Kafli 3. Lífið tekur aðra stefnu

3. kafli

Lífið tekur aðra stefnu

 

Í lok ágúst þetta árið stefndi ég til Reykjavíkur, þar sem ég ætlaði að halda áfram með skólann. Ég fékk vinnu í verslun sem verslunarstjóri og Inga vinkona fékk vinnu á sama stað við afgreiðslu. Mér gekk ekki vel með bókhaldið, þar sem ég hafði aldrei unnið við slíkt áður og var oft skömmuð fyrir að kassinn stemmdi ekki við strimilinn. Ég var því fegin þegar Davíð tilkynnti mér það að við hefðum fengið tilboð um að fjárfesta í bakaríi. Þar gæti ég tekið mínar eigin ákvarðanir og passað upp á pappíra fyrir okkar eigin hagsmuni.

Það var vinur Davíðs úr bakstrinum sem hafði samband við hann og bauð honum að gerast eigandi að sínu eigin bakarí. Þessi maður ætlaði að leigja honum húsnæði í Álftaneshverfi undir þessa starfsemi og fyrsta árið yrði leigulaust. Ef hann tæki þessu boði þýddi það að ég þyrfti að hætta í vinnunni sem ég var í.

Við keyptum notuð tæki af seljanda bakarísins sem voru sett á léttar greiðslur til tveggja ára. Davíð var sama um peninga, en honum fannst gott að láta sér líða vel og hafði marga drauma. Hann sá í þessu tækifæri til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði í eigin atvinnugrein. Hann sagðist þó ekkert skynbragð hafa á peningamál og vildi að þau yrðu í mínum höndum. Við leigðum herbergi úti í bæ til að byrja með, á meðan við vorum að bíða eftir varanlegra húsnæði. Þetta var ógeðslegur staður, þar sem við þurftum að deila baðherbergi með öðru fólki og flestir sem leigðu þarna voru geðsjúkir eða dópistar. Davíð dreymdi um fullt af börnum, hús, seglskútu og vildi helst sigla um heimsins höf og búa á skútunni. Hann vildi líka eiga sitt eigið fyrirtæki, þar sem hann vildi ekki vinna undir stjórn annarra. Það var afar erfitt að sjá þetta allt fara saman, án þess að eiga fullt af peningum, búandi á stað eins og þessum.

Áætlanirnar um bakaríið litu allar rosalega vel út og allt hljómaði að minnsta kosti framkvæmanlegt þegar hann lýsti því. Það eina sem setti okkur fótinn fyrir dyrnar var að nafnið hans var á svörtum lista alls staðar. Hann var hvergi metinn lánshæfur. Ég elskaði hann og þess vegna gat ég ekki horft upp á draumana hans deyja. Ég skrifaði því upp á fyrirtækið með nafninu mínu. Hann sagði að ef maður skráði fyrirtæki sem hlutafélag væri ekki hægt að ganga á einstaklinga ef eitthvað kæmi upp á og því væri þetta fullkomlega öruggt. Við fengum fyrirtækið samþykkt og frændi hans ábyrgðist reksturinn, með meistararéttindunum sínum. Ég var skráð fyrir 51% í fyrirtækinu, en hin 49% skiptust jafnt á milli bróður hans, systur og frænda, sem og bróður míns. Það þýddi að ég var með stærstan hlut og þar af leiðandi gat ég tekið allar ákvarðanir eða öllu heldur Davíð. Við vorum svo blönk að bróðir hans þurfti að lána okkur 5.000 krónur fyrir skiptimynt í kassann fyrsta daginn. Bakaríið var svo opnað með pompi og prakt, við fengum heillaóskir og margir gáfu okkur blóm í tilefni dagsins.

Þetta var erfitt verkefni. Við þurftum að byrja að vinna klukkan fjögur á næturna og unnum þangað til sjö á kvöldin alla daga vikunnar. Við ætluðum að vera ein að vinna fyrsta árið til að hafa sem minnstan launakostnað. Þegar við vorum búin að vinna svona í sex mánuði, sáum við okkur ekki fært að gera það áfram vegna álags. Við réðum systur Davíðs til að vinna á móti okkur. Þetta stytti vinnudaginn töluvert, en við gátum þá bæði farið heim um tvöleitið. Við fengum íbúð fyrir ofan bakaríið, þannig að það var stutt í vinnuna og við losnuðum úr þessum ógeðslegu híbýlum sem við höfðum verið í áður.

Eitt sem við gerðum mikið af á þessum tíma var að láta okkur líða vel um helgar, sem einhvers konar verðlaun, þar sem við unnum það mikið. Þetta voru veglegar helgarferðir á dýra matsölustaði, þar sem við drukkum vín og borðuðum dýrindismat. Við vorum ástfangin og bjartsýn á að nú værum við á góðri leið í lífinu. Hann talaði um að eignast börn og ég samþykkti það, þar sem við elskuðum hvort annað. Það er gjarnan þannig með ástfangið fólk að það vill eignast afsprengi til að fullkomna ást sína. Við vissum að við myndum eignast fallegustu börn í heimi! Þessar bollaleggingar voru daglegt brauð þegar við unnum og þegar við vorum að skemmta okkur.

Ég varð ófrísk fljótlega en það vildi svo illa til að ég missti fóstrið á áttundu viku. Það var sárt að upplifa það, en ég talaði þó við lækni sem sannfærði mig um að þetta væri ekki óalgengt og sennilega hefði eitthvað verið að barninu. Hann ráðlagði okkur að prófa aftur eftir nokkra mánuði. Þegar við gerðum það og ég varð ófrísk á ný, skeði það sama og enn og aftur í annað og líka þriðja skipti. Davíð var þarna orðinn rúmlega þrítugur og varð hann smám saman vonlítill um það að hann myndi nokkurn tímann eignast börn. Ég fór þá í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og hann sagðist ekki finna neitt sem skýrði endurtekin fósturlát. Ég þyrfti bara að minnka álagið í kringum mig og reyna svo aftur þegar ég væri betur í stakk búin til að takast á við meðgöngu.

Ég hef alltaf notað listsköpun mikið til þess að takast á við erfiðleika og þá sérstaklega myndlist. Ég málaði því mikið á þessum tíma, enda álagið mikið í kring um bakaríið og sorgin út af fósturlátunum bætti enn meira ofan á það. Davíð sýndi listsköpuninni hjá mér alltaf áhuga og bað mig um að mála fyrir sig málverk af ást minni til hans. Ég gerði það að sjálfsögðu.

Myndin var af konu sem sat á sviði, reif út úr sér hjartað og rétti það fram handa þeim sem vildi þiggja. Hún var nakin en hafði silkislæðu fyrir skýlu, bláa á litinn. Það var tjald á myndinni eins og í leikhúsi sem þýddi að hún gat dregið fyrir. Blóðið af hjarta hennar lak niður handlegginn þar sem hún hélt hjartanu uppi, en blóðið táknaði sársaukann sem fylgir því að gefa ást sína takmarkalaust. Davíð þótti myndin ljót. Mér sárnaði það mjög, enda átti þessi mynd að tákna að ást mín til hans væri takmarkalaus, að ég elskaði hann það mikið að ég gæfi honum hjartað úr mér.

Á þessum tíma vorum við líka að skemmta okkur mikið. Ég sagði þá við Davíð að við þyrftum að fara að minnka þessar skemmtanaferðir, þar sem ég mætti ekki vera að drekka vín þegar ég væri að reyna að verða ólétt. Hann var alls ekki á því hvað hann varðaði og sagði að ég þyrfti ekkert að koma með og að hann þyrfti ekki að hætta að drekka, þar sem hann væri ekki að ganga með barnið. Mér fannst það nokkuð tillitslaust af honum að geta ekki staðið við hliðina á mér í þessu og leið eins og ég væri ein að reyna að eignast þetta barn.

Ofan á allt annað, fór líka að halla undan fæti við að borga skuldir á þessum tíma. Ég taldi að það væri út af skemmtanalífinu, þar sem ég var búin að reikna þann kostnað sem fór í það og fann út að við ættum auðveldlega að geta borgað af skuldum, ef við værum ekki að eyða peningunum í veitingastaði og drykkjuskap. Ég hætti því að fara með út á lífið, þar sem ég vildi ekki vera sú sem stæði að því að eyða peningum. Þegar okkur fór að ganga illa að borga húsaleigu sagði ég stopp, en Davíð tók ekki í mál að hætta að fara út á lífið. Ég skipti því um vinnu og yfirgaf bakaríið og fór að vinna í Miklagarði við Sundahöfn og ætlaði að nota þá peninga í húsaleiguna. Mottóið hans Davíðs var alltaf að við ættum skilið að lyfta okkur upp um helgar og við vorum því á öndverðum meiði um forgangsröðunina.

Við fórum að rífast mikið á þessum tíma. Yfirleitt byrjuðu rifrildin út af afbrýðissemi í Davíð, í kjölfar drykkju, tillitsleysis í garð míns og daðurs við aðrar konur eða peningamál, hvort sem það var að borga af lánunum á vélunum eða lífeyrisjóðsláns sem Davíð hafði fengið mömmu sína til að taka þegar hann var með bakaríið á Reykjanesi. Við gátum svo sæst á ástríðufullan hátt þegar reiðin var runnin af okkur báðum.

Áramótin 1989 vorum við að skemmta okkur með vinum hans Davíðs, Kolbeins og Júlíönnu. Þau áttu tvö fósturbörn og eina stelpu saman. Þegar partíið stóð sem hæst og það var farið að nálgast miðnætti, langaði mig að fara að hitta vinkonur mínar. Davíð fannst það ekki sniðugt og sagði að það kæmi ekki til greina að ég færi. Ég varð hissa þar sem ég vissi ekki betur en að honum líkaði vel við þær. Þegar ég ýtti á að fara, sagði hann við mig að ég væri vanþakklát ef ég færi, svo ég sagði við hann að hann gæti komið seinna að hitta okkur.

Þegar ég var komin í skóna stóð Davíð í dyrunum og byrjaði að ögra mér, sagði mér að slá hann. Þetta kom flatt upp á mig og ég sagði við hann að það kæmi ekki til greina að ég færi að slá hann. „Ef ég er svona mikið fífl, sláðu mig þá“ endurtók hann, svolítið ýtnari, „sláðu mig!“ Hann endurtók þetta aftur og aftur og það endaði með því að ég sló hann. Ég vissi ekki fyrr en ég flaug út um dyrnar og hann tuskaði mig til í æsingi, þangað til fötin mín rifnuðu utan af mér. Ég reif mig lausa og hljóp út í myrkrið.

Þessir vinir hans áttu heima í Kópavogi og ég labbaði alla leið frá þeim og upp í Breiðholt. Mamma og pabbi tóku á móti mér og það var augljóst að þeim var brugðið að sjá útganginn á mér. Pabbi sagði ekki mikið, en mamma var ævinlega undirgefin og meðvirk og sagði við mig að fara að tala við Davíð daginn eftir og segja honum að ef hann gæti sleppt því að gera svona, þá gæti ég fyrirgefið honum.

Ég var ekki nema 23 ára gömul og vissi ekki hvað meðvirkni var á þeim tíma eða að þetta væru sennilega ekki skynsamlegustu viðbrögðin við svona ofbeldi. Ég fór því til hans um morguninn og fann hann sofandi með andlitið upp að veggnum. Ég sá að hann rumskaði þegar ég kom inn, svo ég sagði; „Davíð, ef þú getur sleppt því að gera svona, get ég fyrirgefið þér.“ Hann sneri sér þá við og faðmaði mig og við kysstumst í sátt og hann lofaði því að gera þetta aldrei aftur.

Þessi uppákoma var ekkert annað en undanfari þess sem koma skyldi en það vissi ég ekki þá. Ég vonaði að þetta væri aðeins tilviljun vegna álagsins sem það olli honum að sjá um bakaríið einn og sorginni yfir að ekkert gekk að verða ólétt. Það fór þó fljótlega að bera á vandamálum við að greiða skuldirnar og virðisaukaskattinn vegna bakarísins.

Við fengum bókara með okkur í lið og hann setti okkur stífar reglur um bókhaldið á rekstrinum. Þvert á ráðleggingar bókarans, tók Davíð peninga úr kassanum til að fara á djammið. Ég var með prókúru á heftinu og neitaði að láta hann fá ávísanir. Bókarinn var búinn að segja okkur að þetta væri algjörlega bannað ef fyrirtækið ætti að njóta velgengni. Davíð gat ekki sleppt því að fara á pöbbinn og fór því sínar eigin leiðir í þessum málum. Þar sem ég var ung og óreynd sá ég ekki hvert þetta stefndi og þar sem ég var farin að vinna annars staðar, tók ég ekki jafn vel eftir bókhaldinu og áður. Ég var gjörsamlega búin að missa þolinmæðina á því að geta látið reksturinn ganga upp, þar sem allar ráðleggingar bókarans fóru inn um annað eyrað á Davíð og út um hitt. Hann var tekinn við bókhaldinu sjálfur og það var ekki betra en svo að hann var með allar kvittanir í poka og gerði svo upp mánaðarlega.

Hann var hættur að vilja hafa mig með þegar hann fór út að skemmta sér. Hann sagði jafnvel að ég væri leiðinleg með víni og að vinir hans vildu ekki að við værum saman, þar sem við enduðum á því að rífast í hvert skipti.

Ég var einstaklega lítil í mér og kenndi mér um þetta allt saman, en þar sem ég var með sífelldar áhyggjur af því að fyrirtækið næði ekki að standast þetta hirðuleysi, vissi ég ekki hvernig ég ætti að snúa mér í þessu. Ég reyndi samt að róa mig yfir þessu og lét hann um bókhaldið til að samband okkar færi ekki út um þúfur.

Ég elskaði Davíð og hann elskaði mig, það var ekki vandamálið. Við vorum ekki sammála um hvernig ætti að sinna peningamálum, en ef ég lokaði augunum fyrir því, leit þetta betur út. Ég hætti því að skipta mér af fyrirtækjarekstrinum, en ég var samt mjög afbrýðisöm þegar hann var að fara á pöbbarölt með Kolbeini og treysti honum einhverra hluta vegna ekki fyrir því að vera mér trúr. Ég vonaði það alltaf, en stundum elti ég hann á pöbbinn, bara til að vera viss. Ég var sár út í hann, en á sama tíma full af skömm fyrir að vera svona leiðinleg. Af hverju gat ég ekki slakað á eins og þau? Af hverju var ég alltaf með þetta samviskubit? Ástin á Davíð var svo mikil að sársaukinn varð enn meiri að við gætum ekki átt fallegt og friðsamlegt heimili.

Á þessum tíma hætti ég í skólanum vegna þess að þegar ég fór í hann á kvöldin fór Davíð að drekka á miðvikudögum og afsökun hans var að honum leiddist að vera einn heima þegar ég væri í skólanum. Metnaður minn til að klára skólann var minni en metnaður minn til að hann væri hamingjusamur. Einnig hætti ég að umgangast vinkonur mínar, eins og að fara í saumklúbb, þar sem ég hafði stanslausar áhyggjur að þá myndi hann fara að drekka. Það var eins og ég væri að reyna að stjórna drykkjunni með því að vera nógu mikið í kringum hann. Auðvitað var ég hrædd við ofbeldið en ég var sérstaklega hætt að þola þessa drykkju í honum. Samt áttaði ég mig ekki á hvað þetta var orðið sjúklegt.

Einn daginn sem ég fékk útborgað keypti ég leðurjakka handa Davíð og þar sem hann var ekki heima fór ég að leita að honum af því að mig hlakkaði svo til að sjá hvað hann yrði glaður. Ég fann hann á pöbb í Ármúlanum við hliðina á Hótel Íslandi. Hann var þar með Kolbeini vini sínum og þegar ég birtist og afhenti honum jakkann, ljómaði hann af gleði yfir því hvað hann ætti góða kærustu. Hann fór í jakkann og var rosalega mikill töffari í honum og hrópaði yfir pöbbinn: „Sjáið hvað ég á æðislega kærustu!“ Mér fannst hann elska mig svo mikið við þetta að allir erfiðleikar hurfu eins og dögg fyrir sólu, að minnsta kosti þetta kvöld.

Ég sá reikningana hrannast upp. Ég sá peningana fara í veitingastaði og vín allar helgar og reikningarnir komu inn einn af öðrum. Lögfræðingar voru hringjandi og bankandi á hurðina oftar og oftar og á endanum sagði Davíð mér að segja þeim að hann væri ekki heima. Fyrirtækið var á mínu nafni og þeir vildu að ég tæki ábyrgðina. Mamma hans var ábyrg fyrir mörgu í fyrirtækinu og hún hringdi í mig til að biðja mig um að tala við hann, vegna þess að þegar hún reyndi það, varð hann reiður og sagði henni að halda kjafti. Hún var því hrædd við hann.

Þá datt Davíð og Kolbeini í hug að stofna veisluþjónustu. Hún var hugsuð á þann hátt að kirkjur með jarðafarir og einstaklingar með fermingarveislur, gátu pantað sér smurbrauð og kökur í veisluna. Þeir vinirnir létu prenta bækling sem var rosalega vandaður og fengu ljósmyndastofu til taka að sér að taka myndir af kökum og snittum sem þeir framleiddu. Ég stóð á hliðarlínunni, þar sem samband okkar stóð á völtum fótum og þetta var draumaverkefni þeirra vina. Þeir keyptu svo bíl sem var sprautaður í skærum litum til að tákna fjölbreytni.

Helgina sem þeir settu þessa þjónustu af stað, urðu pantanir svo rosalega margar, þar sem það voru ekki til aðrar svona veisluþjónustur. Þetta var eiginlega brautryðjandastarf. Það hrúguðust inn pantanir og bíllinn hafði ekki undan að keyra út svo það þurfti að fá leigubíla til að bjarga málunum. Það var verulega kostnaðarsamt en samt sem áður tókst þeim að selja fyrir sexhundruð þúsund krónur yfir eina helgi. Þá var mánaðarinnkoman í bakaríið um þrjúhundruð þúsund krónur að vetri til en sjöhundruð þúsund krónur á sumrin þegar ferðamenn sóttu staðinn.

Þetta voru auðvitað rosalegar fréttir þessa fyrstu helgi og þeir töldu sig vel stadda og hafa dottið í lukkupottinn. Auðvitað var haldið upp á þetta þegar þeir lokuðu og þeir hrundu í það. Mér fór að finnast, að það væri möguleiki að borga skuldirnar sem voru um tvær milljónir króna. Þegar líða tók á, sá ég samt að flottræfilshátturinn á vinunum varð meiri eftir því sem meiri peningar komu í kassann. Ég hélt samt áfram að vinna í Miklagarði, þar sem launin þar voru einu peningarnir sem ég gat stjórnað og ég vildi ekki að við myndum missa heimilið. Ég fann til ábyrgðar að fá manninn minn til að átta sig á því að þetta væri farið að ganga út í öfgar. Þá sagði hann mér bara að þegja og láta sig í friði. Á sama tíma var ég að reyna að þóknast honum og gleðja hann. Ég var að leita að lausn. Hvernig gæti ég búið til pening til að borga þessa reikninga?

Það var ósjaldan að ég var að reyna að fá Davíð til að borga reikningana eða mömmu sinni og þá átti hann það til að koma heim eftir fyllerí og annaðhvort henda öllu út úr eldhússkápunum eða brjóta rúmið sem ég svaf í. Í eitt skiptið henti hann mér meira að segja út á gang í nærbuxunum einum fata. Ég tók oft á móti, en þegar ég gerði það endaði ég gjarnan með glóðarauga. Ég réttlætti það fyrir mér þannig að hann gerði þetta bara þegar hann væri í glasi. Þess á milli var hann yndislegur.

Pabbi minn var farinn að átta sig á ástandinu og vildi tala við hann. Það var sérstaklega þegar ég kom til þeirra eftir eitt svona skiptið og bað um að fá að gista. Ég vildi ekki að pabbi talaði við hann, þar sem ég vissi að Davíð þoldi ekki pabba og ég óttaðist að ofbeldið yrði verra ef pabbi blandaðist í málið. Pabbi hafði tekið lán fyrir okkur til að borga virðisaukaskattinn og þegar það féll á gjalddaga, kom pabbi mjög pirraður og skellti ítrekuninni á borðið fyrir framan Davíð og sagði að svona vildi hann ekki sjá aftur. Davíð var mjög ergilegur út af þessu og sagði við mig að pabbi minn væri klikkaður. Mér fundust þetta eðlileg viðbrögð hjá föður mínum. Ég vildi borga skuldirnar mínar en þorði ekki að standa með pabba, þar sem ég vissi að þá myndi Davíð ásaka mig fyrir að vera á móti sér.

            Eftir að við vorum búin að vera sundur og saman vegna ósamlyndis, var mér sagt af frænku hans að hann væri búinn að halda framhjá mér. Hún sagði mér það eina helgina þegar Davíð hafði hent í mig vodkapela og farið án mín með vinum sínum í sumarbústaðinn, vegna þess að ég væri svo leiðinleg. Ég hafði hent pelanum í hann til baka og sagt honum að drekka hann sjálfur. Ég vissi að þetta var eina af aðferðum hans til að réttlæta enn eitt fylleríið að ég væri drekka heima. Þegar frænka hans varð vitni að þessari hegðun hans, gat hún ekki þagað yfir þessu með framhjáhaldið þegar hann var farinn. Hún bað mig þó innilega að segja honum ekki frá að hún hefði sagt mér þetta. Ég gaf henni loforð um það sem ég vissi að ég gæti kannski ekki staðið við en það voru þá ekkert hundrað í hættunni. Hann myndi aldrei gera henni neitt.

Vitneskjan um framhjáhaldið var svo sár og ég varð svo reið að ég fann þann sársauka inn að beini. Mér varð óglatt og ég gat ekki borðað. Ég var líka farin að horast mjög mikið á þessum tíma en tók ekki eftir því sjálf. Fólk var farið að spyrja mig af hverju ég væri svona grönn. Sumir héldu að ég væri með anorexíu eða jafnvel krabbamein.

Þegar hann var farinn í bústaðinn, tók ég myndina sem ég málaði fyrir hann, skar hana í tætlur, skar hjartað í marga búta, braut rammann og henti henni út í horn.

Frænkan reyndi allan föstudaginn að fá mig með sér út að skemmta okkur, svo ég gæti leitt hugann frá þessu. Það var ekki fyrr en á laugardag að ég sló til. Það var um það leyti sem Davíð birtist óvænt heima, kominn úr bústaðnum. Þegar hann sá að ég var að fara út að djamma, sagði hann að ég gæti gleymt því að koma heim það kvöld ef ég færi. Þar sem ég vissi þá allt um framhjáhaldið sagði ég við hann að mér væri alveg sama.

Við frænkan skemmtum okkur konunglega og með beisku brosi reyndi ég að gleyma því sem ég hafði komist að. Það er ekki svo auðvelt þegar maður er kominn í glas. Við enduðum í partíi þessa nótt og ég var í eldhússumræðum við eldri mann sem hafði heyrt í mér þegar ég kallaði um allan bæinn: „Karlmenn eru ASNAR!“ Honum fannst að hann verða að gefa eitthvað af sér.

Við spjölluðum alla nóttina á meðan aðrir drengir í partíinu voru að reyna að toga mig inn í stofu til að dansa og skemmta mér. Við töluðum um framhjáhöld og fyllirí og hjónabönd sem færu í vaskinn við svona líferni. Hann sagði mér sögu af sér og sinni fyrrverandi, þar sem hann hefði verið sökudólgurinn. Þau höfðu farið til einhvers sálfræðings og hann hefði hjálpað þeim báðum, án þess að það hefði endilega bjargað hjónabandinu. Hann vildi borga fyrir mig tíma hjá þessum sálfræðing og hann lofaði að hann myndi aðeins hringja í mig tvisvar. Fyrst til að segja mér hvenær ég ætti að mæta og næst til að vita hvort ég hefði farið. Ég samþykkti á endanum að fara og spurði hann hvað hann héti. Hann svaraði: „ Ég heiti Ingólfur og kallaður Jón.“ –„ Jæja, Jón kallinn, þakka þér fyrir tímann og hjálpina, ég gleymi þér aldrei.“ Þetta var svona verndarengill sem maður hittir kannski einu sinni á lífsleiðinni.

Ég fór ekki heim þetta kvöld og fór til mömmu og pabba til að fá að gista einsog venjulega þegar við Davíð vorum, upp á kant við hvort annað. Þar ætlaði ég að vera og reyna að koma mér út úr þessu sambandi.

Ég fór í þetta viðtal og þrjú til viðbótar. Það nýttist mér vel og þessi sálfræðingur sagði við mig þegar ég var að kvarta yfir einmanaleika í öllu þessu ástandi: „Við fæðumst ein og við deyjum ein. Hvað er að því að vera einn, einhvern tímann á lífsleiðinni?“ Þegar viðtölin voru yfirstaðin hafði ég komist að niðurstöðu. Ég áttaði mig á því að ef ég væri með villtan fugl úr náttúrunni og setti hann inn í búr, þá myndi hann veslast upp og deyja á endanum. Ég ákvað að sleppa þessum fugli sem ég bjó með, hægt og rólega þegar við værum bæði tilbúin, og leyfa honum að fá frelsi sitt.

Ég gat samt ekki farið frá Davíð nema í viku, þar sem ég elskaði hann svo mikið að ég gat ekki borðað án þess að vera með honum. Ég gekk á hann viku eftir þetta og bar upp á hann framhjáhaldið. Hann reyndi að ljúga sig út úr þessu, en þegar ég benti honum á staðreyndir sem frænka hans hafði sagt mér, viðurkenndi hann það loksins. Þegar hann bað mig afsökunar og kom með einhverjar fáránlega afsökun um að hann hafi verið svo einmana féll ég í faðm hans og gat þá borðað. Ég fékk mér egg og beikon og borðaði eins og úlfur, þar sem ég var ekki búin að hafa neina lyst í viku.

Mér fannst að ég væri föst í hlekkjum ástarinnar og gæti ekki farið frá honum, þó ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri ekki hollt samband. Ég þurfti fyrst að brjóta niður allar tilfinningar gagnvart honum áður en ég gæti farið. Systir mín spurði mig af hverju ég færi ekki. Þá sagði ég við hana: „Fyrst verð ég að drepa tilfinningar mínar.“ Henni fannst það sorglegt.

Eftir þetta reyndi ég að gleyma en sársaukinn var stöðugur. Það var allt traust farið og þegar þarna var komið við sögu, var fyrirtækið orðið mjög illa statt og reikningarnir hrönnuðust upp og það stefndi í það sem ég hræddist mest. Gjaldþrot var framundan og þegar ég frétti að því var ekki afstýrt hrundi veröld mín. Þó að Davíð hafði sagt mér að það væri ekki hægt að ganga á mig eina, var það vitleysa.  Þar sem eignaskiptasamningur lá ekki inni þýddi það að ég ein bar ábyrgð á fyrirtækinu. Þetta var mikið áfall fyrir mig og veröld mín hrundi. Ég skammaðist mín svo mikið og var svo sár út í sjálfa mig. Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat maðurinn minn gert mér þetta? Hvernig gat hann verið svona vitlaus og haldið að það væri hægt að komast hjá þessu? Við slitum samvistum og ég flutti til pabba og mömmu skömmu eftir þetta, þar sem ég þurfti tíma til að hugsa.

Ég fór í bankann og tók út skyldusparnaðinn til að kaupa mér bíl. Það var gamall bíll en ég átti hann og það skipti máli, skuldlaus og nógu ódýr til að enginn nennti að taka veð í honum. Þetta var tjónabíll og bróðir minn Tryggvi hjálpaði mér að laga hann. Ég var að reyna að vera bjartsýn og byrja upp á nýtt en á sama tíma gat ég ómögulega hætt að hugsa um Davíð.


Bloggfærslur 17. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband