Kafli 21 Endir

  1. kafli

 

Það fór þó eins og mig grunaði. Ég fór af stað 14. desember og hringdi í systur mína, þar sem hún ætlaði að vera viðstödd ef Asjad kæmist ekki tímanlega. Þegar ég fór niður á spítala með verki, var ég samt send aftur heim. Mér var sagt að fá mér te. Ég gerði það á milli hríða, en ég ældi því jafnóðum. Klukkutíma seinna hringdi ég aftur í systur mína og móður og sagði að þetta væru raunverulegir verkir. Það endaði með því að það þurfti að senda sjúkrabíl að ná í mig, þar sem hríðirnar voru með stuttu millibili og ég var farin að rembast á stofugólfinu. Ég náði samt niður á deild og strax og ég kom inn, fæddist drengurinn, Þegar strákurinn fæddist fékk ég fljótlega að vita að hann væri með litningagalla.

Ég sem hafði eignast tvö börn áður með árs millibili og hafði upplifað hina fullkomnu hamingju að eignast stelpu og strák sem voru heilbrigð á sál og líkama og allir að óska manni til hamingju. Stelpan fékk bleikt teppi og strákurinn blátt. Þá var ég stolt mamma. Þá labbaði ég um gangana og fannst ég eiga fallegustu börn í heimi. Þegar ég sat og horfði á drenginn og dáðist að honum, fannst mér þessi tilfinning koma í örskamma stund. Læknirinn kallaði mig svo inn til að segja mér frá ástandi drengsins. Ég var ein þegar ég fékk að vita að það léki grunur á því að barnið væri með Downs heilkenni. Það væri þó ekki alveg víst en það væru nokkur atriði sem bentu til þess.

Ég þurfti að bíða í þrjá daga eftir niðurstöðum. Mikið óskaplega voru það erfiðir dagar. Ég varð dofin og ég bað til Guðs um að þetta væri vitleysa. Ég fór svo til sonar míns og settist hjá honum á meðan alls konar hugsanir leituðu á mig. Ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða gleðjast og hugsunin um það hvort ég væri fær um að sjá um svona barn var mér efst í huga.

Ég fékk loksins niðurstöðurnar á föstudegi, þar sem læknirinn vildi ekki leggja það á mig að lifa í óvissu fram yfir helgina. Þær voru jákvæðar og ég man að ég táraðist. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var hvernig fólk tæki honum. Læknirinn sagði: „Það hefði getað verið verra.“ „Já“ sagði ég, „hann hefði getað dáið.“ Svo komu alls konar spurningar eins og: „Hvað mun hann geta í framtíðinni?“ Þá svaraði læknirinn: „Ja, hann verður að minnsta kosti ekki stjarneðlisfræðingur.“ Já, hugsaði ég, hneyksluð, það verða ábyggilega hinir krakkarnir ekki heldur. Mér fannst að læknirinn hefði mátt koma með rökréttari svör.

„En mun hann getað spilað tölvuleiki?“ spurði ég þá „Já, já“ svaraði læknirinn. „Jæja, það er nóg fyrir mig“ sagði ég. Þá myndi hann að minnsta kosti gera það sem önnur börn gera. Læknirinn sagði einnig við mig að eitt væri víst og það væri að með fæðingu hans kæmu að minnsta kosti tíu aðilar inn í líf okkar til að hjálpa við að þroska hann og hjálpa honum að takast á við þá fötlun sem myndi aftra honum við að ná sama árangri og önnur börn. Hann sagði líka að við foreldrarnir myndum verða sérfræðingar í fötlun sonar okkar. Svo sagði hann að við myndum vita meira um hvernig ætti að sinna honum en sprenglærðir sérfræðingar. Ég vissi ekki hvað það þýddi og kveið fyrir þessu hlutverki.

Þegar ég gekk með hann í vöggunni um gangana, þá lá við að ég heyrði einhvern segja: Yfir hverju ertu að gleðjast? Það var bara inni í hausnum á mér en ég tók eftir því að hjúkrunarfólkið og þeir sem komu í heimsókn voru frekar hljóðir og vissu ekki hvað ætti að segja við mig. Ég sagði móður minni frá þessum grun og hún þaut upp á spítala til að skoða barnið. Þegar hún kom þangað vildi hún ekki trúa þessu, þar sem henni fannst ekkert sjást á drengnum. Hún varð fjúkandi reið í fyrstu og vildi fá að tala við þennan lækni sem væri að fylla dóttur hennar af þvílíkri endemis lygi.

Asjad var því miður ekki nærri en ég hafði vonast eftir stuðningi minna nánustu. Ég fann þó aðeins fyrir vonbrigðunum og særindunum sem helltust yfir þá. Mér leið eins og að ég væri búin að gera herfilegustu mistök ævi minnar og að nú hefði ég brugðist öllum. Systir mín hafði fyrr á árinu misst tvíbura rétt eftir fæðingu svo það var varla á það bætandi fyrir fjölskylduna að verða fyrir fleiri áföllum. „Aumingja Asjad “ heyrði ég, þar sem ég átti tvö heilbrigð börn úr fyrra hjónabandi en þetta var hans fyrsta. Hann átti svo sannarlega bágt. Mér leið eins og að allir væru að reyna að laga eitthvað sem afvega hefði farið. Ég fór að spyrja sjálfa mig að því hvar þessi jarðaför væri sem ég mér fannst allir vera að fara í.

Ég fór svo út að reykja, þar sem það var nú ekki það versta í heimi að gera við þessar aðstæður. Þar hitti ég konu sem var í heimsókn hjá dóttur sinni. Dóttir hennar átti barn fyrir tímann sem var inni á vökudeild. Hún spurði mig hvort ég hefði verið að eiga. Ég svaraði því játandi. Þá spurði hún mig hvort kynið ég hefði fengið og ég sagði dreng. Þá spurði hún mig hvort hann væri ekki frískur. Ég sagði: „Jú, hann er frískur en hann er með Downs heilkenni.“ Hún þagði í smá stund. Svo sagði hún við mig að þegar hún var yngri hefði hún eytt fóstri með Downs-heilkenni á 22. viku. Hún sagðist ekki hafa treyst sér til að hugsa um svoleiðis barn. Þarna var ég að berjast við þessa tilfinningu, hvort ég ætti að gleðjast en þetta virtist vera einhvers konar staðfesting fyrir mig um að ég hefði verið að eignast óæskilegt barn. Þegar konan var farin inn, stóð ég ein eftir og horfði upp að Hallgrímskirkju og beindi huga mínum til Guðs.

Mig langaði að segja svo margt við Guð en það eina sem mér datt í hug var að þakka honum fyrir þennan dreng. Mér fannst ekki eiga við að vera að kvarta og ég vildi að Guð vissi að þessi gjöf frá honum væri ekkert verri en þó barnið hefði verið heilbrigt, enda var ég búin að lofa honum að standa mig þegar ég hafði eytt barninu um árið.

Þegar ég fór inn í herbergi til sonar míns, horfði ég á hann og hugsaði um þetta samtal. Er þetta svona sjálfsagt? Ég hafði aldrei velt þessu fyrir mér. Sonur minn í vöggunni er óæskilegur. Þessum börnum er bókstaflega hent í ruslið. Ég horfði á ruslafötuna og hugsaði um hvað yrði gert ef ég henti honum í ruslið af því ég treysti mér ekki í þetta og labbaði svo út. Bara svona til að vekja athygli.

Ég hugsaði um hvort það væri munur á því að eyða því á 22. viku eða henda því við fæðingu. Já, það er einhver sjáanlegur munur. Þegar barnið er fullgengið á það sér lífsvon og það eru bara vondar mæður sem ganga út frá svoleiðis barni. Hvað er lífsvon? Vonin um að lifa heilbrigður, eiga góðan maka, eignast fölskyldu, hafa vinnu, eignast barnabörn og sjá þau dafna? Það kom einhvers konar verndartilfinning yfir mig. Mér leið eins og ég yrði að berjast fyrir drenginn. Það var eins og einhver þrjóska heltæki mig. Ég ætlaði að láta hann finna það að ég elskaði hann, hvernig sem ég færi að því, þó svo að ég fyndi ekki fyrir móðurástinni strax.

Þegar hjúkrunarkonan kom til mín til að segja mér að þau væru að hugsa um að setja hann inn á vökudeild til að setja upp sondu, neitaði ég og sagði henni að ég gæti alveg gefið honum brjóst sjálf. Þegar dóttir mín fæddist hafði hún verið með gulu og svaf í margar vikur sem þýddi að ég þurfti að mjólka mig og vakna upp á þriggja tíma fresti til að gefa henni að drekka til að hún myndi þyngjast. Ég gæti alveg gert það með þetta barn.

Það var eins og ég væri að berjast við það að sýna drengnum að ég myndi elska hann. Ég þyrfti bara tíma til að venjast honum og læra á hann.

Pabbi minn sendi Asjad tölvupóst til að segja honum fréttirnar. Þegar ég fór svo heim til að tala við Asjad á Internetinu, sagði ég honum að þau vildu ekki sleppa mér út fyrr en hann kæmi. Hann sagði mér að hann myndi panta miða sem fyrst og yrði komin fyrir jól. Ég útskýrði svo fyrir honum hvað væri að drengnum og þá spurði hann mig að því hvort hann yrði svona slefandi eins og hann orðaði það. Ég hló að þessari athugsemd og sagði við hann að það þyrfti ekkert að vera.

Ég hafði nóg að gera á meðan ég beið eftir Asjad. Það var ýmislegt sem ég þurfti að læra og ég var mestallan tímann í mjaltaherberginu til að reyna að auka mjólkina á meðan stálminn var sem mestur. Þetta var heilmikil vinna og tók langan tíma. Vélarnar voru heldur ekkert rosalega öflugar og það er tvennt ólíkt að mjólka sig þannig en að gefa barni brjóst sem sýgur vel. Náttúran er miklu fullkomnari en okkar vélrænu róbotar sem við mennirnir erum að reyna að láta líkja eftir henni.

Þegar Asjad kom loksins var hann brúnn og sællegur og það fyrsta sem hann gerði var að kyssa mig og fara svo að vöggunni þar sem drengurinn lá. Hann tók hann upp og knúsaði hann og kyssti á ennið. Svo gekk hann um spítalann með hann í fanginu og brosti út að eyrum. Ég held að honum hafi fundist drengurinn mjög sætur og krúttlegur.

Þegar við komum heim með barnið var ég að reyna að átta mig á því sem hafði gerst. Ég leitaði í huga mér að því sem ég hafði verið hugsa alla ævi. Ég fór að reyna að átta mig á þessu barni. Maðurinn minn sagði mér að þegar ég hefði orðið ófrísk í annað sinn, hefði hann beðið til Guðs um að barnið mundi ganga á hans vegum. Þessi börn eru stundum kölluð börn Guðs. Þó svo að öll börn séu börn Guðs, þá virðist eins og þessi börn séu nær honum. Það er kannski vegna þess að þau ná ekki þeim þroska sem heilbrigð manneskja nær. Þroski mannsins felst í því að átta sig á raunveruleikanum.

Fyrstu dagana sat ég við vöggu drengsins og horfði á hann. Ég var að reyna að sjá þessa fötlun. Mér fannst ég vera með barn sem ég þekkti ekki. Þó að maður þekki börnin sín ekki svona strax eftir fæðingu, fannst mér hann vera mér meira framandi en hinir krakkarnir voru svona ung, vegna þess að ég vissi ekki hvað þroskaskerðing hans yrði mikil.

Ég fór á netið til að slá upp orðinu Downs heilkenni, þar sem þetta orð glumdi í eyrunum á mér. Ég fann alls konar síður um þetta heilkenni. Sumar síðurnar sögðu frá upplifun foreldra sem eignuðust börn sem voru með Downs heilkenni. Ég las allt um þroskafrávik og heilsubresti sem fylgja þessari fötlun. Ég las um einkenni sem voru algeng hjá þessum börnum, eins og flöt nefrót, skásett augu, stór tunga og margt annað sem átti að staðfesta þetta heilkenni. Ég vissi að 21. litningur hafði greinst þrefaldur en ég gat ekki séð á honum að hann væri með öll þessi útlitseinkenni. Ég hélt að augun á honum væru skásett vegna þess að hann væri hálfur Pakistani.

Ég las að foreldrar væru að fara með börnin sín til lýtalæknis til að laga nefrótina og augun svo þau myndu líta út eins og venjuleg börn og að það væri hægt að gera þetta í Ameríku. Ég las einnig um það að sumir foreldrar væru að gefa börnunum háan skammt af A vítamíni til að koma í veg fyrir heilaskaða, sem forðast mætti með því að passa vel upp á vítamínbúskapinn. Ég leitaði svona í nokkrar vikur að lausn til að laga þessa fötlun. Þegar ég var önnum kafin við að leita, fann ég spjallsíður þar sem foreldrar voru að tala saman um tilfinningar sínar gagnvart því að eignast fatlað barn. Þegar ég var búin að vera inn á þessum síðum, sem var farið að verða æ oftar frekar en á fræðslusíðunum, áttaði ég mig á mikilvægum hlut.

Ég starði á tölvuna og spurði sjálfa mig: Hvað ertu að gera? Ég sagði svo upp úr þessari hugsun: Góði Guð, hjálpaðu mér að byrja að elska hann. Ég verð að faðma hann í staðinn fyrir að horfa á hann. Ég verð að fara að njóta þess að finna lyktina af honum áður en hann vex upp úr þessum aldri, finna fyrir mjúku ungbarnahúðinni sem gerir hann svo fullkominn. Þessar litlu hendur og þessar litlu tær voru ástæða til að finna að ég ætti son sem þyrfti á mér að halda. Ég þurfti að halda á honum í fanginu og gefa honum alla þá hlýju sem hann ætti skilið að fá.

Ég sagði: Góði, Guð, hjálpaðu mér að opna hjarta mitt fyrir honum. Ég veit að sumu fólki fannst þessi hegðun undarleg. Að leita leiða til að laga börnin sín. Það virðist vera svo sjálfsagt að þykja vænt um þau. Sumir hneykslast á því að maður sé að gera mál úr fötlun sem er ekki svo alvarleg. Það er bara nauðsynlegt að taka tillit til þeirra sem hafa ekki lent í áföllum eða erfiðleikum. Maður þarf að vera umburðalyndur gagnvart sorg þeirra sem er ekki endilega eins alvarleg og sú sem maður hefur sjálfur lent í. Fólk á það til að miða við sína eigin reynslu og er fordómafullt fyrir breyskleikum annarra. Það getur ekki upplifað sorg sem aðrir hafa orðið fyrir.

Það var ekki eins og sonur minn væri að fara deyja. Það voru bara áhyggjur mínar af því hver framtíð hans yrði með þessa fötlun. Ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast en vildi að hann myndi njóta allra möguleika sem væru í boði. Það kom yfir mig ótrúlega sterk tilfinning um að lifa fyrir þennan dreng, þar sem ég hafði tvisvar á ævinni reynt að taka mitt eigið líf vegna þess að mér fannst ég vera fyrir eða að fólk væri betur án mín komið.

Mér fannst því þessi drengur vera hjálparvana, þar sem hann lá í vöggunni án þess að vita hver myndi sjá um hann. Hann þyrfti alla ævi að treysta á aðra til að sjá um velferð sína, þar sem hann gæti ekki gert það sjálfur. Þá fann ég sterka löngun til að lifa fyrir hann. Ég vissi að hinir krakkarnir gætu að lokum séð um sig sjálfir en það myndi hann aldrei geta. Því fann ég að ég þyrfti að passa það að lifa eins lengi og mögulegt væri. Ég fór að telja árin sem ég þyrfti að lifa með syni mínum. Lífaldur fólks með Downs heilkenni er almennt styttri en fólks sem er heilbrigt eða um 60 ár. Ég þyrfti því að verða um 94 ára gömul.

Ég hélt að sýnir mínar þremur árum áður væru að rætast þegar ég hitti manninn minn sem var hreinn sveinn og varð svo ófrísk af þriðja barninu. Þá hélt ég að ég væri að eignast þetta sérstaka barn sem ég taldi að Guð hefði lofað mér. Gat það verið að ég hefði stuðlað að þessu eða voru ranghugmyndir mínar að rætast, þegar ég hafnaði barninu sem ég var ófrísk af áður? Var það hann sem var í sögunni og vegna þess að ég trúði ekki, sendi hann mér þá barnið sem var blint, eins og þegar Jesús var þegar hann datt niður til helvítis? Var ég enn með ranghugmyndir eða var ég að upplifa framtíðarspá? Ég sem hélt í geðrofinu að ég myndi eignast barn sem myndi leiða heimsbyggðina til sannleikans.

Síðar sat ég einn daginn djúpt hugsi við eldhúsgluggann. Maðurinn minn kom inn í eldhúsið og spurði: „Hvað ertu að hugsa Andrea, af hverju ert þú svona langt í burtu?“ Mér fannst eins og ég hefði átt að vita að hann væri að koma, þessi sérstaki drengur. Mér var nefnilega farið að líða þannig að barnið væri það barn sem maðurinn í ranghugmyndunum hefði sagt mér að ég myndi eignast. Asjad kom langt að utan og mér fannst einsog maðurinn sem talaði við mig í gegnum huga minn þegar ég veiktist væri að tala um hann.  Þetta voru sennilega ranghugmyndir en ég leyfði mér að hugsa þetta þannig að ég hefði séð fram í tímann. Að vera með geðsjúkdóm einsog ég hefur þau áhrif að þegar maður lendir í geðrofi breytir það sýn manni á lífið. Það er ekki svo auðvelt að átta sig á raunveruleika lífsins þegar maður var búin að upplifa ranghugmyndir sem virtust vera svo raunverulegar. Maður hættir að átta sig á því hvað er raunverulegt og hvað er tálsýn. Maður vill auðvitað finna tilgang með lífinu og þetta var eina leiðin fyrir mig að finna minn tilgang. Ég sagði við hann. Ég skal skrifa um það. Við það stóð ég upp og settist við tölvuna og byrjaði að skrifa.....

 

 

Ég geri mér grein fyrir því í dag að eftir að ég skrifaði þessa bók sé einn hlutur sem ég þarf að sætta mig við. Það er að ég er með geðsjúkdóm og ekki með yfirnáttúrulega hæfileika né að ég sé spákona sem sér fram í tímann.  Það hefur tekið mig 23 ár að skilja það. Það hefur ekki verið þrautalaus ganga. Ég er búin að vera með óteljandi lækna og er í dag með sterkt teymi í kringum mig. Bara það að ég fór til læknis í dag og sagði við hann að ég þyrfti að enda söguna öðruvísi en ég var búin að ákveða.

Það er þessi árátta hjá mér í gegnum árin að fikta í lyfjunum.  Læknirinn minn sagði við mig að ég væri þá komin á endastöð og hann líka. Ef ég ætla að rugla með lyfin áfram til að ég komist í hybomaniu endar það alltaf í því að ég hringi í hann og kvarta yfir vanlíðan. Hann ítrekaði það við mig að ég væri með alvarlegan geðsjúkdóm og hann hefði ekki bara byrjað 1996. 

Ég get hafa byrjað að veikjast sem unglingur þó að ég hafi þá aðeins farið í hybomaníur enda segir það í bókinni að ég var 14 ára þegar ég byrjaði að biðja Guð að taka mig. Ég er löngu búin að henda öllum tarospilum og Nostradamus bókinni, þar sem ég er búin að fara fjórum sinnum í geðrof síðan þetta átti sér stað. Ég er hætti að trúa á Guð þó að ég biðji hann að hjálpa mér þegar verst gengur.

Það er bara vani sem maður segir góði Guð hjálpaðu mér. Allt er það þessum geðrofum að kenna sem ég hef hennt öllu frá mér sem markeraði mig svolítið í æsku. Allt vegna þess að ég kenni geðrofinu um.  Mér þykir vænt um geðrofin mín þar sem ég hef fundið í þeim geðsjúkdóm sem ég var með frá því í æsku sem hefði getað endað líf mitt.  Ég vissi ekki þá að ef maður hugsar um sjálfsvíg að þá geti maður verið veikur. Ég er komin á endastöð og hef áttað mig á því að þessi sjúkdómur getur endað líf mitt.

Vil ég láta hann stjórna lífi mínu eða ætla ég að stjórna honum. Þessa sátt þarf ég að finna. Ég er að fara til sálfræðings til að vinna í áföllum og þá get ég tekið þetta fyrir.  Það er endalaus barátta fyrir geðsjúkling að berjast fyrir bata. Ég vil ekki láta sjúkdómin sigra mig en engin veit sína ævi fyrr en öll er og kemur það í ljós í framtíðinni hvor vinnu, ég eða hann.

 

 

  

Endir


Kafli 20 fósturmissir

20. kafli

Sorgin

 

Stuttu eftir þetta varð ég ófrísk og fór að hafa áhyggjur af því að barnið yrði fatlað vegna þess að ég var að taka lyf sem gætu skaðað fóstrið á byrjunarstigi þroska þess. Ég fór því til læknisins míns til að spyrja hann um skaðsemi þessara lyfja og hann sagði mér að eitt af þessum lyfjum gæti skaðað en það væri ekki sannað.

Ég fór þá heim og sagði Asjad það og sagði honum að við yrðum að eyða því, þar sem ég vildi ekki leggja það á barn að vera kannski verulega fatlað. Hann var ekki sammála um að eyða því og sagði að hann væri tilbúinn að eignast það barn sem okkur yrði gefið. Ég gat þó ekki losað mig við þennan ótta og sagði að ég ætlaði að fara í fóstureyðingu án hans samþykkis. Ég taldi mig ábyrga að koma í veg fyrir að skaða barnið ef ég gæti.

Ég pantaði mér tíma hjá félagsráðgjafa á kvennadeild Landspítalans. Ég sagði henni sögu mína og að faðirinn vildi ekki að ég færi í fóstureyðingu. Hún sagði við mig að öll vildum við geta stjórnað lífi okkar. Ef við teldum að því væri ógnað, reyndum við að koma í veg fyrir það. Hún náði að sannfæra mig um að fóstureyðing væri það eina rétta í stöðunni á meðan ég væri að taka þessi lyf. Hún sagði að ég gæti alltaf orðið ófrísk aftur eftir að ég væri hætt á lyfjunum.

Það varð úr að ég fékk tíma í fóstureyðingu. Það var ekki auðvelt í þessari stöðu en þegar ég var að sofna út frá svæfingarlyfinu, sagði ég við Guð: Fyrirgefðu mér, ég er að reyna að gera það rétta. Ég vil bara það sem er barninu fyrir bestu. Ég vissi ekki hvort barnið væri heilbrigt eða skaddað en tók þessa ákvörðun þar sem ég treysti á að hún væri rétt. Þegar ég kom heim þennan dag, var sorg í andliti mannsins míns. Hann var með áhyggjur af því að við værum að brjóta af okkur og Guð myndi refsa okkur. Ég sannfærði hann um að við værum að reyna að vera raunsæ.

Við ákváðum að tala aldrei um þetta aftur en mér finnst þetta skipta máli, þar sem þetta sýnir hvað við mennirnir eigum það til að reyna að stjórna örlögum okkar.

Þegar nokkrir mánuðir voru liðnir og ég var hætt á lyfjunum, ákváðum við að prófa aftur. Það gekk eins og í sögu og allt virtist vera á réttri leið. Ég var kvíðin en samt hlakkaði mig til.

Þegar ég var gengin átta vikur með vott af blettablæðingum fórum við í sund. Ég var ekki vön að fara í sund, en þennan dag fannst mér það vera ágætis hugmynd. Við fórum í Sundhöll Reykjavíkur. Þar er innilaug og það var kalt þennan aprílmorgun. Þegar við vorum komin í laugina, spurði ég Asjad hvort hann vildi fara á stökkbrettið. Hann hristi hausinn glottandi og sagðist ekki þora því. Ég manaði hann að prófa, þar sem ég vissi að það var einstök upplifun.

Ég vissi að 10 metra brettið var svolítið hátt og það þurfti kjark til að stökkva af því ef maður hafði aldrei gert það áður. Asjad sagðist ekki treysta sér til þess og það endaði með því að ég fór sjálf. Ég hélt að hann myndi kannski treysta sér ef ég gerði það. Þegar ég var komin upp og leit niður, sá ég að þetta var svolítið hærra en ég mundi. Ég hugsaði út í það í skamma stund hvort það væri ráðlegt að ég gerði það af því að ég var ófrísk. Ég ýtti þeirri hugsun þó frá mér þar sem ég vildi ekki fara niður án þess að stökkva.

Ég horfði á vatnið fyrir neðan mig og reyndi að sjá fyrir mér hvernig ég ætlaði að lenda. Ég vildi stökkva beint með fæturna á undan. Ég lokaði augunum og dró djúpt andann, þar sem ég hafði gert þetta áður og vissi að maður sekkur nokkra metra við svona hæð og þarf að kafa örlítið. Þegar ég lenti í vatninu fannst mér að eitthvað hefði gerst. Það var eins og eitthvað hefði farið af stað. Ég fann að maginn á mér varð fyrir þrýsting.

Ég horfði flóttalega á manninn minn og hann sá það í andlitinu á mér. Hann spurði mig hvað væri að. Ég sagði við hann: „Það gerðist eitthvað, ég þarf að fara upp úr.“ Þegar ég kom upp úr sá ég að mér blæddi. Ég hljóp niður í kvennaklefann og ætlaði að flýta mér í sturtu og föt. Það voru litlar stelpur sem horfðu á mig óttaslegnar. Þetta minnti mig á upplifun sem ég hafði orðið fyrir sem barn. Ég hafði einmitt verið í þessari sundlaug og séð konu koma hlaupandi þarna niður tröppurnar með blóðið rennandi niður lærin, alveg eins og ég var að lenda í.

Við fórum uppúr lauginni og ég beið nokkra stund úti í bíl eftir þeim þar sem ég hafði skilið Asjad eftir með börnin. Ég sat þögul og sorgmædd. Ég var að hugsa um það, hvort þetta væri refsing vegna þess að ég hefði eytt fóstrinu. Maðurinn minn reyndi að hugga mig með því að kaupa ís fyrir okkur. Hann taldi að ís gæti læknað flest andleg sár.

Þegar við komum heim, fór ég í rúmið og vonaði að ég myndi geta stöðvað blæðinguna með því að taka því rólega. Ég hafði misst fóstur þrisvar sinnum áður og vissi að það var hægt að hægja á blæðingunni með því að slaka á.

Þegar nokkrir dagar voru liðnir og ég var farin að sætta mig við að fóstrið hefði dáið, fann ég að einkennin sem fylgja því að vera ófrísk hurfu ekki. Blæðingin hafði breyst og var að mestu hætt. Ég sagði við manninn minn frá þessari tilfinningu. Hann hélt að ég væri ekki búin að sætta mig við að það hefði farið þennan dag. Ég pantaði tíma á kvennadeild Landspítalans til að láta skoða mig. Á leiðinni niður á spítala bað ég til Guðs um að gefa mér annað tækifæri og lofaði í leiðinni að ég myndi alls ekki eyða því ef það væri einhver möguleiki á að það myndi lifa.

Þegar hjúkrunarkonan var búin að sóna mig sagði hún mér að hún sæi tóman belg. Ég varð sorgmædd og vissi að þá væri þetta búið. Ég sætti mig við það og hugsaði með mér að við gætum alltaf reynt aftur. Þegar ég var í þessum hugsunum, sagði hún við mig að hún sæi annan belg. Hún skoðaði hann og sagði loksins með bros á vör: „Það er hjartsláttur í honum.“ Ég vissi ekki hvort ég væri að heyra rétt og spurði hana: „Var ég þá með tvíbura?“ Hún kinkaði kolli til mín og sagði að ég skyldi fara heim og hvíla mig til að láta blæðinguna stöðvast alveg, svo hún myndi ekki ýta þessu fóstri út.

Ég var í skýjunum þegar ég kom heim. Maðurinn minn tók á móti mér og ætlaði að hugga mig, því hann taldi að ég hefði fengið staðfestingu frá lækninum um að fóstrið væri farið. Ég sagði honum þá fréttirnar og hann varð mjög undrandi en kátur í leiðinni. Hann tók utan um mig og sagði við mig: „Andrea, við eigum að fá annað tækifæri.“ Lífið er ótrúlega hverfult frá einni mínútu til annarrar. Við fórum að undirbúa okkur fyrir þetta nýja líf og ég kom því algjörlega út úr huganum að ég væri að gera vitleysu. Guð hafði svarað því fyrir mig, með þessari leikfléttu.

Um haustið fór ég í tölvu- og skrifstofunám í (NTV). Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum Ég ætlaði að vinna við bókhald eftir fæðingarorlofið. Það var allt að smella saman.

Asjad fór út í byrjun vetrar til að vera hjá systur sinni, þar sem hún var að fara að gifta sig. Hann hafði farið að gráta þegar hann vissi að þau ætluðu að gifta sig, hvort sem hann yrði þar eða ekki. Ég gat ekki horft upp á hann svona brotinn og sagði honum bara að fara.

Ég bjóst við því að þar sem móðir hans var heilsulítil gæti verið gott fyrir hann að vera þar lengur en í mánuð. Ég jafnvel hvatti hann til þess að vera eins lengi og þörf væri á. Ég talaði meira að segja um það að hann gæti fundið sér vinnu í Pakistan, þar sem hann hafði átt erfitt með að finna hana á Íslandi.

Ég var líka farin að gera mér grein fyrir því að skyldur hans gagnvart móður sinni voru meiri en hann hafði gefið í skyn í byrjun. Þegar við vorum að kynnast, spurði ég hann meira að segja hvort hann þyrfti ekki að sinna fjölskyldu sinni. Ég hafði fengið að vita það frá foreldrum mínum að múslimar þyrftu að sjá fyrir fjölskyldunni.

Þar sem Asjad var elstur hefði það átt að vera í hans verkahring að sjá fyrir þeim. Hann hafði sagt mér að bræður sínir tækju það að sér. Það breyttist heldur betur þegar við vorum búin að gifta okkur. Þá fóru þau að biðja um peninga. Ég vissi að hann skuldaði lánið, en þegar við sendum peninga var eins og það færi ekki allur peningurinn í lánið. Mig var mig farið að gruna að þau væru að nota hluta af því til að sjá fyrir fjölskyldunni.

Þar sem ég var öryrki og hann á bótum frá félagsþjónustunni, fannst mér ekki sanngjarnt að við þyrftum að sjá fyrir þeim. Ég tók þá ákvörðun að skilja við hann, þar sem ég vissi ekki hvað hann yrði lengi. Þegar ég sagði honum þetta varð hann sár og reiður. Ég sagði honum að það væri allt í lagi að hann færi, en ég þyrfti að geta hugsað um börnin á meðan og ekki gæti ég verið tekjulaus. Ef við myndum skilja gæti ég fengið barnabætur á meðan. Ég fór svo í bankann til að taka barnabæturnar út svo hann gæti borgað farið. Hann þurfti líka að hafa með sér pening um ófyrirsjáanlegan tíma til að hjálpa mömmu sinni. Hann fór því með þau laun sem hann fékk í svartri vinnu og sagði ég honum að taka það með sér til að lifa á því. Ég vissi að þeir peningar væru meira en það sem þau hefðu í Pakistan.

Ég var því alein með börnin tvö og komin langt á leið. Ég hafði áhyggjur af því að hann skyldi þurfa að fara en ég gat ekki horft upp á það þegar hann grét. Hann hlakkaði mikið til að koma aftur heim og takast á við föðurhlutverkið.Við vorum svo í sambandi á Internetinu á meðan hann var úti.

Ég hafði nóg að gera í skólanum og hafði einnig nóg að gera við að sinna krökkunum. Þegar ég var búin með síðasta prófið fór ég að hafa áhyggjur af því að barnið myndi fæðast aðeins fyrir tímann. Ég sagði Asjad þetta, en hann taldi í mig kjark og taldi líklegt að það myndi fæðast á tilsettum tíma sem var 2. janúar og þá væri hann kominn til baka.


Kafli 19 sjálfsvígstilraun

19.kafli

 

 

Ég fór að taka eftir undarlegum hlutum hjá manninum mínum. Það var til dæmis í eitt skiptið þegar við vorum að sækja krakkana í leikskólann og við vorum að ganga heim. Asjad ætlaði þá að taka í hendina á Skorra, en þar sem hann var svo mikill mömmustrákur togaði hann hendina að sér. Við þetta varð Asjad svo sár. Þegar Sunna sagði við hann: „ Ég skal leiða þig“, togaði hann hendina að sér alveg eins og Skorri hafði gert og mér fannst að hann hegðaði sér alveg eins og fimm ára gamalt barn.

Hann var líka undarlegur á þann hátt að þegar ég var eitthvað pirruð út í hann, kraup hann við fætur mínar eins og hundur til að kyssa þær. Mér fannst þetta mjög óþægilegt og fannst að hann þyrfti að hætta þessu. Ég sagði honum að maður missti bara virðinguna með svona hegðun.

Einu sinni voru svo krakkarnir að rífast í bílnum þegar við vorum að fara út að borða. Asjad reyndi að róa þau en þau hlýddu honum ekki. Þegar ég stöðvaði svo bílinn á umferðarljósum, fór hann út úr bílnum eins og hann væri pirraður. Mér fannst þetta óþarfa viðkvæmni en áttaði mig svo á því að hann væri að reyna að fá krakkana til að hlýða. Hann reiknaði sjálfsagt með að ég myndi segja við krakkana: „Sjáið þið krakkar, hvað þið eruð búin að gera. Nú vill Asjad ekki keyra með okkur lengur að því að þið eruð svo óþekk.“

Mér fannst þetta vera andlegt ofbeldi og ég vildi ekki ala krakkana mína þannig upp. Ég keyrði því í ísbúð og sagði ekkert við þau. Þau áttuðu sig ekki fyrr en við vorum að borða ísinn. Guðrún spurði þá sakleysislega: „Hvar er Asjad?“ Ég sagði þá eins og ekkert hefði í skorist: „Hann fór í göngutúr.“

Asjad notaði oft svona aðferðir til að ná sínu fram. Ef ég var eitthvað að rífast við hann, tók hann kannski upp á því að brjóta geisladiskana sína. Þar sem ég vissi hvað ofbeldi var, ætlaði ég ekki að láta það viðgangast. En þar sem hann gerði mér og börnunum aldrei neitt, sá ég ekki ástæðu til að gera neitt í þessu. Ég hunsaði þessa hegðun bara og bjóst við því að hann myndi hætta þessu að lokum.

Asjad varð samt sár þegar hann sá að þetta hreyfði ekki við mér. Hann bankaði í brjóstið á mér einn daginn og spurði mig: „Hvar er hjartað í þér?“ Hann áttaði sig kannski ekki á því að hjarta mitt var kalt eftir allt ofbeldið með Davíð og ég var þreytt á svoleiðis hegðun. Einnig var ég á jafnvægislyfjum sem ollu því að ég var tilfinningardaufari en undir venjulegum kringumstæðum.

Asjad var samt yndislega góður við krakkana og mig. Ég elskaði hann á vissan hátt, þó að ég væri ekki með sömu tilfinningar til hans og ég hafði verið með til Davíðs. Ég var einnig ennþá með tilfinningar til Jeffs og gat ekki hætt að hugsa um hann, þó ég vissi að ég þyrfti að gleyma honum. Ég vissi að Asjad gæti orðið góður fjölskyldufaðir og ég vissi að það var óhætt að ala krakkana upp með honum. Hann vaknaði oft með þeim á morgnana til að gefa þeim morgunmat. Ég var stundum þung á fætur, þar sem geðlyfin gerðu mig þreytta. Ég efaðist ekki um ást hans til mín.

Ég komst í bréf sem systir hans hafði sent honum. Ég fann það í tölvupóstunum hans. Í því bréfi skrifaði hún á ensku. Þar var hún að spyrja hann um það hvort hann væri að gera rétt. Hún sagði í bréfinu að þegar þau hefðu verið yngri, hefði hann lýst því fyrir sér hvernig konu hann vildi giftast í framtíðinni. Hún sagði í bréfinu að henni fyndist þessi kona sem hann væri að fara að giftast, félli ekki undir þær væntingar sem hann hefði haft og nefndi það að ég væri miklu eldri og ætti börn úr fyrra hjónabandi.

Ég fór í svakalegt kvíðakast við að lesa þetta bréf og fór inn í stofu til að tala við hann. Þegar ég kom þar sem hann sat við tölvuna og vann að verkefnum, sagði ég allt í einu: „Ég veit að þau vilja okkur ekki.“ Hann varð undrandi og spurði hvað ég meinti með því. Ég sagði þá að ég hefði séð þetta bréf. Hann reyndi að sannfæra mig um að ég væri að misskilja þetta allt.

Ég hafði fundið að veikindi mín gátu bankað upp á í kvíðaköstum sem höfðu fylgt mér frá því að ég veiktist. Ég hafði getað haldið þeim niðri ef ég tók lyfin mín og hugsaði jákvætt. Þegar áreitnin varð mjög mikil eins og þarna dugðu lyfin ekki.

Í þetta skiptið fylltist ég ranghugmyndum og sagði að Asjad vildi mig ekki og þau vildu mig ekki. Ég sagði við hann að ég væri ekki heilbrigð og hann væri betur án mín kominn. Þegar hann heyrði þetta kom hann til mín þar sem ég var sest á gólfið í stofunni. Hann ætlaði að taka utan um mig til að sýna mér að ég hefði ekki rétt fyrir mér. Ég stóð þá upp í geðshræringu og hljóp inn í herbergi. Þegar ég leit við og sá að hann elti mig, fannst mér í augnablik að andlitið á honum breyttist. Mér fannst ég sjá Jeff í andlitinu á honum. Ég öskraði af hræðslu og kuðlaði mig saman inni í herbergi.

Ég settist á gólfið þar og hélt fyrir augun. Þegar Asjad ætlaði að taka utan um mig, vildi ég það ekki vegna þess að mér fannst þetta vera Jeff. Ég setti út hægri höndina og sagði honum að fara út úr herberginu og láta mig í friði. Hann varð skelkaður og þorði ekki öðru en að hlýða, þar sem hann vissi um sjúkdóm minn og vissi ekki hvernig hann ætti að takast á við það þegar ég fékk þessi kvíðaköst. Hann sagði að hann ætlaði að fara fram og leyfa mér að jafna mig.

Þegar ég fór að róast fór ég upp í rúm og lagðist þar. Ég ætlaði að hvíla mig. Ég fann fyrir sorg og ég var að reyna að átta mig á því hvaðan þessi sorg kæmi. Þá sá ég allt í einu í huga mér flugvél vera að hrapa. Þetta var bara hugarburður og ég var orðin vön því að hugur minn plataði mig svona annað slagið. Ég horfði samt á þetta og allt í einu fannst mér stór steinn á við bjarg detta í rúmið við hliðina á mér. Mér brá og ég stökk upp úr rúminu og hljóp fram.

Asjad kom þá hlaupandi til mín og spurði mig hvað væri að. Ég sagði honum hvað ég hefði upplifað. Ég sagði honum líka að ég áttaði mig á því að þetta væri ekki raunverulegt. Hann hafði miklar áhyggjur af mér þegar hann sá mig svona. Ég sagði við hann að hann gæti ekki lagað þetta. Ég væri bara svona. Þar sem börnin voru hjá föður sínum þessa helgi gátum við fengist við þetta í friði.

Ég sagði Asjad að ég vildi fara út í bíltúr en hann vildi ekki leyfa mér það, þar sem hann hélt að ég ætlaði að skaða mig eða væri alla vega ekki fær um að keyra í þessu ástandi. Ég varð þá pirruð þar sem ég taldi að í þessu ástandi þyrfti ég að komast eitthvert ein til að hugleiða. Mig langaði bara að keyra um Reykjavík og jafnvel aðeins út fyrir.

Asjad stóð í dyrunum og sagði: „Andrea, ekki fara, reyndu bara að róa þig hérna heima.“ Þessi hindrun og þessir fjötrar fengu mig til að reiðast og finna fyrir innilokunarkennd. Ég hugsaði þá: Ef þú hleypir mér ekki út, get ég farið annars staðar út. Ég fór inn í herbergið en þegar ég vissi að hann væri sestur fyrir framan tölvuna, fór ég inn í eldhús og náði í lyfin mín.

Ég ætlaði að fara út bakdyramegin. Ég ætlaði að losa alla við þess geðveiku konu. Börnin mín gætu búið hjá pabba sínum. Foreldrar mínir gætu þá hætt að hafa áhyggjur, fjölskyldan hans gæti þá fengið hann til baka, eins og þau höfðu svo mörgum sinnum beðið um á meðan þau höfðu grátið á línunni. Ég var vandamálið, ég var sú sem eyðilagði allt, ég var fyrir. Ég réttlætti það sem svo að það væri börnunum mínum fyrir bestu að losna við svona bilaða mömmu. Ég tók inn meirihlutann af lyfjunum eða eins mikið og ég taldi nóg til að láta mig deyja. Ég áttaði mig ekki á því að faðir minn ætti afmæli daginn eftir. Ég fann bara til syfju og ég fann að ég var að lognast út af. Ég sagði í huganum: Guð, ég er að koma, þau þurfa ekki á mér að halda.

Ég vaknaði eftir einhverja klukkutíma og varð mjög vonsvikin að þetta hefði ekki tekist. Ég fann fyrir máttleysi í fótum og höfuðið hringsnerist. Svo þurfti ég að fara á klósettið til að æla. Þegar ég ætlaði að standa upp, hélt ég engu jafnvægi og það var engin leið fyrir mig að komast fram. Þessi lyf sem ég hafði tekið voru flogaveikilyf.

Ég hugsaði með mér: Nú er ég í því ástandi að ég er vöknuð en get ekki gengið og nú þarf ég kannski að fara að láta dæla upp úr mér. Ég datt á gólfið þegar ég ætlaði fram úr. Maðurinn minn kom hlaupandi og horfði á mig. Hann sá að það var ekki allt með felldu. Hann varð skelfingu lostinn þegar hann sá mig í þessu ástandi. Hann hrópaði: „Andrea, hvað er að, hvað gerðist?“

Ég sagði honum það ekki strax, ég skammaðist mín svo mikið. Hann varð svo hræddur, þar sem ég hafði sagt honum frá því hvað hefði gerst síðast þegar ég fór á spítalann. Hann hringdi í mömmu og pabba og þau sögðu honum að hringja á sjúkrabíl. Ég sagði honum að ég vildi ekki fá sjúkrabíl að heimilinu. Ég vildi ekki að nágrannar myndu komast að því að ég væri svona biluð.

Þau ákváðu þá að foreldrar mínir myndu sækja mig heim til okkar og fara með mig heim til sín og fá sjúkrabílinn þangað. Þegar sjúkrabíllinn var kominn og pabbi stóð fyrir framan mig til að kveðja mig, sagði ég: „Fyrirgefðu pabbi, ég var ekki að reyna að særa þig á afmælisdaginn, ekki hætta við að halda upp á afmælið, ég þarf bara að fara að ná mér.“ Hann brosti til mín með sorg í augunum og sagði: „Það er allt í lagi Andrea mín, láttu þá bara hjálpa þér.“

Það tók tvo daga að afeitra líkamann og ég var á hjartadeild þann tíma. Hjartað hafði víst farið á fullt og sjáöldrin verið þanin til hins ítrasta. Ég átti mest í erfiðleikum með að ná að halda jafnvægi. Flogaveikilyfin setja höfuðið á hvolf. Mér leið eins og höfuðið væri lóð sem vildi snúa mér við þannig að fæturnir stæðu upp í loft. Ég skammaðist mín svo mikið fyrir að vera að leggja þennan sársauka á fjölskyldu mína. Mér fannst ég vera föst í þessum líkama og geta ekki tekið á lífinu með styrk og geta ekki losað þau við þann dóm sem fylgir því að vera geðsjúkur.

Hvernig á ég að lifa án þess að særa fólk ef sjúkdómurinn dregur mig inn í ferli ranghugmynda, sársauka og sorgar sem ég get ekki höndlað eða stjórnað? Þegar ég get ekki sannfært sjálfa mig um að þetta sé allt hugarburður, en tilfinningarnar segja að að mér líði svona. Fyrir hvað get ég þá lifað? Það er skyldan, sem fellst í því að leggja frá sér tilfinningarnar til að geta séð um þá sem eru undir ábyrgð manns. Börnin eru það eina sem maður verður að hugsa um. Börnin þurfa á manni að halda. Ástvinir eru þeir sem ég verð að lifa fyrir. Ég verð að vera sterk fyrir þá. Ég verð að takast á við þessi veikindi fyrir þá.

Þegar ég kom heim sagði Asjad við mig: „Andrea, það er eins og okkur hafi verið gefið annað tækifæri.“ Ég samþykkti það og ég sagði að ég ætlaði að gera allt sem ég gæti til að stjórna ástandinu.


Kafli 18. Tölvuást

18. kafli

Tölvuást

 

Ég var komin með íbúð í Fellunum um þetta leyti. Ég fékk íbúð hjá Félagbústöðum. Það var mikill léttir að vera komin þangað. Þarna var bæði lægri leiga og fastari búseta. Nú gat ég skipulagt lengra fram í tímann, sem var auðvitað nauðsynlegt til að ná bata. Ég fór og keypti mér notaða tölvu, þar sem ég var búin að frétta að Internetið væri nokkuð skemmtileg afþreying. Ég ætlaði að kynnast netheimum og ferðast um heiminn í gegnum tölvuna. Ég var með börn á leikskólaaldri og mér datt í hug að nota tímann og mennta mig í tölvum, þegar þau voru í leiksskólanum. Vinkona mín Mæja átti heima þarna nálægt og við gátum farið að hittast meira. Ég hafði ekki hitt hana síðan ég henti henni út, daginn sem hún hafði komið til mín til að fá tarotspá. Ég útskýrði þetta loksins fyrir henni og við hlógum að þessu þarna.

Það var orðin léttari á mér brúnin og ég var nokkuð bjartsýn á framhaldið. Ég sagði í gríni að ég ætlaði að gerast nunna, þar sem ég vildi ekki lenda í neinni flækju með krakkana. Ég var ekki meira en fjóra mánuði að læra á allt sem snerist um þessa tölvu. Ég fór ekki í neinn skóla heldur prufaði mig áfram og tölvan hrundi fjórum sinnum, áður en ég áttaði mig á því hvað ég átti að láta í friði og hverju ég mætti eyða. Þetta var nokkuð skemmtilegt fyrirbæri.

Ég uppgötvaði spjallrás sem hét „Virtual places“ og fór að fara inn á hana. Þar hitti ég mann sem var með notendanafnið „Tarzanboy“ og fór að tala við í hann í tíma og ótíma. Hann sagði mér að hann héti Asjad. Þetta var spennandi og virkaði helst eins og blekking geðrofsins. Það var þannig sem ég leit á það og átti ekki von á neinni útkomu úr þessu frekar en annarri blekkingu.

 

Asjad lagði hart að mér að tala við sig og elti mig uppi um alla netheima. Ég þurfti að breyta notendanafninu sem var fyrst „silent-beauty“ í nafnið „Mauney“ sem ég fann upp með því að breyta nafni dóttur vinkonu minnar Höllu sem var Máney þar sem spjallrásin kannaðist ekki við fyrra nafnið.

Ég vildi halda áfram í þessu spjallforriti en við Asjad týndum hvort öðru. Ég fór að tala við annað fólk, þar sem ég hélt að ég ekki finna hann aftur. Einn daginn sendi hann mér tölvupóst á netfang sem ég hafði víst látið hann fá. Þegar ég las póstinn áttaði ég mig á því að honum var alvara. Ég sagði honum frá nýja notendanafninu mínu og á endanum fundum við hvort annað.

Þegar ég hitti Asjad svo næst í einu spjallherberginu í prógramminu, spurði hann mig strax, hvort ég vildi giftast honum. Það kom flatt upp á mig og ég ætlaði að fara að hlæja. Þegar ég áttaði mig á því að honum var alvara þorði ég ekki að gera það til að móðga hann ekki. Ég sagði honum allt um mín veikindi og hann sagðist vilja hjálpa mér í því. Hann var með það stórt en saklaust hjarta og hann vissi kannski ekki hvað hann var að fara út í. Hann sagði að hann ætlaði að standa í þessu með mér.

Þegar ég sagði við Asjad að ég væri að hugsa um að gerast nunna vegna þess að ég væri hætt að trúa á það að ég gæti verið í sambúð svona tætt, þá spurði hann mig: „Hver á að hugsa um þig þegar börnin eru orðin fullorðin?“ Ég fór að leggja fyrir hann spurningar um hluti sem mig langaði að vita hvernig hann svaraði, til að fá tilfinningu fyrir því hvernig hann hugsaði.

Ég spurði hann um uppeldi á börnum og viðhorf hans til föðurhlutverksins. Hann svaraði mér á skynsamlegan hátt og nefndi það að hann myndi vinna til síðasta blóðdropa til að halda fjölskyldunni uppi. Þegar ég var búin að átta mig á því að þrátt fyrir að hann væri frá Pakistan og múslimi, hefði hann ekki ósvipaðar væntingar til lífsins og ég. Hann var með svipaða hugmynd um skyldur foreldra gagnvart börnunum sínum.

Asjad sagði samt að við yrðum að gifta okkur ef við ætluðu að vera saman og ég yrði að gefa honum loforð. Ég sagði í fyrstu að ég gæti ekki lofað honum þessu. Hann tók það ekki í mál að við myndum hittast nema með það að leiðarljósi, þar sem hann væri hreinn sveinn og hann gæti ekki sofið hjá konu nema hún væri eiginkona hans. Ég var farin að treysta þessum manni og þykja vænt um hann og á endanum gaf ég honum loforð um að giftast honum.

Ég gat ekki hugsað mér að missa af honum, þar sem mér leið vel þegar ég talaði við hann. Hann var af allt öðrum uppruna en ég og við þurftum að læra heilmargt af hvort öðru. Hann virkaði samt á mig sem mjög venjulegur maður og öfgalaus gagnvart trúnni. Ég heyrði á honum að hann var ekki mikið inn í trúmálum og hann sagði mér að þegar móðir hans hefði sent hann í moskuna, hefði hann stungið af til að leika sér í staðinn.

Þetta sannfærði mig um að trúin væri Asjad ekki efst í huga og var það léttir, þar sem ég vildi ekki lenda í neinum öfgum. Hann virtist líka þurfa að fletta öllu upp ef ég spurði hann um trúmál. Ég taldi að hann væri því ósköp svipaður mér gagnvart alvarleika í þessum efnum.

Það leið ekki á löngu, eftir mikið basl varðandi bilun í tölvunni hjá mér í kringum jólin 1997, að Asjad náði tali af mér aftur. Hann var orðinn óþolinmóður gagnvart því að hittast og einn daginn var hann búinn að kaupa miða til Íslands. Ég fékk svolítið sjokk við að heyra það og var ekki alveg tilbúin að fara svona geyst.

Við vorum búin að vera að tala saman upp á dag í fjóra mánuði, en samt var ég ekki viss um hvort ég væri tilbúin að hitta hann. Það var líka vegna þess að ég vissi ekki hvernig faðir barnanna tæki því að ég kæmi með mann inn á heimilið, hvað þá múslima.

Það var allt annað að tala við mann í gegnum tölvuskjá en að hitta hann í persónu. Þegar ég sótti hann upp á völl brá mér svolítið, þar sem mér fannst hann minni en ég bjóst við. Hann aftur á móti var afar sáttur sýndist mér og tók vel á móti krökkunum. Skorri hélt fast í mig en hann var samt til í að tala við hann.

Við keyrðum svo heim til að sýna Asjad hvernig við bjuggum. Þar kyssti hann mig í fyrsta skipti og ég fann að hann var mjög tilfinninganæmur. Við byrjuðum svo hægt og sígandi að kynnast. Þegar fjórir mánuðir voru að verða liðnir, fór lögreglan að hringja í mig og segja mér að hann yrði að fara að yfirgefa landið. Við ákváðum þá að flýta giftingunni til að hann yrði ekki sendur í burt. Mér fannst ég þurfa lengri tíma til að kynnast honum og hann hafði tekið lán úti til að komast til Íslands. Á þeirra mælikvarða var þetta lán eins og 20 mánaða vinna, svo mér þótti það ógerlegt að senda hann til baka og koma kannski aftur. Það væri betra fyrir hann að vinna hér á Íslandi og borga lánið.

Asjad var hreinn sveinn og mátti ekki sofa hjá konu nema ef hann væri giftur, þannig að fjölskylda hans mátti ekki vita að við værum að sofa saman fyrir giftingu. Þau voru alltaf að hringja eða biðja hann um að hringja og spyrja hvenær við myndum gifta okkur. Mér fannst þetta óþarflega mikil ýtni en mér líkaði vel við systur hans og þær reyndu að útskýra fyrir mér siði þeirra og trúarbrögð. Ég sá hann aldrei biðjast fyrir eins og múslimar gera.

Foreldrum mínum stóð ekki á sama um að ég færi að giftast múslima. Þau höfðu áhyggjur af því að ég endaði eins og Soffía Hansen. Ég var dregin til kirkjunnar til að hafa vit fyrir mér. Það voru konur sem sátu og lásu pistil yfir mér að 40% hjónabanda enduðu með skilnaði. Ég spurði þær að því hvort þær ættu ekki að athuga þá hvað kirkjan væri að gera vitlaust. Kannski ætti kirkjan ekkert að vera að gifta fólk sem væri útséð með að ætti sér ekki framtíð. Þau voru kannski að reyna að gera það í þessu tilfelli en við létum ekki segjast.

Ég sagði að þó svo að við værum með ólíka menningarheima, ætti það ekki að þurfa að vera ástæða fyrir því að við gætum ekki verið saman. Faðir minn hafði litla trú á hæfni minni og þá sérstaklega eftir að ég veiktist. Ég vissi að þau héldu að ég væri alltaf veik. Ég var kannski alltaf með undirliggjandi sjúkdóm, en átti ég að hætta að lifa? Ég sagði þeim að mér væri ekki haggað og ég ætlaði að láta þetta ganga í gegn. Ég varð að fylgja tilfinningum mínum. Faðir minn tilkynnti það að hann ætlaði ekki að mæta í giftinguna. Hann hafði ekki einu sinni kynnst þessum manni og hafði engan áhuga á því. Það var sennilega nóg staðfesting fyrir hann að minni dómgreind væri ekki treystandi síðan ég lenti inni á spítala.

Davíð hringdi í mig á svipuðum tíma og hótaði að lemja Asjad. Hann vildi ekki að hann myndi ala upp börnin sín. Hann hringdi oft á þessum tíma og sagði mér að vera viðbúin því að einhvern daginn yrði maðurinn minn skotinn þegar hann væri á gangi í húsasundi. Það myndi engin finna út úr því hver hefði framið verknaðinn. Ég tilkynnti þetta til lögreglu til að þeir myndu hafa skýrslu um þetta samtal. Ég vildi koma í veg fyrir að svona yrði þaggað niður.

Davíð fór þá að hóta því að taka börnin af mér. Ég spurði hvernig hann ætlaði að gera það. Var það bara af því að hann væri með skoðun á þessu eða af því að hann vantreysti þessum manni? Hvað ætlaði hann að vera með í höndunum um það að þessi maður væri hættulegur börnunum hans? Hann hafði sjálfur farið með Sunnu til Bandaríkjana þegar ég var nýkomin af spítala.

Við reyndum allt sem við gátum til að trúa á sjálf okkur og hlusta ekki á fordóma sem beindust að menningu hans og heilsu minni. Það var þó ekki hægt að segja neitt við fólk. Fólkið var með vissar hugmyndir vegna reynslu annarra í þessum málum. Geðsjúkdómur, múslimi, Pakistani (terroristi) og Soffía Hansen. Ekki ég og ekki hann. Það vildu allir vera að stjórnast í okkar málum en tóku það svo ekki í mál að koma í heimsókn og hitta manninn.

Við vorum í sambandi við fjölskyldu hans í gegnum Internetið. Í þessum samtölum töluðu þau annaðhvort ensku eða úrdu sem er tungumál þeirra. Ég skildi að sjálfsögðu ekkert þegar þau töluðu úrdu. Ég vissi ekki hvað fór á milli þeirra.


Kafli 17. Bati framundan

17. kafli

Bati framundan

Það var runnið upp árið 1997 og við tók endurhæfing. Ég þurfti að vera nokkurn tíma í sambandi við spítalann. Þeir voru að reyna að átta sig á hvaða lyf myndu henta mér og hvað ekki. Ég hafði fallið langt niður fyrir mörkin í skjaldkirtilshormónum og það var verið að stilla það upp á nýtt. Ég var í svokallaðri dagsinnskrift sem þýddi að ég mátti vera úti á daginn og koma á kvöldin.

Þegar leið á vikurnar tók við annað ferli. Ég þurfti að mæta á daginn og sækja lyf og svo mátti ég sofa heima. Ég hafði hætt í skólanum og ég treysti mér ekki þangað aftur, þó svo að nemendur hefðu komið á spítalann til að hvetja mig til að halda áfram. Skólastjórinn hafði samþykkt að ég mætti halda áfram og svo var verið að segja mér að bestu listamenn í heiminum hefðu allir verið geðveikir.

Ég gat ekki sætt mig við þetta orð og ég gat ekki horfst í augu við að ég væri eitthvað veik. Ég leit á þetta tímabil sem eitthvað sem hefði klikkað eða að teppinu hefði verið kippt undan mér. Ég gat ekki hlustað á það að ég væri með varanlegan geðsjúkdóm. Ég spurði lækninn minn alltaf að því þegar ég fór í viðtal hvort þetta væri ekki misskilningur. Hann sagði að svo væri ekki og ég mætti ekki hætta að taka lyfin ef ég ætlaði að halda jafnvægi.

Hvernig gat ég verið viss um að allt sem ég hefði heyrt og allt sem ég hefði séð væri bara vitleysa? Mér fannst eins og fólk gæti ekki trúað á Guð af því að það væri engin sönnun. Hvernig átti ég að trúa því að lífið væri bara eins og maður sér það þegar maður er á lyfjum en ekki eins og maður sér það án lyfja? Ég hafði aldrei verið í vímuefnum og ég var ekki drykkjumanneskja. Ég hafði alltaf treyst á dómgreind mína. Hvað er það sem gat sannfært mig um að dómgreind mín hefði farið út af sporinu?

Ég fór að fara í viðtöl á Hvítabandinu. Ég kveið því að þurfa að takast á við þetta líf án þess að vera í daglegu sambandi við lækna. Ég kveið því að þurfa að telja lyfin mín í lyfjaboxið. Ég fann að einbeitingin var ekki til staðar. Ég var farin að missa alla trú á dómgreind mína. Hvernig gat ég vitað að ég væri að gera rétt hverju sinni? Hvernig gat ég verið viss um að gleði mín einn daginn væri ekki geðhvörf? Hvernig gat ég verið viss um að reiði mín væri ekki geðhvörf? Hvernig gat ég verið viss um að sorg mín væri ekki geðhvörf?

Þetta var langur og þéttur skógur sem var framundan. Ég sá fólk í misjöfnu ástandi á fundum sem ég sótti. Ég reyndi að hlusta á sögur þess og setja mig í samhengi við þær sögur. Sumar sögurnar fannst mér heimskulegar, of litlar til að gera mál úr. Ég gat samt ekki horfst í augu við það að ég hefði sjálf svipaða sögu að segja.

Móður minni fannst erfitt að horfast í augu við það að ég þyrfti að taka lyf. Hún gat aldrei sætt sig við það að dóttir hennar væri með geðhvörf. Hún vildi frekar finna aðra skýringar, eins og flogaveiki eða vanstarfsemi í skjaldkirtli. Ekki geðhvörf. Fordómar þjóðfélagsins fóru að segja til sín og ég fór að fela sjúkdóminn eins og hann væri smitandi eða hættulegur.

Ég fékk ekki líftryggingu eftir þetta og varð að fara að safna fyrir lífeyrir á annan hátt. Örorkan sem fylgdi þessu og hamlandi traust á sjálfa mig olli því að ég hafði ekki trú á að ég myndi ná þeim bata sem þyrfti til að halda heilsdagsvinnu. Afneitun gagnvart ástandinu gerði hlutina erfiðari, bæði fyrir bata sjúklings og skilning aðstandenda. Vantraust á dómgreind einstaklingsins gerði það að verkum að spurningin um hæfni mína til að sjá um börnin olli hugarangri barnsföður. Allir í kringum mig vissu ekki hvað hefði gerst. Allir í kringum mig voru hræddir við að spyrja. Ég gat kannski ekki útskýrt það strax, því ég vissi það ekki sjálf. Ég vissi bara að ég var hætt að trúa á sjálfa mig. Ég varð bara að treysta á Guð.

Guð var jafn augljós fyrir mér eins og ég var óljós fyrir mér. Ég vildi ekki trúa að geðhvörfin mín væru sannleikur. Ég vildi ekki trúa að ég væri veik. Ég gat ekki viðurkennt að ég væri geðveik. Guð getur bara gefið mér svarið. Ég verð að trúa.

 

Hver dagur er sigur

Ég sótti fundi reglulega og tók lyfin samviskusamlega. Ég ætlaði ekki að taka áhættuna af því að þetta myndi gerast aftur. Ég mátti ekki við því og börnin mín máttu ekki við því, þar sem faðir þeirra var fluttur til Bandaríkjanna og giftur þar. Hann hafði hringt á spítalann nokkrum dögum eftir að ég var lögð inn, til að tilkynna mér að hann væri að fara þangað. Hann tók samt Sunnu út til sín í fjóra mánuði stuttu eftir að ég útskrifaðist. Ég vildi ekki senda Skorra, þar sem hann var svo háður mér og gat ekki verið annars staðar en hjá mér. Ég þurfti að finna nýja íbúð, þar sem íbúðin í Árbænum hafði verið seld.

Bataferli sjúklings með geðsjúkdóm líkist því að manneskja fari út á þunnan ís á vatni og ísinn brotnar undan henni. Þegar manneskjan nær að komast upp úr vatninu og upp á ísinn aftur, þorir hún ekki að stíga of fast niður. Það er misjafnt hvað fólk er lengi að finna styrk íssins og hve þykkur hann er til að byrja með og ganga á venjulegan hátt. Sumir fara of hratt af stað, brjóta ísinn aftur og detta hvað eftir annað ofan í ískalt vatnið. Aðrir reyna að fara hægt og þurfa jafnvel einhvern til að hvetja sig áfram, því óttinn við að sökkva aftur er svo ofarlega í huga.

Það veit enginn sem hefur ekki gengið þennan veg hve þunnur ísinn er hjá hverjum og einum. Það veit aðeins sá sem hefur lent í því. Þegar einstaklingur segir að hann megi ekki stíga fastar til jarðar eða fara sér hraðar, er það vegna þess að þessi einstaklingur er búinn að finna styrkleik undirlagsins hjá sér og hvað hæfir honum.

Þetta er staðreynd sem hver og einn þarf að horfast í augu við til að lenda ekki í þeirri aðstöðu að gefast upp. Ef einstaklingurinn finnur að ísinn er að brotna hvað eftir annað, getur verið að hann leggi árar í bát. Vonin deyr í hjarta hans, sjálfstraustið hverfur, þrekið þverr og hann gefst upp. Það er barátta á hverjum degi við að finna tilgang í því sem virðist vera blekking. Það þarf kjark til að takast á við það og búa til nýja von. Hver dagur er sigur og hver dagur gefur von. Að búa sér til verkefni er nauðsynlegt til að skuldbinda sig til að ljúka þeim. Verkefnaleysi er dauðans alvara.

 


Kafli 16. unbrake my heart

16.kafli „Unbrake my heart“ Þegar ég þurfti að losa um orku fór ég á hlaupabretti sem var inn í föndurherbergi. Ég fann að ef ég púlaði svolítið, hjálpaði það mér að slaka á. Þarna voru konur að föndra fyrir jólin. Þær voru að mála jólasveina...

Kafli 15. Greining

15. kafli Greining Ég þurfti ekki að bíða lengi. Menn í hvítum sloppum komu inn í herbergið. Þeir stóðu í röð fyrir framan mig og horfðu á mig. Ég fann að þeir voru komnir til að segja mér að það væri komið að því. Einn þeirra, dökkhærður maður, spurði...

Kafli 14. Endirinn nálgast

14. kafli Endirinn var að nálgast Ég einbeitti mér að því að gera daglegu hlutina í lífinu eftir þetta. Ég hafði á tilfinningunni að ég bæri einhverjar mikilvægar skyldur á herðunum. Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað, eins og að hjálpa einhverjum Það...

Kafli 13. Glerbúrið

kafli Þá varð mér hugsað til þessa ljóðs einsog ég kallaði það. „Glerbúrið“ Allir hafa tvær sálir. Ein er mjúk og veik en hin er köld og sterk. Önnur lítur út fyrir að umlykja hina veikari, það gæti það verið Glerbúr. Þegar sú veikari er að...

Kafli 12. Ég er að verða engill

12. kafli Mamma hennar Ingu kom til mín einn daginn og sagði að vinnu minni væri lokið hjá þeim þar sem þetta væri hvort eð er sumarvinna. Ég vissi ekki hvort þau væru farin að skynja að ég væri eitthvað skrítin. Ég vildi ekki hætta að vinna en ég vissi...

Kafli 11. Ringulreið

11. kafli Ringulreið Ég var farin að finna fyrir miklu álagi á huga minn og líf mitt. Einhvern veginn voru hugsanirnar að reyna að komast út úr þessu ástandi. Ég var líka að reyna að einbeita mér að skólanum og að hugsa um börnin. Ég tók ekki eftir því í...

Kafli 10. Reykjavíkurferð

10.kafli Jeff ætlaði að koma til Reykjavíkur með vinum sínum og við ætluðum að fara að skoða borgina. Ég var sennilega leiðsögumaður að einhverju leyti, þar sem ég þekkti borgina eins og handabakið á mér. Við fórum á marga staði sem teljast merkilegir og...

Kafli 9. Skrítinn gaur

9.Kafli Skrítinn gaur Ég fór að skemmta mér um helgar á þessum tíma. Davíð var farinn að taka krakkana reglulega og þegar það var komin reynsla á það fór ég að skipuleggja helgarnar mínar. Eitt kvöldið ákvað ég að fara með Erlu vinkonu í bæinn í heimsókn...

Kafli 8. Loksins almennileg íbúð

8. kafli Hraunbær Fljótlega eftir kynni mín af Frey frétti ég að vinkona mín væri að fara úr tveggja herbergja íbúð sem hún hafði leigt í Árbænum. Hún bauðst til að tala við leigusalann um það að leigja mér íbúðina. Leigusali samþykkti að ég fengi...

Kafli 7. Einstæðir foreldrar

7. kafli Einstæðir foreldrar Ég fann stað þar sem var heimili fyrir einstæða foreldra. Ég hafði ekkert fengið úr búinu nema kommóðuna og tvö rúm fyrir börnin. Davíð stóð ekki við orð sín með þvottavélina. Ég var einnig með hluta af neysluskuldum sem voru...

Kafli 6. Kvennaathvarfið

6. kafli Kvennaathvarfið Þegar ég kom í Kvennaathvarfið þetta haust 1995 og krakkarnir tveggja og þriggja ára, var tekið á móti okkur með mikilli virðingu. Þær sögðu mér að sækja allt í bílinn. Þá var mér sýnt herbergið sem við fengjum að gista í. Það...

Kafli 5. Kanínan

5. kafli Kanínan Þetta kvöld fór hann út. Þegar hann var búinn að vera það lengi að það fór að nálgast miðnætti, vissi ég að eitthvað væri að. Ég hringdi í systur mína og sagði henni að ég héldi að hann væri dottinn í það. Hún sagði mér að vera róleg,...

Kafli 4. sjúk ást

4. kafli Sjúk ást Einn af þessum dögum var ég eirðarlaus vegna þess að ég hugsaði alla daga og nætur um hann og fór fyrir framan heimilið hans og stóð í frosti og snjó að vetri til, til að bíða eftir honum koma heim. Eftir tvo tíma sá ég þá koma með...

Kafli 3. Lífið tekur aðra stefnu

3. kafli Lífið tekur aðra stefnu Í lok ágúst þetta árið stefndi ég til Reykjavíkur, þar sem ég ætlaði að halda áfram með skólann. Ég fékk vinnu í verslun sem verslunarstjóri og Inga vinkona fékk vinnu á sama stað við afgreiðslu. Mér gekk ekki vel með...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband