, með sítt svart hár. Mér fannst að þetta gæti verið Jesú. Ég sá mikinn fjölda fólks koma þarna að rótum fjalls þar sem þessi vera stóð. Ég reyndi að komast nær þessari veru til að sjá framan í hana. Þegar ég var komin þar sem ég gat séð framan í hana sá ég að þetta var kona. Ég var mjög undrandi. Ég spurði Guð að því hvort þetta væri mögulegt. Hann kinkaði kolli og var greinilega mjög stoltur. Þá sá ég einhvers konar mosku þar sem fólk streymdi að og fór inn um dyr sem var eins og svört kónguló.

Svo sá ég Jesú í eitt skipti í einni sýninni og mér fannst hann var hraustur og heilbrigður og tilbúinn til að hjálpa okkur fólkinu á jörðinni og var þá með rauð augu. Ég skildi það ekki þá, en ég skildi það seinna þegar annað koma fram. Okkur stóð til boða að taka bara við honum. Mannfólkið afþakkaði eða trúði ekki og það endaði með því að hann datt niður til helvítis. Mér fannst við hafa gert herfileg mistök. Mér fannst að við höfðum ekki hlustað. Mér fannst að við höfðum ekki tekið tækifærið á þeim tíma sem okkur bauðst það.

Í eitt skiptið sem ég var að reyna að fá manninn sem ég var að tala við, til að trúa því að við myndum taka við Jesú, þá gaf hann mér tækifæri á því. Þegar ég var að reyna að toga hann upp frá helvíti, sá ég margar hendur og óttaslegið fólk rétta hendur sínar upp um opið á jörðinni og reyna að komast með honum. Það hafði rifnað gat á jörðina þar sem ég fann Jesú. Ég varð að flýta mér til að holan lokaðist ekki áður en mér tækist það. Það voru nokkrir sem sluppu upp á meðan en það gerði ekkert til. Það eina sem skipti máli var að koma honum upp á himininn sem fyrst. Ég tók eftir því að augun í honum voru orðin ljósblá og spurði þá manninn að því, hverju það sætti. Það var mjög fallegt en þegar ég spurði hann að því af hverju það væri, sagði hann mér að hann væri blindur. Við höfðum hafnað honum og hann hafði skaðast á því. Ég hugsaði til þess hvað við værum vantrúuð og var reið út í mannkynið en ég var fegin að það var ekki verra. Jesús þurfti ekki augu til að leiðbeina okkur. Ég var fegin að hann var á lífi. Hann sá með hjartanu.

Ég hafði það á tilfinningunni að það væri barist í kringum mig um tiltekna visku og að það væri einhver að reyna að eyðileggja allt og sprengja það í loft upp.

Ég heyrði hljóð sem var eins og almannavarnalúður og allir áttu að finna skjól til að fela sig, því stríðið var að hefjast.

Ég sá tígrisdýr berjast við ljón og ég var að velta því fyrir mér hvort myndi vinna. Ég var ekki viss um hvort það myndi verða og ég var ekki viss um hvort dýrið var gott eða vont. Mér fannst að dýrin færu að elta mig og þegar tígrisdýrið var að ná mér, sleikti það kinnina á mér og breyttist í fíl. Mér fannst að það þýddi vinur.

Hver eru þessi dýr? hugsaði ég. Er það Davíð og Jeff eða kannski maðurinn sem ég heyrði í? Ég gekk í hringi og hugsaði. Ég var að reyna að halda mér vakandi. Ég var orðin hrædd um að sofna vegna þess að ég hélt að ég myndi fá þessa tilfinningu að lífið væri að fjara úr mér eins og áður hafði komið fyrir. Líkaminn kólnaði og það eina sem gat sagt mér að ég væri á lífi var að höfuðið var ennþá heitt og ég var ennþá að hugsa.

Ég var orðin svo uppgefin að ég sagði við Guð: Ég get þetta ekki lengur. Ég þarf að láta þig taka við. Hvað sem kemur fyrir mig, munt þú sjá um. Ég setti allar áhyggjur mínar í hans hendur vegna þess að mér fannst hann sá eini sem gæti séð um þetta.

Þegar ég gerði það, varð allt brjálað. Ég flaut inn í einhvers konar hringiðu sem ég vissi ekki hvað var. Ég treysti á hann og leyfði þessu að hafa sinn gang. Ég hélt lífinu áfram, ég vaknaði upp á hverjum morgni, sama þótt ég hefði ekki sofið mikið um nóttina. Ég þurfti að fara með börnin til dagmömmu og síðan í skólann. Það var ekki auðvelt að halda þessu gangandi en ég reyndi að skipta mér í tvo heila með því að láta annan heilann hugsa um veraldlegar þarfir barnanna en hinn heilann sjá um að lifa í þessum heimi. Það eina sem ég fann að ég gat ekki gert var að sinna tilfinningum barnanna, ég gat bara hugsað um veraldlegar þarfir þeirra og öryggi.

Ég fór að fá það á tilfinninguna að Skorri sonur minn væri Jesús. Ég virti hann svo mikið og hann var sá sem ég átti að vernda sem mest og reyna að gera öllum ljóst að þeir mættu ekki snerta hann. Ég virti dóttir mína Sunnu líka en hún varð boðberi frá djöflinum og djöfullinn var faðir þeirra.

            Ég var farin að verða svo hrædd. Ég var hrædd um að þegar faðir þeirra tæki þau um helgar myndi Skorri verða svo veikur að hann gæti ekki lifað það af. En það var skylda mín að láta þau fara, það var hluti af prófinu fyrir þau til að þroskast svo að þau myndu sjá muninn á hinu illa og góða í lífi þeirra áður en allt myndi springa.

Þegar þau komu til baka hafði ég á tilfinningunni að ég þyrfti að ná styrk Skorra fram aftur með hið góða og reyna að bæla það vonda sem hafði náð að nærast í Sunnu þennan stutta tíma sem þau voru í burtu.

            Ég fylgdi tilfinningum mínum í þessu og ég barðist ekki á móti því vegna þess að ég treysti á það að Guð myndi ekki draga mig út í það sem ég réði ekki við. Ég reyndi að finna jafnvægi á milli þeirra og ef Sunna sýndi reiði reyndi ég að hemja reiðina í henni til að brjóta ekki Skorra niður. Ef Skorri var að gráta reyndi ég að þjóna honum þannig að hann myndi róast, það var skylda mín að halda þeim í jafnvægi og Skorri var styrkur minn og viska. Hann var öryggi mitt framar öllu. Ég reyndi að vernda börnin eins mikið og ég gat og mér leið eins og djöfullinn væri að reyna að komast inn á heimilið okkar. Þarna var heilinn á mér farinn að fá skilaboð um allar hugsanlegar leiðir til að koma í veg fyrir að ég myndi gera eitthvað rangt. Það skipti sköpum á hvaða tíma og í hvaða reglu ég gerði það. Ef ég gerði eitthvað vitlaust myndi ég missa sjónar á jafnvæginu sem ég var búin að ná fram í lífi okkar barnanna.

Ég fór að fylgjast með þeim álengdar og var að reyna að greina hvernig það héldist þetta jafnvægi sem átti að ríkja á milli þeirra. Ef ég sá að það var að myndast spenna á milli þeirra og þau færu að rífast, gekk ég strax á milli áður en það myndi verða stríð.

Ég var einhvers konar andlegur boðberi sem þekkti svörin vegna þessa að ég fékk þau alltaf í gegnum röddina þegar ég bað um svar. Ef ég fór með þau út að ganga, varð ég að vera mjög varkár að enginn með slæmar hugsanir myndi ganga á milli þeirra, vegna þess að það myndi raska því jafnvægi sem ég var búin að koma á. Skorri myndi þá veikjast og Sunnu myndi styrkjast. Það varð þá of mikill greinamunur á þeim og ég varð að ná því til baka. Þau máttu bæði lifa en ég varð að halda þeim í jafnvægi. Sunna var kennari minn hvernig ég ætti að takast á við það slæma en Skorri var sá sem ég átti að vernda og þroska, þangað til að hann gæti tekið við. Þá myndi Sunna losna við skyldu sína og fá að lifa afslöppuð sem eftir var af ævi hennar. Ef ég fjarlægðist sannleikann fann ég fyrir því að hjartað í mér kólnaði. Ef ég nálgaðist hann aftur, fann ég fyrir því að hjartað hitnaði. Líkami minn var farin að tala við mig, á einhvern hátt. Ef ég gerði eitthvað vitlaust, fannst mér eins og hníf væri stungið í síðuna á mér.

Ég þurfti því að róa mig og koma mér í jafnvægi yfir nóttina, þegar börnin voru sofnuð. Ég gat þá slakað á hugsunum mínum og leiðst inn í einhvers konar íhugun, þar sem ég sveif. Þetta var eina leiðin fyrir mig til að hvílast, vegna þess að ég var hætt að geta sofið heila nótt og yfirleitt ekki nema háftíma blundur sem ég fékk. Ég fann fyrir orku eftir svoleiðis svefn og hafði meiri kraft.


Kafli 10. Reykjavíkurferð

10.kafli

 

Jeff ætlaði að koma til Reykjavíkur með vinum sínum og við ætluðum að fara að skoða borgina. Ég var sennilega leiðsögumaður að einhverju leyti, þar sem ég þekkti borgina eins og handabakið á mér. Við fórum á marga staði sem teljast merkilegir og áhugaverðir. Við fórum t.d. í Perluna til að fá okkur kaffi.

Vinir hans voru par sem var mjög ástfangið en ég og hann vorum einhvers konar par sem var að kynnast. Hann og hinn maðurinn voru að sýna karlmennsku sína fyrir okkur kvenmönnunum, annaðhvort með bröndurum eða með mikilmennsku. Hinn maðurinn sem við getum kallað, John (þar sem hann var líka Ameríkani) var reyndar voða góður við konuna sína. Á hótelinu sem þau ætluðu að gista þessa helgi var hann t.d að greiða á henni hárið. Ég hafði aldrei séð karlmann gera þetta og mér fannst þetta lýsa því hvað honum þætti vænt um hana. Jeff var að gantast með þetta og gefa í skyn að hann myndi gera þetta við mig ef við værum kærustupar. Haha sagði ég, yeah right.

Við fórum loksins í Hallgrímskirkju, upp í turn til að horfa á útsýnið. Það var svolítið kalt þar sem það var farið að líða á haustið. Mér fannst þetta vera allt í lagi en þau voru frá Ameríku og fannst kuldinn vera frekar mikill. Karlarnir höfðu orð á því á þann hátt að það ætti að vera fyndið. Þeir sögðu t.d. að það frysi undan manni í þessum kulda. Ég varð að botna þetta þar sem ég er alltaf í samkeppni og sagði: „Ég er ekki með neitt sem getur frosið undan mér.“ Þeir hlógu sig vitlausa vegna þessarar athugasemdar. Mér fannst eins og mér hefði tekist að vinna þennan orðaleik og fékk tilfinningu að ég væri ósigrandi. Það var kannski vegna þess að á þessum tíma var ég í sífelldri baráttu við sjálfsöryggi mitt. Mér fannst eins og ég þyrfti að sanna að ég væri með vit í hausnum.

Þetta var líka að aukast á þessum tíma, þar sem ég var að vakna til vitundar. Ég var líka komin í baráttu við minn eiginn huga. Það var komið eitthvert rót á hann. Ég vissi bara ekki út af hverju.

Við fórum loksins á kaffihús neðar í bænum þar sem ég hafði hitt hann í fyrsta skipti. Þegar hitt parið var að kela eða faðmast eins og ástföngnu fólki er tamt og við vorum að bíða eftir kaffinu, hallaði Jeff sér að mér og hvíslaði: „Ég elska þig.“ Ég brosti og þessi orð yljuðu mér, en á svipstundu hvíslaði hann aftur: „ Ekki láta það stíga þér til höfuðs.“ Brosið hvarf eins snöggt og það hafði birst. Ég fölnaði og fann kaldan svita brjótast fram á andliti mér. Það er hægt að valda ólíkum tilfinningum með orðum á nokkrum sekúndum. Fólk áttar sig ekki alltaf á því.

Ég stóð upp eins og ég ætlaði að fara á klósettið, þar sem ég fann að tárin voru farin að leita fram. Ég ætlaði ekki að láta þau sjá mig tárast. Þegar ég kom niður á baðherbergi tók ég eftir því að þar voru ungar stelpur að snyrta sig sem ég taldi að væru módel sem voru að fara að sýna föt á þessu kaffihúsi. Ég átti auðvelt með að taka mig saman í andlitinu og sneri við.

Þegar ég kom til baka sagði ég við Jeff. Það er fullt af kvenfólki niðri, rosalega fallegar. Sennilega módelsamtökin. Hann sagði þá með glotti: „Ó, ég verð að skoða þær.“ Hann stóð upp og fór niður að salerninu, hann kom samt skömmu seinna og sagði: „Vá, ég gat ekki þolað þetta lengur en fimm sekúndur.“ Ég var frosin eftir þessa atrennu. Ég gat ekki litið framhjá þessu. Það var mjög auðvelt að særa mig, en það var ekki auðvelt að hugga mig.

Vinir hans spurðu hvort við ættum að halda áfram að skoða okkur um í Reykjavík. Þar sem þau ætluðu að vera næturlangt, sagði ég að ég þyrfti að fara að koma mér heim til að taka á móti börnunum. Ég sagðist geta keyrt Jeff heim áður. Ég vildi vera í kringum hann en samt var ég honum reið. Ég held að þau hafi tekið eftir því þegar við vorum að keyra að bílnum mínum. John horfði að minnsta kosti í spegilinn þegar hann var að keyra og mér fannst hann taka eftir því hvernig mér leið. Hann sagði samt ekkert. Jeff sat með glott á andliti eins og hann hefði ekki gert neitt. Ég var reið og mig langaði að öskra á hann. Mig langaði að berja hann í klessu. Ég beit á jaxlinn til að þagga niður reiðina. Þegar við komum að bílnum mínum, þakkaði ég fyrir mig og sagði með bros á vör að ég hefði haft gaman að þessum degi. Þau hlógu og ég dreif mig inn í bíl og beið eftir að Jeff kvaddi þau. Djöfulsins asni er hann, hugsaði ég.

Ég var þögul í langan tíma á meðan ég keyrði. Ég horfði stíft á veginn til að þurfa ekki að hugsa um þetta. Þegar við vorum búin að keyra í 15 mínútur, setti Jeff hendina á hnéð á mér. Ég leit á hann í smástund og sagði svo stíf: „Þetta gæti verið hættulegt.“ Hann dró að sér hendina en glottið á andlitinu á honum var þarna ennþá. Ég var að springa úr reiði. Mig langaði að stöðva bílinn og henda honum út, en ég sat á mér. Hann setti hendina aftur á hnéð á mér. Ég var þögul um stund en sagði svo: „To make a man hungry, you have got to take away his food.“ Hann hætti að brosa og dró hendina til baka.

Jeff fór þá að segja við mig að ég væri búin að gefa honum svo mikið. Ég sagði þá: „Já, ég er búin að gefa þér margt og það er kannski kominn tími til að hætta því.“ „Nei, ekki gera það“ sagði hann. „Þú verður bara að sjá það“ sagði ég þá á móti. Við töluðum ekki mikið meira eftir þetta. Hann var að reyna að fá mig til að brosa og á endanum var ég farin að ná mér af reiðinni. Ég vildi bara klára að keyra hann og drífa mig svo heim.

Þegar við komum að blokkinni sem hann bjó í, beið ég eftir að hann færi út. Hann kyssti mig á kinnina eins og alltaf en í þetta skipti reyndi ég að taka því með köldu hjarta. Ég sagði: „Ekki gleyma töskunni þinni.“ Hann sagði á móti með öryggi: „Það geri ég aldrei.“ Þegar hann var kominn út, lyfti hann upp hendinni og veifaði. Ég horfði á hann köldu augnaráði og spólaði af stað. Ég tók mér samt tíma í að horfa í baksýnisspegilinn og tók þá eftir að hann horfði á eftir mér. Mér var hlátur í huga. Ég hafði sýnt honum eina hlið á skapinu sem ég var með. Mér fannst að hann hefði verið óvarkár með sína eigin hugsjón þegar hann horfði á eftir mér.

 

Jeff, ekki skilja hjarta þitt eftir.

 


Bloggfærslur 24. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband